27.12.2011 | 23:01
Útsölur með jeppadekk og stigbretti ? Leynilögreglugáta.
Það er vinsælt að lesa sakamálasögur um hátíðarnar. Nú hefur ein lítil og nett leynilögreglusaga bæst við sem allir þeir, sem lesa blogg mitt, geta fylgst með í að ráða gátuna, sem ekki þarf að kaupa eða fá gefins eins og Arnald og Yrsu.
Fyrri hluti sögunnar er á undan þessum pistli, og fjallar um stuld á 20 ára gömlum Toyota 4runner jöklajeppa með tilheyrandi upplýsingum og myndum.
Nú er málið að byrja að skýrast þótt það sé ekki upplýst og hér má meðal annars sjá þá miklu breytingu sem hefur orðið á þessum jeppa á innan við sólarhring.
Vegna ábendinga úr síma og í athugasemdum við pistilinn um stuldinn, kom í ljós að hinn stolni jeppi var á Norðurslóð úti við sjóvarnargarðinn í Örfirisey beint norður af HB Granda og eru myndirnar teknar fyrr í kvöld.
Búið að taka af honum fín nær óslitin 38 tommu jeppadekk á felgum og setja ræfilsleg jepplingadekk undir í staðinn.
Ný kosta dekkin og felgurnar um hálfa milljón, - tjón mitt minnsta kosti ríflega helmingurinn af þeirri upphæð.
Búið að saga af honum jöklajeppastigbrettin báðum megin og stela þeim. Annað var alveg nýtt.
Hvort um sig kostar um 60-70 þúsund krónur ásett.
Búið að taka úr honum útvarpstæki. Samtals tjón: Ekki undir 400 þúsundum.
Búið að taka af honum númerin.
Bílstjórasætið var það framarlega að sá sem sat síðastur undir stýri hefur verið lágvaxinn, varla hærri en 1,65.
Búið að stela af honum því litla bensíni sem á honum var, en eftir að þjófar stálu af honum bensíni á bílasölunni um daginn með því að brjóta upp hlífina yfir bensínlokinu, passaði ég mig á því að hafa eins lítið bensín á honum og unnt var.
Af upplýsingum í athugasemdum við fyrri bloggpistilinn má ráða að bílnum var stolið eftir klukkan átta í gærkvöldi og hefur ekki komið út í Örfirisey fyrr en eftir síðasta él í dag, því að undir bílnum eru för eftir hann sjálfan og annan jeppa sem hefur líkast til dregið hann síðasta spölinn, líkast til á sömu dekkjunum og stolið var undan honum ef marka má förin í snjónum.
Þó er ekki útilokað að bílnum hafi verið ekið í förin á fremri bílnum en það sem bendir til dráttar síðasta spölinn var það, að þótt bíllinn væri opinn og hægt að starta honum, gekk það illa vegna bensínleysis og / eða óhreininda í bensíninu og varð ég frá að hverfa.
Eftir að bíllinn var skilinn þarna eftir kom moksturtæki og ruddi að honum snjó vinstra megin. Stjórnandi tækisins virðist ekki hafa séð neitt athugavert við ástand hins númerslausa og nær hjólalausa bíls við kantinn á Norðurslóðinni.
Nú verður fróðlegt að sjá hvaða ályktanir og hvaða upplýsingar er hægt að kreista út úr þessu.
Nokkrar tillögur:
1. tilgáta:
Ef bíllinn hefur verið dreginn út á Norðurslóð eru vitorðsmennirnir minnsta kosti tveir. Ég á eftir að fara og mæla förin eftir 38 tommu dekk sem eru undir förunum af dekkjaræflunum, en mér sýnist að það séu sömu dekkin og stolið var.
Þjófurinn þurfti að losa sig við stolna bílinn sem fyrst eftir að hann var búinn að hirða það bitastæðasta úr honum. Til þess þurfti að setja undir hann dekkjaræfla og koma honum helst nógu langt í burtu frá aðsetursstað sínum til þess að erfiðara væri að rekja slóðina.
Það bendir til þess að jeppinn, sem dekkin áttu að fara á, hafi verið notaður í dráttinn og hin jepplingadekkin hafi verið áður undir honum. Ground Hawg dekkin eru ekki algeng og varla tilviljun að farið er það sama.
Bílnum hefur verið stolið í myrkri áður en síðasta stóra élið féll og honum ekið inn undir þak, þar sem skipt var í rólegheitum um dekk, stigbrettin söguð af og númerin líka.
Síðan var bíllinn dreginn, að minnsta kosti síðasta spölinn út á Norðurslóð, því að vélin hefur ekki gengið að gagni í lokin.
Stigbrettunum var stolið til að setja á annan jeppa, hugsalega þann sama og dekkin voru sett á.
Spurning: Er þjófurinn að breyta svipuðum jeppa í jöklajeppa? Ef það er Hilux, eru stigbrettin of stutt en þó brúkleg. Samt áberandi stutt. Ef það er tveggja manna Toyota, Willys eða bíll sem er ennþá styttri en 4runnerinn, sem er frekar stuttur á milli hjóla, er hægt að stytta stigbrettin en spurning hvernig gangi að láta þau passa í festingarnar.
Ef hann er að breyta 4runner sem er mun minna keyrður eða yngri en minn (minna en 234 þúsund kílómetrar) passa stigbrettin eins og flís við rass.
Spurning: Eru einhver vitni að því þegar jeppinn var dreginn?
2. tilgáta:
Þjófurinn stundar svona þjófnaði og er í sambandi við aðra, sem geta nýtt sér það að vera í svartamarkaðsverslun með jeppabreytingahluti sem eru yfirleitt talsvert dýrir. Því eldri sem jepparnir eru, því erfiðara er að rekja feril allra hlutanna og erfiðara að sjá út grunsamleg atriði, af því að breytingarnar og jepparnir eru af svo fjölbreyttum toga.
Dekkin fara undir einn jeppa og stigbrettin undir aðra.
Hann stelur bílnúmerum til þess að villa um fyrir lögreglunni og öðrum.
3. Hér á landi er að myndast skipulögð glæpastarfsemi í kringum jöklajeppa sem byggist á því sem sagt er hér að ofan um mikla starfsemi á þessu sviði sem snertir margskonar bíla.
Ýmislegt er sérkennilegt. Til dæmis að vera að hafa fyrir því að stela svona litlu bensíni ef það hefur verið gert. Einnig það að hafa getað ræst bílinn með lykli í stað þess að tengja fram hjá. Nema að bílnum hafi verið ekið langa leið, til dæmis til Hafnarfjarðar eins og ábending hefur komið fram um. Sjá P.S. hér á eftir.
Það er dýrt að breyta jeppum og því talsverðir fjármunir í taflinu. Mér er kunnugt um að útlendingar sem hér hafa verið í nokkur ár, hafi margir orðið hugfangnir af jeppasportinu, og ég hef átt viðskipti við sómamenn af erlendu bergi brotna.
En við vitum líka að rétt eins og hjá okkur Íslendingum sjálfum er þar misjafn sauður í mörgu fé, og kannski hafa einhverjir af þeim, sem hafa hreiðrað um sig í undirheimnum, séð tækifæri í svartamarkaðnum í jeppamennskunni.
Vegna þess að þessi blái breytti 4runner var líkast til eini bíllinn af þessu tagi á landinu með þessum lit og vel útlítandi, þótt ekinn sé 234 þúsund kílómetra á 20 árum, gæti verið meiri möguleikar en ella að einhverjir hafi veitt honum eftirtekt á síðasta ferðalagi hans.
Og ef einhver verður var við nýleg negld grófmynstruð 38 tommu Ground Hawg dekk undir jeppa af svipaðri gerð eða stærð og 4runnerinn er og þar að auki með stigbrettum, þar sem annað er alveg nýtt en hitt með lítils háttar beyglu aftarlega, þá getur það varla verið tilviljun.Að ekki sé nú talað um ef svona dekk og stigbretti eru saman á útsölu þessa dagana í takt við allar útsölurnar.
Ég þakka þeim sem hafa gefið mér þær upplýsingar sem hafa þokað málinu áfram í þessari raunverulegu leynilögregluþraut, sem ekki er seld í bókabúðum.
P. S. Nýjasta í málinu:
Þegar ég fór og sótti Toyotuna í kvöld kom í ljós að hægri afturrúðan var brotin og þannig hafði þjófurinn getað opnað bílinn. Hann gaf sér tíma til að taka þurrkublöðin af honum.
Þurft hefur góða rafknúna vélsög til að saga í sundur sterklega bitana sem héldu stigbrettunum, sjá myndir, þar sem farið eftir sögina er gulleitt að sjá.
Á kílómetramælinum mátti sjá að honum hafði verið ekið 35 kílómetra í leiðangrinum og þess vegna hefur hann líkast til orðið bensínlaus.
Ég setti bensín og ísvara á bílinn og eftir það gekk hann eins og klukka.
![]() |
Útsölurnar hafnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 28.12.2011 kl. 02:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (34)
27.12.2011 | 15:36
Best að stela á jólanótt ? Toyotan horfin !
Eg veit ekki hvernig það er á Akureyri, samanber tengda mbl.frétt, en hér í Reykjavík gætu jólanótt, páskadagur og sunnudagurinn um verslunarmannahelgina verið hentugustu dagarnir fyrir bílþjófa.
Ástæðan er sennilega sú að um jól og páska er mest ró og friður og um verslunarmannahelgina er afar rólegt í Reykjavík enda beinist löggæslan mest að miklum verkefnum utanbæjar.
Ástæðan þess að ég er að spá í þetta núna er að í gær eða fyrradag var stolið skásta bílnum mínum, þeim eina sem eitthvert verðmæti var í, af stæði við bílasölu við Bíldshöfða, bláum Toyota 4runner jöklabíl, árgerð 1992, með númerinu TB 594, sem meðfylgjandi mynd er af þegar ég hef fengið tíma til að setja hana inn á síðuna.
4runnerinn var á 38 tommu dekkjum af Ground Hawg gerð með grófu mynstri, sjá meðfylgjandi mynd þar sem hann stendur hjá minnsta jöklajeppa á Íslandi, sem ég nota helst ef ég get, en dugar hins vegar ekki ef ég þarf að hafa með mér mannskap í jöklaferð.
Líklega er enginn annar bíll af þessari gerð með þessum lit og breyttur fyrir jöklaferðir á landinu, - auðþekkjanlegur bíll.
Líklega hafa það verið dekkin og felgurnar sem hafa freistað þjófanna, því að dekkin voru nær óslitin og negld og kosta ný um 400 þúsund krónur.
Bílinn átti að selja á 690 þúsund krónur.
Ef einhverjir hafa orðið varir við þennan bíl eða dekkin af honum á ferli síðan í fyrradag væri gott að fá upplýsingar um það.
Ég keypti þennan bíl fyrir ári af fenginni reynslu af gosinu á Fimmvörðuhálsi, en þangað hafði ég farið í fréttaferð ásamt fréttamanni og myndatökumanni frá Sjónvarpinu á 39 ára gömlum Range Rover jöklabíl með Nissan Laurel dísilvél, og enda þótt sá gamli sé afar duglegur jöklabíll, er kalt í honum og hávaðasamt og krafturinn í antikvélinni mætti vera meiri.
Toyotuna ætlaði ég að eiga til að geta gripið í hann ef ég þyrfti að fara í jöklaferð með mannskap, sem bjóða mætti upp á betri kjör en í nær fertugum fornbíl.
Toyotan kom í góðar þarfir í sumar þegar við Helga fórum upp á Sauðárflugvöll og Helga dró tvo bilaða jeppa, sem þar voru, til byggða, því að hún var sjálfskipt og því þægilegur dráttarbíll.
Að öðru leyti var þessum bíl ekki ekið neitt nema aðeins liðkaður 2-3 kílómetra á tveggja vikna fresti.
Ég vissi að nú á útmánuðum myndi ég hins vegar þurfa að selja jeppann til þess að geta klárað myndina stóru "Sköpun jarðarinnar og ferðir til mars" og þess vegna var hann bíll til sölu á JR bílasölunni og stóð meira að segja yst úti við Bíldshöfðann til þess að síður væri hægt að stela honum af því hann blasti við öllum sem eiga leið um götuna.
Þessi bílþjófnaður gat varla komið á verri tíma fyrir mig.
Ég veit að verslunarmannahelgin er varasöm fyrir bílaeigendur í Reykjavík því að fyrir nokkrum árum var brotin rúða í bíl mínum til þess að stela honum eða dótinu úr honum þar sem hann stóð upp við útvarpshús, en þjófarnir fældust vegna þess að þarna leggja leigbílstjórar bílum sínum.
Áður hafði verið brotist inn í sama bíl þar sem hann stóð inni í læstum bílakjallara Útvarpshússins og stolið úr honum dýrri myndavél !
P.S. að kvöldi 27. desember.
Nú hefur jeppinn komið í leitirnar og farin af stað framhalds- leynilögreglusaga, sjá næsta blogg.
![]() |
Róleg jól hjá slökkviliðinu á Akureyri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
27.12.2011 | 02:21
Margra ára baráttumál.
Baráttan fyrir stofnun eldfjallagarðs, jarðminjagarðs eða eldfjallaþjóðgarðs á Reykjanesskaga hefur staðið í nokkur ár.
2007 var haldin ráðstefna um þetta suður frá þar sem Ásta Þorleifsdóttir lýsti kynnum sínum af því hvernig þessum málum var háttað á Hawai.
Í Eldfjallaþjóðgarð þar koma þrjár milljónir manna árlega og flestir fara yfir þver meginlönd, hálft Kyrrahafið og síðan á milli eyja til þess að komast á staðinn.
Bendi á að skoða má betur það sem sést á myndinum hérna með því að tvísmella á viðkomandi mynd.
Ég átti þess kost í Silfri Egils að ræða þetta mál til að vekja á því athygli en róðurinn hefur verið þungur vegna einhliða áherslu á að virkja jarðvarmasvæði skagans sundur og saman og ganga hart fram í rányrkju á orkunni sem þarna er.
Nú síðast er ásókn í virkjun í Eldvörpum til að koma álveri í Helguvík af stað og láta menn sig það engu varða að Eldvörp og Svartsengi eru með sama jarðvarmahólfið eða varmageymi, - og virkjun í Eldvörpum mun því aðeins flýta fyrir því að öll orkan í hólfinu verði tæmd.
Eldvörp eru fimm kílómetra löng gígaröð sem á enga hliðstæðu fyrr en komið er austur að Lakagígum.
Segja má að Eldvörp séu vasaútgáfa af Lakagígum, en gígaraðir Íslands eru eitt aðal sérkenni okkar einstæða eldfjallalands.
Flestar þeirra eru þó myndaðar áður en ísöld lauk. Þær, sem mynduðust eftir ísöld eru flestar á svæðinu fyrir suðvestan og norðan Vatnajökul.
Þess vegna er svo dýrmætt að eiga jafn aðgengilega gígaröð ósnortna og Eldvörpin eru í stuttri fjarlægð frá mesta þéttbýlissvæði landsins.
Á meðfylgjandi loftmyndum er horft úr lofti eftir gígaröðinni, fyrst til norðurs yfir norðurhluta þeirra.
Síðan er horft til suðurs yfir suðurhlutann, og sést þar borhola og borplan, sem illu heilli hefur verið gert þar en er þó hátíð miðað við það sem þarna myndi verða ef virkjað yrði með öllum mannvirkjum, sem slíku fylgja, borholum, vegum, gufuleiðslum, húsum og háspennulínum
Læt fylgja með eina mynd inni á milli af slíku af Kröflusvæðinu og neðar tvær myndir frá Krísuvíkursvæðinu, sem líka er sagt frá í fjölmiðlafréttum að nánast sé búið að kveða upp virkjanadóm yfir.
Eldvörpin eru í aðeins nokkurra kílómetra fjarlægð frá helsta alþjóðaflugvelli landsins, og samt ætla menn að eyðileggja þau með virkjun sem er hrein rányrkja og í algeru ósamræmi við gort okkar af "endurnýjanlegum og hreinum orkugjafa" og "sjálfbæra þróun."
Við Eldvörp liggur hin forna gönguleið Árnastígur og skammt frá þeim í Sundvörðuhrauni eru einstæðar rústir, að öllum líkindum felustaður Grindvíkinga þegar Tyrkjaránsmenn gerðu þar strandhögg.
Svæðið býður ósnortið upp á hreint ævintýraland fyrir ferðamenn ef hugsunin er aðeins sú að græða peninga en vel er hægt að búa svo um hnúta að halda raski af þeim í skefjum og nýta sér reynslu t. d. frá Yellowstone.
Í áætlunum um endingu jarðvarmavirkja er reiknað með 50 ára endingu.
Nokkrir jarðfræðingar hafa þó dregið í efa að endingin verð svo löng, og að ætla sér, ofan á það að hraða því að tæma þarna alla orku, svo að hún endist aðeins í örfáa áratugi, að umturna þessu svæði með virkjanamannvirkjum getur ekki flokkast undir annað en sams konar en enn verri græðgi, skammsýni og ósvífni í garð komandi kynslóða og einkenndi margt af því sem skóp Hrunið á sínum tíma.
Menn virðast ekki ætla að læra neitt heldur bara færast í aukana.
Fjölmiðlar gera ekki neitt í því að sýna hvað stendur þarna til, hvorki frá Eldvörpum né öðrum virkjanasvæðum.
Aldrei sýndar brúklegar myndir af þessum svæðum, - raunar aldrei sýndar neinar myndir.
Í Hruninu var peningum eytt, - en með Eldvarpavirkjun á bæði að ræna peningum af börnum okkar og barnabörnum og eyðileggja náttúruverðmæti þar á ofan fyrir öllum kynslóðum sem á eftir okkur koma.
Barátta Sigríðar í Brattholti gegn virkjun Gullfoss stóð í nokkur ár en síðan kom 30 ára hlé.
En í Krísuvík, árið 1949, hóf Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur nútíma náttúruverndarbaráttu og 100 ára afmæli hans verður 4. janúar næstkomandi.
Áform um stórfelllda umturnun Krísuvíkursvæðisins vegna virkjana eru kapituli út af fyrir sig.
Ákvörðun Grindavíkurbæjar um jarðminjagarð er fagnaðarefni og við hæfi að hana ber nokkurn veginn upp á afmæli hins stórmerka jarðfræðings og brautryðjanda.
![]() |
Fagna stofnun jarðminjagarðs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 03:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
27.12.2011 | 01:05
Hver er forsagan ?
Hver er forsaga afstöðu Íslendinga til ríkja Ísraels og Palestínumanna síðustu 65 ár?
Íslendingar skipuðu sér í fararbrodd þeirra þjóða innan Sþ sem stóðu að þeim Salómonsdómi 1948 að skipta Palestínu á milli Gyðinga og annarra, sem áttu heima í landinu.
Samúð þjóða heims var mikil með Gyðingum eftir Helför nasista á hendur þeim og enda þótt Gyðingar hefðu beitt hryðjuverkum þegar þeir þrýstu á um að fá stofnað eigið ríki í Landinu helga, bar Thor Thors sendiherra Íslands hjá Sþ tillögu varðandi stofnun tveggja ríkja sem var samþykkt og Ísraelsríki stofnað 1948.
Má segja að Íslendingar hafi verið í hópi guðfeðra Ísraelsríkis.
Íslendingar hafa alla tíð verið í góðum tengslum við Ísraelsmenn og buðu til dæmis Ben Gurion forsætisráðherra þeirra hingað til lands þegar á sjöunda áratugnum.
Síðar kom Golda Meir líka til Íslands.
Íslendingar voru Ísraelsmönnum velviljaðir í styrjöldunum 1948, 1967 og 1973 þegar allir hinir arabísku nágrannar þeirra sóttu að þeim.
Í sex daga stríðinu 1967 hernámu Ísraelsmenn vesturbakka Jórdanár og hafa viðhaldið því hernámi síðan.
Á þeim 45 árum, sem síðan hafa liðið, hafa Ísraelsmenn stofnað landnemabyggðir í hinu hernumda landi og alls hálf milljón Gyðinga hefur komist þar inn, þvert ofan í alþjóðalög og samþykktir Sameinuðu þjóðanna.
Auk þess er unnið skipulega að því í Jerúsalem að ná eignum Palestínumanna úr höndum þeirra og var aðferðinni lýst býsna vel í þættinum "60 míntur" á sínum tíma.
Ekki er hægt að sjá hvernig það geti flokkast undir Gyðingahatur að gagnrýna þetta framferði Ísraelsmanna, heldur er einfaldlega verið að halda því fram í fullu samræmi við feril málsins frá upphafi, að Ísraelsmenn fari eftir samþykktum Sameinuðu þjóðanna.
Heldur er ekki hægt að flokka það undir Gyðingahatur þótt Íslendingar séu á ný í fararbroddi við það sama verk og þeir unnu að í upphafi fyrir 65 árum að í landinu verði tvö sjálfstæð ríki.
Forsetafrú okkar er Gyðingur en gera verður greinarmun á þjóðerninu og því að vera Gyðingatrúar en í okkar landi ríkir trúfrelsi og hvorki Múslimar né Gyðingartrúarfólk eiga að þurfa að óttast neitt af okkar hálfu.
Að vísu hefur það breyst síðan 1948 að Ísraelsríki verður meira en tvöfalt stærra en það var eftir skiptinguna í upphafi þannig að erfitt er að sjá að Íslendingar hafi með stuðningi við stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínumanna hallað á Ísraelsmenn með afstöðu sinni.
Íslendingar eru friðsöm þjóð. Hvorki Gyðingar né Palestínumenn, sem hér búa, ættu að þurfa að vera í felum eða óttast andúð í okkar landi.
![]() |
Efast um ótta gyðinga hérlendis |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
26.12.2011 | 15:25
Svipað og "Engihjallaóveðrið" hjá okkur ?
Hermt er að vindhraði í Noregi hafi náð allt að 50 metrum á sekúndu eða ríflega 95 hnútum, en til samanburðar má nefna að 6 hnútar (leiðrétting vegna athugasemdar: 64 hnútar) teljast fárviðri.
Þetta minnir á veður sem sumir kalla "Engihjallaveðrið" 1992 þegar vindhraði á Reykjavíkurflugvelli náði 93 hnútum, og bílar fuku eins og leikföng á bílastæðunum við blokk við Engihjalla í Kópavogi.
Þótt fallandi tré séu hættuleg í Noregi hygg ég að skógurinn komi í veg fyrir að mun meira tjón verði vegna skriðufalla.
Ég hef verið á ferð á fjallvegum í Varmalandi í Svíþjóð þegar skip sukku í miklu óveðri á Kattegat og skemmdir urðu víða um Norðurlönd.
Á þessum fjallvegum var þéttur og hár skógur og skafrenningurinn því aðeins brot af því sem verið hefði á sambærilegum íslenskum fjallvegum.
Þegar litið var upp á víð til himins á milli trjánna mátti sjá skýin æða yfir trjátoppana þótt tiltölulega lítill vindur væri niðri við jörð í skjóli skógarina.
Trén binda líka jarðveginn og því verða síður mikil skriðuföll eins og við þekkjum hér á landi.
Skriðan sem lokaði Björgvinjarbrautinni er því óvenjulegt fyrirbæri í Noregi.
Sums staðar duttu sjónvarps- og útvarpssendingar út í Noregi og hjá okkur minnir mig að annað útvarpsmastrið á Vatnsenda hafi fallið niður í óveðri á níunda áratugnum.
Þótt nú sé dimmt hér heima í hryðjunum sleppum við slíkt og getum setið í næði fyrir framan sjónvarp eða hlustað á útvarp, til dæmis á upptöku frá tónleikum Stórsveitar Reykjavíkur og Gáttaþefs í Háskólabíói 27. nóvember á fyrsta sunnudegi í aðventu.
Fyrir atbeina Stórsveitarinnar og þó einkum félaganna Hauks Gröndals var ráðist í það að plata Gáttaþef til að taka upp gamlan þráð og vera með dagskrá líka þeim sem hann var með á jólaskemmtunum fyrir tæpri hálfri öld.
Í Engihjallaveðrinu mátti litlu muna að ég yrði fyrir tjóni þegar flutningabíll, sem skýldi þáverandi TF-FRÚ niðri við Skerjafjörð lyftist hvað eftir annað upp og var alveg við það að velta yfir á flugvélina, sem var af gerðinni Dornier Do 27.
Við börðumst við það, ég og Guðjón Sigurvinsson flugvirki, að koma í veg fyrir það að flutningabíllinn ylti og tókst það, en það stóð afar tæpt.
Í vetur hefur verið efiðara en áður að verja FRÚna óveðursskemmdum af því að hún hefur staðið kyrrsett úti í snjósköflum Selfossflugvallar í átta mánuði og því verið afar tímafrekt og dýrt að fara þangað vel á annan tug ferða til að stunda þar mokstur þegar vélin hefur verið leyst, henni snúið og hún bundin að nýju.
En það vantar ekki að þetta erfiði er góð líkamsrækt og hressandi.
Og einn af gömlu Fiötunum mínum, Fiat 600, (Zastava 750) árgerð 1972 er í góðu yfirlæti í versluninni Tekk Company skreyttur á þann hátt að það er alveg í anda jólanna að láta myndir af honum fljóta hér með og minni á myndir úr árlegum fjölskylduhittingi á aðfangadagskvöld, sem ég var loks að setja inn í næsta blogg á undan þessu.
![]() |
Fótboltahöll hrundi til grunna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 27.12.2011 kl. 00:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
26.12.2011 | 02:02
Hressandi innan sem utan dyra.
Það eru hressandi dagar, utan sem innan dyra, þessa jólahelgi.
Það eitt að fara í matarboð til hjónanna Ölmu, dóttur okkar og Inga R. Ingasonar kostaði hressandi snjómokstur og snjóhreinsun bílsins auk þess sem ég hreinsa reglulega snjó af 39 ára gömlum jöklabíl, sem ég vil helst hafa tiltækan með sem minnstum fyrirvara ef þörf krefur.
Heimili okkar er nokkurs konar skiptistöð fyrir jólagjafir síðdegis á aðfgangadag þannig að margir úr fjölskyldunni koma þá.
Síðar, á aðfangadagskvöld, koma flestir við hjá okkur á ný.
Hér er efst mynd þar sem gægst er inn í stofuna okkar og aðeins lítið brot af gestum sést því að við eigum alls 28 beina afkomendur, auk maka og vina og því jafn hressandi innan dyra sem utan.
Fremst á myndinni er Stella Björg dóttir Óskars Olgeirssonar og Ninnu, tíu ára, en fjær má sjá Ómar Egil Ragnarsson 19 ára og móður hans Kristbjörg Clausen.
Fjöldi fólksins í fjölskyldunni veldur því, að eins og sést á veggnum til hægri. er orðið mjög lítið rými fyrir myndir af fólkinu.
Á næstu mynd eru þær frænkur Birna Marín (13), dóttir Friðriks Garðars Sigurðssonar og Iðunnar og Hekla Sól (12), dóttir Hauks Olavssonar og Láru.
Næst kemur mynd af þremur systrum af fjórum, Iðunn (39), Jónína (49) og Láru (40).
Síðan er mynd af Iðunni Huldu, dóttur Hauks og Láru (17) og vini hennar, Símoni Pétri Kummer.
Þá er mynd af Pétri Holger (17) syni Ragnars og Kristbjargar, og vinkonu hans, Katrínu Halldórsdóttur.
Næst er mynd af Sigurði Kristjáni (16) syni Friðriks og Iðunnar og frænku hans, Helgu Rut (15), dóttur Hauks og Láru.
Þetta verða aðeins nokkrar myndir sem koma inn í rólegheitum í stíl tímarita og blaða, aðeins nokkur tilfallandi andlit af handahófi eins og gengur.
Loks átti að vera mynd af tveimur af fjórum börnum Óskars Olgeirssonar og Ninnu, Auði (25) og Olgeiri (22) og á uppkastinu er hún inni en virðist af einhverjum ókunnum tæknilegum ástæðum ekki komast inn á endanlegu útgáfu síðunnar....
...nei, kom hún ekki loksins inn!
![]() |
Margir teyguðu ferska loftið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.12.2011 | 12:36
Dýrmæt og dásamleg menningarhefð.
Nú, þegar jólahátíðin er gengin í garð, er það ánægjulegt íhugunarefni hvernig íslensk þjóð hefur spilað úr því að lífga upp á þann tíma ársins þegar myrkur og kuldi ríkja hér á landi og veður eru verst og vályndust.
Mestu skiptir hátíðleiki og friður jóladaganna með boðskap kristilegs kærleika en einnig er athyglisvert hvernig þær sjö vikur, sem líða frá upphafi aðventu fram á þrettándann, eru nýttarhér á landi til að kveikja birtu og yl ytra og innra og huga að andlegum verðmætum.
Tæpan mánuð af þessum tíma er dögunum raðað niður á jólasveinana þrettán, fyrst þrettán dagar sem þeir eru að tínast til byggða og síðan aðrir þrettán dagar sem þeir eru að tínast til fjalla á ný.
Inn í þetta koma áramótin með almennustu flugeldasýningu veraldar, álfum, tröllum, álfabrennum og jólatrésskemmtunum í bak og fyrir.
Þótt þessar skemmtanir sé ekki eins margar og stórar og áður var hefur dagskrá fjölmiðlanna gert miklu meira en að bæta það upp.
Það er athyglisvert að enda þótt mér teljist til að um fjórar milljónir manna eigi heima í byggðum Norður-Evrópu sem liggja jafn norðarlega eða norðar en Ísland, hefur hvergi myndast eins fjölbreytt og gjöful menningarhefð um fagnaðarerindi og gleðigjafa vetrarhátíðanna og hér á landi.
Auk Jesúbarnsins og sögunnar hugljúfu af því og boðskap jólanna, hefur myndast fjölskrúðug flóra sagnanna um jólasveinana, Grýlu, Leppalúða, álfana og tröllin sem er óendanlegur brunnur fyrir listamenn, -skáld, myndlistarmenn og tónlistarmenn, tónskáld, textahöfunda, kórana alla og hljómsveitir á borð við Baggalút.
Gleðilega jólahátíð!
![]() |
Kertasníkir í Þjóðminjasafninu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.12.2011 | 13:12
"Ó, svo blítt og grimmt, bjart og dimmt!"
Nú fljúga hlýjar jólakveðjur okkar Helgu til vina og vandamanna út í grimma hríðarbylji þessa aðfangadags, og með þeim fylgja nokkrar vetrarmyndir.
Þær gefa stemninguna, sem lýst er í ljóðlínunum hér fyrir ofan, sem eru úr ljóðinu "Við eigum land" og ég mun bæta við neðst í þennan jólapistil síðar í dag, því að pistilinn skrifa ég smám saman eftir hendinni í stíl við
Myndirnar og textinn koma svona smám saman í samhlómi við heiti dagsins í dag, aðfangadags.
Efsta myndin var tekin i haust.
Þá hafði ég beðið færis áratugum saman til þess að ná þessu sjónarhorni á fjalladrottninguna Herðbreið, þjóðarfjallið, umvafið af öðrum snæviþöktum fjöllum eftir fyrsta snjó haustsins: Kollóttadyngja í forgrunni, Snæfell í bakgrunni.
Kollóttadyngja "teiknar sig" ekki eins og sagt er á tæknimáli nema snjór hafi fallið niður að rótunum dyngjunnar sem er auð og svört.
Eldfjallasvæðið norðan Vatnajökuls er það stærsta, fjölbreyttasta og magnaðasta sem vitað er um á jörðinni og til dæmis makalaust úrval af dyngjum (shields), líklegast í kringum tugur.
Næsta mynd fyrir neðan er líka með Herðubreið sem helsta djásn, en nú í harðri samkeppni við Öskju, sem er í forgrunni.
Þessar myndir voru teknar í flugi á TF-REX, sem er í eigu Jóns Karls Snorrasonar og bjargaði alveg haustinu fyrir mig þegar bærði TF-FRÚ og TF-TAl höfðu misst lofthæfisskíreini sín vegna ársskoðana.
Vél Jóns Karls er frönsk, gömul tveggja sæta smávél af minnstu gerð, gerð úr krossviði og dúk, og eru þessar vélar stundum kallaðir "fljúgandi vindlakassar".
Næsta mynd er tekin af ketilsiginu sem var í Kötlu í fyrrasumar, og er myndin tekin áður en snjór féll yfir öskuna, sem kom úr gosinu í Grímsvötnum og gefur því góða mynd af endalausum átökum elds, ösku og íss, - já, ó, "...með brunagadd og yl..." eins og segir í ljóðinu sem kemur hér fyrir neðan í lok þessa párs.
Kannski mætti segja um vatnið bláa í botni ketilssigsins að það sé í opi, sem nær niður til heljar, en vatnið myndast við bráðnunina á ísnum fyrir ofan heita kvikuna, sem jarðfræðingar sumir hafa giskað á að hafi komið upp þegar Múlakvísl hljóp í sumar.
Læt svo nærmynd af þjóðarfjallinu, fjalladrottningunni Herðubreið enda þennan jólakveðju pistil ásamt
ljóðinu "Við eigum land" sem var samið 1995 áður en ég áttaði mig á því að við eigum í raun ekki landið heldur erum vörslufólk þess fyrir allt mannkynið, höfum það að láni frá afkomendum okkar.
VIÐ EIGUM LAND. (Með sínu lagi:)
Við eigum land á hjara veraldar,
þetta undraland, sem okkur gefið var,
bæði bjart og dimmt,
með brunagadd og yl,
ó, svo blítt og grimmt,
bjart og dimmt!
Í djúpri þögn Drottni þig færa nær
óræð dularmögn, fegurðin kristaltær.
Úti´í auðninni
öðlast þú algleymi
sem einn í alheimi, alheimi,
aleinn í alheimi!
Stomar næða! Strókar drynja!
Foldir skjálfa! Fjöllin stynja!
Brimið öskrar! Bylgjur soga!
Ísinn gnestur! Eldur logar skær!
Svo kemur þögn,
himinninn tær,
húmkyrrðin vær,
blíður blær.
Við erum þjóð á hjara veraldar.
Eigum dýran arf sem okkur gefinn var,
eigum íslenskt mál
og ögurstundum á
eigum við eina sál, eina sál,
þá eigum við eina sál.
Skriður belja! Skúrir fossa!
Lendur drukkna! Leiftur blossa!
Hríðin öskar! Haglið lemur!
Hengjur falla! Hjörtun kremur fár.
Svo kemur logn,
himinninn blár,
blær strýkur brár,
votar brár.
Við eigum land á hjara veraldar,
þetta undraland, sem okkur gefið var,
eigum unaðsmál
og stórum stundum á
eigum við eina sál, eina sál,
þá eigum við eina sál,
eigum unaðsmál
og stórum stundum á
eigum við eina sál, eina sál,
þá eigum við eina sál!
Við eigum land !
![]() |
Snarvitlaust veður í Reykjavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.12.2011 | 23:11
Mótsagnirnar í "sæluríkinu".
Snjómokstur með handafli var enn stundaður í Helsinki höfuðborg Finnlands þegar ég var þar rétt fyrir jól 1966 og var það drjúgt verk, því að þar snjóaði mikið meðan við Haukur Heiðar Ingólfsson vorum þar vegna upptöku við norrænan áramótaþátt.
En síðan eru liðin 45 ár og véltæknin löngu tekin við í þessu starfi.
En í Norður-Kóreu eru æpandi mótsagnir góðs vegakerfis án bílaflota í samræmi við það, og beinar og breiðar malbikaðar brautir mokaðir með höndunum.
Það minnir mig á mótsögn sem upplýstist í ökuferð minni með norrænum bílablaðamönnum frá Ivalo í Finnlandi um Kolaskaga til Murmansk á nýrri gerð Volvobíla.
Rússarnir upplýstu okkur að sjálfsögðu um ýmislegt varðandi bíla og umferð í Sovétríkjunum, meðal annars það að þar væri ökukennsla og fræðsla um bíla námsgrein í lok skyldunámsins og kostaði nemendurna ekki krónu.
Okkur fannst þetta náttúrulega mjög flott hjá þeim þótt það væri í æpandi mótsögn við bílaeign og vegakerfi þessa víðáttumesta lands heims.
Vegirnir voru þá og eru enn lélegir, og árið 1977 var bílaeign á hvern mann aðeins einn tíundi af því sem var þá á Íslandi og þeir fáu sem höfðu efni á því að eiga bíl þurftu að bíða árum saman að eignast slíkan.
![]() |
Snjómokstur í N-Kóreu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
23.12.2011 | 15:56
Ein af sjö merkilegustu eldstöðvum þurrlendis jarðarinnar.
Það værí nú annað hvort að féttin um gosið í Grímsvötnum hefði verið sú mest lesna á þessu ári.
Annað væri í ósamræmi við það hve merkileg þessi eldstöð er og líka það að gosið hafði meiri áhrif erlendis en nokkur annar íslenskur atburður.
Ætla að hafa þennan pistil í lengra og litríkar lagi en venjulega í tilefni jólanna og sendi með honum bestu jólakveðjur frá okkur Helgu.
Meira um þetta hér á eftir en lítum á nokkrar loftmyndir sem teknar voru síðastliðið vor.
Efstu tvær loftmyndirnar verða af því sjálfu.
Sú allra efsta var tekin í hátt í hundrað kílómetra fjarlægð frá gosinu.
Þar sést,að svart öskumistur er þegar byrjað að leggja til suðurs og hefja þá för sem setti allt á kaf í ösku í sveitunum suður og suðvestur af eldstöðinni, auk truflana á flugi í Norður-Evrópu.
Síðan kemur nærmynd af miðju gosmakkarins.
Þar á eftir er afstöðumynd eftir gosið með eystri Skaftárketil í forgrunni, Grímsvötn fjær og Öræfajökul í baksýn.
Þar fyrir neðan koma myndir þar sem horft er yfir gosstöðina þegar gosið er hætt og á þeirri efstu í þeim lista er horft til austurs yfir syðri hluta Grímsvatnalægðarinnar í átt að Grímsfjalli, sem er hægra megin á myndinni.
Engin eldstöð á Íslandi breytir eins mikið og ört landslaginu í kringum sig og Grímsvötn gerir, þegar yfir stendur tímabil, sem tekur nokkra áratugi, og eldstöðin er virkari en ella.
Hún býr til nýjan gíg og nýtt eldvatn í hverju gosi, en síðan sækir íshellan að og kaffærir þetta allt á næstu árum, þangað til nýtt eldgos verður og setur hringekjuna af stað á ný.
Meðan hún er í gangi er nýtt og nýtt landslag að sjá á hverju ári í Grímsvatnalægðinni.
Við sjáum greinilegt dæmi um þetta á myndinni.
Hinum megin við nýja vatnið og nýja gíginn er svæði þar sem svipaður gígur og vatn voru eftir gosið 1998 og þá var landslagið þar svipað og er við gíginn núna, en hins vegar slétt ísbreiða þar sem gígurinn er núna.
2004 gaus örlítið austar en nú og sá gígur var að sökkva í ís þegar þetta mikla gos kom nú og gerbreytti öllu upp á nýtt.
Gosstöðin frá 1998 er nú að mestu grafin í ísinn sem hefur sótt að, samanber ljóðlínurnar um Kverkfjöll, sem eiga líka við Grímsvötn:
"...Ísbreiðan heyr þar sitt eilífa stríð
við eldsmiðju darraðardansins."
Rétt að vekja athygli á hálfhringlaga öskugígnum, sem bræðsluvatnið er byrjað að kaffæra.
Líklega ætti aðeins ein frétt, sem hugsanlega kæmi á næstu dögum, möguleika á að komast hærra, Heklugos, því Hekla er komin á tíma, jafnvel frekar en Katla, sem gýs frekar á sumrin og haustin en um vetur.
Í alþjóðlegri úttekt jarðvísindamanna, þar sem valdar voru tíu merkilegustu eldstöðvar jarðarinnar, voru þrjár neðansjávar en sjö á þurrlendinu
Ein þessara sjö eldstöðva voru Grímsvötn og önnur íslensk eldfjöll komust ekki á listann.
Hekla, Snæfellsjökull, Eyjafjallajökull, Katla Öræfajökull, Askja og aðrar stórmerkilegar íslenskar eldstöðvar áttu ekki möguleika gagnvart Grímsvötnum, né heldur heimsþekkt eldfjöll eins og Fujijama, Vesúvíus og Kilimanjaro.
Ástæðan er hið einstæða og mikilvirka samspil elds og íss í þessari virkustu eldstöð Íslands, sem liggur á öxlinum Bárðarbunga-Grímsvötn en undir þeim öxli er miðja annars stærsta möttulstróks jarðar, þar sem fljótandi hraunkvika stígur frá iðrum jarðarinnar upp undir yfirborðið.
Hinn möttulstrókurinn er undir Hawai-eyjum, en af því að Ísland er margfalt stærra en Hawaieyjar og auk þess með stóra jökla, verður sjónarspilið hér á landi miklu fjölbreyttar og meira.
Á sér reyndar enga hliðstæðu að magni og mikilleika á jörðinni.
Þetta virðast svo margir okkar Íslendinga ekki hafa áhuga á setja inn í hugmyndabanka sinn varðandi stöðu lands okkar og þjóðar.
Nýjasta dæmið er Morgunblaðsgrein þar sem greinarhöfundur kiknar í hnjáliðunum yfir mikilleik Yellowstone sem sé átján sinnum stærra að flatarmáli en Reykjahlíðarland og því ósambærilegt við það.
Þetta er hugarfar þar sem horft er á einstakar landareignir eða mjög afmörkuð svæði í stað þess að horfa á allt svæðið frá Skaftafellsfjöru í suðri til Öxarfjarðar sem eina heild, margfalt stærri og merkilegri en Yellowstone.
Enda komst sá merki þjóðgarður ekki á lista sérfræðinga yfir 100 undur veraldar á sama tíma sem hinn eldvirki hluti Íslands er á þeim lista.
Auk þess fer mikilvægi mestu verðmæta heimsins ekki eingöngu eftir stærð.
Þingvallaþjóðgarður er aðeins um 1% af flatarmáli Yellowstone en engum myndi þó detta í hug að reisa jarðvarmavirkjun við þjónustumiðstöðina af því að þjóðgarðurinn væri svo lítill að það tæki því ekki að viðhalda þar friðun.
Mér dettur í hug nýyrði yfir hugsunina í Morgunblaðsgreininni: Viðkomandi er í Yellowstone-vímu, er "Yellowstoned".
Vísa til fyrri bloggpistla minna um vorferð Jöklarannsóknarfélags Íslands 2009, sem hægt er að ramba á með því að fara inn á rammann "leitarorð" vinstra megin á bloggsíðunni.
Þar má meðal annars finna myndskreyttan pistil frá 26. maí í vor.
Biðst velvirðingar á því að vegna tæknimistaka minna birtist ein myndanna tvisvar á síðunni.
![]() |
Frétt um eldgos sú mest lesna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)