Gerðum við eitthvað fyrir þá í den ?

Nú kemur í ljós hvar við Íslendingar eigum hauka í horn og vini í raun. En þegar þessir næstu nágrannar okkar og skyldmenni sýna þetta vinarþel reikar hugurinn aftur til þeirra tíma þegar þeir voru í okkar sporum  og misstu sem svarar 40 þúsund manns úr landi, miðað við stærð okkar þjóðar.

Ekki rekur mig minni til að við höfum sýnt þeim á þeim tíma slíkan rausnarskap þegar þeir þurftu á slíku að halda en ef þetta er misminni hjá mér væri gott að fá ábendingu um það.

Hvað um það, - Færeyingar eru vinir í raun og hvergi finnst mér jafn gott að koma utan landsteinana og til Færeyja.  


mbl.is Siðferðileg skylda að hjálpa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Akkerið upp og niður, inn og út.

Í veðurofsa fjármálastrandsins eru aðgerðirnar á strandstað þannig frá degi til dags þannig, að engu er líkara en menn viti ekki sitt rjúkandi ráð. Seðlabankinn var nýfarinn að draga akkerið upp og færði að eigin mati fyrir því gild rök sóknar eftir stöðugleika. Nú lætur hann það falla aftur og talar áfram um gild rök aðgerða til að stuðla að stöðugleika.

Vaxtahækkunin stuðlar að því að Daemoklesarsverð krónubréfanna hangi áfram yfir okkur með gjalddögum, sem nálgast óðfluga eins og sker sem rekið er í áttina að. Skútan hefur ekki strandað á einu skeri, - hún er í skerjagarði og hrekst frá einu skeri á annað. 

Veðurspárnar voru hunsaðar, vanrækt að afla sér björgunarbúnaðar eða halda björgunaræfingar. Í stað þess að hægja á siglingunni í átt að skerjagarðinum og beina skútunni í átt frá honum þóttust skipstjórnarmenn ekki sjá að blikurnar sem komu upp á himinninn og bentu á komandi óveður.

Þeir treystu því að óveðurslægðin væri aðeins lægðarbóla. Nú kenna þeir því um að um óheppni hafi verið að ræða, - svona veður skelli ekki á nema með margra áratuga millibili.

Í stað þess að hanna mannvirkin með tilliti til slíkra óveðra var ákveðið að láta reka á reiðanum.

Á íslensku heitir þetta að veðja á rangan hest. Að stunda slík veðmál geta áhættufíklar gert fyrir sjálfa sig en ekki fyrir heilar þjóðir. 


mbl.is Vaxtahækkun vegna IMF
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veskið oft á dag.

Það hefur verið sagt vera helsta lögmálið í kosningum að fólk kjósi eftir veskinu. Oft hefur það verið þannig í íslenskum stjórnmálum að mikilar sveiflur hafa verið í skoðanakönnunum en síðan hefur fylgið skilað sér í básana á kjördegi. Það verður afar fróðlegt að vita hvernig þetta verður núna.

Fundurinn í Iðnó og mótmælafundir og göngur undanfarnar vikur sýna að gríðarleg undiralda er í þjóðfélaginu sem getur endurspeglast í slíkum skoðanakönnunum, bæði í sveiflum á fylgi flokkanna og einnig í því að allt að helmingur kjósenda sýnir stjórnmálamönnum vantraust með því að vilja ekki gefa upp stuðning við neinn þeirra.

Líklegt er að stjórnmálamennirnir muni treysta á það sem kallað hefur verið gullfiskaminni kjósenda þannig að ekkert markvert muni breytast í næstu kosningum.

En þá er það bara spurningin hvort veskið geti truflað þetta fyrir þeim. Á hverjum einasta degi næstu árin munu kjósendur verða minntir á þá sem áttu að vera á vaktinni og við stjórnvölinn þegar hrunið byrjaði sem fólk mun finna á veskinu oftar en einu sinni á dag.

Sumir á þann hátt að ekkert sé í því. Ef veskið mun ekki ráða neinu nú og næstu árin mun það varla ráða neinu framar.

Og þá er þetta lögmál sé ekki eins algilt og af er látið.


mbl.is Húsfyllir í Iðnó - hiti í fundargestum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úlfurinn 1987 og 2008.

1987 varð mikil lækkun á hlutabréfum í Wall Street. Ég man að ég vann ásamt fleirum á fréttastofu Sjónvarpsins undir stjórn Yngva Hrafns Jónssonar við að senda út aukafréttatíma um kvöldið. Næstu daga á eftir rétti markaðurinn sig af og við vorum sakaðir um að hafa gert of mikið úr málinu og hrópað úlfur! Úlfur!

En nú á slíkt ekki við lengur. Úlfurinn er raunverulegur og fer um allan heiminn. Það er sérkennileg tilviljun að í upphafi síðustu aldar liðu 22 ár á milli þess að mikil lækkun varð á markaðnum, en J.P.Morgan tókst á undraverðan hátt með aðstoð annarra að koma í veg fyrir hrun.

Þetta fyllti menn kæruleysi, - úlfurinn sem talað var um 1907 virtist ekki raunverulegur. En 1929 var hagkerfið miklu stærra og flóknara og aðdragandinn alveg sá sami og nú, - sívaxandi verslun með verðmæti, sem höfðu að mestu verið á pappírnum.

Nú er fjármálakerfi heims miklu stærra og flóknara en 1987 og undirrótin auk þess undimálslán, afleiður, vogunarsjóðir og krosstengingar um allan heim. Kínverjar hafa fjármagnað gríðarlegan viðskiptahalla Bandaríkjanna og það hlaut að koma að því að þessi spilaborg hryndi, ekki aðeins á Íslandi heldur í fleiri löndum.

Það má búast við meiri tíðinum og mörgum þeirra ótrúlegum, bæði hér og um allan heim næstu vikur og mánuði.


mbl.is Hlutabréf falla áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fróðlegt að heyra útskýringar...

Fróðlegt verður að heyra útskýringar Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar á því að ganga ekki að tilboði Breta um flýtimeðferð við að koma Icesafe undir breska lögsögu. Þetta átti að kosta sem svaraði 40 milljörðum króna samkvæmt orðum Björgólfs Thors og að baki að liggja fimmfalt veð, það besta sem völ var á.

40 milljarðar eru miklir peningar en smápeningar miðað við það sem nú er verið að togast á um. 


Pattstaðan vegna ESB.

Svo virðist sem andstaðan við stöðu Davíðs Oddssonar sé meiri í Samfylkingunni en hjá Vinstri grænum. Það má einnig sjá það í skoðanakönnun Fréttablaðsins að þrátt fyrir fylgistap eru Sjallarnir og VG með meirihluta atkvæða. 

Staðan er því að því leyti óbreytt frá í kosningunum 2007 að Davíð (sem sagt er að hafi þá viljað samstarf með VG ) hefur það ennþá uppi í erminni að þessi tveir flokkar geta stöðvað áform um að tengjast ESB. 

Með þessu er Samfylkingin læst í faðmlagi Davíðs og Geirs, - hún getur ekki myndað stjórn með VG nema falla frá sívaxandi áherslu sinni á inngöngu í ESB, nú síðast í ályktun ASÍ. 

Meðan svona er málum háttað er varla annað að sjá en að eini möguleiki VG að komast í stjórn sé með Sjálfstæðisflokknum, svo mótsagnakennt sem það kann að sýnast. Ef halda á þeim möguleika opnum er nauðsynlegt fyrir VG að atast ekki of mikið í Davíð. Þeir kunna að þurfa á honum að halda. 

Kannski hef ég rangt fyrir mér en á taflborði stjórnmálanna þar sem menn sækjast eftir því að komast til áhrifa í ríkisstjórn og segja að það hafi aldrei verið brýnna en þegar viðfangsefnin eru mest krefjandi, - á slíku taflborði kann að vera óheppilegt að ryðja burtu mönnum af borðinu sem hafa sterk ítök í sínu liði.

Það verður ekki annað séð en að Davíð hafi Geir og forystu flokksins í vasanum, samanber eindregin ummæli Geirs í Kastljósinu.   


Ókostir fámennisins.

Það eru ýmsir kostir fólgnir í því að vera fámenn þjóð. Það getur oft eflt samkennd og samstöðu. En ókostirnir eru einnig stórir, svo sem öll þau hagsmunatengsl og klíkuskapur sem byggjast á því að flestir þekkja flesta. Ein helsta krafan nú hlýtur að vera að komast til botns í því hvað raunverulega gerðist og hvers vegna. Þá dugar ekki nein innlend "hvítbók" sem verði aðeins hvítþvottarbók.

Það er ástæða til að að halda þessari kröfu stíft fram og leyfa ekki undanbrögð. Mann grunar nefnilega að ætlunin geti verið að gera þetta á jafnónýtan hátt og gert var með stofnun Landsnefndarinnar svonefndu 1771 en í henni var aðeins einn útlendingur.

Ef þessu verður klúðrað verður það afdrifaríkt.  


mbl.is Óheppilegt að þingmenn stýri sjóðunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var olía í slökkvifroðunni ?

Eitt stærsta viðfangsefni óvilhallra erlendra sérfræðinga sem óhjákvæmilega verður að fá til að skoða bankahrunið íslenska verður að athuga hvort aðgerðir og yfirlýsingar íslenskra og breskra yfirvalda 6. og 7. október hafi verið misráðnar. 

Neyðarlögin íslensku áttu að vera froða á elda bankakreppunnar en Björgólfur Guðmundsson færir að því rök að tímasetningin hafi verið kolröng og niðurstaðan orðið þveröfug við tilganginn, - þessi fordæmalausu lög hefðu virkað sem olía á eld sem læsti sig um alla íslensku bankana.

Á sama hátt eru breskir kunnáttumenn farnir að tala um að hryðjuverkalaganotkun Breta hafi verið vanhugsuð fljótfærnisaðgerð sem muni ekki ná þeim tilgangi sem að var stefnt heldur þvert á móti.


mbl.is Aðgerðir Breta sköðuðu alla bankana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það sem flestir nefna.

"Ekki benda á mig" sagði varðstjórinn í lagi Bubba og það er rauði þráðurinn í því sem allir segja nú sem tengjast hruni íslensks fjármálalífs. Margt á líklega enn eftir að koma í ljós sem varpað getur nánara ljósi á það en samt er það undarleg tilviljun hvað langflestir nefna og hafa sumir hverjir nefnt síðustu ár, en það er krónan og stefna Seðlabankans.

Sú stefna, stýrivexitir og afnám bindiskyldu þýddi óraunhæfa uppskrúfun á háu gengi krónunnar sem leiddi af sér óðainnflutning, lántökur og skuldsetningu til eyðslu og þenslu auk krónubréfanna sem hengu beinlínis eins og bensínbrúsar yfir þenslubálinu. Margir af færustu kunnáttumönnum okkar bentu á þetta æ ofan í æ en ekkert gerðist.    

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins í dag er sagt að ekki verði gerð breyting á þessu nema með samþykki Sjálfstæðisflokksins. Og hvað þýðir það? Að það þurfi að bíða til 2011 til að Sjálfstæðisflokkurinn muni að lokum fá þá útreið í kosningum að það þurfi ekki lengur samþykki hans? 

 


mbl.is Krónan stærsta vandamálið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Inn á við og út á við.

Nú er runnið upp tímabil í sögu þjóðarinnar þar sem við fáum tilefni til að beina sjónum okkar inn á við að heilsu og velferð sjálfra okkar og út á við, að samskiptum við aðra, aðrar þjóðir og framkomu okkar gagnvart komandi kynslóðum. Hvernig sem allt veltur megum við ekki úthýsa birtunni úr sálum okkar eins og mér finnst rétt að orða það í texta, sem ég birti í bloggpistli mínum í gær.
mbl.is Innstæður frystar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband