Hús, fullt af játningum fjöldamorðingja.

Ég hef áður vitnað í bókiina "Nazism at war" sem lýsir betur en nokkur önnur bók sem ég hef lesið hvað lá að baki þeim mikla harmleik sem Seinni Heimsstyrjöldin var. 

Það sem stendur upp úr eru beinar tilvitnanir í ræður Hitlers við ýmis tækifæri og bókina "Mein Kamph" sem á sínum tíma var gefin út á Íslandi þegar nasisminn var í hvað mestum uppgangi í Þýskalandi á fjórða áratug síðustu aldar.

Þegar þessar tilvitnanir eru lagðar saman kemur út alveg ólýsanlega viðbjóðsleg röð játninga kaldrifjaðs og tryllts fjöldamorðingja sem allt til hins síðasta leit á það sem hlutverk sitt að útrýma öllum "óæðri" kynþáttum sem hann skilgreindi sem slíka.

Á lokamánuðum stríðsins beindist grimmd þessa manns gegn hans eigin þjóð sem hann taldi hafa brugðist sér og ætti ekki betra skilið en að farast í eldslogum síðustu mánaða þessa hræðilega stríðs.

Í stað þess að jafna húsið í austurríska bænum Braunau við jörðu þar sem þessi glæpamaður ólst upp, ætti þvert á móti að útbúa þar safn þar sem fólk gæti lesið af stórum skiltum játningar hans um útrýmingarstríð, -  ekki bara játningarnar varðandi útrýmingu Gyðinga, Slava, Sígauna og svertingja, heldur hans eigin þjóðar í lok stríðsins.

Spila mætti búta úr æsingaræðum hans þar sem þetta kom fram og varpa ljósi á þá einstæðu villimennsku sem Hitler mælti fyrir um.

Útrýmingarbúðirnar í Auswitch eru varðveittar og hið sama á að gera við önnur ummerki um fyrirbæri í mannkynssögunni sem eigi að verða víti til varnaðar.

Ég var einu sinni spurður um það hvað ég myndi velja, ef ég mætti verða viðstaddur flutning á tveimur ræðum úr mannkynssögunni.

Mitt svar var að það yrði annars vegar Fjallræða Krists og hins vegar sú ræða Hitlers, sem haldin hefði verið með stórkostlegastri umgjörð, til dæmis í Nurnberg.

Þannig fengist samanburður á hinu besta og hinu versta á þessu sviði.

 

 


mbl.is Óttast hverjir kaupi heimili Hitlers
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ánægður með Desember.

Ég fór með blendnum huga að sjá Desember, nýja mynd Hilmars Oddssonar. Jólamynd? Var það ekki tvíbent viðfangsefni?

Myndin gerist í hversdagslífi og basli fremur venjulegs fólks og því fannst mér enn frekari ástæða til að óttast að hún myndi ekki viðhalda athyglinni allan tímann.

En það fór á aðra leið. Þegar myndinni lauk var ég ánægður með þessa bíóferð og tel höfuðkost myndarinnar einmitt þann hve auðvelt er fyrir hvern sem er að láta lokkast inn í heim hennar sem allir geta fundið svo mikla samsvörun við úr eigin lífi og sinna nánustu.

Hvað eftir annað stóð ég mig að því að hugsa: Hver kannast ekki við þetta?

Það er nefnilega pottþétt uppsetning að tefla saman mestu hátíð ársins og vandamálum og viðfangsefnum hversdaglífs hjá breyskum og ófullkomnum manneskjum, svo framarlega sem úrvinnslan er góð.

Og það finnst mér hún vera í þessari mynd þar sem jöfn og góð frammistaða allra er aðall þess hve vel hefur tekist til.

Gæti vel ímyndað mér að þessi mynd eigi eftir að verða klassísk jólamynd og góð heimild um þann desember sem Íslendingar upplifa á hverju ári.


Dapurleg dökk hlið.

Bandaríska þjóðin er aðdáunarverð um marga hluti. Síðustu forsetakosningar voru rós í hnappagat þjóðar sem samsett er af fjölbreyttari og ólíkari kynþáttum en flestar aðrar. 

Þeir gátu þetta eftir allt.  

Þegar dökkar hliðar bandarísks þjóðlífs koma fram er oft undravert hvernig Kanarnir koma manni fyrr en varir á óvart. Það mega þeir eiga. 

Ég hef ferðast víða um Bandaríkin og ríkin og fólkið eru ákaflega ólík, svo ólík að engin sanngirni er fólgin í því að alhæfa um bandarískt þjóðlíf út frá bíómyndum um glæpi og ólifnað eða fréttum af glæpum og óhugnaði.

En ein heildarmynd blasir við og hefur blasað við lengi: Byssudýrkun Bandaríkjamanna er böl í landi þeirra.

Þeir afsaka sig með því að þeir séu "frontier-þjóð," landnemaþjóð sem varð að nota byssur við landnámið og þess vegna sé byssueignin og skotvopnhefðín svona mikil og sterk.

Þessi útskýring stenst ekki ef byssueign og byssumorð í Bandaríkjunum eru borin saman við byssueign og byssumorð í Kanada og Ástalíu þar sem líka búa landnemaþjóðir.

Himinhrópandi munur eru á tölunum í þessum löndum og það hlýtur að benda til þess að enda þótt það séu ekki byssur sem drepi fólk heldur menn þá sé fylgni á milli byssueignarinnar og skotvopnadýrkunarinnar og morðanna.  

 


mbl.is Bandaríska þjóðin syrgir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Léttir fyrir sjávarbyggðirnar.

Ákvörðun Hafrannsóknarstofnunar um 40 þúsund tonna kvóta af sumargotssíldinni er léttir fyrir þær sjávarbyggðir sem hafa átt mikið undir því að þessum veiðum væri haldið áfram.

Þetta leit ekki vel út á tímabili og alger stöðvun á veiðinni hefði verið mikið áfall fyrir þessi sjávarpláss.

Nú er bara að vona að síldarstofninn yfirstígi hina illvígu sýkingu smám saman svo að nýja síldarævintýrið verði ekki kæft.


mbl.is 40.000 tonna síldarkvóti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í kapphlaupi í eigið flugslys.

Má Brasilíumannsins sem kom fram sprelllifandi í eigin jarðarför minnir mig á skondið atvik sem henti mig fyrir nokkrum árum.

Ég átti leið á flugvélinni TF-FRÚ austur á Egilsstaði og þar sem ég flaug austur með Háreksstaðaleið ákvað ég að taka á mig krók, fljúga suður Jökuldal og skoða Hálslón í leiðinni.

Lélegt skyggni var á þessari leið en mér tókst að læðast upp með Hafrahvammagljúfiri, komast yfir stífluna og inn eftir lóninu en komst síðan þaðan með Snæfellinu niður í Fljótsdal og lenti á Egilsstöðum.

Þar tók ég jeppagarminn minn, kom við á bensínstöð en ók síðan sem leið liggur inn Fljótsdal og ætlaði upp að Hálslóni landleiðina.

Þegar ég var rétt kominn upp fyrir brekkurnar upp á Fljótsdalsheiði komu lögreglubíll og sjúkrabíll á fleygiferð á eftir mér og fóru fram úr mér.

Mér varð ljóst að slys hefði átt sér staði og hringdi í Ríkisútvarpið á Egilsstöðum. "Jú, var svarið, " það varð flugslys fyrir innan Kárahnjúka. "

Fyrir fréttamann eins og mig er svona lagað eitt af því sem veldur hvað mestum óróa í sálinni.

Maður verður mjög miður sín yfir því að einhver vinur manns hafi hugsanlega lent í slysi, jafnvel alvarlegu slysi, en á móti kemur sú staðreynd að í þessu tilviki var ég sem fréttamaður með allar kvikmyndagræjur alveg einstaklega vel staðsettur.

Ég sagði því útvarps- og sjónvarpsfólkinu á Egilsstöðum að ég myndi flýta mér allt hvað af tæki á eftir björgunarleiðangrinum, fylgjast með viðburðum og taka myndir.

Þessu var vel tekið. Ríkisútvarpið yrði allra fjölmiðla best í stakk búið til að sinna þessu annars hörmulega fréttaefni.

Ég þandi nú drusluna allt hvað af tók og bjó mig undir enn eina fréttaferðina á stað vofveiflegra atburða og hugsaði með mér hvað þetta starf væri nú skemmtilegra og auðveldara ef maður slyppi alveg við svona viðfangsefni.

Þá hringdi farsíminn. Hringt var frá Flugstjórn og spurt hvort ég vissi eitthvað nánar um slysið. Ég varð undrandi því að ég hélt að þetta væri öfugt, - þeir vissu meira um slysið en ég.

Ég sagði þeim að ég hefði fyrir tæpri klukkustund verið á flugi yfir Hálslóni og gæti varla ímyndað mér að nokkur annar hefði verið þar í skilyrðum sem hundkunnugan mann þyrfti til að vinna úr. 

Þeir sögðu að vitni hefðu séð flugvél hrapa ofan í lónið. 

Farið hefði verið inn eftir til að gæta að þessu en þá hefði hún verið sokkin.

Ég sagði þeim að ef svo væri hlytu þeir að vita meira um þá flugumferð en ég og geta séð hverjir hefðu gert áætlun um flug nálægt þessu svæði.

Þeir sögðust búnir að kemba öll sín gögn og ekki hafa vitað um neina flugumferð þarna fyrr en ég hefði, einmitt nú, sagt þeim frá mínum ferðum.

Ef flugvél hefði lent mjúkri lendingu á lóninu og sokkið hefði ekki verið víst að neyðarsendirinn hefði farið sjálfkrafa í gang og því væri þessi viðbúnaður í gangi.

Nú rann það upp fyrir mér að um engan gæti verið að ræða nema mig sjálfan og ég spurði hvernig vitnin hefðu lýst flugvélinni. Kom þá í ljós að sú lýsing átti við mína vél.

Vitnin höfðu séð vélina fljúga inn eftir lóninu, lækka flugið og hverfa á bak við hæð og síðan hefði ekkert sést meira til hennar.

Ég sagði þeim að það væri eðlilegt, því að ég hefði beygt til austurs þarna innfrá og skyggnið hefði ekki verið meira en 6-7 kílómetrar svo að ég hefði þá ekki sést frá stíflunni.

Niðurstaðan var einföld: Ég var á hraðferð til að taka mynd af eigin flugslysi sem ég hafði þó aldrei lent í !

Þarna varð til eftirfarandi vísa:

 

Geystist ég um grýttan veg /

geysilega fréttaþyrstur. /

Í eigið flugslys æddi ég /

og ætlaði að verða fyrstur !


mbl.is Mætti í eigin jarðarför
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bergur Guðnason, vinur í raun.

Öðlingur og traustur vinur. Þessi tvö orð koma í hugann þegar Bergur Guðnason hverfur af sviði jarðlífsins.

Við áttum samleið í gegnum Menntaskólann í Reykjavík og frá þeim tíma eru minningarnar um hann sveipaðar gleðiljóma fjörsins sem ríkti jafna í skólanum.

Hann var gæddur yndislegri kímnigáfu sem naut sín vel, bæði í persónulegum samskiptum og í vinahópi.

Þessum eiginleika hélt hann allt fram til hins síðasta í hetjulegri og harðri baráttu sinni við illvígan sjúkdóm.  

Bergur varð snemma snjall knattspyrnumaður og varð landsliðsmaður í handbolta.  

Með árunum mynduðustu ný tengsl á milli okkar í gegnum það og sameiginlegana vinahóp. 

Bergur var mikill vinur vina sinna og ég var einn þeirra sem naut einstakrar hjálpsemi hans á þeim vettvangi fjármála sem hann gerðist sérfræðingur í sem lögfræðingur.

Bergur var einn af þessum íþróttamönnum sem var ekki alltaf sá sem var mest áberandi en reyndist þó oft drýgri en margir þeir sem böðuðu sig meira í sviðsljósinu.

Það voru til dæmis örfáir handboltamenn sem höfðu þá eiginleika að vera sífellt að skora mörk svo lítið bar á. Þegar Valur og Fram kepptu voru þetta þeir Hemmi og Bergur í Val og Guðjón í Fram, svo einstaklega útsjónarsamir og lagnir við að finna glufur í varnarvegg andstæðinganna og nýta sér það.

Meðan ég var íþróttafréttamaður og horfði á alla leiki var það einhver mesta ánægjan sem leikirnir buðu upp á að dáðst að þessum snilldareiginleikum þessara leikmanna.

Nú er Bergur allur og hugurinn er hjá fjölskyldu hans og nánum vinum sem hafa misst mikið.

Blessuð sé minning hans.   


Helmingnum hent?

Bogi Ágústsson átti áhugavert viðtal við lögmann Færeyja, sem ég sá endursýnt í gærkvöldi. Meðal þess sem hann sagði var að líklegast væri helmingnum hent sem um borð kæmi í íslenskum fiskiskipum. 

"Hverjum þykir sinn fugl fagur" segir máltækið og kannski sér lögmaðurinn sóknardagakerfi Færeyinga í hillingum og íslenska kvótakerfið að sama skapi í dimmara ljósi.

En mér verður hugsað til frásagnar Margrétar Sverrisdóttur af því þegar hún fór með einum af áhrifamönnum í Færeyjum um hafnarbakka í enskri fiskveiðihöfn.

Færeyingurinn benti á nokkur fiskikör sem komin voru á land og sagði: Þessi fiskur er úr íslensku skipi og þessi úr færeysku.

"Hvernig sérðu það", spurði Margrét. "Jú," svaraði Færeyingurinn. "Það er hægt að þekkja íslensku fiskikörin á því að fiskarnir í þeim eru nokkurn veginn jafnstórir en í færeysku körunum eru þeir misjafnlega stórir." 

Vorið 1986 átti ég viðtal við íslenskan sjómann í Kaffivagninum sem útskýrði hvatann til þess að sjómenn yrðu að henda undirmálsfiski og reyna að hafa stærðina sem jafnasta sem veidd var. 

Þetta var í fyrsta skipti sem sjómaður játaði opinberlega að hafa tekið þátt í brottkasti og hann var rekinn morguninn eftir.  

Lögmaður Færeyja benti á það að ef miklu væri hent af fiski skekktust allir útreikningar fiskifræðinga  sem því næmi.

Ég þekki gamalreynda sjómenn sem hafa sagt mér að alla tíð hafi það tíðkast í íslenskum fiskiskipum að henda fiski ef það gagnaðist ekki að fá hann um borð, til dæmis á fjarlægum miðum þar sem miklu skipti að fiskurinn sem siglt væri með langar leiðir heim væri sem hagkvæmast saman settur.

Sé gömul hefð að baki þessa er ekki að undra að brottkast hafi einfaldlega aukist eftir þörfum þegar kvótakerfið kallaði á það og myndaði nújan og firnasterkan hvata til þess.

Kvótakerfið hefur leitt til þess að óveitt, ákveðið magn af fiski, er metið sem eign. Þetta myndi riðlast ef hver útgerðarmaður ætti rétt á ákveðnum fjölda veiðidaga og enginn vissi nákvæmlega fyrirfram hve mikið veiddist. Það yrði erfitt að veðsetja veiðidaga, - eða hvað? 

Sjávarútvegurinn skuldsetti sig upp í rjáfur í "gróðærinu." Mikið af því fé fór úr landi þegar menn tóku peninga út úr greininni fyrir sig sjálfa eða óskyldan rekstur og fjármálavafstur og mikið af þessum skuldum er vegna þess en ekki vegna fjárfestinga til góðs fyrir greinina. 

Ég get ekki varist þeirri hugsun að með nútíma tækni, þegar hægt er að fylgjast með ferðum hvers skips, hefði haganlega gert sóknardagakerfi verið heppilegra fyrir okkur en kvótakerfið, sem grátkór LÍÚ má ekki heyra nefnt að sé snert við, - grætur meira að segja út af strandveiðunum sem hleyptu þó svolitlu lífi í steindauð pláss síðastliðið sumar.  

Það er skiljanlegt að sums staðar þar, sem sannanlega hefur vel verið staðið að rekstri útgerðar, og sjávarbyggðir hafa notið þess þyki þeim, sem þar lifa á sjávarfangi, ósanngjarnt að taka af þeim kvóta og afhenda öðrum.

En gallar núverandi kerfis án nokkurra breytinga eru svo himinhrópandi að við það á ekki að una.  

 

 

 


mbl.is Slakur árgangur þorsks og ýsu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skilaboð.

Áhugaverðar umræður hafa farið fram að undanförnu um hæð stýrivaxta. Til eru þeir sem hafa sagt að þeir megi ekki lækka vegna þess að þá fari vextir niður fyrir verðbólgu og það sé bæði skaðlegt og ósanngjarnt.

En líklega má ekki horfa á þetta svona þröngt út frá tímabundnu ástandi heldur fram til þess tíma þegar ætlunin er að verðbólgan hjöðnuð að mestu.

Eins og sakir standa er greiðslubyrði þjakaðra heimila og fyrirtækja einn stærsti hluti efnahagsvandans og vaxtalækkun minnkar hann.  

Til þess að hjálpa til við það verður að gera margt á mörgum vígstöðvum og helst allt í ákveðna átt.

Þótt lækkun vaxta sé ekki mikil er hún ein af þeim aðgerðum sem senda skilaboð út í þjóðfélagið og til alþjóðlega samfélagsins.

Þau skilaboð, hversu lítil sem hver þeirra kunna að vera, eru mikilvæg í þeirri baráttu sem nú er háð við kreppuna.

Og meðal annarra orða: Mikið óskaplega held ég að við Íslendingar höfum kannast við flest það sem kom fram í sjónvarpsþættinum í gærkvöldi um fall fjórða stærsta fjárfestingarbanka Ameríku.

 

 


mbl.is Stýrivextir lækka í 11%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líklega röng ákvörðun.

Ég tel mestar líkur á því að ákvörðunin um byggingu nýs Landsspítala á gömlu Landsspítalalóðinni sé röng. 

Margar ástæður liggja til þess.

Í fyrsta lagi hefur það gefist illa erlendis að vera með "bútasaum" við svona byggingar. Á sínum tíma fór ég til Oslóar og Þrándheims til að skoða sjúkrahúsin þar og ræða við íslenska og norska lækna til að fjalla um þetta í sjónvarpsfréttum. 

Sjúkrahúsið í Þrándheimi var gert með "bútasaumi", - með því að bæta við gömlu húsin og tengja þau saman. Það var einróma skoðun læknanna að þetta væru hin verstu mistök sem menn ættu að læra af.

Menn lærðu af þessu í Osló. Þeir fundu nógu stóra auða lóð nálægt þjóðleiðinni í gegnum borgina og hönnuðu aldeilis frábært sjúkrahús frá grunni sem hlotið hefur einróma lof.  

Í öðru lagi liggur nýja Landsspítalabyggingin ekki eins vel við samgöngum og skyldi. Mestu krossgötur landsins eru í kringum Elliðárdal og miðja byggðarinnar er austast í Fossvogsdal. 

Skárra hefði verið að bæta við Borgarspítalann meðan þar var enn rými því að þar var aðeins ein bygging fyrir en margar á Landsspítalalóðinni.

En best hefði verið að hanna nýjan spítala alveg frá grunni innst við Grafarvog nálægt því svæði þar sem nú er tilraunastöðin á Keldum. 

Þess ber að gæta í þessu máli að ákvörðunin um staðarvalið var tekin meðan enn voru meiri möguleikar  á því að finna svæði nálægt krossgötum höfuðborgarsvæðisins.

Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir stjórnsýslufræðingur nefndi Landsspítalamálið sem dæmi um litla og lélega umræðu áður en ákvörðunin um staðarvalið var tekið.

Þegar ég innti borgarfulltrúa eftir því fyrir þremur árum hvenær og hvernig ákvörðunin hefði verið tekið gat enginn svarað mér. Það var orðið svo langt síðan og jafngilti því að sagt væri: Af því bara.   

Hið eina jákvæða við Landsspítalalóðina er nálægðin við flugvöllinn því spítalinn er spítali allra landsmanna og engin leið að komast hjá því að nota flugvélar í sjúkraflugi.

Þess vegna væri það slæmt ef flugvöllurinn yrði lagður niður.  

Nær allt sjúkraflug hér á landi fer fram með flugvélum af tveimur ástæðum: Það er margfalt ódýrara að nota flugvélar en þyrlur og ekki er hægt að fljúga þyrlum í jafn slæmum skilyrðum og flugvélum, svo sem í ísingarskilyrðum eða ofan skýja.   

 


mbl.is Nýtt upphaf markað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rómverjar, Fönikíumenn og Gallar.

Fornleifafræðilega eru meiri líkur á því að Rómverjar hafi komið fyrstir til Íslands heldur en Írar eða Norðmenn. Ástæðan er fólgin í því að engar áþreifanlegar minjar hafa fundist um veru Íra hér þótt Landnámabók tilgreini þá. Hins vegar minjar um Rómerja. 

Landnámabók tilgreinir að Írar hafi komið á undan Norðmönnum vegna þess að ekki var hægt að sneiða fram hjá hinum mikla innflutningi fólks af Bretlandseyjum til landsins.

Dýrð landnámsins er hins vegar öll eignuð Norðmönnum og sagt að Írarnir hafi verið einsetumenn sem ekki fjölguðu sér. Það er hæpin alhæfing og þegar litið er til þeirra laga, sem talin voru gilda um landnám, sést að Norðmönnum hefur verið mikið í mun að sanna að þeir ættu lagalegan rétt til landsins og engir aðrir.

Sagan af öndvegissúlunum sýnir að landnámið varð líka að vera trúarlega pottþétt því að í öndvegissúlunum fólust heimilisguðir Ingólfs sem friðmæltust við landvættina.  

Langafi minn, Runólfur Bjarnason hómópati í Hólmi í Landbroti mun hafa greint frá því í viðtali í Ísafold og Verði eða í Tímanum snemma á síðustu öld að í sandi þar í grenndinni hafi fundist siglutré úr óvenjulega harðri trjátegund.

Hvers vegna var siglutré grafið þar í sandi, langt frá sjó?  

Jú, líkur eru á því að hægt hafi verið að sigla langleiðina upp á Síðufjöllum fyrir 2000 árum áður en stórgos og sandflutningar færðu ströndina út, og því ekki óhugsandi að þar hafi strandað rómverskt eða jafnvel skip þjóðflokks í Gallíu (Frakkalandi) sem bjó yfir bestu siglingatækni þess tíma og notaði mjög harða trjátegund í skip sín.  

Fyrstu menn sigldu vafalaust til Íslands fyrir Krists burð og fyrstu Norðmennirnir vafalaust löngu fyrir þann tíma sem landnám Ingólfs er talið hafa átt sér stað.

Nú sem fyrr gilda orð Ara fróða: "Hvatki es missagt er í fræðum þessum, þá er skylt að hafa það er sannara reynist.

Spurningin er hvort vopnaviðskipti Hjörleifs við þræla hans eru endurómur af því að norsku víkingarnir þurftu að berjast við þá sem voru fyrir í landinu til þess að ná því undir sig.

DSCF0171

Munnlegir vitnisburðir eru hæpnir. Dæmi: Það er almennt haldið að fyrsti bíllinn minn, sem ég átti í rúm þrjú ár, hafi verið þriggja hjóla bíll.

Þessi vitleysa er orðin svo sterk að meira að segja einstaka bekkjarfélagar mínir úr M.R. hafa verið farnir að halda þetta.

Hér á síðunni er mynd af sams konar bíl og ég átti, NSU Prinz, þessi svarti, og hjólin eru ekki aðeins fjögur, heldur yst úti í hornum bílsins.

DSCF0174

Um þetta hef ég sagt: "Ég er bíladellukarl. Ef ég væri mikill kvennamaður myndi ég áreiðanlega muna eftir því hve margir fætur voru undir fyrstu kærustunni minni."

Fóturinn fyrir þessari furðulegu sögu er að í fyrsta áramótaskaupi Sjónvarpsins var ég látinn koma akandi inn í stúdíó á Messerschmitt þriggja hjóla bíl, stíga út úr honum og syngja eitthvað sem ég man ekki lengur hvað var, enda skaupið týnt og tröllum gefið.

Þessi bíll var gerólíkur Prinzinum, miklu mjórri og aðeins einn sat frammi í og einn afturí.

Sem sagt: Eins og yfirbyggt vélhjól. 

Þetta var í eina skiptið á ævinni sem ég settist upp í slíkan bíl en ók um daglega á Prinzinum í þrjú og hálft ár.  

 

 


mbl.is Var Ísland numið 670?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband