14.1.2008 | 20:48
LEIKUR AÐ SKRÝTNUM TÖLUM.
Í grein í Morgunblaðinu í dag heldur Einar Eiríksson því fram að Reykjavíkurflugvallarsvæðið sé 140 hektarar innan girðingar og að 160 hektarar í viðbót séu "óbyggilegir" vegna flugvallarins. Alls fari 300 hektarar af landi undir flugvöllinn. Það er lítið hægt að komast áfram af viti í þessu máli nema réttar tölur séu notaðar. Nú er unnið að því endanlega og óafturkræft að NA-SV brautin sé lögð niður og að innan flugvallargirðingar verða þá 108 hektarar en ekki 140. Uppbygging á þessum 32 hekturum sem eru að losna er í startholunum.
Til eru möguleikar á að breyta flugvellinum með því að lengja A-V brautina, leggja núverandi N-S braut niður og hafa í staðinn stutta N-S braut þar sem olíustöð Skeljungs er í Skerjafirði. Með slíkri tilhögun mætti minnka flugvallarsvæðið niður í 70 - 80 hektara og afnema að mestu flug yfir kvosina og alveg yfir Kársnesið.
En þetta fæst ekki skoðað vegna þess að menn eru komnir í skotgrafir þar sem málið snýst um allt eða ekkert.
Þegar rætt er um "óbyggilegt svæði" er væntanlega verið að tala um Fossvogskirkjugarð og útivistarsvæði í Öskjuhlíð.
Á þá að líta á kirkjugarðinn við Suðurgötu og Elliðaárdal sem vandamál vegna þess að þessi svæði séu "óbyggileg"?
Engu máli hefði skipt á sínum tíma hvað varðar kirkjugarðana hvort flugvöllur var eða var ekki í Vatnsmýri og á Skildinganesmelum. (30 prósent flugbrautanna eru í Vatnsmýri, 70 prósent sunnan Vatnsmýrar). Kirkjugarðar Reykvíkinga á 20. öld hefðu hvort eð er verið settir niður vestan Elliðaáa.
Þessir tveir kirkjugarðar, Suðurgötugarðurinn og Fossvogsgarðurinn eru verndaðir með grafarhelgi í 75 ár hið minnsta og fráleitt að kenna flugvellinum um tilvist þeirra.
Meðal "óbyggilegu" svæðanna er útivistarsvæðið í Nauthólsvík og stórt svæði umhverfis Perluna sem vel væri hægt að nýta til bygginga. Hins vegar kjósa menn fremur að nýta það öðruvísi.
Það er merkileg hugsun að samgöngumannvirki og útivistarsvæði séu óæskileg vegna þess að þau séu "óbyggileg".
Þeir sem vilja samgöngumannvirki í burtu til þess að þétta byggð sem allra mest gleyma því að borgir verða til vegna samgangna en ekki öfugt. Borg án samgangna er eins og líkami án æða- og taugakerfis.
Allar helstu borgir liggja á krossgötum eða vegamótum samgangna á landi, sjó og í lofti.
Fyrir stríð komu menn sjóleiðis úr vestri til Reykjavíkur og fóru landleiðis austur. Leiðirnar mættust í kvosinni.
Nú er þetta breytt. Krossgötunar eru við Elliðaár og þangað leita frjáls verslun, þjónusta og byggð.
Skoðum aðeins betur töluna 108 hektarar. Þetta eru 1,08 ferkílómetrar. Seltjarnarnes vestan við Elliðaár er um 16 ferkílómetrar. Flugvöllurinn tekur því tæplega 7% af þessu landi. Það eru nú öll ósköpin.
Hægt væri að minnka flugvallarsvæðið niður í 0,8 km2 eða í 5% af flatarmáli Seltjarnarness vestan Elliðaáa.
Til samanburðar má geta þess að Miklabrautin ein tekur 50 hektara og Sundahöfn enn meira. Þessi tvö samgöngumannvirki taka meira rými en flugvöllurinn og ætti þá ekki alveg eins og byggja íbúðahverfi á þeim og beina umferð á landi og sjó annað?
Nýlega kom fram að götur og bílastæði á þessu svæði tækju sjö sinnum meira pláss en flugvöllurinn.
Því hefur verið haldið fram að flugvöllurinn hafi valdið því að byggð á Reykjavíkursvæðinu hafi þanist út.
Ég á erfitt með að sjá hvernig svæði sem er 7 prósent af Seltjarnarnesi vestan Elliðaáa hafi skipt sköpum um það að Breiðholt, Árbær og Grafarvogur hafi byggst upp auk bæjarfélaganna sem mynda keðju frá Mofellsbæ til Hafnarfjarðar. Á höfuðborgarsvæðinu austan Elliðaáa búa meira en 100 þúsund manns á svæði sem er 50 sinnum stærra að flatarmáli en flugvallarsvæðið.
Það er merkilegt hvernig einn ferkílómetri undir flugvöll geti kollvarpað öllu á svæði sem er 60 - 70 ferkílómetrar.
Sömuleiðis hefur því verið varpað upp að tilvist flugvallarins valdi því að umferðarslys í Reykjavík séu 40 prósent fleiri en ella væri. Mér er hulin ráðgáta hvernig hægt er að finna slíkt út.
Ég tek hins vegar undir gagnrýni Einars Eiríkssonar á það að skýjahæðar- og skyggnisathuganir skuli ekki ennþá vera hafnar á Hólmsheiði. Eftir meira en 40 ára flug um það svæði grunar mig að vísu að veðurskilyrði þar séu mun lakari en á núverandi flugvallarstæði. En það er ekki nóg að gruna eitthvað. Við verðum að fá tölurnar á borðið svo að hægt sé að byggja á réttum upplýsingum.
Þess má geta að byggingasvæðið sem liggur inn að Hólmsheiði úr vestri er álíka langt frá krossgötum Reykjavíkursvæðisins og Vatnsmýrin.
Einnig er rétt að hafa í huga að það er styttra að fara úr Vatnsmýrinni í Kringluna til að versla en að fara úr Vatnsmýrinni niður á Laugaveg.
Að lokum langar mig til að benda á eitt: Ef Löngusker er draumalandið (þarf samþykki fimm sveitarfélaga) verða gerningarnir þrír. 1. Byggður flugvöllur á Lönguskerjum. 2. Reykjavíkurflugvöllur rifinn. 3. Reist íbúðabyggð í staðinn.
Hins vegar fækkar gerningunum úr þremur í einn ef: 1. Reist er íbúðabyggð á Lönguskerjum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
14.1.2008 | 07:57
LÉLEG RÉTTLÆTING HJÁ ÁRNA.
Nú er það orðin ein helsta réttlæting ráðningar Árna Mathiesens að ráðherrar hagi sér oft svona. Það er rétt hjá Árna að svona hafa ráðherrar haft það svo lengi sem ég man, og minnist ég til dæmis þess þegar lögð var vantrauststillaga á Alþingi 1953 eða 54 vegna skólastjóraráðningar Bjarna Benediktssonar sem þá var menntamálaráðherra. Framsóknarmenn sem þá voru í helmingaskiptastjórn með sjálfstæðismönnum vörðu Bjarna vel í útvarpsumræðum um málið enda nauðsynlegt fyrir þá sjálfa að geta fengið stuðning sjálfstæðismanna þegar þeir ættu í hlut síðar meir.
Í ensku máli orða menn þetta svona: "Ég klóra þér á bakinu og þá klórar þú mér."
Að eitthvað hneyksli sé réttlætanlegt vegna þess að hneyksli séu sífellt að gerast er ákaflega billeg afsökun.
Það sem gerir héraðsdómaramálið sérstakt er það að matslnefndin telur þrjá umsækjendur langhæfasta en setja Þorstein Davíðsson tveimur gæðaflokkum neðar.
Það er óvenjulegt að munurinn í matinu sé svona mikill og það gerir þetta mál sérstakt og verra en flest önnur.
Samanburður Árna við ákvörðun þorskkvótans er út í hött. Þar hefur oftast verið um frekar lítinn mun að ræða á úthlutun og tillögum Hafró en í héraðsdómaramálinu er munurinn himinhrópandi.
Síðasta ákvörðun Einars G. Guðfinnssonar var talin bera vott um hugrekki vegna þess að hann fór svo nálægt tillögum Hafró og lét þrýsting hagsmunaaðila ekki hafa áhrif á sig. Slíku hugrekki virðist ekki til að dreifa hjá Árna Mathiesen um þessar mundir.
![]() |
Oft gerst að ráðherrar fari ekki að áliti álitsgjafa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
13.1.2008 | 15:28
ALLTAF SKREFI Á EFTIR.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fór á kostum í Silfri Egils nú rétt áðan við að varpa skýru ljósi á það hvernig við Íslendingar erum að endurtaka mistök annarra þjóða í byggingar- og skipulagsmálum með því að halda að kaldranalegar gler- og steypukassabyggingar hleypi mestu lífi í borgir. Ég hef lengi haldið því fram að vegna þess að krossgötur byggðar á Reykjavíkursvæðinu liggja á svæðinu Elliðavogur-Höfði-Mjódd-Smárinn hlyti miðja frjálsrar verslunar og þjónustu að leita þangað.
Þess vegna væri vonlaust að hin gamla miðborg Reykjavíkur sem liggur 3-5 km frá þessari miðju gæti keppt á forsendum þungamiðju byggðarinnar sem liggur austast í Fossvogsdal.
Hinir köldu stein- og glerkassar þessarar miðju ættu hins vegar enga möguleika á að keppa við aðlaðandi, afslappandi og menningarsögulegt umhverfi gömlu miðborgarinnar með Laugaveginn sem helstu götuna með sérverslunum og litlum fyrirtækjum og stofnunum sem veita sérhæfða þjónustu.
Þangað myndi ferðafólk leita til upplifunar á sérstöðu íslensks samfélags en ekki til steinkassanna og glerhallanna sem gætu verið í hvaða erlendri borg sem væri.
Sigmundur Davíð sýndi fram á að stefnan sem hér er fylgt hefur beðið skipbrot erlendis og að nú er víða reynt að snúa til baka, jafnvel þótt það kosti að brjóta niður steinkassana frá síðustu öld.
Nú er að baki 20. öldin þar sem margt hefur verið reynt í húsagerðarlist og niðurstaðan var raunar fyrirsjáanleg: Manninum líður yfirleitt best í umhverfi sem er sem líkast því sem kynslóðirnar næstu árþúsund á undan lifðu við.
Þegar loks er búið er að prófa allt, er það sem mönnum datt síðast í hug ekki endilega alltaf það besta. Sigmundur Davíð sýndi dæmi erlendis frá sem væru hliðstæða þess að nú væri verið að brjóta gömlu Morgunblaðshöllina niður og reisa í staðinn hús í elstu húsaröð borgarinnar sem væru í samhljómi við húsin sitt hvorum megin við þau.
Hugsanlega væri verið að opna Austurstræti til vesturs með mjóum stíg upp í Grjótaþorpið.
Sigmundur Davíð er að vinna mjög þarft verk en um það gildir svipað og um flest í umhverfisbaráttuna hér að hún er alltaf skrefi á eftir, hvort sem er í andófi gegn þeirri sovésku austantjaldstefnu sem dýrkar stóriðju, steypu- og glerkassa, risaverksmiðjur og ríkisstyrktar risaframkvæmdir á borð við Kárahnjúkavirkjun
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
13.1.2008 | 08:17
AÐ FORÐAST ÞAÐ ÓHJÁKVÆMILEGA.
Það þarf ekki annað en að líta á kort af Seltjarnarnesinu öllu, þ. e. byggðinni vestan Elliðaáa, til að sjá að það hlýtur að koma að því að svæðið fyrir utan Reykjavík á nesinu verði fullbyggt. Þetta svæði Seltjarnarnesbæjar er svo lítið miðað við annað hugsanlegt byggingarland á höfuðborgarsvæðinu að þetta er ekki spurningin um hvort, heldur hvenær. Í þjóðfélagi þar sem óendanlegur vöxtur og hagvöxtur eru orðin trúarsetning er þetta skiljanlega nokkuð sem bæjaryfirvöld á Seltjarnarnesi virðast ekki geta sætt sig við.
Ég hef áður sagt frá íslenskum ráðamanni sem sagði við mig fyrir áratug: Reynslan sýnir að ef ekki er haldið áfram viðstöðulaust að virkja kemur kreppa og atvinnuleysi. Og þegar ég spurði hann á móti hvað ætti að gera þegar allt virkjanlegt hefði verið virkjað svaraði hann: Það verður verkefni þeirrar kynslóðar sem þá verður í landinu.
Og þá vaknaði ný spurning: Úr því að óhjákvæmilega kemur að þessu, hvers vegna eigum við að velta þessu viðfangsefni yfir á afkomendur okkar? Myndu þeir ekki verða okkur þakklát ef við fyndum sjálf lausnina á afleiðingum gerða okkar? Og er það ekki réttlátar en að velta því yfir á næstu kynslóðir?
Það getur ekki verið langt í það að endimörkum byggðarvaxtar í Seltjarnarnesbæ verði náð. Hvernig væri nú að Seltirningar gerðu afkomendum okkar allra þann greiða að finna lausn á því ástandi sem skapast þegar ekki verður lengur hægt að feta sömu braut og farin hefur verið?
Hvernnig væri að fundin væri leið til nauðsynlegrar endurnýjunar og kynslóðaskipta í þessu bæjarfélagi sem byggist ekki aðeins á því að reisa ný og ný hús?
Það er augljóslega stutt í það hvort eð er að byggingarland bæjarfélagsins verði fullnýtt. Nema að menn ætli sér að umbreyta bænum úr friðsælu og umhverfisvænu byggðarlagi í byggð sem smám saman missir þann svip og það aðdráttarafl, sem svona byggð hefur, - breyta henni í byggð hárra skýjakljúfa í stíl við það sem er við Skúlagötu í Reykjavík.
En jafnvel þótt stefnt verði inn á þá braut verður endapunkturinn augljóslega hinn sami vegna takmarkaðs byggingarlands og þá munu orð ráðamannsins rætast: "Það verður verkefni þeirrar kynslóðar sem þá verður uppi að leysa úr vandamálinu. Vandanum velt yfir á afkomendurna í stað þess að leysa hann strax.
![]() |
Óttast umhverfisslys við Nesstofu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.1.2008 | 00:31
EKKERT GEYSISGRÍN.
Sú niðurstaða lögspekinga að ekki megi setja lög sem hindra að Hitaveita Suðurnesja í að selja orkulindir sínar sýnir vel hve erfitt úrlausnarefni bíður við að koma í veg fyrir þjóðin missi frá sér eignarhaldið yfir orkulindum landsins. Geysir green energie kom til skjalanna rétt fyrir síðustu kosningar og þá strax tók Íslandshreyfingin þetta mál ákveðið fyrir og varaði sterklega við því að rasa um ráð fram í þessu efni.
Atburðarás síðasta árs með REI-klúðrið sem hápunkt leiddi í ljós hve þessar aðvaranir áttu mikinn rétt á sér og að fyrir hefði þurft að liggja vönduð löggjöf á þessu sviði sem tryggði farsælan feril hinnar nýju starfsemi á nýjum vettvangi.
Í viðskiptaheiminum er nauðsynlegt að vera fljótur að framkvæma og hinir stórkostlegu möguleikar til útrásar orkugeirans og vísinda- og verkþekkingar og reynslu Íslendinga leiddu til hraðrar atburðarásar sem fór úr böndunum.
Nú verður að vanda sig við að búa tryggilega um hnúta á þeirri leið sem nauðsynlegt er að feta á leið okkar til þeirra framfara og útrásar sem þrátt fyrir ekki má ekki fara út um þúfur. Ef við verðum að flýta okkur verðum við samt að flýta okkur hægt.
Hér er verið að glíma við ný viðfangsefni þar sem bæði skortir reynslu og árangur af langri rökræðu eins og gildir um mörg önnur svið þjóðlífsins þar sem menn hafa haft áratugi til að feta sig áfram á braut samþættingar opinbers rekstrar og einkarekstra.
Nú er komið í ljós að Geysir green var ekkert grín heldur alvörumál. Vonandi verður samt hægt að vinna úr því máli á þann hátt að full sátt náist og sá árangur sem allir vildu þrátt fyrir allt stefna að.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
12.1.2008 | 23:45
FORD T INDLANDS.
Nákvæmlega öld eftir að Henry Ford innleiddi Ford T-model, "bíl fyrir fjöldann", ætla Indverjar að reyna það sama, að framleiða svo einfaldan, lítinn og ódýran bíl að hluti indversks almennings geti veitt sér að eignast hann í stað þess að ferðast um á vélhjólum. Sama gerðist í Evrópu fyrst eftir stríðið þegar örbílar og Volkswagen-bjöllur gerðu það sama fyrir álfu í rústum. Ford T var ótrúlega léttur, einfaldur, sterkur og ódýr. Áður en menn sjá allt rautt í kringum Nano-bílinn þarf að huga að eftirfarandi:
Indverjar framleiddu 1,5 milljónir bíla 2006 fyrir 1000 milljónir manna. Með sama áframhaldi tæki það 300 ár fyrir þá að skaffa jafn marga bíla á íbúa og tíðkast í okkar heimshluta og þá yrðu allir bílarnir á Indlandi að endast allan þennan tíma.
Bandaríkjamenn kaupa árlega miðað við fólksfjölda 40 sinnum fleiri nýja bíla en Indverjar og ef miðað er við stærð bílanna og eyðslu er eyðslan og útblásturinn hundraðfaldur í Bandaríkjunum.
Kínverjar framleiddu 1,5 milljón FLEIRI bíla 2006 en 2005 og þeir eru margir hverjir býsna stórir og eyðslufrekir.
Rússar framleiða enn í miklu magni gömlu Lada 2105 bílana (Nova) sem voru býsna vinsælir hér á landi fyrir 30 árum, en þessir bílar eru með gamaldags blöndunga sem blása meira út í andrúmsloftið og menga meira en bílar með beinni innspýtingu.
Mesta ógnin af völdum útblásturs bíla er því ekki á Indlandi heldur í Kína og Bandaríkjunum. Kinverjar munu með sömu útþenslu í bílaframleiðslu verða komnir fram úr Japönum og Bandaríkjamönnum innan tíu ára. Útblástur Nano-bílanna verður innan við eitt prósent af útblæstri bandaríska bílaflotans.
Þegar við umhverfisáhugamenn á Vesturlöndum ætlum að fara á límingum af áhyggjum af því að Indverjar gerast svo djarfir að apa eftir okkur eftir að hafa horft á lúxusinn okkar úr fjarlægð í heila öld ættum við að líta í eigin barm og athuga hvort róttækar hugmyndir Indverja um komast af með einfaldari lausnir eigi ekki erindi til Vesturlandabúa.
Það vorum við Vesturlandabúar sem hrundum þessu af stað og stöndum þannig að því í dag að það sem Indverjar láta sig dreyma um er aðeins lítið brot af okkar framlagi til sóunar á takmarkri orku jarðarinnar, svo að ekki sé minnst á áhrifin á lofthjúpinn.
![]() |
Ekki hrifnir af ódýrum bíl |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.1.2008 | 19:58
ERU SUMIR JAFNARI EN AÐRIR?
Athyglisverð er fréttin um eiganda veitingastaðar sem telur að sömu lög og reglur eigi að gilda á þeim opinbera stað sem Alþingishúsið sé og á veitingastöðum. Með öðrum orðum að alþingismenn hafi talið sig og sinn stað svo miklu mikilvægari en veitingastaðina að þar gildi aðrar reglur. Sé svo má með sanni segja að allir hafi verið jafnir fyrir lögunum en sumir jafnari en aðrir.
Annars minnir framtak eiganda veitingastaðarins á þá áráttu Íslendinga að þurfa að láta reyna á alla hluti. Sighvatur Björgvinsson sagði einu sinn sögu af því þegar sett var upp skilti í inngangi félagsheimils þar sem stóð: Gestir fari úr skófatnaði.
Kona ein sem kom á staðinn óð samt inn á skítugum stígvélum. Þegar konunni var bent á skiltið sagði hún: "Já, en það er bara talað um gesti en ekki heimamenn héðan úr sveitinni." Forsvarsmaður félagsheimilisins sagði þá að auðvitað væri átt við alla sem kæmu inn í húsið og spurði hvers vegna konan hagaði sér svona.
Þá svaraði konan: "Ég vildi bara láta á þetta reyna."
Eigandi veitingastaðarins virðist vera á svipuðu róli og nú verður fróðlegt að sjá hvað kemur út úr því þegar hann lætur reyna á orðalag laganna og hvort allir séu jafnir fyrir lögunum eða hvort sumir séu jafnari en aðrir.
![]() |
Yfirvöld geta ekki gert neitt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
11.1.2008 | 10:54
"AF ÞVÍ HANN ER ÞARNA..."
Hve margir Íslendingar hafa séð Everest? Innan við tíu? Setjum sem svo að til stæði mikið umrót í hlíðum fjallsins vegna efnistöku. Þá myndu margir Íslendingar nota sömu rök og notuð eru um Gjástykki og fossaraðirnar í Þjórsá og Jökulsá í Fljótsdal og notuð voru um Eyjabakka og Hjalladal, að vegna þess hve fáir hefðu komið þangað væri í góðu lagi að stúta þessum fyrirbærum. Davíð Oddsson og fleiri notaði þessi rök.
Everest er gott dæmi um það að erlendis eru það viðurkennd rök að aðeins vitundin um tilvist merkilegra fyrirbæra sé nóg til þess að þau séu varðveitt. Þar er því hafnað að eina leiðin til að gera náttúrufyrirbæri aðgengileg sé að umturna þeim fyrst.
Þegar fyrstu Bandaríkjamennirnir komu í Yellowstone friðuðu þeir svæðið einmitt vegna þess hve fáir hefðu komið þangað því að þeir vildu koma í veg fyrir að með auknum ferðaalögum þangað yrðu unnin þar spjöll. Hér á landi hefðu ráðamenn talað um að einmitt vegna þess hve fáir hefðu séð Yellowstone væri nauðsynlegt að ráðast sem fyrst í virkjanir af öllu tagi áður en svæðið yrði þekkt. Virkjanirnar myndu um leið gera aðgang að svæðinu greiðari.
Everest og Yellowstone mun standa ósnert eftir því sem kostur er. Er þó Yellowstone ekki á lista yfir undur veraldar eins og hinn eldvirki hluti Íslands.
Vesturlandabúar fóru á límingunum af hneykslan þegar Talibanarnir í Afganistan létu sprengja frægar Búddastyttur þar í fjöllunum. Enginn Íslendingar hafði séð þær og örfáir útlendingar.
Ég minnist þess enn hve ótrúlegt mér þótti að Everest hefði verið klifinn, nýbúinn að lesa um fjallið í bók sem hét "Undur veraldar."
Get kannski heldst tjáð mig um málið með þessum texta við samnefnt lag, sem gerður var á sínum tíma fyrir ferð upp á Hvannadalshnjúk:
HNJÚKURINN GNÆFIR.
(Fyrir fjallgönguna)
Hnjúkurinn gnæfir, til himins sig teygir,
hamrahlið þverbrýnt, ísað stál.
Ógnfagur rís hann, ögrandi þegir.
Inn í þig smýgur hans seiðandi mál.
Bjartur sem engill andartak er hann,
alheiður berar sig blámanum í.
Á sömu stundu í fötin sín fer hann,
frostkalda þoku og óveðursský.
Hvers vegna að klífa´hann? Hvers vegna að sigra´hann?
Hvers vegna öll þessi armæða´og strit?
Hví ertu, góði, að gera þig digran?
Gættu þín, vinur. Skortir þig vit?
Hvers vegna finnst þér hans ögrun til ama?
Af hverju að hætta sér klær hans í?
Svarið er einfalt og alltaf það sama:
Af því hann rís þarna, bara af því.
(Um nóttina við rætur hans)
Á tunglskinsnóttu öllu´af sér kastar.
Í bláum skugga hann berar sig hér.
Yfir þig hvelfist. Á þig hann hastar:
Ertu´orðinn vitlaus, hvað ætlarðu þér?
(Daginn eftir)
Hnjúkurinn gnæfir, til himins sig teygir,
hríslast um makka hans óveðursský.
Af hamrastáli öskrandi´hann fleygir
ísköldum hjarnþiljum fárviðri í.
Sýnist hann reiður. Áfram vill ögra.
Á þá hann skorar sem líta hans mynd.
Þolraun enn bíður þeirra sem skjögra
þreyttir á Ísalands hæsta tind.
Hvers vegna að klífa´hann? Hvers vegna að sigra´hann?
Hvers vegna öll þessi armæða´og strit?
Hví varstu, góði, að gera þig digran?
Gastu´ekki stillt þig? Skorti þig vit?
Hvers vegna fannst þér hans ögrun til ama?
Af hverju að hætta sér klær hans í?
Svarið er einfalt og alltaf það sama?
Af því hann er þarna, bara af því.
Af því hann er þarna, bara af því.
![]() |
Edmund Hillary látinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
10.1.2008 | 20:42
PÍLATUSARÞVOTTUR Á NÝ?
Björn Bjarnason segir að Þorgerður Katrín megi ekki taka ákvörðun um Laugavegshúsin. Hann vill greinilega að hún geri svipað og Pílatus á sínum tíma sem þvoði hendur sínar og vísaði máli Krists frá sér. Þorgerður segist ætla að fara að vilja fólksins, sem mér virðist, samanber næstu bloggfærslu hér á undan, vita álíka mikið um hið raunverulega eðli þessa máls og fólkið vissi um Krist, sem hrópaði: Krossfestu hann! Krossfestu hann! Nú er hrópað í skoðanakönnun í Fréttablaðinu: Rífum þau! Rífum þau!
Og nú er spurningin hvort Þorgerður Katrín geri svipað og Pílatus forðum. Ég vona að svo fari ekki.
![]() |
Einkennileg staða varðandi Laugavegshús |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
10.1.2008 | 20:35
UPPLÝSING OG LÝÐRÆÐI.
Upplýsing er forsenda lýðræðis. Vanti upplýsingar verða teknar rangar ákvarðanir. "Garbage in - garbage out." Mál húsanna við Laugaveg er klassadæmi. Fyrst eftir 15 ára umfjöllun um húsin í borgarkerfinu tekur húsafriðunarnefnd málið fyrir. Ég var síðast á Laugavegi í gærkvöldi og heyrði ungt fólk hallmæla þessum "húsdruslum" og vilja þær burtu, þetta væri svo ljótt. "Hafið þið séð í Morgunblaðinu hvernig þau yrðu ef þau yrðu endurbyggð í upprunalegri mynd?" spurði ég. "Nei", svöruðu þau, - "hafa þau ekki alltaf verið svona?"
"Hafið þið skoðað Bernhöftstorfuna?"spurði ég. "Nei", svöruðu þau, vissu ekki hvað Bernhöftstorfan var. "Vitið þið að húsið á horninu er eftirlíking af eimreið sem dregur húsaröðina á eftir sér?" Nei, þau vissu það ekki.
Ég hef verið þarna nokkrum sinnum og rætt við fjölda fólks en engan hitt sem vissi mikið meira en þetta unga fólk, hvorki unga né gamla. Síðan er skoðanakönnun í Fréttablaðinu þar sem meirihlutinn veit líkast til lítið meira um þetta mál en fólkið sem ég hef hitt þarna.
Menntamálaráðherra segist ætla að fara að vilja fólksins. Dómsmálaráðherra gefur á bloggsíðu sinni Þorgerði Katrínu línuna og segir að hún megi ekki ákvarða í málinu. Málið verði að fara frá Pílatusi til Heródesar.
Rífum kofana! Rífum kofana! Þetta vill fólkið núna og svipað hefur heyrst áður. Krossfestu hann! Krossfestu hann! Og aftur þvær Pílatus hendur sínar, eða hvað?
Í svona tilfellum er ekki fólkinu um að kenna heldur þeim sem hafa látið undir höfuð leggjast að veita því upplýsingar.
Þetta er kunnugleg hringekja: Upplýsingar vantar og skoðanakönnun leiðir í ljós álit fólks þar sem yfirgnæfandi meirihluti veit ekki hvað verið er að tala um. Á grundvelli þessa á síðan að taka endanlega ákvörðun.
Enn heiti ég á Þorgerði Katrínu að þvo ekki hendur sínar eins og Pílatus heldur taka á þessu máli eins og hún gerði í hliðstæðu máli á Akureyri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)