Hélt dyrum opnum.

Steingrímur J. Sigfússon fór að með mikilli gát í Silfri Egils í dag, minnugur mistakanna fyrstu dagana eftir síðustu kosningar. Þráspurður um það hvort VG væri sósílískur flokkur fór hann undan í flæmingi og staðsetti VG nálægt jafnaðarmannaflokkum Norðurlanda.

Hann sagði einnig að til greina kæmi að athuga aðildarumsókn að ESB samtímis því sem aðrir möguleikar til samstarfs við nágrannalöndin væru skoðaðir. Hann vildi heldur ekki halda fram kröfu um það að Davíð Oddsson viki, heldur vildi að "allt gengið" sem bæri ábyrgð á honum, Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu, þ. e. Geir og Björgvin og þar með ríkisstjórnin, vikju.

Það er rétt að ábyrgðin er viðkomandi ráðherra, Geirs og Björgvins, en krafan um að Davíð og Seðlabankastjórnin víki er hliðstæð því að krafa væri uppi um að stjórn KSÍ viki landsliðsþjálfanum og aðstoðarmönnum hans úr starfi vegna mistaka og slæms gengis landsliðsins og réði nýja.

Slíkar kröfur hafa komið fram í gegnum tíðina án þess að verið væri að heimta að stjórnin víki, heldur að hún víki þjálfaranum frá. 

Síðan geta málavextir að vísu verið þannig að krefjast þurfi þess að öll forystan víki en það er matsariði á hverjum tíma.  

Um árabil hefur það komið upp að rétt væri að skipta um menn í stjórnkerfinu hér og þar og ef það væri gert að skilyrði að ævinlega þyrfti að víkja viðkomandi ráðherrum um leið, yrði erfitt að hnika nokkru. 


mbl.is Vill að kosið verði í vor
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Of miklar sveiflur.

Í áttatíu ár hefur jafnvægi á fjölmiðlamarkaðnum verið af skornum skammti. Alla tuttugustu öldina báru dagblöð sem voru beint og óbeint á vegum Sjálfstæðisflokksins ægishjálm yfir hin dagblöðin. Alþýðublaðið átti góðan sprett á fjórða áratugnum undir forystu Finnboga Rúts Valdimarssonar og Tíminn upp úr 1960 undir stjórn Hauks Snorrasonar, Tómasar Karlssonar, Jóns Helgasonar og Indriða Þorsteinssonar.

Dagblaðið og seinna DV komu sterk inn eftir 1975 en  mestalla öldina voru Morgunblaðið og Vísir með meirihluta markaðarins langt umfram fylgi Sjálfstæðisflokksins.

Í aldarlok var svo komið að gömlu flokksblöðin Tíminn, Þjóðviljinn og Alþýðublaðið höfðu lagt upp laupana og Sjálfstæðisflokkurinn hafði tröllatak á báðum þeim dagblöðum sem eftir voru, Morgunblaðinu og DV. Aldrei í áttatíu ár hafði slagsíðan aldrei verið meiri á dagblaðamarkaðnum. 

Þá hefði verið þörf fyrir atbeina löggjafarvaldins. En ríkjandi valdamenn létu sér þetta vel líka.  

Þá gerist það að Fréttablaðið er stofnað og leikar jafnast á ný og höfðu aldrei fyrr verið jafnari.

En hvað gerist þá? Davíð Oddsson keyrir fram fjölmiðlafrumvarp sem augljóslega var beint gegn þessu ástandi. Þetta var synd, því að alla tíð hafði verið þörf á löggjöf til að sporna við slagsíðu á dagblaðamarkaðnum. 

Með þessu gerði Davíð mikið ógagn, kom öllu í uppnám og eyðilagði fyrir því að hægt væri að koma á fót nauðsynlegum og eðlilegum lagaramma um fjölmiðlamarkaðinn.  

Þjóðin skynjaði hinn raunverulega tilgang með fjölmiðlalögunum og því féllu þau fyrir atbeina hennar (skoðanakannanir) og forsetans. Eftir þann slag hefði þurft að stokka spilin upp á nýtt eftir að öldur lægði og setja nauðsynleg og skynsamleg fjölmiðlalög. 

Nú blasir við ný staða í eignarhaldi á fjölmiðlum og ein sveiflan enn. Hvað sjónvarps og útvarpsmarkaðinn snertir er mjög mikils virði að Ríkisútvarpið sé ekki einrátt og því yrði það skref afturábak, aftur fyrir 1986, ef einkareknu útvarps- og sjónvarpsstöðvarnar dæu drottni sínum.

Það er heldur ekki æskilegt að dagblöðin fari á hliðina. En skoðun mín hefur verið sú allt frá því er ég fyrst skynjaði veruleika dagblaðamarkaðarins fyrir 60 árum að slagsíðu í eignarhaldi og áhrifum á fjölmiðlana beri að forðast.

Með því er ekki tekin afstaða til þess, hverjir hafa þessi áhrif eða dómur um það hvort þeir misbeiti þeim, heldur er hér fyrst og fremst nauðsynlega undirstöðu lýðræðisþjóðfélags.  


mbl.is Félag Jóns Ásgeirs keypti fjölmiðla 365
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sá þetta utan frá.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var vestan hafs eins og ég þegar Davíð Oddsson gaf sjónvarpsstöðvum tækifæri til að spila aftur og aftur setninguna: "Við borgum ekki..." Ég veit ekki hvort hún upplifði svipað og ég, mikla persónulega skömm yfir því að vera Íslendingur og fá allt í einu framan í sig, þegar maður sagði útlendingum frá þjóðerni sínu: "Já, þú ert einn af þrjótunum sem ætla ekki borga eða standa við neitt."

Forsætisráðherra segir að ekki megi hagga við Davíð. Ef það má ekki, þá má auðvitað ekki hagga við neinum því að hann hefur gert flest og mest axarsköftin. Og ef Davíð víkur er röðin komin að fleiri. 

Ljóst er að Samfylkingin ætlar að nýta sér veika stöðu Sjálfstæðisflokksins með því að aðgreina sig frá honum á þann hátt að velja sér atriði þar sem hún geti fiskað í gruggugu vatni og beint athyglinni frá eigin ábyrgð á því hvernig komið er, hafandi bæði viðskiptaráðherra og formann viðskiptanefndar.

Lokatakmarkið kann að vera að kljúfa Sjálfstæðisflokkinn á þann hátt að meirihluti hans, sem vill evru og aðildarumsókn að ESB, taki völdin, og Davíð, Geir og LÍÚ-hópurinn kljúfi sig frá.

Athyglisvert er að þetta er fyrsta skoðanakönnunin í mörg ár þar sem Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki myndað stjórn með VG með þá stefnu að vera áfram utan ESB. Það veikir stöðu flokksins mjög ef hann getur ekki lengur spilað á það að geta í krafti stærðar sinnar valið sér samstarfsflokk í ríkisstjórn.

Það getur Samfylkingin hins vegar og er að þessu leyti komin í þá stöðu sem hefur verið sterkasta vopn Sjálfstæðisflokksins í allri sögu hans.     


mbl.is Ingibjörg segir Davíð skaða orðsporið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bera saman sambærilega hluti.

Í móðuharðindunum dó fjórðungur þjóðarinnar og 75% af búsmalanum. Upp úr 1860 reið kuldatímabil yfir sem varð til þess að stór hluti þjóðarinnar flýði til vesturheims. Þjóðin var ein sú fátækasta í Evrópu og stór hluti hennar var við hungurmörk og dró fram lífið, svipt öllum möguleikum til ferðalaga eða nokkurs annars en að strita fyrir brauðinu í sveita síns andlitis.

Landið bjó við erlent vald og hafði ekkert frelsi. "Volaða land" orti Matthías Jochumsson.  

1917 ríkti mesta kreppa síðustu aldar. Kaupmátturinn, sem flest er miðað við á okkar dögum, var brotabrot af kaupmætti dagsins  í dag. Flestir sveibæir landsins voru þá torfkofar og akfærir vegir nær engir. Árið eftir hrundi fólk niður þúsundum saman í spönsku veikinni. Engin flugvél var til í landinu og einu samgöngurnar við útlönd stopular siglingar á sjó. 

Það er móðgun við fólkið, sem þá stóð þetta af sér sem og kreppuna 1930-40 að líkja ástandinu núna við þessa erfiðu tíma. Afi minn og amma hefðu að minnsta kosti ekki gert það.

Þegar kaupmátturinn hefur rýrnað um 20% eins og spáð er, verður hann samt sem áður svipaður og hann var árið 2000. 

Það verður að líkja því saman sem sambærilegt er. Það er alveg nógu slæmt að segja að nú stefni í mesta atvinnuleysi á Íslandi í 60 ár og fleiri gjaldþrot en dæmi eru um á jafn skömmum tíma. Að við missum tugþúsundir fólks á besta aldri úr landi á sama tíma og stórfjölga mun í elstu aldursflokkunum.    


mbl.is Staðan ekki alvarlegri síðan í móðuharðindunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rjúkandi ráð.

Rjúkandi ráð var nafn á söngleik eftir bræðurna Jónas og Jón Múla Árnasyni sem sýnt var í því húsi, sem bar nafnið Framsóknarhúsið og síðar Storkklúbburinn og Glaumbær.

Nafnið táknaði ráðaleysi og mig minnir að slökkvilið hafi verið með í myndinni. Fyrir tilviljun brann síðan húsið sem var aðsetur söngleikjasmíða bræðranna, Glaumbær, í frægum bruna og kom í ljós að húsið var fágætur eldsmatur að allri innri smíð.

Nú fáum við að vita að Brown og Geir hafi setið að huggulegu spjalli á púðurtunnu sem rauk úr í Downingsstræti þegar í apríl síðastliðnum. Þetta var Glaumbær mikillar gleði og glaums íslensks og bresks fjármálapartís, fullur af eldsmat og fólki sem fór óvarlega og hætta á íkveikju fór sívaxandi.

Alltaf þyrptust fleiri og fleiri inn í húsið til að taka þátt í glaumnum og gleðinni.

Ýmsar leiðir voru til að afstýra stórbruna, sem vofði yfir, en niðurstaðan af huggulegu spjalli í teboðinu varð engin.

Í stað aðgerða var setti íslenski plötusnúðurinn á fóninn plötuna "Látum sem ekkert C" með Halla og Ladda og spilaði hana stanslaust á hæstu stillingu þar til eldurinn kviknaði svo að hún hljómaði hæst þegar húsið var orðið alelda.

Rjúkandi ráð þeirra Múlabræðra lýsti smámunum miðað við Rjúkandi ráð þeirra fóstbræðra Browns og Geirs. Aðalatriðið hjá forsætisráðherrunum varð að enginn sífjölgasti gesta í púðurtunnuhúsinu yrði var við neitt og að veislan mikla héldi áfram að færast í aukana.

Afleiðingin varð sú að þegar allt fuðraði upp var margfalt fleira fólk í húsinu en annars hefði verið og tjónið þeim mun meira.


mbl.is Geir aðvaraði Brown í apríl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband