Þetta er það sem þarf.

Núverandi efnahagslega"stríðsástand" sem hófst með beitingu Breta á hryðjuverkalögum gegn okkur hefur nú staðið í rúma 15 mánuði. 

Þegar við stóðum í þorskastríðunum á áttunda áratug síðustu aldar fóru forsætisráðherrar Íslendinga til Bretlands til viðræðna við starfsbræður sína þar.

Það er nauðsynlegt að Iceasave-málið fái atbeina af þeirri vigt sem hæfir máli af þessari stærð og að allar þær kanónur, sem við eigum, sé notaðar til að skýra málstað okkar.

Velja þarf tíma og tilefni af gaumgæfni því að þetta er eins og skák þar sem leikið er eftir klukku og leikirnir verða að vera í réttri röð. 

Mér líst vel á það sem haft er eftir forsetanum úr viðtali hans við BBC.

Hann hætti sér samt út á hálan ís þegar hann ýkti þá miklu lýðræðishefð þjóðaratkvæðagreiðslna um veigamestu mál sem hann sagði að hér ríkti.

Hér hefur slík atkvæðagreiðsla ekki farið fram í 65 ár og allir þeir stjórnmálamenn látnir sem að henni stóðu.  


mbl.is Ólafur í kröppum dansi á BBC
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Susan Boyle og Stella í Knarrarnesi.

Ég var að sjá þátt um Susan Boyle á Stöð 2, hina 47 ár gömlu Öskubusku, sem varð heimsfræg á mettíma á YouTube og hefur selt 4,5 milljónir platna með söng sínum.

Susan kom fram á réttum tíma þegar heimurinn þurfti uppörvun í kreppunni og hún gat því látið drauminn rætast og gefið öðrum með því vonir og drauma. 

P1011181

Í fyrra var borin til grafar Guðríður Jóna Árnadóttir, fyrrum húsfreyja í eyjunni Knarrarnesi undan Mýrum, ævinlega kölluð Stella. 

Rétt fyrir heimsstyrjöldina var búið að ganga frá því að Stella færi til söngnáms í Þýskalandi vegna þess að hún hafði fágæta sönghæfileika, sem minnti fólk síðar á frænku hennar, Guðrúnu Á. Símonar.

Þá dó faðir hennar og móðir Stellu og hún urðu að snúa sér í bili að því að vinna sig út úr því með þremur bræðrum hennar.

Stella gerði ráð fyrir því að einhver þeirra myndi kvænast og taka við búskapnum í eyjunni, en aldrei kom til þess.

Í þess stað bjó þetta fólk allt sitt líf í þessari litlu eyju, sem ég get flogið á 15 mínútum út í og lent þar í krafti gamals leyfis Stellu, en eyjan er samt það afskekkt, að Knarrarnesfólkið fór aðeins tvisvar í land á hverju ári, á vorin og haustin, til að selja vörur sínar og birgja sig upp. Eftir að móðir systkinanna dó komst Stella aðeins einu sinni á ári í land.

Stella fór því aldrei til söngnáms en fyrir tilviljun heyrði ég hana einu sinni syngja þegar ég kom heim að bænum og undraðist af hverju hún hafði, aldrei þessu vant, ekki komið út úr bænum til að taka á móti mér.

Þegar ég nálgaðist húsið heyrði ég háværa tónlist sem hljómaði inni í bænum og barst út á tún. Greinilegt var að Stella var búin að hækka í útvarpinu til að njóta óperutónlistar En það vakti furðu mína að verið var að spila upptöku með Maríu Callas þar sem önnur frábær söngkona söng með henni tvísöng.

Ég minntist þess ekki að hafa heyrt Callas syngja þessa aríu með annarri söngkonu og því síður að til væri dúett útgafa af þessari einsöngsaríu.

En þegar ég kom nær áttaðí ég mig á því að það var Stella sem söng svona frábærlega vel með hinni heimsfrægu söngkonu, Callas hljómaði af hljómplötunni en Stella í beinni útsendingu fyrir mig einan.

Þetta atvik kemur í hugann þegar þátturinn um Susan Boyle er sýndur í sjónvarpinu.

Stella í Knarranesi hefði getað orðið hin íslenska Öskubuska á sínum tíma, fræg óperusöngkona í stað þess að lifa allt sitt líf á einu byggðu eyjunni í Faxaflóa, svo afskekktri að aðeins tvisvar á ári fór hún í land.

Ég harma enn þessi örlög Stellu en henni auðnaðist með lestri, hlustun á útvarp og síðar áhorfi á sjónvarp að sætta sig við þetta hlutskipti sitt og ferðast í huganum um heiminn og verða heimskona á sinn hátt.

Á hverju hausti fór hún í eina viku til Reykjavíkur og eyddi tímanum í að fara á alla tónleika og sýningar sem í boði voru áður en haldið yrði til baka heim til bræðranna þriggja sem hún fórnaði lífi sínu til að þjóna til viðhalds hinni einstæðu byggð og mannlífi í Knarrarnesi.  

P1011183

Ef einhverjir vilja kynna sér nánar þetta mál má geta þess að ég gerði nokkra sjónvarpsþætti og fréttir bæði á Sjónvarpinu og á Stöð tvö um hin stórmerku systkin í Knarrarnesi, - og í bókinni "Fólk og firnindi" er kafli um heimsókn út í eyjuna.  

Hér til vinstri er mynd úr bókinni þar sem einsmannsfisið "Skaftið" flögrar yfir bænum áður en komið er inn til lendingar á túnbleðlinum neðst á myndinni. 

Vegna tæknilegra mistaka eru myndirnar tvær. 

P1011183

Japönsku Kei-bílarnir á Íslandi.

Í Japan hafa ríkt þær reglur í næstum hálfa öld að smábílum, sem eru innan vissra marka um vélarstærð, lengd og breidd, sé ívilnað í opinberum gjöldum. Þessir bílar, sem nefnast Kei-bílar, eru miklu algengari á Íslandi en ætla má í fljótu bragði og tilvist þeirra getur verið lærdómur fyrir okkur. 250px-1998_suzuki_jimny_01.jpg

Á efstu myndinni er Suzuki Jimny, sem er Kei-bíll í Japan þótt hann sé aðeins lengri, breiðari og með stærri vél hér á landi en þar. 

Ástæðan er sú að sömu lögmál um skort á rými í umferðinni gilda í öllum borgarsamfélögum heims og án Kei-bílanna myndi verða algert öngþveiti í umferðinni í stórborgum Japans. 

Formúlan svínvirkar nefnilega, sparar miklar fjárhæðir í gerð umferðarmannvirkja og minnkar tafir og flækjur í umferðinni.

Sem dæmi má nefna að 100 þúsund bílar fara um Ártúnsbrekku og Miklubraut á dag og ef bílarnir væru að meðaltali einum metra styttri myndu 100 kílómetrar af malbiki verða auðir sem nú eru þaktir bílum. p1011186.jpg

Mun fleiri bílar myndu komast fyrir á milli umferðarljósa, eins og til dæmis í umferðarhnútnum austan við Umferðarmiðstöðina síðdegis, og hér á landi mætti setja hvata fyrir ökumenn með því að leggja lengdargjald á bíla og minnka í staðinn önnur bifreiðagjöld. 

Á höfuðborgarsvæðinu eru nú um 100 þúsund bílar sem þekja yfir malbik sem er alls 450 kílómetra langt! lj50.gif

En víkjum aftur að japanska kerfinu. Þegar bílum tók að fjölga í Japan voru settar reglur þess efnis að bílar sem væru minna en þriggja metra langir og 1,30 á breidd og vélarnar ekki meira en 360 cc, fengju mikinn afslátt af opinberum álögum.

Sá bíll af þessari stærð sem mesta frægð hlaut var Honda 360 sem síðar var fluttur til annarra landa með 600cc vél.

Ótrúlegur naggur, náði 136 kílómetra hámarkshraða og var minni en Mini.  

Fyrsti jeppinn í þessum flokki var gerður af litlu fyrirtæki sem ekki hafði bolmagn til að fylgja því eftir en Suzuki verksmiðjurnar sáu þarna tækifæri og suðu upp úr þessum bíl hinn fyrsta af tveimur fyrirrennurum Suzuki Jimny.  

DSCF0763

Þessir bílar, Suzuki LJ80, bárust til Íslands 1977 með 797cc 37 ha. vél og þegar reglurnar í Japan höfðu verið víkkaðar upp í 3,20 x 1,40 metra lengd og breidd og 550cc vélarstærð fóru fleiri Kei-bílar að berast til landsins.

200px-suzuki_alto_1982_crete_with_subaru_competitor_i-1_949551.jpgSuzuki LJ10 var 3,43 x 1,46 hér á landi og fólst viðbótin við Kei-stærðina í stærri stuðurum, svolitlum brettaköntum og 1000cc og siðar 1300cc vélum. Sá rauði með númerinu IB 327 er minnsti jöklajeppi landsins vegna léttleika síns, því hann vegur aðeins 950 kíló og er þó með 101 hestafla vél.

P1010506

Suzuki Alto fólksbíllinn kom hingað og varð býsna vinsæll og með svo frábæra 800cc vél að hún er enn í framleiðslu í Chevrolet Matiz. 

Slíkur bíll komst í mark í Ljómarallinu 1983 sem var frábær árangur.

Daihatsu Cuore sló í gegn hér á landi 1986, var raunverulegur Kei-bíll hvað utanmál snerti en með 843cc 44 ha.vél og rými á hæð og lengd fyrir farþega á við miklu stærri bíla. Örfáir bílar af þessari gerð eru enn til. Sá rauði hér á síðunni er minnsti sjálfskipti bíll landsins.  dsc00318_949552.jpg

Allmargir bílar af þessari gerð með fjórhjóladrifi voru fluttir inn til landsins og voru og eru minnstu fjórhjóladrifnu bílarnir hér á landi. 

Mér er kunnugt um tvo sem enn eru til. 

1998 fara síðan að berast hingað bílar í núverandi Kei-flokki, sem miðast við stærðina 3,40 x 1,48 m og 660 cc vélar. 

Þeir eru þessir: 

Daihatsu Cuore með 1000cc vél, 56 hestafla. Slatti af þessum bílum er enn í umferð hér. 

DSCF0758

 

Myndin af gráum bíl fyrir neðan bílinn með STREIT númerinu er af Malaískum bíl af gerðinni Perodua Kelisa. 

Hann er í grunninn Cuore 1998-2005 með breyttum framenda og var framleiddur fram til 2007.

Enn í dag er framleiddur Perodua Kancil sem er byggður á Cuore 1986-98.

Þessir bílar eru langódýrustu bílarnir á markaðnum í Bretlandi.  

 

MHV_Perodua_Kelisa_01

 

 

 

 

 

Þá skal telja jepplinginn Daihatsu Terios, með lengdum afturenda, brettaköntum og stuðurum sem gerðu bílinn 45 sm lengri og 7 sm breiðari en Kei-bíllinn Terios Kid. Vélin 1300 cc.

Loks er að nefna Suzuki Jimny, með stærri stuðurum og brettaköntum sem gerðu bílinn 23 sm lengri og 12 sm breiðari en Kei-bílinn og vélin var stækkuð 1328 cc.

Nokkrir háþekju Daihatsubílar, soðnir upp úr Cuore og nefndir Move, voru fluttir inn og eru einn eða tveir enn í umferð hérlendis. 

800px-Daihatsu_Terios_r_blue

 


 

250px-Daihatsu_Terios_r_blue120px-Cuore

Fer eftir yfirlýsingum forsetans sjálfs.

Ég man ekki betur en að forseti Íslands hefði sagt síðast, þegar hann nýtti sér málskotsréttinn, að sú gjörð hans segði ekkert um það hvort hann væri meðmæltur eða mótfallinn fjölmiðlafrumvarpinu. 

Ef hann segir þetta líka núna verður að telja hann hlutlausan aðila, þótt ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir hugsi honum þegjandi þörfina.  

Ég á ekki von á að hann fari öðruvísi að nú en 2004 og verði það svo, sé því ekki hvernig það að frumvarpið verði samþykkt geti valdið því að hann verði að segja af sér. 

Raunar finnst mér ekki að ríkisstjórnin eigi að segja af sér ef hún tapar í þjóðaratkvæðagreiðslunni, en þó mátti heyra á Steingrími J. Sigfússyni í Kastljósi í kvöld að staða hans væri öðruvísi en forsetans, - þetta væri frumvarp ríkisstjórnarinnar sem hann hefði fylgt fram og varið og því væri hann ekki hlutlaus í þessu máli. 

Hann sagði líka að það færi mikið eftir því hverning umræðan yrði í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunar hvernig stjórnin myndi meta afstöðu sína.

Munurinn á þessari atkvæðagreiðslu og Alþingiskosningunum 1908, þegar þjóðin lagðist gegn uppkasti að sambandslagasamningi milli Danmerkur og Íslands, er sá að fylgjendur uppkastsins voru stráfelldir í kosningunum og komust því ekki á þing til að fylgja málinu eftir.  


mbl.is Forsetinn í sögubækurnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleyma ummælum Vigdísar um óafturkræf áhrif.

Í fréttaskýringum og umfjöllun um málskotsrétt forsetans gleymist ævinlega að geta ummæla Vigdísar Finnbogadóttur í viðtali vorið 2004 að hún hefði ekki skrifað undir frumvörp, sem fælu í sér óafturkræfa hluti á borð við lögleiðingu dauðarefsingar eða afsal á landi.

Í tengslum við þetta sagði hún að ef slík mál hefðu komið upp meðan hún var forseti hefði hún ekki viljað bera ábyrgð á slíku með undirskrift heldur hefði hún vísað því til þjóðarinnar sjálfrar.

Framkvæmd á borð við Kárahnjúkavirkjun með þeim gríðarlegu óafturkræfu neikvæðu umhverfisáhrifum, sem kæmu fram í mati á umhverfisáhrifum hennar hefði hún metið hliðstæða við afsal á landi eða  dauðarefsingu hvað eðli snerti og því nýtt sér málskotsréttinn og vísað því til þjóðarinnar.  


mbl.is Fjölmiðlalögin fóru ekki í þjóðaratkvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Já, línurnar liggja ekki alveg saman.

Eins og ég bloggaði um þegar Indefence-undirskriftasöfnunin stóð yfir, liggja línurnar ekki saman varðandi afstöðu fólks til Icesave-samninganna annars vegar og hins vegar til ákvörðunar forseta Íslands. 

Þetta kemur fram í skoðanakönnunum og er ekkert óeðlilegt við það að sumir séu andvígir gjörð forsetans en jafnfram andvígir Iceasave-samkomulaginu og aðrir séu samþykkir Icesave-samkomulaginu og einnig gjörð forsetans.  


mbl.is Meirihluti með lögunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Talsmenn okkar erlendis ráða úrslitum.

Við Íslendingar hefðum aldrei fengið handritin send heim til Íslands ef við hefðum ekki átt ötula talsmenn málstaðar okkar meðal Dana.

Þorskastríðin hefðu ekki unnist nema vegna þess að við nutum skilnings vinveittra þjóða og gátum nýtt okkur sterka stöðu í varnarkerfi Bandaríkjanna í Kalda stríðinu.

1918 réði úrslitum að um alla Evrópu fór alda kröfunnar um sjálfstæði þjóða álfunnar með sérstökum stuðningi Bandaríkjaforseta.

Danir þurftu sjálfir að krefjast réttlætis í Slésvík-Holstein og urðu því að sýna skilning og sanngirni gagnvart Íslendingum.

Nú er á brattann að sækja í Icesave-málinu og erfiðara að eignast vini í útlöndum. Það hefur verið og verður höfuðatriðið í baráttunni fyrir sanngirni í því máli að vinna málstað okkar skilnings erlendis eins og sést í skrifum dálkahöfundart Financial Times.

Á tímum mikilla áhrifa fjölmiðlunar verður að leita allra ráða til að sinna þessu, hvar sem því verður við komið.


mbl.is Kurteis og hófstillt mótmæli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hægt að leita í blogginu aftur í tímann.

Það hefur komið fyrir að fólk hefur viljað geta flett aftur í tímann í blogginu mínu til að finna umfjöllun um eitthvert tiltekið atriði. 

Með góðri aðstoð Láru Hönnu Einarsdóttur setti ég í kvöld upp línu efst vinstra megin fyrir ofan nafnið mitt þar sem hægt er að slá inn leitarorði.

Ég prófaði til dæmis að slá upp nafninu "Sauðárflugvöllur" og fékk strax upp á skjáinn þær færslur helstar sem fjalla um hann.  

Þökk fyrir hjálpina, Lára Hanna.  


Skúrkarnir sem borga ekki.

Enn og aftur kemur það upp að við Íslendingar verðum úthrópaður erlendis sem ábyrgðarlausir skúrkar í fjármálum. 

Nú verður róðurinn enn erfiðari en síðasta haust að koma íslenskum sjónarmiðum að, vegna þess að þetta verður í annað sinn sem þetta kemur upp og í fjölmiðlaheiminum er erfitt að koma að mörgum atriðum að í málum sem ekki teljast helstu fréttamál hverju sinni. 

Iceasave-málið er smámál á erlendan mælikvarða og þess vegna verður svo erfitt að berjast við upphrópunina: þeir borga ekki! f

Hrunið og upphrópanirnar um skúrkana sem borga ekki hafa sett Íslendinga á svipaðan bekk og þegar fyllibyttan lendir utangarðs.

Meirihluti Íslendinga fór á efnahagslegt fyllerí og fjórfaldaði skuldir heimilanna og fyrirtækjanna og situr þar uppi með margfalt meiri skuldabyrði en vegna Icesave.

Rétt eins og fáránleiki svona athæfis birtist í montbyggingum í Dubai eru tákn um þetta hér á landi tómar montbyggingar ásamt stærstu framkvæmd Íslandsssögunnar með mesta óbætanalega umhverfistjóni sem framkvæmanlegt er hérlendis.   

Enn ríkir hér afneitun og sjálfsvorkunn hins efnahagslega alkóhólisma sem Íslendingar eru haldnir.

Allir sjá að alkinn þarf að fara í meðferð en ef hann vill það ekki sjálfur gerist það ekki.

Allan tímann sem það hefur verið í meðferð stjórnar og þings að útfæra það hvernig og hve mikið við borguðum af skuldbindingum okkar, það er hvernig meðferðin eftir fylleríið yrði. 

Meirihluti þjóðarinnar er andvíg meðferðinni og líta má á forsetann sem ígildi yfirlæknisins á Vogi, sem lætur sjúklinginn þá sjálfan um það að taka afleiðingunum af gerðum sínum.

Nú er að byrja það sem mátti sjá fyrir, Ísland sett í ruslflokk og væntanlega margt annað eftir því sem á eftir að koma í kjölfar atburða dagsins.

En rétt eins og hrunið var óhjákvæmilegt og mátulegt á okkur á sínum tíma verður þjóðin sjálf að reka sig á núna úr því að hún vill það.  


mbl.is Hollenskir stjórnmálamenn harðorðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýðræðið er gallagripur en...

Það hefur verið sagt að lýðræðið sé meingallað stjórnarform og geti verið hræðilegt á stundum, - en, - það hefur ekki enn fundist skárra form. 

Það má fara lengra með þessa hugsun og segja sem svo að beint lýðræði sé meingallað form og geti verið hræðilegt á stundum, - en, - að það sé þó skárra lýðræði en ef eingöngu ríkir óbeint lýðræði, hið svonefnda fulltrúalýðræði.

Ég vísa til auglýsingar sem hangið hefur síðan vorið 2007 á vegg í afgreiðslu innanlandsflugs Flugfélags Íslands, en fyrir tilviljun er þar sýnt blað frá apríl 2007 með fyrirsögn dagsins: "Allt sem varðar þjóðina."

Ég er enn sömu skoðunar og ég var í viðtalinu sem þessi fyrirsögn er tekin úr varðandi sem beinast lýðræði, vægi þjóðaratkvæðagreiðslna, persónukjörs, jafns vægis atkvæða og jafnvægi milli löggjafarvalds, framkvæmdavalds og dómsvalds.

Blaðamaðurinn, sem tók viðtalið, taldi þessar yfirlýsingar mínar um stefnu Íslandshreyfingarinnar greinilega merkilegar.

Það fannst mér merkilegt, því að í þeim kosningum var engin leið að fá fram umræðu um þessi mál, - allir voru svo uppteknir af gróðærinu.  

 


mbl.is Staðfestir ekki Icesave-lög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband