Söknuður - vel unnin ævisaga.

Um helgina varð ég þeirrar ánægju aðnjótandi að lesa yfir ævisögu Vilhjálms Vilhjálmssonar, sem ber nafnið "Söknuður." 

Með þessari bók stígur Jón Ólafsson sitt fyrsta stóra skref sem rithöfundur eftir því sem ég best veit og mér sýnist hann hafa unnið afar gott verk og að baki þessari bók liggi gífurleg vinna og vandvirkni.

Vilhjálmur lést fyrir 31 ári og því hefur verið erfiðara að skrifa þessa bók en ævisögu lifandi manns.

Það sést á upptalningunni í bókarlok að Jón hefur talað við amk 70-80 samtíðarmenn Vilhjálms til þess að viða að sér efni í bókina. Með þessari gríðarlegu rannsóknarvinnu tekst honum að samhæfa vitnisburðina um Vilhjálm og þá sem honum stóðu næst svo að úr verður skýr og traust mynd

Með því að vinna þetta verk svona vel hefur honum tekist að draga fram dýpri og betri mynd af Vilhjálmi og hæfileikum hans en fólki almennt var eða hefur verið kunnugt um. 

Í bókinni kemur ýmislegt fram sem kemur á óvart og er stundum á skjön við það sem margir halda, samanber tilurð ljóðsins "Söknuður."  

Mér sýnist auðséð að Jón Ólafsson hafi verið rétti maðurinn til að vinna þetta vandasama verk, ekki síst vegna þess hve vel hann nýtir sér eigin þekkingu og reynslu á sviði tónlistar undanfarna áratugi.

Hann opnar lesendum heim að þessu leyti. 

Bókin er því ekki aðeins gríðar góð lýsing á manninum Vilhjálmi Vilhjálmssyni, heillandi mannkostum hans og veikleikum og full af dramatískum viðburðum í stuttu lífi hans, heldur er þetta tímamótaverk hvað snertir þá glöggu mynd, sem hún gefur af tónlistarlífinu á árabilinu 1960-80 á sviði svonefndrar dægurtónlistar sem þó er erfitt að alhæfa um með slíku nafni.

Ég tel mér því óhætt að mæla með þessari bók og óska höfundi hennar til hamingju með hana.  

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband