4.1.2011 | 22:50
Gagnsleysi 5% þröskuldsins.
Eitt af fjölmörgum málum, sem athuga mætti á komandi Stjórnlagaþingi, er það óréttlæti að hægt sé að ræna allt að 7500 kjósendum þeim rétti að fá fulltrúa sinn kjörinn á þing. Þetta samsvarar því að rúmlega 7000 kjósendur Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi hefðu ekki fengið neinn fulltrúa kjörinn.
Þetta kemur upp í hugann þegar opinber er ágreiningur sem jaðrar við klofning í VG, því að hinum óréttláta þröskuldi er ætlað að koma í veg fyrir of mikla flokkadrætti og sundrungu á Alþingi.
Nefna má ótal dæmi um það að ákvæði af þessu tagi virki ekki. Þannig klofnaði Borgarahreyfingin á mettíma eftir síðustu kosningar og meðal annars lýsir það sér í því að varamaður Þráins Bertelssonar myndi líkast til taka aðra afstöðu til ríkisstjórnarinnar en hann.
Borgaraflokkurinn klofnaði á sínum tíma og sömuleiðis þingflokkur Bandalags jafnaðarmanna eftir að á þing var komið.
Þingflokkur Alþýðuflokksins klofnaði 1938 og síðan aftur fyrir kosningarnar 1956 og enn á ný fyrir kosningarnar 1995.
Sama gerðist hjá þingflokki Samtaka frjálslyndra og vinstri manna á kjörtimabilinu 1971-74 eftir að þeir fengu fyrst kjörna þingmenn, Framsóknarflokkurinn klofnaði fyrir kosningarnar 1934 og þingflokkur Alþýðuflokksins klofnaði 1938.
Þingflokkur Sjálfstæðismanna klofnaði 1944 og aftur 1980 gagnvart stjórnarmyndunum þessi ár en náði síðan saman aftur. Þingflokkur Sjallanna klofnaði líka og leiddi af sér sérframboð bæði Jóns G. Sólness og Eggerts Haukdals, og Stefán Valgeirsson sagði skilið við Framsóknarflokkinn 1987 og komst af eigin rammleik á þing.
Og ekki má gleyma stofnun Borgaraflokksins 1987 í kjölfar klofnings þingflokks Sjálfstæðismanna.
Í flestum tilfellum voru það einn eða tveir þingmenn sem klufu sig frá þannig að til urðu "flokksbrot" sem voru oft vel neðan við 5% kjósenda á bak við þingmennina.
Sá tilgangur 5% þröskuldsins að vinna gegn sundrungu á þingi er óþarfur, því að þingflokkar klofna og fylkingar riðlast hvað eftir annað eins og dæmin hér að ofan sýna.
![]() |
Átökin mest um ESB-stefnu VG |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
4.1.2011 | 22:10
Hann er enn ekki farinn alveg, sá "forni fjandi".
Mikið hefur verið rætt um það undanfarin ár að siglingarleiðir muni opnast fyrir norðan Ameríku og Asíu þegar hlýnun loftslags á jörðinni valdi því að hafís minnki á þessum leiðum.
En ævinlega verður að gæta þess að svonefndar náttúrulegar sveiflur, sem frá fornu hafa oft verið taldar vera sjö ár í senn, halda áfram að setja strik í svona reikninga.
Afbrigði og sveiflur má ekki afskrifa, ekki heldur að afskrifa landsins forna fjanda", hafísinn.
Þetta hafa íbúar norðanverðrar Evrópu orðið að þola að undanförnu á sama tíma og óvenjulega hlýtt hefur löngum verið á sunnanverðum Labradorskaga og suðvestanverðu Grænlandi.
![]() |
500 manns fastir í ís |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.1.2011 | 19:50
Ekkert smámál ef kveikt hefur verið í.
Ég heyrði í útvarpsfréttum að lögreglan á Akureyri útilokaði ekki að kveikt hefði verið í húsinu við Eiðsvallagötu sem brann um daginn.
Rannsókn benti til að mesti eldurinn hefði verið undir glugga í kjallara sem var opinn að hluta.
Þegar maður heyrir svona og með fylgir að eldurinn kom upp á þeim eina tíma ársins þegar fólk hefur nýlega lagst í djúpan svefn eftir að hafa vakað fram eftir á gamlárskvöld og nýjársnótt liggur næst við að álykta að hugsanlegur brennuvargur hafi vísvitandi kveikt í þegar mest hætta var á því að fólk færist í eldinum.
Hin skýringin á því ef þarna hefur verið kveikt í einmitt af þessum sökum, kann að liggja í því að brennuvargurinn hafi valið sér þennan tíma til þess að sem mestar líkur yrðu á því að enginn yrði hans var.
Það skiptir ekki höfuðmáli heldur hitt að þetta mál verði upplýst, því að hrollur fer um mann við að heyra svona tíðindi.
![]() |
Við hefðum ekki vaknað sjálf |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.1.2011 | 19:55
Stöðutáknin eru alþjóðleg.
Í fornsögunum er miklu rými varið í lýsingar á ytri búnaði söguhetjanna, ekki síður en útliti þeirra og atgerfi. Lýst er fatnaði þeirra og vopnum og hestunum sem þeir sátu í smáatriðum.
Allt er þetta liður í að þjóna ímynd söguhetjanna.
Árið 2007 náði þessi hugsun hámarki hér á landi. Ef að fornu var sögupersónunni þannig lýst: "Hann var á hvítum hesti, gæðingi miklum, klæddur í bláa skikkju með gullbryddað belti um sig miðjan og gyrður stóru sverði með silfurslegnum hjöltum..." er lýsingin á okkar dögum: "Hann var á silfurlituðum stórum sjálfskiptum átta strokka Landcruiser með stigbrettum og álfelgum á 36 tommu dekkjum...o.s.frv...
"Fötin skapa manninn" segir máltækið og þetta máltæki virðist algilt hvar sem er í heiminum.
Sem dæmi má nefna að eftir að Pólland gekk í Evrópusambandið var hætt framleiðslu Fiat 126, sem kalla má nokkurs konar einkennisbíl Póllands, ígildi Mini í Bretlandi og Fiat 500 á Ítalíu.
Vinur minn, Jón Atli Ólafsson, sem á heima í Póllandi, segir að á örfáum árum hafi götumyndin breyst þar í landi úr því að hvergi var hægt að þverfóta fyrir Fiat 126 Maluch ("Lilli") í það að þeir séu nánast horfnir.
Pólverjar gefa greinilega mikið fyrir að sýnast menn með mönnum eftir að þeir komust í samfélag vestrænna lýðræðisþjóða og keppast við að komast yfir stöðutáknin.
Það virðist einu gilda þótt viðkomandi land sé með meiri og almennari fátækt en gengur og gerist.
Menn verða að sýnast vera menn með mönnum.
Líklega er sama fyrirbærið á ferð á Indlandi þar sem það þykir tákn um bága stöðu að vera á bíl sem er svo miklu ódýrari en allir aðrir bílar.
Nano er líka ekki eins hraðskreiður og aðrir nútímabílar, hestöflin aðeins 35 og hámarkshraðinn 105 km/klst.
Að vera á svo ódýrum bíl sé of áberandi merki fátæktar og skárra að vera bara fótgangandi eða hverfa í vélhljólafjöldann.
Ég hef ekkert nema gotta að segja um pólsku Fiatana mína sem hafa skilað mér um allt land, jafnt í byggðum sem á hálendinu.
Í raun var það aðeins á hippatímanum á síðustu öld sem bílar eins og Citroen bragginn, Volkswagen Bjalla og rúgbrauð og Mini urðu að stöðutáknum þeirra sem vildu nýja hugsun.
![]() |
Nanóinn hefur selst illa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
3.1.2011 | 09:39
Möguleikar íslenska vetrarins.
Ég hef margoft greint frá því hér á blogginu hvernig íbúar Lapplands hafa gert veturinn að jafngóðum ferðamannatíma og sumarið með því að selja ferðamönnum, sem koma þangað langt að, kulda, þögn, myrkur og ósnortna náttúru.
Sömuleiðis hafa þeir "stolið" jólasveininum af okkur og grætt á því.
Breskur blaðamaður frá Sunday Times, sem kom hingað fyrir mörgum árum, skrifaði í grein um ferðina að fyrirbærið skafrenningur hefði haft mest áhrif á sig, eitthvað sem hann hafði aldrei upplifað fyrr.
Þetta þótti okkiur Íslendingum fyndið þá, því að í okkar huga er það einmitt fyrirbæri eins og kuldi, myrkur, þögn og vont veður með skafrenningi sem hljóti að eyðileggja alla möguleika okkar til að nokkur útlendingur vilji koma hinga.
Íslensk hátíðahöld um jól og áramót eru alveg sérstök á marga lund, jólasveinarnir þrettán, Grýla, Leppalúði, tröllin og álfarnir, aldamótabrennur og flugeldahríðin mikla.
Allt sýnir þetta hvernig við tökumst á við skammdegið og getur laðað hingað vaxandi fjölda ferðamanna í svartasta skammdeginu úr þeim markhópi, sem finnst heillandi að kynna sér fyrirbærirð "survival", - það hvernig þjóðir og þjóðflokkar fara að því að komast af við erfiðar aðstæður.
![]() |
Ennþá með stjörnur í augum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
3.1.2011 | 00:05
Nýtt háhitasvæði í tindgíg jökulsins.
Þar sem mikill kraftur er í háhitasvæðum með öflugum hverum geta heyrst frá þeim drunur áþekkar þeim, sem heyrðust í dag til byggða.
Ég hef fylgst nokkuð vel með jöklinum langt fram eftir hausti, því að fjölmiðlamenn, rithöfundar og ljósmyndarar hafa komið með mér yfir hann til þess að ná af honum myndum og sjá með eigin augum þennan stað sem líktist fordyri vítis í gosinu í vor.
Ekkert hefur verið að sjá í allt haust á jarðskjálftakortunum sem bent gæti til þess að hann sé að rumska að nýju, hvað sem síðar verður.
![]() |
Drynur enn í Eyjafjallajökli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
2.1.2011 | 14:08
Balkanskagi 1914 - Miðausturlönd 2011
Á síðustu árunum fyrir 1914 hafði Balkanskagi verið "órólega hornið í Evrópu" og sannkölluð púðurtunna, því að hagsmunir stórveldanna með Þýskaland og Tyrkland sem bakhjarla, sköruðust þar, annars vegar Rússlands með bakstuðning í Frökkum og Bretum, og hins vegar Austurríkis-Ungverjalands.
Hvarvetna bjuggu menn sig undir "stórstyrjöld" líkt og nú gerist í Miðausturlöndum, en sögðu þó að það væri aðeins í varúðarskyni til þess að viðhalda jafnvægi og friði.
Margir áhrifamenn í Þýskalandi þóttust þó sjá, að því lengur sem slík styrjöld drægist, ef hún á annað borð brysti á, því verr stæðu Þjóðverjar að vígi.
Schlieffen-áætlunin hefði getað fært Þjóðverjum sigur á Frökkum ef hún hefði verið framkvæmd eins og hann lagði fyrir, svo að þessi hugsun var svo sem ekki svo galin ef útkljá þyrfti mál með vopnavaldi.
En áætluninni var breytt og allar þjóðirnar, sem héldu út í þetta stríð af bjartsýni og eldmóði, sannfærðar um skjótan sigur, uppskáru ekkert annað en gríðarlega eyðileggingu og mannfall og ávísun á aðra heimsstyrjöld.
Það er óhugnanlega margt líkt með ástandinu í Miðausturlöndum nú og var á Balkanskaga 1914.
Þegar við horfum fram á árið 2011 ætti helsta áhyggjuefnið kannski að vera það að verði "stórstyrjöld" í Miðausturlöndum eins og nú kemur fram að flestir virðast vera að búa sig undir.
![]() |
Bjóst við mikilli styrjöld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
2.1.2011 | 10:54
Munurinn á heiti og stefnumiði.
Það er mikið talað um áramótaheit við hver áramót og hvert sé gildi þeirra.
Ef litið er á það hve lítið vill oft verða úr áramótaheitum, jafnvel þótt sömu heitin séu strengd ár eftir ár, má draga af því þá ályktun að þau séu jafnvel til ills, vegna þess að verra sé að vinna slík heit en ekki af því að fólk verður dofið fyrir því að lúta sífellt í lægra haldi hvað þau varðar.
Ég held að fermingarheitið, sem flestir hafa unnið á sinni tíð, sé kannski dæmi um það hvernig eigi að nálgast þetta fyrirbæri.
Upphaf þess er: "Viltu leitast við af fremsta megni að...."
Þarna kemur fram munurinn á því að heita einhverju, sem mjög tvísýnt er um að gangi í gegn, eða að setja sér stefnumið, raunsæi þess sem sér að maðurinn er breyskur og að til eru heit sem jafnvel er útilokað að gefa.
Sé hugsunin þessi er kannski affarasælla að setja sér gott markmið í einu eða öðru um áramót og gera síðan upp reikingana eða stöðuna um þau næstu.
Ég hef til dæmis komist að því samkomulagi við sjálfan mig að létta mig að meðaltali um eitt til eitt og hálft kíló á hverjum mánuði ársins 2011 og verða tíu kílóum léttari um næstu áramót en ég er nú.
Ég veit af reynslunni að þetta er hægt með þolinmæði og festu og að ekki má láta hugfallast né slaka á þegar svona stefna er tekin.
Svo er bara að sjá hvernig gengur. Það hefur gengið síðustu árin vegna þess að stór hluti af aðhaldi í þessum efnum fólst í gríðarlega mikilli hreyfingu og orkueyðslu, sem ekki er lengur möguleg vegna lélegra og slitinna hnjáliða.
Í ljósi þess að offita er hugsanlega mesta heilsuvandamál samtímans væri gott að létta sig hæfilega en þó ekki í einhverjum látum, heldur jafnt og þétt, það reynist yfirleitt betur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.1.2011 | 15:13
Hin nöturlega lýsing skaupsins.
Í áramótaskaupinu í gærkvöldi var ágæt háðsádeila á þá mynd, sem almenningi birtist af störfum Alþingis í gegnum fjölmiða og Þráinn Bertelsson lýsir til dæmis ágætlega í blaðaviðtali sem málfundaræfingum og hálfgerðum fíflagangi oft á tíðum.
Gallinn við fjölmiðlun af störfum Alþingis er sá að aðeins er sjónvarpað beint frá hinum daglegu umræðum en ekkert frá meginstarfi þingsins sem eru nefndarfundirnir og eftir atvikum þingflokksfundirnir.
Upp úr þessum umræðum í þingsal grípa fjölmiðlar síðan oft á tíðum það sem sker sig úr og þykir vera mestur hasar og smám saman verður þetta sú mynd sem fólk fær af þinginu.
Þótt þingmenn geti ef til vill borið sig upp undan því að þessi mynd gefi ekki rétta heildarmynd af þinginu og störfum þess geta þeir einfaldlega sjálfum sér um kennt, því ef þeir hegðuðu sér öðruvísi í ræðustól þingsins og temdu sér betri framkomu þar myndi sú mynd breytast sem hefur skapað minna traust á Alþingi en flestum ef ekki öllum öðrum stofnunum landsins.
Á sínum tíma var núverandi forseti sjálfur þingmaður og fór oft mikinn í ræðustóli. Síðan hafa árin liðið og nú horfir hann og hlustar eins og við hin á þá illmælgi og offors sem allt of oft litar hina nauðsynlegu umræðu sem verður að fara fram um hagi lands og þjóðar, þar sem rök og yfirvegun þarf að ríkja í stað lýðskrums og uppsláttartilhneigingar sem hefur orðið til þess að þingið hefur sett niður í hugum þeirra sem kusu alþingismenn.
![]() |
Segir það ábyrgð þingmanna að leiðrétta ranghermi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)