Ekki rétt röð.

Tveir þingmenn hafa sagt af sér þingmennsku. Annar vegna mistaka og dómgreindarskorts við undirróður gegn andstæðingi sínum í flokknum og hinn væntanlega vegna þess að sjónarmið hans varðandi ESB hafa orðið undir.

Það er eftirsjá að þeim báðum og mér hefur líkað persónulega mjög vel við þá. Guðni á eftir að útskýra betur sína afsögn. Hann ber sinn hluta af ábyrgð Framsóknarflokksins á því ástandi sem komið er upp en maður skynjaði það allan tímann að honum var ekki sama um þá pólitík sem Halldór Ásgrímsson, Valgerður Sverrisdóttir og Siv Friðleifsdóttir ráku.

Hann viðurkenndi í sjónvarpsviðtali í fyrradag að hafa ekki talað nógu skýrt. Á sínum tíma sagði hann í óþökk virkjanasinna að Þjórsárver væru í sínum huga heilög vé.

Ég hefði viljað sjá þær Valgerði og Siv segja af sér á undan Guðna og þá sem mestu ábyrgðina bera á hruninu nú segja af sér á undan þeim öllum.

Valgerður og Siv hafa verið höfuðdrifkraftarnir í hinni skefjalausu stóriðjustefnu flokksins. Valgerður var á kafi upp fyrir haus í einkavæðingarspillingunni sem Sigríður Dögg Auðunsdóttir lýsti svo vel í Silfri Eglis og Siv tók á sig að bera ein þann kross að leyfa mesta umhverfishneyksli Íslandssögunnar, Kárahnjúkavirkjun.


mbl.is Guðni segir af sér þingmennsku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Langt í land.

Heimsbyggðin þarf að fá rétta mynd af því sem hefur gerst hér á landi en það er langt í land að endurheimta það álit sem þjóðin hafði.

Sumum finnst það neikvæð mynd sem birtist í mótmælum á Íslandi en ég held að það sé þvert á móti. Með því móti sé verið að grafa undir trausti á íslenskum ráðamönnum.

Ég spyr: Hvaða trausti? Trausti mannsins sem rak ranga stefnu í peningamálum og auglýsti í erlendum sjónvarpsstöðvum að við værum skúrkar? 

Öflug mótmæli sýna að tugþúsundir saklausra Íslendinga hafa orðið fyrir barðinu á þessum ósköpum, ekki síður en grandalausir útlendingar sem trúðu íslenskum fjármálastofnunum fyrir ævisparnaði fjölskyldu og ættar.


mbl.is Allra augu á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pukur og lygar ráðamanna með rúið traust.

Þetta eru stór orð en það þarf ekki annað en að rekja stanslaus ósannindi ráðamanna allt frá í mars í vor, nú síðast varðandi tengsl Icesafe reikinganna við gereyðiagt traust og orðstír Íslands til að sjá að engin önnur orð er hægt að nota,

Framkvæmdastjóri þess frábæra útrásarfyrirtækis Össurar sagði í útvarpsfréttum það sem öllum er ljóst innanlands og utan og ég reyndi að lýsa í Silfri Egils í gær, að íslenskir ráðamenn og þjóðin þar með eru rúnir öllu trausti erlendis og áframhaldandi seta þeirra allra er endanleg sönnun þess fyrir erlendar þjóðir um víða veröld, að Íslendingum sé ekki við bjargandi.

Íslenskir ráðamenn standa beinlínis í vegi fyrir því að endurreisn geti hafist á leið okkar til virðingar, sóma og viðskiptavildar, sem meta má til lengri tíma litið til tugþúsunda milljarða króna, ef menn vilja endilega leggja peningalegan mælikvarða á það sem skiptir þó meira máli en peningar.

Veruleikafirring þeirra og afneitun leiðir til sífellds undanhalds og undanbragða, tilviljanakenndra viðbragða í stað þess að viðurkenna vandann refjalaust og byggja upp á þeim grundvelli frumkvæði og raunhæfar aðgerðir.

Nú berst til okkar með krókaleiðum erlendis frá að í utanríkisráðuneytinu sé í leyni sé búið að gera drög að umsókn um aðild að Evrópusambandinu.

Íslandshreyfingin taldi fyrir síðustu kosningar eðilegt að slík umsókn og samningsmarkmið yrðu unnin til þess að geta gripið til þeirra ef þjóðinni teldi nauðsynlegt að láta á slíkt reyna. Þetta ætti auðvitað að gera í tengslum við djúpa, ítarlega og opna umræðu en ekki í einhverju pukri og leynd inni í ráðuneyti.

Á hverjum degi koma nýjar fréttir sem minna okkur á það hve djúpt ráðamenn eru sokknir og þar með við öll í augum umheimsins. Það hefur verið dapurlegt að þurfa að benda á þetta nær daglega í bloggpistlum mínum.

En kannski leiðir þetta til góðs. Áfengisfíklar hafa sumir þakkað endurreisn sína því að þeir sukku nógu djúpt til þess að augu þeirra opnuðust. En það gat ekki gerst án álgerrar kúvendingar og endurmats á lifsgildum.


mbl.is Drög lögð að umsókn um ESB-aðild?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Egill gefur tóninn.

Ég sagði í gamni við Egils Helgason í gærkvöldi að hann hefði verið "valtarinn" í hópi sjónvarpsfólks á Edduhátíðinni þegar hann sópaði til sín styttunum. Nú sem aldrei fyrr er þörf á öflugu sjónvarps- og kvikmyndagerðafólki til að upplýsa þjóðina og hjálpa henni til að ná áttum. Þar hefur Egill verið í fararbroddi og er því vel að verðlaunum og hvatningu kominn.

Mér líst vel á þá breytingu sem hann hefur gert á Silfrinu, að láta ekki fjóra viðmælendur sína verða eins og gaggandi hænsn hvert upp í annað svo að úr verður ruglingslegur hávaði heldur gefa hverjum og einum rými til að bera fram sitt mál. Til hamingju, Egill !


mbl.is Brúðguminn hlaut sjö Edduverðlaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hin óbætanlega töf.

Strax hinn 8. október síðastliðinn þegar því hafði verið sjónvarpað um alla heimsbyggðina að Íslendingar "ætluðu ekki borga" og þar á ofan enn betur ljóst af síðar birtu símtali Allstair Darling og Árna Mathiesen að við ætluðum að mismuna innistæðueigendum eftir þjóðernum varð mér ljóst þar sem ég var staddur á erlendri grund að ímynd Íslands hafði beðið stórkostlegt tjón sem yrði að vera forgangsverkefni að bæta úr sem allra hraðast.

Síðan þá hef ég stanslaust reynt að benda hinn vonlausa málstað okkar sem var fyrirlitinn hjá öllum þjóðum vestan hafs og austan.

Í stað þess að fara þá strax og helst fyrr á fullt í að koma þessari deilu fyrir kattarnef stöndum við loksins nú, meira en fimm vikum síðar í þeirri stöðu sem íslenskir ráðamenn í afneitun sinni og veruleikaflótta þráuðust við að viðurkenna en blasir skýrt við.

Þessi töf, ofan á aðrar tafir og mistök allt frá því í vor, hefur kostað okkur óheyrilega fjármuni, álitshnekki og missi viðskiptavildar um allan heim.

Einnig tafið fyrir því tröllaukna verkefni að afstýra eða minnka að það mikla tjón sem gjaldeyrisskortur og gjaldþrot fyrirtækja veldur.    


mbl.is Gátum ekkert annað gert
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margir í súpunni.

Það var athyglisvert að hlusta á lýsingar verðlaunablaðakonunnar Sigríðar Daggar og Péturs Gunnarssonar á stjórnmálaástandinu á Íslandi. Í meitluðu máli gaf Sigríður Dögg okkur innsýn í spillingarkerfi þáverandi stjórnarflokka sem skiptu bönkunum á milli skjólstæðinga sinna eins og herfangi.

Pétur Gunnarsson rakti síðan hvernig forystumenn Sjálfstæðisflokksins sitja í súpunni, Geir formaður af augljósum ástæðum, Þorgerður Katrín vegna tengslanna við Kaupþing sem ekki hafa enn verið hreinsuð fyllilega, Illugi Gunnarsson vegna sinnar aðkomu að fjármálavandræðum og Guðlaugur Þór vegna REI-málsins.

Það var helst að Pétur fyndi ekki veikan blett á Bjarna Benediktssyni og virðist þá hafa gleymt eða horft framhjá þætti hans gagnvart skilanefnd og N1.

Ekki er ástandið betra í Framsókn. Valgerður með einkabankavæðingarspillinguna sem Sigríður Dögg lýsti svo vel, og Siv Friðleifsdóttir með einhverja afdrifaríkustu og óverjanlegustu ákvörðun okkar samtíma varðandi Kárahnjúkavirkjun.

Samfylkingin, að undanskildum tveimur þingmönnum, greiddi þeirr virkjun atkvæði og kóaði þannig með því sem var upphaf stærstu efnahagslega fíkniefnapartís Íslandssögunnar sem nú hefur endað í stjórnartíð þess sama flokks og á ábyrgð hans með afleiðingunum sem fara jafnvel fram úr því sem nokkurn gat órað fyrir.

Formenn VG og Frjálslyndra eru tilbúnir að taka við ávöxtunum af hinu siðlausa eftirlaunafrumvarpi, fimm árum eftir að það var lögfest með hraði. Ef þeir halda að það muni ekki um nokkra keppi í sláturtíðinni þá gleyma þeir því tapi á trausti kjósenda sem felst í því að segja eitt en gera annað þegar það hentar kjörum þeirra persónulega.

Þess vegna hefur það hættulega ástand skapast sem maður upplífir á Austurvelli og meðal almennings að afnema beri alla stjórnmálaflokka á einu bretti.

Það er hættulegt fyrir stjórnmálin og þjóðarhag að afneita nauðsyn þess að kjósendur skipi sér í fylkingar í samræmi við mismunandi skoðanir til þess að fá síðan umboð í kosningum til að vera í forsvari fyrir málefnum þjóðarinnar. En svona hafa stjórnmálamenn útatað stjórnmálin í óþverra og eitt helsta verkefni samtímans er að hreinsa þennan óþverra úr stjórnmálunum sem hefur komið óorði á starfsemi sem er nauðsynleg fyrir lýðræðið.

Eftir stendur að einn stjórnmálaflokkur, Íslandshreyfingin, stendur utan þings ásamt öðrum grasrótarhreyfingum og hópum sem skynja gerbreytta tíma og nauðsyn fyrir umbætur og endurreisn á öllum sviðum þjóðlífsins.


mbl.is Siv ekki á leið í formannsslag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Drep og aflimun?

Fáar þjóðir, ef nokkrar, eru háðari eðlilegum milliríkjaviðskiptum en við Íslendingar. Straumur gjaldeyris og þarmeð fjármagns er það sama og blóðstraumur fyrir líkama. Þegar blóðstraumurinn minnkar eða stöðvast endar slíkt ástand ef það fær að magnast með því að drep kemur í viðkomandi hluta líkamans og taka þarf af limi.

Fótur, sem drep er komið í, er sama og dauður, verður aldrei lífgaður aftur við. Heldur ekki líkami sem blóðstraumurinn hefur stöðvast í.

Ég sé á blogginu að menn efast um að Vilhjálmur Egilsson viti hvað hann sé að segja af því að hann hafi ekki fylgst með ástandi fjármálastofnananna né varað við því.

Ég spyr á móti: Er vitað um einhvern annan mann sem veit betur um ástandið hjá atvinnufyrirtækjunum en Vilhjálm Egilsson, manninn sem hefur af því starfa að fylgjast með því sem best fyrir hönd samtaka sinna?

Afneitun á því sem Vilhjálmur er að segja líkist afneitun áfengissjúklingsins sem dregur umsögn sérfróðs læknis í hjartasjúkdómum um ástand hjarta- og æðakerfis hans, í efa af því að þessi læknir hafi ekki úttalað sig um ástand beina og sina.

Það hefur þegar liðið allt of langur tími, mánuðir og jafnvel ár, sem ekki hefur verið hlustað á aðvörunarraddir þeirra sem nú hefur komið í ljós að höfðu alltaf rétt fyrir sér.

Því lengur sem veruleikafirringin heldur áfram, því svakalegri verða afleiðingarnar.


mbl.is Ávísun á risagjaldþrot ef lán fæst ekki frá IMF
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dæmalaust ástand í þjóðfélaginu.

Það er alveg nýtt fyrir alla að upplifa það dæmalausa ástand sem ríkir í þjóðfélaginu í dag. Maður hefði látið segja sér það tvisvar fyrir nokkrum mánuðum að eiga eftir að koma á tvær fjölmennar samkomur sama daginn, fyrst á Austurvelli og síðan í Laugardalshöll og vera þar á ofan á fundi um ástandið á milli fjöldafundanna.

Fundurinn á Austurvelli var til fyrirmyndar, góðar ræður og framkoma fundargesta. Þeir sem kusu aðra aðferð til túlkunar gerðu það á eigin ábyrgð en ekki hins breiða fjölda sem ég giska á að hafi ekki verið færri en átta þúsund. Með mótmælum hins mikla og prúða fjölda er slegið það vopn úr höndum valdhafa að mótmælafólkið sé stjórnlaus og agalaus skríll og að enginn geti komið í staðinn fyrir þá sem nú ráða. 

Ég var á kynningu stjórnmálaflokka í einum af skólum borgarinnar, en fulltrúum stjórnmálaflokkanna var gefinn kostur á einni kennslustund hverjum í félagsmálakennslu skólans. 

Táknrænt var að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins skrópuðu á sinn fund eins og krakkarnir orðuðu það. Ég hef verið á svipuðum fundum í skólunum undanfarið eitt og hálft ár og það var greinilegur munur á viðhorfi nemendanna nú og þá.

Óskipt athygli og áhugi skein út úr andlitum hvers einasta unglings og það segir mér að nú sé að koma til skjalanna kynslóð ungs fólks með aðrar áherslur en fyrri kynslóðir. Þetta unga fólk skynjar það að vandinn sem hin eldri kynslóð hefur komið þjóðinni mun bitna á þeim sem taka við þrotabúinu og að þau muni ekki komast hjá því að taka þátt í endureisnarstarfinu sem framundan er.  


mbl.is „Hlýleg“ stemmning í Höllinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er svona slæmt við mannaskipti?

Vaxandi þungi er í undiröldunni í þjóðfélaginu sem vill aukið lýðræði og umbætur. Það er undarlegt hvernig þeir stjórnmálamenn sem mæra lýðræðið í orði andæfa því að kjósa næsta vor og skipta út þeim sem höfðu rangt fyrir sér og setja þá inn sem höfðu rétt fyrir sér.

Ef núverandi valdhafar telja sig best fallna til að fara með mál þjóðarinnar ættu þeir að fagna þeirri kröfu að þeir fái tækifæri til að umboð þeirra verði endurnýjað. Öll málefni þjóðarinnar eru gerbreytt og núverandi umboð stjórnvalda því úrelt.

Flestir merkustu stjórnmálaforingjar heims hafa orðið að hlíta dómi lýðræðisins. Churchill tapaði í kosningum 1945. De Gaulle gafst upp og fór frá völdum 1946 og aftur 1969. Eisenhower gat ekki haldið áfram 1960 eða Reagan 1988 vegna þess að allir forsetar Bandaríkjanna verða að hlíta því að vera ekki meira en tvö kjörtímabil, sama hve góðir þeir eru. 

Brýn nauðsyn er að innleiða persónubundnar kosningar og hægt að nýta reynslu frá ýmsum löndum þar að lútandi án þess að fara út í einmenningskjördæmi eins og í Bretlandi. Það mætti meira að segja hafa blandið kerfi með 25 einmenningsþingsætum og 25 af landslistum til að jafna atkvæðavægi milli flokka. 

Meðan einmenningskjördæmi voru hér á landi féllu stjórnmálaforingjar. Tryggvi Þórhallsson, sem verið hafði forsætisráðherra 1927-31 féll í kosnningum 1934. Emil Jónsson, þáverandi forsætisráðherra, féll í kosningunum í júní 1959.

Þetta er nauðsynlegt til þess að lýðræðið virki, að valdið nái ekki að spilla mönnum og að þeir taki ábyrgð og hlíti dómi þjóða sinna.

En nei, svona má helst ekki á Íslandi, heldur ekki þegar stjórnvöld og eftirlitsstofnanir í vinnu hjá þjóðinni hafa gert stórfelld mistök æ ofan í æ á sama tíma sem nú kemur í ljós að þeir kunnáttumenn, sem gagnrýndu þetta, höfðu rétt fyrir sér allan tímann.

Af hverju má ekki fela þessum mönnum að taka við? Af hverju mætti þeir Þorvaldur Gylfason og Ragnar Önundarson til dæmis ekki verða ráðherrar?

Því er stundum svarað til að þessir menn vilji ekki fara út í flokkapólitík en auðvitað mætti vel hafa þetta eins og í Bandaríkjunum að færustu menn utan þings taki að sér ráðherraembætti þegar þess reynist þörf.  

Það er ekkert í íslenskum lögum sem bannar ráðherrasetu utanþingsmanna eða ríkisstjórnir með blöndu af ráðherrum innan þings og utan. Nú er tilefni og tækifæri til að stokka kosningafyrirkomulagið upp og raunar óviðunandi að gera það ekki rækilega hið snarasta. 

Sömu menn og létu fyrrum birtu af sér flennimyndir til að fá fólk til að kjósa sig segja nú að það megi ekki persónugera hlutina. Erlendis segja menn að eftir eitthvert stærsta stjórnmálaklúður sem orðið hefur í nokkru landi sé það endanleg sönnun þess að okkur Íslendingum sé ekki við bjargandi að enginn skuli axla ábyrgð eða verið skipt út fyrir menn sem reyndust hafa rétt fyrir sér.  

 

 

 

 


mbl.is Þinghúsið þrifið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skondin staða ?

Skondin staða er uppi á auglýsingamarkaði hjá ljósvakamiðlum. Samkvæmt áliti Samkeppniseftirlitsins brýtur RUV gegn samkeppnislögum með veru sinni á markaðnum og eftirlitið tekur aðeins tillit til ríkjandi ástands á honum.

Ef RUV hverfur alveg af markaðnum nær hins vegar aðal eigandi frjálsu ljósvakamiðlanna slíkri stöðu á markaðnum að Samkeppniseftirlitið myndi líklega telja það brot á samkeppnislögum.

Um slíkt ástand getur eftirlitið hins vegar ekki dæmt fyrr en það er komið upp og gerir það því ekki fyrirfram . Skondin staða þetta?


mbl.is RÚV ekki brotið gegn samkeppnislögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband