Ó, arður, bróðir besti !

 

Ó, arður, bróðir besti  / 

og barnavinur mesti   /

æ breið þú blessun þína   /

á barnalánið fína.

 

Þeim góð börn gef að vera  /

og góðan ávöxt bera   /

og forðast umtalið illa   /

svo ei þeim nái´að spilla.

 

Það ætíð sé þeirra´ iðja   / 

að elska gróða´og biðja  / 

og meðferð lánsfjár læra 

og lofgjörð því að færa.

 

Þau kunna´ í basli að bagsa   / 

en brátt úr grasi vaxa   / 

og tapið á sig taka   / 

og trekkt um nætur vaka.  

 

Og ef allt fer til fjandans   /

við forðumst rætur vandans  /

en veltum amstri öllu   /

á elsku börnin snjöllu.   

.  

 Með blíðum barnarómi  /

ljúft bænakvak svo hljómi:  /

Þeim góð börn gef að vera   /

og gróðaávöxt bera.    

 

 

 

 

 

 


mbl.is Arður barnanna fór upp í lán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverju á að trúa?

Það er yfirleitt mjög einfalt reikningsdæmi að finna út gróft reiknað hve mikla orku þarf fyrir ákveðna stærð af álveri. 

Einfaldast er að taka framleiðslugetu álversins í þúsundum tonna og margfalda töluna með ca 1,7-2,0.

Ef 346 þúsund tonnin sem framleidd eru í álveru Fjarðaáls eru margfölduð svona: 346 x 2,0 verður útkoman ca 690 megavött.

Nú kemur upp úr dúrnum að í matsáætlunum Landsnets og ákvörðun Skipulagsstofnunar  um mat á umhverfisáhrifum Suðvesturlínu er talan 1,2 notuð til margföldunar.

Munurinn á 1,2 og 1,7 er næstum því þriðjungur og þessi tala sem gefin er upp er langt frá því sem álver hafa þurft hingað til og munar hvorki meira né minna en 190 megavöttum !

Með því að gera lítið úr orkuþörf álversins er slegið á áhyggjur manna af orkuöfluninni og munar í þessu tilfelli hvorki meira né minna en sem samsvarar rúmlega einni stórri vatnsaflsvirkjun á borð við Blönduvirkjun.

Þegar rætt var um orku á háhitasvæðum norðan Mývatns í hitteðfyrra sagði talsmaður orkuöflunar þar að minnst 1000 megavött væri þar að fá.

Í takt við þetta var gaf síðan Landsvirkjun það loforð út að ekki væri ætlunin að virkja í Gjástykki heldur einungis að rannsaka svæðið !

Þegar það fréttist hins vegar að umhverfisráðherra kynni að beita sér fyrir því að Gjástykki yrði friðað var rekið upp ramakvein og hrópað: "Þetta er atlaga að álveri á Bakka því að virkjun Gjástykkis er forsenda fyrir orkuöflun handa því ! 

Í hitteðfyrra og fyrra var sagt að hugsanlega væri hægt að fá 30 megavött í Gjástykki, síðan var það hækkað í 45, þar á eftir hækkaði Halldór Blöndal töluna í 50 megavött og var varla búinn að sleppa orðinu þegar Hreinn Hjartarson nefndi 60 megavött. Og nú er skyndilega sagt að þarna sé 90 megavött að fá og þess vegna sé svæðið orðið svona mikilvægt !

Hvernig stendur á því að Gjástykki er allt í einu orðið svona ómissandi ef það var leikandi létt að fá alls um 1000 megavött norðaustanlands í hitteðfyrra?

Ég segi: Ef við skoðum þessar misvísandi yfirlýsingar og talnaleikfimi, er þá hægt að trúa orði af því sem þessir stóriðjupostular segja?  Ef hægt er að trúa einhverju, hverju á þá að trúa ?  

   


mbl.is Rangar upplýsingar um orkuþörf álvers
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hornreka í umræðunni.

Í kreppunni hefur ferðaþjónusta dregist saman víða um lönd. Á sama tíma eykst hún hér. 

Það væri fróðlegt fyrir þá, sem kunna að lesa tíðaranda með orðatalningu úr fréttum, að sjá hvaða sess ferðaþjónustan hefur hjá ráðandi öflum í þjóðfélaginu.

Ef farið væri í gegnum helstu fréttir og upphrópanir í þeim undanfarna mánuði myndu orðin stóriðja og virkjanaframkvæmdir líklega hafa verið nefnd mörg hundruð sinnum og stundum sem aðal áhersluatriði í helstu fréttum dag eftir dag.

Á sama tíma minnist ég þess ekki að orðið ferðaþjónusta hafi nokkurn tíma verið nefnt.

Áhersluatriðin hjá ráðandi öflum eru skýr. Það er búið að skipta atvinnulífinu í tvennt:

Annars vegar stóriðja og virkjanaframkvæmdir. Um það snýst allt. Það er forsenda fyrir stöðugleikasáttmála og lífi í landinu. "Við verðum að geta lifað í þessu landi!" er hrópað og síðan þarf ekki að rökstyðja það nánar.

Aldrei er minnst á það að í öllum þeim álverum sem hægt er að reisa hér og nota myndu alla fáanlega orku með stórfelldri eyðileggingu á mesta verðmætinu, einstæðri náttúru, muni aðeins 2% vinnuaflsins í mesta lagi fá vinnu. 8% vinnuaflsins ef við teljum með svonefnd "afleidd störf." 

Hins vegar er "eitthvað annað". Undir það fellur ferðaþjónustan og geldur þess. Þess er aldrei getið að þegar búið verður að reisa öll möguleg álver muni 98% landsmanna vinna við "eitthvað annað."

Þess er aldrei getið að nein önnur starfsemi en stóriðja skapi afleidd störf. Enda eins gott því að ef það yrði gert yrðu afleiddu störfin verða samtals um 700 þúsund manns !  

Jafnvel ef við gefum stóriðjunni átta prósentin sem hún telur sig eiga, myndu 92% þjóðarinnar vinna við "eitthvað annað."

Þetta "eitthvað annað er einskis virði í umræðunni, - stóriðjan er allt.   


mbl.is Stefnir í metár í ferðaþjónustu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamalkunnur vandi.

Það er gamalkunnur vandi að vel rekin fyrirtæki og stofnanir fái ekki að njóta þess sem skyldi. 

Dæmi um þetta má finna langt aftur í tímann, svo sem í rekstri opinberra fyrirtækja.

Ég minnist þes að í tíð Guðna Guðmundssonar rekstors M.R. var oft rætt um það hvernig hann lagði mikla áherslu á að reka skólann af ábyrgð og útsjónarsemi en uppskar oft á tíðum að vera í raun refsað fyrir það.

Það lýsti sér í því því framlög til skólann voru minnkuð að raunvirði og  í samanburði við aðrar hliðstæðar menntastofnanir skekktist myndin enn meir, því að sumar þeirra fóru fram úr fjárveitingum og börmuðu sér svo að framlögin til þeirra voru hækkuð.

Framundan verður að vera gegnsær og opinn samanburður á milli þeirra fyrirtækja sem hafa verið tekin til uppgjörs eftir hrunið svo að tryggt sé að ekki verði um mismunun að ræða.

Í Kastljósi i gærkvöldi nefndi Sigmar Guðmundsson nokkur þeirra og fleiri mun bætast á þann lista.

Síðan er að geta allra fyrirtækjanna sem hafa staðist álag hrunsins en verða að halda áfram að keppa við fyrirtæki, sem með stórfelldum afskriftum skulda hafa fengið meðgjöf í samkeppninni.  

Þessi vandi teygir sig um allt þjóðfélagið því að rekstur tugþúsunda heimila er hér undir sama hatti.

Aldrei fyrr í sögu þjóðarinnar hefur þessi vandi verið eins mikill og víðtækur og nú. 

 


mbl.is Má ekki refsa vel reknum fyrirtækjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Söknuður - vel unnin ævisaga.

Um helgina varð ég þeirrar ánægju aðnjótandi að lesa yfir ævisögu Vilhjálms Vilhjálmssonar, sem ber nafnið "Söknuður." 

Með þessari bók stígur Jón Ólafsson sitt fyrsta stóra skref sem rithöfundur eftir því sem ég best veit og mér sýnist hann hafa unnið afar gott verk og að baki þessari bók liggi gífurleg vinna og vandvirkni.

Vilhjálmur lést fyrir 31 ári og því hefur verið erfiðara að skrifa þessa bók en ævisögu lifandi manns.

Það sést á upptalningunni í bókarlok að Jón hefur talað við amk 70-80 samtíðarmenn Vilhjálms til þess að viða að sér efni í bókina. Með þessari gríðarlegu rannsóknarvinnu tekst honum að samhæfa vitnisburðina um Vilhjálm og þá sem honum stóðu næst svo að úr verður skýr og traust mynd

Með því að vinna þetta verk svona vel hefur honum tekist að draga fram dýpri og betri mynd af Vilhjálmi og hæfileikum hans en fólki almennt var eða hefur verið kunnugt um. 

Í bókinni kemur ýmislegt fram sem kemur á óvart og er stundum á skjön við það sem margir halda, samanber tilurð ljóðsins "Söknuður."  

Mér sýnist auðséð að Jón Ólafsson hafi verið rétti maðurinn til að vinna þetta vandasama verk, ekki síst vegna þess hve vel hann nýtir sér eigin þekkingu og reynslu á sviði tónlistar undanfarna áratugi.

Hann opnar lesendum heim að þessu leyti. 

Bókin er því ekki aðeins gríðar góð lýsing á manninum Vilhjálmi Vilhjálmssyni, heillandi mannkostum hans og veikleikum og full af dramatískum viðburðum í stuttu lífi hans, heldur er þetta tímamótaverk hvað snertir þá glöggu mynd, sem hún gefur af tónlistarlífinu á árabilinu 1960-80 á sviði svonefndrar dægurtónlistar sem þó er erfitt að alhæfa um með slíku nafni.

Ég tel mér því óhætt að mæla með þessari bók og óska höfundi hennar til hamingju með hana.  

 

 


Svona, fáðu þér einn !

Ég er bindindismaður og ek um á bíl með númerið "Edrú". Börnin mín gáfu mér númerið þegar ég varð sextugur.

DSCF3043

Eftir hálfrar aldar feril sem skemmtikraftur er mér fullljós stemningin á bak við íslensku setninguna: "Svona fáðu þér einn!" 

Þessi setning lýsir ákveðinni fjöldasefjun og á því vel við um það þegar áhættu- og kúlulánum var haldið að Íslendingum leynt og ljóst á tímum "gróðærisins." 

Í athugasemd við bloggpistil í fyrradag er beðið um að ég birti texta við lag undir þessu nafni og segir sá sem athugasemdina gerir, að hann hafi heyrt mig syngja þetta lag á skemmtun. 

Ég held textunum sem ég syng á skemmtunum yfirleitt til einkanota en það er svosem útlátalaust í þetta skipti að láta hann flakka svona prívat, þótt ég haldi fast við höfundarrétt minn að honum og einkarétt til flutnings og söngs. 

Mér finnst hugsunarhátturinn í honum eiga svo vel við tímana sem við höfum lifað undanfarin ár. 

 

SVONA FÁÐU ÞÉR EINN ! 

(Með sínu lagi) 

 

Komdu nú og vertu kátur með mér,   /

svona fáðu þér einn !   /

Fylleríisbyrjun oft svona er:  /

Svona fáðu þér einn !   /

Þetta er mjög svo þjóðlegur siður   / 

og þótt margur deyi´eins og steinn  / 

eru síðustu orðin sem að hann man:  / 

"Svona, fáðu þér einn !" 

 

Um allan bæ er bruggaður ágætis bjór   / 

Svona, fáðu þér einn ! 

Og ennþá betri landi, fínn fyrir þjór, - 

svona, fáðu þér einn !  /

En ef löggan kemst í allt þá auðvitað spyr hún:  / 

"Er þetta vínandi hreinn?" 

"Tékkaðu´á því sjálfur", segir bruggarinn þá, -

"svona, fáðu þér einn !"  

 

"Shorta-fáðér-kondara" var sagt um nótt, - 

"svona fáðu þér einn !" 

En fýrinn var slappur þótt hún seiddi hann ótt:  /

"Svona, fáðu þér einn !"

Í hjálpartækjabankann hún hraðaði för 

og við henni tók afgreiðslusveinn

og sagði: "Hérna´eru "draumaprinsarnir", fagra frú, -

svona fáðu þér einn !" 


Þeir litlu troðast undir.

Eldur braust út í hinu alþjóðlega fjármálakerfi árið 2008. Nota má tvenns konar samlíkingar um það sem gerðist þegar reynt var að berjast við eld sem braust út í því vegna þess að óvarlega var farið með mikinn eldsmat.

Fyrri samlíkingin er sú, að þegar flótti brestur á í mannfjölda inni í logandi byggingu myndast troðningur þar sem hver reynir að bjarga sér eftir bestu getu. Þá gerist það oft að hinir minnstu troðast undir.

Í hinni alþjóðlegu efnahagssvallveislu höfðu Íslendingar hagað sér eins og þeir væru 20-100 sinnum stærri þjóð en þeir eru. En þjóðin var of lítil til að ráða við bankakerfi sem hafði orðið tíu sinnum stærra en hagkerfi þjóðarinnar. Því fór sem fór.

Það má líka líkja íslenska þjóðarbúinu við lítið hús, sem var sambyggt við nokkur risastór stórhýsi, sem í var mikill eldsmatur. Mesti eldsmaturinn var þó í litla húsinu. Þegar eldur braust út og læsti sig í allar byggingarnar kom í ljós að brunavarnirnar voru lélegastar í minnsta húsinu með langmesta eldsmatinn. Því fór sem fór.


mbl.is Biðu sömu örlaga og Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spenna að koma í málið.

Nú fer Icesave-málið hugsanlega að verða spennandi á þingi. Lilja Mósesdóttir er gengin úr skaftinu í stjórnarliðinu en þó liggur ekki fyrir hve langt hún muni ganga. Yfirlýsing hennar um að hún "geti ekki samþykkt" frumvarpið getur þýtt það að hún muni sitji hjá.

Þráinn Bertelsson ætlar hins vegar ekki að leggjast gegn frumvarpinu þannig að staðan virðist í jafnvægi eins og er. 

Nú er bara að sjá hvað aðrir gera beggja vegna í hinum pólitísku skotgröfum stjórnar og stjórnarandstöðu. 

Um liðsskipan í málinu hefur máltækið "you win some - you lose some" byrjað að eiga við. 

Afdrif málsins og þar með framtíð ríkisstjórnarinnar fer eftir því hve margir vinnast og hve margir tapast. 


mbl.is Getur ekki samþykkt Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband