16.11.2007 | 20:40
JÓNAS STÓÐ AF SÉR RAPPIÐ!
Var að horfa á Benedikt Erlingsson fara mikinn í því að flytja Gunnarshólma í hröðum rapptakti og hreifst af fjörinu og kraftinum hjá þessum snillingi. Einhverjir kunna að hafa hneykslast og mér hefði aldrei dottið í hug að nota þessa aðferð við flutning þessa stærsta málverks sem málað hefur verið í ljóði á Íslandi. En skiptir ekki öllu máli.
Það sem máli skipti að mínum dómi er að þarna sást skýrt dæmi um það hvernig Jónas getur höfðað til hvaða kynslóðar sem vera skal og staðið af sér flest, meira að segja hraðan rapptakt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.11.2007 | 15:20
INNSKOT Í TILEFNI DAGSINS.
Á hátíðisdegi eins og þessum er mikilvægt að hugsa um þrenninguna landið, þjóðina og tunguna. Mig langar til að fara í þessum pistli í stutt ferðalag, fyrst fljúgandi upp eftir jökulám sem falla norður úr Vatnajökli um eldvirkt svæði sem á engan sinn líka í heiminum þar sem er einstakt dyngjuval.
Þar gnæfir drottning íslenskra fjalla, þjóðarfjallið Herðubreið, - móbergsstapi sem varð til undir ísaldarjöklinum og spjó eldi ofan jökuls úr tindgíg sínum. Við fætur fjallsins er gróðurvinin Herðubreiðarlindir.
Í Öskju telja menn sig finna fyrir reimleikum af völdum þeirra Rudloffs og Knebels sem þar týndust sporlaust 1907 og tunglfarar æfðu sig þar 1967. Þar þykir mörgum sem þeir horfi á jörðina í árdaga sköpunar hennar.
Sigurður Þórarinsson taldi Kverkfjöll merkasta fyrirbæri Íslands, - þar er hægt að baða sig í volgri á inni í íshelli og síga niður 37 stiga heitan foss. Efst í fjöllunum eru tvö lón með fljótandi ísi og sjóðandi vatni.
Vatnajökull er kóróna landsins og Kverkfjöll helsta djásn hans og þess vegna ber pistill minn heitið "Kóróna landsins."
KÓRÓNA LANDSINS.
Svíf ég af sæ
mót suðrænum blæ
um gljúfranna göng
gegn flúðanna söng.
Þar færir hver foss
fegurðarhnoss
og ljúfasta ljóð
um land mitt og þjóð.
Allvíða leynast á Fróni þau firn
sem finnast ekki í öðrum löndum:
Einstæðar dyngjur og gígar og gjár
með glampandi eldanna bröndum.
Við vitum ekki enn að við eigum í raun
auðlind í hraunum og söndum,
sléttum og vinjum og auðnum og ám
og afskekktum sæbröttum ströndum.
Því Guð okkur gaf
gnægð sinni af
í sérhverri sveit
sælunnar reit.
Í ísaldarfrosti var fjallanna dís
fjötruð í jökulsins skalla
uns Herðubreið þrýsti sér upp gegnum ís,
öskunni spjó og lét falla.
Er frerinn var horfinn var frægð hennar vís,
svo frábær er sköpunin snjalla.
Dýrleg á sléttunni draumfögur rís
drottning íslenska fjalla.
Að sjá slíka mynd
speglast í lind
og blómskrúðið bjart
við brunahraun svart !
Beygðir í duftið dauðlegir menn
dómsorði skaparans hlíta.
Framliðnar sálir við Öskuvatn enn
sig ekki frá gröf sinni slíta.
Tunglfarar upplifa ósköpin tvenn:
Eldstöð og skaflana hvíta.
Alvaldsins sköpun og eyðingu í senn
í Öskju þeir gerst mega líta.
Höll íss og eims.
Upphaf vors heims.
Djúp dularmögn.
Dauði og þögn.
Endalaus teygir sig auðnin svo víð -
ögrun við tækniheim mannsins.
Kaga við jökul með kraumandi hlíð
Kverkfjöll í hillingum sandsins.
Dæmalaus gnæfa þau, drottnandi smíð,
djásnið í kórónu landsins.
Seytlar í sál
seiðandi mál:
Fjallanna firð,
friður og kyrrð.
Á Þingvöllum aðskiljast álfurnar tvær.
Við Heklu´er sem himinninn bláni.
Í Kverkfjöllum glóðvolg á íshellinn þvær.
Í Öskju er jarðneskur máni.
Ísland er dýrgripur alls mannkynsins
sem okkur er fenginn að láni.
Við eigum að vernda og elska það land
svo enginn það níði né smáni.
Seytlar í sál
seiðandi mál:
Fjallanna firrð,
friður og kyrrð,
íshvelið hátt, -
heiðloftið blátt, -
fegurðin ein,
eilíf og hrein.
Bloggar | Breytt 17.11.2007 kl. 18:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.11.2007 | 23:29
HINN STÓRI DRAUMUR JÓNASAR.
Gaman er að heyra á 200 ára afmæli Jónasar Hallgrímssonar og degi íslenskrar tungu að Garðbæingar ætli að láta torg heita eftir Jónasi. En hinn stóri draumur hans um að lokið yrði til fulls ítarlegri útttekt og rannsóknum á íslenskri náttúru og gildi hennar hefur enn ekki ræst. Skerfur Jónasar í fræðigrein sinni var mun meiri en er á almanna vitorði. Hann fann það til dæmis út hvernig Landbrotshólar höfðu myndast.
Stærsti draumur hans sem fræðimanns var að ljúka sínu stóra verki um íslenska náttúru og um leið var það einn stærsti harmleikur lífs hans að falla frá langt um aldur fram og sjá þennan draum ekki rætast.
Segja má að miðað við þær aðstæður sem nú ríkja í virkjana- og orkumálum hafi draumur Jónasar ekki ræst enn því að enn brýnna er nú en á hans dögum að ljúka víðtækum rannsóknum á eðli og gildi íslenskrar náttúru áður en anað er áfram og fáu eirt í skefjalausri framkvæmda- og virkjuanagleði.
Einn hugnæmasti staður lífs Jónasar þar sem hann greiddi elskunni sinni lokka við Galtará fór undir Blöndulón og ég held að þeim muni fjölga sem sjái að það var algerlega óþarft því að hægt hefði verið að komast af með minna lón sem ekki drekkti þessum stað.
Meðal þeirra sem börðust fyrir minna lóni var Páll Pétursson en hann og skoðanabræður hans lutu því miður í lægra haldi fyrir þeim sem af óþoli og bráðlæti gátu ekki hugsað sér annað en að virkjunin yrði eins hræódýr og hugsast gæti.
Þá einblíndu menn á þau tímabundnu uppgrip í héraði sem virkjanaframkvæmdirnar gæfu af sér en í dag er þetta svæði þar sem fólki fækkar stöðugt og Blönduvirkjun breytir engu um það.
En áfram með skáldið Jónas. Í sumum frægustu ljóðum hans sameinast skáldið og náttúrufræðingurinn á einstakan hátt, svo sem í ljóðinu um Skjaldbreiði. Í snilldarljóðinu Gunnarshólma lyftir skáldið sér upp af láglendinu líkt og hann sé í flugvél og lofar okkur að sjá "hrafntinnuþökin" þótt þau séu langt frá hólmanum uppi á hálendinu.
Það er gott að geta notað nafn og verk Jónasar í baráttunni fyrir eflingu og viðhaldi íslenskrar tungu og ekki síður að minna okkur á gildi rannsókna á mesta verðmæti Íslands, einstæðri náttúru landsins.
![]() |
Nýtt torg í Garðabæ nefnt Jónasartorg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
15.11.2007 | 23:06
ÞAR KOM AÐ ÞVÍ, ÁSGEIR ÖRN.
Ég hef lengi beðið eftir því að heyra svona gleðifrétt af Ásgeiri Erni. Mér er ógleymanlegt þegar ég var fenginn til að lýsa og dæma í lítilli hnefaleikakeppni í Versló fyrir allmörgum árum og Ásgeir Örn fór alveg óreyndur á móti strák sem virtist vera mun heppilegar vaxinn fyrir íþróttina. Ásgeir tók sér sinn tíma, lofaði hinum sækja og í annarri lotu var hann búinn að læra á hann og afgreiddi hann með skemmtilegunm gagnhöggafléttum á alveg einstaklega flottan hátt.
Þá sá ég að Ásgeir Örn væri einn af þessu sjaldgæfu mönnum sem gætu náð langt í nánast hvaða íþróttagrein sem er og þess vegna gleður þessi góða frammistaða hans mig.
![]() |
Ásgeir átti stórleik með GOG í jafntefli við Portland |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.11.2007 | 22:05
BÚSETUSKYLDAN Í NOREGI.
Á ferð okkar hjóna um Noreg fyrir nokkrum árum kynntumst við því hvernig Norðmenn viðhalda því menningarlandslagi sem er í norsku fjörðunum. Þar er á vissum svæðum skylt að búa allt árið á hverri jörð og hafa þar búpening í samræmi við norska hefð. Þetta er ekki vegna landbúnaðarins heldur vegna þess að Norðmenn vilja varðveita sjálfsmynd sína og lands síns með því að geta upplifað umhverfi tónverka og bóka þeirra Griegs, Björnssons, Hamsuns og annarra stórskálda.
Dýrt, segja einhverjir, en Norðmenn sjá peninga í þessu því að þú átt bæði sem heimamaður og erlendur ferðamaður að geta upplifað til dæmis stemninguna í Sunnudegi selstúlkunnar. Með því býður ferðaþjónustan upp á sérnorskt umhverfi og stemningu sem stór hluti ferðamanna sem þekkir norska menningu sækjast eftir og er tilbúinn að borga fé fyrir.
Þetta kemur upp í hugann þegar meira umrót er á eignarhaldi á jörðum á Íslandi en nokkru sinni fyrr. Í stórri nýrri og flottri bók sem færir sérfræðingar hafa gert um hundrað undur veraldar eru undur númer 1 og 2 norsku firðirnir og eldvirka svæðið á Íslandi. Aðeins fimm önnur náttúruundur í Evrópu komast á listann.
Norðmenn eru sér meðvitaðir um gildi landslags og menningar í landi sínu. Meðal annars þess vegna er enn óvirkjað jafn mikið vatnsafl að magni til í Noregi og á Íslandi og Norðmenn myndu hlæja að þeirri röksemd Péturs Blöndals að umhverfisverndarmenn heimsins muni krefjast þess að þetta vatnsafl verði virkjað.
Ef til stæði að bræða alla góðmálma sem fáanlegir er í heiminum fyrir málmbræðslur myndu menn ekki byrja á því að bræða hvolfþök frægustu kirkna og halla í heiminum.
Norsku firðirnir og eldvirka svæðið á Íslandi eru hliðstæða glóandi hvolfþaka þeirra bygginga heims sem eru á lista yfir 100 undur veraldlar. Ef þyrfti að bræða allan góðmálminn yrðu þau brædd síðast, - ekki fyrst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
14.11.2007 | 14:18
NÚ ÞARF AÐGÁT.
Það mun væntanlega auka öryggi að Stóri bróðir geti fylgst með hvaða bíl sem er hvar sem er og hvenær sem er. En gæta þarf vel að því að þessi nýja tækni verði ekki til þess að skerða rétt hvers manns til ferðafrelsis sem meðal annars getur falist í því að þurfa ekki að óttast smásmugulegt eftirlit umfram brýnustu öryggishagsmuni. Að meðaltali er hverjum íslenkum bíl ekið í sem svarar meira en mánaðar vinnu á hverju ári, þ. e. í ca 200 klukkustundir. Meðal Íslendingurinn eyðir því ótrúlega stórum hluta ævi sinnar í bíl.
Þetta fæst út með því að nota tölur um meðalhraða, sem er 36 km/klst innanbæjar og meira en 80% alls aksturs á Íslandi er vafalaust innanbæjar þannig að meðaltalshraðinn á landinu öllu á bilinu 40- 50 km/klst. Þegar því er deilt upp í 15 þús km meðalakstur hvers bíls fæst þessi ótrúlega háa tala af viðveru ökumanns í hverjum bíl.
Ég tel mikils virði að ný staðsetningartækni geti á engan veg stuðlað að lögregluríki. Truflanir í farsíma mínum á ákveðnu tímabili síðsumars 2005 bentu til þess að hann og fleiri símar væru hleraðir og hafi svo verið skil ég ástæðu þess að þarna virtist vera upplagt tækifæri fyrir leyniþjónustu hins opinbera til að prófa búnað sem nota mætti tengslum við hættuna á hryðjuverkum ef hún dyndi yfir.
Símastöðvarnar sem sími minn og þrír aðrir símar voru í sambandi við voru annars vegar endurvarpinn á Sauðafelli við Kárahnjúka og hins vegar aðalsendir Símans í Reykjavík.
Það kom mér hins vegar mjög á óvart hvaða símar virtust tengdir inn í þetta hugsanlega "hryðjuverkamannasímatorg."
Þess vegna held ég að skoða þurfi gaumgæfilega allar hliðar þessa nýja máls áður en þessu bílaeftirlitskerfi Stóra bróður með okkur nánast öllum verður komið á.
![]() |
Allir bílar undir gervihnattaeftirliti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
13.11.2007 | 20:03
EKKI HRÆDDIR VIÐ LÝÐRÆÐI.
Dönsk kosningalög bera það ekki með sér að flokkur sem fær 3,3% fylgi séu álitinn slík ógnun við lýðræðið að rétt sé að meina honum að fá þingmenn nema fylgið sé yfir 5%. Ny alliance fær fimm þingmenn samkvæmt útgönguspá út á um 3% fylgi og gæti þessi nýi flokkur haft úrslitaáhrif á stjórnarmyndun.
Hræðsluáróðurinn fyrir kosningarnar hér heima í vor um að atkvæði greidd I-listanum myndu falla dauð kom í veg fyrir að þingfylgi listans væri í samræmi við kjörfylgi hans.
Eftir á að hyggja sést að líklegustu möguleikarnir hefðu orðið tveir ef Íslandshreyfingin hefði komið mönnum á þing.
Annar vegar sá að stjórnarandstaðan hefði myndað stjórn og stjórnin farið frá. Það hefði orðið mjög tæpur meirihluti en kannski eðlilegasta útkoman miðað við það mynstur í mörgum nágrannalöndum að stjórnarandstaðan taki við stjórnataumunum ef stjórnin missir meirihluta sinn.
Hitt virðist sennilegra þegar litið er á það sem gerðist eftir kosningarnar, að Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin hefðu myndað núverandi stjórn úr því að ekki var mynduð stjórn með Framsóknarflokknum.
Þá segja kannski sumir: Þingfylgi I-listans hefði þá hvort eð er engu breytt.
Það breytir að mínum dómi ekki því að framboðilistarnir við síðustu kosningar fengu ekki þingfylgi í samræmi við kjörfylgi og það getur seint talist fullkomið lýðræði.
Um þessar mundir er fylgi Frjálslyndra í kringum 4% í skoðanakönnunum og enda þótt lítið fylgi í skoðanakönnunum á milli kosninga þýði ekki að það verði áfram svo lítið í næstu kosningum, - Frjálslyndir hafa áður átt á brattann að sækja á milli kosninga en sótt í sig veðrið í kosningunum, - þá gæti sú staða komið upp í kosningum hér að tveir 4% flokkar fengju engan þingmann og atkvæði 8% kjósenda féllu niður dauð.
Ekki er að sjá að flokkafjöldinn í Danmörku hafi reynst Dönum illa, - Danir virðast einfaldlega ekki hræddir við litla flokka.
5% þröskuldurinn í Þýskalandi mun hafa verið settur til að hamla því að nýnasistar kæmust á þing. Það er erfitt að skilja að framboð á Íslandi með á bilinu 2 - 5% séu samsvarandi ógn við lýðræðisþjóðfélag okkar og nasistar í Þýskalandi.
![]() |
Fogh verður að treysta á Khader |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
13.11.2007 | 12:35
TIL HAMINGJU, ÞORGERÐUR KATRÍN !
![]() |
Þrjú hús friðuð á Akureyri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.11.2007 | 21:53
HRÆÐSLUÞJÓÐFÉLAGIÐ - EKKERT NÝTT.
Á óvart kemur að jafnreyndur blaðamaður og Agnes Bragadóttir skuli fyrst nú sjá merki um að hræðsluástand geti ríkt í þjóðfélagi okkar. Svo virðist sem það ástand sem hér ríkti og fór versnandi um og upp úr aldamótunum hafi farið að mestu fram hjá henni. Hún virðist ekki hafa tekið eftir því á sínum tíma hvernig aðeins tilhugsunin um tilvist og völd Davíðs Oddssonar gat gert menn óttaslegna.
Það sem olli mér áhyggjum þá var hve tiltölulega lítið þurfti á þessum árum til að gera fólk hrætt. Aðeins þurfti fáa en áhrifamikla opinbera atburði, svo sem bréfið til Sverris Hermannssonar, símtalið til umboðsmanns Alþingis, niðurlagning Þjóðhagsstofnunar og tiltalið til Skipulagsstofnunar.
Eftir það þurfti ekki hótanir, - fólk sá um það sjálft að haga sér þannig að engin hætta væri á hugsanlegum eftirköstum.
Ég lýsti þessum ótta í viðtölum þegar árið 2003 með því að útskýra hvers vegna aðeins einn kunnáttumaður þorði að koma fram í viðtali í heimildarmyndinni "Á meðan land byggist".
Rétt er þó að taka fram að Guðmundur Sigvaldason jarðeðlisfræðingur hefði vafalaust komið óhræddur fram ef þess hefði verið kostur.
Allir nema Sveinn Runólfsson sögðu það sama: Þú mátt ekki taka við mig viðtal, ekki vitna í mig og helst að setja þekkingu þína þannig fram að ekki sé hægt að rekja hana til mín. Annars hætti ég á að verða smám saman kæfður fjárhagslega og faglega.
Háskólamaður einn sagði við mig:
"Besti vinur minn nam sín fræði í Austur-Þýskalandi þar sem vísindamenn voru hægt og rólega teknir faglega og fjárhagslega af lífi ef þeir mökkuðu ekki rétt. Mismunurinn á Íslandi og Austur-Þýskalandi er einungis sá að þar í landi var þessum aðferðum beitt svo harkalega að smám saman varð það á vitorði alls heimsins. Hér er þetta miklu lymskulegar gert. Ég get ekki tekið neina áhættu á að missa smám saman þá styrki og þau verkefni sem ég á undir yfirvöldum og halda mér á floti. Þar með verð ég smám saman kæfður faglega og þar með fjárhagslega líka, svo mikils virði eru verkefnin langt og dýrt háskólanám getur fært mér.
Sama var uppi á teningnum þegar ég reyndi að fá vísindamenn hjá einkafyrirtækjum til að koma fram í myndinni. Þeir sögðust ekki geta afborið það að hætta á að fyrirtækin, sem þeir unnu hjá og áttu mestallt sitt undir því að fá verkefni fjármögnuð af ríkinu, misstu þessi verkefni og færu út í kuldann.
"Ég get ekki afborið þá hugsun", sagði einn þeirra, "að missa vinnuna og horfa upp á bestu félaga mína og vini hjá fyrirtækinu ganga um atvinnulausa, - ég get ekki hætt á neitt. "
Á þessum árum nægði að vinir manna segðu þeim frá því að þeir hefðu frétt að ótiltekinn hópur manna myndi fara fram með ófrægingu og aðdróttanir og koma af stað gróusögum ef bátnum yrði ruggað. Þessir vinir sögðu sig vilja manni vel með svona aðvörunum.
Slíkar viðvaranir dugðu vel á þessum árum.
Ég minntist á þetta lítillega í áttblöðungnum "Íslands þúsund ár"í fyrra en greinilegt er að þetta ástand hefur farið það mikið fram hjá Agnesi Bragadóttur að hún hefur ekki talið það þess virði að taka það upp opinberlega á þeim tíma.
Rétt er að taka fram að þetta hræðsluástand hjaðnaði eftir brottför þeirra félaga Davíðs og Halldórs af vettvangi enda hafa arftakar þeirra yfir sér annað yfirbragð.
En það er áhyggjuefni hve langt svona hræðsla, hugsanlega stórlega ýkt í huga hins óttaslegna, getur leitt fólk. Það leiðir hugann að orðum Roosevelts Bandaríkjaforseta um það að við ættum ekki að óttast neitt eins og óttann sjálfan.
Rétt er einnig að minnast kröfuna um fjórfrelsi sem Roosevelt setti fram 1941:
Tjáningarfrelsi. (Freedom of speech)
Trúfrelsi. (Freedom of worship)
Frelsi frá skorti. (Freedom from want)
Frelsi frá ótta. (Freedom from fear)
Ef eitthvert af þessu fernu vantar er illt nærri. Þess ættum við að minnast þegar við óttumst afleiðingarnar af því að leita sannleikans og leiða hann í ljós.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
11.11.2007 | 18:57
EYÐA STRAX - ÁÐUR EN ÞAÐ ER OF SEINT !
Í gegnum aldirnar hafa Íslendingar bjargað sér með því að grípa gæsina meðan hún gefst, ná fiskinum um leið og hann sést og heyjunum inn um leið og þornar. Á okkar tímum lýsir þetta sér þannig að séu taldar líkur á þenslu, verðum við eyðsluglöð bara út á tilhugsunina, - og ef líkur eru á samdrætti, eyða menn peningunum strax á meðan það er hægt. Ef fréttist af nýjum leikföngum verður allt vitlaust og það selst upp á hálftíma í Höllina á allt að 6900 krónur miðinn á tónleika þar sem sungin verða að mestu jólalög sem allir þekkja.
Meira en ári áður en framkvæmdir hófust við Kárahnjúka varð hér þensla sem sérfræðingur í Seðlabankanum fann út að fólst að mestu leyti í stórvaxandi yfirdráttarlánum. Ástæðan til þenslunnar voru eingöngu væntingarnar.
Vinur minn sem hefur sérhæft sig í innflutningi bíla hafði svona lala að gera 2002, þegar skyndilega allt varð vitlaust. Hann hafði ekki undan og menn voru stórtækir, vildu kaupa stóra ameríska pallbíla hér og nú.
Þegar þeir voru spurðir um það hvernig þeir ætluðu að fjármagna kaupin svöruðu langflestir því til að það ætti að spenna yfirdráttinn á kortunum í botn og fá allt lánað vegna þess að von væri á þenslu vegna virkjanaframkvæmda.
Nú svífur yfir vötnunum efi um áframhaldandi þenslu og gæti verið að halla í samdrátt. Þá finnur Íslendingurinn það út að nú verði hann að eyða eins miklu eins og hann geti og njóta sem best lystisemda þenslunnar áður en samdrátturinn komi.
Það hugarfar virðist vera okkur Íslendingum fjarlægt að einmitt vegna hættu á samdrætti eigi að fara að með gát og safna til mögru áranna.
Þvert á móti gildir það sama um þenslu og samdrátt, - hvort tveggja verður okkur afsökun fyrir að vera eins flott á því og augnablikið getur gefið okkur. "Take the money and run!"
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)