12.12.2009 | 20:16
Fimm ára senuþjófur.

Hún er aðeins fimm ára en kom, sá og sigraði á jólatónleikum í Fríkirkjunni í Hafnarfirði í kvöld.
Hún heitir Rósa Guðbjörg Guðmundsdóttir og söng eins og engill svo að alllir urðu heillaðir.
Amma hennar, Rósa Þorláksdóttir, var viðstödd en óljósar minningar mínar frá barnæsku komu í hugann, því að fyrir Rósu, þá unga stúlku, söng ég fjögurra ára á eldhúsborðinu að Sandhóli í Ölfusi lagið "Rokkarnir eru þagnaðir" og líklega eitthvað fleira.
Rósa og móðir mín voru nefnilega systrabörn og hún rifjaði þetta upp fyrir mér eftir tónleikana.
Þetta er lítið land því þegar sungið var nýtt og skemmtilega gospelkennt lag organistans, Skarphéðins Hjartarsonar við ljóð Ingólfs Jónssonar frá Prestbakka rifjuðust upp minningar minnar úr bernsku þegar hann hann og Ingólfur Guðbrandsson voru kennarar í Laugarnesskólanum.
Ingólfur Guðbrandsson bað Ingólf nafna sinn um að gera ljóð við hið erlenda lag. Ingólfur Guðbrandsson og móðir mín voru bræðrabörn og Ingólfur Jónsson og faðir minn voru systkinasynir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.12.2009 | 02:33
"Sjá hve hér illan enda..."
Sjá hér hve illan enda /
ótryggð og svikin fá. /
Júdasar líkar lenda /
lagsbróður sínum hjá. /
Andskotinn illskuflár /
oft hefur snöru snúna, /
snögglega þeim til búna /
er fara með fals og dár.
Hallgrímur Pétursson var ekkert að skafa utan af því í Passíusálmum sínum þegar hann fjallaði um svikakoss Júdasar og síðar það þegar hann hengdi sig.
Ég vona að ég fari rétt með, hef ekki sálmana við hendina þegar ég set þetta á blað.
En Hallgrímur fjallaði líka í Passíusálmunum um iðrun, bót, betrun, yfirbót og fyrirgefningu, náð Krists og Guðs.
Hann var ekkert að skafa utan af því heldur að sjálfur væri hann breyskur og syndugur maður og þyrfti á náð og miskunn að halda og leggja sig fram um að verða betri maður.
Það sem hent hefur Tiger Woods þætti ekki nokkurs virði fyrir almenning né fjölmiðla né nema vegna þess hver maðurinn er.
Í því hærri söðli sem setið er, því hærra verður fallið ef jafnvægið raskast.
Ég sé á blogginu að menn kalla hann ónefnum eins og "druslu" og þar fram eftir götunum. Ég held að við ættum að fara varlega í því að kasta steinum úr glerhúsum okkar.
Síðdegis í dag verður lag sem heitir "Fyrirgefningin" flutt í fyrsta sinn opinberlega af kór og hljóðfæraleikurum í Fríkirkjunni í Hafnarfirði.
Viðeigandi væri að tileinka það Tiger Woods og okkur öllum hinum, sem þurfum að verða betra fólk.
Ég hef birt þennan texta áður en ætla að gera það aftur í tilefni dagsins.
Þegar lagið er sungið er fléttað inn í textann viðeigandi erindum úr Faðirvorinu, sem kórinn allur syngur.
FYRIRGEFNINGIN. (Með sínu lagi)
Án fyrirgefningar friðlaus verður hver maður. /
Fær ekki lifað lífinu sáttur og glaður. /
Batnandi manni er best að lifa og deyja, - /
bæta fyrir sín afbrot, sig auðmjúkur beygja.
Breyskleikinn leikur menn illa á ýmsa vegu, - /
ágirnd og sjálfselska, systurnar hættulegu, - /
syndirnar lúmsku, losti, græðgi og hroki /
líf okkar eitra, oft verða að þrúgandi oki. /
Misgjörðir okkar og mistök á vegum hálum /
meinvörp og sár geta skapað í viðkvæmum sálum. /
Allir menn eiga einhverjum skuld að gjalda. /
Öll þurfum við á fyrirgefningu´að halda.
Vont er að vera fullur af hefndarhuga. /
Heiftúð og skynsemi´og hugarró buga. /
Enginn er bættari náungann auri að ata, /
því oftast fer hatrið verst með þá sem að hata. /
Fyrirgef oss vorar skuldir /
svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum. /
Eigi leið þú oss í freistni /
heldur frelsa oss frá illu.
Þú, sem ég braut gegn, þér á ég skuld að gjalda. /
Þungbær er sökin og erfitt er henni að valda. /
viltu fyrirgefa mér það sem ég gerði.
Ef framvegis gegn syndinni verð ég á verði /
Fyrirgefning og iðrun mér frið munu veita. /
Fyrirgefningar Drottins ég verð að leita /
en víkja þó ekki frá verknaðinum hálfum, - /
ég verð að geta fyrirgefið mér sjálfum.
Er endirinn nálgast áfram ég trúi og vona /
og ósk mín til þeirra sem braut ég á móti er svona: /
:,: Þótt sakbitinn muni ég síðustu rimmuna heyja, /
að sáttur við Guð og menn ég fái að deyja:,:
Fyrirgef oss vorar skuldir /
svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum. /
Eigi leið þú oss í freistni /
heldur frelsa oss frá illu.
P. S. Eins og sést í einni athugasemdinni voru tvær innsláttarvillur í passíusálminum, sem ég rek til þess að vera að blogga þetta þreyttur og syfjaður klukkan hálf þrjú um nótt eftir stranga ferð að norðan.
![]() |
Tiger hættir keppni ótímabundið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
11.12.2009 | 19:42
Skjálfandafljót er í raun á virkjanalistanum.
Hvað sem líður umræðum um Skjálfandafljót er setið um það af þeim sem vilja virkja það og hafa stofnað til þess sérstakt félag. Ég er núna staddur á Akureyri og komst ekki strax inn í tengingu við fréttina en vísa til næsta bloggs á undan þessu um það efni.
Um Skjálfandafljót ríkir mikil fáfræði. Goðafoss er þekktur af því að hann er við hringveginn og sögufrægur en Aldeyjarfoss þekkja örfáir. Þess vegna er hann ekki settur á myndalista með fréttum þótt hann sé í mestri hættu og mun sérstæðari.
![]() |
Leggjast gegn friðun alls Skjálfandafljóts |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
11.12.2009 | 19:36
Full ástæða til varðstöðu.
Ég er félagi í samtökum sem berjast gegn því að Skjálfandafljót verði virkjað. Full ástæða er til að standa þar fastan vörð.
Það er ekki að ástæðulausu að stofnað var sérstak félag með þátttöku Orkuveitu Reykjavíkur og heimamanna til þess eina verkefnis að virkja fljótið. Það var auðvitað gert af því menn ætla sér það.
Þrátt fyrir digurbarkalegar yfirlýsingar um að gnægð af jarðvarmaorku sé að fá fyrir 340 þúsund tonna risaálver á Bakka eru líkurnar á því að það takist litlar og þetta er aðalástæðan fyrir því að fá eigi aðra skaplegri og minni kaupendur að orku frá þessu svæði.
Skjálfandafljót og vatnasvið þess hefur nefnilega mikið gildi ekki síður en Laxá í Aðaldal.
Læt hér fljóta með í lokin vísu, sem gerð var í hagyrðingaþætti á héraðsmóti á Laugum fyrir 45 árum þar sem bragsnillingar héraðsins á borð við Egil Jónasson, Karl Kristjánsson og Baldur á Ófeigsstöðum fóru mikinn og deildu meðal annars um það hvaða kveðskapur væri boðlegur, hvað væri ljóð og hvað væri leirburður, og um það hvor áin væri merkilegri, Laxá eða Skjálfandafljót.
Baldur á Ófeigsstöðum hélt fram kostum Skjálfandafljóts en Egill kostum Laxár og lauk þeirri rimmu með frækilegri lokasókn Egils, þar sem hann kvað Baldur í kútinn, bæði í deilunni um árnar og kveðskapinn. Svona var vísan:
Laxá öðrum elfum meir /
elska ljóðasvanir /
en Fljótið líka lofa þeir /
sem leirnum eru vanir. /
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.12.2009 | 12:16
Styrjöldin til að koma í veg fyrir frekari styrjaldir.
Eftir fyrri heimsstyrjöldina fóru margir að kalla hana styrjöldina sem var háð til þess að koma í veg fyrir frekari styrjaldir. Mannfallið, tjónið og hörmungarnar sem styrjöldin skildi eftir sig var slíkt að öllum hugsandi mönnum þótti óhugsandi að önnur slík yrði háð.
Styrjöldin hafði þá ekki verið háð til einskis, þrátt fyrir allt.
Þegar leið á fjórða áratuginn rígheldu menn í þetta og þetta var ein af ástæðum þess að Bretar og Frakkar vildu allt til vinna að friðþægja Hitler og Mussolini, sem nýttu sér óspart ósanngjarna friðarskilmála Versalasamninganna og þess veikleika sem óheftur kapítalisma sýndi í fjármálahruninu 1929.
15. mars 1939 varð loks ljóst að þetta gekk ekki upp. Hitler rauf aðeins sex mánaða gamalt samkomulag frá Munchen og réðist inn í Tékkóslvóvakíu.
Í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar var NATÓ myndað á þeim forsendum að sagan frá 1939 og 39 mætti ekki endurtaka sig.
Þetta er dæmi um það sem Obama á við í ræðu sinni við móttöku friðarverðlauna.
Þau verðlaun verða þó að teljast hæpin handa manni sem er rétt að hefja valdaferils sinn, á aðeins fögur orð að baki og nýbúinn að fjölga stórlega í herliðinu í Afganistan í stríði sem þar með er orðið hans stríð rétt eins og stríðið í Vietnam var fyrst og fremst stríð Johnsons þáverandi Bandaríkjaforseta.
Orð Obama í ræðunni í Osló eru nefnilega ekki algild og í því liggur stóri vandinn varðandi það orðalag hans að "stundum" þurfi að heyja stríð til að varðveita frið. Hvenær á "stundum" við og hvenær ekki?
Á það við í Afganista? Það orð held ég að hafi ekki átt við í innrásinni í Írak 2003.
![]() |
Obama heldur heim |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.12.2009 | 17:27
Hugulsemi fyrir jólin.
Mikið er nú Seðlabankinn alltaf góður við okkur og nærgætinn.
Hann sýnir sanna jólahugulsemi með því að fara ekki með stýrivextina niður fyrir 10%.

Með þessari hugulsemi gefa þeir okkur færi á að njóta áfram jólasveinaskeggja þeirra karla sem ætluðu annars að klippa það af.
Það hefði alveg eyðilagt jólin fyrir fjölda fólks.
Við megum ekki við því að missa einn einasta jólasvein í kreppunni !
![]() |
Skeggið fær ekki að fjúka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.12.2009 | 17:18
Jólin og íslensk náttúra.

Ég er í augnablikinu í Mývatnssveit á leið frá Egilsstöðum á gamla Samurai-jeppanum, sem þar hefur verið, með utanborðsmótor af Örkinni sem ég ætla að reyna að selja í Reykjavík.
Ég renndi við hjá verkstæði Karls Viðars hjá gamla Rússanum, sem nýlega lék bara furðu stórt hlutverk í tveimur þýskum sjónvarpsþáttum um íslenska náttúru og virkjanamál sem sýndir voru í haust.
Þarna var kíkt sem snöggvast á slitna pútrörspakkningu svona til öryggis.
Þar sem ég var að taka bensín spurði ég hvar í sveitinni væri netsamband og var strax boðið að koma í Kaffi borgir sem er miðstöð við Dimmuborgir sem er opin vegna þess að þar er unnið að því að markaðssetja staðinn sem stað jólasveinanna þrettán, Grýlu, Leppalúða, Jólakattarsins, tröllanna og álfanna.

Læt fylgja hér með nokkrar myndir, sem börnin sem hingað hafa komið, hafa teiknað og skilið eftir.
Hér er ungt og frískt fólk sem er að þreifa sig áfram í því sem hefði getað orðið einhver arðbærasti atvinnuvegur Íslands ef menn hefðu áttað sig í tíma á gildi þess að börn í Evrópu skrifuðu jólasveininum á Íslandi bréf sín um jólin, Íslendingum til mikillar armæðu.
Finnar gripu hins vegar tækifærið og hafa gert Lappland og Rovaniemi að heimkynnum jólasveinsins sem fleirii heimsækja á veturna en Ísland allt árið, og er þó lengra frá helstu markaðslöndunum til Lapplands en Íslands.

Á Íslandi bera menn fyrir sig rysjótt veður og hlákur á veturna þótt aðeins 15 kílómetrar séu frá byggðinni í Reykjahlíð upp í snævi þakið ævintýraland gíga og hvera í meira en 500 metra hæð yfir sjó norður af Kröflu.
Frá alþjóðlega flugvellinum á Egilsstöðum eru aðeins nokkrir kílómetrar upp á meira en 600 metra háa snæviþakta Fljótsdalsheiðina með vetrarríki sínu, hreindýrum og Snæfelli.
Lappland býður upp á fjögur atriði: Þögn, myrkur, kulda og ósnortna náttúru auk jólsveinsins og hreindýranna.

Ísland hefur þetta allt plús 12 aukajólasveina, Grýlu, Leppalúða, Jólakattarins og álfanna.
Ég sá á blogginu að rætt var um að það eina sem nú blasti við fyrir Íslendinga væri að stöðva allt annað en álver og fiskvinnslu og koma öllum vinnandi höndum inn í þau.
Flott hugmynd þetta.
Sex risaálver á Íslandi, sem þyrftu alla orku landsins myndu gefa 2% af vinnuaflinu vinnu við kerin og sennilega myndu álíka margir geta unnið í frystihúsunm.

Þá eru eftir hin 96% vinnuaflsins sem flokkast undir "eitthvað annað", algerlega vonlaust og að engu hafandi.
![]() |
Jólaþorp opnað við Laugaveg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.12.2009 | 05:44
Lýðræðisleg "raunsæisstjórnmál."
Eðlilega staldra margir við þegar þeir heyra um það fyrirkomulag á Alþingi að beita svonefndri "pörun." Sjá má á blogginu hugleiðingar um að hér sé andlýðræðislega að staðið og orð eins og "samtrygging" og "spilling" eru jafnvel nefnd.
Þetta fyrirbrigði, "pörun," flokkast undir hugtak sem kallað er "realpólitík" eða "raunsæisstjórnmál", og á sér hliðstæður í íþróttum.
Pörunin svonefnda byggist í raun á því að viðhalda lýðræðislegum hlutföllum á Alþingi þegar þau gætu raskast af völdum þingsins sjálfs.
Þingmenn stóðu frammi fyrir eftirtöldum kostum:
1.
Að vegna tæps meirihluta á þingi myndi stjórnarmeirihlutinn hætta við að senda Helga Hjörvar á vegum þingsins til útlanda til þess að atkvæðahlutföllin milli stjórnar og stjórnarandstöðu héldust óbreytt.
Þetta hefði skaðað þingið gagnvart samskiptum við útlönd því að ekki hefði fengist neinn annar þingmaður, hvorki úr stjórn né stjórnarandstöðu til þess að fara þessa ferð og minnka þar með atkvæðamagn síns flokks.
Þótt Framsóknarflokknum eða öðrum stjórnarandstöðuflokki hefði verið boðið það, hefði það ekki verið þegið.
2. Að beita pörun, þ. e. að viðhalda atkvæðahlutföllunum óbreyttum. Af praktiskum ástæðum var þessi kostur tekinn. Það var skárra að hafa þetta svona en að halda þingmönnum á landinu í "handjárnum" eins og það hefur stundum verið kallað.
Pörunin hefði alveg eins getað orðið á hinn veginn ef það hefði hagað svo til að Siv hefði átt að fara viðkomandi ferð á vegum þingsins. Þá hefði Helgi Hjörvar getað orðið fyrir valinu í pöruninni.
Það hefði verið ólýðræðislegt og raunar óframkvæmanlegt af þinginu að skikka Helga til að skrópa í ferðina fyrir þingið sem það hafði talið nauðsynlegt að farin yrði.
Ég nefni hliðstætt úr knattspyrnu. Þegar leikmaður meiðist illa, grípur leikmaður úr öðru hvoru liðinu stundum til þess ráðs að spyrna viljandi knettinum út af þótt hans lið hafi knöttinn örugglega þá stundina.
Samkvæmt reglunum fá andstæðingarnir innkastið þegar boltinn fer aftur í leik, en þá er notað ígildi "pörunar", þ. e. sá sem kastar inn, kastar boltanum til andstæðinga sinna þannig að leikar standi eins og þeir stóðu áður en meiddi leikmaðurinn var borinn út áf.
![]() |
Siv pöruð út á móti Helga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.12.2009 | 21:12
Góðir menn í góðum gír.
Þegar mál Fíladelfíu og Friðriks Ómars kom upp um daginn lýsti ég hér á síðu minni afburða góðum kynnum mínum af Friðriki Ómari og Óskari Einarssyni og hans fólki í kór safnaðarins.
Við þetta fólk hef ég átt eitthvað það ánægjulegasta samstarf sem ég minnist og það gleður mig því afar mikið að þetta mál er leyst farsællega.
![]() |
Friðrik Ómar og Fíladelfía sættast |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.12.2009 | 06:16
Fór þó betur en á horfðist.
Ekki er vitað um jafn langa og heita sjálfstæðisbaráttu og þá íslensku frá 1830-1944 sem ekki kostaði neitt manslíf. Þetta var mikil gæfa.
Sagnfræðingar framtíðarinnar munu einnig reka augun í það að þrátt fyrir meiðsl sem hlutust af mótmælum og óeirðum í Búsáhaldabyltingunni kostaði hún ekkert mannslíf en hefði samt getað gert það þegar átökin voru hörðust.
Þeir munu einnig reka augun í það þegar sérstök sveit mótmælenda kom lögreglumönnum til hjálpar þegar minnstu munaði að illa færi og einnig hvernig ákveðin tillitssemi var á stundum sýnd á báða bóga.
Þrátt fyrir áverka og mikil átök fór betur en á horfðist og við sluppum fyrir horn.
Ég var þátttakandi í þessum atburðum og vitni að því þegar báðir aðilar gengu of hart fram eða gerðu sín mistök eins og gengur í hita leiksins, en einnig vitni að því þegar sýnd var tillitssemi og sanngirni á þann hátt að sómi var að, þrátt fyrir allt.
![]() |
Níu lögreglumenn krefjast bóta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)