4.10.2010 | 23:54
Í slæmum félagsskap.
Nasistar svívirtu grafreiti Gyðinga og brutu rúður í guðshúsum þeirra á sinni tíð.
Öfgafullir Gyðingar brutu nýlega rúður í Mosku Múslima nálægt landnemabyggðum Gyðinga.
Þótt ribbaldar og ofbeldismenn Sturlungaaldar fremdu mörg illvirki létu þeir þó kirkjur landsins í friði og virtu kirkjugrið.
Þeir sem brjóta ítrekað rúður í Dómkirkju landsins skipa sér nú á bekk með nasistum og öðrum ofbeldismönnum erlendum.
Mótmælin nú þurfa á öðru að halda en svona athæfi sem setur blett á okkur sem siðmenntaða þjóð.
![]() |
Rúður brotnar í þinghúsinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
4.10.2010 | 21:59
Kapítalismi andskotans ?
Það skyldi þó ekki vera að mun fleira fólk komi nú saman til mótmæla á Austurvelli en flestir áttu von á vegna þess að daglega berast okkur fréttir af því hvernig bankarnir fara silkihönskum um þá sem voru innstu koppar í aðdraganda Hrunsins á sama tíma sem venjulegt fólk er keyrt í þrot ?
Upphæðirnar, sem þessar fréttir greina eftirgjafir frá varðandi sægreifa og auðmenn, eru svo háar, að venjulegt fólk á erfitt með að ná upp í þær.
Upplýst er að Bjarni Ármannsson hafi eina milljón króna í tekjur á dag en samt fékk hann 800 milljóna króna eftirgjöf frá Glitni!
Upplýst er að hinar miklu tekjur hans fáist vegna vel heppnaðra fjárfestinga. Hins vegar hafi ein fjárfestingin mistekist hjá honum.
Ef rétt er hermt um hagi Bjarna og lögmálin sem hann ætti að hlíta á markaðstorgi fjárfestinganna, ætti það að vera eðlilegt að hann tæki á sig tapið af þessari einu mislukkuðu fjárfestingu, enda gæti hann greitt þessar 800 milljónir upp á þremur árum ef rétt er hermt um tekjur hans af hinum fjárfestingunum.
En svo virðist sem um þetta mál gildi aðeins helmingur markaðslögmálanna, sem sé það að viðkomandi eigi rétt á að njóta óhemju arðs af því sem vel gengur, en hins vegar eigi hann að sleppa við afleiðingarnar af rangri fjárfestingu sinni.
Sama á við um fjölskyldufyrirtæki sægreifafjölskyldu Halldórs Ásgrímssonar á Hornafirði.
Þar komst þetta forréttindafólk upp með það að skammta sér 600 milljóna króna arð af fyrirtæki, sem stefndi í þrot, með því að taka fé að láni, ef rétt er eftir hermt.
Bankinn, sem lét það viðgangast að gefa þessum sægreifum þar að auki eftir 2600 milljónir króna, er í eigu ríkisins, það er í eigu almennings.
Er furða að þúsundir fólks, sem teljast eigendur þessa banka, sé reitt þegar því er sagt að éta það sem úti frýs og missa húsnæði sitt og taka um leið þátt í því að gefa auðgreifum þúsundir milljóna króna á silfurfati ?
Þau útgjöld bankans eru á kostnað allra eigenda hans, líka þeirra sem nú er hundsað að liðsinna í þrengingum þeirra.
Það vantaði ekki að fljótt og vel væri brugðist við varðandi auðgreifana en þúsundir fólks þurfa hins vegar enn að bíða eftir því að eitthvað sé gert í þeirra málum.
Ég ítreka það sem ég hef áður sagt og Valgerður Bjarnadóttir var að segja nú rétt áðan í þingræðu, að það verður að útskýra það strax og afdráttarlaust hvers vegna svona ákvarðanir eru teknar í ríkisbönkum.
Ef það er ekki hægt verður að breyta lögum án tafar til þess að ráðast gegn þeim þeim kapítalistma andskotans, sem fólki finnst vera slegið utan í sig daglega eins og blautri tusku þessa dagana.
![]() |
Bankarnir hafa dregið lappirnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
4.10.2010 | 11:26
Búsáhaldabyltingu breytt í "tunnubyltingu"?
Búsáhaldabyltingin er nú orðið nafn, sem viðurkennt er sem samheiti um þau mótmæli sem viðhöfð voru frá október 2008 til janúar 2009.
Það er að vísu erfiðara að rogast með tunnur niður á Austurvöll en venjuleg búsáhöld en áberandi stækkun á tækjum mótmælenda gæti samt fest nafn tunnunnar í sessi ef mál þróast á þann veg að hægt sé að tengja þessi tól við mótmæli eða jafnvel umskipti, "tunnubyltingu".
Tunnan hefur að vísu dálítið sérstakt tilfinningalegt gildi fyrir mig því að þegar nemendur 2. bekkjar Lindagötuskólans föndruðu við það að setja saman róttækan framboðslista unglinga við bæjarstjórnarkosningar í Reykjavík í janúar 1954 á vegum "Farísea og fræðimannaflokksins", steig ég upp á öskutunnu fyrir framan skólann og flutti þar ræðu, sem hlaut nafnið "öskutunnuræðan."
Síðan vekur nafnið öskutunna alltaf svolítið sérkennilegar minningar frá unglingsárum mínum.
Aldrei varð neitt úr öskutunnubyltingunni og vænta mátti en ég held samt að hugmyndin hafi ekki verið galin, bara 56 árum á undan samtíð sinni.
![]() |
Tunnumótmæli við stefnuræðu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.10.2010 | 11:10
Eldsneytisgjöldin enn skásti skatturinn.
Vel þarf að ígrunda opinberar álögur á umferðina. Miðað við núverandi ástand og næstu framtíð eru gjöld á eldsneyti, þótt óvinsæl séu, skásta skattlagningin.
Sá, sem vill eða þarf að aka mikið og vill nota stóran bíl, greiðir þá gjöld í samræmi við það.
En það þarf líka að líta á fleira. Á ágætri mynd Gísla Marteins Baldurssonar af sama götukaflanum með mismunandi farartækjum, 1. myndin með götunni þar sem allir eru á bílum, 2. myndin af sömu götu þar sem allir ferðast með strætó og 3ja myndin af sömu götu, þar sem allir ferðast á reiðhjólum, sést að bílarnir taka langmest rými og þess vegna krefjast þeir lang fyrirferðarmestu og dýrustu samgöngumannirkjanna.
En það vantar 4ðu myndina hjá Gísla. Hún er af þessum götukafla þar sem bílarnir eru allir 1,5 metrum styttri. Þá myndi sjást að það fer að sjálfsögðu eftir lengd bílanna hve mikið rými og hve stór og dýr samgöngutæki löngu bílarnir taka umfram þá stuttu.
Í Japan er óbeint skattlagt í samræmi við þetta og njóta bílar, sem eru styttri en 3,40 metrar skattfríðinda.
Í GPS mælingu framtíðarinnar á notkun á malbikinu mætti taka tillit til þess hve mikið rými bíllinn notar.
Ég held hins vegar að eldsneytisgjöldum sé ekki skynsamlegt að kasta alveg fyrir róða. Stórir og þungir bílar bæði eyða meiri gjaldeyri en litlir og léttir og slíta auk þess vegum meira.
![]() |
Veggjöld um GPS í stað eldsneytisskatta? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
3.10.2010 | 13:01
Það besta sem við eigum, mannvænn mannauður.
Á þessum tímum, þegar viðskiptavild og orðstír lands okkar hefur orðið fyrir hverju áfallinu á fætur öðru, skín stoðtækjaframleiðandinn Össur eins og sól, sem brýst í gegnum óveðursský.
1. Ef við hugsum allt í peningum og engu öðru er fyrirtækið gulls ígildi.
2. Fyrirtækið er klassadæmi um það hverju menntun og mannauður fá áorkað.
3. Fyrirtækið hefur gefið þeim sem minna mega sín vegna fötlunar stórkostlegar kjarabætur og unnið í anda mannkærleika og virðingar fyrir öllum mönnum.
Tvö síðustu atriðin eru mikilvægust á alla lund.
Tvær verðmætustu auðlindir Íslands eru mannauðurinn og einstæð náttúra. Össur fellur undir hið fyrrnefnda.
![]() |
Össur hf. vekur athygli í Danmörku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
3.10.2010 | 03:10
Því stærri, því óhultari.
Í eftirmálum bankakreppunnar á Vesturlöndum kemur sí og æ í ljós, að því stærri sem bankinn eða fyrirtækið er, því meiri fyrirgreiðslu fær það á meðan þeir smáu verða að sæta afarkostum.
Írskur almenningur er ekki ánægður með að axla 5000 milljarða tap til að bjarga banka, sem talinn var of stór til þess að það mætti láta hann rúlla.
Svipað fyrirbæri sést í stóru og smáu. Þannig var áberandi hve bankarnir voru áfjáðir í að lána mönnum, sem bárust mikið á með bruðli af ýmsu tagi á sama tíma og þeir, sem sýndu aðhald og bárust lítt á, fengu minni fyrirgreiðslu af því að þeir sýndust eiga minna undir sér.
hNú vantar rannsóknarblaðamennsku á því hvað liggi að baki því mati til dæmis að skattgreiðendur borguðu 10 milljarða vegna Sjóvár á sama tíma og hinir smáu eru látnir róa.
Eða af hverju 3200 milljónir voru settar í að sægreifar eystra fengju að skammta sér stóran arð og halda áfram eigum sínum á meðan hundruð heimila eru látin rúlla.
Í öllum þessum tilfellum standa lánardrottnarnir eða ríkið frammi fyrir tveimur kostum: Að láta viðkomandi tapfyrirtæki rúlla með þeim afleiðingum sem slíkt hefur - eða - gefa eftir milljarða skuldir.
Hvernig lítur svona dæmi út á vogarskálunum, - annars vegar gagnvart hinum stóru og hins vegar gagnvart hinum minni, hinum mikla fjölda heimila og smærri fyrirtækja sem eru í svona aðstöðu ?
![]() |
Auðmenn græða á uppboðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.10.2010 | 09:55
Jónas í þátíð, - við í nútíð og framtíð.
"Höfum við gengið til góðs götuna fram eftir veg?" orti Jónas Hallgrímsson og vísaði með því til þátíðar.
Í dag er hins vegar ætlunin að ganga til góðs í nútíð og til framtíðar á vegum Rauða kross Íslands í þágu göfugs málstaðar.
Ég hef ég farið í ferðir á vit fátæks fólks í þriðja heiminum, sem flest lifði fjarri borgum, uppi í fjöllum Eþíópíu og í Hindane, handan flóans sem Mapútuborg í Mósambík stendur við.
Í eitt skiptið fór ég með litla kornmyllu sem Akureyrarbær gaf afskekktu þorpi og sá með eigin augum hvað tiltölulega einföld og ódýr gjöf gat umbylt lífskjörum í heilli byggð.
Ég upplifði einnig þá gefandi og djúpu gleði sem þetta fólk gat gefið af sér í sinni sáru fátækt og skorti.
Þess vegna er átak eins og það sem er í dag svo mikilsvert.
Atvikin höfðu fyrir mörgum vikum hagað því svo til að sjálfur verð ég á þeysispretti í dag og á morgun en vil þó leggja málefni dagsins lið eftir getu.
Ég þarf að fara á æfingu nú á eftir, síðan að fljúga á FRÚnni yfir hálendið til Akureyrar og vera á æfingu þar strax eftir hádegið vegna tónleika til minningar um Vilhjálm Vilhjálmsson, sem eru á dagskrá klukkan fimm, en þar verð ég kynnir.
Ég fer flýg síðan til baka í lok þeirra tónleka þvert yfir hálendið til Selfoss til að efna gamalt loforð um að skemmta þar ásamt Ragnari Bjarnasyni og Þorgeiri Ástvaldssyni fram eftir kvöldi.
Leiðin liggur síðan aftur norður á morgun til að vera kynnir á tónleikum helguðum Villa Vill.
Af þessum sökum var það niðurstaða Rauða kross manna að þegar við sem viljum leggja göngunni miklu lið skiptum með okkur svæðum yrði það hálendið sem ég tæki að mér í auglýsingum fyrir verkefnið.
Ég mun því lenda á táknrænan hátt á vellinum við Kerlingarfjöll á leiðinni norður en nota að öðru leyti þau ráð sem ég ræð yfir til að vekja athygli á átaki dagsins.
![]() |
Gengið til góðs í dag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.10.2010 | 22:50
Frábærir útrásarvíkingar.
Því miður hefur orðið útrásarvíkingur fengið á sig slæman blæ. Það er synd því að því fer fór fjarri og fer enn fjarri að það sé allt saman tómt bull og vitleysa sem djarfir og framsæknir ungir íslenskir hæfileikamenn taka sér fyrir hendur með frábærum árangri.
Ég átti því láni að fagna að vinna undir stjórn þeirra Vesturportsmanna í leikhúsinu árið 2007 og kynnast hinum ljúfa hæfileikamanni Gísla Erni Garðarssyni og samstarfsmanni hans, Víkingi Kristjánssyni.
Uppsetningin á Hamskiptunum eftir Kafka og frammistaða Gísla Arnar í því leikriti var algerlega einstæð.
Gott gengi íslensks leikhúsfólks svo sem frábærar móttökur sem Faust fær í London, að ekki sé talað um hina miklu viðurkenningu, sem Vesturport fær með leiklistarverðlaununum, er dæmi um þau tækifæri sem felast í nýtingu íslensks mannauðs á ýmsum sviðum og er forsenda fyrir góðu gengi íslensku þjóðarinnar.
Ekki dregur úr gleði minni að vita af velgengni míns góða vinar og skólabróður Þorsteins Gunnarssonar í Faust, en Þorsteinn stökk fram sem alskapaður leikari aðeins 16 ára gamall og saman áttu við saman einhverjar ánægjulegustu stundir lífs míns í sýningum Herranætur 1958, 59 og 60.
![]() |
Fengu frábærar móttökur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.10.2010 | 16:23
Mótsagnir svona stríðs.
Hernaður með þeirri véltækni sem her NATO í Afganistan notar krefst mikilla flutninga á vistum og vopnum. Í heimsstyrjöldinni síðari unnust stríð og töpuðust jafnvel frekar vegna flutngavandamála en vopnaviðskipta á vígvellinum.
Þjóðverjar notuðu 700 þúsund hesta í innrásinni í Sovétríkin í júní 1941 auk tugþúsunda vélknúinna tækja.
Ein af aðalástæðum þess að sókn þeirra stöðvaðist aðeins 15 kílómetra fyrir norðvestan miðborg Moskvu í byrjun desember voru flutningavandamál, ekki vopnaviðskipti á vígvellinum.
Bandamenn unnu sigur í styrjöldinni á grundvelli yfirburða í framleiðslu vopna og flutningatækja.
Óli Tynes flutti athyglisverða frétt um hernaðinn í Afganistan nú í vikunni þar sem lýst var mótsögnunum varðandi hergagnaflutninga í þessu landi sem hentar svo illa til þess hernaðar af því tagi sem nýtir vestræna tækni.
komið hefur í ljós að flutningarnir á vistum og búnaði til herja NATO eru svo umfangsmiklir að ekki er herstyrkur fyrir hendi til þess að verja þá.
Ef auka á herstyrkinn verður að að auka herflutningana líka sem aftur kallar á aukna flutninga.
Til þess að bægja ógn árása skæruliðanna frá sér hafa foringjar í hernum orðið að semja við Talibana um að kaupa sér frið með því að borga þeim fyrir að láta flutningalestirnar í friði.
Minnir þetta á sambærileg fyrirbrigði í samskiptum mafíunnar við fólk og lögreglu í borgum heims þar sem mafían fjármagnar starfsemi sína með því að fá borgað fyrir að láta ákveðna aðila eða staði í friði.
Talibanar nota síðan peningana til þess að efla sig á allan hátt og þannig er í gangi hringekja mótsagna í þessu stríði sem virðist ganga lítið betur fyri innrásarher Vesturlanda en innrásarher Sovétríkjanna á sínum tíma eða her Bandaríkjamanna í Víetnam.
![]() |
Eyðilögðu tugi herbíla NATO |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
1.10.2010 | 09:17
Viðsjárverðir tímar.
Líklegast horfum við nú fram á róstusaman vetur. Þegar kreppa ríkir í þjóðfélaginu eins og til dæmis var á kreppuárunum á fjórða áratugnum má búast við ýmsu.
Á þeim áratug kom í ljós að jafnvel grónar menningarþjóðir gátu hugsað sér ótrúlegustu breytingar.
Í bloggi mínu á eyjunni tek ég sem dæmi að aðeins ein eftirgjöf skulda, sem upplýst var um í Kastljósi í gærkvöldi til handa fjölskyldufyrirtækis Halldórs Ásgrímssonar nemur 2600 milljónum króna, en í aðdraganda þess höfðu eigendur fyrirtækisins skammtað sér 600 milljónir króna í arð !
Ef þessum 3200 milljónum er skipt í 320 hluta verður útkoman 10 milljónir króna. Líkast til myndi 10 milljóna króna aukaeftirgjöf á skuldum 320 heimila geta afstýrt að um þúsund íbúar þessara heimila verði bornir út á næstu vikum.
Þegar fólk sér svona dæmi blasa við og veit að þetta er aðeins eitt af mörgum skal engan undra að sitthvað geti gerst í stjórnmálum hér á landi.
Ofan á þetta bætast við órói og úlfúð á Alþingi, sem ekki var á bætandi.
Þetta er ískyggilegt í meira lagi og enginn veit hvort komandi vetur verður eitthvað líkur vetrinum 2008 til 2009.
![]() |
Skíthræddir við nýtt framboð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)