21.12.2009 | 12:48
Sjarmatröll.
Jólasveinninn Santa Claus, sem er á ferli í Bandaríkjunum fyrir jólin og heillar alla með töfrum sínum, mætti kalla sjarmatröll.
Þetta orð kom mér í hug í gærkvöldi þegar ég sá viðtal við Barack Obama í 60 mínútum í gærkvöldi.
Obama var þar að verja illverjanlega stefnu sína í Afganistan og svara fyrir óvænta "innrás" boðflenna í Hvíta húsið, en persónutöfrar forsetans og það hvernig hann notar mismunandi aðferðir við að svara spurningum gerðu viðtalið áhugavert.
Með bros á vör skýrði hann frá því að hann gæti orðið reiður og verið fastur fyrir. Þótt hann segði það ekki beinum orðum mátti skilja Afganistanstefnu hans þannig að fram til ársins 2011 yrði gerð úrslitatilraun til að ná yfirhöndinni þar.
Haustið 2010 ætti að liggja fyrir hvað ætti að gera í framhaldinu. Hættan við þetta er sú að því fleiri hermenn sem Kanar hafa þarna, því erfiðara verður að snúa til baka.
Á Kaupmannahafnarráðstefnunni rataði hann á rétta skilgreiningu á henni þegar hann sagði í ávarpi sínu þar að hann væri kominn þangað til aðgerða en ekki til að skrafa. Honum varð ekki að ósk sinni því líta verður á ályktun ráðstefnunnar sem orð án skuldbindinga.
En orð eru auðvitað til alls fyrst.
Obama og Bill Clinton fyrrverandi forseti hafa eiginleika sjarmatröllanna. Hann fleytti báðum upp í efsta sæti valdastigans í öflugasta ríki heims en dugar skammt einn og sér. Verkin og árangurinn verða líka að tala.
![]() |
Obama sér um Sveinka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.12.2009 | 19:34
Mesta og oft leyndasta orkan.
Ég hef upplifað nokkur atvik í lífi mínu sem gefa til kynna að til sé orkuldind sem erfitt er að sanna vísindalega, en það er afl hugans.
Þessi atvik hafa verið þess eðlis að ekki er hægt að afgreiða þau sem hreinar tilviljanir.
Fólk er misnæmt fyrir þessum krafti, sumir mun næmari en aðrir.
Merkileg tilraun sem gerð var um og eftir síðustu aldamót þar sem reynt var að mæla þetta með mælitækjum sem var dreift um allan heim sýndi að í eitt skipti breyttust óregluleg viðbrögð mæla í samsvarandi viðbrögð.
Það var 11. september 2001 þegar hundruð milljóna manna urðu vitni að því í beinni útsending að hryðjuverkaárásinni í New Yorki og það olli mestu sameiginlegri geðshræringu á sama tíma sem veraldarsagan kann frá að greina.
Tilraunin sannar raunar ekki neitt á óyggjandi hátt en ég hef það mikla trú á mætti hugans að ég held að það muni vera þess virði að fara í Kaplakrika á eftir til samveru með því fólki sem vill senda vini sínum andlega hjálp í baráttu hans fyrir lífi sínu og dýpka anda sinn um leið.
Við vitum að ýmis mælanleg fyrirbrigði hafa sín takmörk. Ljósið kemst til dæmis ekki hraðar en 300 þúsund kílómetra á sekúndu.
Hugurinn, andinn, þekkir hins vegar engin hraðatakmörk og getur nýtt sér fleiri víddir en þær sem mælanlegar eru.
Hann er orkulind, sú mesta sem til er.
![]() |
FH-ingar senda Hrafnkatli styrk í Kaplakrika í kvöld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
19.12.2009 | 22:14
Stormur í vínglasi.
Í þættinum Vikulokunum í morgun innti þáttarstjórnandinn mig eftir skoðun minni á frétt Kastljóss í gær um það að í annað sinn á þessu ári hefði þingmaður verið staðinn að því að greiða atkvæði ölvaður.
Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef, hafði Ögmundur Jónasson fengið sér hvítvín með máltíð áður en kallað var með litlum fyrirvara til atkvæðagreiðslu.
Vitni segja að ekki hafi sést á honum að hann væri ölvaður.
Ljóst sýnist mér að að í þeirri atkvæðagreiðslu myndi hann byggja á þeirri niðurstöðu sem hann áður hafði komist að í viðkomandi máli allsgáður og að vel athuguðu máli.
Þegar hann var beðinn um að koma í krefjandi og óundirbúið sjónvarpsviðtal færðist Ögmundur undan því og sagðist ekki vilja gera það eftir að hafa drukkið vín með matnum.
Í þessu svari sé ég koma fram heiðarleika og vandvirkni Ögmundar. Hann var ekkert að fela þetta, en feluleikurinn í kringum áfengisdrykkjuna hefur verið landlægur hér á landi og flestir aðrir en Ögmundur hefðu ekki fært fram neina ástæðu eða þá gripið til einhverrar annarrar útskýringar.
Ég sagði í svari mínu í þættinum að ég hefði lengið átalið það hvernig sífellt væri verið í feluleik og yfirhylmingu hér á landi varðandi áfengismál og við Njörður P. Njarðvík vorum í þættinum ekkert að skafa af því hve gríðarmikið það tjón væri sem þessi hluti fíkniefnavandans ylli.
Gott dæmi um það hvernig færst væri undan að horfast í augu við þennan vanda hvernig Íslendingar kæmust að orði þegar sagt væri "æ, greyið hann var fullur," - "hann datt í það" svona svipað eins og þegar menn hrasa á göngu.
Nánast alltaf er sagt: "Hann lenti á fyllerií", svona eins og að hann hefði á engan hátt borið ábyrgð á því sjálfur.
Ég sagði einnig að í samræmi við þetta teldi ég ekkert athugavert við það að fjallað væri um svona mál í fjölmiðlum en að í þessu tilviki hefði málið verið "stormur í vínglasi."
Þrjú önnur atvik en þetta koma upp í hugann þegar rætt er um þessi mál, mál Sigmundar Ernis Rúnarssonar í sumar, "Bermúdaskál" Davíðs Oddssonar hér um árið og órói sem ummæli Jóns Baldvins Hannibalssonar ollu á fundi Evrópuríkja í Írlandi þegar hann var utanríkisráðherra.
Sigmundur Ernir baðst afsökunar á ölvun sinni.
Þegar Davíð Oddsson tók á móti briddsmeisturum í Leifsstöð sýnist mér ekki hægt að flokka það sem beint embættisverk heldur var hann sem mikill briddsáhugamaður að leggja sitt af mörkum til að heiðra hina nýkrýndu meistara.
Málið var auðvitað leiðinlegt fyrir hann sem forsætisráðherra en þetta getur að mínum dómi ekki flokkast beint undir embættisafglöp.
Tilfelli Jóns Baldvins var alvarlega vegna þess að þar snerist málið um það hvort um misfellu í starfi hefði verið að ræða. Hann var óumdeilanlega að gegna opinberu starfi í umboði þjóðar sinnar í viðkvæmum og vandasömum málum þegar þessi uppákoma varð.
Öllum getur orðið á og ég tel rétt að taka fram að ég tel að Jón Baldvin Hannibalsson hafi verið einhver snjallasti og skarpasti stjórnmálamaður sem við höfum átt og að hann sé það enn.
Mér fannst hvorugt þessra síðastnefndu tveggja tilfella krafin til mergjar heldur látið nægja að slá málum upp á fremur yfirborðskenndan hátt.
Af þessum fjórum fyrrnefndum málum sýnist mér tilfelli Ögmundar Jónassonar lang lítilfjörlegast.
En ég tel þarft að rætt sé um þessi mál á opinskáan og hreinskiptinn hátt. Mál er að feluleiknum linni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
19.12.2009 | 10:22
Bjargað í horn / aukaspyrna.
Síðasta samþykktin á Kaupmannahafnarráðstefnunni þýðir það sama og þegar knattspyrnulið getur forðast að fá á sig mark með því að bjarga í horn á síðustu stundu eða að brýtur á andstæðingi rétt utan við vítateig og stöðvar sóknina um stund en fær á sig hættulega aukaspyrnu.
Í slíkum tilfellum heldur andstæðingurinn boltanum og fær tækifæri til að stilla upp fyrir svokallað "fast leikatriði" sem mörk eru oft skoruð úr. Leiknum er að vísu ekki lokið en hættan á tapi hefur lítið minnkað.
![]() |
Niðurstaða í Kaupmannahöfn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.12.2009 | 02:09
Alkinn játar en hættir ekki.
Líkja má Kaupmannahafnarráðstefnnunni við það að alkóhólisti drattist til að halda fjölskyldufund vegna augljósrar fíknar sinnar sem allir sjái að muni leiða til ófarnaðar.
Hann hélt slíkan fjölskyldufund fyrir níu árum en í ljós kom að niðurstaða þess fundar hafði litlu sem engu skilað.
Þegar á hólminn er komið játar alkinn að vísu að hann hafi valdið tjóni og muni valda vaxandi tjóni sem bitni mest á þeim sem hann á samskipti við.
Hann lofar að leggja einhverja peninga fyrir til að reyna að gera hlut þeirra eitthvað skárri sem verða fyrir barðinu á drykkju hans.
Hann lofar líka að taka það til alvarlegrar athugunar að minnka drykkjuna.
En hann hafnar því algerlega að fara í meðferð, hvað þá að hætta að drekka.
Þessi niðurstaða fundarins er færð til bókar og nefnt samkomulag.
Fundurinn sjálfur getur að vísu verið áfangi, rétt eins og fundurinn fyrir níu árum. En ætlunarverkið misftókst og það er í hrópandi ósamræmi við stóru orðin sem látin voru falla í aðdraganda fundarins.
Það versta við fundinn er það að nú læðist sá grunur að öllum að síðari fundir muni ekki verða árangursríkari og að jafnvel þótt þá náist bindandi samkomulag verði það ekki virt.
Aldrei muni takast að stöðva drykkjuna.
![]() |
Samkomulagið vonbrigði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
18.12.2009 | 11:53
Munið þið eftir "bankaráni aldarinnar"?
Nú, þegar endurreisn íslensku viðskiptabankanna er sagt vera lokið, er fróðlegt að líta á nokkrar uppákomur, sem urðu í hruninu, aðdraganda þess og eftir það, og bera þær saman við það sem síðar hefur gerst.
Daginn eftir að Seðlabankinn tók yfir 75% af Glitni kom einn forráðamanna bankans grátbólginn í fjölmiðla og sagði að þetta væri "bankarán aldarinnar"!
Síðar hefur komið í ljós að bankinn var þá fyrir allnokkru dauðadæmdur og að Seðlabankinn hefði gert best með því að láta hann bara rúlla í stað þess að lengja dauðastríð hans um örfáa daga.
Upphrópunin verður þeim mun fáránlegri í eyrum okkar nú þegar við sjáum að í stað þess að Glitni hafi verið rænt hafi þetta í raun verið vonlaus gjöf Seðlabankans til hans og algerlega út í loftið, þ. e. að þessir peningar séu ekki einasta tapaðir, heldur hafa þeir nú lagst ofan á skuldir ríkissjóðs.
Með öðrum orðum: Stjórn Seðlabankans rændi óvart eigin banka þessum fjármunum og gerði gjaldþrot hans enn verra en það hefði þurft að vera.
En það voru fleiri en eigendur Giltnis sem grétu þessa daga og kenndu Seðlabankanum um allt sem illa fór.
Björgólfur Thor kom í Kastljós og lýsti þeirri ósvinnu Seðlabankans að hafa ekki hent gríðarfjárhæð umyrðalaust inn í Landabankann til þess að liðka fyrir flýtimeðferð Breta við að koma starfsemi hans í Bretlandi í umgerð dótturfélags hans í Bretlandi.
Til sannindamerkis um að þetta hefði bjargað Landsbankanum nefndi Björgólfur að einn helsti yfirmaður breska fjármálakerfisins hefði verið kallaður út umrædda helgi í aukavinnu til þess að vinna að þessu.
Þegar sýndur var á dögunum þáttur BBC um hrunið kom hins vegar í ljós að þessar nætur unnu bresk stjórnvöld í kapphlaupi daga og nætur við það að bjarga eigin fjámálakerfi og þar með alls heimsins.
Í ljósi þessa er afar ólíkleg sú saga Björgólfs að útköll embættismanna hafi verið vegna Landsbankans.
Nú hefur komið í ljós að bresk stjórnvöld hófu að kyrrsetja eignir íslenskra banka næstum viku áður en hryðjuverkalögunum var beitt.
Einnig liggur fyrir að forráðamenn Landsbankans drógu lappirnar í hálft ár áður en þetta gerðist við að koma starfsemi bankans erlendis yfir í dótturfélög.
Þeir hunsuðu tilmæli Davíðs Oddssonar hálfu ári fyrr um að láta ekki yfirvofandi hrun starfsemi bankans erlendis bitna á íslensku þjóðinni.
Ummæli Björgólfs í umræddu Kastjósviðtali voru í sama anda og upphrópun Glitnismannsins viku fyrr um "bankaán aldarinnar."
Nú liggur fyrir að hjálparaðgerðir Seðlabankans þegar hann í örvæntingu keypti ónýt ástarbréf bankanna vikurnar og mánuðina fyrir hrunið hafi í raun verið Seðlabankarán aldarinnar, þ. e. gert gjaldþrot hans sjálfs miklu verra og dýrkeyptara fyrir ríkissjóð og þar með þjóðina en það hefði þurft að verða.
![]() |
Endurreisn bankanna lokið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
17.12.2009 | 22:41
Eru Ólympíuleikarnir 1980 gleymdir?
Fyrir réttum þrjátíu árum báðu handbendi Rússa í Afganistan Rússa um hernaðaraðstoð.
Þeir áttu í höggi við Mujaheedin-hreyfinguna, múslimska hreyfingu sem vildi ríghalda í óbreytt múslimskt þjóðfélag án réttindabóta fyrir konur.
Rússar réðust þá með her sinn inn í Afganistan og var það réttlega fordæmt um allan heim enda fór í hönd hernaður sem kostaði eitthvað á bilinu 600 þúsund til tveggja milljóna manna lífið.
Bandaríkjamenn stóðu fyrir því að refsa Rússum fyrir þetta meðal annars með því að Bandaríkin og fleiri stórar þjóðir sniðgengu Ólympíuleikana í Moskvu 1980.
Að mínum dómi var það rangt að blanda pólitík á þann hátt inn í þennan stóra íþróttaviðburð.
Rússar urðu tíu árum síðar að hætta við hernaðinn í Afganistan eftir sneypuför og mikið mannfall enda réðu þeir ekki við múslimana, Talibanana, sem Bandaríkjamenn studdu eins og þeir gátu.
2001 var staðan breytt. Þeir sömu múslimsku heittrúarmenn stóðu þá á bak við hryðjuverkaárásir á New York og fleiri staði og nú var komið að Bandaríkjamönnum og bandamönnum þeirra að ráðast inn í Afganistan.
Ekki er að sjá að sá hernaður gangi mikið betur en hernaður Rússa hér á árum áður.
Það er mótsagnakennt að Bandaríkjamenn skuli nú leita til Rússa um stuðning í hernaði gegn Talibönum sem Rússar voru fyrrum fordæmdir fyrir að herja á.
Rússar hafa líka hlotið fordæmingu í framgöngu þeirra í Tsjetseníu sem þeir réttlæta með því að það sé liður í baráttunni við hryðjuverkamenn. Rússneska þjóðin hefur líklega ekki gleymt því hvernig hernaðurinn þeirra var skilgreindur 1980 og gerð atlaga að Ólympíuleikunum í pólitísku skyni, sem margir Rússar tóku sem sérstaka móðgun við sig sem þjóð.
Þessar minningar valda því kannski að tregða er til að hjálpa fyrrum gagnrýnendum og refsivöndum vegna stríðs í Afganistan. Marga grunar að jafnvel þótt Bandaríkjamenn réðu algerlega yfir öllu landinu myndi það ekki nægja til að stífla uppsprettu hryðjuverkahreyfinganna.
![]() |
Tókst ekki að sannfæra Rússa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.12.2009 | 13:50
Var fundurinn í Höfða árangurslaus?
Þegar fundi Reagans og Gorbasjofs lauk í Höfða 1986 bárust þær fréttir út um heimsbyggðina að hann hefði verið árangurslaus. Það reyndist vera mikil einföldun.
Í ljós kom síðar að fundurinn í Höfða hafði í raun verið sá fundur þeirra tveggja sem þó bar mestan árangur þótt engin samningsniðurstaða lægi fyrir í lok hans.
Ástæðan var sú að línurnar skýrðust aldrei eins mikið og á þessum fundi og það hjálpaði til þess að marka stefnu í samkomulagsátt eftir hann. Persónuleg tengsl sköpuðust á milli leiðtoganna og annarra í sendinefndunum sem lögðu grunn að árangri síðar.
Svipað gæti orðið uppi á teningnum í lok ráðstefnunnar í Kaupmannahöfn. Í aðdraganda hennar og á henni sjálfri hafa línur skýrst mjög og lögð hafa verið fram loforð hinna ýmsu þjóða varðandi það sem þær eru tilbúnar að gera.
Annað eins safn þjóðarleiðtoga hefur vart sést áður á sama stað og það er mikilvægt.
Þó það hrökkvi ekki til núna er vonandi að Kaupmannahafnarfundurinn geti orðið að jafn merkum viðburði og Reykjavíkurfundurinn var fyrir 23 árum.
![]() |
Ekkert samkomulag í ár? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.12.2009 | 01:58
"Skuggi", nútíma Ford T.
Nú fyrir helgina ók ég frá Egilsstöðum til Reykjavíkur á nær 24 ára gömlum smájeppa af gerðinni Suzuki Samurai sem er bandarísk útgáfa af Suzuki Fox. Hann er svartur og ég kalla hann "Skugga."

Ég krækti í þennan jeppa fyrir níu árum fyrir nokkra tugi þúsunda og þá var búið að aka honum á þriðja hundrað þúsund kílómetra.
Það mátti heyra á vélinni og finna í gírskiptingu að mikið slit var komið í þennan aldraða bíl.
Hljóðið í vélinni var farið að líkjast hljóði í dísilvél en þó kom hann vel út í mengunarmælingu því að hann var gerður til að standast kröfur Kaliforníu í Bandaríkjunum.
Fyrir nokkrum árum fóru gírskipting og háa og lága drifið í rugl, þannig að bíllinn gekk á tímabili aðeins í lága drifinu á afturdrifinu einu, en það á ekki að vera hægt!
Í fimmta gír á lága drifinu er hins vegar hægt að koma bílnum yfir leyfilegan hraða og alltaf skilaði hann því sínu.
Nokkrum vikum síðar hrökk hann allt í einu í fyrra horf án þess að að koma á verkstæði.
Í fyrra fór hann skyndilega í gamla horfið og var ekki hægt að setja hann í neitt nema í háa og lága drifið þeim megin sem 4x4 tengingin kemur venjulega á, en kom þó ekki !
Í gær datt hann síðan fyrirvaralaust í eðlilegt horf. Ég e ekkert að láta skoða svona lagað á verkstæði því að í rekstri svona bíla verður að lágmarka viðhaldskostnað við það sem krafist er í bifreiðaskoðun og ekkert umfram það. Miðað við not þessa bíls í átta ár hefur hann komið frábærlega út.
"Skuggi" er ein af þremur bíldruslum mínum sem hefur ratað í erlenda fjölmiðla. Í grein um Kárahnjúkavirkjun í National Geographic var þess getið að í þessum litla bíl væri svefnstaður minn þar sem ég lifði á Cheerios og Coca-Cola.
Ekki alveg nákvæmt farið með þetta hvað snertir fæðið, en þó sannleikskorn (sannleiks-morgunkorn) í því.
Öll þessi ár hefur Skuggi verið þarfasti þjónninn við gerð heimildamynda um Kárahnjúkavirkjun og önnur verkefni í þessum landshluta og hefur surtur verið lengst af fyrir austan.
Á 31 tommu dekkjum getur svona bíll fylgt jöklajeppum eftir í flestum ferðum, þó ekki eins og minnsti jöklajeppi landsins, rauður Fox ´86, sem brillerað hefur í tveimur erfiðum ferðum á Vatnajökli.

Myndin er tekin á Bárðabungu þar sem sá litli flaut ofan á snjónum en kippa þurfti rétt áður í stóra hlunkinn sem er við hliðina á honum.
Sá litli var þó ekki eins duglegur í krapinu og þeir stóru þannig að leikar í ferðinni fóru 3:3, - það var þrisvar kippt í mig en ég kippti þrisvar í aðra.
Kvikindið er þessa stundina númerslaus í hvíld á Ljónsstöðum í Flóa vegna brotins kambáss í GTI-vélinni sem í honum er.
Það var ódýrari kostur að vekja Skugga upp og því er hann nú kominn á kreik.
Þegar ég fór síðast á Skugga frá Reykjavík til Egilsstaða 2007 hafði hann fengið athugasemd við bifreiðaskoðun í Reykjavík vegna þess að olía var farin að smita út frá gírskassanum.
Á síðasta kafla leiðarinnar austur fór að heyrast mikið ískur og brak í sumum gírunum og þegar gætt var að kom í ljós að öll olía hafði farið af gírkassanum.
Svo vel hafði gírkassinn tæmst, að í bifreiðaskoðun eystra flaug hann í gegn, því að engin olía var lengur í kassanum sem gat lekið út !
Haustið 2007 tók ég númerin af honum og stóð hann óhreyfður á Egilsstöðum þar til fyrir nokkrum dögum, þegar ég ákvað, eftir að ég hafði hætt í bili öllum kvikmyndatökum eystra vegna fjárskorts, að setja ónotaðan utanborðsmotor í Skugga og freista þess að aka með mótorinn til Reykjavíkur og selja hann þar.
Sett var olía og efnið Militec á gírkassann og kom heilmikið af járnsvarfi út, greinilega úr skemmdu gírkassahjólunum.
Hræðilegur hávaði kom úr öllum gírum nema þeim fjórða, - hann var alveg hljóðlaus enda hlutfallið á milli tannhjóla þá 1:1.
Í gamla daga lærði maður að tvíkúpla á milli gíra sem ekki voru samhæfðir og ég brá því á það ráð að rétt kippa Skugga af stað í fyrsta á lága drifinu og setja hann síðan beint í fjórða gír.
Í 4ða á lága er hægt að aka bílnum í yfir 80 kílómetra hraða, en auðvelt er að skipta á ferð beint úr fjórða gír í lága í sama gír á háa drifinu með því að tvíkúpla og nota þessi tvö hraðastig eingöngu en hreyfa ekki gírstöngina !
Er skemmst frá því að segja að ég ók Skugga vandræðalaust alla leið frá Egilsstöðum til Reykjavíkur í fjórða gír, ýmist í háa drifinu eða því lága !

Að þessu leyti er þessi bíll nútíma Ford T því að þessir tveir gírar, "high" og "low" nægja fullkomlega !
Ég tel Suzuki Fox best hannaða jeppa allra tíma og Gaz-69, "Rússajeppann" númer tvö. Er þá miðað við samanburð við aðra jeppa hvers tíma.
En Súkkan er mun betur smíðaður en Rússinn og virðist gersamlega ódrepandi bíll á alla lund. Skuggi er gott dæmi um það eins og bílarnir hjá félögum í SÍS, Sambandi íslenskra Súkkueigenda, sem er með síðuna sukka.is
Get síðan að lokum ekki stillt mig um að birta mynd af nokkrum barnabarna minna í minnsta brúðarbíl landsins með númerinu "Ást".
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.12.2009 | 18:08
Forsmekkur af því sem koma skal.
Forstjóri Boeing-verksmiðjanna sagði á sínum tíma þegar Draumfari, nýjasta þota verksmiðjanna var kynnt, að koltrefjaefni væru smíðaefni framtíðarinnar í flugvélum.
Aðalástæðan er hve mikið vinnuafl það sparar, því að til þess að setja saman flugvél úr áli, þarf að hnoða þúsundir hnoðnagla á samskeytum álplatnanna sem vélin er gerð úr og þetta verk vinna hundruð starfsmanna.
Mest selda einkaflugvél heims undanfarin ár, Cirrus, er algerlega úr trefjaefnum og sama er að segja um margar aðrar litlar vélar og hafa meira að segja Cessna-verksmiðjurnar bætt vél úr slíkum efni í flota sinn.
Yfirborð trefjaefnanna er algerlega slétt en ekki alsett hnoðum eins og samsvarandi álplötur í vængjum og þess vegna er loftmótstaða minni.
Koltrefjaefnin ryðja sér líka til rúms á öðrum sviðum, svo sem í bílaframleiðslu.
![]() |
Draumfari fór á flug í fyrsta skipti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)