14.12.2008 | 23:10
Skólabókardæmi.
"Bílvelta á Þingvöllum. Bílvelta varð í Skálabrekku..." Fyrstu sjö orðin í tilvitnaðri frétt og sex orð síðar, alls þrettán orða texti í þessari 35ja orða frétt, eru skólabókardæmi um það hversu mikla vitleysu er hægt að setja á prent í stuttri frétt sem er aðeins þrjár setningar.
Tökum fyrstu þrjú orðin: "Bílvelta á Þingvöllum. " Fjórum orðum síðar er sagt að bíllinn hafi oltið við Skálabrekku. Sá bær er alls ekki á Þingvöllum, heldur fimm kílómetrum fyrir sunnan suðurenda Almannagjár.
Ekki tekur betra við í framhaldinu af fyrirsögninni. "Bílvelta varð..." Á mannamáli er sagt: "Bíll valt", notuð tvö atkvæði í stað fjögurra og textinn hnitmiðaður í stað málleysunnar "bílvelta varð." Ekki tekur betra við í næstu tveimur orðum: "Í Skálabrekku." Halda mætti að bíllinn hafi oltið í nefndri brekku en bærinn Skálabrekka stendur reyndar á flatlendi um 800 metra frá veginum.
Í næstu setningu heldur vitleysan áfram: "Þrennt var í bílnum og voru þau öll flutt til Reykjavíkur og slysadeild, en með minniháttar áverka..."
Samkvæmt þessu orðalagi var slysadeildin flutt til Reykjavíkur, en þar hefur hún reyndar verið í minnsta kosti hálfa öld. Og nú er spurningin, úr því að fólkið og slysadeildin voru flutt til Reykjavíkur, hvort slysadeildin hafi verið með minniháttar áverka eins og fólkið.
Nýlega var sagt upp fjölda góðs starfsfólks á Morgunblaðinu. Það vekur spurningar um uppsagnirnar að sjá svona texta eftir að búið var að grisja í hópi starfsmanna.
Mig langar til að gera tillögu um að orða þessa frétt svona:
Fyrst er fyrirsögnin: "Bíll valt við Þingvallavatn."
Síðan kemur fréttin:
"Bíll valt á móts við bæinn Skálabrekku við Þingvallavatn um fimmleytið í dag. Þrennt var í bílnum og var fólkið flutt á slysadeild í Reykjavík. Að sögn lögreglunnar á Selfossi var það með minniháttar áverka."
![]() |
Bílvelta á Þingvöllum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
14.12.2008 | 22:21
Góðir hnefaleikataktar.
Mér er ekki kunnugt um hvort Bush Bandaríkjaforseti hefur nokkurn tíma fengið nasasjón af hnefaleikum, en hann sýndi viðbragð á borð við það besta í hnefaleikunum þegar hann vék sér eldsnöggt undan skónum, sem blaðamaður kastaði að honum á blaðamannafundi.
Þegar Gerald Ford var forseti hentu menn gaman að því að hann hefði stundað hnefaleika á yngri árum og ýmislegt sem hann gerði eða sagði benti til þess að hann hefði fengið of mörg höfuðhögg í hringnum.
Ef taka á eitthvað mark á því hvað menn hafa í flimtingum varðandi heilastarfsemi Bush má leiða að því líkur að engu eða litlu máli hefði skipt, hve mörg högg hann hefði fengið ef hann hefði stundað þessa íþrótt á yngri árum.
Minnir á hálfkæringslega vísu Stefáns heitinn fréttamanns þegar hann var inntur eftir kviðlingi varðandi það að starfsfélagi hans féll af hestbaki og var sagt að blætt hefði inn á heila hans.
Þegar Stefán færðist undan þessu þrýstu menn þess meira á hann og sögðu að hann hefði ort vísu af minna tilefni.
Loks leiddist Stefáni þófið og sló botn í málið með þessari vísu:
Um slysið þetta aðeins eitt
ég yrkja vil:
Það blæðir aldrei inn á neitt,
sem ekki er til.
![]() |
Bush varð fyrir skóárás |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.12.2008 | 12:11
Sá tími mun koma...
Sá tími mun koma og er raunar að byrja að koma, þegar stórþjóðirnar, sem hefði ekki munað mikið um að hjálpa okkur til að standa við alþjóðlegar skuldbindingar, munu sjá hve óskynsamlegt og ósanngjarnt það var að refsa örþjóð miskunnarlaust samkvæmt lagabókstaf á þann hátt sem er dæmalaus í okkar heimshluta nema sem afleiðing af stórstyrjöld.
Það er hárrett hjá AA Gill að hér gilti ekki það sama um Jón og hefði gilt um séra Jón. Við þurfum í komandi samskiptum við aðrar þjóðir að fá þær til að líta með sanngirni á hlutskipti okkar.
Sá tími kemur vonandi líka þegar íslenska þjóðin mun sjá, að til þess að byggja upp nýtt Ísland með bættu siðferði, mannúð og sanngirni gagnvart samborgurum, afkomendum og öðrum þjóðum var það kannski bara gott að hin hátimbraða sápukúla sjálftöku og græðgi sprakk í tætlur.
Stundum er það þannig hjá áfengissjúklingum að þeir segja stundum eftir á að aðeins vegna þess hve þeir sukku djúpt hefðu þeim orðið ljós nauðsyn róttækra ráðstafana og gjörbreytinga.
![]() |
Brown sparkaði í Íslendinga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
13.12.2008 | 22:08
Fleiri bætast á vagninn okkar.
Fyrr í haust hefur það verið fært fram í nokkrum bloggpistlum mínum að taka þurfi ESB-málið út úr farvegi flokkastjórnmála og kjósa sérstakega um hvort sækja eigi um aðild. Rétt er að minna á skýra ályktun stjórnar Íslandshreyfingarinnar í þessa veru og um önnur mikilvæg mál nú um stundir, sem sjá má á heimasíðu flokksins.
Nú bætast sífellt fleiri á þennan vagn hjá okkur, nú síðast VG, Bjarni Benediktsson, Illugi Gunnarsson og Björn Bjarnason.
Áður hafði Björn komið yfir á vagn okkar kosningastefnu, að búa þyrfti til vegvísi að inngöngu með því að hafa aðildarumsókn með samningsmarkmiðum til reiðu þegar og ef til samningaviðræðna kæmi.
Þeir Bjarni og Illugi ræða líka mjög lauslega um breytingar í lýðræðisátt, en í því máli hefur Íslandshreyfingin mjög skýra og ákveðna stefnu, sem sé þá að breyta kosningalögunum strax og kjósa eftir þeim nýju reglum í næstu kosningum, en þess utan þarf að drífa í öðrum breytingum, sem kalla á breytingar á stjórnarskrá.
![]() |
Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildarumsókn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
13.12.2008 | 12:01
Mikilvægi hjartalagsins.
Útför Rúnars Júlíussonar var óvenjuleg um margt. Ekki rekur mig minni til þess að kirkjur í tveimur byggðarlögum hafi verið fullar út úr dyrum við slíka athöfn. Alls hafa líkast til á annað þúsund manns hafi verið viðstaddir.
Ahöfnin í Keflavík var mjög eftirminnileg og einhvern veginn mótaði hún endanleg tímamót í viðhorfi margra til þessa bæjarfélags.
Nú, þegar tvö ár eru liðinn síðan herinn fór af vellinum, er hið raunverulega gildi þessa samfélags, fólksins sem þar býr, menningar þess og þess gildis sem það hefur gefið Íslendingum að birtast þjóðinni í sinni réttu mynd, óbjagað af harðvítugum deilum um varnarliðið og áhrif þess á íslenskt samfélag.
Loksins fær hin keflvíska menning að njóta sannmælis. Rúnar var mikill Keflvíkingur og það er af ráðnum hug sem ég nota það orð í minningu hans. Vona ég að íbúar Reykjanesbæjar virði það.
Það sem stendur upp úr að mínum dómi var að það var einstakt hjartalag þessa öðlings sem dró svo margt fólk að við hinstu kveðju, sennilega meirihluta jarðarfarargesta.
Það er uppörvandi og táknrænt á tímum, þegar gildismat þjóðarinnar gengur í gegnum nauðsynlega og þarfa endurnýjun. Að því leyti eigum við Rúnari svo miklu meira að þakka en felst í þeim dýrmæta tónlistararfi sem hann lét eftir sig.
![]() |
Fjölmenni við útför Rúnars Júlíussonar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.12.2008 | 09:17
Ekki lengur 1965.
Ein helsta röksemdin fyrir fyrstu álbræðslunni í Straumsvík á sjötta áratug síðustu aldar var sú að einhæfni íslensks atvinnulífs og útflutnings væri of mikil með hlutdeild fiskafurða yfir 90%. Ekki væri heppilegt að vera með öll eggin í einni körfu.
Síðustu ár hafa margir ekki enn áttað sig á því að nú hefur þetta snúist við heldur hafa látið eins og ekkert hafi breyst í 40 ár, haldið fram sömu rökum og þá og engan veginn skilið að á þessum tíma hafa orðið grundvallarbreytingar á viðhorfum í heiminum gagnvart náttúruverðmætum og í umhverfismálum.
Í ferðalögum í fjölmörgum löndum austan hafs og vestan hefur það verið sláandi að umræðan hér á landi hefur verið á sama plani og hún var í þessum löndum fyrir 30 til 40 árum og við Íslendingar að ganga í gegnum sömu mistökin og þá voru gerð þar.
Viðmælendur mínir í þessum löndum undruðust að ég skyldi halda fram rökum sem lotið höfðu í lægra haldi í þeirra löndum eftir ítarlegar umræður og átök fyrir mörgum áratugum.
Í ofanálag erum við með allt niðurum okkur varðandi hina "endurnýjanlegu og hreinu" orku, sem við teljum okkur sjálfum og útlendingum um að við séum að nýta á Nesjavöllum, Hellisheiði og suður með sjó.
![]() |
Getum ekki treyst á álið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
12.12.2008 | 01:49
Í þorpi einu...
![]() |
Þjóðin lúrir á milljörðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.12.2008 | 01:43
Upplýsing til útlendinga mikilvæg.
Það er mjög mikilvægt þegar útlendingar komast að því hve óhemju stórt áfall hefur dunið yfir Íslendinga. Þegar Economist segir frá kaupæðinu sem var hér gleymist hins vegar að hjá engri þjóð hefði allt of hátt gengi gjaldmiðilsins getað komið í veg fyrir slíkt.
Einnig hefði mátt geta þess að aðeins um 30 menn stóðu á bak við þetta. Uffe Elleman Jensen sagði í Kastljósviðtali að eftirlitsaðilarnir hefðu brugðist og ef við bætum þeim við og ráðherrunum, sem tengdust þeim, eru þetta samt ekki nema nokkrir tugir manna sem bera ábyrgð að ósköpum fyrir heila þjóð.
Framundan er mikið verk við að gera öðrum þjóðum ljóst eðli þessa máls því að annars er lítil von til endurskoðunar eða sanngirni gagnvart þeim gríðarlegu skuldbindingum sem við höfum verið knúðir til að taka á okkur.
Eigum við við von um það? Já, ég tel það og tek sem hliðstæðu þegar Þjóðverjum var gert að taka á sig miklar byrðar 1919. Sex árum síðar, í Locarnosamningunum 1925 sáu menn sig um hönd og milduðu þessi ákvæði, bæði af sanngirnisástæðum en ekki síður af praktiskum ástæðum, því annars hefði tjón allra orðið meira í heildina við það að Þjóðverjar voru píndir um of.
Ef heimskreppan hefði ekki dunið yfir nokkrum árum seinna hefði líklegast margt farið á aðra lund en það fór.
Ef rétt er að Bretar hafi á ákveðnum tímapunkti í haust íhugað flýtimeðferð á því að breyta Icesafe úr útibúi í dótturfélag, bendir það til þess að í betra næði síðar sé hægt að fá hinar stóru þjóðir, sem eru aðilar að málum, til að taka á sig hluta af þessum byrðum, sem þær ráða margfalt betur við en við, sem erum aðeins örþjóð við ysta haf.
Kristján Þór Júlíusson var raunsær í Kastljósviðtali þegar hann sagði að dýfan sem við værum að fara inn í myndi endast minnst þrjú ár.
Hvort það tekur enn lengri tíma fer eftir því hvort við getum mildað "refsinguna" sem við stöndum frammi fyrir og farið að ráðum Görans Persons um það að taka höggði strax á okkur af festu í stað þess að draga það á langinn og hætta þar með á að komast ekki út úr vandræðunum.
![]() |
Ísland í dag samkvæmt Economist |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.12.2008 | 09:50
"Eigi leið þú oss í freistni..."
Öll erum við gallagripir, búin frá náttúrunnar hendi bæði góðum og slæmum eiginleikum. Eðli málsins samkvæmt hefur ekki fundist enn sú þjóðfélagsskipan sem aðeins laðar fram það góða en heldur hinu slæma niðri. En það er skylda samfélagsins að leita að slíkri skipan.
Rússar og Kínverjar reyndu að finna slíka skipan með því að setja á blað hið fullkomna alræði öreiganna þar sem allir væru jafnir. Afleiðingin varð ógnarstjórn alræðis, sem kostaði tugi milljóna manna lífið, ekki af því að þessar þjóðir væru verra fólk en aðrir, heldur vegna þess að það gleymdist að gera ráð fyrir mannlegum breyskleika, mætti freistinganna.
Bandaríkjamenn hafa trúað á hið fullkomna frelsi sem nær óheft myndi fæða af sér þjóðfélag þar sem allir gætu orðið svo ríkir að fátæktin hopaði af sjálfu sér. Hér á Íslandi var þetta líka reynt af hömluleysi, sem einn bankastjóranna lýsti vel í tímaritsviðtali meðan hátimbruð sápukúla ímyndaðra auðæfa blés út.
Þetta leit rosalega vel út á pappírnum en mistókst vegna þess að ekki var gert ráð fyrir mannlegum breyskleika, mætti freistinganna.
Þetta sprakk ekki vegna þess að Bandríkjamenn eða Íslendingar væru verra fólk en aðrir, heldur vegna annmarka kerfisins. Kerfið bjó til ógn kommúnismans og kerfið býr til hrakfarir hins óhefta kapítalisma.
Nú og næstu misseri verðum við minnt á þessi sannindi í smáu og stóru. Mest af því sem aflaga fer mun ekki koma upp á yfirborðið en nóg samt til að áminna okkur um takmarkanir okkar og veikleika.
Meira að segja sú skipan blöndu af því besta í markaðshyggju og félagshyggju sem virðist hafa reynst skást á Norðurlöndum hefur reynst fjarri því að vera gallalaus. Flestir kannast við þá hættu sem of mikil forsjárhyggja leiðir af sér, til dæmis þegar sjálfsbjargarviðleitni fólks er deyfð og það "leggst upp á sósíalinn og misnotar hann."
En það hefur sennilega ekki fundist skárri skipan enn og hana er vafalaust hægt að endurbæta.
![]() |
Sami maður beggja vegna borðsins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
10.12.2008 | 19:58
Betra að kalla kreppuna "dýfu".
Mér skilst að í kínverska orðinu yfir kreppu felist bæði hreyfingin niður og upp. Kreppa er afar neikvætt orð því að hún felur aðeins í sér að allt sé á niðurleið.
En það er til ágætt íslenskt orð yfir kreppu, og það er orðið "dýfa". Skip í ólgusjó tekur dýfur og fer niður í öldudal en kemur síðan upp aftur. Þannig hefur það verið um nær allar efnahagskreppur síðustu alda og í orðinu "dýfa" felst bæði "hrunið" en einnig þeir nýju möguleikar sem skapast vegna endurmats og endurreisnar til að komast upp úr öldudalnum.
Ég er að hugsa um að prófa að gera þá tilraun að tala um dýfu þegar rætt er um kreppu og sjá hvernig til tekst.
![]() |
Hallinn yfir 150 milljarðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)