16.12.2009 | 10:45
Hvernig var þetta hægt?
Aldrei var því um Álftanes spáð /
að ættjörðin frelsaðist þar.
Þessar gömlu hendingar koma í hugann þegar fréttir berast af ótrúlegum hremmingum í rekstri þessa sveitarfélags. Ljóst virðist að fjármál ættjarðarinnar muni varla frelsast á Álftanesi.
Nokkur sveitarfélög á suðvesturhorni landsins hafa verið talin afar vel sett hvað snertir staðsetningu og afkomu íbúanna, sem tekjur sveitarfélaganna hafa byggst á.
Seltjarnarnes og Garðabær hafa verið nefnd í þessu sambandi og hafa þessi sveitarfélög þó ekki tekjur af höfnum. Þessi sveitarfélög njóta þess að vera hluti af höfuðborgarsvæðinu.
Í Garðabæ eru allmörg atvinnufyrirtæki sem gefa tekjur og eitthvað af þeim er á Seltjarnarnesi. Mér er þó ekki kunnugt um neitt á Álftanesi.
Við erum vön því að fámenn og afskekkt sveitarfélög úti á landi eigi í erfiðleikum og þess vegna kemur það spánskt fyrir sjónir að Álftanes skuli nú komið þangað sem raun ber vitni.
Spurningin er einföld: Hvernig var þetta hægt? Hvaða eftirlit er með slíku? Fáum við fleiri slík dæmi í hausinn á næstu árum?
![]() |
Þyrfti að skera niður um 70% |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
15.12.2009 | 19:56
"Skal í gegn stefnan".
Þegar ekið er um þjóðvegakerfi annarra landa sést að yfirleitt er reynt að beina hröðustu umferðinni framhjá byggðakjörnum, bæjum og borgum.
Ástæðan er einföld: Það er töf af því að lenda í hægri og þungri innanbæjarumferð og eykur slysahættu.
En eins og sést vel af grein í Morgunblaðinu í dag er og hefur verið áberandi það sjónarmið á Íslandi að umferð skuli beint í gegnum miðju hverrar þeirrar byggðar sem á leiðinni er. Ég hef kallað þetta "Skal í gegn stefnuna."
Andstæða hennar er upphrópunin sem nú er komin á kreik: "Sellfyssingar ekki lengur í alfaraleið!" Agalegt að heyra þetta!
Jæja? Verður eitthvað lengra fyrir Selfyssinga að fara í allar áttir þótt hraðleiðin liggi ekki alveg upp að gangstéttum í miðju bæjarins?
Ég hélt þvert á móti að með því að greiða úr umferðartöfum á þann hátt að bægja óþarfa umferð frá miðju Selfossbæjar og fara meðfram byggðinni yrði greiðari leið fyrir Selfyssinga að fara í allar áttir.
Og á sama hátt verður alveg jafn langt fyrir fólk, sem kemur úr öllum áttum að Selfossi og á þangað erindi, að fara inn í bæinn og mun jafnvel taka skemmri tíma heldur en nú þegar umferðin er svo þung.
Vandamál vegna manngerðra fyrirbæra á borð við golfvöll, gróðursettan skóg og æfingasvæði vélhjólaklúbbs hlýtur að vera hægt að leysa.
Ég minnist þess ekki að á hundruðum ferða minna í gegnum Selfoss hafi ég stoppað þar til að versla, bara vegna þess að ég var skikkaður til að aka í gegnum bæinn.
Hliðstætt mál var leyst við Hellu á sínum tíma með því að færa bensínstöðina til.
Þar áður ríkti þar "skal í gegn" stefnan, að allir urðu að taka lykkju á leið sína og fara yfir gömlu Hellubrúna í miðju þorpi, hvort sem þeir áttu erindi til Hellu eða ekki.
"Skal í gegn-stefnan" varð ofaná varðandi leiðina frá Seyðisfirði í vesturátt og hún látin liggja í krók í gegnum Egilsstaði.
Og þessi stefna er svo sannarlega í gildi við Blönduós þar sem menn verða á Norðurleiðinni að taka á sig 15 kílómetra óþarfa krók til að fara þar í gegn. Nýr vegur á brú yfir Blöndu hjá Fagranesi myndi liggja áfram inni í sveitarfélaginu og þess vegna hægt að halda þjónustu við vegfarendur innan þess.
![]() |
Selfyssingar ekki lengur í alfaraleið? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
15.12.2009 | 19:20
Er nú ekki nóg af saltinu ?
Að undanförnu hafa verið einmuna hlýindi dag eftir dag en fyrst nú, þegar líkur eru á því að það frysti, er farið í það að ausa saltpækli um göturnar til að hreinsa burtu tjörusandinn sem myndast hefur á þeim vegna notkunar nagladekkja og salts.
Að undanförnu hafa verið í boði margar nætur þegar svo hlýtt hefur verið að engin þörf hefði verið á því nota salt.
Mér hefur fundist nóg um notkun saltsins að undanförnu, oft til þess að eyða örþunnri skán sem hvort eð er hefði eyðst af umferðinni á skömmum tíma.
![]() |
Götur borgarinnar þvegnar í nótt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.12.2009 | 19:12
Eins og í Heimaeyjargosinu.
Það er mjög þarft framtak að setja upp myndavél sem sýnir beint frá Heklu og þótt þetta sé ekki í fyrsta sinn sem slíkt er gert hér á landi, er þetta í fyrsta sinn sem þetta er gert áður en hugsanlegt gos hefst.
Fyrra skiptið var í Heimaeyjagosinu 1973 þegar á vegum tæknimanna Sjónvarpsins var sett upp myndavél við endurvarpsstöðina á Klifinu í Vestmannaeyjum þar sem sjá mátti til Eldfells og gossins þar.
Það mætti hugsa sér að setja upp myndvél þar sem sæist til Kötlu. Hún þyrfti ekki að vera í notkun nema þegar jarðhræringar eða aðrar vísbendingar eru um yfirvofandi gos.
P. S. En nú heyri ég í Sjónvarpinu að búið er að setja svona myndavél upp á Háfelli. Gott mál það.
![]() |
Vefmyndavél sýnir frá Heklu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.12.2009 | 01:00
Hræsni hinna frelsiselskandi Vesturlandabúa.
Við Vesturlandabúar berjum okkur á brjóst og segjumst vera mikið baráttufólk fyrir frelsi, réttlæti og jöfnuði.
Við höfum notað þetta elskaða frelsi til að sitja lengst af ein að því að blása svonefndum gróðurhúsalofttegundum út í loftið.

Í Kaupmannahöfn er nú fjallað um það hvernig þetta geti valdið þjóðum sunnar á hnettinum miklum búsifjum, ýmist drekkt láglendi þar sem hundruð milljóna búa eða valdið þurrkum og vexti eyðimarka.
Læt fylgja hér með myndir úr ferðum mínum til Eþíópíu 2003 og 2006, en þar geysuðu þá miklir þurrkar og varð að útdeila vatni til fólksins úr tankbílum til að koma í veg fyrir frekara mannfall vegna þurrkanna.

Bandaríkjamenn, 5% mannkyns, blæs út 25% af útblæstrinum.
Deilt er að vísu um umfang loftslagsbreytinga en það breytir ekki því að 110 þjóðarleiðtogar ætla varla að ómaka sig til Kaupmannahafnar út af engu.
Vestrænar þjóðir hafa einnig barist fyrir verslunarfrelsi en gætt þess að það nái ekki til landbúnaðarvara, sem eðli máls samkvæmt er hagkvæmara að framleiða í heitari löndum.
Skekkjan, sem með þessu hefur myndast, er margfalt meiri en nemur allri aðstoð Vesturlandabúa við fátækt fólk í þróunarlöndunum.

Vesturlönd hafa ekki staðið sig betur en það í að uppfylla skilmála Kyotobókunarinnar að í áætlunum er oftast miðað við árið 2005 en ekki 1990 til þess að hægt sé að fá út hærri prósenttölu.
Ég ræddi um umhverfismál við sendiherra Indlands á dögunum og spurði hann hvort honum fyndist það réttlátt að sleppa þróunarlöndunum við að minnka útblástur svonefndra gróðurhúsalofttegunda.
Hann sagði að Indverjar og Kínverjar ætluðu sér að taka á í þessum efnum en benti á að hver Íslendingur blési sex sinnum meira af þessum efnum út í andrúmsloftið en hver Indverji.
Út um gluggann horfðum við á umferð mest mengandi bílaflota í Evrópu sem við höfum komið okkur upp sem hluta af fjórföldun skulda heimilanna á örfáum árum í "gróðærinu" mikla.
Þróunaraðstoð Íslendinga bar sem betur fer ekki á góma í viðtali okkar og vonandi veit Indverjinn það ekki að Íslendingar hafa verið og ætla sér að vera áfram nískasta þjóð á Vesturlöndum í því efni.
Fjögur frelsi sem Roosevelt Bandaríkjaforseti nefndi sem keppikefli heimbyggðarinnar voru:
Skoðana- og tjáningarfrelsi. Trúfrelsi. Frelsi frá skorti. Frelsi frá ótta.
Frelsi frá skorti heyrist sjaldan nefnt.
![]() |
Gagnrýna danska formanninn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
14.12.2009 | 13:17
Sífellt reynt að sverta allar mótmælaaðgerðir.
Hún er gamalkunnug sú gagnrýni sem beint er að þeim sem taka þátt í friðsamlegum mótmælum, nú síðast gegn Álfheiði Ingadóttur, - ég hef sjálfur verið sakaður um að "æsa til ofbeldis" og vera "meðlimur í götuskríl."
Þessar ásakanir eru notaðar til að hræða fólk frá því að láta í ljós skoðanir sínar á þann stjórnarskrárvarða hátt að koma saman á löglegum og friðsamlegum mótmælafundum eða fara í löglegar mótmælagöngur.
Við erum spyrt saman við fámennan hóp sem fer yfir strikið og notar mótmælaaðgerðir sem átyllu til þess að fara út fyrir þann ramma sem aðstandendur mótmælanna vilja setja.
Þetta var mjög lítið brot af fundarmönnum á þeim mörgu og fjölmennu mótmælafundum sem ég tók þátt í veturinn 2008-2009.
Það er sérkennileg tilviljun að í viðtölum í fjölmiðlum við einstakt geðprýðis- og friðsemdarfólk nú um helgina, Gunnar Þórðarson og Vigdísi Finnbogadóttur, segjast þau hafa verið að fylgja sannfæringu sinni og vera hreykin af því með því taka þátt í svona aðgerðum, - hann í mótmælafundum, hún í mótmælagöngu.
Það er mjög séríslenskt fyrirbrigði að flokka mótmælafundi og mótmælagöngur sem "skrílslæti" og þátttakendur sem "skríl."
Ef slík fyrirbrigði hefðu ekki tíðkast erlendis hefði orðið lítið úr baráttunni hjá Martin Luther King, Nelson Mandela og Mahatma Gandhi að ekki sé talað um "skrílinn" sem náði að mynda mótmælafundi allt upp í meira en hundrað þúsund manns á einum fundi í aðdraganda falls Berlínarfólksins.
"Þið eruð ekki þjóðin" var svar ráðamanna sem töldu þetta fólk vera ótíndan skríl.
![]() |
Við gerðum það sem þurfti að gera |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
14.12.2009 | 10:18
Svipað 2004 ?
Sögusagnir gengu um það að svipað hefði gerst áður í málefnum, sem vörðuðu Davíð Oddsson og Ingibjörg Sólrún greinir frá nú, að vilji til þess að ganga gegn Davíð Oddssyni hafi gufað upp þegar á reyndi.
Þetta á að hafa gerst þegar rimman um fjölmiðlafrumvarpið stóð hæst vorið 2004.
Var sagan á þann veg að þegar forystumenn Sjálfstæðisflokksins sáu að það myndi skaða flokkinn að halda fjölmiðlafrumvarpinu lengur til streitu hefði Geir H. Haarde verið sendur á fund Davíðs með fullum stuðningi og umboði allra til þess að fá hann til þess að sætta sig við þetta, horfast í augu við það hvernig komið væri og lágmarka skaðann.
Geir hafi hins vegar komið út af fundinum eins og barinn rakki, án þess að hafa náð hinum minnsta árangri, slíkur hafi myndugleiki og áhrifavald Davíðs verið að fundur þeirra hefði snúist við og Davíð tekið Geir gersamlega í gegn.
Hvað sem hæft er í þessu er ljóst að Davíð hefur ætíð verið einn af þeim mönnum sem hefur alveg sérstaklega mikið persónulegt áhrifavald, svo mikinn myndugleika og persónutöfra að nálgast dávaldshæfileika.
Síðast upplifði íslenska þjóðin þetta í gegnum sjónvarp í hinu fræga Kastljósviðtali 7. október 2008, en margir sögðu mér eftir á að Davíð hefði eytt öllum áhyggjum þeirra af því hvað framundan væri.
Í hugann koma dæmi um svipað áhrifavald stjórnmálaforingja fyrr á tíð en áður en ég held lengra er rétt að taka það sérstaklega fram að með því að taka dæmi um svipað úr heimssögunni er á engan hátt verið að líkja þeim mönnum saman, sem um er rætt að öðru leyti en snertir persónutöfra.
Tvívegis sammæltist þýska herráðið um það að rísa gegn Foringjanum, í fyrra skiptið í september 1938 þegar stefndi í uppgjör og stríð við Breta og Frakka vegna Tékkóslóvakíu.
Í það skiptið gufaði andstaðan upp þegar Foringinn kom sem sigurvegari út úr fundinum fræga í Munchen þar sem hann hafði vafið þeim Chamberlain og Daladier um fingur sér.
Í seinna skiptið hlaut tiltæki herhöfðingjanna nafnið Zossen-samsærið. Herráðið sendi formann sinn, Von Brauchitsch, með fullu umboði sínu og stuðningi á fund Foringjans til þess að setja honum stólinn fyrir dyrnar varðandi frekari hernað á vesturvígstöðunum.
Er skemmst frá því að segja að Von Brauchitsch guggnaði þegar á hólminn var komið og fór á taugum gagnvart áhrifavaldi foringjans sem tók hann í gegn eins og faðir sem tekur barn á hné sér.
Eftir fádæma sigurför Þjóðverja á vesturvígstöðvunum vorið eftir þýddi ekki framar að reyna þessa aðferð.
![]() |
Var lofað að Davíð myndi hætta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
13.12.2009 | 19:48
Bruðl og níska.
Stórveldin Japan og Indland hafa sendiráð sín á venjulegum verslunarhæðum í Reykjavík. En Íslendingar hafa í mörgum tilfellum ekki látið sér nægja minna en lúxusvillur og nánast hallir, jafnvel fyrir sendiráð í fátækustu löndunum.
Þannig var íslenska sendiráðið í einni af stærstu og flottustu villunum á besta stað í Maputo, höfuðborg hins örfátæka lands Mósambík, þegar ég kom þangað fyrir nokkrum árum.
Þegar ég undraðist þetta var mér sagt að verð á húsum væri mun lægra í þessum örfátæku löndum en á Vesturlöndum þannig að þetta væri nú ekkert svo mikill lúxus.
Frá sendiráðshúsinu í Maputo sást yfir flóann yfir til landshluta þar sem er þorpið Hindane. Þar reistu Íslendingar heilsugæslustöð sem færði heilsufarsbyltingu til fólksins þar.
En að öðru leyti var það að horfa þarna yfir flóann eins og að horfa yfir að aðra plánetu, þvílík hyldýpisgjá sem er á milli kjara okkar og hins bláfátæka fólks sem þar er nær alveg fjarri allri nútímatækni okkar tíma.
Þetta augljósa bruðl blasti við á sama tíma og framlag okkar til þróunarhjálpar í fátækum löndum heims var aðeins brot í prósentum mælt af því sem var hjá nágrannaþjóðum okkar og níska okkar og nirfilsháttur á þessu sviði okkur til háborinnar skammar.
Í því ljósi var sendiráðsvillan íslenska tákn hins sama fáránleika og stefndi íslensku efnahagslífi í hrun nokkrum árum síðar.
![]() |
Sendiherrabústaður seldur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.12.2009 | 11:35
Álverin gera allt erfiðara.
Stóriðjustefnan gerir erfitt fyrir um það að byggja upp hagfellda nýtingu orkugjafa okkar. Samningnum um gagnaver í Reykjanesbæ má líkja við það að flugfélag selji farmiða að mun fleiri farþegasætum í flugvél en eru í vélinni og að öðrum viðskiptavinum sé bægt frá.
Það er fljótlegt að sjá að gagnaverið skapar miklu fleiri störf miðað við orku en álver og mengar ekkert svipað.
Í ofanálag hafa fríðindi af ýmsu tagi til álveranna gert erfiðara að semja við aðra kaupendur sem heimta auðvitað eitthvað svipað.
Í stað þess að samningar við gagnaver séu hreint fagnaðarefni eru þeir áhyggjuefni vegna þess að verði áframt keyrt áfram með álverin mun þessi stefna enda í ógöngum af ýmsu tagi vegna þess fyrirhyggjuleysis og ábyrgðarleysis gagnvart framtíðinni og afkomendum okkar sem ræður för.
![]() |
Vill heimild til að semja um gagnaver |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.12.2009 | 02:15
Nýr vegur yfir Þingvelli ?
Fróðlegt sjónarmið mátti heyra í fréttum Stöðvar tvö í gærkvöldi, sem sé það að við mat á umhverfisáhrifum eigi það atriði að vega þungt og þá væntanlega að hafa úrslitaáhrif ef vegur getur orðið sem stystur svo að slysahætta minnki.
Einar K. Guðfinnsson sagði að um allt land gæti vegakerfið liðið fyrir það að þetta væri ekki haft í huga og þessu þyrfti að breyta.
Það þarf ekki að fara langt til að finna gott dæmi um þetta.
Þegar lögunum hefur verið breytt opnast væntanlega nýr og stórkostlegur möguleiki til samgöngubóta sem hefur algerlega verið vanmetinn, sem sé sá að stytta hina gríðarlegu fjölförnu leið milli Reykjavíkur og Laugarvatns, Gullfoss og Geysis um heila 5 kílómetra með því að leggja hraðbraut fyrir 90 km hámarkshraða fram af brún Almannagjár fyrir sunnan Þingvelli og fara stystu leið með norðurströnd Þingvallavatns.
Þar með yrði aðkoma akandi ferðamanna að Þingvöllum jafnvel enn glæsilegri en hún var þegar brunað var á rútum niður í suðurenda Almannagjár, því að útsýnið yrði magnað úr bílunum á leiðinni í gegnum gjárbrúnina og yfir hana og síðan í talsverðri hæð fyrir sunnan Vellina.
Þessi nýi vegur myndi verða sunnan við Vellina sjálfa og gjárnar og því ekki raska þeim neitt.
Vegna þess að umferðin þessa leið er líklega minnst hundrað sinnum meiri en um veginn sem Einar þráir í gegnum Teigskóg yrði ávinningurinn í umferðarslysum talið líka hundrað sinnum meiri en við lagningu vegar í gegnum Teigskóg.
Raunar held ég ekki að jarðgöng undir Hjallaháls og nýr vegur í tengslum við þau yrðu neitt hættulegri en vegur um Teigskóg og mér sýnist ekki að slys hafi verið svo tíð hvort eð er á þessum slóðum, þrátt fyrir gamlan veg.
Nú þyrfti Stöð tvö að fylgja þessu eftir og sýna bestu dæmin um mikið ágæti stefnu Einars K. og það eru hæg heimatökin svona skammt fyrir austan höfuðborgina. Þingvelli strax á eftir Teigskógi!
Þá yrði líka kannski meiri líkur á því að einhver yrði til andsvara ef þau eru talin æskileg.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)