ÁRATUGIR Í ÞVÍ AÐ "KOMA XX ÚT AF MARKAÐNUM."

Í upphafi var Eimskipafélag Íslands kallað "Óskabarn þjóðarinnar." Smám saman olli markaðsráðandi staða fyrirtækisins hinu óhjákvæmilega, að sveigja það í að viðhalda þessari stöðu og helst einokun með öllum ráðum. Ég segi "óhjákvæmilega" því að þetta er bara mannlegt og ef "kerfið" býður upp á það verður það þannig á endanum. Kannski kemst ein stjórn eða stjórnandi hjá þessu en síðan tekur annar við og lætur freistast til að nýta sér aðstöðu sína.

Þessi tilhneiging mannlegs eðlis var aðalástæðan fyrir því að ríkiseinokunin í Sovétríkjunum mistókst, - það var engin samkeppni sem gat veitt aðhald. 

Ég veit um aldarfjórðungs gamalt dæmi þess að Eimskip gerðu það sem hægt var til að ryðja af markaðnum keppinaut í þjónustu eftir að varningurinn var kominn til landsins. Á þessum tíma lét fyrirtækið sér ekki nægja að stunda skipaflutninga heldur setti á fót þjónustu alls óskylda flutningunum og reyndi það sem það gat til að nýta aðstöðu sína sem eini flytjandi varnings til landsins til að klekkja á þeim sem var fyrir með þessa þjónustu. 

Í krafti stærðar og einokunar var hægt að undirbjóða og nota allt það sem þjóðin heyrir nú að hafi verið sett á blað á minnisblöðum.  

Það var aðeins vegna seiglu og baráttuþreks þess sem átti að "koma út af markaðnum" að honum tókst að halda velli. Úrstitum réði þó að Eimskip ofmátu getu sína hvað snerti gæði í þessari þjónustu og smám saman sáu viðskiptavinirnir hvernig í pottinn var búið og sneru viðskiptum sínum hægt og bítandi til hins eldra fyrirtækis.

Mér er mætavel kunnugt um að þessi aðferð Eimskipa olli keppinautnum miklu tjóni.

Óþarfi er að fjölyrða um Hafskipsmálið. Sem betur fer skilst mér að verið sé að athuga það að nýju hvers vegna og hvernig  Hafskipum var hrundið í gjaldþrot án þess að vera gjaldþrota. En auðvitað högnuðust Eimskip á því að helsta keppinautnum "var komið út af markaðnum", hvort sem um beina aðild að aðförinni var að ræða eða ekki.

Athyglisvert var hvernig SÍS var síðar bjargað frá gjaldþroti í verri stöðu en Hafskip en vonandi getur ný rannsókn á þessum málum leitt betur í ljós hið sanna.  

Á þessum tíma var talað um "Kolkrabbann" og veldi hans eða þeirra fjórtán fjölskyldna sem rætt var um að ættu allt á Íslandi.  

Eitthvert stærsta hagsmunamál okkar tíma er að efla samkeppniseftirlit og möguleika á þeirri samkeppni í verslun og þjónustu sem getur komið Íslendingum ofan úr því vafasama hásæti að vera dýrasta land í heimi. 

Með þessum pistli er ég alls ekki að leggja dóm á einstök fyrirtæki, þau er nú starfa, og það þarf ekki að vera sjálfgefið að öflug fyrirtæki nýti sér um of sterka stöðu á markaði, fremur en að allir einvaldar í Evrópu hafi verið slæmir. Sumir heinna "menntuðu einvalda" átjándu aldar reyndu að taka hlutverk sitt hátíðlega, litu á konungdóm sinn sem gjöf frá Guði og sjálfa sig sem þjóna Drottins með umboð frá honum.

Þessi pistill er um Eimskip fortíðarinnar. Nú er vonandi runninn upp betri tíð þar sem framangreind vinnubrögð þekkjast ekki lengur.  

En við erum öll mannleg og höfum lært að forðast fákeppni og einokun vegna þess að of mörg dæmi eru um að það hafi reynst varasamt að koma mönnum og fyrirtækjum í þá aðstöðu.  

 

 

 


EITT Í EINU, - BETRI AKSTUR.

Það hefur verið gantast með það að karlmenn geti bara gert eitt í einu. Nokkurt sannleikskorn er í þessu hvað varðar allt fólk og ekki hægt að neita því að krefjandi símtal eða tilfinningaþrungið samtal bílstjóra dregur úr einbeitingu hans. Mismunandi mikil þörf er á einbeitingu við akstur. Á beinum veginum á Mýrdalssandi er lítið um að vera en eitt helsta vandamál umferðar í borg er það að ökumenn gera ekkert til að liðka til fyrir akstrinum heldur böðlast áfram tillitslaust.

Ég held að það væri til bóta fyrir umferðina að við tökum upp þá reglu að tala ekki í síma nema stöðva bílinn á meðan. Yfirleitt sést á birti símans úr hvaða númeri er hringt og þá hægt að hringja til baka síðar, og einnig er hægt að fletta númerinu upp í símanum eftir að bílnum hefur verið lagt til þess tala í símann.

Sé hringt úr skiptiborði sést oft ekki númer á birtinum eða þá að svo margir eru tengdir við skiptiborðið að ómögulegt er að finna út eftir á hver hafi hringt. Þá er hugsanlegt að svara stutt í símann og biðja viðkomandi að hringja aftur eftir ákveðinn tíma þegar betur stendur á.

Gott væri ef stór fyrirtæki með skiptiborð gætu útbúið það þannig að númer starfsmannsins sæist ávallt þegar hann hringir út. Þannig er það til dæmis á Fréttablaðinu.

Af framansögðu má ráða að það er vel hægt að útrýma símtölum bílstjóra í akstri ef vilji er fyrir hendi. Það þarf engar kannanir til þess að komast að því að akstur og símtöl fara ekki saman, - aksturinn er meira krefjandi en svo og öryggið á að vera fyrir öllu.

Hve oft sjáum við ekki ökumenn sem gefa ekki stefnuljós og haga sér undarlega í umferðinni vegna þess að þeir eru uppteknir við að tala í símann? Lítum nú hvert í eigin barm og gerum bragarbót. Ég sé ekki annað en að hægt sé að nýta sér þessa samskiptatækni með ofangreindum ráðum og viðhalda jafnframt eins öruggum og góðum og tillitssömum akstri og unnt er, - án símtala.


mbl.is Handfrjálsir farsímar hættulegir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

BYLTING HRAÐLESTANNA EKKI HÉR.

Eitt af því sem hægt verður að nota í Evrópu til að minnka útblástur frá samgöngutækjum eru hraðlestir og byltingarkennd tæknibylting á því sviði sem unnið hefur verið að. Í þessum efnum eru Evrópubúar á undan Bandaríkjamönnum en það tekur samt tíma að hrinda stórhuga áætlunum í framkvæmd sem byggjast á samvinnu allra þjóðanna í álfunni og samræmingu, svo sem í sporabreidd. Þjóðirnar á jöðrum Evrópusamfélagsins eiga hins vegar erfiðara með að nýta sér þetta en þær sem nær eru miðjunni.

Samt má halda halda því fram að tæknilega sé hægt að koma á hraðlestarsamgöngum út í öll horn Evrópu, - nema til Íslands.

Það er meira að segja tiltölulega stutt að sigla milli Írlands og Englands en annað er uppi á teningnum varðandi Ísland. Við erum algerlega háð fluginu nema við viljum hverfa aftur til þess tíma þegar það var kallað að "fara í siglingu" þegar Íslendingar fóru til Evrópu.

Þess vegna þurfa Íslendingar ekkert að vera feimnir við að fara fram á að tekið verði tillit til sérstöðu okkar í þessum efnum, þótt það kosti að við setjum meira út í loftið fyrir bragðið. Einnig verður að líta til þess að flugumferð til og frá landinu er svo örlítið brot af heldarflugumferðinni að það tekur því varla að nefna það.


mbl.is Tekið verði tillit til landfræðilegrar sérstöðu Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

SÆLDARLÍF EÐA EKKI ?

Það er ekkert nýtt að jólasveinar geti lent í kröppum dansi á jólaböllum. Þetta fékk ég óþyrmilega að reyna hér á árum áður þegar mikið fjölmenni var á stærsu böllunum svo að stundum stappaði nærri því að börn træðust undir. Ég hafði það fyrir reglu, að enda þótt við stæðum báðir, Gáttaþefur og Ketkrókur uppi á sviði mestallan tímann og færum þar með nýjan söngleik á hverju ári, fór Gáttaþefur alltaf tvisvar niður á gólfið til að heilsa öllum börnunum og ganga með þeim í tveimur lagasyrpum í kringum jólatréð.

Þá kom stundum fyrir að sveinki barst með straumnum upp að fögrum konum og var þar fastur í þvögunni í óþægilegri nálægð við þær. Fer nú reyndar eftir hugarfarinu hverju sinni hvort viðkomandi þykir nálægð af þessu tagi þægileg eða óþægileg.

Mér er einkum minnisstætt gríðarlega fjölmennt jólaball í Súlnasal Hótels Sögu þar sem minnstu munaði að börn træðust undir þvögunni sem myndaðist í kringum mig við jólatréð. Þar var Gáttaþefur fastur eins og í dýi í nokkra stund klemmdur fast upp við konu, sem hafði á sínum tíma verið kjörin fegurðardrottning Íslands og hafði orðið enn fegurri og föngulegri með aldrinum.

Þetta var um tíma pínlegt ástand, svo að notað sé tvírætt orðalag, en rættist þó úr því og enginn tróðst undir þótt sum börnin væru nálægt því og mörg þeirra farin að gráta.

Ég get borið um það að það var oft ekkert sældarlíf að standa í þessu, einkum þegar börnin hengju í skegginu eða klipu mann fast þar sem á var hangið.

En yfirleitt var þetta tóm ánægja þótt starfið væri erfitt og aldrei urðum við sveinarnir fyrir áreitni á borð við þá sem greint er frá að hafi átt sér stað í Bandaríkjunum. En það er jú allt mögulegt þar í landi.

Hér á landi benda nú nöfn jólasveinanna frekar til þess að þeir ættu að vera ágengir frekar en mæðurnar á jölaböllunum. Þarf ekki annað en að nefna Faldafeyki, Giljagaur, Gáttaþef og Stekkjastaur í því sambandi, jafnvel Kjötkrók ef menn skilja orðið lambakjöt með þröngri skýringu. Jafnvel mætti hafa Stúf grunaðan ef það er haft í huga að stærðin skipti ekki öllu máli.  

 


mbl.is Káfaði á jólasveininum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

VIÐ HVERJA ÆTLA MENN AÐ KEPPA?

Merkilegt er hvað við Íslendingar gerum lítið í því að læra af mistökum annarra þjóða. Dæmi um það er tilhneigingin til að gera gamla miðbæinn í Reykjavík að eftirmynd af miðborg Stokkhólms og ótal fleiri borga þar sem menn dauðsjá eftir því að hafa gengið allt of langt í því rífa hin gömlu, vinalegu hús, og reisa gler- og steinsteypuhallir í staðinn. Ef menn ætla að keppa við krossgötur og þungamiðju höfuðborgarsvæðisins sem er á svæðinu Elliðavogur-Árthúnshöfði-Mjódd-Smárinn á þann hátt að ná til sín fólki á sömu forsendum, þá er það tapað stríð. Krossgötur og þungamiðja byggðar hafa ævinlega forskot. 

Ísland er vindasamasta land Evrópu með kaldasta sumarið og hinar yfirbyggðu verslunarmiðstöðvar njóta þess. Ætla menn að keppa við Smáralind og Kringlu með því að gera miðbæinn sem líkastan þeim en þó ekki undir einu heildarþaki? Eða stefna menn enn hærra og vilja keppa við Oxford Street eða Fimmtu tröð? 

Um alla Evrópu harma menn að hafa gert miðborgir að samansafni kuldalegra stein- og glerkastala. Prag er hins vegar auglýst sem minnst breytta höfuðborgin í mið-og norðanverðri Evrópu og nýtur góðs af því, - hefur þótt vera með einstaklega heillegan svip af því að hinu gamla var ekki rutt skefjalaust í burtu.

Síðustu misseri hef ég uppgötvað Laugaveginn sem ágætis hraðgöngu og skokkleið í rigningu og sudda, vegna þess að í suðlægum áttum er skjól meðfram húsunum við norðanverða götuna. Þegar ég fer upp Laugaveginn hef ég orðið var við hvað götunni hefur þegar verið breytt mikið, - svo mikið að maður þekkir götuna varla lengur og er ekki viss um hvað maður er kominn langt.

Þetta hef ég til merkis um hvað er að gerast og að ef þessu verður haldið svona áfram mun gatan missa sinn gamla, vinalega og sjarmerandi svip, sem er einmitt það sem er og hefur verið aðalsmerki hennar og eina leiðin til að laða þangað fólk sem vill vera í manneskjulegu umhverfi.

"Það á ekki að vera að halda í þessi kofaskrifli og ónýta hjalla" er sagt. Jú, þetta var líka sagt þegar litlu munaði að Bernhöftstorfan yrði rifin og þar með eyðilögð húsalínan frá Íþöku norður að Stjórnarráðshúsinu.

Það er þegar búið að raska mörgum húsalínum og það sem til stendur að rífa er ekkert ónýtara en Bernhöftstorfan var. Við erum ekki að tala um nokkra fúahjalla, það er verið að tala um hundrað hús.

Það er alveg hugsanlegt að taka hluta af þessu miðborgarsvæði og reisa þar verslunarmiðstöð sem reynir að keppa við Kringluna og Smáralind. En með því að rústa heildarsvip svæðisins með skefjalausu niðurrifi er tekið af því það eina sem veitir því einu sérstöðuna sem það getur haft: Hlýleg, aðlaðandi og manneskjuleg byggð sem dregur að sér ferðafólk og borgarbúa vegna þess að hún á engan keppinaut. 

Að lokum eitt einfalt atriði. Sólin er lægra á lofti á sumrin í Reykjavík en nokkurri annarri höfuðborg í heimi. Því hærri sem húsin eru, því verr gengur geislunum að komast ofan í götuna og ylja upp mannlífið í landi kaldasta sumars Evrópu. 


mbl.is Rætt um niðurrif í miðborginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

SKILJANLEGUR MUNUR.

Það er skiljanlegur munur á því hvað dýrarar er að búa á Íslandi en í öðrum af ríkustu löndum heims. Ef til dæmis er miðað við Danmörku er Ísland miklu dreifbýlla land en Danmörk og þar að auki afskekktasta landið í Evrópu. Þess vegna er meiri kostnaður við aðföng og einnig vegur þungt að hærra verð er hér á matvöru en annars staðar enda skilyrði til landbúnaðar verri hér.

En sé kaupgjald lægra hér en í þeim löndum sem næst okkur koma, verður munurinn meiri hvað kaupmátt snertir heldur en nemur muninum á því sem það dýrara að búa hér á klakanum.

Í Eþíópíu er sexfalt ódýrara að lifa en á Íslandi en hins vegar eru meðaltekur á mann tvöhundruð sinnum minni.  

Einhverir kunna að segja að hægt væri að minnka þennan kostnað á Íslandi með því að færa alla byggð í landinu til suðvesturhornsins og spara kostnað við vegi og landbúnað. Varnarlínan við að halda byggð í landinu sé í Leifsstöð. 

Mér hugnast ekki sú framtíðarsýn að landsbyggðin breytist í sumarbústaðalönd og að við verðum algerlega háðir landbúnaði annarra þjóða. Í Noregi er í sumum byggðum skylt að búa allt árið á sveitabæjum, halda þeim í byggð og hafa þar skepnuhald. Þetta kostar fé og Noregur er meðal efstu landanna á listanum yfir dýrustu löndin.

Þetta gera Norðmenn ekki vegna bændanna eða landbúnaðarins heldur vegna þeirrar sjálfsmyndar sem þeir telja sig þurfa að hafa sem menningarþjóð með fjölbreytta menningu og þeirra myndar sem þeir vilja gefa erlendum ferðamönnum af landi sunnudags selstúlkunnar, tónlist Griegs og umhverfisins og menningarinnar sem bókmenntir Björnssons, Strindbergs og Hamsuns fengu næringu sína frá.

Norðmenn telja það akk fyrir ferðaþjónustuna að kollvarpa ekki menningarlandslaginu og því hvernig þjóðin byggir landið.

Að sjálfsögðu eru takmörk fyrir því hve langt skuli ganga við að viðhalda allri byggð óbreyttri og óbreytanlegri. En söfnun lands á fáar hendur getur orðið meiri en æskilegt er. Hér á landi eiga sér nú stað miklar og hraðar eignatilfærslur í dreifbýli sem vert er að fylgjast náið með. Annars kann svo að fara að við stefnum til baka til þessa tíma þegar 90 prósent bænda voru leiguliðar.


mbl.is Dýrast að búa á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ÞAÐ Á AÐ GEFA BÖRNUM BRAUÐ...

"...kertaljós og klæðin rauð / svo komist þau úr bólunum." Þetta voru nú kröfur hins gamla tíma um jólin. Klæðin voru rauð rímsins vegna en að öðru leyti snerist þetta um að börnin hefðu eitthvað í að vera, annars komust þau ekki úr bólunum. Eftirminnilegasta jólagjöf bernsku minnar var Volkswagen-plastbíll, sjálftrekktur. Á ferð um Eþíópíu þar sem ekið var fram hjá hræjum af dýrum, sem höfðu hrunið niður í þurrkum og fólk dó líka úr þorsta, var ekkert þorp svo frumstætt að ekki væri hægt að kaupa þar Coca-Cola á minnstu flöskunum, jafnvel á slóðum þar sem vestrænir menn voru ekki á ferð vegna hættu á árásum frá ræningjaflokkum frá Sómalíu. (Þetta var nálægt landamærunum) 

Þá spurði maður svipaðrar spurningar og Maria Antoinette var sögð hafa spurt þegar henni var sagt frá hungursneyð þegna hennar vegna skorts á brauði: "Af hverju borðar fólkið þá bara ekki kökur og tertur?"

Mín spurning var: "Ef fólkið er að deyja úr þorsta, af hverju drekkur það ekki Coca-Cola?" Svarið var: Fólkið á enga peninga og meðaltekjur hvers íbúa Eþíópíu eru 0,5% af meðaltekjum Íslendings. Eþíópíubúi með meðaltekjur yrði viku að vinna fyrir kókflösku af minnstu gerð.

Ætla að enda þennan pistil með text við lag sem ég gerði fyrir nokkrum dögum og heitir: "Manstu gömlu jólin."

            MANSTU GÖMLU JÓLIN ?

Manstu gömlu jólin, hvíta, mjúkan snjó?

Manstu, hvað við vorum glöð og áttum alltaf nóg? 

Það var oft svo einfalt sem gladdi okkar geð

er gjafirnar við tókum upp við litla jólatréð.

 

Þá áttum við stundir sem aldrei gleymi ég

og ævinlega lýsa mér um lífsins grýtta veg.

Það er ekki´allt fengið keypt dýrum dómum hér,

því dýrmætara er að kunna að gefa af sjálfum sér.

 

Ég bið að gömlu jólin birtist mér á ný

og besta jólagjöfin verði´að falla faðm þinn í.  


mbl.is Börn fá Range Rover í jólagjöf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

SOKKAMÁL SEM ÉG SKIL VEL.

Sokkar nemenda eru ekki nýtt mál né sér bandarískt. Þegar ég var unglingur í gaggó og Menntaskóla kom það fyrir að ég kom í skólann á lopasokkum og strigaskóm. Ég man vel hve mörgum þótti þetta óviðeigandi og ekki sæmandi í svo virðulegrum skólastofnunum. Ekki kom þó ti beinna aðgerða af hálfu skólayfirvalda. Þegar ég var síðar orðiðnn fréttamaður hjá Sjónvarpinu kom ég til vinnu á ljósleitum íþróttaskóm og þótti fréttastjóranum það afleitt, einkum ef ég þyrfti að hitta háttsetta embættismenn.

Hvorugur okkar vildi gefa eftir í þessu máli en mér tókst að leysa það með því að finna í utanlandsferð svarta íþróttaskó og hef gengið í slíkum skóm í bráðum 40 ár. 

Tuttugu árum síðar hafði dæmið snúist við og menn voru farnir að ganga á ljósleitum og hvítum íþróttaskóm í stórum stíl, jafnvel menn sem aldrei hreyfðu sig svo heitið gæti. Þetta var orðið "in."

Þá var svo komið að ég skar mig úr að nýju, því að nú var ég sá eini sem var á "dulbúnum", svörtum íþrótttaskóm. Ég hef haldið fast við minn keip og geng í þeim jafnan enn hvar sem er, jafnt á sviði þegar ég kem fram á virðulegum samkomum, sem í gönguferðum um hálendið. 

Er þetta talin sérviska í mér en ég fer nú varla að breyta neinu úr þessu.  

 


mbl.is Dýrkeypt lögsókn vegna sokkabanns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ÞEGAR "SÍLDIN LAGÐIST FRÁ."

Þegar ég gerði Heimsóknar-þátt á Raufarhöfn ca 1973 töluðu heimamenn um það þegar "síldin lagðist frá" þegar rætt var um endalok síldarævintýrisins þar. Það var greinilega óhugsandi í huga þessara viðmælenda minna að Norðmenn og Íslendingar hefðu í sameiningu nær eytt síldarstofninum.

Ekki mörgum árum síðar elti loðnuveiðiflotinn göngu sem var á leið vestur með Suðurströndinni og Hafró bannaði áframhald veiða. Loðnuskipstjórar mótmæltu harðlega og töldu að gífurlegt magn væri enn af loðnunni. Síðar kom í ljós að litlu munaði að stofninum hefði verið stútað.

Þegar ég fór um landið á níunda áratugnum sögðu bændur einum rómi við mig þar sem ég skoðaði jarðvegseyðingu að svona hefði þetta alltaf verið og að ég vissi ekki hvað ég væri að tala um. Í lokin hitti ég bændur við Kaldárrétt sem sögðu þetta sama. Þá loksins gat ég svarað því til að þetta vissi ég jafn vel og þeir vegna þess að þarna var ég í sumardvöl þrjú sumur fyrir 40 árum. Þetta hefði ekk verið svona þá.

Fyrir nokkrum árum var ég á fundi úti á landi þar sem einn fundarmanna stóð upp, benti á mig, illur á svip og sagði: "Helvitíð þitt! Ef þú hefðir verið á ferð í afréttinum mínum fyrir tíu árum og ég hefði verið með byssu og rekist á þig, hefði ég alveg verið í standi til að skjóta þig á færi, svo mjög varst þú búinn að níða og sverta mig og aðra bændur þessa lands með lyginni um ofbeitina og jarðvegseyðinguna."

Hann þagnaði nokkur augnablik og ég hugsaði með mér: Svona særði ég þessa góðu menn með því einu að segja það sem ég vissi sannast og verð að búa við árásir þeirra til æviloka.

Þá hélt bóndinn áfram og sagði: "Síðan þetta gerðist eru liðin allmörg ár og ég hef hatað þig fyrir það að hafa átt þátt í því að afrétturinn var friðaður. Í fyrra kom ég þangað loksins aftur eftir margra ára hlé og sá þetta svæði a ný. Ef ég hefði verið með spegil meðferðis hefði ég litið í hann og sagt við sjálfan mig: Hvernig gat ég verið svona blindur?"


mbl.is Þorskstofninum útrýmt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ÁLFTADALSDYNGJA SKELFUR.

Undanfarnar vikur hefur skjálftavirknin, sem færst hefur í aukana fyrir austan Kreppu, verið með þungamiðju í svonefndri Álftadalsdyngju, og þannig færst sig austur fyrir bæði Jökulsá á Fjöllum og Kreppu. Færslan hefur verið nánar tilekið í norðausturátt og það er því tímaskekkja að tala um Upptyppinga lengur þótt skjálftarnir hafi í byrjun haldið sig rétt fyrir sunnan þá. Rætt hefur verið um líkur á dyngjugosi og kannski stefnir í það að Álftadalsdyngja fái andlitslyftingu.

Renni hraun úr nýjum gosstað í Álftadalsdyngju skiptir talsverðu máli í hvaða átt það fer. Renni það í norður mun það loka núverandi vegarslóða frá Möðrudal upp í Kverkfjöll en renna út á sandauðnir norðan dyngjunnar. Meira rask myndi verða af hraunrennsli til vesturs því að þá færi hraunið í Kreppu og jafnvel líka Jökulsá á Fjöllum og gæti stíflað þær báðar.

Verst væri ef hraunið rynni þvert yfir hið mjóa skarð milli Upptyppinga og Álftadalsdyngju því að þá myndi vatn geta kaffært hinn undurfagra Fagradal.

Annars er erfitt að spá í svona efnum. Í Kröflueldum hljóp skjálftavirknin bæði suður og norður og engin leið var að vita hvar hraun kom upp, ef það kom upp á annað borð.

Núna, klukkan 8:32 hefur verið hlé á skjálftum síðan laust eftir miðnætti í nótt.


mbl.is Helmingslíkur á gosi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband