EKKI HRÆDDIR VIÐ LÝÐRÆÐI.

Dönsk kosningalög bera það ekki með sér að flokkur sem fær 3,3% fylgi séu álitinn slík ógnun við lýðræðið að rétt sé að meina honum að fá þingmenn nema fylgið sé yfir 5%. Ny alliance fær fimm þingmenn samkvæmt útgönguspá út á um 3% fylgi og gæti þessi nýi flokkur haft úrslitaáhrif á stjórnarmyndun.

Hræðsluáróðurinn fyrir kosningarnar hér heima í vor um að atkvæði greidd I-listanum myndu falla dauð kom í veg fyrir að þingfylgi listans væri í samræmi við kjörfylgi hans.

Eftir á að hyggja sést að líklegustu möguleikarnir hefðu orðið tveir ef Íslandshreyfingin hefði komið mönnum á þing.

Annar vegar sá að stjórnarandstaðan hefði myndað stjórn og stjórnin farið frá. Það hefði orðið mjög tæpur meirihluti en kannski eðlilegasta útkoman miðað við það mynstur í mörgum nágrannalöndum að stjórnarandstaðan taki við stjórnataumunum ef stjórnin missir meirihluta sinn. 

Hitt virðist sennilegra þegar litið er á það sem gerðist eftir kosningarnar, að Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin hefðu myndað núverandi stjórn úr því að ekki var mynduð stjórn með Framsóknarflokknum. 

Þá segja kannski sumir: Þingfylgi I-listans hefði þá hvort eð er engu breytt.

Það breytir að mínum dómi ekki því að framboðilistarnir við síðustu kosningar fengu ekki þingfylgi í samræmi við kjörfylgi og það getur seint talist fullkomið lýðræði.

Um þessar mundir er fylgi Frjálslyndra í kringum 4% í skoðanakönnunum og enda þótt lítið fylgi í skoðanakönnunum á milli kosninga þýði ekki að það verði áfram svo lítið í næstu kosningum, - Frjálslyndir hafa áður átt á brattann að sækja á milli kosninga en sótt í sig veðrið í kosningunum, -  þá gæti sú staða komið upp í kosningum hér að tveir 4% flokkar fengju engan þingmann og atkvæði 8% kjósenda féllu niður dauð.

Ekki er að sjá að flokkafjöldinn í Danmörku hafi reynst Dönum illa, - Danir virðast einfaldlega ekki hræddir við litla flokka.

5% þröskuldurinn í Þýskalandi mun hafa verið settur til að hamla því að nýnasistar kæmust á þing. Það er erfitt að skilja að framboð á Íslandi með á bilinu 2 - 5% séu samsvarandi ógn við lýðræðisþjóðfélag okkar og nasistar í Þýskalandi.  

 


mbl.is Fogh verður að treysta á Khader
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þó einhver "rugl" framboð komi inn mönnum á þjóðþingum sem telur margfalt fleiri þingmenn en eru á Alþingi Íslendinga, þá er tiltölulega lítil hætta á að þau skapi glundroða eða stjórnarkreppu. Á svona fámennum þingum eins og er á Íslandi er mun meiri hætta á að ruglframboðin hafi allt of mikil völd miðað við fylgi. Það er bara verið að sía út þessa hættu með 5% reglunni.

Gunnar Th. Gunnarsson, 14.11.2007 kl. 01:52

2 identicon

Ég þekki ekki alveg reglurnar í Danmörku, en sá í gær að þegar nýja flokknum var spáð 2,6% fylgi, þá hefði það gefið 5 þingmenn. (Niðurstaðan var 2,8 % og 5 menn)

Gunnar hittir naglann á höfuðið eins og venjulega.  Þetta lýðræði er bölvað vesen, ekki lengur hægt að trúa í blindni.  Svona flokkar gætu ruglað sanntrúaða og fengið þá til að efast.  Það gengur auðvitað ekki og alls ekki á Íslandi.  Það er svo notalegt að láta stjórna fyrir sig.  Framtíðin skiptir ekki máli.  Alla vega ekki á meðan "ég hef það gott" 

Snorri Sigurjónsson (IP-tala skráð) 14.11.2007 kl. 08:39

3 identicon

Já, þessi 5% regla er vægast sagt umhugsunarverð.

Eins og ég skil kenninguna um lýðræðið okkar, þá á að koma nýtt framboð þegar það verður til málefnalegt tómarúm innan þeirra flokka sem þegar sitja. Þessi regla brýtur gjörsamlega í bága við það.

Ennfremur er það FÁRÁNLEGT að setja svona prósentu til að hindra nýnasista í að komast á þing. Í fyrsta lagi er sjálfsagt og í reynd nauðsynlegt að nýnasistar séu barðir í spað málefnalega í þinginu við að glepja út úr sér sínum heimskulegu hugmyndum (og ég segi það ekki bara til að móðga þá, nýnasismi er beinlínis heimskulegur, burtséð frá siðferðislegum spurningum). Í öðru lagi hindrar það ekki bara nýnasista heldur líka önnur framboð, sem þýðir í reynd að andlýðræðislegum öflum eins og nasisma er þjónað þegar við gefum upp á bátinn hlut af lýðræðinu til að vernda lýðræðið.

Svo er auðvitað fáránlegt að vilja setja takmarkanir á lýðræðið vegna þess eins að mönnum finnst of margir flokkar á Alþingi! Sko... lýðræðið er óskilvirkt, ÞAÐ ER POINTIÐ MEÐ ÞVÍ, það er að hafa hemil á þeim sem eru með völd! Að það verði einhvers konar upplausn í þinginu eða að ekki næg samstaða náist á Alþingi, eru ekki rök með þessari prósentu vegna þess að það er bara eðli lýðræðisins og það er ekkert til of mikils ætlast að yfirvöld láti sig hafa það. Það er sjálfsagt. Það er enginn munur á þessu og því sem Pútín er að gera til þess að styrkja sjálfan sig... auðvitað gerir það þeim auðveldara að stjórna, þess vegna einmitt er þetta svo hættuleg braut. 

Helgi Hrafn Gunnarsson (IP-tala skráð) 14.11.2007 kl. 09:15

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"Framtíðin skiptir ekki máli.  Alla vega ekki á meðan "ég hef það gott" segir Snorri.

Framtíðin skiptir einmitt miklu máli og það er gott á meðan við höfum það gott, en það er ekki sjálfgefið að við höfum það gott, eins og sumir virðast halda. Ég ætla nú ekki að fara að telja upp alla þá þætti  sem alþjóðlegar kannanir sýna að Íslendingar hafa það einna best allra þjóða í heiminum og það þrátt fyrir fámennið hér sem gerir rekstur þjóðfélags okkar hlutfallslega mun dýrari á hverja vinnandi hönd, en annara landa. Við búum í stóru og dreifbýlu landi þar sem hlutir eins og vegakerfi, menntakerfi, heilbrigðiskerfi og jafnvel rafkerfi er mjög dýrt í rekstri. Erlendir stjórnmálamenn hafa haft á orði að þeim finnist merkilegt hvað við stöndum okkur vel.

Eitt lítið dæmi um óhagkvæma rekstrareiningu sem íslenska ríkið er: Á bak við hvern þingmann á Íslandi, eru tæplega 2.800 skattgreiðendur. Í Danmörku eru þeir tæplega 17.000 eða 6 sinnum fleiri.

Ef allt væri hér í kaldakoli, þá skyldi ég vel gagnrýnisraddir um kosningafyrirkomulagið hérna. Lýðræðið kostar peninga en er einhver ástæða til að bruðla, þegar núverandi fyrirkomulag hefur skilað Íslandi "best í heimi"? 

Gunnar Th. Gunnarsson, 14.11.2007 kl. 14:19

5 identicon

"Sínum augum lítur hver silfrið"

Snorri Sigurjónsson (IP-tala skráð) 14.11.2007 kl. 14:23

6 identicon

Kostulegar eru austantjaldshugmyndir Gunnars Th. Gunnarssonar: Við búum í
fyrirmyndarþjóðfélagi, og við skulum ekki láta lýðræði eða ruglframboð
spilla því. Af því að við höfum það svo fjandi gott, þá skulum við spara
lýðræðið. Tökum það heldur upp þegar allt er komið í kaldakol.

Áfram Gunnar! Þú ert skemmtikraftur af guðs náð. Ómar má vara sig.

Hjörtur Hjartarson (IP-tala skráð) 14.11.2007 kl. 15:32

7 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Hvort fjöldi stjórnmálaflokka er 4 eða 40 segir EKKERT um virkt eða óvirkt lýðræði.

Gunnar Th. Gunnarsson, 14.11.2007 kl. 15:58

8 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Lýðræðið innan flokkanna sjálfra hlýtur að vera það sem máli skiptir. Eins máls flokkar eiga ekkert erindi inn á Alþingi.

Gunnar Th. Gunnarsson, 14.11.2007 kl. 16:02

9 identicon

Já, lýðræði innan flokkanna, en alls ekki fyrir utan flokkana.  Flokkaræði en ekki lýðræði. 

Flokkarnir sem fyrir eru á Alþingi ættu e.t.v. að tryggja stöðu sína enn betur og hækka mörkin upp í 10%, eða 20%. Flokkshestarnir gætu svo nýtt sér næðið til þess að semja um t.d. enn meiri lífeyrisforréttindi sjálfum sér til handa.

Og talandi um einsmálsflokk: Ætti þá að banna Framsóknarflokkinn, sem ekki hefur haft neitt annað áhugamál á liðnum árum en þungaiðnað?

Hjörtur Hjartarson (IP-tala skráð) 14.11.2007 kl. 16:31

10 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Gunnar virðist ekki hafa kynnt sér stefnuskrár framboðanna í vor. Ef hann gerði það myndi hann sjá að allir flokkarnir voru með stefnu í flestum málaflokkum, ekki bara einu.

Ómar Ragnarsson, 14.11.2007 kl. 19:40

11 Smámynd: Villi Asgeirsson

Skiptir einhverju máli hvort Gunnar hafi kynnt sér stefnumál framboðanna? Ef 4.9% þjóðarinnar kýs einhvern flokkinn á sá flokkur erindi inn á þing. Svo einfalt er það.


Svo segir Gunnar: "Hvort fjöldi stjórnmálaflokka er 4 eða 40 segir EKKERT um virkt eða óvirkt lýðræði." Það er laukrétt og undirstrikar bara hvað 5% reglan er vitlaus. Ef atkvæði sumra kjósenda eru talin einskis virði, er lýðræðið ekki að virka sem skyldi. Ég tala nú ekki um ef að tvö framboð með samanlagt hátt í 10% fylgi sætu úti í kuldanum.

Villi Asgeirsson, 14.11.2007 kl. 21:03

12 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Nýstofnaður stjórnmálaflokkur með fólk innanborðs sem eitt hefur það sameiginlegt að banna að hróflað sé við náttúru landsins, sýður saman í flýti allsherjar stefnuskrá um hin ólíkustu mál, smalar saman með herkjum í framboðslista rétt til þess að sleppa inn í kosningarnar á síðustu stundu. Stefnuskrá um málefni sem aðrir flokkar hafa verið að slípa í áratugi (utan frjálslyndra). Stefnuskrá sem safnað hefur fólki að sér með svipaða lífsskoðun á breiðum grunni. Stefnuskrá sem ótal sérfræðingar hafa komið að með mikilli vinnu og sérþekkingu.

Auðvitað eru frjálslyndir og Íslandshreyfingin eins máls flokkar, það er ekki hægt að kjafta sig út úr þeirri staðreynd.

Gunnar Th. Gunnarsson, 15.11.2007 kl. 00:28

13 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Já þetta er ekki sanngjarnt...ég er ekki hrædd við litla flokka, bara stóra flokka!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 15.11.2007 kl. 05:19

14 Smámynd: Villi Asgeirsson

Má þá ekki losa sig við 5% regluna og setja eftirfarandi í lög: "Nýstofnaður stjórnmálaflokkur með fólk innanborðs sem eitt hefur það sameiginlegt að banna að hróflað sé við náttúru landsins, sýður saman í flýti allsherjar stefnuskrá um hin ólíkustu mál, smalar saman með herkjum í framboðslista rétt til þess að sleppa inn í kosningarnar á síðustu stundu skal ekki hleypt inn á Alþing. Stefnuskrá um málefni sem aðrir flokkar hafa verið að slípa í áratugi (utan frjálslyndra). Stefnuskrá sem safnað hefur fólki að sér með svipaða lífsskoðun á breiðum grunni. Stefnuskrá sem ótal sérfræðingar hafa komið að með mikilli vinnu og sérþekkingu."

Svo ristir ekki dýpra á sérþekkingunni að báðir stjórnarflokkarnir samþykktu Íraksstríðið á sínum tíma, meðan almenningur sá í gegn um blekkinguna. Ekki var sérþekkingunni fyrir að fara upp úr 1981 þegar óðaverðbólga hrjáði landann. Hvað um Falun Gong ævintýrið, var það kannski sérþekking í undirgefni? Stjórnmálaflokkar eru ekki betri því eldri sem þeir eru. Það fer eftir fólkinu í þeim. Stóru flokkarnir eru ekki upp á marga fiska, finnst mér. Sjálstæðisflokkurinn hjálpar sér og sínum, Framsókn vill stóriðju hvað sem tautar og raular og Samfylkingin er eins og bronshænan á kirkjunni í götunni minni.

Það er oft nauðsynlegt að fá aðhald inn á þing. Íslandshreyfingin var alls ekki eins máls flokkur, en vissulega fór meira fyrir einu máli en öðrum. Þau hefðu komist inn með 1-2 menn, varna nóg til að koma í veg fyrir hin fjölmörgu mál sem hinin reyndu flokkar höfðu á stefnuskrá. 

Villi Asgeirsson, 15.11.2007 kl. 05:45

15 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég er ekki að leggja mat á stefnuskrár flokkanna heldur einungis að benda á þann regin mun að hrófla upp stefnuskrá á nokkrum dögum fyrir ólíkan hóp fólks og því að slíkt sé unnið af yfirvegun.

Ákvörðunin um Íraksstríðið var ekki borinn undir þingflokk Framsóknar. "Falun Gong ævintýrið" sem þú nefnir svo bloggaði ég um  HÉR um daginn. Undirgefnin í því máli var vissulega fyrir hendi, en var rangt að bregðast við því eins og gert var? En það er alveg hárrétt já þér Villi að flokkarnir eru ekki betri en fólkið sem er í þeim.

Gunnar Th. Gunnarsson, 15.11.2007 kl. 13:57

16 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Var stefnuskráin "Fagra Ísland" hjá Samfylkingunni að engu hafandi af því að hún var "samin í flýti"? Á Suðurlandi setti Ásta Þorleifsdóttir fram stefnupunkta sem hún sá skömmu síðar nær alla komna inn í stefnu Samfylkingarinnar.

Voru þá stefnupunktar Ástu ómerkilegir af því að það var nýtt framboð á feðinni en samsvarandi stefnuatriði Samfykingarinnar bitastæðir af því að sá flokkur var eldri, þótt augljóst væri að punktarnir voru settir fram "í flýti"?

Undirbúningur að I-listanum hófst eftir fund Framtíðarlandsins 7. febrúar. Íslandshreyfingin kynnti kosningaastefnuskrána 22. mars. Ástæða þess að það gerðist ekki fyrr var auðvitað sú að við vildum að að baki stefnuskránni lægi vönduð vinna. Hún var ekki unnin í flýti, annars hefði framboðið kynnt sig mun fyrr.  

Ómar Ragnarsson, 16.11.2007 kl. 13:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband