Bjóðum honum að koma til Íslands.

Ég efast um að í Danmörku hafi verið hægt að fara út af heimili sínu og horfa á handboltaleik annars staðar. Handboltinn er að vísu íþrótt, sem á uppruna sinn í Danmörku, en ekkert land í heiminum líkist Íslandi hvað snertir gildi þessarar íþróttar fyrir þjóðina og þjóðarstoltið.

Ef danska landsliðið stendur undir þeim framtíðarvæntingum, sem til þess eru gerðar, mun þetta heimilisvandamál dönsku hjónanna, sem sagt er frá í tengdri frétt, blossa upp aftur og aftur. 

Bjóðum þeim aðstoð til að flytja til Íslands þar sem fjölskyldur, ættir og fyrirtæki hjálpast að við að gera öllum kleift að fylgjast með handbolta. 


mbl.is Fékk ekki að horfa á handboltann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Alþingi hlýtur að smyrja á hann íslenskum ríkisborgararétti, hvort heldur hann vill eður ei.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 31.1.2011 kl. 14:37

2 identicon

Í þessari færslu kemur fram mikil vanþekking á dönskum handbolta og danskri þjóðmenningu ágæti Ómar ef frá er talin fullyrðingin um uppruna íþróttarinnar. Frá því mælingar hófust á sjónvarpsáhorfi hér í Danmörku árið 1992 hafa aldrei jafn margir horft á íþróttaviðburð í sjónvarpi og á úrslitaleik Dana og Frakka núna á heimsmeistarmótinu í handknattleik, en samkvæmt danska dagblaðinu Jyllandsposten sáu 2.670.000 leikinn í sjónvarpi. Til samanburðar horfðu 2.632.000 á úrslitaleikinn í knattspyrnu á Evrópumeistarmótinu 1992 þegar Danir unnu Þjóðverja.

Sjálfur var ég á leið um götur Álaborgar í flutningum á meðan á leiknum stóð og göturnar voru nánast mannlausar. Öldurhús sem ekið var fram hjá voru yfirfull af fólki sem var að horfa á leikinn. Maður umræddrar konu úr fréttinni hefði því annað hvort átt að hundskast við að elda kvöldverðinn eða fara út í bæ og horfa á leikinn.

Danir eru haldnir síst minni rembu en Íslendingar yfir sínum handboltamönnum og þetta veit ég af biturri (misbiturri þó) reynslu síðustu ára af vinnustað mínum hér í Danmörku. Ég gat gortað mig í fyrra yfir Evrópumótinu og eins framan af heimsmeistaramótinu í ár, en hef þurft að hafa mjög hægt um mig undir lok mótsins í ár.

Magnús Guðnason (IP-tala skráð) 31.1.2011 kl. 16:15

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Gaman að heyra þetta, Magnús, og eins gott að þetta komi fram, því að annars er hætta á að óverkkvíðnasti maður sem ég þekki, Árni Johnsen, drífi í því að koma þeim hjónunum til Íslands.

Ómar Ragnarsson, 31.1.2011 kl. 20:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband