17.2.2007 | 00:56
SIGGI, BERÐU HÖFUÐIÐ HÁTT!
Ég sperrti eyrun þegar ég heyrði óvenju kraftmikla rödd hljóma í X-factor í kvöld. Ég er ekki að segja að hann væri eins og Tom Jones en það hringdu bjöllur í hausnum á mér. Mér fannst óskiljanlegt að þessi öflugi söngvari væri sendur heim.
Hann var sakaður um að syngja svipuð lög og hann hefði gert áður, - skorta fjölbreytni í lagavali. Come on, án þess að ég beri þá saman, þá held ég að ef Tom Jones hefði sungið fjögur lög í keppninni hefði líka mátt senda hann heim fyrir einhæft lagaval.
Siggi, þú eignaðist áreiðanlega fleiri aðdáendur en mig í kvöld. Berðu höfuðið hátt! Gerðu plötu með góðra manna hjálp og ég skal kaupa hana. Láttu ekki hrekja þig frá því að syngja lög sem henta þér og þinni óvenjulega kraftmiklu rödd. En meðal annarra orða: Hvar hefurðu verið í öll þessi ár?
Af hverju heyrði ég í þér fyrsta sinn í kvöld? Láttu það ekki verða í síðasta sinn!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
16.2.2007 | 12:50
ÆSKAN VEKUR VONIR
Fór í morgun að beiðni nemendafélagsins í MH til að sýna á svonefndum Lagningadögum myndir af Brennisteinsfjöllum og útskýra möguleika Íslands með tvo frægustu og bestu eldfjallaþjóðgarða heims, - þann stærsta suður af Húsavík og þann næst stærsta í hlaðvarpa höfuðborgarsvæðisins.
Fyrir fullum sal var dásamlegt að rökræða við þetta efnilega unga fólk um framtíð landsins og finna fyrir auknum áhuga þess á umhverfismálum og nýjum viðhorfum um stefnubreytingu, nýsköpun og betra þjóðfélag.
Unga fólkið skilur vel þá hugsun sem felst í því að stöðva stóriðju- og virkjanaframkvæmdirnar og nota næstu ár til að byggja upp breytt og betra þjóðfélag sem byggir á nýtingu einstæðrar náttúru landsins. Þetta æskufólk ætlar sjálft að leggja á sig minni tekjur næstu árin meðan það er að leggja grunn að betri framtíð sem tryggir þeim að lokum betri kjörum og nýtingu á hæfileikum þess.
Auðvelt var að útskýra fyrir æskufólkinu samsvörunina í námi þeirra við breytingu á stefnunni í umhverfismálunum en erfiðast varð útskýra fyrir þá tregðu sem lýsir sér í því hvernig hin gamla stefna liðinnar aldar er trúaratriði fyrir ráðamönnum þjóðarinnar.
Bloggar | Breytt 17.2.2007 kl. 00:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
14.2.2007 | 10:54
NÆSTI VETTVANGUR - REYKJANESSKAGI
Fór á fund í Grindavík í gærkvöldi þar sem samþykkt var ályktun gegn því að leyft verði að leggja háspennulínur og reisa virkjanir um þveran og endilangan Reykjanesskaga. Það mun rýra stórlega möguleika á að setja á stofn eldfjallaþjóðgarð sem taki fram frægasta eldfjallaþjóðgarði heims á Hawai.
Það gleymist þegar rætt er um stækkun álvers í Straumsvík að hún hefur í för með sér stórfellda umhverfisröskun um allan Reykjanesskagann og við Þjórsá. Meira að segja er á teikniborðinu ný höfn við Óttarsstaðavör sunnan Straumsvíkur með tilheyrandi spjöllum á mjög sérstæðum slóðum þar sem stærsta ferskvatnsfljót skagans rennur neðanjarðar út í sjó (Straumsvík, Straumur).
Í gamla daga gátu fiskimenn rennt upp að landi og fengið sér ferskt vatn að drekka við ströndina án þess að fara í land. Um allan skagann stefnir nú í baráttu fyrir því að staldra við og sjá til hvort ekki verði með djúpborunum hægt að ná nægri orku á þeim svæðum sem þegar er búið að virkja á í stað þess að vaða áfram um allt. Ef menn telja það sáluhjálparatriði að raða risaverksmiðjum inn í anddyri Íslands.
Baráttan sem framundan er næsta mánuðinn afsannar þá fullyrðingu að umhverfisverndarfólk berjist bara gegn verksmiðjuvæðingunni úti á landsbyggðinni.
Það er kaldhæðni örlaganna að upphaf umhverfisbaráttu á Íslandi má rekja til þess að Sigurður Þórarinsson vildi fyrir tæpum 60 árum bjarga Grænavatni í Krýsuvík frá því að verða spjöllum að bráð. Nú er ætlunin að steypa borholum, virkjun og háspennulínum inn á þetta svæði og láta línurnar þvera fjöll og dali fyrir vestan Krýsuvík allt til Garðsskaga.
Mjög stór hluti Reykjanesskagans er í landi Grindavíkur og það var í því landi sem unnin voru ótrúlega mikil þarflaus umhverfisspjöll í vor við litfegursta gil suðurvesturlands, Sogin, rétt hjá Trölladyngju. Það var gert með því að saga stórt, kolsvart rannsóknarborplan inn í græna hlíð við mynni Soganna og ryðjast með veg upp eftir dásamlegri gönguleið meðfram Sogalæknum.
Auðvelt hefði verið að leggja þennan veg nokkur hundruð metrum vestar og skábora rannsóknarholuna til að komast hjá þessum miklu spjöllum. Þessi spjöll komu ekki einu sinni inn á borð hjá Skipulagsstofnun, hvað þá Umhverfisstofnun.
Mat á umhverfisáhrifum virkjunarinnar verður formsatriði eftir þessi spjöll. Þannig er unnið skipulega í áföngum að því að brytja niður ímynd Íslands sem eitt af undrum veraldar, óspjallað og hreint. Gegn þessari stefnu verður að stækka og breikka þann græna her sem heldur út í baráttuna í hlaðvarpa höfuðborgarsvæðisins.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
13.2.2007 | 00:38
HALDIÐ OPNU FYRIR HÚSAVÍK OG VÍÐAR?
Þrjú álver á næsta áratug segir Geir Haarde í Silfri Egils, nýbúinn að hvetja til stækkaðs álvers í Straumsvík. Framtíðarsýn forsætisráðherra: Fjögur álver sem nota munu alla nýtanlega orku Íslands.
Þjóðarsátt um málið sem byrjar að virka 2010 segir Jón Sigurðsson. Þangað til verður hægt að negla niður stóriðju sem þarf orku á við tvær Kárahnjúkavirkjanir. "Hófleg stóriðja með álverum" segir formaður Frjálslynda flokksins.
"Stóriðju ber fráleitt að útiloka sem framleiðslukost" segir Össur Skarphéðinsson í Fréttablaðinu í gær og ítrekar að Samfylkingin vilji að stóriðju í Straumsvík og Helguvík verði "frestað" á næstu árum. Össur og Ingibjörg setja fram skilyrði um að fyrst verði gerð rammaáætlun um náttúruvernd. Sigríður Anna Þórðardóttir vill "hægja á" stóriðjuáformum meðan orkuverð sé að hækka.
Hvað lesum við út úr þessum yfirlýsingum fulltrúa fjögurra flokka? Samfylkingin minnist ekki á Húsavík, - bara suðvesturhornið. Geir segir: Strax í Straumsvík og nefnir síðan árið 2015. Langt þangað til? Nei, aðeins átta ár, jafnlangur tími og er nú liðinn frá Eyjabakkadeilunni.
Lítið mál fyrir Samfylkinguna að snara út einni rammaáætlun um náttúrvernd og byrja svo eftir fárra ára"frestun" á þeirri stóriðju sem "fráleitt er að útiloka sem framleiðslukost."
Samkvæmt áætlunum um djúpboranir gætu liðið allt að 15 ár þangað til árangur liggi fyrir. Það verður árið 2022. Fyrrnefndar yfirlýsingar eru nógu loðnar til þess að stóriðju- og virkjanframkvæmdir gætu byrjað á ný eftir nokkur ár þrátt fyrir fögur orð. Þá yrði jarðhitinn virkjaður með gamla laginu með fimmfalt meiri umhverfisröskun en hugsanlega verður hægt að fá með djúpborunum.
Álverið á Húsavík á að vísu ekki að vera nema 240 þúsund tonn en fulltrúar allra álfyritækjanna hafa lýst því yfir að álver verði að verða minnst 5-600 þúsund tonn. Það þýðir allt að milljón tonna framleiðslu Alcoa í einu kjördæmi sem myndi þurfa allar hugsanlegar virkjanir í kjördæminu, jökulárnar og virkjanasvæði norðaustan Mývatns sem orðið gæti eitt verðmætasta svæðið í stærsta og frægasta eldfjallaþjóðgarði heims.
Ef Sjálfstæðisflokkurinn fær að ráða og marka má ummæli Geirs Haarde er virkjun í Jökulsá á Fjöllum ekki útilokuð. Það verður erfitt að standa á móti því þegar Alcoa setur fram úrslitakosti um fullar stækkanir álveranna á Norður- og Austurlandi, - annars fari þeir bara eins og Alcan hefur hótað Hafnfirðingum.
Merkilegt í þessu virkjanafíknarpartíi hvað margir eru tregir til þess að hætta alveg þangað til útséð verður með djúpboranirnar.
Allt í lagi að fá sér smá snafsa, - "hóflega stóriðju með álverum" eins og formaður Frjálslynda flokksins orðaði það á landsþinginu. Það er svona álíka og þegar alkinn segist bara ætla að drekka hóflega úr báðum vínflöskunum sem hann hefur með sér til að staupa sig í partíinu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (33)
12.2.2007 | 19:55
ÝKT "ANDLÁTSFRÉTT".
Í fréttum Stöðvar tvö í kvöld er sagt "samkvæmt heimildum"að ég muni hverfa af skjánum hjá Sjónvarpinu vegna þess að ég fari á biðlaun. Þessi frétt er ekki rétt og um hana hægt að segja eins og Mark Twain sagði sprelllifandi á sínum tíma að fréttir af andláti hans væru stórlega ýktar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
12.2.2007 | 13:29
FUNDIN ÞJÓÐARSÁTT FYRIR OKKUR ÖLL.
Heyri í útvarpsfréttum að tveir framsóknarráðherrar hafa fundið þjóðarsátt um virkjanamálin á grundvelli starfs svonefndrar auðlindanefndar með fulltrúum allra stjórnmálaflokka og annarra aðila sem málið snertir. Stórfrétt og góð tíðindi. Nú getur náttúruverndarfólk farið heim og lagt sig og stjórnmálabaráttan farið að snúast um allt annað en umhverfismál eins og verið hefur í síðustu kosningum.
Þetta eru enn betri tíðindi fyrir þá sök að náttúruverndarfólk þurfti ekkert að hafa fyrir þessu, því það átti enga aðild að sáttinni heldur lögðu ráðherrarnir það á sig að vinna allt málið upp í hendurnar á okkur.
Samtök ferðaþjónustunnar áttu víst heldur engan fulltrúa í nefndinni enda er þeirra hlutverk að finna leiðir til að láta erlenda ferðamenn skoða risaverksmiðjur, háspennulínur og stórvirkjanir.
Að sjálfsögðu áttu orkufyrirtækin fulltrúa í nefndinni enda eru það orkufyrirtækin sem meta það hvenær "brýn nauðsyn" og "almannaheill"eru í húfi þegar lönd eru tekin eignarnámi fyrir virkjanir.
Náttúruverndarfólk þarf ekki einu sinni að skrifa undir þessa sátt. Hugsa sér hvað þetta er einfalt þegar þetta er borið saman við þjóðarsáttina frægu 1990. Þá þurftu fulltrúar beggja deiluaðila, atvinnurekenda og launþega, að leggja sig alla fram vökunótt eftir vökunótt vikum saman til þess að ná þeirri frægu sátt.
Nú voru það aðeins fulltrúar orkufyritækjanna sem unnu þetta starf fyrir náttúruverndarfólkið sem aðilar að málinu. Þetta minnir á Sovétríkin sálugu þar sem fulltrúar fólksins í kommúnistaflokknum unnu alla vinnuna við að ákveða kaup og kjör og ná þjóðarsátt um þau án þess að þurfa að dragnast með frjáls verkalýðsfélög í þeirri vinnu.
Ég bið spenntur eftir þjóðarsáttinni sem Jón og Jónína hafa unnið fyrir alla þjóðina. Raunar var ég nýlega á málþingi þar sem fram kom í máli vantrúaðra að þjóðarsáttin myndi fara að virka eftir að búið væri að virkja sem svaraði tveimur Kárahnjúkavirkjunum í viðbót svo að hægt væri koma á koppinn fyrstu áföngum þeirra álvera sem eru á teikniborðinu.
En þessar virkjanir og álverin eru náttúrulega smámunir miðað við svona stórkostlega sátt. Í henni hlýtur að felast að öll nýju Sólarsamtökin auk þeirra umhverfissamtaka sem fyrir voru geta nú lagt sjálf sig niður. Það er engin þörf fyrir þau, - ráðherrarnir sjá um sáttina sem þjóðina þyrstir í, - baráttan fyrrgreindra samtaka reynist vera óþörf hér eftir. Hvílík dýrð! Hvílík dásemd!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
11.2.2007 | 20:49
SÓL Á SUÐURLANDI, GRASRÓTIN SPRETTUR UPP!
Fundur Sólar á Suðurland og Náttúruverndarsamtaka Suðurlands í Árnesi gær fór fram úr björtustu vonum. Þegar ég hitti þetta frábæra heimafólk fyrst fyrir mánuði til skrafs og ráðagerða áttu við orð Jónasar: hnípin þjóð í vanda."
Í 40 ár hafa orkufyrirtæki farið sínu fram í krafti óréttlátra lagagreina um að þegar "brýn nauðsyn og almannaheill" krefðu gætu þau tekið það land eignarnámi sem þeim sýndist. Bændum hefur lærst í 40 ár að eina leiðin til að sleppa út úr viðskiptum við Landsvirkjun hefur verið að reyna með samningum að ná sem skástri lendingu um bætur fyrir eignaupptökuna.
Bændur og landeigendur hafa smám saman verið barðir til hlýðni og lært að vera "þægir." Lögin hafa gefið Landsvirkjun sjálfdæmi um mat á orðunum "almannaheill" og "brýna nauðsyn." Þau hafa eingöngu verið túlkuð Landsvirkjun í hag en ekki þeim sem jafnvel hafa séð meiri verðmæti í því að nýta landið án þeirra umhverfisspjalla sem fylgir virkjunum.
Það blés því ekki byrlega á fyrstu undirbúningsfundunum því að baráttan framundan sýndist vonlítil. Það sýndist jafnvel óheyrileg bjartsýni að fylla 200 manna sal í Þingborg. En smám saman fór boltinn að rúlla og varð að skriðu sem tryggði metfjölda á samkomu í Árnesi þar sem meira en 400 manns komu saman til að grípa til vopna.
Fundurinn í dag var mikilvægur fyrir margra hluta sakir.
1. Hann afsannaði að það væru bara "fáeinir öfgamenn" sem andæfðu svona áformum.
2. Hann sýndi fram á óréttlæti þess að í einu sveitarfélagi geti íbúarnir ákveðið á lýðræðislegan hátt stórfelld náttúruspjöll í mörgum öðrum sveitarfélögumm. Með þessu er ekki verið að kasta rýrð á það prýðilega frumkvæði í Hafnarfirði að efna til kosninga um málið, heldur það hvernig að þessu er staðið í öðrum sveitarfélögum sem hlut eiga að máli.
3. Hann staðfesti enn og aftur að það er bylgja að rísa í þessum málum sem stjórnmálamenn þurfa að fara að taka tillit til, - ekki bara í orði heldur og á borði.
4. Á þessum fundi voru veittar dýrmætar upplýsingar um eðli þess máls og umhverfismál almennt.
5. Nær allir þeir sem komu þarna fram voru heimamenn, - grasrót blómlegasta svæðis landsins er byrjuð að spretta upp! Í undirbúningi fundarins kom til dæmis í ljós að það var engin þurrð á sunnlenskum tónlistarmönnum til að koma þarna fram.
6. Hann varpaði ljósi á það að jafnvel þótt virkjanir í Neðri-Þjórsá hafi ekki verið ofarlega á forgangsröðunarlista náttúruverndarfólks vegna skorts samtakanna á fjármagni og mannskap eru fleiri og fleiri byrjaðir á sjá samhengi stóriðju- og virkjanamálanna og komast að þeirri niðurstöðu að nú verður ekki lengur hopað heldur sagt á öllum vígstöðvum: hingað og ekki lengra!
Náttúruverndarsamtök Suðurlands og hin nýsprottnu samtök Sól á Suðurlandi hófu í dag á loft gunnfána þeirrar baráttu sem þar er framundan á eftirminnilegan hátt. Þökk fyrir það, hugrakka heiðursfólk!
Bloggar | Breytt 12.2.2007 kl. 11:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
9.2.2007 | 10:40
TAKMARKIÐ: FJÖLGUN GRÆNNA ÞINGMANNA
Í áttblöðungi sem ég gaf út s.l. haust taldi ég nauðsynlegt að breikka fylkingu umhverfisverndarmanna á Alþingi, - nú hrúgast leikmennirnir vinstra megin á völlinn, svo notuð sé samlíking við handbolta, en vantar leikmenn hægra megin. Ég lýsti eftir bræðraflokki vinstri grænna og þeirra þingmanna Samfylkingar sem eru andvígir stóriðjustefnunni.
Allar götur síðan þá hef ég einnig sagt að nýtt mið-hægri-umhverfisframboð yrði að leiða til þess að fjölgun þingmanna þeim megin yrði meiri en sem næmi þeim þingmannsefnum, sem myndu falla vinstra megin.
Í fréttum er nafn mitt oft nefnt sem frambjóðanda. Ég er nú 66 ára og þarf að huga vandlega að því hvernig ég ætla að klára þau stóru verkefni á sviði umhverfismála, kvikmyndir og annað, sem ég á ólokið. Ég verð að forgangsraða verkefnum. Að sitja á þingi á kafi ofan í margskyns frumvörpum og þingstörfum varðandi önnur mál en umhverfismál er ekki á forgangsröðunarlista mínum.
Ég tel mig hafa hlutverki að gegna á hinni almennu baráttu umhverfisverndarfólks. Í vetur hef ég eftir bestu föngum reynt að laða saman og líma krafta umhverfisverndarfólks. Það tel ég höfuðhlutverk mitt. Í samræmi við orð mín í áttblöðungnum vil ég liðka fyrir öllum hugmyndum um fjölgun grænna þingmanna svo að ekki verði sagt eftirá að ekki hafi verið reynt að finna leið til þess.
Ég hef í allan vetur sagt að ég muni láta skipa mér til verka í baráttunni framundan þar sem kraftar mínir nýtist best. Kosningarnar 2007 verða einstakar að því leyti að aldrei áður og sennilega ekki síðar verður kosið um málefni sem skipta milljónir ófæddra Íslendinga máli. 2011 verður það of seint.
Því aðeins mun ég verða beinn aðili að einu umhverfisframboði fremur en öðru að það verði betra fyrir málstaðinn í heild. Það er ekki enn komið að slíkri ákvörðun hjá mér, - ég þarf betri upplýsingar um vígstöðuna en nú liggja fyrir.
Á ferli mínum sem flugmaður hef ég oft orðið að leggja upp í erfiðar ferðir þar sem öðrum hefur sýnst ófært, kannski oftar en nokkur annar flugmaður. Ævinlega hef ég vandað til slíkra ferða eftir bestu föngum og langoftast komist á leiðarenda, enda reynt að hafa fleiri en eina leið tiltæka til þess.
Það má orða þetta svona: Ég hef sennilega oftar lagt af stað í slíkar ferðir en nokkur annar, - en ég er líka örugglega sá íslenskur flugmaður sem oftast hefur snúið við, - í tíma. Annars væri ég ekki þar sem ég´er í dag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
8.2.2007 | 01:07
FRAMTÍÐARLANDIÐ LIFIR, FRAMBOÐ ÁFRAM Á DAGSKRÁ
Fundur Framtíðarlandsins í kvöld fjallaði að mínu mati ekki um það hvort, heldur hvernig hægt væri að standa að nýju og fersku framboði umhverfisverndarfólks í kosningunum í vor. Líkurnar á slíku framboði hafa ekki minnkað heldur jafnvel vaxið.
Mér fannst óþarfi að sundra Framtíðarlandinu vegna málsins þegar hægt er að ná árangri á annan hátt, með algerlega óháðu og frjálsu framboði sem gæti meðal annars nýtt sér þá frábæru vinnu sem hópur fólks í Framtíðarlandinu hefur unnið vegna hugsanlegs framboðs og laðað til sín krafta fólks sem stendur utan Framtíðarlandsins en hefur sömu hugsjónir.
Nú liggur þetta fyrir og baráttuhugur þeirra sem vilja reyna að breikka fylkingu grænna frambjóðenda er mikill. Það verður vandaverk hvernig að því verður staðið því aðalatriðið í mínum huga er að þegar talið verði upp úr kjörkössunum í vor fjölgi grænum þingmönnum en fækki ekki.
Fundurinn var öllum til sóma og til fyrirmyndar hvernig að þessu var staðið. Ef einhverjir hafa afskrifað grænt framboð rétt hægra megin við miðjuna vegna fundarins þá held ég að það sé mikill misskilningur. Áfram grænir, hvar sem þið eruð í pólitíska litrófinu!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
6.2.2007 | 14:58
NÝR KJALVEGUR? EKKI NÚNA.
Sú var tíðin að ég var spenntur fyrir nýjum Kjalvegi enda búið að leggja upphleyptan veg drjúgan hluta af leiðinni hvort eð var. Vegna nýrra upplýsinga hef ég skipt um skoðun, einkum vegna þess að styttingin sem stefnt er að er ekki nóg, kannski aðeins kortérs akstur.
Ég set þessa skoðun mína fram að vandlega athuguðu máli, hef ekið Kjalveg oftar en tölu verður á komið í 40 ár á öllum árstímum og flogið yfir hann á öllum árstímum svo hundruðum flugferða skiptir. Einnig ekið þá leið upp með Hvítá austanverðri sem skynsamlegast er að fara og flogið eftir henni, meðal annars með einum af forsvarsmönnum Norðurvegar.
Í hitteðfyrra settist ég yfir málið með áhugamönnum norðan heiða og fór yfir nokkra möguleika til styttingar leiðinnar milli Reykjavíkur og Akureyrar sem ég setti einnig fram í sjónvarpsfréttum. Helstu leiðirnar voru þessar:
----------------------------------------------------------------------------
Leið 1.
Fyrsta og að mínum dómi þá, varasamasta og versta hugmyndin, að fara með leiðina um Þingvelli, Kaldadal, Arnarvatnsheiði, Stórasand niður í Skagafjörð. Stytting ca 80 km.
Kostir:
Mikil stytting.
Ókostir:
Vond veður og snjóakista í mikilli hæð á Stórasandi.
Farið í gegnum vatnsverndarsvæði í jaðri þjóðgarðs sem er á heimsminjaskrá UNESCO.
Styttingin nýtist ekki eins vel á leiðinni Selfoss - Akureyri og með nýjum Kjalvegi.
Stærsta ósnortna víðernið á Vesturlandi skorið í sundur með hraðbraut.
Kallar á gerð nýrra þjónustumiðstöðva.
Framkvæmd sem mjög erfitt verður fyrir framtíðarkynslóðir að snúa til baka.
Fé eytt í nýjan veg í stað þess að eyða því í endurbætur og bjarga mannslífum á hringveginum.
----------------------------------------------------------------------------
Leið 2.
Frá Biskupsbeygju á Holtavörðuheiði nokkurn veginn stystu leið um heiðarsporða Húnavatnssýslna þvert fyrir norðan Blöndulón og niður í Skagafjörð. Stytting: ca 55-60 km.
Kostir.
130 kílómetrar hringvegarins frá Reykjavík upp á Holtavörðuheiði nýtast áfram.
Ekki eins mikil röskun á stærsta ósnortna víðerni Vesturlands og með leið 1.
Ókostir: Samt talsverð röskun á víðerninu.
Stytting ekki eins mikil og á leið 1.
Styttir ekki leiðina milli Selfoss og Akureyrar ekkert framyfir styttinguna milli Reykjavíkur og Akureyrar.
Framkvæmd sem myndi verða erfið fyrir framtíðarkynslóðir að snúa til baka.
Fé eytt í nýjan veg í stað þess að eyða því í styttingu, endurbætur og björgun mannslífa á hringveginum.
-------------------------------------------------------------------------------------
Leið 3. Sú sem nú er lögð til.
Nýr Kjalvegur, frá Gullfossi upp Hrunamannaafrétt austan við Bláfell og um Auðkúluheiði og Eyvindarstaðaheiði niður í Skagafjörð. Stytting: 47 km.
Kostir:
Hlutar leiðarinnar hafa þegar verið byggðir upp.
Mikil stytting milli Selfoss og Akureyrar.
Opnar möguleika á skíðamiðstöð í Kerlingarfjöllum fyrir sunnanmenn jafnt sem norðanmenn.
Ókostir:
Of lítil stytting miðað við leið 5, aðeins 17 - 22 km þegar möguleg stytting hringvegarins (leið 5) er dregin frá.
Mikill hávaði frá hraðri þungaumferð stórskemmir þögla öræfastemningu Kjalar, sem eru mikil verðmæti í sjálfu sér fyrir Sunnlendinga og alla landsmenn.
Kallar á endurbætur á leiðinni Selfoss-Gullfoss, - stefnir stórum vöruflutningabílum á þessa fjölförnustu ferðamennaleið landsin og eykur slíka umferð á leiðinni Reykjavík-Selfoss.
Kallar á gerð nýrra þjónustumiðstöðva.
Framkvæmd sem erfitt yrði fyrir kynslóðir framtíðarinnar að snúa til baka.
Fé eytt í nýjan veg í stað þess að eyða því í styttingu, björgun mannslífa og endurbætur á hringveginum.
---------------------------------------------------------------------------
Leið 4. Sama og leið 3 en farið frá Geithálsi um Nesjavelli austur yfir Sog við Steingrímsstöð og þaðan austur um Lyngdalsheiði.
Kostir.
Meiri stytting en á leið 3.
Mikil stytting á leiðinni Reykjavík-Laugarvatn-Geysir og beinir vegtengingu milli Þingvalla og Laugarvatns í nýjan og farsælan farveg sem leysir erfitt deilumál.
Ókostir:
Sömu ókostir og á leið 3
Plús:
Farið um viðkvæmt vatnsverndarsvæði við sunnanvert Þingvallavatn.
------------------------------------------------------------------------------------
Leið 5. Styttingar og endurbætur á hringveginum. 3 - 10 km í Vestur-Húnavatnssýslu, 15 km við Blönduós og ca 7 km í Skagafirði, alls 25 - 32ja km stytting.
Kostir:
Umtalsverð stytting miðað við tiltölulega stutta nýja vegi.
Fjármagnið sem annars færi í Kjalveg og endurbætur á leiðinni Selfoss-Gullfoss fer beint í að auka umferðaröryggi, fækka slysum og bæta afköst aðal-leiðarinnar.
Hálendið og ónsnortin öræfi látin í friði.
Ókostir:
Minni stytting en á leiðum 1-4, einkum á leiðinni Selfoss-Akureyri.
-----------------------------------------------------------------------------------
Niðurstaða mín: Gerum þetta ekki núna og helst aldrei. Þetta er of lítil stytting fyrir meginumferðina til þess að vera réttlætanleg. Björgum mannslífum á hringveginum og gerum hann skilvirkari og nýtum þau verðmæti sem Kjölur með þögn sinni og tign hins ósnortna býr yfir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (55)