Met í nafnháttarsýki?

Fyrirgefið, en ég get ekki orða bundist. Ég held að nýtt met hafi verið sett í nafnrorðasýki í veðurfréttum Stöðvar tvö í kvöld. Ég giska á að veðurkonan hafi sagt oftar en tíu sinnum "við erum að sjá að...", "...ég er að gera ráð fyrir að..." o. s.frv..

Í stað þess til dæmis að segja "það fer að hvessa" er sagt "við erum að sjá að það fer að hvessa" eða "ég er að gera ráð fyrir að það fari að rigna" í stað þess að segja einfaldlega " það rignir" eða "það fer að rigna."

Í hvert skipti voru notuð fimm til sjö orðum meira en þurfti og alls hefur veðurfréttatíminn verið lengdur samtals um 20 - 30 sekúndur.

Nafnháttarsýkin blómstrar mest um helgar í ótal íþróttalýsingum þar sem tönnlast er á "þeir eru að spila vel,- eða illa", "hann er að sýna góðan leik..." út í eitt.

Það þykir sennilega fínt að tala á þennan hátt með málflækjum og málleysum í stað þess að tala skýrt og skorinort.
Ég hef áður bloggað um tískuorðtakið "við erum að tala um" sem bætt er framan við það sem hægt er að segja bara beint og blátt áfram.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Við nú erum vindinn að sjá,
í veðurkortum þeim á skjá,
og varnarlega verulega þá,
sem vitlaust spila með FH.

Þorsteinn Briem, 21.12.2008 kl. 20:14

2 identicon

Þetta er mest afleiðing af fækkun kennslustunda í móðurmáli í grunnskólum.  Byrjað er fyrr að kenna erlend tungumál en áður var gert.  Krakkar ná aldrei nógu góðum tökum á sínu eigin máli vegna áreitis frá öðrum tungumálum.

Svo eru þeir sem fengnir eru til að segja og skrifa fréttir margir hverjir ekki full færir í notkun málsins.

Fjölmiðlarnir, aðallega sjónvarp og útvarp, eiga mestan þátt mótun málsins og þarna feta menn rangan veg með slæmum afleiðingum ef ekki verður spornað við.

Verst finnst mér þó að heyra menntamálaráðherrann þjakaðan þessari  nafnháttarsýki.

Þessi þróun er allt annað og miklu verra en þágufallssýkin.

101 (IP-tala skráð) 21.12.2008 kl. 20:37

3 Smámynd: Þórir Kjartansson

Sammála Ómar. Sumir af þessum veðurfræðingum festast svolítið í einhverjum tilteknum  orðum.  Fallega veðurkonan á Sjónvarpinu segir venjulega tíu til tuttugu sinnum ,,hér" í  hverjum og einum veðurfréttatíma.  

Þórir Kjartansson, 21.12.2008 kl. 21:28

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Talmál er nú fyrir sig. Alvarlegt verður þetta fyrst þegar málfar af þessu tagi er komið í ritað mál. Því miður eru samt mörg dæmi um það.

Sæmundur Bjarnason, 21.12.2008 kl. 22:23

5 Smámynd: Karl Tómasson

Heyrðu!!! Ómar, ég er hjartanlega sammála þér.

Bestu kveðjur frá Kalla Tomm úr Mosó.

Karl Tómasson, 21.12.2008 kl. 22:27

6 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Orðið "sko" er alveg dottið úr tísku, líka "altso" og aðrar framlengir sem við sem hugsum ekkert allt of hratt þurfum að nota til að talmálið fari ekki fram úr hugsuninni. En það má líkja þegja í smástund og bíða eftir hugsuninni.

Benedikt Halldórsson, 22.12.2008 kl. 00:50

7 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Er það partur af baráttunni gegn sóun í náttúrunni, að agnúast út í sóun á orðum í töluðu og rituðu máli?

Þetta eru fínar ábendingar hjá þér Ómar. Um daginn gagnrýndirðu notkun orðasambandsins "með þessum hætti", í stað þess að spara orðin og segja t.d. "svona". 

Ég tók þetta til mín og er steinhættur að rita með þessum hætti.

Gunnar Th. Gunnarsson, 22.12.2008 kl. 01:43

8 identicon

Það eru fleiri en veðurfræðingar sem láta staglið og málefnafægðina ráða för og virðist sú nýja markaðssetning sem má heyra í útvörpum landsmanna að ef þú heyrir sama lagið nógu oft munir þú sætta þig við það að lokum.

Mig langar að setja hér inn úrdrátt úr frétt þar sem Vísi.is dags. 21.des.sl.,,Ómögulegt að sjávarútvegurinn lendi í eigu erlendra aðila'' en þar er verið að fjalla um þáttinn Á Sprengisandi sem var á Bylgjunni sama dag. Þar sýnir sig staglið hvernig sagan endurtekur sig. Takið vel eftir:,, Friðrik viðurkenndi að það væri raunveruleg hætta á því að sjávarútvegsfyrirtæki yrðu gjaldþrota. Skuldirnar væru miklar vegna slæms gengis krónunnar.'' -miklar skuldir vegna falls krónunnar er eins rangt og rangt getur orðið því að fiskurinn er seldur úr landi og skapar gjaldeyri fyrir þjóðina. Og ef erlendu lánin hækka vegna verðfalls íslensku krónunnar þá skiftir það ekki máli því að afurðirnar eru seldar og greiddar með erlendum gjaldeyri. Fyrir nokkrum dögum heyrði ég sömu spekina í útvarpi hjá sjávarútvegsráðherra. Því vil ég spyrja: Hversu gott var nú þetta kvótakerfi og hvað varð um ábatann af hagræðingunni marg-frægu? Auðvitað geta fyrirtæki rétt eins og heimili verið skuldsett en blóraböggullinn hjá útgerðum er ekki fall krónunnar en þetta snýst við á íslenskum heimilum. Hér má sjá hvernig áróðurinn vinnur. Hann hrærir saman ólíkum aðstæðum og staðreyndum, heimilin verða að útgerðum og útgerðir verða að heimilum.

Baldvin Nielsen, Reykjanesbæ



B.N. (IP-tala skráð) 22.12.2008 kl. 02:19

9 identicon

Dona dona strákar mínir,anda með nefinu og fá sér lýsi á morgnanna,Jafnvel Nóbelskáldið okkar notaði frjálslega stafsettningu og framsettningu og afhvurju ætti hann að fá þakkir en aðrir skammir fyrir it sama.

Klakinn (IP-tala skráð) 22.12.2008 kl. 10:07

10 Smámynd: Aliber

Stafsetning Nóbelskáldsins hefur stundum verið notuð sem afsökun fyrir lélegri stafsetningu. Málið með hann er hins vegar að þar giltu strangar reglur, þær voru bara ekki alltaf þær sömu og í hinni "hefðbundnu" íslensku.

Aliber, 22.12.2008 kl. 10:58

11 identicon

Gaman engu að síður að leika sér með tungumál okkar,og ég held ef vel er gáð þá sé málýska og talvenja landans í hverju landshorni fyrir sig vel þess virði að hlú að og vernda,gerir málið bara auðugra og hljómríkara og eykur líkur á að menn sem annars teldu sig ekki vera ritfæra eða geta tjáð sig í rituðu máli vegna ósveiganlegara ritreglna eitthverra uppþornaðra proffa sem ekki geta tjáð sig nema með komum og upphrópunarmerkjum,þó svo þeir séu algjörlega bráðnauðsynlegir og ómissandi til að halda utan um málið okkar ylhýra.

Klakinn (IP-tala skráð) 22.12.2008 kl. 14:05

12 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Vel mælt Ómar. Það eru þessi nafnháttarsamtöl sem ég ÞOLI ekki og "hikorðin" (sem sagt, þú veist, þannig...) sem drepa undir lokin máltilfinningu fólks. Líklega veldur það loks málblindu, það er að segja að fólk ræður ekki við málþagnir og áherslur í framburði.

Baldur Gautur Baldursson, 22.12.2008 kl. 17:39

13 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Er ekki hægt að fá örorkubætur út á málblindu?

Gunnar Th. Gunnarsson, 22.12.2008 kl. 17:46

14 identicon

Það þarf nú ekki annað lesa nokkrar bloggfærslur til að sjá að nafnháttarsýkin er komin inn í ritmálið. 

Vil ekki lesa í skáldsögu um næstu jól eða önnur jól setningu eins og þessa:

"Hvar voruð þið að sitja," sagði afgreiðslustúlkan við gestina. 

101 (IP-tala skráð) 22.12.2008 kl. 18:47

15 identicon

Þörf umræða. Það er allt of mikið af óþörfum aukahljóðum í málfari margra. Aukahljóð sem ekki eru af íslenskum uppruna. Til dæmis þetta leiðinlega "upp" sem allt of margir bæta við orðin, dæmi: "Að banka uppá hjá fólki, heilsa uppá það og bjóða því uppá eitthvað og svo fékk ég upphringingu". Ég held að þetta sé danskt orðalag. Mér finnst hljóma miklu betur að segja: Banka hjá fólki, heilsa því og bjóða því eitthvað og svo hringdi síminn. Annað dæmi: "Þeir vilja meina að"..... og "deildar meiningar". Þetta er úr skandinavískum málum, "Delte meninger"= skiptar skoðanir. Hljómar ekki betur að segja: "Þeim finnst" frekar en: Þeir vilja meina? Svo finnst mér að fólk ætti að venja sig af þeim ósið að hafa orðið "hjerna" í flestum setningum. Það er ekki erfitt að bæta hjá sér málið. Það þarf aðeins að hafa áhuga fyrir því.

Svo er til fólk sem bregst ókvæða við þegar óvandað málfar er gagnrýnt. Ég skil ekki svoleiðis fólk.

Húnbogi Valsson (IP-tala skráð) 24.12.2008 kl. 22:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband