Fjölnir-Fram-fjörið-framtíðin!

Knattspyrnufélagið Fram á sér aldar gamla sögu sem er vörðuð af framsýni stjórnenda félagsins hvað varðar vettvang þess. Fyrst var helsta hverfi félagsins í þáverandi austurbæ í kringum Grettisgötuna. Af þessum sökum finnst Hemma Gunn, vini mínum, yndislegt að tala um mig og aðra Framara sem "grjótkastara af Grettisgötunni." 

En grjótkastararnir eltust og um miðja síðustu öld sýndu forráðamenn félagsins þá framsýni að færa það um set upp á Rauðarholt, sem þá var í útjaðri Reykjavíkur og byggðin á holtinu lík sveitaþorpi. Framvöllurinn var raunar fyrir utan alla byggð í upphafi. 

Margir efuðust um að rétt væri að fara með félagið "upp í sveit" en í ljós kom að ákvörðunin var rétt því að í ört vaxandi byggð á þessum slóðum var mikill jarðvegur fólginn í barna- og ungligaskaranum sem ævinlega er einkenni á nýjustu hverfunum.  

Um 1960 hófst ný gullöld félagsins í knattspyrnu að ekki sé nú talað um handboltann. 

Þegar byggðin hélt áfram að færast austur flutti Fram í Safamýrina og erjaði þar góðan jarðveg fjölmennrar uppvaxandi kynslóðar í nýjum húsum ungs fólks og í hönd fór uppskera fram undir 1990 á enn nýrri gullöld. 

Þegar byrjað var að byggja upp Grafarvogshverfið átti Fram gullið tækifæri til að flytja sig um set í þriðja sinn. Þarna var að rísa gríðarstórt hverfi með ungu fólki á sama tíma og frumbyggjarnir í Háaleitishverfinu urðu eldri og sátu einir í húsum sínum eftir að unga fólkið var farið að heiman.

En þá brá svo við að Fram lét þetta gullna tækifæri renna sér úr greipum. Upp úr 1990 fór ljóminn minnkandi og ekki að ástæðulausu. 

En nú berast þau góðu tíðindi að bæta eigi fyrir þessi mistök og beinast liggur við að fara í Grafarvoginn og efla og nýta getu nýrrar kynslóðar.

Sem dæmi um það hvernig þetta hefur fylgt kynslóðum í minni ætt má nefna, að faðir minn átti heima rétt vestan við Grettisgötuna og varð Íslandsmeistari í 1. flokki 1939. Leikfélagar mínir á Rauðarárholtinu, Baldur Scheving og co mynduðu burðarásinn upp úr 1960, og þegar fjölskyldan flutti í Háaleitishverfið var blómatími barna minna og vina þeirra hjá Safamýrarliðinu. 

Jónína, elsta dóttir mín, flutti í Grafarvoginn og hefur sem íþróttakennari átt þátt í að ala upp nýja kynslóð afreksfólks, svo sem spretthlauparann Svein Elías Sveinsson. Fjölnir er nú að uppskera árangurinn af uppeldisstarfi brautryðjendanna í félaginu og það er ekki efi í mínum huga að stefna eigi að uppgangstíma undir fjórum orðum sem byrja á F, Fjölnir-Fram-fjörið og framtíðin.  


mbl.is Fram og Fjölnir kanna möguleika á samruna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég skil bara ekki hvernig þú getur verið ánægður með þetta. Ég hef verið Framari allt mitt líf og mun aldrei styðja nýtt lið. Aldrei.

Hvernig stendur á því að Fram hrynur á nokkrum dögum á meðan önnur lið halda lífi?

Ég er ekki viss um að Steinar Þór sé búinn að reyna allt til að bjarga félaginu.  Þetta er skammarlegt og sorglegt að svona sögufrægt lið heyri sögunni til.

Fyrir mér er fótboltinn dáinn.

Helgi (IP-tala skráð) 7.10.2008 kl. 19:26

2 identicon

Já mikið væri nú sniðugt að KR myndi færa sig í Kópavoginn,Valur í Reykjanesbæ, og klúbbarnir myndu ráðast inn á svæði hvers annars eins og hér er lagt til,sýnir bara hversu mikið þrot sumir klúbbarnir setja sig í,og að flytja sig á milli hverfa af því að enginn næst árangurinn með íbúa nærliggjandi hverfis er frekar furðuleg hugsun,hins vegar hugsa ég að þeir sem nú eru í Fram geti bara skipt yfir í Fjölni ef framtíðin er svona miklu bjartari í Grafarvogi en í Safamýri ! 

ÓÁS (IP-tala skráð) 7.10.2008 kl. 19:47

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Samlíkingarnar við KR-Kópavog og Valur-Reykjanesbær eru út í hött því að þar er verið að tala um að þessi félög fari yfir í önnur bæjarfélög en Reykjavík. Ég hélt að fólk í Grafarvogi væri jafn miklir Reykvíkingar og þeir Helgi og ÓÁS. Eða vilja þeir kannski draga mörkin við Elliðaár? Og hvers vegna? 

Reynslan sýnir að árangurinn fylgir fólkinu og í íþróttunum er það unga fólkið, ekki við gamlingjarnir. Ég hef búið við Háaleitisbraut síðan 1972 og veit alveg hver grundvallarmunur er á íbúasamsetningunni þá og nú.

Næsti nágranni minn er Steinn Guðmundsson og við gerðum ýmislegt á knattspyrnuvellinu í kringum 1970 en gætum ekki gert það nú. 

Ómar Ragnarsson, 7.10.2008 kl. 19:58

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Samlíkingarnar KR-Kópavogur og Valur-Reykjanesbær eru út í hött því að þar er verið að tala um að félögin færi sig á milli bæjarfélaga og það jafnvel í 50 km fjarlægð.

Ég hélt að fólk í Grafarvogi væri jafn miklir Reykvíkingar og Helgi og ÓÁS en það er kannski misskilingur hjá mér. Hvar á að draga mörkin? Við Elliðaár?

Reynslan sýnir að árangurinn fylgir fólkinu og í íþróttunum fylgir hann unga fólkinu sem hefur getuna.

Ég hef búið við Háaleitisbraut í 36 ár og veit hvernig íbúasamsetningin hefur gjörbreyst.

Næsti nágranni minn er Steinn Guðmundsson og við gerðum ýmsa góða hluti á knattspyrnuvellinum í kringum 1970 en gætum ekki gert það nú, því miður.  

Ómar Ragnarsson, 7.10.2008 kl. 20:02

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Auðvitað hefði verið best að Fram hefði farið í Grafarvoginn strax áður en Fjölnir var stofnaður. En nógu margir gátu ekki hugsað sér það þá og með svipuðum rökum og Helgi og ÓÁS.

Úr því að það var ekki gert er það, sem nú stendur til, það besta í stöðunni.

Ég hef ekki aðeins verið Framarari allt mitt líf heldur þremur mánuðum lengur og tel mig samt ekki vera að leggja neitt annað til en það sem kemur sér best fyrir félagið og framtíð þess.

Ég efast ekki um að ýmsir í Fjölni muni snúast gegn þessu á þeim forsendum að það eigi ekki að láta "gamlingjafélag" njóta uppbyggingar á afreksfólki framtíðarinnar í Grafarvogi.  

Ég er ekki viss um að Fram standi verr að vígi fjárhagslega en sum önnur íþróttafélög heldur séu nú við stjórnvölinn menn sem átta sig betur og fyrr á gjörbreyttu fjárhagsumhverfi íþróttafélaganna.

Sannið til að ef þetta gengur munu þeir sem að því standa njóta þess að hafa sýnt það raunsæi og þann kjark að bregaðst strax við.  

Ómar Ragnarsson, 7.10.2008 kl. 20:09

6 Smámynd: Stefán Þór Steindórsson

Það er nú þegar búið að ákveða að FRAM er að fara að flytja. Hvort þeir vilji um leið leggja félagið í fötu með Fjölni og hræra í er held ég ekki skemmtilegt fyrir gamla Framara. Fjölnir sem voru að skríða yfir 20 árin vilja nú vegna erfiðleika í efnahagslífinu hætta þessu basli og sameinast risanum FRAM.

Þetta er ekki heimsendir því samruni tveggja íþróttafélaga hefur áður átt sér stað á Íslandi og gengið vel. Týr og Þór voru félög í Vestmannaeyjum en spila nú undir nafninu ÍBV sem var þriðja félagið á eyjunni. Þetta gekk vel og nú eftir mörg ár veit maður samt enn hver er Týrari og hverjir eru Þórarar þó svo að allir séu búnir að sameina krafta sína. 

 Hitt er svo annað mál að ég tel svæðið það stórt sem talað er um þarna og Fram og Fjölnir ættu aðgeta skipt með sér hverfunum án vandræða. 

Hvað á svo barnið að heita

Fjölnir-Fram

Fram-Fjölnir

Framnir

Fjölram 

Stefán Þór Steindórsson, 7.10.2008 kl. 20:20

7 identicon

Þú varst nú örugglega sprækari í íþróttum en margir ungir menn nú á dögum,en aðalatriðið í þessu er að þegar verið er að byggja upp félag þá er mikilvægt að sýna virðingu gagnvart öllum þeim einstaklingum og fjölskyldum sem hafa lagt líf og sál í að byggja þetta starf upp,þeir aðilar sem stýra hjá Fram og Fjölni í dag eru báðir uppaldir Framarar og það á eftir að koma í ljós hvers vegna þetta er svona áríðandi  núna ! Og varðandi ''Fram sýnina'' þá er ekkert víst að hagsmunum  Fjölnis sé best varið með þessari hugmynd, þó Fram geti hugsanlega hagnist vel á þessu ?

varðandi bæjarfélög og fjölda félaga þá sýnist mér að best sé að sett sé upp eitt ríkis félag með einum ríkis þjálfara og að liturinn verði ríkisblár ;-)

 Kær íþróttakveðja. 

ÓÁS (IP-tala skráð) 7.10.2008 kl. 20:22

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Mín vegna má félagið heita íþróttafélagið Fjölnir-Fram. Þá verð ég Fjölnis-Frammari sem er minnsta hugsanlega breyting.

Hvað um nafnið íþróttafélagið Framtíðin?

Síðan er enn einn möguleiki, að félögin geri samning um samnýtingu íþróttamannvirkja og starfsemi en haldi áfram að vera aðskilin. En allir vita hve dýrt er að halda úti íþróttakappliði í fremstu röð svo að þetta yrði varla raunhæft.  

Ómar Ragnarsson, 8.10.2008 kl. 00:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband