10.12.2010 | 23:42
Hin rómaða tillitssemi í minn garð.
Ég hef áður sýnt sýnishorn af landlægu tillitsleysi sem birtist í því hvernig við Íslendingar leggjum oft bílum okkar í stæði.
Hins vegar eru góðu fréttirnar við þetta fyrir mig þær, að á örbíl eins og mínum er yfirleitt hægt að finna stæði sem enginn annar getur notað þegar aðrir bílstjórar hafa lagt bílum sínum í tvö stæði en þó skilið eftir nógu breiða rönd til þess að ég geti smokrað mér þar inn og verið samt innan við hvítu línuna.
Komið hefur fyrir að þessir plássfreku bílstjórar sem gera löndum sínum lífið leit þegar slegist er um bílastæðin hafa brugðist hinir verstu við þegar ég hef verið kominn inn í stæðið og skammað mig blóðugum skömmum fyrir frekjuna í mér, því að þeir hafi komið á undan og eigi því "réttinn".
Einn varð alveg brjálaður yfir því að konan hans kæmist ekki inn hægra megin vegna þess hvað minn bíll væri þétt upp að bíl hans.
Ekki sefaði það reiði hans þegar ég benti honum á að á bílnum hans væri bakkgír og að hann þyrfti aðeins að bakka bílnum um tvo metra og konan hans að ganga tvo metra til þess að komast inn í bílinn.
Oft bera menn það fyrir sig að annar bíll hafi fyrr verið skakkur í stæði og sá bíll sé farinn.
En í fjölda tilfella standa þó hinir plássfreku bílar yst við jaðar bílastæðisins og þessi mótbára því haldlaus eins og glöggt sést á myndinni efst á síðunni.
Þess skal getið að meðan ég var inni í versluninni þegar neðri myndin var tekin, fylgdist ég með ástandinu og var viðbúinn að skjótast út ef ökumaður gráa bílsins kæmi og trompaðist alveg yfir því að komast ekki vinstra megin inn í bílinn sinn.
En ég ætti að vera þakklátur fyrir að þessir frekjuhundar eru svona margir. Ég get ég svo sem ekki annað en þakkað þeim fyrir það að gefa mér færi á að komast í stæði sem enginn annar getur notað.
Er þessi tillitssemi þeirra í minn garð rómuð af mér.
P. S. Vegna talsverðrar "umferðar" inn á þennan bloggpistil vil ég benda á annan pistil 7. desember þar sem ég fjallaði um stefnuljósaleti okkar Íslendinga. Þið getið smellt orðinu stefnuljós inn í leitarrammann vinstra megin á síðunni og þá er sú færsla neðst.
Eða smellt inn Hvenær verður tékkað á stefnuljósunum? og þá kemur færslan beint upp.
Í henni segi ég frá því af hverju ég ákvað eftir að hafa sloppið við örkuml eða dauða fyrir nokkrum árum að sinna þessum atriðum hér á blogginu, - fannst ég skulda forsjóninni það.
Bloggar | Breytt 11.12.2010 kl. 20:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (36)
10.12.2010 | 15:19
"Sýknaður af skalla"?
Ekki vissi ég að skalli gæti sýknað nokkurn mann eins og ráða má af fyrirsögninni "Sýknaður af skalla."
Ég álpaðist til að líta á fréttina af því að hugsanlega væri það orðið refsivert að vera með skalla og ég því í vondum málum. Létti mikið þegar ég sá að það væri ekki refsivert.
Hefði ekki litið á fréttina ef fyrirsögnin hefði verið "Sýknaður af sköllun." Svona getur forvitnin farið með mann.
![]() |
Sýknaður af skalla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.12.2010 | 14:41
Kína að verða fordæmi ?
Árum saman hefur það réttilega verið hneykslunarefni hvernig kínversk stjórnvöld reyna allt sem þau geta til þess að loka þjóð sína af frá "óæskilegum" upplýsingum og skoðunum sem falla ekki í kramið í því alræði eins flokks, sem þar er við lýði.
Nú sjáum við grilla í svipaða viðleitni gagnvart fyrirtæki á okkar landi fyrir það eitt að hafa miðlað upplýsingum, sem margar hverjar hafa verið gagnlegar til þess að við áttum okkur betur á veröldinni eins og hún er.
Enginn ástæða hvað varðar það að fyrirtækið hafi brotið lög er gefin, heldur er borið við "erlendum þrýstingi".
Ekki hafa verið færðar sönnur á að Wikileaks hafi brotið lög, heldur blasir það við, að einhverjir innan bandaríska stjórnkerfisins hafi brotið þær reglur sem í því gilda og nærtækara að grafast fyrir um málið innan þess kerfis í stað þess að ofsækja fyrirtæki erlendis.
Það er hastarlegt ef hið ljóta athæfi kínverskra stjórnvalda, sem vestræn ríki hafa fordæmt áratugum saman, á nú að verða fordæmi í okkar eigin ranni.
![]() |
Gróf aðför að tjáningarfrelsinu" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
9.12.2010 | 21:15
Góð tímasetning í Kastljósi.
Það kann að vera tilviljun að umfjöllun Kastljóss um bókhald Landsbankans í kvöld og um bókhald Glitnis í gærkvöldi komi á sama tíma og nýtt samkomulag í Icesave-málinu byrjar að líta dagsins ljós.
Samkvæmt útttektum franskra og norskra sérfræðinga áttu þrír íslenskir bankar að vera komnir í gjörgæslu íslenska fjármálaeftirlitsins minnst einu ári fyrir Hrun og þá hefðu aldrei orðið til það Icesave-mál, sem olli svo gríðarlegu tjóni sem raun bar vitni.
Í kvöld bættist ofan á að fram kom að íslenska fjármálaeftirlitið lét hæpnar skýringar í svörum Landsbankans við athugasemdir nægja og gerði ekkert frekar í málinu.
Ég hef áður bloggað um það að ég teldi að Icesave-málið snerist fremur um siðræn efni en lagakróka og að aðal galli fyrra samkomulags hafi verið siðræns eðlis, sem sé það að ákaflega ósanngjarnt væri að hver íslenskur skattgreiðandi væri látinn bera 25 sinnum þyngri byrði vegna málsins en skattgreiðendur í Bretlandi og Hollandi.
Hvað sem líður lagatæknilegum atriðum er ljóst að siðferðilega ábyrgð á því að láta þessi ósköp gerast liggur í þremur löndum, Bretlandi, Hollandi og Íslandi.
Allar þessar þrjár þjóðir geta auðvitað sagt að almenningur eigi ekki að bera ábyrgð á verkum óreiðumanna. En það kemur fyrir lítið.
Stærstur hluti viðskiptamanna var "almenningur" og jafnvel þótt "óreiðumenn" í föllnum einkafyrirtækjujm verði sóttir til saka og dæmdir eru þessir gríðarlegu fjármunir tapað fé, sem á einn eða annan hátt lendir á "almenningi".
Þegar íslensk yfirvöld ákváðu að tryggja allar inneignir í íslenskum bönkunum og útibúum þeirra var innistæðueigendum augljóslega mismunað eftir þjóðernum með því að þetta gilti ekki um útibú þeirra erlendis.
Þegar menn meta samninga, sem gerðir voru, verður að líta á í hvaða aðstöðu menn voru á hverjum tíma þegar verið var að reyna að semja um málið.
Í Wikileaks-skjölunum kemur fram, að á þeim tíma sem fyrstu samningaviðræðurnar stóðu, töldu Bretar og Hollendingar kröfur Íslendinga "barnalegar", svo bjöguð var mynd ráðamanna þessara tveggja af þessu máli.
Smám saman urðu skrif og álit sanngjarnra manna í erlendum fjölmiðlum til þess að málstaður okkar styrktist svo mjög að þessi nýi samningur er miklu betri en hinir fyrri og nær því að kallast "fair deal", sanngjörn lausn.
![]() |
Drög að frumvarpi verið gerð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
9.12.2010 | 16:40
Nýjar vígstöðvar.
Í aldir hefur valdabarátta í heiminum staðið um landsvæði, fólk, auðlindir og hráefni.
Þegar Þjóðverjum fjölgaði miklu hraðar en Frökkum raskaði það valdahlutföllum í Evrópu, Þjóðverjum í hag.
Þeir töldus sig þó bera skarðan hlut frá borði í keppni um yfirráð yfir nýlendum og auðlindum og hráefnum þeirra og það var undirrót tveggja heimsstyrjalda sem var í raun sama styrjöldin.
Þjóðverjar höfðu sem sé farið fram úr Frökkum í mannfjölda en töldu sig vanta land.
Ef Hitler hefði látið það eiga sig að ofsækja Gyðinga og "óæðri" kynþætt Slava í Austur-Evrópu heldur nýtt sér allan þann mannauð, sem mögulegt var að nýta, hefðu Þjóðverjar líklega sigrað í styrjöldinni og orðið á undan Bandaríkjamönnum að smíða kjarnorkuvopn.
Hitler áttaði sig sem betur fer ekki á því að tríðsgæfan byggðist ekki aðeins á landvinningum heldur einnig "mannvinningum", að virkja mannauð vísindamanna og afburðafólks af öðru kyni en hinu germanska.
Á 21. öld eru komnar til sögunnar nýjar vígstöðvar, þar sem hernaðurinn berst um tölvu- og netkerfi heimsins og hersveitirnar eru ekki hefðbundnir stórherir heldur skæruliðasveitir sem stunda skæruhernað á vefnum og í tölvunum.
Hefðbundinn herafli er ekki lengur aðalatriðið heldur hernaður gegn skæruliðum hryðjuverkamanna um allan heim.
Undirrótin er þó sem fyrr að ná og halda yfirráðum yfir auðlindum og hráefnum, sama ástæðan og leiddi til stríðs Bandaríkjamnna og Japana 1941-45.
En hernaðarátökin fara að mestu fram á vígvöllum í net- og tölvuheimum eða þá sem staðbundin átökum hér og þar við hryðjuverkamenn.
![]() |
Barist í Netheimum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
8.12.2010 | 22:47
Var alltof gott til að vera satt.
Það vantaði ekki að bankabólan, sem blés upp með vaxandi hraða næstu ár fyrir 2008, væri ævintýralega stór og falleg.
Á yfirborðinu "urðu til" svo miklir fjármunir að Íslendingar höfðu aldrei séð neitt þessu líkt.
Fyrirtækin, sem sífellt voru að skipta um nöfn, kennitölur og eigendur, söfnuðu viðskiptavild upp á tugi og jafnvel hundruð milljarða og á yfirborðinu virtust þau svo rík að eigendur þeirra gátu keypt stórar verslunarkeðjur, hótel, flugfélög og hvað eina á yfirverði.
Nokkrir "öfundarmenn" og menn, sem taldir voru þurfa að fara í "endurmenntun" kumruðu eitthvað og voru eitthvað að tala íslenska efnahagsundrið niður en auðvitað var hjarðhugsunin svo rík hjá okkur að það hvarflaði varla að nokkrum að hafa orð á því að þetta væri of gott til að vera satt.
Nú er að koma æ betur í ljós, að Hannes Smárason hitti naglann á höfuðið þegar hann sagði hreykinn í tímaritsviðtali í ársbyrjun 2007: "Það sem við erum að gera dytti engum í hug nema fólki sem veit engan veginn hvað það er að fara út í."
Til eru þeir sem hafa hæðst að Evu Joly og valið henni hin verstu orð. Þó er það fyrir hennar sambönd og tilstilli sem nú er að byrja að grilla í þann ótrúlega flókna og stóra vef af bókhaldsbrellum og flóknum fjármálagerningum sem stóðu stanslaust yfir í heilt ár fyrir hrun, ef ekki lengur.
Ef þetta hefur allt saman verið löglegt hlýtur sú spurning að vakna hvort hægt sé að una við það regluverk fjármálakerfis sem getur fætt það af sér sem fór svo leynt en var svona stórt.
![]() |
Segja að Landsbankinn hafi staðið mun verr en bókhald sagði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.12.2010 | 15:04
Ómöguleg sögn: Að úða ?
Íslensk tunga á ágætt orð yfir ensku sögnina sem trónir í fyrirsögn í tengdri frétt þegar sagt er: "Spreyjaði piparúða á lögregluþjóna." Það er sögnin "að úða." Hvers vegna ekki er hægt að nota þetta ágæta íslenska orð en í þess stað að segja "spreyjaði piparúða" er mér hulin ráðgáta, einkum þegar íslenskur fjölmiðill eins og Morgunblaðið á í hlut.
Ef ætlunin með því að nota enska orðið er sú að komast hjá því að nota orðmyndina úði / úða tvisvar í sömu setningunni á íslenskan líka ágæt orð yfir það og þá hefði fyrirsögnin getað orðið svona á þrjá vegu:
1. Sprautaði piparúða á lögregluþjóna.
2. Dældi piparúða á lögregluþjóna.
3. Úðaði piparúða á lögregluþjóna.
Allar setningarnar lýsa því að efninu var úðað á lögregluþjónana af því að orðið piparúði lýsir því þótt annað orð sé notað um handbrögðin við að tæma brúsann.
Ekki var látið við það sitja að nota enska orðið einu sinni í stuttri frétt heldur tvisvar.
Hægt er að nefna hliðstæðu við ofangreint dæmi þar sem úðað hefði verið froðu á lögregluþjóna.
Er næst á dagskrá að orða það svona: "Fómaði froðu á lögregluþjóna" af því að enska orðið "foam" þýðir "froða"?
Við eigum heima á Íslandi og notum íslensku nema annað sé óhjákvæmilegt.
Ég fæ ekki séð að enskan hafi verið neitt betri í þessu tilfelli.
Nú rétt áðan var ágætur útvarpsþáttur um Bjarna Fel og áhrif hans á íslenska málnotkun.
Bjarni er gott dæmi um það að íslenskan dugar oft best til þess að lýsa hlutum og ættu fleiri en íþróttafréttamenn að taka sér Bjarna til fyrirmyndar.
Ef Eiður vinur minn Guðnason tekur þetta dæmi líka til meðferðar í hinum stórgóðu pistlum sínum um íslenskt mál er það bara í góðu lagi. Góð vísa er aldrei of oft kveðin.
Ég vona að Davíð taki þetta mál til athugunar.
![]() |
Spreyjaði piparúða á lögregluþjóna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
8.12.2010 | 12:32
Undirstaða atvinnulífsins vestra.
Fyrir nokkrum árum mun það hafa gerst í vestfirskum skóla að kennarinn spurði börnin, hvað væri það dýrmætasta sem Ísland ætti.
Eitt barnið rétti upp höndina og kennarinn ítrekaði spurninguna: "Hvað er það dýrmætasta sem Ísland á?"
"Pólverjarnir" svaraði barnið.
Mér kemur þessi saga, hvort sem hún er sönn eða ekki, oft í hug þegar ég kem vestur á firði, einkum þegar komið er niður á bryggju og á stundum erfitt að finna innfæddan Íslending.
Útlendingar hafa ekki aðeins skaffað nauðsynlegt vinnuafl í frystihús, hafnarvinnu og þjónustustörf, heldur hefur flust til landsins hæfileikafólk á ýmsum sviðum, svo sem í tónlist, sem hefur auðgað menninguna.
Þetta á ekki aðeins við um Vestfirði heldur ýmsar dreifðar byggðir víða um landið.
Hin árlega Þjóðahátíð, sem haldin er á norðanverðum Vestfjörðum, er glæsilegt tákn um það hvernig Vestfirðingar hafa tekið á þeim viðfangsefnum, sem það hefur í för með sér að allt að fimmtungur íbúa sé af erlendu bergi brotinn.
![]() |
10% Vestfirðinga með erlent ríkisfang |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.12.2010 | 00:05
Hafísinn er alltaf hættulegur.
Hafísinn er alltaf varasamur og hættulegur fyrir skip. Aðal áhyggjuefnið nú gæti verið að verði suðvestan- og vestlægar áttir, sem sækja munu að á næstu dögum langvarandi muni þær hrekja ísinn til austurs og nær landi.
Ég hef einu sinni flogið á FRÚ-nni að Grænlandsströnd skemmstu leið yfir sundið þar sem það er aðeins 285 kílómetra breitt. Þetta var í miðjum nóvember árið 2000.
Það þurfti að uppfylla ströng skilyrði Dana, svo sem að vera í björgunarvesti og hafa gúmmíbát um borð, vera með HF senditæki og fylgdarflugvél.
Ég var einn í FRÚ-nni en Friðþjófur Helgason kvikmyndatökumaður var með flugmanni í fylgdarflugvélinni sem var alveg eins en með stærri eldsneytisgeyma.
Þegar komið var yfir ísinn á miðju sundinu kom í ljós að ekkert af þessu myndi hafa hin minnstu áhrif á það að ef það dræpist á hreyflinum á annarri hvorri flugvélinni vær þeir sem um borð væru í þeirri flugvél dauðans matur.
Ástæðan sést vel ef myndirnar, sem teknar voru af ísnum í gær, eru stækkaðar og skoðaðar vel.
Aðeins tveir möguleikar eru að nauðlenda á ísnum. 1. Í íshraflinu milli jakanna og fá ísklumpa í gegnum framrúðuna sem gæfi náðarhöggið.
2. Að lenda á jaka og fara út af brún hans og steyptast í íshraflið sem sömu afleiðingum og í 1.
Þegar ég var þarna á ferð var enginn borgarísjaki svo stór að lendingarbraut á honum væri nógu löng.
Eina vonin væri að finna borgarísjaka sem væri nógu rosalega stór og langur.
Engu máli myndi skipta þótt fylgdarflugvél væri á staðnum. Hún gæti að vísu tilkynnt um atvikið en flugvélin, sem lenti á íshraflinu væri löngu sokkin þegar hjálp bærist loksins.
Hreyfillinn í þessum flugvélum er af Lycoming-gerð og í aðstæðum sem þessum er aðeins ein bæn til fyrir flugmanninn: Nú er að treysta á Guð og Lycoming.
Hafísinn er alltaf hættulegur eins og Titanic-slysið og fleiri slík slys vitna best um.
Hann er enn og verður um sinn "landsins forni fjandi."
![]() |
Íshellan hugsanlega hættuleg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
7.12.2010 | 19:16
Hvenær verður tékkað á stefnuljósunum?
Það er af hinu góða að lögreglan taki stikkprufu á ökuhraða og sekti menn fyrir of hraðan akstur. Það er til umhugsunar og aðvörunar fyrir ökumenn.
En það er hægt að valda óöryggi, hættu og töfum í umferðinni á fleiri vegu en með of hröðum akstri.
Einkum er ónóg notkun stefnuljósa áberandi og hvers kyns tillitsleysi, til dæmis með því að tefja fyrir umferð fyrir aftan sig með óþarfa seinlæti þannig að bílar komist seint og illa áfram á beygjuljósum.
Einnig að stöðva bíla sína þannig hægra megin út við gangstétt þegar þeir ætla til vinstri á gatnamótum, að bílar sem ætla til hægri, komast ekki framhjá inn á auða götuna þeim megin.
Ökumenn sem koma niður Fellsmúla og ætla til hægri inn á Grensásveg gefa til dæmis yfirleitt ekki stefnuljós og stöðva þannig að óþörfu alla umferð neðan úr Skeifuhverfinu inn á Grensásveg til suðurs.
Svipað má sjá á mörgum T-gatnamótum borgarinnar og gott dæmi um skort á notkun stefnuljósa eru öngþveiti og tafir sem verða oft á mótum Skipholts og Háaleitisbrautar.
Ég skora á lögregluna að taka til hendi í þessum málum. Það getur hún gert með því að nota tvö eða fleiri lögreglubía og hafa einn þeirra vopnaðan myndavél til þess að hægt sé að hafa hendur í hári þeirra brotlegu þótt síðar verði eða ekki hægt að gera það fyrr en talsvert eftir að þeir eru komnir áfram í átt frá gatnamótunum.
Í umferðarlögum er ákvæði sem skylda ökumenn til að haga akstri sínum þannig að það skapi sem öruggasta og greiðasta umferð. Ekkert ákvæði íslenskrar umferðarlaga hefur verið eins oft og almennt brotið og þetta í bráðum heila öld.
Það versta við þessa hegðun er sú að þegar umferðin er tekin sem heild þá tapa allir á þessu, líka þeir sem halda á því augnabliki, sem þeir hegða sér svona, að þeir séu einir í umferðinni.
![]() |
Fimmtungur ók of hratt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)