SÓMI AKUREYRINGA, SKÖMM REYKVÍKINGA.

Flugvél flaug fyrst á Íslandi í Vatnsmýri í Reykjavík 1919. Ef allt væri með felldu stæði minnismerki um það á þessum stað við nýju Hringbrautina. Nelson og félagar hans lentu í Reykjavík í fyrsta hnattfluginu. Lindberg lenti þar líka. Zeppelin loftfarið flaug yfir Öskjuhlíðina 1930. Balbo og félagar lentu líka í Reykjavík. Súlan flaug frá Reykjavík í kringum 1930. Vagga íslensks flugs er því í Reykjavík því að flugfélag Akureyrar var ekki stofnað fyrr en 1938. En þessa sér hvergi stað í Reykjavík, - ekkert flugminjasafn, engin minnismerki.

Frá gamla flugturninum í Reykjavík var orrustunni á stórum hluta Norður-Atlantshafs stjórnað. Án sigurs í þeirri orrustu hefði engin landganga orðið í Normandí 1944 og Sovétmenn labbað vestur yfir Þýskaland. 

Gamli flugturninn er í niðurníðslu og áætlanir hafa verið uppi um að brjóta hann niður. Fulltrúum Breta á Íslandi er slíkt óskiljanlegt. Ég hef séð þar í landi og í Noregi og Frakklandi hvernig menn umgangast af virðingu og stolti hliðstæðar minjar um baráttuna gegn þeirri villimennsku sem Hitler stóð fyrir. 

Fyrstu stríðsárin voru Reykjavíkurflugvöllur, Skerjafjörður og Hvalfjörður miðja baráttunnar sem rekin var gegn nasistum frá Íslandi. Einu minjarnar um þetta eru varðveittar á byggðasafninu á Hnjóti við Patreksfjörð!

Þar stendur sjóflugvélaskýlið sem á sínum tíma var stærsta bygging Íslands og stóð í Vatnagörðum í Reykjavík.

Við ýmsar framkvæmdir á Reykjavíkurflugvelli hafa merkar flugminjar farið forgörðum og minnisverðar flugvélar farið í uppfyllingar undir flugbrautir.

Fyrsta millilandaflug Íslendinga var farið frá Reykjavíkurflugvelli, þar lenti fyrsta þotan og ótal frægar vélar úr flugsögu heimsins hafa lent þar.

Loftleiðir voru stofnaðar í Reykjavík og frá Reykjavík hóf Björn Pálsson brautryðjendaflug sitt með sjúklinga. 

Landhelgisgæslan hefur frá upphafi verið með starfsemi sína þar með tengsl við þorskastríð og fræknar bjarganir.

Svona mætti áfram telja upp ástæður fyrir því að þessarar merku sögu sæi stað í höfuðborg Íslands.

Sem borinn og barnfæddur Reykvíkingur skammast ég mín fyrir að svo er ekki.

Að sama skapi tek ég ofan hattinn fyrir Akureyringum og feðgunum á Hnjóti fyrir að reyna að bjarga því sem bjargað verður.

Fyrir tuttugu árum fannst mér skemmtilegt yfirlæti fólgið í nafninu "Flugklúbbur Íslands, Akureyri."

En það var okkur Reykvíkingum mátulegt að þeir fyrir norðan sendu okkur smá pillu sem nú er orðin að mörgum pilluglösum.

Arngrímur Jóhannsson á vafalaust drjúgan þátt í því hve sómi Akureyringa er mikill á þessu sviði.

Árans vandræði eru það að í höfuðborginni og vöggu flugsins á Íslandi skuli hvorki vera neinn Arngrímur né skilningur á þýðingu þess að varðveita söguna og menningararfinn á fleiri sviðum en þeim sem tengjast landi og sjó.  

 


mbl.is Forngripir flugsögunnar á einum stað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

AFDRIFARÍK MISTÖK Í FARANGURSFLUTNINGI.

Fréttin um 30 golfsettin sem Icelandair skildi eftir minnir á ein afdrifaríkustu mistök á þessu sviði sem urðu í ágúst 1950 þegar keppnistaska Arnar Clausens varð eftir á Reykjavíkurflugvelli og það kostaði hann líklega Evrópumeistaratitil í tugþraut. Þetta var sérlega slæmt fyrir tugþrautarmann sem notar fleiri en eina tegund af skóm í mismunandi greinum. Örn varð t.d. að fá lánaða allt of stóra skó hjá Jóel Sigurðssyni spjótkastara í köstin enda náði hann ekki sínu besta þar. 

Örfáum stigum munaði að Örn yrði Evrópumeistari og hann hefði meira að segja orðið sigrað ef ný stigatafla hefði þá verið tekin í gildi á mótinu.

Á þessum tíma voru flugsamgöngur stopular milli Íslands og Evrópu og ekki hægt að fá skó að heiman.

En það sem verra var, - í gildi voru innflutningshöft sem ollu því að sárafáir skór voru til. Sem dæmi um það má nefna að Torfi Bryngeirsson var svo heppinn að vinna í hlutkesti einu nýju stökkskóna sem svonefnt Fjárhagsráð úthlutaði KR.

Torfi sagði síðar að þetta hlutkesti hefði ráðið úrslitum um það að hann hreppti Evrópumeistaratitillinn í langstökki. 

Örn var ekki bara óheppinn með skóna, heldur var hann ljónheppinn í bókstaflegri merkingu hvað það snerti að Haukur, tvíburabróðir hans, keppti líka á EM og gat því lánað honum skó fyrir hlaupagreinarnar.

Á þessu móti gerðist það stórslys í íþróttasögu Íslendinga að Haukur fékk ekki að keppa í sinni bestu grein, 200 metra hlaupinu, en varð sammt fimmti í 100 metra hlaupinu.

Eftir EM fór Haukur til Svíþjóðar og náði þar besta tíma ársins í Evrópu í 200 metra hlaupi og setti Norðurlandamet sem stóð í annan áratug!

Örn Clausen var þriðji besti tugþrautarmaður heims árin 1949, 1950 og 1951 og ég hef fært að því rök að hefðu bræðurnir ekki hætt keppni aðeins 23 ára gamlir hefði verið góður möguleiki á því að þeir hefðu báðir getað staðið á verðlaunapalli fyrir tugþraut á OL í Melbourne 1956. 

Nánar má lesa um þetta í bókinni "Mannlífsstiklur" þar sem meðal annars er fjallað um fræknasta lið íþróttamanna sem Íslendingar hafa sent til keppni erlendis.  

 

 


mbl.is Icelandair skildi 30 golfsett eftir á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

FLUGIÐ FYRIRMYND FYRIR BÍLAUMFERÐINA.

Flugslysum hefur ekki aðeins fækkað í þotuflugi í heiminum heldur hefur flugslysum fækkað hér á landi síðustu ár. Margt af því sem reynt er að gera í fluginu mætti gera í bifreiðaakstri. Flugmenn verða að halda við færni sinni og vera í æfingu í viðbrögðum við óvæntum uppákomum, s. s. ofrisi og spuna. Hversu oft heyrum við hins vegar ekki setninguna: "...missti stjórn á bílnum..." og síðan kemur "orsökin", lausamöl, hálka o. s. frv. 

Ég byrjaði að suða um æfingasvæði fyrir ökumenn fyrir meira en þrjátíu árum á borð við þau sem ég sá þá í löndum í Evrópu sem voru mun fátækari en okkar.

Nú verður yfirgnæfandi hluti banaslysa og alvarlegra slysa vegna þess að belti eru ekki notuð. Segja má að óhugsandi sé að slík slys geti gerst í flugi.

Hversu oft heyrum við ekki setninguna: "...kastaðist út úr bílnum...."og samt er ekki sagt alltaf frá því, hvað þá að viðkomandi hafi augljóslega ekki verið í bílbelti. Það er misskilin tillitssemi við hinn látna eða slasaða að segja ekki frá svo mikilvægum atriðum varðandi slysið.

Segja má að hann hafi ekki látist eða slasast til einskis ef mistök hans geta orðið öðrum til varnaðar.  

Það er til einskis að hafa allt að sjö líknarbelgi í bílum ef bílbeltin eru ekki notuð. Ég gæti haldið áfram að telja upp fleiri atriði sem öryggisviðleitni í umferðinni á borð við það sem tíðkast í fluginu gæti skilað í fækkun slysa en læt þetta nægja. 

 


mbl.is Slysatíðni í þotuflugi fer ótvírætt lækkandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

TVINNBÍLAR, - VIL SJÁ ALLAN PAKKANN.

Uppgefnar tölur um eyðslu og útblástur tvinnbíla segja ekki allt. Þeir eru flóknir og dýrir í framleiðslu og þess vegna þyrfti að reikna út hve mikla aukaorku, útblástur og not hráefna þarf til að framleiða hvern bíl. Þeir eru þyngri vegna rafgeymanna en sambærilegir bílar hvað eyðslu og útblástur snertir og slit hjólbarða og búnaðar meiri. Þeir taka meira rými á götunum sem aftur þýðir meiri kostnað, umferðartafir og þar með útblástur en ef minni bílar væru notaðir.

Bendi á ágætar tölur sem kollegi minn Sigurður Hreiðar er með á sinni bloggsíðu.

Fyrir meira en tíu árum gerði Toyota langtímaáætlun sem Japanir eru snillingar í. Á sama tíma og GM hætti við smíði frábærs tvinnbíls vegna þess að hann yrði fjárhagsleg byrði, tók Toyota forystuna og setti Prius á markað þótt fyrirsjáanlegt tap yrði á framleiðslu hans í allt að áratug.

Fleira gerðu þeir sem þeir áætluðu að myndi borga sig síðar og nú uppskera þeir á þann hátt að flestir sérfræðingar telja að þeir muni á næstu árum bruna fram úr GM sem stærsti bílaframleiðandi heims.

Íslensk stjórnvöld eru að mínu mati enn með flest niðurum sig í þessu efni. Dísilbílar eyða mun mina en bensínbílar og munurinn er meiri hér á landi en erlendis vegna lágs lofthita, en í kuldum eykst eyðsla benzínvélanna mun meira en dísilvéla.

Fyrir því hef ég meira en áratugs reynslu. Í stað þess að ívilna dísilbílunum eins og aðrar þjóðir gera er ríkissjóður í skammsýnni græðgi sinni á fullu í því að halda hér uppi hæsta verði á dísilolíu sem þekkist í heiminum.

Enn er haldið hér uppi ívilnunum gagnvart svonefndum "pallbílum" sem gerir það að verkum að hægt er að fá nýjan stærðar fernra hurða pallbíl fyrir rúmar 2,6 milljónir króna. Slegið er af meira en hálfri milljón af hverjum bíl og enn meira þegar bílarnir verða stærri, t. d. Cadillac- og Chevrolet-pallbílar sem eru í raun risastrórir lúxuslimmar þótt að til málamynda sé pallur aftast á þeim.

Sagnfræðingar síðari tíma munu vafalaust velja 3ja tonna 6,5 metra pallbíl sem þjóðartákn Íslendinga á okkar tímum. Aðeins hluti þeirra sem eiga slíka bíla hefur raunveruleg not fyrir slíka dreka, t. d. við að draga stór hjólhýsi eða hestakerrur eða að stunda jöklaakstur og nota minni bíla með fyrir borgaraksturinn. Þetta myndi breytast ef þessir bílar væru tollaðir eins og löngu er orðið tímabært að gera.

Sá sem mengar og notar á að borga í réttu hlutfalli mengun og not.

En Ragnar Reykás blómstrar sem aldrei fyrr þegar hann fer að versla í Bónus "á sínum fjallabíl".

 

 


SEX ÁRA FELULEIKUR SENN Á ENDA?

Haustið 2001 flutti Guðmundur heitinn Sigvaldason varnaðarorð vegna framkvæmdanna við Kárahnjúka. Síðan hefur staðið yfir stöðugur feluleikur um þetta mál eins og ég rek í bloggi hér á undan. Nú er hugsanlega senn á enda það tímabil sem best verður lýst með orðum Davíðs Oddssonar um loftslagsbreytingarnar: "Skrattinn er leiðinlegt veggskraut".
mbl.is Jarðskjálftar við Upptyppinga benda til kvikuhreyfinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

FYRSTA ELDGOS HEIMS AF MANNAVÖLDUM?

Íslenskir jarðvísindamenn telja að skjálftarnir sem hófust í tengslum við fyllingu Hálslóns í sumar geti valdið því á næsta ári að eldgos hefjist á sprungusveim Kverkfjalla sem staðið gæti í áratugi eða jafnvel aldir! Þetta gæti hleypt fjöri í svæðið vestan Hálslóns eins og Guðmundur heitinn Sigvaldason var búinn að færa rök að fyrir sex árum. Þá var ræddi hann þó meira um lónstæðið sjálft.

Þegar ég bloggaði um þetta síðsumars og reyndi að vekja athygli á þessu tóku fáir mark á því. Einn blaðamaður á DV hringdi í mig en aðrir fjölmiðlar sáu ekki ástæðu þá strax til að minnast á þetta.

Það var ekki fyrr en að Stöð tvö náði síðar í viðtal við sérfræðing á Veðurstofunni að hjólin fóru að snúast. 

Ég frétti raunar af umræðu í útvarpi þar sem menn sneru þessu upp í fögnuð yfir möguleikum á að græða á "túristagosi". Það er jú staðreynd að hægt yrði að "selja" það sem fyrsta og eina eldgosið í heimiinum af mannavöldum. Og haldið þið að það sé nú ekki munur að Landsvirkjun hefur lagt malbikaðan veg langleiðina að þessu verðandi eldgosasvæði!  

Aðrir myndu hins vegar geta bent á það að þetta væri í algeru ósamræmi við þá verðmætustu ímynd Íslands að það væri ósnortið og gæti raunar stórskaðað þessa ímynd eða eyðilagt hana.

Þessir síðastnefndu myndu hins vegar verða að láta í minnipokann fyrir því sjónarmiði að peningarnir vegna ferðamannanna sem dáðust að manngerða gosinu kæmu strax en ekki í fyllingu tímans eins og tekjur af ferðamönnum framtíðarinnar í kjölfar markvissrar uppbyggingar án stórfelldra náttúruspjalla.

Hinir nýju eldgosafagnarar eru alveg rólegir vegna Hálslóns því að það sé 20 kílómetra í burtu.

Blaðið afgreiddi málið á sínum tíma með því að færa Kárahnjúka og Snæfell til á kortinu um 40 kílómetra til þess að sýna styðja þá fullyrðingu sína að Kárahnjúkasvæðið tengdist þessu á engan hátt!  

Þegar Guðmundur Sigvaldason kom fram með kenningu sína 2001 þurfti ég að berjast fyrir því að fá að segja frá því sem mér fannst vera mikilvæg frétt og "skúbb" í 50 sekúndna frétt aftarlega í seinni fréttum. Ég gat að vísu ekki beitt mér því að nema hæfilega mikið af ótta við að vekja grunsemdir um að ég væri hlutdrægur. Enda vakti fréttin svo sem enga athygli á þessum felustað.

Alla tíð síðan þá hefur ríkt mikil feimni við að horfast í augu við það sem menn eru að gera þarna. Lengi var klifað á því að mannvirkin við Kárahnjúka væru utan við hættusvæði og horft framhjá þeirri  staðreynd að óróinn er á sprungusveim sem liggur úr Kverkfjöllum beint í Kárahnjúka.

Ég ætla að endurtaka það sem ég bloggaði í ágúst að ástæða kunni að vera að hafa meiri áhyggjur af því sem getur gerst þegar fer að lækka í Hálslóni síðla vetrar. Þar má hafa til samanburðar að gos hafa orðið í Grímsvötnum í tengslum við það að lækkað hefur í vötnunum og þrýstingur vatnsins ofan á jarðskorpuna hefur minnkað.

Spurning mín sem leikmanns er þessi: Þegar Hálslón lagðist ofan á landið sem farg, var þá ekki eðlilegt að kvika leitaði upp á við í sprungusveimnum til hliðar við fargið? Varla fór kvikan að lyfta sér beint undir farginu?

Og á sama hátt, þegar fargið léttist á útmánuðum, má þá ekki búast við að kvikan leiti þar upp, þ. e. í þeim hluta  sprungusveimsins sem liggur í gegnum stífluarnar?

Ef hún leitar þá upp t. d. um sprungurnar sem komnar verða á þurrt í Sauðárdal rétt suðvestan við Kárahnjúkastíflu, hvaða áhrif mun það hafa á stífluna? 

Ef kvikan leitar upp um sprungur sem liggja á ská undir lónið og beint undir Desjarárdalsstíflu, gæti þá orðið öskugos?  

"Skrattinn er leiðinlegt veggskraut" sagði Davíð Oddsson á sínun tíma um það að hlýnun jarðar væri af mannavöldum.

En ég segi: Ekki veldur sá er varar.  

Jón Helgason orti í ljóðinu Áföngum um "Kverkfjallavættir reiðar."

Nú hafa menn storkað Kverkfjallavættunum og sumir virðast aðeins sjá gróðavon í því ef "showið" hefst.  

 


BAULAÐU NÚ, BÚKOLLA MÍN !

Gamall kúarektor frá Hvammi í Langadal um 1950 kippist við þegar rætt er um innrás sænskra kúa. Í Hvammi voru landnámshænur og íslenskir hestar drógu sláttuvélar og rakstrarvélar. Gildi hestanna miðaðist fyrst og fremst við afköst þeirra sem dráttardýra. Ekki er að efa að sænskir hestar hefðu verið afkastameiri og hagkvæmari en sem betur fer varð innrás dráttarvéla til þess að aldrei var í umræðunni að víkja íslenska hestinum til hliðar. 

1950 hefði engum dottið í hug að einstakir skapsmunir, lipurð og nægjusemi íslenska hestsins ætti eftir að skapa milljarða verðmæti. 

Næstum tókst að útrýma landnámshænunum á Íslandi á altari hagræðingar en sem betur var síðustu eintökunum bjargað.

Við útreikninga á gróðanum af sænsku kúnum er ekkert tillit tekið til þess mikla kostnaðar sem það hefur í för með sér að breyta fjósunum eða reisa ný. Ekkert er minnst á gæði mjólkur sænsku kúnna, bragð eða hollustuna sem læknavísindi hafa nú uppgötvað að felist í mjólk íslensku kúnna. Ekki reynt að setja verðmiða á þá möguleika sem slíkt gefur. 

Heldur er ekkert minnst í fréttum af þessu máli á lund sænsku kúnna og skapferli, hvernig er að fást við þær. Ef við værum að skipta út bílaflotanum myndi það skipta máli hvernig er að umgangast bílana.

Ekkert er minnst á það í fréttum af þessu máli hvort mjólk íslensku kúnna kunni ekki að verða milljarði verðmætari við það að vera kynnt og seld sem einstök hollustuafurð.

Líklegast eru sauðkindur í löndum sem eru hlýrri en Ísland stærri og afurðarmeiri en hinar íslensku. Nú er spáð hlýnandi veðurfari hér á landi þannig að hugsanlega má reikna 11% gróða út úr því að flytja inn skoskar, sænskar eða nýsjálenskar kindur. Er það kannski næst á dagskrá?  

Baulaðu nú, Búkolla mín, segi ég nú bara, - en af því að nútímafólkið á malbikinu skilur ekki baul þitt, skal ég reyna að baula fyrir þig í þessara bloggfærslu og tjá þér virðingu mína og þökk. 

Hvernig sem allt fer er vonandi að ekki fari fyrir íslensku kúnni eins og landnámshænunni, að hún lendi í útrýmingarhættu.  

Glaður skal ég borga 11 prósent hærra verð fyrir mjólkina úr hinni íslensku Búkollu en úr hinni sænsku Gilitrutt!  


"EIGI LEIÐ ÞÚ OSS Í FREISTNI..." - RÉTT ÞÝÐING?

Umræðan og deilurnar um nýja þýðingu Biblíunnar sýnir ítök hennar hjá þjóðinni. Fyrir mörgum árum heyrði ég í útvarpsviðtali að mætur prestlærður maður hélt því fram að setningin "Eigi leið þú oss í freistni..." í Faðirvorinu væri ekki rétt þýdd ef miðað væri við upphaflega textann. Ég man ekki nákvæmlega í hverju þessi villa ætti að vera fólgin en hún gæti hafa verið falist í því að í stað þess að biðja Guð um að lokka okkur ekki í freistni væri beðið um að hann hjálpaði okkur til að forðast freistingar, en á þessu tvennu er mikill munur.

Þekkt er sú mikla áhersla sem lögð er á það í hegðun fíkla sem eru nýkomnir úr meðferð að þeir forðist umhverfi sem freisti þeirra til að falla fyrir fíkninni.

Fíkillinn fær "sponsor" eða hjálparmann sem bannar honum að vera þar á ferð þar sem freistingarnar eða neysla er mikil.

Ég man dæmi fíkils sem var bannað að fara í stórafmæli vinar síns vegna þess hve þar væru margir á ferð sem væru í neyslunni. "Viltu verða lifandi til að fara í fimmtugs- sextugs og sjötugsafmæli hans eða ekki? sagði hjálparmaðurinn.

Fíkillinn umræddi var líka að reyna að hætta að reykja en engdist sundur og saman við það að fara á gamlar bíómyndir þar sem leikararnir reyktu.

Þekkt er líka hve erfitt það er að hætt að reykja fyrir annan aðilann í hjónabandi ef hinn heldur áfram.

Alþjóðlegar rannsóknir styðja þetta og þess vegna er það líklega ávísun á meiri áfengisneyslu að selja áfengi í matvörubúðum.

Mér fyndist það vera mikil heimtufrekja að krefjast þess af Guði að hann sé ekki að setja upp freistingar fyrir áfengisfíkla í matvörubúðum þegar ljóst er að þetta gerum við sjálf ef það verður ákveðið á Alþingi.

Þess vegna gæti ég vel trúað því að umrædd setning í Faðirvorinu ætti að vera svona: "Hjálpa oss til að forðast freistingarnar."


ÝKT ANDLÁTSFREGN.

Að gefnu tilefni vegna viðtals við mig og Unni Birnu Vilhjálmsdóttur í Fréttablaðinu í dag skal það tekið fram Vilhjálmur Einarsson er sprelllifandi og því stórlega ýkt að hann sé "heitinn" eins og hefur slæðst inn í textann á einhvern ótrúlegan hátt þar sem ég lýsi yfir aðdáun minni á afrekum hans.

ÓTRÚLEG LÍKAMLEG "HAMSKIPTI".

Sá sýningu Hamskiptin í Þjóðleikhúsinu í kvöld, sérlega áhrifamikla sýningu sem minnir að sumu leyti á Nashyrningana á sínum tíma í sterkum boðskap sínum.Leikararnir skiluðu honum vel og uppfærslan var eftirminnileg svo að ekki sé meira sagt, - hreint ótrúleg svo að notað sé útþvælt lýsingarorð sem getur ekki lýst svo viðunandi sé líkamlegu og andlegu afreki Gísla Arnar Garðarssonar sem varla er unnt að hugsa sér að nokkur leikari geti leikið eftir.

Ég vil ekki ræna væntanlega leikhúsgesti einstæðri upplifun með að útlista þetta nánar, - en hér var um að ræða leikhús þar sem farið er að ítrustu mörkum mannlegrar getu og ósvikinna úrlausna til að ná fram hámarks áhrifum.

Á tímum tölvubrellna í kvikmyndum er hollt fyrir fólk að sjá hvað hægt er að gera á sviðinu án nokkurra sjónhverfinga tölvualdar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband