FREKAR ÞANN VERSTA EN...

Snæfríður Íslandssól sagðist frekar kjósa þann versta en þann næstbesta. Hugarfar Eiðs Smára hefur verið svipað. Frekar vill hann berjast fyrir því að komast af varamannabekknum í samkeppni við þá bestu en að vera öruggur um að fá að spila hjá einhverju liði í hópi hanna næstbestu. Eiður Smári hefur sýnt mikið þolgæði og hugarstyrk í því erfiða hlutskipti sem hann hefur valið sér.

Það eru ekki allir sem rísa undir því að setja sér það mark að vera frekar meðal þeirra bestu, þótt það sé enginn dans á rósum, heldur en að sigla lygnari sjó í liði einhvers staðar neðar í deild. Það er meira en að segja það að gera það sem Eiður Smári er að gera og við getum verið stolt af honum.


mbl.is Eiður: Hef styrkt stöðu mína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

KALT MAT ER MANNÚÐLEGT.

Í nýlegri kosningabaráttu þrýstu frambjóðendur í kjördæmunum sunnan- og vestanlands mjög á um lagningu tvöfaldaðra vega austur fyrir fjall og upp í Borgarnes. Um þetta myndaðist samkeppni sem byggðist ekki á ítarlegum rannsóknum á því hvaða lausn skilaði mestum árangri fyrir þjóðina sem heild heldur meira á hagsmunum á takmörkuðum svæðum.

Fyrir liggja tölur frá útlöndum um árangur og kostnað af vegabótum sem virðast benda til þess að með því að láta dýra tvöföldun veganna austur og norður frá höfuðborgarsvæðinu hafa forgang, muni seinka svo mjög brýnum vegabótum annars staðar að heildarútkoman verði fleiri alvarleg slys og banaslys en ef 2 plús 1 lausnin væri notuð til Selfoss og Borgarness að öllu eða einhverju leyti.

Miklu skiptir að gerð sé áætlun langt fram í tímann, nógu langt til þess að sjá fyrir hvenær hvort eð er þurfi síðar 2 plús 2 veg til Borgarness og Selfoss, þótt ekki sé nema umferðarþungans vegna. Þá þarf að liggja á borðinu fyrirfram hve mikill viðbótarkostnaður fælist í því og reikna það með í heildardæminu. 

Enn hafa ekki sést nein svör við spurningum Rögnvalds Jónssonar um þetta efni og því miður er líklegt að ekki hafi verið kafað ofan í þetta mál af þeirri alvöru og metnaði sem spurningin um mannslíf og örkuml krefst.

Útkoman úr slíkri alvöru rannsókn fæli í sér það sem er kallað "kalt mat", blákaldar tölur um dauða, örorku, meiðsl og tjón. Orðin kalt mat eru oft notuð sem andstæða við mannúð og tilfinningar. Í þessu tilfelli er í raun ekki til meiri mannúð og tilfinning en felst í því að sjá á hvaða hátt er best hægt að varðveita líf og limi vegfaranda og minnka þjáningar og tjón.

Hér má ekki láta atkvæðakapphlaup í kjördæmum villa okkur sýn heldur hagsmuni þjóðarinnar sem heildar, þjóðar sem býr í einu landi en ekki mörgum.  


HVE MARGIR EIGA LEIÐ TIL HVAMMSTANGA ?

Var að koma úr leiðangri til Sauðárkróks og Blönduóss til að árita nýjar Stiklur og undraðist í ca 800. skiptið á því að hvergi á þessari leið sér ókunnugur vegfarandi hve langt er til Staðarskála eða Bifrastar en hins vegar er þess skilmerkilega getið á skiltum hve langt er til Hvammstanga en þangað eiga kannski 1-2% vegfarenda leið. Á leiðinni milli Borgarness og Blönduóss eru það líklega vel yfir 90% vegfarenda sem kæmi sér vel fyrir að vita hve langt er í veitinga- og bensínsöluna í Hrútfirðinum, sem er helsti áfangastaðurinn á þessum kafla hringvegarins. 

Þetta sést að vísu á litlu bláu skilti rétt áður en komið er að sunnan að Brú, og þá eru aðeins 5km eftir í Staðarskála og Brú er nokkur hundruð metra í burtu. 

Sjálfum væri mér nákvæmlega sama þótt engin skilti væru, - undrast þetta bara fyrir hönd þeirra sem myndu njóta forgangs hins gríðarlega stóra meirihluta sem þarf á þessum upplýsingum að halda frekar en það hve langt sé til Hvammstanga.

Ef það er atriði í málinu að Hvammstangi sé þorp er það ekki nægileg röksemd fyrir því að taka þennan stað fram yfir helstu áfangastaði á leiðinni. Í Bifröst er líka fjölmenni í vaxandi þorpi og aðeins er 1km frá hringveginum að bensínsölu og sjoppi í þorpinu á Laugabakka í Miðfirði sem hugsanlega kæmi sér vel fyrir bensínlítinn eða þurfandi vegfaranda að vita um.

Í Víðihlíð og Baulu er líka þjónusta sem margfalt fleiri þyrftu að vita um en Hvammstanga.  

Á þessa staði færi vegfarandi frekar til að fá slíka þjónustu en 6km fram og aðra 6km til baka út á Hvammstanga.

Hvammstangabúar fara það oft um næstu kafla hringvegarins að þeir vita vel um fjarlægðina heiman og heim. En þeir eru bara samt það fáir að umferð þeirra um hringveginn er eins og ég giskaði á áðan, líklega aðeins milli 1 og 2% af heildinni.

Með þessu er ég ekki að gera lítið úr Hvammstanga og leiðinni út fyrir Vatnsnes sem er vel þess virði fyrir ferðafólk að skoða. En yfir 90% erinda um þennan kafla hringvegarins snýst um gang og skipulagningu ferðarinnar eftir hringveginum án útúrdúra.

Auðvitað væri gott að sem mestar upplýsingar um vegalengd til flestra staða væri að sjá á hringveginum en það verður að forgangsraða og hafa í huga að þjónusta þann hóp best sem stærstur er og mest þarf á upplýsingum að halda, en það eru vegfarandur, sem ekki þekkja vel til vegalengda á leiðinni. Og þeir eru sko margir á okkar tímum þegar æ fleiri vita lítið um lífið utan suðvesturhornsins og íþrótta- og skólakrakkar eru upplýstir um það hve langt sé í Staðarskála með því að segja að þangað sé "tveggja spólu ferð" frá Reykjavík. 

Ég gæti alveg fellt mig við það að á einu skilti sitt hvorum megin við Hvammstanga væri greint frá vegalengdinni þangað og bætt við skiltum sem greina frá vegalengdum til áfangastaðanna í Hrútafirði eða jafnvel fleiri áfangastaða á leiðinni Borgarnes-Blönduós.  

Eins og áður sagði er Hvammstangi að þessu slepptu hinn merkasti staður og þegar ég var ungur heyrði ég dæmi um gott tilsvar þegar Stefán Íslandi átti tal við mann sem hann þekkti ekki, og sýndist sá maður ekki vera merkilegur. Stefán var þá heimsfrægur á Íslandi og meðvitaður um það, enda innistæða fyrir því.

Hann sagði við viðmælanda sinn, hnarrreistur og stoltur: "Veistu ekki hver ég er? Ég heiti Stefán Íslandi." Hinn rétti þá úr sér og horfði stoltur framan í stórsöngvarann og sagði: "Ég heiti Magnús Hvammstangi."

Hentu þeir sem viðstaddir voru gaman að því að við þetta varð Stefán alveg kjaftstopp. 

Svona minnir mig að mér hafi verið sögð þessi saga og síðan hefur mér alltaf þótt svolítið vænt um Hvammstanga og fólkið þar og þykir enn, þrátt fyrir þennan vegaskiltapistil. Ég bið bara um það að fólk fái að vita um vegalengdina til fleiri staða en þangað á þessum hluta hringvegarins.


MOZART ÍSLENSKRA SÖNGVARA.

Var að hlusta á þátt einhverrar bestu útvarpskonu okkar, Lönu Kolbrúnar Eddudóttur, þar sem raddir systkinanna Ellýjar og Vilhjálms Vilhjálmssonar, hljómuðu. Á einkennilegan hátt lágu leiðir okkar og örlög saman um 15 ára skeið, allt frá því að ég gerði texta á fyrstu plötunni, sem hann söng á, þar til hann fórst í bílslysi sem grípur mig ævinlega heljartökum þegar ég hugsa til þess af því að ég finn til einkennilegrar ábyrgðar í sambandi við það. Kem að því síðar.

Við kynntumst mjög vel þegar við ferðuðumst saman um landið með hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar til að skemmta á héraðsmótum og þá uppgötvaði ég hve óhemju vel þessi maður var af Guði gerður.

Við gátum spjallað saman langt fram á nótt og fram á morgun um allt milli himins og jarðar því Vilhjálmur hafði fádæma fjölbreytt og mörg áhugasvið. Til dæmis var hann líklega mesti áhugamaður og viskubrunnur um vísindaskáldsögur sem þá var á Íslandi, - og allur geimurinn og óræðar víddir hans hófu hann til flugs.

Einnig var hann mikill áhugamaður um mannshugann, las um það erlendar bækur og hætti ekki fyrr en hann hafði lokið prófi og fengið réttindi erlendis með tilheyrandi skírteini til dáleiðslu !

Vilhjálmur var svo músíkalskur að ég minnist vart annars eins. Þetta skilaði sér í söngnums svo af bar. Að heyra það til dæmis hvernig hann syngur lagið "Lítill fugl".

Þau systkinin voru í sérflokki við það að syngja hárfínt örlítið til hliðar við taktinn, líkt og gert er í Suður-Amerískri "latin" tónlist. Fyrir vikið verður túlkunin og tónlistin svo mennsk, - maður finnur að það er hin sveigjanlega túlkun mannsins en ekki vélrænn taktur sem ræður ríkjum.

Það var synd að Ellý söng ekki meira af latin-músík inn á plötur. Mér er það ógleymanlegt þegar ég heyrði hana, sárveika, syngja lagið Suður um höfin á þann veg sem engin önnur söngkona eða söngvari hefði getað gert.

Vilhjálmur hafði svo fullkomið vald á þessari einstöku rödd sinni, sem engri annarri líktist, að allt virtist leika í höndunum á honum. Hann hafði líka mesta raddsvið sem ég hef kynnst, - komst jafn djúpt og bassar en síðan langt upp fyrir hæstu tenóra og meira að segja hærra en söngkonurnar.

Mér er enn í minni hái tónninn í laginu "Silence is golden" sem var vinsælt á þessum tíma og hin erlenda hljómsveit fór með upp í gríðarlega tónhæð, þá hæstu sem heyrðist á þeim tíma. Ég man svo vel hvernig Villi lék sér að því að syngja nokkrum tóntegundum hærra eins og ekkert væri sjálfsagðara.

Hann náði svo hátt að það var óhugnanlegt.

Samstarf okkar var oft fullt af mótsögnum. Ég gerði til dæmis marga texta sem hann söng en síðar kom í ljós á síðustu plötum hans að hann hefði ekki þurft að leita til mín, - á síðustu plötunni voru allir textarnir eftir hann sjálfan og ljóst var að á því sviði gæti hann gert stóra hluti. Og hann sem var rétt að byrja þegar allt endaði.

Við göntuðumst mikið með hitt og þetta og á þessum árum varð til orðið "þúfnapex" sem þýddi texta um landslag og sveitarómantík, svo sem "...lindin, lækurinn, litli kofinn minn..."

Við gerð einnar plötu kom Villi til mín með lagið "Green, green grass of home" og sagði: "Þetta er nú þúfnapex í lagi. Hvernig væri að þú gerðir íslenskan texta sem væri mesta þúfnapex allra tíma?" Ég fór í málið og niðurstaðan var textinn "Heimkoma," gerður í hálfkæringi en það var bara leyndarmál okkar Villa. Í óskalagaþáttunum varð þetta lag nánast að plágu á tímabili, svo oft var það spilað, enda lagði Villi sig allan fram í túlka það með sem innilegastri tilfinningu hins deyjandi manns í sjúkrastofunni.

Á þessum árum var ég eins oft fljúgandi á flugvél og ég gat í ferðalögunum um landið og hljómsveitarmeðlimir flugu stundum með mér. Í einu af slíkum skiptum fór Villi einn með mér frá Ísafirði og varð strax mjög forvitinn um farkostinn.

Ég ákvað í ljósi geimferðaáhuga hans að láta hann upplifa þyngdarleysi. Vélin var létt og kraftmikil og ég dýfði henni niður á mesta leyfilegan hraða og reif hana svo lóðrétt upp á fullu afli. Þegar hraðinn upp á við hafði minnkað svo mikið að flugvélin fór að falla fram fyrir sig í ofrisi, líku því sem kennt er í kennsluflugi en bara í miklu lengri tíma, - lyftust allir munir í henni upp í þyngdarleysi í nokkrar sekúndur, þar á meðal við tveir.

Lítil reglustika sem hafði leynst í gróp við framrúðuna lyftist upp og sveif þennan tíma lárétt í þyngdarleysinu beint fyrir framan Villa. Hann horfði sem dáleiddur á hana, greip hana, og þegar við vorum aftur komnir í eðlilegt flug leit hann á mig með ógleymanlegan glampa í augunum og sagði: "Þetta verð ég að taka fyrir."

Aðeins rúmu ári síðar, á mettíma, hafði hann flogið slíka hraðferð í gegnum námsefni og æfingaflug að hann hafði áunnið sér réttindi til að fljúga Fokker! Eggið var farið að kenna hænunni.

Ef Villi fékk áhuga á einhverju sáu hinar óvenjulegu gáfur hans til þess að hann kæmist hraðast og lengst af öllum þangað sem hann vildi fara. Það var dásamlegur eiginleiki en gat líka verið varasamur vegna þess að boheminn, lífskúnstnerinn og lífsgleðimaðurinn var einn þátturinn í ógleymanlegum persónuleika Villa og ég þekkti hann orðið það vel í gegnum tónlistina og flugið að ég hafði svipaðar áhyggjur af honum og faðir af ungum, ærslafengnum og lífsþyrstum syni sínum.

Að fara á kostum á hesti, bifreið eða flugvél getur verið vandmeðfarið og ég hafði leitt hann á braut æsilegra ævintýra knapans við stýrið. Svífandi reglustikan í fluginu yfir Ísafjarðardjúpi varð að örlagavaldi í lífi hans og leiddi hann til þess staðar þar sem hann fórst í bíslysi aðeins 33ja ára eftir einungis 12 ára feril sem listamanns.

Ég, sem vissi svo vel hve óhemju mikið hann hefði getað afrekað ef hann hefði lifað, finn ævinlega til djúprar tilfinningar þegar ég hugsa til þess að hafa orðið óbeint örlagavaldur hans að þessu leyti. Þessi örlagaferill leiddi okkur báða einnig á vit Jóns Heiðbergs þyrluflugmanns, sem Vilhjálmur gerði um hinn ódauðlega texta Söknuð sem síðar varð höfuðstefið í útför hans sjálfs. Á þessum tíma kynntist Vilhjálmur þeirri tilfinningu að missa vini sem voru með okkur í fluginu og sú upplifun varð til þess að hann, líkt og Mozart, endaði feril síns sjálfs á nokkurs konar sálumessu. 

Þannig háttaði til að daginn, sem Villi var jarðaður, var ég veðurtepptur á flugvél í Vesturvíkinni í Aðalvík. Mig langaði mjög til að fljúga suður og kveðja vin minn. Ég ákvað því að láta slag standa og ók flugvélinni til flugtaks á stuttri sandfjörunni, en við enda hennar er þverhníptur Hvarfnúpurinn.

Þegar ég sneri vélinni í flugtaksátt fannst mér Villi kalla á mig að koma á dáleiðandi hátt. Vindurinn stóð ofan af landi, þvert á brautina, sem hallaði auk þess til sjávar- þetta gat orðið erfitt og tæpt.

En það virtist samt gerlegt þessa stundina, og mér fannst Villi kalla áfram á mig, - ég var sem dáleiddur.

Svo bráði af mér, - á síðustu stundu hætti ég við og nokkrum andartökum síðar kom mikil vindhviða þvert á brautina, sem þyrlaði upp sandinum á miðri fjörunni. Þá varð mér ljóst að ef ég hefði reynt þetta hefði það orðið mitt síðasta flugtak, beint í faðm Vilhjálms í eillífðinni.

Í framhaldi af þess varð mér hugsað til hins opna, flugskarpa og víðsýna hugar hans og minntist ágústnótta þegar við tveir ungir menn horfðum hugfangnir í myrkri dreifbýlisins upp í stjörnuhimininn, leikvöll hugar hans, óravíddir hins dökka geims. Þá urðu til þessar fátæklegu línur til við lagið "Three coins in the fountain og með þeim vil ég enda þennan saknaðarpistil um Mozart íslenskra dægurlagasöngvara:

 

FLJÚGUM ÞÁ.

 

Óræð hugann hrífur

himintungla fögur sýn.

Andinn eilífi svífur

og hann kallar mig til þín.

Í honum og yfir

öllu svífur ásýnd þín

frjáls þar líður og lifir

og löngum kallar mig til sín.

 

Kaldlynd örlög ráða því

hvenær finnumst við á ný, -

föðmumst við á ný.

 

Er að því svo dregur

óravíddir kanna má.

Andans vængjaði vegur

vini ber um hvolfin blá.

 

Fljúgum þá! Fljúgum þá! Fljúgum þá!


TEKST AÐ SKAPA ÓTTA, ÞVÍ MIÐUR.

Roosevelt Bandaríkjaforseti setti fram óskina um fjórar tegundir af frelsi árið 1941: Skoðana- og tjáningarfrelsi, trúfrelsi, frelsi frá skorti og frelsi frá ótta. Hvert tilfelli á borð við það sem nú hefur gerst gagnvart saklausri íslenskri konu í bandarískri flughöfn er sigur fyrir hryðjuverkaöflin. Sjúklegur ótti með ofsafengnum og harðneskjulegum viðbrögðum er einmitt það sem hryðjuverkaöflin hafa stefnt að að skapa á vesturlöndum.

Það er dapurlegt þegar fulltrúar forystuþjóðar lýðræðis og mannréttinda hjálpa til við að eyðileggja fyrir sjálfum sér og vega að þeim gildum frelsis sem full þörf er á að berjast fyrir ekkert síður nú en fyrir 66 árum.

Sú barátta er að sönnu vandasöm en það á að vera hægt að standa betur að málum en þetta og komast hjá því að gera vestræn þjóðfélög að lögregluríkjum.


ÖRN ARNARSON, - BRAVÓ !

Mikið gleður það mig hve vel Örn Arnason stendur sig þessa dagana. Fyrir nokkrum árum átti hann í erfiðleikum og margir hefðu kannski bugast í hans sporum. Engum dáist ég meira að en þeim sem láta ekki hugfallast heldur reynast sterkastir þegar á brattann er að sækja.

Muhammad Ali tapaði í sex bardögum á ferli sínum en einmitt það hvernig hann vann úr ósigrum sínum hefur skipað honum á þann stall að hafa verið mestur allra meistara. Meistari sannar sig ekki endanlega í sigrum sínum heldur miklu fremur í því hvernig þeir taka á ósigrum.


mbl.is Örn sjötti á Norðurlandameti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

HINN GRÍÐARLEGI PJATTKOSTNAÐUR.

Þegar ég kom fyrst til New York vakti það athygli mína hve margir leigubílar voru beyglaðir. Mér var sagt að bílstjórarnur teldu flestir ekki þörf á að vera að eltast við minni háttar beyglur sem höfðu engin áhrif á ástand bifreiðarinnar. Mér hefur oft orðið hugsað til þess hve mikið væri hægt að lækka iðgjöld bifreiðatrygginga ef þessi hugsunarháttur væri almennur. Nú síðast vekur það umhugsun að lítil beygla er á 20 ára gamla litla Daihatsu Cuore-bílnum sem er á uppboði hjá þættinum A-J á rás 2 til ágóða fyrir Hjálparstofnun kirkjunnar.

Svona bílum og mun yngri og dýrari bílum er iðulega hent um þessar mundir. Ekki tekur því að gera við beygluna á Cuore-bílnum því að það yrði miklu dýrara en nemur virði bílsins. Beyglan hefur engin áhrif á bílinn, hann stóðst skoðun með henni í dag.

Bílnum hefur aðeins verið ekið 92 þúsund kílómetra og hann verður með 08 skoðun þegar hann verður afhentur. Hann hefur ekki slegið feilpúst síðustu 14 þúsund kílómetrana og er mun þægilegri farkostur innanborgar en 500 sinnum dýrari og stærri bílar.

Cuore-bíllinn er sjálfskiptur og kemst alls staðar í stæði, aðeins 3,2 m á lengd og 1,4 á breidd. Á sínum tíma var þetta minnsti og sparneytnasti bíllinn sem var fluttur inn til landsins.

Farþegar í aftursæti hafa þó þægilegra og betra rými fyrir fætur og höfuð en í mörgum miklu stærri bílum.
Á venjulegum vegum með bundnu slitlagi er ágætlega þægilegt að ferðast um landið á þessum bíl og hann fer jafnhratt um umdæmi lögreglunnar á Blönduósi og 500 hestafla bílar, enda hámarkshraði Cuore-lúsarinnar 135 km/klst, nálægt svonefndum "sviptingarhraða." (Ökuleyfissvipting)

Ef svona bíll stendur frammi fyrir of miklum viðgerðarkostnaði er tapið við að henda honum aðeins tíundi hluti af árlegu verðfalli á nýjum bíl í Corolla stærðarflokki.

Aðalatriðið er að fara ekki út í of dýrar viðgerðir því þá skapast hætta á því að tíma ekki að henda bílnum af því að of miklu hafi verið eytt í hann.

Ókostur við þessa bíla er sá að þeir eru ekki búnir sama öryggisbúnaði og nýir bílar. Ég veit þó ekki til þess að orðið hafi neitt alvarlegri slys á Daihatsu Cuore en öðrum bílum. Raunar man ég ekki eftir neinu alvarlegu slysi á Cuore í 20 ára sögu bílsins hér á landi.

Enginn bíll er með betra útsýni og vegna þess hve hann er mjór má segja að það sé erfitt fyrir aðra bíla að "hitta" á hann, auk þess sem ákaflega auðvelt er að víkja þessum bíl til undan aðvífandi hættu.

Ég vil að lokum varpa þeirri spurningu fram hvort hugsanlegt væri að tryggja bíl sinn þannig að eigandinn geri ekki kröfu um bætur vegna smábeyglna á bílnum og fá einhvern afslátt út á þetta.

Þessi "pjattkostnaður" nemur vafalaust milljörðum á ári hverju. En þetta er kannski utopisk hugmynd.


GETA SKAL ÞESS SEM VEL ER GERT.

Enginn ætti að velkjast í vafa um andstöðu mína gegn Kárahnjúkavirkjun. Sú andstaða hefur þó engin áhrif á sjálfstætt mat mitt á því hvernig að framkvæmdum hefur verið staðið. Ég hef fylgst vel með framkvæmdum Bechtels við álver Fjarðaráls innanfrá og veit að skipulag og öryggiskröfur við byggingu þessarar stærstu byggingar á Íslandi hafa verið holl lexía fyrir Íslendinga. Margir Íslendingar gerðu í upphafi gys að því sem þeir töldu fáránlegar öryggiskröfur. En áranginn sannar gildi þessara krafna.

Að vísu var á tímabili bent á það að um eitthvert skeið fjölgaði slysum í heimahúsum eystra og voru mörg þeirra tengd notkun verkfæra. Fannst sumum það minna á gömlu söguna um það þegar lögregluþjónn fann lík í Fishersundi en dró það upp í Garðastræti af því hann vissi ekki hvernig ætti að skrifa Fishersund í lögregluskýrslunni, - sem sagt að eitthvað af vinnuslysunum hefði verið færð í heimahús.

Þessar sögur eru löngu þagnaðar og óskandi er að íslensk verktakafyrirtæki dragi þann lærdóm af vinnubrögðum Bechtes sem getur fækkað slysum til muna.


mbl.is Byggingu álversins í Reyðarfirði lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ÓGNAR KRISTIÐ SIÐGÆÐI KRISTNU SIÐGÆÐI ?

Ég held að Guðni Ágústsson geti alveg verið rólegur yfir krossinum í þjóðfána okkar og nafni Guðs í þjóðsöngnum. Hann óttast að mannréttindaákvæði, sem hafa haft áhrif á nýja skólalöggjöf, muni leiða til þess. Svipuð ákvæði virðast ekki hafa haft þau áhrif á Breta að kasta bæði Guði og drottningunni út úr upphafi þjóðsöngs síns eða að Norðurlandaþjóðirnar kasti krossinum út þjóðfánum sínum. Það þarf ekki alltaf að mála skrattann á vegginn þótt menn séu kristnir, Guðni. Nú eiga við orð Davíðs um að skrattinn sé leiðinlegt veggskraut.

Er það ekki svolítið öfugsnúið ef mannréttindaákvæði um trúfrelsi og jafnrétti, sem komist hafa í lög fyrir áhrif kristilegs siðgæðis, verða til þess að ógna þessu sama kristna siðgæði?

Róaðu þig, Guðni.

Vísa að öðru leyti í næsta bloggpistil á undan þessum.


mbl.is Guðni: Nú skal kennsluborðum kristninnar velt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ERUM VIÐ ÞORGERÐUR KATRÍN AFBRIGÐILEG ?

Guðni Ágústsson lagði áherslu á það í Kastljósi í kvöld að 80% íbúa Íslands væru í þjóðkirkjunni og þá er stutt í það að það sé allt í lagi að 80% nemenda í skólabekk fari í fermingarfræðslu og hin 20 prósentin sitji eftir eins og afbrigðilegt fólk. Eða þá að allir fái frí vegna þess að fyrirkomulag námsins miðist við nemendur sem eru í einni ákveðinni kirkjudeild. Eða að fermingarfræðslan sé færð inn í skólana.

Af hverju getur þetta ekki verið svipað og það var þegar ég var í Gaggó. Fermingarfræðslan fór fram utan skólatímans og utan skólans. Ég fór í fræðslu til hins stórkostlega kennimanns Emils Björnssonar, sem þá var á hátindi kennimannsferils síns og þurfti ekki að elta hina krakkana til þjóðkirkjuprestsins frekar en ég vildi. Ég held að þjóðkirkjunni sé enginn greiði gerður með þeim rökstuðningi að í krafti stærðarinnar beri að ganga undir henni á kostnað annarra sem ekki eru í henni.

Þorgerður Katrín sat andspænis Guðna og sagðist vera í kaþólskum söfnuði. Ég er í fríkirkjusöfnuði og með því að hamra sífellt á því að við séum í miklum minnihlutahópi meðal þjóðarinnar fer maður að velta því fyrir sér hvot við séum ekki afbrigðileg.

Sem fríkirkjumaður þekki ég það vel vel hve erfitt var fyrir okkur hjónin í alls sjö skipti að rökstyðja það fyrir börnum okkar að eðlilegra væri fyrir þau að fermast í kirkjunni okkar þar sem þau voru skírð, en ekki í þjóðkirkju.

Á 13-14 ára aldrinum eru börn afar viðkvæm fyrir því að vera öðruvísi en hópurinn og þess vegna er mikilvægt að herða þau og styrkja í því að hafa kjark til að fylgja sannfæringu sinni og gera það sem þeim finnst rétt í stað þess að elta hópinn. En þau áttu auðvitað öll erfitt með að gera það í stað þess að láta hópinn ráða fyrir sig og berast með straumnum.

Hvað þetta atriði í mótun ungmenna snertir held ég að það sé ekki uppbyggilegt að rækta hópsál ungmenna og ótta við meirihlutann.

Meira en 90% landsmanna neytir áfengis og ég kannast vel við það frá unglingsárum mínum hve erfitt það var að fylgja ekki hópnum á táningsárunum á því sviði.

Þegar börnin okkar fluttu síðan að heima uppgötvuðu mörg þeirra að þau höfðu sjálfkrafa verið skráð inn í þjóðkirkjusöfnuði hverfanna sem þau fluttu í.

Sumir kunna að segja að þetta sé furðulegt í ljósi þess að enginn munur er á skilgreiningu trúarinnar sem iðkuð er hjá þjóðkirkjunni og fríkirkjunni, - hvort tveggja er evangelisk Lúterstrú. Ég vil ekki orða það svona því að með því væri ég að segja að það væri allt í lagi að þjóðkirkjan hefði forréttindi gagnvart söfnuðum annarra trúarbragða, svo sem Búddisma eða Múslimatrú, nú eða trúleysingjum.

Sigmar Guðmundsson spurði Guðna Ágústsson hvort trúleysingjar gætu ekki ástundað jafngott siðgæði og kristilegt siðgæði og fékk ekki svar. Í orðinu siðgæði felst að gæði siðanna sé mikið, kærleikur, skilningur, jafnrétti og umburðarlyndi og þótt ég sé kristinn maður tel ég ekki gefið að kristnir menn nái lengra á því sviði en aðrir, þótt vitað sé hve nálægð Guðs og trú á hann geti verið mörgum mikilvæg í lífsins ólgusjó.

Það er ekki nóg að segjast í orði vera kristinn en breyta síðan á allt annan veg. Kristnar þjóðir hafa staðið fyrir mörgum af verstu verkum mannkynssögunnar og í innbyrðis styrjöldum kristinna manna töldu báðir aðilar oft á tíðum að Guð stæði með þeim.

Trúleysingjar benda á þetta og þegar gagnrýni þeirra á við rök að styðjast eins og því miður er oft, má segja að gagnrýni þeirra sé að mörgu leyti byggð á sama grunni og gagnrýni Krists á trúarleiðtoga sinnar tíðar.

Ég er vil alls ekki draga fólk í dilka eftir söfnuðum og trúarbrögðum. Á hverju ári á ég samstarf við og kem fram hjá bæði þjóðkirkjusöfnuðum og fríkirkjusöfnuðum. Um þessar mundir hef ég að beiðni þáttarins A-J á Rás tvö sett muni á þar á uppboð til styrktar vatnssöfnun Hjálparstofnunar kirkjunnar sem ég hef kynnst af eigin raun í Afríku. Ég hef frá bernsku allt til þessa dags verið í nánum tengslum við KFUM og fékk þar ómetanlegan skerf í uppeldinu.

Ég hef farið tvær ferðir til Eþíópíu í öflun mynda um Helga Hróbjartsson kristniboða, sem þar hefur unnið ótrúlegt afrek sem koma þarf á framfæri við þjóðina. Ef einhver telur eitthvað af því sem stendur í þessum pistli ekki nógu hagstætt fyrir þjóðkirkjuna vil ég segja: Vinur er sá er til vamms segir. Þjóðkirkjan á gott skilið og getur reitt sig á mína velvild.

Kristnir menn geta verið stoltir af því að það er fyrst og fremst á grundvelli kristilegs siðgæðis sem mannréttindaákvæði hafa verið sett inn í lög og sáttmála, lög gegn mismunun og misrétti. Þess vegna er það skrýtið þegar menn kvarta undan því að fylgja þurfi þessum sömu ákvæðum.

Kristur réðist harðast á þá sem mest börðu sér á brjóst fyrir það hvað þeir væru góðir en voru að innan sem kalkaðar grafir. Hann kom til hjálpar börnum og þess tíma undirmálsfólki og jafnvel afbrotafólki svo sem hórdómskonunni sem átti að grýta. Hann lét valdastétt síns tíma finna fyrir beittri ádeilu og gagnrýni.

Þjóðkirkjan á Íslandi gegnir gríðarlega mikilvægu hlutverki og til hennar er leitað á stærstu stundum þjóðarinnar í gleði og sorg. Það hlutverk sitt hefur hún rækt vel og fyrir það ber að þakka. Ég sé ekkert athugavert við það að svo verði áfram á meðan þjóðirkjan hefur núverandi stöðu í stjórnarskrá og lögum.

Með starfi sínu og boðskap getur hún best haldið merki kristinna gilda á lofti og á alveg að geta komist áfram á eigin verðleikum og kenningar sinnar en ekki að þurfa að hafa forréttindi umfram ákvæði stjórnarskrár og laga um hana sjálfa og um trúfrelsi, mannréttindi og önnur atriði í lögum sem kristilegt siðgæði hefur borið fram til sigurs.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband