2.4.2023 | 20:44
Ekkert grín að vera fastur í lyftu. "...Eru á ferli..."
Það er oft ekkert grín að vera fastur í lyftu, hversu öruggar sem þær eru.
Atvik í nýreistri 12 hæða blokk að Austurbrún 2 fyrir 60 árum er gott dæmi um það.
Kona ein, sem var gestur stutta stund í íbúð á efstu hæð hússins, gekk alla leið upp vegna þess að hún var afar lofthrædd og jafnvel enn hræddari í lyftum.
Þegar hún var að kveðja var haldinn smá fyrirlestur um öryggið í nútíma lyftum, og meðal annars sagt fjálglega frá því hve vel væri búið um hnúta varðandi óhöpp sem gætu falist í því að eitthvað gæti fests á milli stafs og hurðar.
Við þetta vaknaði nægileg forvitni hjá konunni, ekki síst vegna þess að boðið var upp á sýnikennslu.
Var lyftan nú stillt á neðstu hæð, en þegar komið var nokkrar hæðir niður, stigið með tánni á þröskuld lyftunnar til að sýna hvernig hún stöðvaðist sjálfvirkt samstundis.
Það gerði hún svikalaust, en þá gerðist hið óvænta; lyftan haggaðist ekki og var allt í einu pikkföst á milli hæða.
Hrifning konunnar breyttist á augabragði í einhverja mestu skelfingu sem hugsast gat.
Við tók 20 mínútna bið, sem virtist lengri en heil eilífð þar til loksins barst hjálp og lyftan komst aftur af stað.
Þekktasta atvikið af þessu tagi er líklega þegar fjórir af helstu fyrirmönnum þjóðarinnar voru um borð í lyftu, sem stöðvaðist á milli hæða.
Þetta voru forsætisráðherrann, forsetinn og biskupinn auk fjórða manns ef rétt er munað.
Í tilefni af þessu orti Jóhannes Sigfússon (bróðir Steingríms J.), og tók að láni eina hendingu úr ljóði Gríms Thomsens um Arnljót gellini:
Illt í för það ávallt hefur
ef menn storka giftunni.
Eru á ferli úlfur og refur
í einni og sömu lyftunni.
![]() |
Segir fólkið ekki hafa verið fast í lyftunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.4.2023 | 22:22
Gagngert og tafarlaust endurmat á ofanflóðahættu framundan?
Nýleg ofanflóð á Flateyri, Patreksfirði, Ólafsfirði og nú síðast á Austfjörðum hafa um margt verið öðruvísi og komið fólki meira að óvörum en búast hafði mátt við.
Þetta hlýtur að kalla á gagngert endurmat á þessum málum og málefnum Ofanflóðasjóðs því að svo nærri skall hurð hælum varðandi hættu á mannskaða að engan veginn er að óbreyttu hægt að taka áhættu áfram á slíku.
Og hér þýðir ekkert hik eða undanbrögð í máli sem þar sem verið að keppa við klukkuna gagnvart hættu, sem getur enn birst í versta ham hvenær sem er.
![]() |
Rýna í gögn um ofanflóðahættu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.4.2023 | 08:38
"Ó, þú yndislega haf.."
"Föðurland vort hálft er hafið" segir í þekktu ljóði um forsendu mannlífs á Íslandi, sem er hafið við landið. Án viðunandi ástands hafsins væri landið óbyggilegt; því ræður hnattstaða þess.
Í laginu og ljóðinu "Ó, þú yndislega land" eru fjðgur erindi, og fjallar það fyrsta um landið, annað um hafið, hið þriðja um jörðina og lokaerindið um lífið.
Svona hljóðar erindið um hafið:
Ó, þú yndislega haf,
allt það besta, sem mér gaf!
Örvar mig og augun gleður
öldufalda geislatraf.
Aðeins þér að þakka er
það, að lífvænt skuli hér.
Sæll ég er á öldum þínum
orðinn líkt og hluti´af þér.
Við þetta er litlu að bæta. Rannsóknir á hita, seltu og sýrustigi sjávar eru forsenda þess að hafa yfirsýn yfir það sem er að gerast í hafinu umhverfis landið og átta sig á því hvort hætta geti verið á því að kólnun verði í hafinu vegna minnkunar Golfstraumsins.
![]() |
Sjávarhiti við Suður- og Vesturland vel hár |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
31.3.2023 | 16:33
Bylting líka í gangi í útskiptanlegum rafhlöðum.
Endurhlaðanlegar rafhlöður, sem greint er frá í frétt á mbl.is eru ekki það eina af þessu tagi, sem er í hraðri þróun.
Hafin er bylting í nýtingu útskiptanlegra rafhlaðna, sem á að mestu eftir að ganga í gegn, því að henni þarf að fylgja endurnýjun á innviðum, þ.e. gerð raffarartækja, sem bjóða upp á útskiptin og sömuleiðis stöðvar eða skiptikassar, sem gera þetta mögulegt.
Á Tævan er þessi bylting komin lang lengst, og felst nú í tæpla 800 skiptikassa kerfi við götur höfuðborgarinnar Tæpei. Þeir virka svipað og skiptikassar fyrir gaskúta eða gosdrykki myndu virka.
Notandinn getur séð á appi á farsíma sínum hvernig staðan er á rafhlöðunum í skiptikössunum, valið sér einn til að renna upp að og skipt út annarri eða báðum rafhlöðunum á Gogoro rafhjóli sínu á innan við tíu sekúndum, tekið út tvær fullar rafhlöður og sett tvær tómar inn í staðinn.
Nú þegar eru framleiðendur lítilla rafbíla að huga að gerð innviða í skiptistöðvum, sem gera þetta mðgulegt á sérhönnuðum skiptistöðvum, þar sem bílnum er rennt inn á búnað, sem gerir þetta með róbótaaðferð!
Síðuhafi á rafhjól af gerðinni Super Soco LUx, þar sem hann getur haft meðferðis tvær aukarafhlðður á 40 lítra farangurskassa á hjólinu og skipt út rafhlöðum á ferðaleiðinni sem hefur mælst vera 130 kílómetrar!
Í annarri reynsluferð voru fengnar rafhllöður að láni til þess að líkja eftir þvi að fara Gullna hringinn á rafhjólinu á þeim forsendum, að á bensín- og veitingastöðvum á leiðinni væru skiptistöðvar!
Ferðarleiðin var alls um 230 kílómetrar og farin á fjórum klukkustundum.
Myndin var tekin í þessari ferð við Gullfoss.
Bylting af margvíslegu tagi getur verið rétt handan við hornið í þessum málum, ef menn fylgjast bara með því sem er að gerast í heiminum!
![]() |
Getur hlaðið sömu rafhlöðuna 2100 sinnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
31.3.2023 | 12:50
Endanleg aldahvörf í fjölmiðlun?
Þegar Fréttablaðið kom til sögunnar fyrir 23 árum var það í kjölfar þess að hætt hafði verið útgáfu gömlu flokksblaðanna árin á undan, Tímans, Þjóðviljans og Alþýðublaðsins og eftir stóðu Morgunblaðið og DV.
Um þessar mundir voru þau blöð bæði undir ritstjórn, sem telja mátti hliðholl Sjálfstæðisflokknum. Útgáfa Fréttablaðsins markaði tímamót í íslenskri fjölmiðlun, og það eru því álíka tímamót þegar útgáfunni er hætt.
Þegar hætt var að bera blaðið út hér á dögunum var það skriftin á veggnum og jafngilti því að skjóta sig í fæturna. Enda sást strax hvernig auglýsingum stórfjölgaði í Morgunblaðinu.
Sjónvarpsstöðin Hringbraut hafði vaxið að afli og umfangi síðustu ár og samanlagt brotthvarf hennar og Fréttablaðsins jafngildir kannski aldahvörfum í íslenskri fjölmiðlun.
Það er því miður viðeigandi að ráðherra menningarmála notar orðið "sorgardagur" um þessi tíðindi.
Þess má geta, að allt frá 1954 til 2003 ríkti einokun í millilandaflugi Íslendinga, þannig að mikill einokunarbragur var á því og fjölmiðluninni.
Stofnun flugfélagsins Iceland express 2003 markaði því jafnvel enn meiri tímamót en breytingarnar á íslenska fjölmiðlamarkaðnum.
![]() |
Síðasta fréttin hefur verið birt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.3.2023 | 21:54
Líka fordómar um Gran Canaria og hinar eyjarnar.
Kanaríeyjar eru svo margar og fjölbreytilegar að svipað má segja um fordóma um þær.
Það hefur tekið Tene marga áratugi að eyða fordómum Íslendinga, og það getur líka tekið nokkra áratugi að eyða fordómum um hinar, jafnvel sjálfa Gran Canaria.
Síðuhafi fór í fyrstu ferð sína þangað 1975 og varð ekki frekar bergnuminn en Siv Friðleifsdóttir af Eyjabökkum næstum þremur áratugum síðar.
Ástæðan 1975 kom ekki til fulls í ljós fyrr en 2009. Í ferð nokkrum árum fyrr hafði uppgötvast til fulls, að eyjan bjó yfir miklum mun á veðurfari á Ensku ströndinni og fallegum vog sunnar að nafni Puerto Rico.
Það gat verið verið norðanvindur á Ensku ströndinni á sama tíma sem samfellt stafalogn, heiður himinn og mun meiri hiti var gulltryggður í Puerto Rico vegna þess þar nýtur betur skjóls fyrir norðanvindinum, sem þornar og hitnar í hnjúkaþey.
Sumt er háð veðri en annað á þessari eyju, en hægt er að fara afar gefandi dagsferð á bíl frá Ensku strðndinni upp í fjðllin vestur af henni og síðan hringferð norður um þar til komið er á besta útsýnisstaðinn, þar sem borgin Las Palmas baðar sig í birtunni í norðri.
Meðal góðra hugmynda má nefna eldbrunnar eyjarnar í norðaustri frá Gran Canaria.
Eftirminnilegust af öllum ferðum á þessum slóðum var þó hópferð til Marrakesh í Marokkó, þar sem komið er borg, sem gefur flestum langt nef sem dæmi um undur menningar Afríku.
Á stóra markaðstorginu voru á sínum tíma tekin minnisverð atriði í einni af myndum Hitckosh, og þegar rölt var í gegnum þröngar göturnar við torgið, var ógleymanlegt þegar einn af samferðamönnunum prúttaði við bónda, sem bauð upp á hana, lifandi eða dauðan til sölu.
Um leið og kaupin voru ákveðin reiddi seljandinn upp öxi, hjó hausinn af hananum, pakkaði honum honum í skjóðu og afhenti vöruna!
![]() |
Var með mikla Tenerife-fordóma |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.3.2023 | 14:31
Táknræn en ekki tímabær aðgerð að slíta stjórnmálasambandi.
Á tímum þorskastríðanna komu nokkrum sinnum upp raddir um að slíta stjórnmálasambandi við Breta en það komst þó aðeins einu sinni á framkvæmdarstig.
Engin þjóð nema Úkraínumenn hefur gert þetta núna, og enda þótt þessi möguleiki sé tæknilega opinn fyrir okkur Íslendinga, er hyggilegra að doka við og meta gaumgæfilega hvort minna muni ekki ávinnast með slitum stjórnmálasambands heldur en að bíða og anda með nefinu.
![]() |
Ólýsanlega óábyrgur og hættulegur málflutningur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.3.2023 | 21:28
Enn ein birtingarmynd vanhugsaðrar vanrækslu.
Síðusu árin sem Varnarliðið á Keflavíkurflugvelli var með sveit björgunarþyrlna á Keflavíkurflugvelli var þess vandlega gætt að ekki væru færri en fimm þyrlur ásamt viðeigandi mannskap á vellinum.
Þessi lágmarkstala var engin tilviljun, því að þyrlur missa margfalt meiri tíma úr úthaldi vegna viðhalds heldur en flugvélar.
Björgunarafrekið frækna í Vaðlavík byggðist, ef rétt er munað, á því að tvær þyrlur yrðu látnar fara saman í leiðangurinn.
Ein varð að vera í viðbragðsstöðu á vellinum, gera varð ráð fyrir því að ein væri í viðhaldsskoðun á hverjum tíma og einnig að ein gæti bilað.
Öll nýting mannaflans við þyrlurnar miðaðist við sérstöðu þessara tækja.
Ef litið er á rekstur Landhelgisgæslunnar nú og í gegnum tíðina sést blasa við algert skilningsleysi Íslendinga á þessum málum, þar sem vandræðaástand er orðið að venjubundnu ástandi svo vikum skiptir.
![]() |
Þyrluflugmenn vildu ekki hlaupa í skarðið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.3.2023 | 09:53
"Þar sem landi hallar og getur snjóað, þar geta fallið snjóflóð."
Síðusut misserin eru Austfirðingar og landsmenn að vakna við þann veruleika, að á Austfjörðum geta komið margra daga tímabil með áður óþekktu magni af snjó eða rigningu, sem veldur snjóflóðum eða aurflóðum á borð við aurskriðurnar á Seyðisfirði.
"Við munum ekki eftir svona miklum snjó" var setning sem heyrðiast oft í fréttum í gær.
Síðuhafi hefur fylgst grannt með veðri á Brúaröræfum síðan 2003 og tekið eftir því, að þurrasta svæði landsins, frá Vestur-Öræfum vestur fyrir Dyngjuökul og Dyngjufjöll, hefur skroppið saman, þannig að austurmörk þess hafa færst frá Snæfelli vestur að Kreppu.
Á fyrrum griðlandi hreindýra á Hálsi og í Hjalladal og í Kringilsárrana eru nú engin hreindýr.
1994 féll snjóflóð sem varð tveimur að aldurtila á Seljalandsdal við Ísafjörð og var norskur sérfræðingur í snjóflóðum fenginn til að skoða það.
Úrskurður hans var einfaldur; "Þar sem landi hallar og getur snjóað, þar geta fallið snjóflóð."
Hann bauðst til að skoða aðra staði vestra en var sagt að hann hefði aðeins verið beðinn um þetta eina mat.
Árið eftir féllu snjóflóðin á Súðavík og Flateyri, einnig flóð í Reykhólasveit, risaflóð á óbyggt svæði í Dýrafirði og einnig féll snjóflóð á jafn ólíklegum stað og Blönduósi og síðar í Bolungarvík.
Á næsta ári verða 30 ár síðan snjóflóðafræðingurinn norski mælti lykilorðin um snjóflóð, sem líka gátu átt við um rigningu og aurflóð, og enn erum við Íslendingar að læra hvað þau þýddu.
Hin stóru áhlaup margra daga steypiregns og snjókomu verða æ algengari, og þegar litið er yfir þennan landshluta virðist ný hegðun veðurs, hugsanlega af völdum loftslagsbreytinga, vera að verða æ algengari.
Fyrsta upphafið var flóðið í Neskaupstað fyrir tæpum 50 árum, og enn erum við ekki komin lengra en raun ber vitni i vörnum og viðbrögðum.
Norðmaðurinn hefði getað bætt við 1994: "Nú falla snjóflóð á byggð þar sem áður ver ekki byggð."
Svo einfalt var það og er enn.
![]() |
Með 40 skurði um líkamann |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.3.2023 | 20:45
Honda: Óvenju langlífur og mikill eldmóður.
Sverrir Þóroddsson er fyrsti og eini íslenski kappakstursmaðurinn, sem Íslendingar hafa eignast.
Kornungur komst hann í náin persónuleg kynni við helstu stóru karlana á þeim tíma, svo sem Mario Andretti, Mc Laren og driffjaðrir Ferrari.
Þessir menn höfðu margir yndi af flugi, eins og Sverrir, og eignuðust einkaþotur, og meira að segja eignaðist Niki Lauda eigið flugfélag, Lauda air.
Einn af brautryðjendunum á þessum uppgangsárum kappakstursins á sjöunda áratugunum höfðu þó algera sérstöðu.
Sverrir, sem var þá byrjaður að keppa í formúlu 3 var á ferð með bíl sinn á eins ódýran hátt og unnt var, hitti dag einn fyrir hóp manna, sem voru í ferð með Honda vélhjól við svipaðar aðstæður og reyndist einn af þeim, sem var svipað klæddur og aðrir viðgerðarmenn, sjálfur Honda að feta braut þess fyrirtækis inn í keppni á vélhjólum og bílum.
Þetta hugarfar speglaðist í framleiðslunni og brautargenginu á öllum sviðum.
Honda Super Cub varð að eftirlætis léttu bifhjóli námsmanna og alþýðu, og þetta íðilsnjalla hjól er nú orðið mest selda einstaka gerð vélkhnúins farartækis í heimi eftir að það var endurvakið í hitteðfyrra og hefur nú verið framleitt og selt í meira en 100 milljón eintökum!
Í gamla daga var þetta 50 cc hjól en nú er það orðið 125 cc hjól með einstæða eiginleika sem alltaf fyrr.
Sérstök hlíf ver ökumanninn fyrir bleytu og auri, hjólið er með miðjumótor og smávegis farangurshólfi, auk bögglabera, sem setja má allt að 40 lítra farangurskassa á, hámarkshraðinn um 90 km/klst og eyðslan um tveir lítrar á hundraðið.
Á sýningu í Öskju sl. laugardag voru sýnd nokkur ný hjól af Honda Monkey gerð, sem er smátt 125 cc hjól, sem eyðir aðeins 1,5 lítrum á hundraðið en nær 90 km hraða og kemst um furðu erfiðar slóðir utan vega.
Eins og Super Cub, er hér um "uppvakning" að ræða og strax hafa nokkrir fest kaup á þessum nýju fararskjótum.
Enn er ógetið nýjustu afreka Honda í hinni miklu samkeppni í flokki "scooters" eða rollers, sem ranglega eru kölluð Vespur hér á landi.
Þessi hjól hafa um áraraðir verið burðarásar í hinni miklu umferð í evrópskum stórborgum fyrir sakir lipurðar sinnar og hagkvæmni.
Harðastur er slagurinn í 125 cc flokki, en þar er hestaflatalan frá 8 hestöflum upp í 15 hestöfl.
Í meginatriðum eru þrír flokkar á sviðinu 110 cc til 200 cc:
110 cc: Honda Vision og Yahama Delight.
125 cc: Vespa GTS, Honda Sh 125, PCX og Forza, Yahama Nmax og Suzuki Burgman 125 cc.
Á myndinni hér að ofan er Honda PCX við Jðkulsárlón í einni af mörgum ferðum sínum um allt land.
0fangreind hjól njóta fríðinda varðandi ökuréttindi ungs fólks og vegna hins stóra hlutverks þeirra í að greiða fyrir umferðinni í borgum.
Vespa hefur alltaf selst vel, til dæmis í Þýskalandi, en á Ítalíu Honda SH.
Fyrir rúmum áratug setti Honda fram nýtískulegan keppinaut í 125 cc flokknum, Honda PCX, sem komst á toppinn í Bretlandi.
Hjólið er eins og allir keppinautarnir, með eins strokks vél niðri við afturhjólið, en í stað þess að hægt sé að "ganga í gagnum" miðju hjólsins, er þar stokkur fyrir bensíngeyminn og farangurshólf.
Yamaha svaraði með mjög líku hjóli, N Max og hefði maður haldið að Honda þyrfti ekki að bregðast neitt við því, því flestar stærðir voru mjög svipaðar.
Nei, viti menn, fyrir tveimur árum kemur Honda með alveg nýtt PCX hjól, sem virðist í fyrstu vera nákvæmlega eins í útliti.
En eldmóðurinn leyndi á sér: Upplýst var að öll grunnbygging hjólsins væri gersamlega breytt, og sömuleiðis hreyfillinn.
Tölurnar töluðu sínu máli.
Farangurshólfið var 32 lítra í stað 22ja.
Benzíngeymirinn var 8 lítra í stað 6.
Hreyfillinn var tveimur yfirliggjandi kambásum og 4 ventlum í stað tveggja ventla og eins kambáss.
Hestöflin voru 12,8 í stað 11.3.
Og bensíneyðslan var minni en áður.
Þar að auki er nú boðið upp á 160 cc hjól, sem er ekki þyngra, en með tæplega 16 hestöfl og samt sömu 2,2 lítra eyðsluna á hundraðið.
Og hafin er hörð keppni á bilinu 125 til 200 hjóla sem stökkva úr 95 km hámarkshraða upp í 115 og 120.
Aprilía SR 200 GT er splunkunýtt svipað hjól meö 200 cc 18 hestafla hreyfil og mikla alhliða getu.
![]() |
Nýr Civic sýndur með mótorhjólasýningu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)