8.10.2008 | 00:18
Skepnan reis gegn skapara sínum.
Munið þið eftir því þegar Davíð Oddsson fór og tók 300 þúsund krónur út úr Búnaðarbankanum vegna þess að honum blöskraði þau ofurkjör sem stjórnendur bankans skömmtuðu sjálfum sér? Langflestum fannst þetta gott hjá Davíð og nokkru síðar sagði hann eitthvað á þá leið í ræðu á landsfundi Sjálfstæðisflokksins að svona fyrirbæri væri ekki það sem flokkurinn stæði fyrir.
Davíð hafði nógu mikið innsæi til þess að sjá að eitthvað var verulega bogið við kerfið sem hann átti einna mestan þátt í að koma á fót. Síðan dundu yfir hliðstæð fyrirbæri sem gerðu tilefni Davíðs að hreinum smámunum.
Þegar ég var ungur las ég mig í gegnum flest verk Lenins og Marx auk stjórnarskrár Sovétríkjanna og undraðist hvað þetta var frábær kenning á pappírnum. Hún ætti að leiða til þess að allir legðu fram það sem þeir gætu og fengju það sem þeir þyrftu í fullkomnu lýðræði í þágu alþýðunnar en samt blöstu hrikalegir gallar þess ljóslega við.
Það var vegna þess að í þessu öllu var ekki gert ráð fyrir mannlegu eðli og mannlegum breyskleika. Skepnan reis gegn skapara sínum eða réttara sagt, skaparinn varð að skepnu.
Ég trúi því að Davíð Oddsson meini það sem hann segir um góðan vilja sinn og meginatriði í siðrænum efnum. En þegar ég blaða nú í gegnum verk nýfrjálshyggjuprófessaranna á svipaðan hátt og í gegnum verk Marx og Lenins fyrir hálfri öld undrast ég á ný hve þetta er frábær kenning á pappírnum en reynist ekki ganga upp vegna hins sama og kommúnisminn rak sig á: Mannlegt eðli og breyskleiki voru greinilega ekki tekin með í reikninginn.
Brestir kommúnismans kostuðu tugmilljónir manna lífið með óheyrilegri kúgun og brotum á mannréttindum.Það var hreint skipbrot.
Ég held að hægt sé að láta sig vona að strand kapítalismans verði ekki svo illvígt. En bláeygir velviljaðir menn ættu að læra af þessu að gagngerar breytingar verður að gera svo að svona gerist ekki aftur.
Og menn verða alltaf að standa á tánum.
Og það er ekki hægt að aðgreina innlenda og erlenda bresti sem leiddu til ófarnaðar og skella allri skuldinni á útlendinga. Við blasir að bæði í Bandaríkjunum, þar sem upphaf ófarnaðarins var, og á Íslandi voru það sömu brestirnir og sama mannlega eðlið sem leiddi til vandræða.
Chamberlain var kennt um það hve Hitler komst langt vegna þess hve hann og aðrir talsmenn bresk-frönsku friðarkaupastefnunnar voru bláeygir gagnvart illmenninu. Það er ekki hægt að hlaupast með öllu frá því nú að bera sína ábyrgð á því hvernig fór, svo sem því að halda vöxtum svo háum að það lokkaði að kaupendur krónubréfa sem hafa nú kverkatak á þjóðinni.
Ég ætla ekki að kenna Davíð einum um það. Ef hér hefði ekki verið startað neyslu- og skuldsetningarfylleríi árið 2002 hefði verðbólgan orðið minni og þar með ástæðan til vaxtahækkunar.
![]() |
Ríkið borgi ekki skuldir óreiðumanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
7.10.2008 | 19:49
"Við munum grafa ykkur."
Óheppilegur frambuður eða þýðing getur valdið slæmum misskilningi eins og framburður franska utanríkisráðherrans olli.
Vesturlandabúar hneyksluðust mjög þegar Nikita Krústjoff sagði í kappræðu við bandaríska ráðamenn 1959 þegar rætt var um samkeppni Bandaríkjamanna og Rússa: "Við munum grafa ykkur."
Það var ekki fyrr en löngu seinna sem menn áttuðu sig á því að bein þýðing túlks á orðum hans hafði valdið hrapallegum misskilningi. Krústjoff notaði rússneskt orðalag sem þýðir ekki beinlínis það sem felst í orðanna hljóðan. Orðalagið er samlíking og Krústjoff meinti einungis að Rússar myndu stiga Bandaríkjamenn af í þessari samkeppni.
Sem hliðstæðu mætti nefna ef íslenskur ráðamaður segði við erlendan kollega sinn: "Við eigum eftir að steikja ykkur" eða "við munum salta ykkur". Það myndi það geta hljóðað mjög grimmilega í beinni þýðingu á þá leið að ætlun Íslendinga væri jafnvel að brenna keppinauta sína lifandi.
![]() |
Ísrael mun éta Íran upp til agna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.10.2008 | 19:15
Fjölnir-Fram-fjörið-framtíðin!
Knattspyrnufélagið Fram á sér aldar gamla sögu sem er vörðuð af framsýni stjórnenda félagsins hvað varðar vettvang þess. Fyrst var helsta hverfi félagsins í þáverandi austurbæ í kringum Grettisgötuna. Af þessum sökum finnst Hemma Gunn, vini mínum, yndislegt að tala um mig og aðra Framara sem "grjótkastara af Grettisgötunni."
En grjótkastararnir eltust og um miðja síðustu öld sýndu forráðamenn félagsins þá framsýni að færa það um set upp á Rauðarholt, sem þá var í útjaðri Reykjavíkur og byggðin á holtinu lík sveitaþorpi. Framvöllurinn var raunar fyrir utan alla byggð í upphafi.
Margir efuðust um að rétt væri að fara með félagið "upp í sveit" en í ljós kom að ákvörðunin var rétt því að í ört vaxandi byggð á þessum slóðum var mikill jarðvegur fólginn í barna- og ungligaskaranum sem ævinlega er einkenni á nýjustu hverfunum.
Um 1960 hófst ný gullöld félagsins í knattspyrnu að ekki sé nú talað um handboltann.
Þegar byggðin hélt áfram að færast austur flutti Fram í Safamýrina og erjaði þar góðan jarðveg fjölmennrar uppvaxandi kynslóðar í nýjum húsum ungs fólks og í hönd fór uppskera fram undir 1990 á enn nýrri gullöld.
Þegar byrjað var að byggja upp Grafarvogshverfið átti Fram gullið tækifæri til að flytja sig um set í þriðja sinn. Þarna var að rísa gríðarstórt hverfi með ungu fólki á sama tíma og frumbyggjarnir í Háaleitishverfinu urðu eldri og sátu einir í húsum sínum eftir að unga fólkið var farið að heiman.
En þá brá svo við að Fram lét þetta gullna tækifæri renna sér úr greipum. Upp úr 1990 fór ljóminn minnkandi og ekki að ástæðulausu.
En nú berast þau góðu tíðindi að bæta eigi fyrir þessi mistök og beinast liggur við að fara í Grafarvoginn og efla og nýta getu nýrrar kynslóðar.
Sem dæmi um það hvernig þetta hefur fylgt kynslóðum í minni ætt má nefna, að faðir minn átti heima rétt vestan við Grettisgötuna og varð Íslandsmeistari í 1. flokki 1939. Leikfélagar mínir á Rauðarárholtinu, Baldur Scheving og co mynduðu burðarásinn upp úr 1960, og þegar fjölskyldan flutti í Háaleitishverfið var blómatími barna minna og vina þeirra hjá Safamýrarliðinu.
Jónína, elsta dóttir mín, flutti í Grafarvoginn og hefur sem íþróttakennari átt þátt í að ala upp nýja kynslóð afreksfólks, svo sem spretthlauparann Svein Elías Sveinsson. Fjölnir er nú að uppskera árangurinn af uppeldisstarfi brautryðjendanna í félaginu og það er ekki efi í mínum huga að stefna eigi að uppgangstíma undir fjórum orðum sem byrja á F, Fjölnir-Fram-fjörið og framtíðin.
![]() |
Fram og Fjölnir kanna möguleika á samruna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
7.10.2008 | 16:53
Rússarnir björguðu og keyptu fisk.
Í fyrstu landhelgisdeilu Íslendinga og Breta 1952 komu Rússar, þá Sovétmenn, okkur til hjálpar með vöruskiptasamningum þegar markaðir lokuðust í Bretlandi. Með því eyðilögðu Rússar hótanir Breta og við áttum áfram mikil vöruskipti við þá næstu áratugi. Setningin úr textanum "Rokk-calypsó í réttunum" ber vitni um þetta: "...Nú aka´á rokkboxum á rússajeppunum."
Sjálfur hef ég notað 42ja ára gamal rússajeppa til að klöngrast um slæmar slóðir norðan Mývatns og frábærarar fjaðrir og góð hönnun hafa glatt mig.
Ekki er vitað til þess að Rússar hafi nokkurn tíma á þessum árum nýtt sér þá aðstöðu og það tak sem þeir gátu haft á Íslendingum, - þeim var nóg að stríða Bretum.
Minnir mig á gamla smásögu frá þessum árum. Íslendingur er að fara inn á hótelherbergi í Moskvu þegar gleðikona vindur sér að honum, talar reiprennandi ensku og vill eiga við hann viðskipti. Hann segist hafa annríkt og bandar henni frá sér og lætur sig ekki þótt hún haldi áfram að nuða í honum.
"This is unusual," segir hin glæsilega gleðikona, - "where are you from?" "I´m from Iceland," svarar hann.
"Oh, yes, Iceland, Síldarútvegsnefnd!" svaraði gleðikonan umsvifalaust.
Ekki ætti a vera erfitt að geta sér til um næsta skref Rússa, rússneska olíuhreinsistöð í Hvestudal, langstærstu framkvæmd Íslandssögunnar. Að sögn sveitarstjórans þar eru 99.9% líkur á að hún rísi.
Yfirgnæfandi líkur eru á því að einkavinir Pútíns, sem fela sig á bak við nafnleynd, muni reisa og eiga stöðina. Og menn ættu að fara varlega í að mæra pilsfaldakapítalisma Rússa og einkavinavæðinguna þar í landi sem gerir íslenska einkavinavæðingu, svosem sölu Búnaðarbankans á sínum tíma, að smotteríi.
![]() |
Guðni og Pútín |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.10.2008 | 01:16
Dapurlegt tilefni og undrun útlendinga.
Undrun útlendinganna, sem ég hitti á samkomum Seacology-samtakanna í San Fransico og Los Angeles um helgina var mikil yfir því sem er að gerast á Íslandi. Það er í raun dapurlegt að verðlaun samtakanna skuli í fyrsta sinn vera veitt Evrópumanni eftir að þau hafa verið veitt fólki í hinum heimsálfunum í 16 ár.
Ástæðan er sú að vettvangur samtakanna hefur hingað til að mestu verið bundinn við fátæk þróunarlönd þar sem sveltandi eða frumstæðu fólki hefur verið hjálpað til þess að ganga ekki á ómetanlegar gersemar og auðlindir náttúrunnar.
Sem dæmi má nefna þegar verðmætum skógi var bjargað frá því að íbúarnir eyddu honum í neyð sinni og yllu með því flóðum og gróðureyðingu sem hefði á endanum eyðilegt lífsmöguleika þeirra.
Útlendingarnir sem ég hef hitt hafa undrast þær staðreyndir, sem þeir höfðu aflað sér um íslensk umhverfismál áður en þeir veittu verðlaunin. Margir höfðu lesið grein í tímaritinu National Geography um Kárahnjúkavirkjun.
Menn frá tímaritinu komu raunar til Íslands 2001 og skrifuðu grein sem stungið ofan í skúffu. Af einhverjum ástæðum var því frestað að senda grein um málið út fyrr en nú. (Kippti einhver í spottann? Sambönd og áhrif valdhafana liggja ótrúlega víða.)
Þeir göptu yfrir því að íslensk stjórnvöld hefðu sent álrisum heims bækling með loforðum um lægsta orkuverð heims og sveiganlegt umhverfismat sem yrði ekki hindrun fyrir þau. Og ekki síður yfir því að þetta upplýstist ekki fyrr en níu árum seinna í frábærri rannsóknarblaðamennsku Andra Snæs Magnasonar.
Útlendingunum finnst óskiljanlegt að ein ríkasta þjóð heims á þeim tíma skyldi senda betllibréf til að lokka álrisana frá því að virkja vatnsorku, sem gnægð er af í löndum annarra heimsálfa, nálægt framleiðslustaðnum.
Svarið við því hvernig það gæti borgað sig að flytja hráefnið yfir hálfan hnöttinn til Íslands og álið síðan til baka var einfalt: Af því að orkuverðið var svo lágt. Svo lágt, að falli verðið á því að marki vegna minnkandi eftirspurnar (30 sinnum meiri orku þarf til að vinna tonn af áli en stáli) munu Íslendingar reka virkjanirnar með tapi.
Útlendingarnir undruðust að þjóð sem þegar framleiðir fimm sinnum meiri orku en hún þarf sjálf til eigin nota og á möguleika á að verða fyrsta þjóð veraldar sem er algerlega óháð jarðefnaeldsneyti, skuli ætla að framleiða allt að 10-15 sinnum meiri orku en hún þarf til að knýja álver í eigu útlendinga þar sem innan við 2% vinnuaflsins myndi fá vinnu.
Fólk í samtökunum lýsti yfir aðdáun á baráttu íslensks náttúruverndarfólks gegn ofurefli valda, fjár og aðstöðu ráðandi afla. Það er út af fyrir sig ágætt að geta fært íslenskum umhverfisverndafólki góð skilaboð um stuðning samtakanna við málstaðinn en tilefnið dapurlegt engu að síður.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
7.10.2008 | 00:38
Afturganga Fjárhagsráðs að lifna?
Í kjölfar gjaldeyrisþurrðar 1947 eftir að landsmenn höfðu eytt gríðarlegum stríðsgróða á undraskömmum tíma fylgdu hörð höft og skömmtun. Svonefnt Fjárhagsráð varð ríki í ríkinu, ákvað hvað hver mætti kaupa fyrir erlendan gjaldeyri. Hafta - og úthlutunarkerfi mikillar spillingar varð illvígara hér á landi og stóð mun lengur en í nágrannalöndunum í skjóli ýmissa nefnda og ráða.
Nú glyttir í gamla vofu, upprisna af skyldum ástæðum. Nema að ástandið nú virðist enn verra. Ég minnist þess ekki að olíuþurrð hafi vofað yfir 1947 þótt aðrar vörur væru skammtaðar og gefnir út skömmtunarseðlar.
Ég sá heldur ekki tölur þá sem bentu til þess að þjóðin skuldaði meira en hún ætti. Rétt er að geta þess að mikið af stríðsgróðanum fór í að endurnýja skip og tæki sjávarútvegsins og það kom sér vel. Í þeim var fólgin eign til að framleiða matvöru, sem er sú vara sem síðast verður óþörf, raunar aldrei.
En á móti kom kapphlaup um að eyða miklu í það sem Framsóknarmenn kölluðu þá "gums" og voru atyrtir fyrir.
Þá var flokkurinn utan stjórnar og bar ekki beina ábyrgð á bruðlinu en nýtti sér óspart svonefnd helmingaskipti við Sjálfstæðisflokkinn til að viðhalda haftakerfinu og hygla sínum.
Árin 1995-2007 var flokkurinn í stjórn, kom þensluskriðunni af stað fyrir kosningar 2003 og ber ekki minni ábyrgð á því en Sjálfstæðisflokkurinn.
Eftir á að hyggja sést hve skaðlegt það var að engar girðingar voru fyrir hendi né skilyrði fyrir því hve langt fjármálafyrrirtækin gátu gengið í óheyrilegri skuldasöfnun í útlöndum.
Stóraukin lykilvöld Fjármálaeftirlitsins eru því miður líklegast aðeins byrjunin á skömmtunar- og haftakerfi sem neyðst verður að koma á. Kommúnisminn hrundi um 1990 vegna hins sama og er nú að grafa undan kapítalismanum: Menn settu upp að því er virtist fullkomin módel yst til vinstri og hægri en gleymdu að taka mannlegt eðli með í reikninginn.
Í báðum kerfunum var mannleg græðgi aðalvaldurinn að óförunum og í báðum tilfellum græðgi í völd. Í kommúnistaríkjunum var það bein valdafíkn sem leiddi til alræðis, einræðis og kúgunar, valdsins til að ráðgast með fólk og hafa það sjálfur náðugt. Í kapítalismanum er það fíknin í vald peninganna, sem ekki voru sett bönd á.
![]() |
Ný lög um fjármálamarkaði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
6.10.2008 | 15:06
Blóð, sviti og tár, - við lifðum í blekkingu.
"Góðir Íslendingar. Við lifðum í blekkingu, erum í raun gjaldþrota og blóð, sviti og tár er það eina sem ég get boðið ykkur svo að heiður og ímynd íslensku þjóðarinnar verði endurreist. Til þess þarf æðruleysi og hugrekki."
Þannig myndi ég óska að forsætisráðherra hæfi ávarp sitt eftir klukkustund. Tímabil í heimssögunni, sem kennt verður við Reagan og Thatcher, er á enda og nú dugar ekkert minna en æðruleysisbænin: Guð gefðu mér styrk til að breyta því sem ég get breytt, sætta mig við það sem ég get ekki breytt, og vit til að greina þar á milli.
Hið nöturlega er að á Íslandi er hægt að kenna fyrrnefnt tímabil við Reagan, Thatcher og Davíð, en af þessum þremur er Davíð einn við völd og þarf að fást við afleiðingar af mistökum þessa tímabils og læra af þeim.
Á Vesturlöndum bjargar sér nú hver sem best hann getur og við verðum að búa okkur undir að enga eða of litla utanaðkomandi hjálp verði að fá.
Þetta er mesta ógn við sjálfstæði þjóðarinnar sem hún hefur horfst í augu við frá 1944, hættan á að hún tapi því dýrmætasta sem hún á, mannauðnum á flótta til útlanda og landinu og auðlindum þess í hendur útlendinga. Því að þegar eru uppi raddir um að fórna hinu síðarnefnda.
En við eigum að vera menn til að takast á við þetta af raunsæi, yfirvegum, kjarki og fórnarlund.
![]() |
Forsætisráðherra flytur ávarp |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
6.10.2008 | 14:52
R-in sex, Rjúkandi Ráð, Ringul-Reið og Ráðleysi Ríkja.
Á vinnuferð vestur í Bandaríkjunum hef ég reynt að vera í eins góðu sambandi við fólkið heima og unnt er jafnframt því að fylgjast með bandarísku fjölmiðlunum. Við mér blasa fjögur orð með stafnum R sem meginstef. Menn vita ekki sitt Rjúkandi Ráð, Ringul-Reið og Ráðleysi ríkja. Boðaður var "aðgerapakki" sem ekki birtist. Sagt að ekki væri í augnablikinu þörf á aðgerðarpakka þegar sannleikurinn er vafalaust sá að það er enginn aðgerðapakki mögulegur í þessari rosalegu stöðu.
Það er enga hjálp að fá utan frá því að þar þykjast menn í fyrsta lagi eiga nóg með sjálfa sig og í öðru lagi sjá þeir að Ísland er í raun gjaldþrota. 1940 stefndi landið að brún gjaldþrots en hernámið og gróðinn af því bjargaði um stund.
Skömmtunar- og haftaárin eftir stríðið voru erfið og þá bjargaði Marshall-aðstoðin okkur, en hún var veitt til að tryggja veru okkar í NATO og einnig vegna ótta Bandaríkjamanna við að missa aðstöðu sína á Keflavíkurflugvelli. Engin þjóð fékk hlutfallslega meiri aðstoð en Íslendingar og vorum við þó eina þjóðin sem græddi á stríðinu í peningum þótt hinu megi ekki gleyma að við misstum hlutfallslega jafn marga menn og Bandaríkjamenn.
"Þetta reddast allt einhvern veginn" hefur verið mottó kynslóðanna síðustu 70 árin og við höfum hangið á því. Það var mórallinn á bak við fáránlega skuldsetningu nýríkrar kynslóðar græðgisvæðingarinnar og það er kannski svipaður mórall og ríkti hjá mínu knattspyrnufélagi, Fram, þegar sett var heimsmet í því að lafa í efstu deild árum saman fyrir tóma hundaheppni.
Á endanum féll Fram og hefur nú fyrst blómstrað við það að horfa framan í raunveruleikann og það verkefni að vinna sig upp á uppbyggilegan hátt. Það eina góða, sem gæti komið út úr raunverulegu gjaldþroti íslensku þjóðarinnar nú er svipað og gerðist hjá Fram, - að heita því og sjá svo um að aldrei aftur gerist neitt svipað og nú stefnir í. En það mun kosta blóð, tár og svita.
![]() |
Skýrist á næstu klukkustundum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.10.2008 | 01:23
Gott hjá Guðmundi.
Guðmundur Gunnarsson snertir við kjarna bankakreppumálsins, bæði á Íslandi og í Bandaríkjunum með ummælum sínum. John McCain orðaði þetta vel þegar hann sagði að það væri ekki sjálfgefið að kennarar og bændur reiddu fram fé til að borga eldsneytið á lúxusþyrlur flottu kallanna í Wall Street.
Það er heldur ekki sjálfgefið að áratuga lífeyrissparnaður íslenskrar alþýðu sé settur í áhættufjárfestingu og notaður til að viðhalda áfram bruðli og ofurlaunum þeirra sem gerðu íslensku þjóðina svo skuldum vafna, að þúsundir milljarða vantar upp á eignir séu fyrir skuldum.
En þeir sem mestan þátt áttu í því sem gerst hefur eru hins vegar í þeirri stöðu að verði þeir látnir rúlla fer allt á hliðina með þeim. Og þeir voru svo sem ekki þeir einu sem létu blindast af gróðavonum og reistu sér hurðarás um öxl. Þeir höfðu bara úr meiru að spila og voru í betri aðstöðu til þess að hætta miklu til. Líti nú hver í eigin barm.
Ranglátt hlýtur hins vegar að teljast ef "litlu mennirnir" eiga eftir að lepja dauðann úr skel á meðan þeir stóru geta borist áfram á eins og fyrr.
![]() |
Verða að fallast á skilyrði sjóðanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.10.2008 | 01:07
Þegar Bandaríkin hósta...
Það hefur stundum verið sagt um fjármálaheiminn svokallaða að þegar Bandaríkin hósti, fái önnur lönd kvef eða jafnvel lungnabólgu. Þetta er að gerast og maður hefði haldið að Íslendingar, skuldugasta þjóð verarldar, fengi að minnsta kosti flensukast úr því að stórþjóðir eins og Þjóðverjar hafa þurft að grípa til aðgerða eftir langa neyðarfundi.
Og bandarískir sérfræðingar tala um að þetta eigi eftir að versna, hafi ekki bara verið einn hósti heldur upphaf á kvefi og að fyrsti fjárausturinn úr ríkissjóði hafi aðeins verið þriðjungurinn af því sem muni þurfa að minnsta kosti.
En þessu virðist ekki vera svona samkvæmt nýjustu ummælum Geirs H. Haarde. Ísland virðist að hans dómi hafa fengið smá hóstakast af svipaðri stærð og Bandaríkin fengu í upphafi og ekki þörf á læknismeðferð.
Í sumar sagði Geir að ummæli sumra um að aðgerðaleysið hefði borið árangur mætti í vissum skilningi nota yfir það fyrirbæri samdráttar og kreppu að innflutningur minnkaði.
Í þetta sinn mun aðgerðaleysið kannski bera þann árangur að þjóðlífið dragist svo mikið saman að líkja megi við blóðtappa og hægt að túlka minna blóðstreymi sem góðar fréttir. Minna blóðstreymi og hálfgert meðvitundarleysi krefst að sjálfsögðu minni orku og fæðu og þar með minni útgjalda, ekki satt?
Stundum hefur gengi krónunnar og úrvalsvísitölunni verið líkt við hitamæli. Vöruhamstur, gjaldeyrisskortur, bankaflótti (fólk keppist við að taka út innstæður) eru líka merki um alvarleg veikindi. Ekki verður annað séð en að hitinn hækki með hverjum degi.
Ef líkja má þjóðinni við verkamann í hópi þjóðanna sýnist það ekki líklegt til tiltrúar á vinnugetu hennar þegar hitamælirinn stefnir í óráðshita.
En þetta er víst allt missýning og misskilningur, - "...ekki lengur nauðsynlegt að vera með sérstakan pakka með aðgerðum" segir Geir. Með öðrum orðum: Aðgerðaleysi er það besta sem hægt er að grípa til eins og á stendur. Skítt með hitamælana sem sýna óráðshita og aðvörunarbjöllur sem senn munu þagna þegar yfirspennan slær rafmagninu út.
![]() |
Ekki þörf á aðgerðapakka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)