Tákn vestræns frelsis og lýðræðis.

Frelsisstyttan í New York, sem nú á merkisafmæli, er eitt helsta kennileiti heims og líklega helsta tákn vestræns lýðræðis og frelsis.

Bandaríkjamenn voru víst í upphafi ekkert sérstaklega hrifnir af þessari gjöf en nú er líklega leitun að nokkrum þar sem afneitar mikilvægi þessarar stórfenglegu styttu.

Í fréttum í morgun var greint frá því að 60 milljónir Bandaríkjamanna byggju ekki við eitt af fjórum tegundum frelsis, sem Roosevelt lýsti yfir sem stefnumarki í janúar 1941.

Það er frelsið sem svo sjaldan er nefnt, "frelsi frá skorti".  Þeim Bandaríkjamönnum, sem ekki njóta þessa frelsis fer fjölgandi.

Annað fjórfrelsið, sem erfitt er að viðhalda er "frelsi frá ótta."  Árásin á Tvíburaturnana 11. september 2001 réðst beindist sérstaklega gegn þessu frelsi.

Ekki skal gert lítið úr þeirri áherslu á frelsið sem Bandaríkjamenn leggja á frelsið og það mikilvæga hlutverk sem þeir hafa gegnt í því að berjast fyrir því, til dæmis í Seinni heimsstyrjöldinni.

En stuðningur þeirra við ófrelsisstjórnir víða um heim sem þeir hafa veitt eingöngu vegna þröngra eiginhagsmuna er blettur á þessu forysturíki vestræns lýðræðis.

Og mannréttindabrot þeirra á ýmsum sviðum og tregða við að taka upp ýmis mál af þeim toga hafa ekki verið þeim til sóma.

Frelsi eins endar þar sem frelsi annars  byrjar. Þessu hafa ákveðnustu talsmenn yfirgangs óhefts og eftirlitslauss gróða oft gleymt með afdrifaríkum afleiðingum.

Að vísu er orðið frelsi fyrst í röðinni í kjörorðinu frelsi!  Jafnrétti ! Bræðralag, en frumforsenda fyrir frelsinu er það að allir hafi jöfn tækifæri til að njóta þess og að samstaða sé um það.

Nær ótakmarkað frelsi örfárra á kostnað fjöldans hlýtur að verða að víkja fyrir því að stefnt sé að mestu samanlögðu frelsi allra jarðarbúa.  

 

 


mbl.is Frelsisstyttan 125 ára í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefði þótt fjarstætt fyrir 20 árum.

Eftir grimmilegt stríð Japans og Kína 1937-1945 lágu tugir milljóna manna í valnum og gríðarleg eyðilegging hafði orðið í þessum löndum.

Þegar Preston Tucker sagði í réttarhöldum um 1950 að Bandaríkjamenn yrðu að breyta um hugsunarhátt í framleiðslugreinum sínum vegna þess að annars kynnu Japanir og Asíuþjóðir að ná völdum á heimsmarkaði gall við almennur hlátur í réttarsalnum, svo fráleit þóttu þessi orð.

Fáa hefði órað fyrir því eftir Kóreustríðið að úr rústunum í Suður-Kóreu risi iðnaðarveldi, hvað þá að eftir allt tjónið sem stjórnarfar og ævintýramennska Maós formanns kostaði Kínverja og kristallaðist í uppreisninni á Torgi hins himneska friðar 1989, kæmi sá dagur eftir aðeins 20 ára að Kína yrði slíkt stórveldi í iðnaði og fjármálum að efnahagur Vesturlanda gæti staðið eða fallið með gjörðum þessa alræðisríkis.

Nú liggur fyrir í fréttum dagsins að Kínverjar eiga SAAB-verksmiðjurnar, himinháar innistæður og eignir á Vesturlöndum og hafa að mörgu leyti ráð heimsins í hendi sér, þótt mörgum þyki súrt í broti að ríki með harðsvírað einræði einnar flokksklíku og opinbera skoðanakúgun skuli hafa komist í þessa aðstöðu.

Heimurinn er orðin ein heild og staða Kínverjar er tvíbent því að hinn miklli hagvöxtur í Kína er háður því að fjármálaheimurinn og efnahagsstaða heimsins fari ekki úr böndunum.

Enn er gríðarleg fátækt og misrétti í Kína og því klökkt ef fjármálaleg orka ríkisins þurfi að fara í að fjármagna bruðl og ævintýramennsku vestrænna þjóða til þess eins að tryggja vaxandi auð yfirstéttarinnar í Kína.

Kína er jafnháð olíu Arabalanda og Vesturlönd og þess vegna er upp komin verkaskipting milli Kína og Bandaríkjanna sem hentar Kínverjum. 

Hún felst í því að Kína lætur Bandaríkjamönnum í raun eftir það hlutverk að eyða óheyrilegum fjárhæðum í að viðhalda ríkjandi ástandi í mikilvægustu olíuríkjunjum með því að halda uppi langöflugasta og dýrasta her heims og nota hann á sama tíma sem Kína lætur Bandaríkjamenn verða æ háðari sér um lánsfjármagn til að kosta þá "heimslögreglu" NATÓ sem Bandaríkjamenn reka í raun.  


mbl.is Mun Kína bjarga ESB?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"...Allir myndu elska mig..."

Tekjuhæsti látni listamaður heims sannar þá speki, sem bjó í listilega gerðri ferskeytlu rímsnillingsins Andrésar Valbergs, sem hann lét fljúga á samkomunni "Með íslenskuna að vopni" á Vopnafirði 1996, en þá var hann kominn að leiðarlokum í litríku lífi sínu.

Andrés hafði marga fjöruna sopið í fjármálum, rétt eins og Michael Jackson, og átti önnur hendingin í vísunni eftir að hitta marga Íslendinga fyrir áratug seinna. Vísan er svona.

Veröldin er söm við sig,

svíkur margan auður.

Allir myndu elska mig

ef ég væri dauður.


mbl.is Tekjuhæsti látni listamaðurinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Skaflinn" er voldugur !

Eftir að mér veittist það happ að vera einn af leiðangursmönnum í eina jeppaleiðangrinum, sem farinn hefur verið yfir Grænlandsjökul, hafði ég á orði í hálfkæringi að í samaburði við hann mætti kalla Vatnajökul "Skaflinn".

Enda er hann 20 sinnum minni (leiðrétting, vantar eitt núll, sbr. ath.semd) 200 sinnum minni að flatarmáli en Grænlandsjökull. Smile

En það segir þó ekki að Vatnajökull sé nein písl. Hver sá, sem þarf að glíma við hann, akandi, gangandi eða fljúgandi áratugum saman þarf að læra að bera fyrir honum mikla virðingu, enda er hann 20 sinnum stærri en stærsti jökull á meginlandi Evrópu, Jóstedalsjökull í Noregi.

Ísflykkið Vatnajökull hefur oft svo mikil áhrif á ástand lofthjúpsins yfir honum að segja má að hann geti búið til sitt eigið veðurkerfi, næsta óháð veðrinu sem er yfir landinu að öðru leyti.

Þar að auki býr Vatnajökull yfir undrum samspils elds og íss sem enginn annar jökull býr yfir.

Ég hef kallað Vatnajökul "kórónu landsins" og það er fagnaðarefni að hann tengist nú fyrirbrigði sem kennt er við kórónu og getur borið hróður hans og Íslands víða.

 


mbl.is Game of Thrones í ríki Vatnajökuls
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Raunsæi, hugrekki og bjartsýni.

Um allan heim dunda þjóðarleiðtogar við að finna það út hvernig sé hægt að halda áfram hinum stanslausa hagvexti, sem talinn er forsenda nútíma lífs.

Þetta gera þeir þótt ljóst sé að á næstu árum og áratugum mun stanslaus fjölgun mannkyns og dvínandi auðlindir vegna rányrkju gera þetta ómögulegt.

Ævinlega er horft rétt fyrir framan tærnar á sér enda brýnt að taka á vandamálum hvers dags og samtímans.

Afleiðingin verður hins vegar sú að þegar frá líður verður ástandið mun verra en það þyrfti að verða ef menn tækju strax á vandanum í samræmi við þær staðreyndir sem blasa við en reynt er að skauta hjá að upplýsa um eða ræða um.

Við Íslendingar ættum að hafa meiri möguleika en flestar aðrar til að komast í gegnum það sem framundan er á þessari öld vaxandi orkuskorts vegna þess að við getum öðrum þjóðum framar unnið bug á með því að nota þá orku, sem felst í orkulindum landsins.

En þá verðum við strax að taka frá þá orku, sem við ætlum að nota til þess í stað þess að láta reka á reiðanum og sólunda henni sem mest má verða.

Varðandi fæðuöryggi er ekki nóg að gera eingöngu ráð fyrir núverandi tækni við landbúnað, heldur þarf líka að huga að þeim möguleika að aðflutningar á orkugjöfum og tækjum til landsins truflist.

Hér ætti að til dæmis að vera til nokkrar þúsundir af orfum og ljáum og hestasláttuvélum, rakstrarvélum og heyvögnum til að hafa til taks í neyð.

Við ættum líka að taka forystu í tækninni, sem þarf að beisla. Hér þyrftu að vera til rafmagnsknúnar dráttavélar.

Ef við hugsum þessa möguleika ekki til enda, er ekki hægt að tala um það 100% fæðuöryggi sem Íslendingar, þrátt fyrir kalt loftslag, gætu áunnið sér.

Raunsæi - hugrekki - bjartsýni, - þetta eru lykilorðin og í þessari röð.  Fyrst að gera sér grein fyrir öllum staðreyndum vandans og síðan að sýna hugrekkið til að takast á við hann af þeirri bjartsýni sem raunsæið og hugrekkið geta gefið okkur.


mbl.is Ekki tekist að reisa við fjármálakerfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkert mál á einni helgi 2007.

Álversloftkastalanir, sem voru byggðir upp í græðgisbólunni voru skilgetið afkvæmi þeirrar hugsunar sem spennti hér allt upp úr öllu valdi og olli hruninu.

Í 2007 vímunni var það ekkert mál að ákveða það á einni helgi að vaða út í byggingu álvers sem augljóslega gæti ekki orðið minna en 340 þúsund tonn og þyrfti 700 megavatta orku til þess að verða hagkvæmt að lokum.

Og ekki bara það. Ákveðið var fyrirfram að ana af staðog byrja að byggja í Helguvík þótt verkefnið þyrfti að fara inn á borð hjá tólf sveitarfélögum í formi virkjana, háspennulína, vega og annarra mannvirkja.

Þetta var í hugum áltrúarmanna ekkert mál, - bara slá lán og slá lán og vaða áfram, því að ef einhver fyrirstaða kæmi upp, yrði mönnum stillt upp við vegg frammi fyrir orðnum hlut og leggja sitt af mörkum til að "bjarga verðmætunum."

250 milljarða lán?  Ekkert mál, ná í þessa peninga strax! 

Þessir menn hafa ekkert lært af Hruninu og orsökum þess heldur trúa því að hægt sé að æða áfram sem fyrr.

Þeir geta heldur ekki séð að neitt sé rangt við þetta heldur eru þeir, sem höfðu athugasemdir fram að færa, úthrópaðir sem "öfgamenn", sem eru "á móti rafmagni, framförum, atvinnuuppbyggingu og vilja heldur fara aftur inn í torfkofana."


mbl.is Ekki gert á einni helgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sauðárflugvöllur: Öryggisatriði allt árið.

Öryggisatriði og ráðstafanir í flugi geta verið margs konar og líta verður til allra mögulegra og ómögulegra atriða í því efni eins og sést af varúðarlendingu einkaþotu á Reykjavíkurflugvelli í morgun. Má tala um plan A, plan B, plan C o.s.frv. í því efni.

Minnir á það að gott væri að leggja Suðurgötuna undir A-V braut vallarins og lengja hana svo að hún verði aðalbraut vallarins.  Mætti þá stytta N-S brautina eða gera plássminni N-S braut í staðinn sem skapaði meira rými fyrir byggð vestan við Háskóla Reykjavíkur. PA150461

En nú skulum við skreppa í ferðalag á TF-ABM, tveggja sæta flugvél, og á myndinni er setið fyrir aftan flugmanninn, Hún Snædal. Framundan eru Kollóttadyngja og Herðubreið og ferðin farin vegna öryggisatriðis í flugi, Sauðárflugvallar á Brúaröræfum.  IMG_0864

Hann er ekki aðeins hugsaður sem nauðsynlegur flugvöllur á stóru vallarlausu svæði á hálendinu, sem geti komið í góðar þarfir ef þar verða slys eða náttúruhamfarir, heldur líka sem varaflugvöllur og varúðar- eða neyðarflugvöllur fyrir allar þær flugvélar, sem nú er flogið innanlands, þeirra á meðal Fokker F50.

En getur flugvöllur í 660 metra hæð yfir sjó á hálendinu gagnast sem skyldi vegna snjóa?

Skoðum málið nánar í ljósi ferðarinnar, sem ég fór þangað í síðustu viku.

Þá var völlurinn ennþá auður eins og sést á myndum úr ferðinni. Húnn Snædal flaug með mig frá Akureyri á Piper-CubIMG_1946 flugvél Arngríms Jóhannssonar til þess að sækja þangað "flugvallarbíl", 20 ára gamlan Suzuki Vitara bíl sem ég hef þar og koma honum til byggða áður en vetur gengi í garð.

Síðustu ár hef ég haft svona bíldruslu þar allt árið, en í ljós hefur komið að þegar um svona gamla bíla er að ræða, fer það illa með þá að standa óhreyfðir of lengi, alveg frá nóvember fram í maí-júní.

Vitara-bíll bilaði þar fyrir nokkrum árum og sömuleiðis Ferozajeppi í hitteðbyrra, rafallinn festist.

Við Helga fórum því í sumar og drógum báða bílana niður á Egilsstaði en í staðinn hafði ég áður komið þar fyrir litla Vitarajeppannum, sem ég notaði til að draga valtara til að valta völlinn.

Til lítils er að nota nútímatækni til að komast á staðinn, ef maður stendur þar á steinaldarstigi þegar stigið er út úr flugvélinni og hefur bara tvo jafnfljóta til að hökta áfram.

Sauðárflugvöllur hefur í þau átta ár, sem hann hefur verið notaður, opnast og lokast á nokkurn veginn sama tíma öll árin, - opnast í byrjun júní og lokast seint í október eða í byrjun nóvember.

Ástæða þess hve lengi hann er jafnan opinn er sú að þetta svæði er hið úrkomuminnsta á landinu. 

Hina sjö mánuðina, nóvember til maí, eru snjór yfirleitt of mikill fyrir venuulegar flugvélar en þó koma fyrir tímabil eftir hlákur, þegar hart hjarn liggur yfir vellinum og hægt að lenda þar.

Og þá vaknar spurningin, hvort völlurinn geti nýst Fokker F50 þegar hann er snævi þakinn.

Svarið er óvænt: Já.  Ástæðan er sú að mikill munur er á því hvort svona flugvél nauðlendir á snjó, sem liggur á rennsléttu landi eða hvort hún lendir í urð eða stórgrýti.

Þarna er ég að tala um nauðlendingu á borð við þá sem undirbúin var þegar hreyflar Fokker 50 biluðu báðir á flugi nálægt Sauðárflugvelli fyrir nokkrum árum. Í ljós kom reyndar að ekki þurfti að slökkva nema á öðrum hreyflinum og því var hægt að lenda á Egilsstaðaflugvelli.

Von mín er sú að geta sett upp neyðarljós á vellinum, sem hægt verði að kveikja í myrkri með fjarstýringu úr flugradíói.

Í millitíðinni er bót í máli, að ég málaði í sumar alþjóðlega einkennisstafi vallarins, BISA eða SA, með áberandi og stórum stöfum á "flugstöðina" og neyðarskýlið, gamla Econoline húsbílinn, stækkaði merkingar á aðalbraut vallarins, og vinur minn, Benedikt Varén flugumferðarstjóri á Egilsstöðum flaug nýlega með tveimur vinum sínum ifrá Egilsstöðum inn á flugvöllinn og þeir settu  upp þennan forláta vindpoka, sem sést á myndinni hér á síðunni af Piper Cubnum og Vitörunni og stendur á hentugum stað nálægt brautarmótum SV og N-S brautanna.

Eru vindpokarnir þá orðnir tveir sem er öryggisatriði út af fyrir sig, því að stundum getur það gerst þegar pokarnir veðrast og veiklast, að þeir rifni í tætlur í vöndu veðri á tiltölulega skömmum tíma. IMG_1947

Líftími vindpokanna tveggja, sem nú eru á Sauðárflugvelli, skarast, og þess vegna er tryggt að annar þeirra að minnsta kosti verður heill hverju sinni, auk þess sem auðveldara er að finna þá og völlinn ef þeir eru tveir. IMG_1949

Nú er vetur genginn í garð á Brúaröræfum en þó er það ekki fyrr en þessa dagana sem það mikill snjór hefur fallið þar að reikna má með að dregið hafi í einhverja skafla., litla þó. 

En jafnvel í myrkri ert hægt að finna völlinn með því að nota GPS (64,50 - 16,04) og lendingarljós vélarinnar og gera að honum nokkuð nákvæmt aðflug.

Þess má geta að hann stendur á sléttum mel, sem er 1000 metrar á annan veginn og 1600 metrar á hinn þannig að lending utan brauta á þessu svæði er margfalt betri kostur en að lenda bara einhvers staðar. IMG_1950

Komið að lokum ferðar og leiðir skiljast. Húnn hefur TF-ABM til flugs og er innan við klukkstund að fljúga til Akureyrar. IMG_1954

 Tignarlegt að horfa úr flugvélinn til suðurs yfir Fagradalsfjalli  ýfir Grágæsadal og Grágæsavatn, þar sem Völundur Jóhannesson "hálendisbóndi" er að "loka sjoppunni" fyrir veturinn.  Landið að taka á sig grá-svartan blæ í vetrarbyrjun og Kverkfjöll kasta af sér gustskýjum við sjónarrönd. PA150462

Og á landleiðinni um Áftadal til Möðrudals er alltaf jafn gaman að staldra við um tíu kílómetrum fyrir norðvestan Sauðárflugvöll og horfa yfir Fagradal í átt til þjóðarfjallsins og fjalladrottningarinnar, Herðubreiðar. IMG_1956


mbl.is Virkjuðu viðbúnað í samræmi við flugslysaáætlun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dulið atvinnuleysi og tap.

Brottflutningur Íslendinga til nágrannalandanna er dulið atvinnuleysi. Að vísu er erfitt að átta sig á því hve mikil áhrif innflutningur fólks hefur á móti og verður þá að bera saman aldur og menntun beggja hópa.

Þegar uppgangurinn var sem mestur hér á græðgisbóluárunum komu hingað margir vel menntaðir útlendingar til þess að vinna jafnvel verkamannastörf. Þess vegna væri þarft að skoða nánar samsetningu þeirra sem flytja úr landi og bera saman við þá sem flytja inn.

Engu að síður er mikill missir fyrir Íslendinga þegar ungt og vel menntað fólk flytur af landi brott, fólk sem er hagvant hér á landi og þjóðfélagið hefur staðið straum af að mennta til að leggja sitt af mörkum til þjóðar sinnar.

Innflytjendur þurfa að læra íslensku og aðlagast aðstæðum, en íslenskumenntun Íslendinga, sem flytjast úr landi og þekking á íslensku þjóðfélagi nýtist ekki eftir brottflutninginn.

Auk þess felst oft í því tilfinningalegur missir hjá skyldmennum og vinum þegar leiðir skilja og vík verður á milli vina.


mbl.is Fimm flytja úr landi á dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfum lengi verið langt á eftir nágrannaþjóðum.

Sorpa er vafalaust vel rekið fyrirtæki af metnaði og áhuga. En Sorpa ein megnar ekki að breyta þeirri staðreynd að við Íslendingar höfum árum saman verið á langt á eftir nágrannaþjóðunum varðandi flokkun og eyðingu sorps almennt.

Það er kominn tími til að við áttum okkur á þessari staðreynd og förum loksins að fást við þetta eins og fólk.

Fyrir um tuttugu árum sagði Óli kommi í viðtali við mig á Hornbjargsvita þar sem hann var þá vitavörður, að "auðvaldið myndi drekkja sér í eigin drullu."

Kom úr hörðustu átt, því að í kommúnistalöndunum viðgekkst einhver mesti umhverfissóðaskapur veraldar og hefur mér eða myndi detta í hug að taka undir þær skoðanir, sem þar urðu gjaldþrota.

En þó var og er viss broddur í hinum skorinorðu orðum rauða vitavarðarins, sem tæptu á vandamáli, sem ekki verður hjá komist að takast á við.


mbl.is Vísar athugasemdum Sorpu á bug
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðskiptasnilldin blómstrar áfram.

Viðskiptaráð ályktaði í miðri græðgisbólunni að Íslendingar hefðu ekkert að sækja til Norðurlandanna hvað varðaði fjármálastarfsemi, - svo mikið framar stæðum við bræðraþjóðum okkar.

Enda hömuðumst við vði að kaupa flugfélög og fræg vöruhús og hótel.  

Flesti talsmenn þjóðarinnar með forseta okkar í fararbroddi mærðu hina nýju stóru útrás og jöfnuðu henni við afrek víkinganna fyrir þúsund árum.

Í fjármálahverfum stórborga Evrópu urðu hinir íslensku nýgræðingar umtalaðir fyrir hroka í garð fólks sem þar hafði að baki margra áratuga og jafnvel meira en aldar gamla reynslu.

Þeirra vinnubrögð og starfsaðferðir þótti íslensku snillingunum vera úrelt.

Snilld okkar á þessu sviði var algild eins og stóriðjustefna "lægsta orkuverðs í heimi" bar glæst vitni um.

"Íslenska viðskiptasnilldin og efnahagsundrið"hefur eftir Hrun orðið að aðhlátursefni víða um lönd, enda er hið gamla máltæki grimmt: sekur er sá einn sem tapar.

Nú virðist sem snilld Íslendinga í húsabraski hafi líka fengið falleinkun ef marka má það ef kaupendur af íslenskum glæsibústöðum sendiráða geti grætt allt upp í milljarð króna á að kaupa þá af Íslendingum. Já, það á ekki af okkur að ganga í þessum efnum.


mbl.is Aftur til sölu en 70% dýrari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband