Hver er til og hver er ekki til?

Það þarf ekki börn til að ruglast í því hvað sé til og hvað sé ekki til. Oftar en einu sinni kom það fyrir Ronald Reagan Bandaríkjaforseta að tala í ræðum vínum um dramatíska og markverða atburði eins og þeir hefðu gerst í raun og veru en voru þó aðeins atriði í bíómyndum.

Sumar persónur skáldanna og leiksviðanna eru svo ljóslifandi í huga okkar að gætum þess vegna ruglast á þeim og raunverulegum persónum. Ungir og gamlir herma eftir, nota orðalag og vitna jafnvel í persónur á borð við Sollu stirðu, Bjart í Sumarhúsum, Ragnar Reykás eða Snæfríði Íslandssól rétt eins og þetta hefðu verið lifandi persónur.

Þess vegna er "lygin" um jólasveinana tiltölulega saklaus og ástæðulítið að amast við henni.

Þetta minnir mig á að tvær konur hafa sagt mér sömu söguna, hvor af sínu landshorni.

Sjö ára dótturdóttir spurði ömmu sína um, hvort jólasveinninn væri til. Amman réð það af fasi barnsins og tóninum í spurningunnni að vafasamt væri að halda blekkingunni til streitu og svaraði því: "Nei, hann er ekki til." 

"Er Grýla til?" spurði telpan. "Nei, hún er ekki til, barnið mitt" svaraði amman. "Er Leppalúði til?" spurði telpan: "Nei" svaraði amman enn, "hann er ekki til. "En er Ómar Ragnarsson til?"spurði telpan þá og fékk loks jákvætt svar, ömmunni til nokkurs léttis.

Ég hafði lúmskt gaman af að heyra þessar sögur en fannst þó ekki sérlega uppörvandi að vera spyrtur á þennan hátt beint við þau hjúin Grýlu og Leppalúða, - hefði kannski óskað þess að vera í skárri félagsskap.    


mbl.is Heiðarlegur prestur „eyðilagði jólin fyrir börnunum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Bæn einstæðingsins."

Um leið og við tökum upp jólagjafir, hugsum hlýtt til hvers annars og óskum hvert öðru gleðilegra jóla er okkur hollt að hugsa til þeirra sem búa þurfa við einsemd af ýmsu tagi.

Þegar Ólafur Gíslason í Neðrabæ í Selárdal fann nokkur ljóð og pistla Gísla Gíslasonar á Uppsölum eftir lát hans var ekki annað hægt en að komast við að sjá nokkur ljóðanna og hugleiðinganna sem eftir þennan einstæðing lágu, sem hvarf héðan úr heimi án þess að láta nokkurn af þessu vita.

Meða þessa efnis var þessi staka:

Jólin færa frið til manns, - /
fegurð næra hjarta. /
Ljósið kæra lausnarans /
ljómar skæra, bjarta. /

Fullkomin og falleg hringhenda, einföld lýsing í sparibúningi íslenskrar trungu frá hendi fátæklingsins.

Önnur staka úr smiðju Gísla hljóðaði svona:

Ljúfi Drottinn lýstu mér
svo lífsins veg ég finni.
Láttu ætíð ljós frá þér
ljóma í sálu minni.

Einföld bæn, flutt í vetrarmyrkri hins rafmagnslausa bæjar, bæn um andlegt ljós í hinu veraldlega myrkri og einsemd.

Ég komst ekki að því fyrr en eftir gerð þáttar um Gísla að hann var fórnarlamb eineltis. Hann var dálítið sérstakur og alla tíð með sérkennilegan talanda. Þetta einelti og áreiti særði vafalaust viðkvæma og tilfinninganæma sál og smám saman hraktist hann út í horn.

Þegar ég vann að gerð þáttarins "Flökkusál" um útlagana á hálendi Íslands í ársbyrjun 1998 fannst mér ég skulda Gísla á Uppsölum lag við stökur hans. Út frá laginu spann ég fleiri stökur til að setja inn á viðeigandi stöðum í þættinum og gerði lagið að stefi sem gekk í gegnum þáttinn og birtist hér og þar í honum.

Á DVD og CD diskunum "Ómar lands og þjóðar, - kóróna landsins" var þetta spyrt saman undir heitinu "Jól útlaganna" og Halla og Eyvindur koma við sögu.

Brot úr þessum stökum okkar Gísla fóru á flakk eftir þáttinn þegar fólk hripaði þetta niður og þar kom að Gunnar Gunnarsson, organisti í Laugarneskirkju, fléttaði listilega saman það úr þessum texta sem tengdist Gísla á Uppsölum og bjó til söngs.

Svo er komið að þetta lag hefur borist það víða að ég sá að ég yrði að fullklára textann í heillegri mynd.

Nú hef ég lokið því. Upphafið fléttast utan um tvær stökur Gísla og þá von og bæn um birtu og frið í sálinni sem þær fela í sér. Fyrsti hlutinn er í formi hringhendu. Í framhaldinu kynnumst við nánar aðstæðum hans og hugrenningum sem engan lét ósnortinn er þeim kynntist, og í lokin blasir við hinn nöturlegi veruleiki lífs einstæðingsins, - og textinn er aftur kominn yfir í hringhendu.

BÆN EINSTÆÐINGSINS.

Jólin færa frið til manns, - /
fegurð næra hjarta. /
Ljósið kæra lausnarans /
ljómar, skæra, bjarta. /

Frelsun manna fædd nú er. /
Fögnuð sannan boðar mér. /

Ljúfi Drottinn, lýstu mér /
svo lífsins veg ég finni. /
Láttu ætíð ljós frá þér /
ljóma í sálu minni. /

Þegar raunir þjaka mig, - /
þróttur andans dvínar. /
Þegar ég á aðeins þig /
einn með sorgir mínar /

gef mér kærleik, gef mér trú, - /
gef mér skilning hér og nú. /

Ó, minn Guð, mig auman styð, -
ögn í lífsins straumi. /
Kenndu mér að finna frið /
fjarri heimsins glaumi. /

Margur einn með sjálfum sér, - /
sálar fleinn því veldur, - /
eins og steinn sitt ólán ber, - /
ekki neinn þess geldur. /

Nístir kvöl í næmri sál. /
Nætur dvöl er hjartabál. /

Leikinn grátt sinn harmleik heyr. /
Hlær ei dátt með neinum. /
Særður þrátt um síðir deyr. /
Segir fátt af einum. /

Góðar stundir og gleðileg jól !


mbl.is Boðskapurinn breytist ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aukakostnaður og frestun á hneyksli.

Ég við byrja þennan pistil á bestu jóla-og nýjársóskum til þeirra starfsmanna Landsvirkjunar og verktakafyrirtækja, sem ég hef átt góð samskipti við undanfarin ár. Þetta fólk hefur unnið sín störf af skyldurækni og færni, oft við erfiðar aðstæður, við að framfylgja ákvörðunum sem voru á ábyrgð þáverandi ríkisstjórna og alþingismanna.

Það hefur aðstoðað mig við mín verk af vinsemd og mér er ljúft að þakka það.

Þetta breytir þó engu um eðli þess verks sem þessu fólki er gert að vinna þarna. Mér hefur verið kunnugt um þann aukakostnað sem hlýst af því hve jarðlög eru laus í sér við Kárahnjúka og á eftir að kosta gerð 20 metra hárrar aukastíflu neðan við Kárahnjúkastíflu.  

Ég hef ekkert verið að minnast á þetta vegna þess að úr því sem komið er er best að málsaðilar segi frá því sjálfir svo að ekki sé hægt að væna fréttaflytjandann um áróður.

Það breytir því ekki að við kvikmyndagerð mína mun ég í engu slaka á að upplýsa um þau hervirki sem enn sér ekki fyrir endann á eystra. Minni í því sambandi á blogg mitt og grein í Morgunblaðinu fyrr í haust um gersamlega óþarfan gerning, sem nú hefur verið frestað en vofir samt yfir og verða mun okkur öllum til mikillar skammar ef hann verður framkvæmdur.

Þar á ég við það að fylla upp svonefnt Kelduárlón fyrir innan Kelduárstíflu. Engin þörf verður á vatnsmiðlun þar nema að loftslag kólni verulega niður í það sem það var á kuldaskeiðinu milli 1965 og 1995.

Meðan loftslag er álíka hlýtt og nú er raunar engin þörf fyrir Hraunaveitu, sem samanstendur af sjö kílómetra jarðgöngum og fjórum stíflum, og eru tvær þeirra á meðal hinna stærstu á landinu. Kelduárlón á að verða átta ferkílómetrar og þegar hefur verið sökkt fögrum grónum árhólmum Kelduár og skrúfað fyrir einstaklega fallegar fossaraðir.

En lónið í fullri stærð mun sökkva fallega grónu landi við svonefnt Folavatn, þar sem er einstakt lífríki og mikil fegurð.

Mig grunar að sumum af hinum mætu mönnum sem fela á að fremja þetta óþarfa hervirki sé ekki sama.

Ef það kemur kuldaskeið yrði hægt að sökkva þessu öllu ef svo bæri undir. En að gera það fyrr er algerlega ástæðulaust og þjónar ekki nokkrum tilgangi. 

Ég á þá nýjársósk til handa því góða fólki sem ég hef kynnst við þessar framkvæmdir að ákveðið verði á nýju ári að hætta við þetta og afstýra því hneyksli sem það yrði að fara þarna fram á þennan hátt.  


mbl.is Ekkert jólahald á Kárahnjúkum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Við fjörðinn."

Ég nefndi það fyrir 2-3 dögum að ég myndi í tilefni af jólunum setja nokkra texta inn á bloggið. Hér kemur einn, - kannski sérstaklega tileinkaður Gunnari Th. Gunnarssyni, bloggvini mínum.

Kannski líka vegna þess að Einar Bragi Bragason leikur áberandi hlutverk í undirleik ásamt Grétari Örvarssyni við lag sem heitir "Við fjörðinn" og er eitt níu laga á diskinum "Birta - styðjum hvert annað", sem gefinn er út fyrir Mæðrastyrksnefnd og er með land og þjóð, æðruleysi, kjark og samhug sem meginstef.

Ég var staddur á Eskifirði þegar þetta varð til og hugsaði til konu minnar sem er frá Patreksfirði.
Lagið var flutt með tilheyrandi myndum í einum af spurningaþáttunum í keppni kaupstaðanna á Stöð tvö 1989-90.

Helga Möller söng lagið.

VIÐ FJÖRÐINN.

Við fjörðinn þegar fegurst er jörðin. /

Þegar fjólan litar börðin og hafið skín. /

Við sæinn þegar sól vermir bæinn /

get ég setið allan daginn og hugsað til þín. /

Hve blíð voru bernskunnar vor /

og blómin og hið ljóðræna vor. /

Öll þessi fegurð hún ylja mér og gefa mér oft þrek og þor. /

Við fjörðinn þegar fegurst er jörðin, /

þegar fjólan litar börðin ég hugsa til þín. /

Hér enn vil ég eiga mín spor /

og endurlifa bernskunnar vor /

Á ævikvöldi mun það ylja mér og gefa mér oft þrek og þor. /

Við sæinn þegar sól vermir bæinn /

get ég setið allan daginn og hugsað til þín. /


"Nær því..." en af hverju ekki alla leið?

Nýju eftirlaunalögin færa að sögn stuðningsmanna þess kjör æðstu embættismanna "nær" eftirlaunakjörum almennings en gömlu lögin. Rökin fyrir gömlu lögunum voru meðal annars þau að þingmenn og æðstu menn nytu svo lítils atvinnuöryggis.

Nýlega var rýnt í það atriði hjá annarri sjónvarpsstöðinni og kom í ljós að ekki þurftu þingmenn og ráðherrar að hafa áhyggjur af atvinnuleysi.

Meiri hluti þingmanna verður þar að auki í svonefndum "öruggum sætum" við næstu þingkosningar ef kosningalögin verða óbreytt. Þannig hefur það verið árum saman. Til dæmis hafa efstu menn á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík "átt" þau sæti í 79 ár, hvernig sem allt hefur velst.

Hafi verið einhver rök fyrir því að atvinnuöryggi þingmanna og ráðherra væri minna en almennings hefur kreppan feykt því út í veður og vind. Þessu er nú algjörlega öfugt farið.

Þeir sem báru mesta ábyrgð á því að slíkt ástand skapaðist ríghalda nú í forréttindi sem eiga ekki lengur neina stoð í veruleikanum, hafi þau þá einhvern tíma átt það.


mbl.is Eftirlaunafrumvarpið samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Röng fyrirsögn.

Talsmenn stóriðjunnar á Íslandi hafa komist upp með það að láta þá starfsgrein njóta sérstakra fríðinda í umfjöllun um starfsmannafjölda þannig að hann verði þrisvar sinnum hærri en í öðrum starfsgreinum.

Þegar gefnar hafa verið upp tölur um fjölda í atvinnugreinum á Íslandi hingað til hafa starfsmenn hinna mismunandi atvinnugreina einfaldlega verið taldir og síðan dregnar af þeim hlutfallstölur. Þannig hefur fengist rétt hlutföll milli þeirra.

Þannig er það líka gert í öllum öðrum löndum. Til að einfalda málið skulum við gefa okkur að sagt sé að í tilteknu landi starfi til dæmis 10% við landbúnað, 30% prósent við iðnað, 5% við stóriðju, 40% við þjónustu og 25% við ferðaþjónustu eða samtals 100%.

Ef íslenskir stóriðjusinnar sæu þessar tölur myndu þeir hins vegar segja að "afleidd störf" af stóriðjunni væru 10% og fá fyrirsagnir í blöðum um að 20% landsmanna ynnu við stóriðju. Þeir gætu jafnvel bætt um betur og talið með "afleidd störf" í öðrum löndum. Kannski verður það næsta skref.

Nú er það svo að það eru "afleidd störf" af öllum störfum, að vísu mismunandi hátt hlutfall. Ef talsmenn allra atvinnugreinanna færu að reikna á sama hátt og stóriðjusinnarnir og bættu við sama hlutfalli í "afleiddum störfum", - og birtu síðan tölur sínar í fyrirsögnum í blöðum kæmi í ljós í dæminu hér á undan að 30% störfuðu við landbúnað, 90% við iðnað, 120% við þjónustu og 75% við ferðaþjónustu eða alls 315% !.

Engin önnur atvinnugrein en stóriðja hefur komist upp með það hér á landi að skekkja hlutfallslegu myndina á þennan hátt.

Ef talsmenn annarra atvinnugreina færu að nota þessa aðferð myndi koma í ljós að 600 þúsund manns störfuðu samtals við hinar mismunandi atvinnugreinar á Íslandi !


mbl.is Hátt í fimm þúsund störf í orkufrekum iðnaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Met í nafnháttarsýki?

Fyrirgefið, en ég get ekki orða bundist. Ég held að nýtt met hafi verið sett í nafnrorðasýki í veðurfréttum Stöðvar tvö í kvöld. Ég giska á að veðurkonan hafi sagt oftar en tíu sinnum "við erum að sjá að...", "...ég er að gera ráð fyrir að..." o. s.frv..

Í stað þess til dæmis að segja "það fer að hvessa" er sagt "við erum að sjá að það fer að hvessa" eða "ég er að gera ráð fyrir að það fari að rigna" í stað þess að segja einfaldlega " það rignir" eða "það fer að rigna."

Í hvert skipti voru notuð fimm til sjö orðum meira en þurfti og alls hefur veðurfréttatíminn verið lengdur samtals um 20 - 30 sekúndur.

Nafnháttarsýkin blómstrar mest um helgar í ótal íþróttalýsingum þar sem tönnlast er á "þeir eru að spila vel,- eða illa", "hann er að sýna góðan leik..." út í eitt.

Það þykir sennilega fínt að tala á þennan hátt með málflækjum og málleysum í stað þess að tala skýrt og skorinort.
Ég hef áður bloggað um tískuorðtakið "við erum að tala um" sem bætt er framan við það sem hægt er að segja bara beint og blátt áfram.


Að "láta engan ráða yfir sér."

Hellisheiði er orðin fær. Þar með getur maður verið 10 mínútum fljótari milli Suðurlands og Reykjavíkur en ef ekið er um Þrengslin. Það er nú allur tímamunurinn sem vinnst.  

Strax í fréttum ljósvakamiðlanna síðdegis í gær glumdu þær fréttir að Hellisheiði yrði ófær um nóttina.

Það þýðir svipað og þegar ég fór vestur yfir Fjall fyrir nokkrum dögum að stórt rautt ljós kviknaði á áberandi skiltum sitt hvorum megin þegar heiðin varð ófær.

Málið hefði verið einfalt ef þetta hefði til dæmis verið í Noregi. Fólk hefði farið eftir skiltunum og margítrekuðum aðvörunum.

En ekki hér á Íslandi. "Á Íslandi við getum verið kóngar allir hreint /  og látum engan yfir okkur ráða" var sungið hér í den og er sungið enn.

Fólk lagði samt á heiðina í því skyni að græða tíu mínútur og mátt þó vita að veður þar og færð væri eins og vanalega það miklu lakari en í Þrengslunum að útilokað væri að græða neitt á því.

En, nei, það lagði samt á heiðina og lét björgunarsveitarmenn bjarga sér með ærnum kostnaði og fyrirhöfn. Oft er það líka svo að bíla verður að skilja eftir og þeir safna síðan að sér snjó og torvelda svo mokstur að heiðin opnast seinna en ella.

Þetta á eftir að gerast aftur, - og aftur og aftur og aftur. Það virðist þurfa eitthvað miklu meira til þess að fólk láti sér segjast. Til dæmis það að lofa því bara að vera í bílunum þangað til heiðin er opnuð.

En það er ekki hægt því að enginn veit nema einhver farþeginn sé heilsutæpur einstaklingur eða jafnvel ungabarn. Á Íslandi má eiga von á hverju sem er.

Ég horfði á bíl fyrir nokkrum dögum silast niður Kambana á 40 kílómetra hraða með langa halarófu á eftir sér alla leiðina.  Samt var ekki hált. Hættuástand myndaðist í brekkunni vegna þess að aðrir ökumenn reyndu að komast fram fyrir þennan mikla "lestarstjóra."

En þegar ég kom síðar að bílnum við bensínstöð í Hveragerði sá ég að bíllinn var á sléttum sumardekkjum. Samt lagði hann á heiðina eins og hann væri einn í heiminum.  


mbl.is Hellisheiði orðin fær
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ávextir fóstbræðalagsins.

Eitt atriði í fóstbræðralagi Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar voru brjálæðislegar fjárfestingar í sendiráðshöllum erlendis, svo sem í Japan á sama tíma og þetta austræna stórveldi lét sér nægja leiguhúsnæði á annarri hæð í venjulegri skrifstofubyggingu í Reykjavík.

Það stakk í augu mín þegar ég kom til Maputo í Mosambík að íslendingar voru með einhverja stærstu og dýrustu bygginguna fyrir sendiráð sitt á flottasta útsýnisstaðnum í borginni.

Þaðan var frábært útsýni yfir flóann fyrir sunnan borgina en handan hans blasti við landsvæði sem var í raun eins langt frá nútímanum og hugsast gat, - allt með svipuðum blæ sárustu fátæktar og örbirgðar og verið hafði um aldir.

Hrikalegasti ávöxtur þessa fóstbræðralags voru þó Kárahnjúkavirkjun hér heima með Davíð barðist fyrir með kjafti og klóm fyrir fóstbróður sinn sem og einkavinavæðing bankanna með helmingsskiptum stjórnarflokkanna.

Davíð gaf eftir sannfæringu sína fyrir því að bankarnir ættu að vera í dreifðri eign margra smárra hluthafa í anda Eyjólfs Konráðs heitins og samþykkti í staðinn upphafið að lokakafla stjórnmála sjálftöku og spillingar sem þjóðin sýpur nú seyðið af. "Follow the money" er sagt vestra þegar rekja þarf helstu spillingarmálin, - hér heima: "Finndu Finn."

Spjöllin vegna virkjanaæðisins verða aldrei bætt og taka mun mörg ár eða áratugi að hreinsa upp óhroðann, sem sprakk í bankahruninu.


mbl.is Sendaherrabústaðir verði seldir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað um ráðleggingar Persons?

Lán Færeyinga samsvarar því, miðað við höfðatölu, að við hefðum lánað annarri þjóð 50 milljarða króna. Nú er bara að við reynum traustsins verð.

Þá kemur mér í hug ráðleggingar Görans Persons, fyrrum forsætisráðherra Svíþjóðar, um að við ættum að taka strax í upphafi stærsta skellinn í stað þess að fresta honum. En þetta er einmitt það sem við ætlum ekki að gera, heldur verður árið 2010 mun verra en 2009 ef marka má spár.

Nú kann að vera að tillit þurfi að taka til þess að það er ekki eins auðvelt fyrir Íslendinga að flytja úr landi yfir Atlantsála eins og það var fyrir Svía að flytjast yfir landamærin til Danmerkur eða Noregs.

Eftir að samdráttur dundi yfir á hér á landi haustið 1967 fluttu flestir til útlanda árið 1969, árið sem samdrátturinn náði hámarki.

Þá fór að rætast úr á þriðja árinu eftir fallið, en nú er hætt við að dýfan verði dýpri og langvinnari en þá. Þess vegna er stóra spurningin sú hvort við séum að gera rétt með því að fresta erfiðustu ráðstöfunum í stað þess að taka á þeim strax á árinu 2009.


mbl.is Lán til Íslendinga samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband