Bera saman sambærilega hluti.

Í móðuharðindunum dó fjórðungur þjóðarinnar og 75% af búsmalanum. Upp úr 1860 reið kuldatímabil yfir sem varð til þess að stór hluti þjóðarinnar flýði til vesturheims. Þjóðin var ein sú fátækasta í Evrópu og stór hluti hennar var við hungurmörk og dró fram lífið, svipt öllum möguleikum til ferðalaga eða nokkurs annars en að strita fyrir brauðinu í sveita síns andlitis.

Landið bjó við erlent vald og hafði ekkert frelsi. "Volaða land" orti Matthías Jochumsson.  

1917 ríkti mesta kreppa síðustu aldar. Kaupmátturinn, sem flest er miðað við á okkar dögum, var brotabrot af kaupmætti dagsins  í dag. Flestir sveibæir landsins voru þá torfkofar og akfærir vegir nær engir. Árið eftir hrundi fólk niður þúsundum saman í spönsku veikinni. Engin flugvél var til í landinu og einu samgöngurnar við útlönd stopular siglingar á sjó. 

Það er móðgun við fólkið, sem þá stóð þetta af sér sem og kreppuna 1930-40 að líkja ástandinu núna við þessa erfiðu tíma. Afi minn og amma hefðu að minnsta kosti ekki gert það.

Þegar kaupmátturinn hefur rýrnað um 20% eins og spáð er, verður hann samt sem áður svipaður og hann var árið 2000. 

Það verður að líkja því saman sem sambærilegt er. Það er alveg nógu slæmt að segja að nú stefni í mesta atvinnuleysi á Íslandi í 60 ár og fleiri gjaldþrot en dæmi eru um á jafn skömmum tíma. Að við missum tugþúsundir fólks á besta aldri úr landi á sama tíma og stórfjölga mun í elstu aldursflokkunum.    


mbl.is Staðan ekki alvarlegri síðan í móðuharðindunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Ómar þetta er ekki alveg sanngjörn samlíking hjá þér. Vissulega búum við í góðu húsnæði og það hefur áhrif á heilsufar okkar til hins betra. Mannvirkin munu standa áfram en hvernig verður samfélagið. Í dag er það þannig að fólk getur vart snúið sér án þess að þurfa að greiða fyrir það. Sjálfsþurftarbúskapur er hér mjög lítill og fólk sem er illa úti á erfitt með að bjarga sér.

Við þurfum t.d. að borga fyrir það að börnin okkar fái að leika okkur við önnur börn (námskeið og leikskóli). Heilsugæsla er orðin óheyrilega dýr og hætta er á að fólk fari að fresta því að leita til heilbrigðiskerfisins sem minnkar árangur af heilbrigðisþjónustu. Minnkun kaupmáttar er ekki að dreifast jafnt á almenning. Hluti þjóðarinnar kemur til með að búa við ömurlega örbyggð meðana aðrir leika sér.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 1.11.2008 kl. 17:31

2 identicon

Jakobína, þú bendir á að hluti þjóðarinnar kemur til með að búa við ömurlega örbyggð sem og að heilsugæslan sem aðrir hlutir séu óheyrilega dýr. Ég get ekki séð að Ómar var að þrætta við að ástandið sé vont, en auðvitað er þetta afskaplega sanngjörn samlíking hjá Ómari.

Þó ástandið sé vont og mun versna hjá mörgum er þetta alls ekki versta staða íslendinga síðan á móðurharðindunum, eins og Ómar bendir á ef þú lest orð hans með opnum huga.

Þorri (IP-tala skráð) 1.11.2008 kl. 17:48

3 identicon

Ómar ég er algerlega sammála þér. Það er ekki hægt að líkja þessu saman. Að standa frammi fyrir því að geta alls ekki brauðfætt sig og sína eða eins og staðan er í dag. Þó að sárt sé getur fólk leitað sér hjálpar. Auðvitað er þetta ástand þungt fyrir marga, en það er ekki um líf eða dauða að tefla eins og var í móðuharðindunum. Við Íslendingar getum verið þakklát fyrir hvað samfélagsgeðin okkar hefur þróast í átt að jöfnuði og réttlæti. Við höfum gott heilbrigðiskerfi og menntakerfi og samfélagslegur stuðningur er mikill.

Þórunn Óskarsdóttir (IP-tala skráð) 1.11.2008 kl. 18:16

4 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Átti að vera örbirgð. Ég er í sjálfu sér ekki að segja að Ómar hafi ekki eitthvað til síns máls. Það vill hins vegar gleymast í svona samanburði að við búum í mjög ólíku samfélgai. Ef við tökum t.d. kreppuna 1930 þá skuldaði ungt fólk ekki mikið á þeim tíma og átti því mun betri framtíðarvonir en ungt fólk á í dag, þ.e.a.s. miðað við það umhverfi sem það bjó í. Vandinn í dag er heldur ekki bara fjárhagslegur. Grimmileg meðferð yfirvalda á ungu (saklausu) fólki sem er að hefja lífið er jafnvel ennþá stærra áfall.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 1.11.2008 kl. 18:18

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ekki held ég nú að tugþúsundir Íslendinga muni flytja úr landi næsta árið. Nú þegar eru um 15% þjóðarinnar við nám og störf erlendis og nokkur þúsund, en ekki tugþúsundir, Íslendinga munu væntanlega hverfa á næstunni til starfa í Noregi og fleiri Evrópulöndum. Og það er ekkert nýtt.

Hér hafa verið um 17 þúsund útlendingar við störf undanfarin ár og geti útlendingar unnið hér, geta Íslendingar einnig unnið erlendis, enda hafa þeir alltaf gert það í stórum stíl. Bjartur í Sumarhúsum er löngu fluttur til Kanada, er þar forstjóri Summerhouse Group og selur útlendingum í stórum stíl ódýra gistingu í íslenskum sumarbústöðum.

Þorsteinn Briem, 1.11.2008 kl. 18:45

6 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Held nú að pukturinn sé nú sá að verið er að reyna segja okkur að við séum fjarri því að ná utanum að skilja enn hvað við erum í djúpum skít, - við höfum ekkert sé enn af þeim ósköpum sem framundan eru, og hve illa er komið fyrir þjóðarbúinu.

Helgi Jóhann Hauksson, 1.11.2008 kl. 20:03

7 Smámynd: Villi Asgeirsson

Skiptir ekki máli hve slæmt ástandið verður, hve margir fara á hausinn eða hvað þeir þurfi að borga fyrir heilsugæslu, ástandið nú getur ekki verið sambærilegt við það þegar stór hluti þjóðarinnar drapst úr hor. Lífsskilyrði á Íslandi náðu sennilega algjöru lágmarki eftir Móðuharðindin og það þarf eitthvað miklu meira en bankahrun og efnahagskreppu til að komast nálægt því ástandi sem þá var.

Þessi samanburður er ekkert annað en móðgun við fólkið sem lifði þá tíma.

Villi Asgeirsson, 1.11.2008 kl. 21:32

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég kynntist konu í sveitinni þar sem ég var strákur sem var fædd 1869 og ólst upp við ólýsanlegar hörmungar sem enginn Íslendingur í nútímanum gæti ímyndað sér.

Hún svalt sem barn og heimilið flosnaði upp. Þá var hún send að heiman og var hjá slæmum húsbændum sem fóru illa með hana.

Á prestsetri las hún um umheiminn og lærði verk íslensku og norsku skáldanna utanbókar.

Hún var ófrjálst vinnuhjú alla tíð bundin í vistarbandi á tímum þegar það varðaði fangelsisvist að fara inn afrétt án leyfis húsbóndans.

Eina vonin var að giftast og geta flutt upp á heiði í yfir 400 metra hæð yfir sjó og hokra þar við óheyrilega þröngan kost. En ekki einu sinni draumur um slíkt líf gat ræst. Hún varð barnshafandi en missti barnið í fæðingu vegna mikillar vinnuhörku sem viðgekkst á bænum þar sem hún var hjú.

Eftir það hlaut hún viðurnefnið "gelda Manga"og grimm örlög hennar voru ráðin.   

Bókin "Manga með svartan vanga" lýsir kjörum þessarar fluggáfuðu konu sem var orðin of gömul þegar vistarbandinu var aflétt og endaði með því að vera niðursetningur og utangarðs í sveit sinni.

Ekki var það óreglan eða slíkt sem varð örlagavaldur þessarar konu heldur aðstæður sem vonandi eiga aldrei aftur eftir að koma á Íslandi. Margir hennar líkar hlutu svipuð örlög. Konur höfðu ekki kosningarétt og voru beittar órétti sem við eigum erfitt með að skilja. 

Að því sögðu við ég ítreka það sem ég sagði: Vegna mestu skuldsetningar sem nokkur þjóð hefur steypt sér í eru mjög slæmir tímar framundan hjá tugþúsundum Íslendinga, sem áttu engan þátt í því hvernig hér var stofnað til ofurþenslu, svallað með fjármuni, bruðlað og eytt um efni fram og stofnað til skuldanna, sem einar sér valda þessum hörmungum.

Fjöldi fólks var ginntur til þess með gylliboðum að leggja fé inn á reikninga sem hafa gufað upp. Þúsundir ungs fólks var einnig ginntur til að taka á sig húsnæðislán sem á næstunni mun valda fleiri fjöldagjaldþrotum en dæmi eru um. 

Manga átti aldrei þess kost að brjótast út úr fátækt sinni og kúgun.

Á okkar tímum eiga þó allir að geta átt von um framtíð sem Manga gat aldrei látið sig dreyma um.  

Ómar Ragnarsson, 1.11.2008 kl. 21:36

9 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Jakobína sér hlutina með furðulegum gleraugum. Í byrjun síðustu aldar var í góðu ári erfitt fyrir fólk að hafa í sig og ár. Hvað þá í kreppu þegar atvinnuleysi fór upp úr öllu. Held að fólk sé fljótt að gleyma. Minni á að það er talað um að kaupmáttur fari niður um 20% jafnvel en hann hefur farið upp upp um kannski 30% síðustu 10 ár. Og þá lifðum við jú ágætu lífi. Og reiknað er með því að atvinnuleysi verði kannski 7 til 10% það hefur verið meira hér áður.

Auðvita verður þetta erfitt og mjög erfitt en bið fólk að láta ekki eins og hér sé ástand eins og var í kreppunni á síðustu öld. Þar var fólk sem svalt heilu hungri og bjuggu kannski svona 10 til 20 manns í 30 fm og engin kynding að ráði. Og atvinnuleysi miklu meira en spáð er hér. Sem og laun dugðu þá varla fyrir nauðþurftum. 

Magnús Helgi Björgvinsson, 1.11.2008 kl. 21:39

10 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Þegar fólk er farið að bera miklar skuldir sem það sér aldrei fram úr að komast út úr og skilja einstaklinga eftir með svo lítinn afgang að launum eftir greiðslu skulda að það hamlar ferðafrelsi þeirra hvað er það annað en vistabönd.

Konur búa við órétti í dag sem fáir karlmenn geta sett sig inn í.

Það er ekkert gamanmál fyrir foreldra sem hafa lítil fjárráð að geta ekki veitt börnum sínum það að fylgja öðrum börnum eftir. Þetta er ófrelsi og nútíma vistabönd.  

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 1.11.2008 kl. 21:54

11 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Það fer alltaf í taugarnar á mér þegar fólk misnotar tölfræði. Kaupmáttur hverra? Ætli kaupmáttur sumra fari ekki lengra niður og annarra kannski upp? Manni sem er með annan fótinn í ísköldu vatni og hinn í sjóðandi heitu líður þá kannski að meðaltali vel.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 1.11.2008 kl. 22:00

12 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Það að ASÍ vilji að Ísland gangi í móðu og harðindi ESB er óskiljanlegt því hér í ESB er atvinnuleysi 7,5% núna og er SAMT í sögulegu lágmarki. Atvinnuleysi í ESB hefur verðið 8-12% áratugum saman. Núna er atvinnuleysi ungmenna undir 25 ára aldri 15,3% !!!! Að ASÍ (Atvinnuleysissamband Íslands?) vilji senda þjóðina í þetta bandlag atvinnuleysis og kjararýrnunar að flestu leyti er óskiljanlegt! Þetta er nánast veruleikafirring.

Þetta gerist eftir að íslenska þjóðin hefur notið óslitins, mikils og samfellds hagvaxtar undanfarin 16 ár. Kaupmáttur Íslendinga hefur aukist um 80% frá 1994 (verðbólga hreinsuð út) og einkaneysla Íslendinga hefur aukist um 50% á síðustu 10 árum að raunvirði. Á meðan hefur einkaneysla í Þýsklandi aukist um 0,00% og um 20% í Danmörku.

Og já, þessi samlíking við móðuharðindin er móðandi, ég tek undir það hjá Ómari Ragnarssyni. Þetta er vanvirðing hjá ASÍ.

Annars vil ég benda Íslendingum á að taka fram Stiklur eftir Ómar Ragnarsson og horfa á nokkra þætti. Það er hollt og gott fyrir sálina. Og hér með vil ég nota þetta tækifæri til að þakka Ómari Ragnarssyni fyrir þennan stóra og nytsama glugga inn í fortíðina. Þetta er ómetanlegt framlag og gert af mikilli snilld. Ég fékk þessa þætti í afmælisgjöf á síðasta ári og mikið var gaman að horfa inn í gluggann aftur, og miklar hafa framfarirnar verið síðan þá.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 2.11.2008 kl. 00:40

13 Smámynd: Theódór Norðkvist

Athygliverð og vitræn umræða sem hér fer fram (ekki háð hjá mér!)

Það er rétt hjá Ómari að menn eru of fljótir í lýsingu á yfirstandandi hremmingum að grípa til líkinga á við móðuharðindi, kreppuna á þriðja og fjórða áratugnum o.s.frv.

Hinsvegar er þjóðfélagið svo mikið margbrotnara en á öldum fyrr. Jú, kröfur fólks til þjóðféagsins hafa aukist mikið frá því þá, en kröfur þjóðfélagsins til fólksins hafa líka aukist, t.d. hvað varðar menntun, heilsugæslu og tækni. Þeir sem fara halloka á þessum sviðum dragast aftur úr í lífsbaráttunni og lenda í nokkurs konar nútíma vistarbandi.

Theódór Norðkvist, 2.11.2008 kl. 01:29

14 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Ástandið er mjög alvarlegt og á eftir að versna.

Hvað eru margir dánir úr hungri ? Sjúkdómum?

Ástandið er mjög alvarlegt í ESB og er búið að vera það í áratugi. Þið hafið bara ekki tekið eftir því - því Íslendingar hafa svo lengi haft það svo ákaflega gott.

Ef ykkur finnst ástandið alvarlegt, prófið þá ESB! This is how it feels! Þið eigið þó ennþá langt í land með að ná vesældinni í ESB.

Flestum í ESB væri mesta ánægja í að sjá Ísland koma ofan af hestinum og niður á flatlendið í ESB. Því þá myndi Ísland ekki lengur stinga svona í stúf við vesalingasambandið hérna í Evrópu.

Takið ykkur saman !

Gunnar Rögnvaldsson, 2.11.2008 kl. 02:22

15 identicon

Sjónarmið Jakobínu eiga ekkert skylt við furðuleg gleraugu. Þetta er einfaldlega raunveruleikinn og ég tek heilshugar undir sjónarmið hennar. Við verðum að meta ástandið eins og það horfir við okku núna, samanburður við fortíðina á ekki við þar sem allar forsendur eru ólíkar.

Anti-ESB innlegg Gunnars eiga heldur ekki við. Hans trúarbrögð hafa ekkert með ástandið að gera.

sigurvin (IP-tala skráð) 2.11.2008 kl. 02:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband