VEÐURVÆTTIR REIÐAR.

Var að fá upphringingu um að útskýra frekar kviðlinginn á bloggsíðunni í dag. Sjálfsagt mál. Nafn kviðlingsins eru af gefnu tilefni, óveðri sem hefur riðlað áætluninni um fyrirkomulag gangsetningarathafnar Kárahnjúkairkjunar. Nafnið er hliðstætt hugtakinu "Kverkfjallavættir reiðar", sem Jón Helgason notað í því erindi Áfanga sem fjallar um Hvannalindir og svæðið þar í kring.

Fyrstu hendingar kviðlingsins lýsa því að Kárahnjúkavirkjun er mikið verkfræðilegt afrek og að því leyti geta þeir sem að því stóðu að því að framkvæma skipanir um byggingu hennar verið stoltir af þessari mestu framkvæmd Íslandssögunnar. En það er nokkurn veginn það eina sem ég sé ástæðu til að vera stoltur af.

Stoltið er blandað skammartilfinningu svipað og ef besta fáanlega tækni yrði notuð til að virkja Geysi og Gullfoss eða stækka Steingrímsstöð með því að drekkja Þingvöllum.

Vatnajökull og svæðið umhverfis hann er einfaldlega langverðmætasta náttúrufyrirbæri Íslands sem líkt og mestu listaverk heims þolir ekki að stórum hluta þess sé umturnað fyrir virkjun sem ekki einu sinni stenst lágmarkskröfur um arðsemi.

Nú útiloka vísindamenn ekki að á sprungusveim Kverkfjalla geti orði eldgos af mannavöldum vegna þungans af Hálslóni sem vex og minnkar á víxl á hverju ári. Verði eldsumbrot þarna fá orð Jóns Helgasonar um "Kverkfjallavættir reiðar" nýtt líf.

Þeir hinir sömu og nú eru stoltir af verkfræðilegum afrekum eystra myndu þá væntanlega líka verða stoltir af því að þessi tækni ylli eldgosi. "Stórkostlegt túristagos, auknar ferðamannatekjur á svæðinu!"

Allt þetta og fleira á ég við með orðinu "virkjunarhneyksli".

Ég vísa í fyrri skrif mín um það gildi sem ósnortinn Hjalladalur hefði haft og á eftir að blasa við fólki enn betur en fyrr þegar heimildarmyndir um hann líta dagsins ljós.

Margkyns ráð eru notuð til að kaupa fólk til fylgis við þessar framkvæmdir sem þurrka munu upp stórkostlega fossa á næsta ári í viðbót við það að fylla Hjalladal af auri.

Reiðum vættum landsins, í þetta sinn veðurvættum, tókst að koma skilaboðum á framfæri í dag. Spurt var rétt í þessu í útvarpinu hvers vegna engir mótmælendur hefðu verið við Nordica. Því er auðsvarað: Það var ekki vitað fyrirfram að sá hluti athafnarinnar, sem fínasta fólkinu var boðið til færi þar fram.

Ómakið var reyndar tekið af mótmælendum, - veðurvættirnar sáu um mótmælin á margfalt áhrifameiri hátt. Vona að þetta dugi til útskýringar á neðangreindum kviðlingi í tilefni dagsins:

VEÐURVÆTTIR REIÐAR.

Tæknin er mikil og mögnuð /
svo mennirnir kikna í hnjánum, /
en fjölröddun fuglanna er þögnuð /
og fossarnir allir í ánum. /
Já, nú ber vel til veiðar, - /
af virkjunarhneyksli menn guma /
er veðurvættir reiðar /
varnaðarorðin þruma. /

Bjóðast þar fúlgur fjárins /
svo fylgi við spjöllin tryggist. /
Fagran dal fylla skal auri. /
Fjallkonan tárast og hryggist. /
En þið sem að því standið /
og umturna landi hyggist, - /
verknaður ykkar mun uppi. /
á meðan land byggist. /


mbl.is Ræs! sagði Össur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

FRÁLEITUR UPPSLÁTTUR.

Síðan hvenær er það orðið að stórmáli í fréttum hvort stjórnmálamenn hafa læknisvottorð upp á vasann þegar þeir koma úr veikindaleyfi? Þeir hafa oft og iðulega eins og annað fólk farið í veikindaleyfi og komið aftur án þess að blásist hafi upp umræða um vottorð, enda finnst mér það vera einkamál viðkomandi hvort hann fær sér slíkt vottorð og framvísar því eða ekki.

Dæmi: Ólafur Thors fór í margra mánaða veikindafrí að læknisráði og kom aftur án þess að nokkur væri að pæla í vottorði. Ingibjörg Pálmadóttir fékk aðsvif og hélt síðan áfram og enginn talaði um vottorð. Nýlega flutti Einar Karl Haraldsson ræðu fyrir Össur og enginn talaði um vottorð. Þyrla sótti forseta Íslands á Snæfellsnes og hann var fluttur á sjúkrahús þegar hann axlarbrotnaði í Landssveit og enginn minnist á vottorð.

Bush Bandaríkjaforseti fór í læknisaðgerð og var frá á meðan og engan fjölmiðil sá ég minnast á vottorð.

Kannski fengu allir þessir menn sér vottorð? Ef svo var, - hvað með það? Það veit það enginn því enginn hefur spurt enda einkamál viðkomandi.

Á bloggsíðu Önnu Kristinsdóttur kemur fram að hvergi sé stafur um vottorð í reglum borgarstjónar og þess vegna eru allar þessar samsæriskenningar og upphrópanir út í hött.

Ég segi bara: Hættum þessu kjaftæði og leyfum Ólafi F. að eiga jól og áramót í friði.


mbl.is Ólafur F. látinn skila vottorði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

GERUM BÚÐARFERÐIRNAR ÞÆGILEGRI !

Fyrir örfáum dögum birtist frétt um að verslunarmiðstöð á Spáni hefði látið útbúa athvarf fyrir þá sem ekki eiga að fullu samleið með verslunarfélögum sínum og ég sagði við sjálfan mig: Mikið var að einhver áttaði sig á þörfinnni fyrir að auðvelda fólki að láta sér líða vel í verslunarferðum. Ég skal nefna dæmi sem útskýrir það sem ég á við. Ég og undirleikari minn, Haukur Heiðar Ingólfsson læknir, höfum farið í fjömargar ferðir til útlanda til þess að skemmta Íslendingum erlendis.

Haukur vann sem ungur maður í verslun á Akureyri og Helga kona mín hefur unnið í verslunum um áratuga skeið frá unglingsárum. Þau hafa gaman af því að fara um verslanir þótt þau versluðu ekki neitt, einkum fataverslanir, því að bæði unnu lengst af í fataverslunum og því áhugavert að kynna sér fatatískuna, verslunarhættina og uppstillingu varningsins.

Sveinrós kona Hauks hefur einnig gaman af því að skoða verslanir. Ég á ekki slíkan bakgrunn, hef nákvæmlega engan áhuga á fatnaði og verslunum.

Ég hef hins vegar gaman af því að rölta um í góðum bókaverslunum og verslunum sem bjóða upp á ljósmyndavörur, kvikmyndavélar, tölvur og varning sem tengist flugvélum og bílum.

Ég er yfirleitt mun skemmri tíma inni í þessum verslunum en hin þrjú í sínum verslunum.

Við höfum fyrir löngu komið okkur upp fyrirkomulagi sem hentar okkur öllum afar vel og kallar á sérstakt athvarf fyrir það okkar sem ekki er að rölta um búðir í það og það skiptið.

Við göngum í smátíma saman en fljótlega kemur að því að við höfum ekki áhuga á að skoða öll sömu hlutina jafnlengi.

Þá ákveðum við að gefa verslunargönguna frjálsa fyrir hvern og einn eða tvö og tvö saman eftir atvikum og sammælumst um að hittast öll á ákveðnum tíma á ákveðnum stað.

Oftast er það ég sem eignast við þetta aukalegan tíma þar sem ég er ekki að skoða varning og þá hef ég löngum undrast að ekki skuli vera til athvarf fyrir þá sem svo háttar um.

Þetta er misjafnt eftir stöðum. Stundum er hægt að setjast niður á veitingastað og koma sér fyrir við borð með fartölvu, bók eða annað, en í sumum verslunarmiðstöðvum er þetta ekki auðvelt.

Ég minnist þess til dæmis hve örðug aðstaða mín var í Illum Kaupmannahöfn að finna stað þar sem ég gæti dundað við að semja texta við lag.

Þörfin fyrir athvarf getur verið mismunandi eftir atvikum og því ekkert endilega kynbundin. Til dæmis unir Haukur Heiðar sér oft vel í sínum upphaldsverslunum og stundum stendur þannig á að það eru karlarnir eða karlinn sem á tímafrekara erindi við innkaup sín eða skoðun á vöruúrvali.

Þegar við Bubbi Morthens fórum til Manchester til að lýsa hnefaleikakeppni langaði hann að skoða sérverslun með flugur fyrir veiðimenn en mig langaði að skoða nýjustu árgerð af gömlu gerðinni af Mini sem þá var enn framleidd.

Til gamans fyrir báða fórum við báðir á báða staðina og skemmtum okkur konunglega yfir því að fylgjast með sérvisku og hegðun hvor annars. Ég hafði nákvæmlega ekkert vit á flugunum og hann vissi ekkert um Mini, enda var hann þá enn ekki kominn með bílpróf ef ég man rétt og hafði engan áhuga á bílum.

En viðbrögð mín við framtaki Hagkaupa er þessi: Fögnuður yfir því að forráðamenn stórra verslana og verslunarmiðstöðva lagi sig loks að verslunarhegðun viðskiptavinanna.

Eða er það ekki boðorð númer eitt í verslun: Viðskiptavinurinn hefur alltaf rétt fyrir sér ?


mbl.is Pabbar í pössun í Hagkaupum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

MEIRIHLUTINN SEM VARÐ MINNIHLUTI.

Hvers vegna þarf aftur og aftur að berjast sérstaklega fyrir því í kjarabaráttu að reyna að hífa upp þá sem lægst hafa launin og ekki hafa notið launaskriðs? Af hverju virðist þetta ástand hafa versnað síðustu áratugi? Ég held að hluti skýringarinnar sé fólgin í því að nú er það minnihluti verkalýðsins sem vinnur eftir strípuðum töxtum en fyrr á árum var það meirihlutinn. Skoðum þetta nánar. 

Þegar ég var ungur voru línurnar í verkalýðsbaráttunni nokkuð skýrar. Verkamenn voru fjölmenn stétt og yfirgnæfandi meirihluti þeirra vann á "strípuðum" töxtum eins og það væri kallað nú. Ég tel mig hafa haft gott af því að allt frá 13 ára aldri vann ég verkamannavinnu í jólafríi, páskafríi og á sumrin. Á aldrinum 17-20 ára vann ég líka á kvöldin og um helgar við byggingu Austurbrúnar 2 til að eignast þar íbúð og held að ég kynnst nokkuð vel kjörum verkalýðsins á þessum tíma.

Verkamenn voru svo fjölmennir þá vegna þess að ekki voru komin til sögunnar hin fjölmörgu tæki og tól sem nú eru notuð við að grafa skurði, leggja vegi o. s. frv. Sem dæmi má nefna að víða varð að beita þeirri aðferð við að flytja til varning, t. d. í pakkhúsum, að verkamenn mynduðu röð og varningurinn var handlangaður manna á milli þá leið sem þurfti að flytja vöruna. Í svona röð afkastaði enginn maður meira en annar og því var eðlilegt að allir hefðu sama kaup.

Þegar skipað var upp t. d. sekkjavöru tóku tveir og tveir saman sekkina upp og settu þá upp á bretti. Báðir afköstuðu jafn miklu.

Á þessum árum var atvinnuleysi. Ég var stundum einn af þeim sem fór í biðröð niðri við höfn og beið eftir því hverja Jón Rögnvaldsson valdi til vinnu þann daginn.

Við slíkar aðstæður varð því ekki til launaskrið heldur mætti kalla það vinnuskrið. Þeir sátu eftir sem ekki fengu vinnu.  

Verkalýðsbaráttan varð því einfaldari en nú. Barist var fyrir launahækkun og þegar laun hækkuðu hækkuðu svo til allir jafnt. Verkamannafélagið Dagsbrún var einsleitt félag að þessu leyti og yfirgnæfandi meirihluti félagsmanna vann á strípuðum töxtum. Og meirihlutinn hefur alltaf sterka stöðu innan hópsins, ekki satt?

Nú er þetta gjörbreytt. Í verkamannafélögunum er líkast til minnihluti sem vinnur einfalda verkamannavinnu með handverkfærum. Meirhlutinn hefur farið á námskeið, vinnur eftir bónuskerfi o. þ. h. og mun fleiri eiga möguleika á launaskriði en þegar afköstin fólust eingöngu í líkamlegu erfiði.

Afleiðingin er sú að þessi minnihluti hefur erfiða stöðu og ég held að það sé þess vegna sem svona illa gengur að hífa þá lægst launuðu upp í kjarabaráttunni. Af því að hver hugsar á endanum um sitt eigið veski siglir meirhlutinn aftur og aftur í burtu frá kjörum minnihlutans og skilur hann eftir með sárt ennið.

Hvers vegna skyldi meirihlutinn berjast fyrir kjörum minnihlutans? Og jafnvel þótt hann geri það í orði er alltaf hætta á að það verði ekki á borði.

Ég tek fram að ég hef ekki kynnst kjörum kvenna í verkalýðsstétt á sama hátt á okkar tímum og kjörum karla fyrr á árum og framangreindar vangaveltur eru því alls ekki vísindaleg greining heldur einungis tilraun til að leita skýringar á hluta þess vandamáls sem bág kjör hinna lægst launuðu er og stingur illilega í stúf við það meðaltal sem notað er þegar okkur er skipað efst á stall bestu þjóðfélaga heims.   

 


BETUR MÁ EF DUGA SKAL.

Hún er góð fréttin um að losun gróðurhúsalofttegunda í iðnaði í Bandaríkjunum hafi minnkað. En betur má ef duga skal hjá þjóð sem stendur fyrir fjórðungi allrar losunar í heiminum. Síðustu tíu ár hefur sigið mjög á ógæfuhlið hjá þeim hvað snertir bílaflotann. Þeir voru komnir vel á veg með að minnka eyðslu venjulegra fólksbíla.

Sem dæmi get ég nefnt að í hátt á annan tug þúsunda kílómetra akstri milli þjóðgarða og virkjana sem við hjónin ókum hér um árið, vorum við á 1600 kílóa bíl með sex strokka tæplega 200 hestafla vél og allan tímann í tímakapphlaupi og ókum á löngum köflum upp og niður í Klettafjöllunum, allt upp í rúmlega 4000 metra hæð yfir sjávarmál. Þrátt fyrir þetta var meðaleyðslan um 8,5 lítrar á hundraðið. Bensínið var svo ódýrt að kostnaðurinn samsvaraði 3,5 lítra eyðslu á Íslandi. 

Þessir bílar höfðu og hafa litla loftmótstöðu og afar háan efsta gír.  

Síðan þetta gerðist hefur "hinn ameríski lífsstíll" hins vegar fætt af sér jafn hastarlegt hestaflakapphlaup og ríkti á árunum 1955-60. Stórir fjórhjóladrifnir drekar komust í tísku og hinn dæmigerði bandaríski pallbíll, tákn frelsisins í víðáttum vestursins, rauk upp í um og yfir þrjú tonn með allt að 400 hestafla vélum, jafnvel 500 hestafla rokkum.

Á árunum eftir orkukreppuna í kringum 1980 voru settar strangar reglur í Bandaríkjunum sem þvinguðu bílaframleiðendur til að framleiða sparneytna fólksbíla.

Síðari árin hafa bílaframleiðendurnir hins vegar komist fram hjá þessu með því breyta bandaríska vinnubílnum, pallbílnum, sem var undanþeginn sparneytnisreglunni, í lúxusfarartæki með palli, jafnvel af gerðinni Cadillac.

Í útliti þessara bíla er fyrst og fremst hugsað um að gera þá verklega og hernaðarlega, með köntuðu lagi sem skapar mikla loftmótstöðu. Þetta hefur verið "karlmannatíska í stáli."

Hestaflakapphlaupið hefur hins vegar séð fyrir því að þetta kemur ekki að sök hvað snertir hraða þessara bíla, en fyrir bragðið eyða þeir tvöfalt og jafnvel þrefalt meira en fólksbílar með jafn mörg sæti gera.

Í Bandaríkjunum kostar bensínið allt að þrefalt minna en hér á landi þannig að flestum Bandaríkjamönnum er slétt sama um eyðsluna.

Ég sé engin merki um að Bandaríkjamenn ætli að hreyfa við þessu óeðlilega ástandi enda er ekki að sjá að losunin hafi minnkað þar hjá bílaflotanum.

En okkur ferst svo sem að tala um kanann. Sjálf aukum við losunina ár frá ári og bandaríski pallbílsdrekinn er að verða okkar þjóðartákn. Við nálgumst óðfluga Norður-Ameríkumenn í losuninni og samt njótum við góðs af því að geta hitað upp hús okkar að mestu leyti með mengunarlausum hitaveitum.

Betur má ef duga skal fyrir vestan, hvað þá hér heima.  

 

 

 

 

 


mbl.is Minni losun í Bandaríkjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

MISMUNUN TUNGUMÁLA.

Heyrði rétt í þessu að auglýstur var í sjónvarpi bíll sem er ekki lengur fólksvagn heldur vólksvagn. Mér finnst það hart fyrir umboðið, sem selur Volkswagen, að þulurinn í auglýsingu þeirra skuli ekki getað borið svo þekkt nafn rétt fram. Þjóðverjar bera þetta nafn fram "folksvagen" og þar sem þetta nafn þýðir fólksvagn á íslensku er það enn fráleitara að bera þetta fram "volksvagen."

Enginn auglýsingaþulur kæmist upp með það að bera nafnið Range Rover fram eins og það væri íslenskt heldur myndi hann að sjálfsögðu bera það fram "reinds rover."

Ég tala um mismunun tungumála vegna þess að allir vanda sig við að bera fram ensk nöfn en sýna öðrum tungumálum, - íslenska meðtalin, - furðulega lítilsvirðingu.  


KRISTINN OG JÓNAS - EINFÖLD SNILLD.

Sperrti strax eyrun þegar síðasta lag fyrir fréttir hljómaði í útvarpinu áðan. Ekki aðeins var söngurinn afbragð heldur ekki síður undirleikurinn í laginu Hamraborginni. Píanóleikarinn sló nóturnar við kaflaskil lagsins svo ofurseint og hægt og veikt að svona nokkuð hef ég ekki áður heyrt píanóleikara voga sér að gera svona afdráttarlaust. Fyrir bragðið mynduðust dramatískar þagnir og hljóð spenna.

Eftir hendinguna "...er blundað á rósum"... komu næstu þrjár nótur ótrúlega hægt og lágt. Það lá greinilega ekkert á. Manni datt í hug að hugsun píanóleikarans væri svipuð eins og hjá manninum, sem átti að hengja, lét bíða eftir sér og rökstuddi töfina með því að það gerðist ekkert fyrr en hann kæmi. 

Og hvers vegna ekki að dotta nánast við píanóið? "Blundað á rósum" táknar jú algera kyrrð.  

Stemningin sem myndast við það að þessar þrjár nótur eru slegnar svona ofurhægt og hljótt gerir það að verkum að lokakaflann verður enn magnaðri og áhrifameiri: "...nóttin logar af norðurljósum!" Er hægt að biðja um betri túlkun á því að í þessu hálfmeðvitundarlausa ástandi er logandi himinninn í algerri mótsögn við hina æpandi þögn. 

Það eru venjulega tenórar sem syngja Hamraborgina og einkum er það orðið "logar" í hendingunni "nóttin logar af norðurljósum" sem gefur þeim tækifæri til að þenja röddina og hálfsprengja á þann hátt sem bassar og baritónar geta ekki gert.

Söngvarinn í síðasta laginu fyrir fréttir í dag var ekki tenór en samt greip flutningur hans mann heljartökum og píanóleikarinn sýndi hvað hægt er að gera með samstilltri snilld söngvara og undirleikara. 

Síðan sagði þulurinn: "Kristinn Sigmundsson söng. Jónas Ingimundarson lék á píanóið." Það hlaut að vera. Tveir snillingar leggja sama, gefa margsungnu lagi nýja vídd og frægustu tenórum langt nef.

Nú er Kvik að gera heimildarmynd um Kristin Sigmundsson og á Páll Steingrímsson miklar þakkir skildar fyrir það. Þetta hefði að vísu átt að gera strax fyrir áratug á vegum sjónvarpsstöðvanna en hinn mikli og hógværi ljúflingur Kristinn hefur aldrei kunnað að trana sér fram.

Það má aldrei gerast að dagskrárliðurinn "síðasta lag fyrir fréttir" verði lagður niður hjá Rás 1. Eftir að fréttastefinu góða var hent er þetta orðið það eina sem skapar þessum mínútum í dagskránni þá sérstöðu sem á að vera ófrávíkanleg að mínum dómi í dagskrá bestu útvarpsrásar á Íslandi.  


LEIKSKÓLAR FYRIR BORG OG FLUGHERI.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hóf frama sinn í stjórnmálum með raunsæjari afstöðu til EES en stallsystur hennar í Kvennalistanum. Svipaða takta sýndi hún á fundi um utanríkismál nú síðdegis hvað varðar hin nýju viðfangsefni hennar. Þar kom fram að erlendar herþotur frá ýmsum þjóðum muni æfa sig hér á landi í samtals 12 vikur af 52 á næsta ári. Og þá vaknar spurningin: Hvað gagnast okkur þetta flug í þær 40 vikur á ári þegar engar herþotur eru hér?

Sveinn Aðalsteinsson varpaði því fram að með því að stunda eftirlitsflug á hægfleygari og langfleygari vélum væri fyrir svipaðan kostnað hægt að stunda eftirlitsflugið allt árið. Augljóst væri að leitað væri eftir svona flugi hér vegna þess að hér er mun dreifbýlla en í öðrum Evrópulöndum og því hægt að leika sér meira hér í svona stríðsleik. 

Af svari Ingibjargar mátti ráða að þetta æfingaflug væri heimilað að beiðni þessara vinaþjóða til þess að stunda við þær vinsamlega samvinnu í varnarmálum.  

Af því má draga þá ályktun að beint hernaðarlegt gildi fyrir varnir Íslands hafi þetta flug ekki heldur verði landið leikvöllur fyrir herþotur og æfingarnar myndu því jafnvel gagnast á endanum annars staðar en hér.

Kannski á það eftir að koma að notum ef ef einhvers staðar kemur til hættu- eða hernaðarástands þar sem NATÓ telur sig þurfa að láta til sín taka.  

Þegar Ingibjörg Sólrún var borgarstjóri hampaði hún aukinni áherslu á leikskólana.

Þegar þoturnar fara að þruma í lágflugi yfir hálendinu næsta sumar skulum við því líta til þess með svipuðu hugarfari og þegar horft er á leiki blessaðra barnanna við leikskólana í borginni.

Áður var Ingibjörg borgarstjóri en nú er hún utanríkisráðherra og leikskólarnir hennar hafa því breyst úr mörgum leikskólum fyrir börn í einn stóran leikskóla fyrir NATÓ-herflugmenn. Þetta er sko real-pólitíkus. 

 


HETJA DAGSINS - BESTA LANDIÐ - SJÚKLINGAR AFRÆKTIR.

Er að horfa á Eddu Heiðrúnu Backmann í sjónvarpinu, hetju dagsins og fyrirmynd í því hvernig hægt er að takast á við erfiðan sjúkdóm. Það er nöturleg tilviljun að þennan sama dag, 27. nóvember, eru tvær aðrar fréttir á kreiki, - önnur um það að best sé að lifa á Íslandi, og hin, að fólk með MS-sjúkdóminn þurfi að sætta sig við það að hraka vegna sjúkdómsins af því að þetta ríka þjóðfélag dregur að flytja til landsins lyf sem getur létt því baráttuna við grimman sjúkdóm. Þessar þrjár fréttir, Edda Heiðrún, MS-sjúklingarnir og Ísland, besta land í heimi er umhugsunarefni fyrir okkur öll.

GUÐLAUGUR ÞÓR, - SKOÐAÐU HÚSIN Í NOREGI !

Í Noregsferð fyrir tveimur árum skoðaði ég tvö "hátæknisjúkrahús", - annað í Þrándheimi og hitt í Osló og sýndi þau stuttlega í sjónvarpsfréttum. Húsið í Þrándheimi töldu Norðmenn gersamlega misheppnað en hins vegar sérlega vel heppnað í Osló. Munurinn fólst í forsendunum fyrir húsunum. Í Þrándheimi voru hús, sem fyrir voru, tengd með tengiálmum, jarðgöngum og nýjum húsum. Sem sé: Þetta var bútasaumur. Flestir sem ég talaði við töldu útkomuna hörmulega og líktu þessu við skrímsli.

Þrándheimur og Þrændalög er það svæði í heiminum sem er sambærilegast við höfuðborgarsvæðið hér. Sama breiddargráða, veðurfar, mannfjöldi, þjóðfélagsaðstæður og lífskjör.

Stóra, nýja sjúkrahúsið í Osló, var hins vegar stolt Norðmanna. Í stað "bútasaums" var byrjað með autt blað á auðu svæði og hannað sjúkrahús sem virðist hreint út sagt vera snilldarlausn á verkefninu.

Það var upplifun að koma inn í þetta hús þar sem af mikilli útsjónarsemi var öllu svo fyrirkomið að boðleiðir væru greiðar og umgerðin þannig öll innan dyra og utan að umhverfi sjúklinganna væri sem líkast umhverfi "heilbrigðra".

Þannig minntu spítalagangarnir mest á götur í þorpi og sjúkrahúsið var sett upp sem lítið þorp þar sem rólfærir sjúklingar gátu farið út að gluggum og svölum og horft yfir þorpsgötuna, spítalaganginn.

Ég ræddi við íslenskan lækni sem þarna vinnur og hældi þessum vinnustað í hástert. Hann sagði uppsetningu spítalans svo einfalda að varla tæki nema dagstund að verða þar hagvanur og átta sig á öllum boðleiðum.

Til samanburðar má nefna að ég hef talað við starfsfólk við Landsspítalann í Reykjavík sem hefur unnið þar árum saman og hefur varla enn lært að rata um alla afkima þeirrar stofnunar.

Sjónvarpsfrétt mín var í tilefni af komu bandarísks sérfræðings hingað til lands sem taldi mögulegt að útbúa gott risasjúkrahús á Landspítalalóðinni.

Ferð mín til Þrándheims og Osló fær mig til að efast um það og raunar grunar mig að það verði miklu dýrara að "bútasauma" nýjar og gamlar byggingar á Landsspítalalreitnum með tilheyrandi tengiálmum og jarðgöngum heldur en að byrja frá grunni á auðri lóð eins og gert var í Osló.

Mér finnst sporin frá Þrándheimi hræða.  

Ég skil ekki af hverju það er talið hagkvæmara að sauma saman margar byggingar, gamlar og nýjar á Landspítalareitnum en til dæmis að prjóna við Borgarspítalann, að ekki sé nú talað um sjúkrahús á nýjum reit, til dæmis við Vífilsstaði eða við innanverðan Grafarvog.

Líka má spyrja hvers vegna ekki sé dokað við þangað til vitað er hvar Reykjavíkurflugvöllur verður endanlega hafður, en það hlýtur að koma í ljós innan fárra ára.

Ef hann verður á Hólmsheiði er fallin sú forsenda Landspítalalausnarinnar að gott sé að hafa sjúkrahúsið sem næst flugvelli.

Sjúkrahús færir ekkert líf inn í umhverfi sitt. Engir eiga þangað erindi nema til og frá á bíl. Starfsfólkið kemur og fer í vinnu sem skjótast og sama er að segja um þá sem koma í heimsókn, þeir flýta sér báðar leiðir.

Ég held að aðrir möguleikar en risasjúkrahús séu betri til að hleypa fjölbreyttu lífi í þetta mikilvæga svæði nálægt gömlu miðborginni. Hvað um þekkingarþorpið eða blandaða byggð?

Krossgötur höfuðborgarsvæðisins eru í Elliðaárdal og ef flugvöllurinn verður á Hólmsheiði er Landspítalareiturinn kominn áleiðis út í úthverfi.

Ef flugvöllur verður áfram þar sem hann er (sem ég er persónulega hlynntur) , sýnist mér stækkun borgarspítalans vera einfaldari lausn, enda lendir hátæknisjúkrahúsið þá mitt á milli krossgatnanna og flugvallarins og verður því sem næst við þungamiðju byggðar á höfuðborgarsvæðinu. 

Í Fossvogi yrði nýja byggingin prjónuð út frá einni byggingu en ekki verið að bútasauma saman margar misgamlar og mishentugar byggingar.

Ég hef spurt borgarfulltrúa að því af hverju Landspítalareiturinn varð fyrir valinu og þeir sem ég talaði við virtust vera búnir að gleyma því, - það er svo langt síðan.

Nú höfum við fengið nýjan heilbrigðisráðherra og við hann segi ég: Guðlaugur Þór, farðu til Oslóar og Þrándheims og skoðaðu sjúkrahúsin þar.

Láttu síðan endanlega lausn sjúkrahúsmálsins ráðast af heildarlausn samgöngumála í Reykjavík í lofti og á landi, sem enn liggur ekki fyrir, en er væntanleg innan fárra ára.

Orðið "hátæknisjúkrahús" er hvort eð er bull, - öll bitastæð sjúkrahús eru hátæknisjúkrahús.

Ég fór í fyrra í kynnisferð um sjúkrahúsið á Akranesi og sá ekki betur en það væri hátæknisjúkrahús sem gæti jafnvel keppt við Landsspítalann á ýmsum sviðum en á erfitt með það vegna niðurnjörvunar í stirðu opinberu kerfi.

Guðlaugur Þór, - er það ekki kjörið verkefni fyrir þig að hleypa nýjum straumum í þessi mál, ferskri sýn?  

 

 

  


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband