Eins og gerst hefði í gær.

Ég var tíu ára þegar Glitfaxi fórst og man það eins það hefði gerst í gær. Síðasta stórslys á undan þessu var þegar 25 manns fórust í flugslysi í Héðinsfirði, en þá var ég aðeins sex ára en man það þó furðu vel, eins og aðra stóratburði, snjóflóðið í Goðdal, brunann við Antmannsstíg, deiluna um bein Jónasar Hallgrímssonar, flugslysið á Hellisheiði og andlát forseta Íslands.

Á þessum tímum urðu oft mannskæð slys og hið stærsta á sjötta áratugnum var þegar togarinn Júlí fórst með 30 manns. Leikin voru sorgarlög í útvarpi og fyrst eftir að flugvélar eða skip hurfu, beið þjóðin milli vonar og ótta. Þjóðin var helmingi fámennari en nú og þetta snart hana djúpt.

Fólk var gríðarlega viðkvæmt og ég man hve miklu titringi það olli, þegar fyrir misgáning var fluttur þáttur í útvarpinu kvöldið sem Giltfaxi fórst þar sem húsnæðraskólastúlkur sungu lagið "Vertu sæll, ég kveð þig kæri vinur..."   ".... vertu sæll, við hittumst aldrei framar, aldrei aftur, /  og ást mín er horfin með þér. 

Ég man að foreldrar mínir táruðust þegar þetta var sungið og frétti af því að margir hefðu orðið sárir.

Slysið hafi óbeinar afleiðingar í innanlandsfluginu því að í ljósi hinna mörgu og mannskæðu flugslysa sem orðið höfðu á árunum 1947-51 var ákveðið að skipta upp flugleiðum innanlands á milli flugfélaganna tveggja þannig að hvort um sig hefði einokun á sinni flugleið. 

Þetta held ég að hafi verið rangt og myndi ekki vera gert í dag, enda er miklu auðveldara að fylgjast með áætlunarflugi og hafa eftirlit með því með nútíma tækni en var árið 1951. 

Flugfélag íslands fékk bestu flugleiðina, Reykjavík-Akureyri, í sinn hlut og Lotleiðamönnum fannst að þeir hefðu borið svo skarðan hlut frá borði, að þeir hættu innanlandsflugi í kjölfarið en einbeittu sér hins vegar að millilandafluginu með glæsilegum árangri. 

Sjálfur finn ég sterka tilfinningu fara um mig enn í dag þegar ég minnist þessa dags hins mikla slyss þennan dag fyrir 60 árum.

Einhvers staðar vestan við Álftanes er flakið af Glitfaxa og er það skilgreint sem vot gröf.

Það þýðir að samkvæmt íslenskum lögum ríkir á því svonefnd grafarhelgi allt til ársins 2126. 

Vonandi verður hún virt til þess tíma og helst eitthvað lengur en það. 

Ef það finnst einhvern tíma í framtíðinni verður hugsanlega hægt að finna út hvað olli því að flugvélin lenti í sjónum. 

Löngu eftir slysið varð sonur aðstoðarflugstjórans samstarfsmaður minn uppi á Sjónvarpi og ég sendi honum og öðrum núlifandi aðstandendum mínar dýpstu kveðjur.

Það er eins og þetta hafi gerst í gær. 


mbl.is Glitfaxi hefur aldrei fundist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjóðum honum að koma til Íslands.

Ég efast um að í Danmörku hafi verið hægt að fara út af heimili sínu og horfa á handboltaleik annars staðar. Handboltinn er að vísu íþrótt, sem á uppruna sinn í Danmörku, en ekkert land í heiminum líkist Íslandi hvað snertir gildi þessarar íþróttar fyrir þjóðina og þjóðarstoltið.

Ef danska landsliðið stendur undir þeim framtíðarvæntingum, sem til þess eru gerðar, mun þetta heimilisvandamál dönsku hjónanna, sem sagt er frá í tengdri frétt, blossa upp aftur og aftur. 

Bjóðum þeim aðstoð til að flytja til Íslands þar sem fjölskyldur, ættir og fyrirtæki hjálpast að við að gera öllum kleift að fylgjast með handbolta. 


mbl.is Fékk ekki að horfa á handboltann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tími Mubaraks er liðinn.

Í maí næstkomandi verður Hosni Mubarak 83ja ára ef hann lifir svo lengi. Tími hans er liðinn og endalokin nærri.

Ef hann hefði sýnt stjórnvisku og hyggindi hefði hann verið farinn frá völdum fyrr við friðsöm valdaskipti. 

En hann, eins og ótal einvaldar í mannkynssögunni, hefur skort kjark og framsýni. 

"Það lafir meðan ég lifi."  Þessi orð Loðvíks 15 Frakkakonungs hafa löngum verið höfð sem dæmi um skammsýni, kjarkleysi og eigingirni.

Hegðun Mubaraks minnir á þetta. Fyrirrennari hans, Anwar Sadat, var hugrakkur maður svo af bar og galt fyrir það með lífi sínu.  

Örlög hans hafa hvílt eins og skuggi yfir Mubarak og vafalaust átt þátt í að hann hikaði við að slaka á klónni. Nú er hætt við að þetta muni koma honum í koll og hann þurfa að gjalda dýru verði þá firringu og spillingu sem ævinlega fylgir langvinnu alræði. 

Það er ómögulegt fyrir Bandaríkjastjórn að binda trúss sitt lengur við 83ja ára gamlan einvald og þá firringu og spillingu sem fylgir alræðisstjórn.

Tími Mubaraks er óhjákvæmilega liðinni og vegna kjarkleysis hans og skammsýni ríkir nú hættuleg óvissa um það sem tekur við.


mbl.is Fjöldinn streymir inn í Kaíró
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæsilegur fulltrúi þjóðarinnar.

Fólk getur haft mismunandi skoðanir á ýmsu því sem Ólafur Ragnar Grímsson hefur gert á löngum pólitískum ferli. Hitt verður ekki af honum skafið að hann er alveg sérstaklega glæsilegur og snjall fulltrúi þjóðar okkar erlendis eins og ummæli Ian Bremmers bera vott um. 

Ég hef séð nógu mikið til hans á ferðum hans sem fulltrúi íslenska þjóðarinnar til að geta sagt að leitun er að afkastameiri og klárari manni í þessu hlutverki. 

Mér er sérstaklega minnisstætt þegar Ólafur Ragnar þurfti að halda tækifærisræðu við styttuna af Jóni Sigurðssyni í Winnipeg. Þar flutti hann blaðlaust á ensku einhverja þá bestu ræðu af þessu tagi, sem ég hef heyrt. Ég dauðsá eftir því að hafa ekki tekið ræðuna upp frá upphafi til enda. 

Áður hafði hann heillað upp úr skónum Vestur-Íslendinga á Íslendingadeginum í Gimli. 

Ræða hans þar var frábært sambland á góðri hugvekju um samband Íslendinga vestan hafs og austan og sameiginlegum menningararfi og yfirliti yfir aðgerðir varðandi Íslendingabyggðirnar sem ýmist væri búið að framkvæma eða á framkvæmdastigi.

"Loksins kom hingað maður sem hafði eitthvað meira að tala um en hið hefðbundna tal um sameiginlegan menningararf" sagði einn viðmælandi minn. 

Við eigum ekki að vanmeta það gegn sem góður þjóðhöfðingi getur gert erlendis fyrir örþjóð á hjara veraldar.

Orðstír konu aldarinnar, Vigdísar Finnbogadóttur, flaug um alla heimsbyggðina þegar hún fyrst kvenna í heiminum var kjörinn þjóðhöfðingi í lýðræðislegri kosningu.

Hún fylgdi því síðan eftir með því að heilla alla, hvar sem hún kom, upp úr skónum með málakunnáttu sinni, menntun, glæsileik og persónutöfrum.


mbl.is Hreifst af Ólafi Ragnari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við áttum hugmyndina að fundinum.

Smá misskilningur er í einni setningu fréttar af fundi Ögmundar með Stjórnlagaþingmönnum í dag.

Það vorum  við sem áttum hugmyndina að þessum fundi og á fundi okkar í gær kom hún þannig fram að þegar við vorum að ræða stöðu málsins og okkar, væri fróðlegt fyrir þann ráðherra sem framkvæmd kosninganna heyrði helst undir, að heyra í okkur hljóðið. 

Það er alls ekki hugsað af okkar hálfu á þann hátt að við viljum skipta okkur af því, hvernig Alþingi ræður fram úr málinu, - Alþingi verður að bera ábyrgð á því, hvernig framhaldið verður. 

Raunar væri að því leyti til heppilegt ef forsætisráðhera og fulltrúar allra þingflokkanna gætu komið á okkar fund en það er vart framkvæmanlegt. 


mbl.is Ögmundur fundar með stjórnlagaþingsfulltrúum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veittu okkur góða skemmtun.

Íslenska landsliðið í handbolta þarf ekki að skammast sín fyrir frammistöðu sína í síðasta leik sínum á HM, þótt þeir töpuðu honum með aðeins eins marks mun. Að því leyti bættu þeir að hluta til upp þrjá tapleiki í röð, þar sem þeir áttu slæma daga.

En hvílíka skemmtun hafa þeir ekki veitt okkur þessa daga! Þar er af mörgu að taka en kannski var það Alexander Petterson sem hreif okkur oftast og þakkaði með því fyrir það að hafa verið valinn íþróttamaður ársins á Íslandi 2010, svona rétt eins og hann væri að sanna það að hann hefði átt þann heiður skilinn. 

Næstbesti árangur á HM frá upphafi er ekkert til að skammast sín fyrir og ég þakka strákunum fyrir það gera sitt besta, þótt það dygði ekki alltaf og það gengi á ýmsu eins og gengur. 


mbl.is Tókst ekki að leggja upp síðustu sóknina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjarskiptabylting.

Heimurinn hefur ekki aðeins minnkað með tilkomu fjarskiptabyltingar farsíma og internets, heldur hefur stjórnmálalegt umhverfi landanna tekið stakkaskiptum.

Hvað eftir annað verða til hreyfingar og bylgjur sem byggjast á fjarskiptabyltingunni og þeim nýju möguleikum sem jafnvel fátækasta fólk hefur til þess að hafa samskipti og skipuleggja athafnir sínar. 

Egyptaland er mikilsverður hlekkur í valdakerfi Bandaríkjanna og sá sér hag í því að hverfa frá því hlutverki að vera aðalóvinur Ísraels yfir í það að friðmælast við Gyðinga. 

Bandaríkjamenn brenndu sig illa á því að styðja Íranskeisara á sínum tíma, og voru of seinir að átta sig á því að hann var orðinn gerspilltur, veruleikafirrtur valdabrjálæðingur.

Í öllum ríkjunum í norðaverðri Afríku austur um til Indlands eru við völd spilltar ríkisstjórnir þar sem lýðræði er fótum troðið og nú er það orðið enn meira spennandi en fyrr hvort fjarskiptabyltingin breiðist meira út. 

Miðpunktur olíuveldisöxulsins Bandaríkin-Sádi Arabía er þar langmikilvægastur. 

Það var efnahagstrix þessara tveggja fóstbræðra sem felldi á sínum tíma heimsveldi Sovétríkjanna og enginn bandamaður Bandaríkjanna er nálægt því eins mikilvægur og hin spilltu stjórnvöldl í Sádi Arabíu. 

Ef fjarskiptabyltingin kemst þangað austur mun hrikta í allri heimbyggðinni.

Á olíuríkjunum flæðir að vísu olíuauður sem dregur úr því skelfilega fjárhagslega misrétti sem er ríkir í löndunum í kringum olíuríkin. 

En annað misrétti og kúgun ríkja þarna alls staðar og óánægjan kraumar undir.


mbl.is Hvetur Múbarak til að fara úr landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú er allt í einu nógur tími til að rubba þessu af!

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði í viðtali eftir dóm Hæstaréttar að ekki væri tími á Alþingi til þess að vinna í endurbótum á lögum um Stjórnlagaþing vegna þess að önnur brýnni mál þyrfti að leysa á undan.

Nú segir Bjarni Benediktsson að ekkert sé því fyrirstöðu að endurskoða stjórnarskrána snarlega á þingi, en samning nýrrar stjórnarskrár er auðvitað margfalt meira og vandasamara verk en það að lagfæra það sem lagfæra þarf vegna Stjórnlagaþingsins.

Ekki virðast þeir oddvitar aðal stjórnarandstöðuflokkanna vera samstíga í mati sínu á þessum efnum. 

Bjarni virðist ekki hræðast reynsluna af sex árangurslausum tilraunum Alþingis í 67 ár til þess að framkvæma þá heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar sem landsfeðurnir töldu nauðsynlega við Lýðveldisstofnun 1944.  

Hann skilur heldur ekki hugsunina að baki Stjórnlagaþingi, sem aðeins einu sinni áður hefur verið sett á stofn hér á landi í formi "Þjóðfundarins" 1851.

Á þeim tíma var starfandi Alþingi en talið var réttara og í samræmi við hugmyndir manna um að valdið kæmi beint frá þjóðinni við gerð stjórnarskrár sem sáttmála þjóðarinnar um undirstöðu ríkisins. 

Í hvert skipti sem skipuð hefur verið ný stjórnarskrárnefnd af Alþingi hefur átt að ljúka verkinu, en aldrei tekist, aðeins gerður bútasaumur í nokkur skipti. 

Það er ekki að undra að Bjarni Benediktsson telji þetta vel gerlegt. Tíminn er nefnilega alveg nægur ef menn miða við þann tíma sem þetta hefur tekið frá Lýðveldisstofnun, minnst 67 ár í viðbót, eða hvað?

"Það eina sem við þurfum er viljinn til að hefjast handa" segir Bjarni.

Þetta er ekkert nýtt. Þetta er búið að segja í hvert skipti síðastliðin 67 ár sem farið hefur verið af stað með "viljann til að hefjast handa." 

En reynslan sýnir að "viljinn til að hefjast handa" er ekki nóg. Það verður að klára verkið. En það hefur þinginu reynst um megn í öll þessi ár. 


mbl.is Vill hefja endurskoðun stjórnarskrárinnar strax
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrýtin tík, þessi pólitík.

Einhvern tíma hefði maður látið segja sér það tvisvar að maður, sem vinnur fyrir meirihluta vinstra megin við miðju, mælti fyrir einkavæðingu orkufyrirtækis, en fulltrúi Sjálfstæðisflokksins mælti gegn henni.

Nú hefur borgarstjórinn að vísu sagt að einkavæðing stæði ekki til, enda væri það einkennilegt í ljósi nýjustu umræðu um eignarhald orkufyrirtækja. 

Raunar hefur komið í ljós að harðar kennisetningar í þessu efni hafa reynst varasamar því að reynslan hefur oftast verið besti dómarinn. 

Um miðja síðustu öld var mikil bylgja þess efnis að sjávarútvegsfyrirtæki væru í opinnberri eigu, og spruttu upp bæjarútgerðir víða um land.

Reynslan af þessu varð hins vegar ekki góð. Útgerðirnar urðu baggi á sveitarfélögunum og í rekstur þeirra vantaði oft þann drifkraft sem einkennir einkarekstur. 

Öðru máli hefur oft á tíðum gegnt um einkarekstur á orkufyrirtækjum erlendis, einkum þeim sem hafa haft mjög ráðandi markaðsstöðu. 

Sjávarútvegfyrirtæki og orkufyrirtæki eru fyrirtæki sem nýta auðlindir. Munurinn á þeim er hins vegar sá að auðlind sjávarútvegsfyrirtækis er ekki á afmörkuðu svæði heldur er völlurinn fræðilega öll auðlindalögsagan. 

Orkufyrirtækin eru hins vegar oft allsráðandi á afmörkuðu svæði og þá er alltaf hætta á markaðsmisnotkun. 


mbl.is Orkuveitan ekki einkavædd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrökk í gamalt far

Það hefur löngum loðað við á stórum haldboltamótum að of mikið hefur verið keyrt á sömu mönnunum þannig að þegar komið hefur verið að úrslitastundu hefur það verið ómögulegt fyrir þessa lykilmenn að halda þrekinu, einmitt þegar mest hefur þurft á því að halda í síðustu leikjunum.

Á HM núna virtist þetta í fyrstu ætla að verða skárra ástand því að notaðir voru fleiri leikmenn en oft áður í fyrst leikjunum, enda breiddin í leikmannahópnum óvenju mikil. 

En síðan sótti aftur í gamla farið og einkum hefur það verið óskiljanlegt að nota ekki Sigurberg Sveinsson, sem er mikill markaskorari en hefur nær ekkert fengið að spreyta sig. 

Þetta hefur komið liðinu í koll og ég hef áður bloggað um þetta en geri það á ný í tilefni af ummælum Viggós Sigurðssonar. 

Fyrirsögnin "Óskiljanlegt að taka Sigurberg með" óskiljanleg, vegna þess að hún gefur til kynna að þessi leikmaður hafi ekki átt skilið að vera í hópnum.

Réttara hefði verið að segja: "Óskiljanlegt að láta Sigurberg ekki leika". 


mbl.is „Óskiljanlegt að taka Sigurberg með“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband