Hef alltaf haldið upp á Halldór.

Ég hef fylgst með íslenskum handbolta í meira en hálfa öld og auðvitað hafa stórstjörnur, allt frá Geir Hallsteinssyni og Axel Axelssyni til Alexanders Pettersson og Ólafs Stefánssonar, hrifið mann mikið.

En ég hef ekki síður haldið mikið upp á leikmenn, sem hafa verið lítið áberandi en þó bæði haft mikil áhrif á liðsheildaina og spilið og oft á tíðum skorað miklu meira en búast hefði mátt við. 

Í stjörnuleik "gömlu mannanna" í FH og Fram sem eitt sinn var spilaður í Laugardalshöllinni og Geir og félagar brilleruðu með glæsitilþrifum og mörkum var það nú samt Fram sem hafði betur ef ég man rétt. 

Og annað kom algerlega á óvart. Hver var markahæstur í leiknum? Guðjón Jónsson? Hvenær skoraði hann öll þessi mörk?  Jú, Guðjón var einhver útsjónarsamasti leikmaður sem ég minnist og ótrúlega snjall við að finna glufur í vörnum andstæðinganna og nánast lauma boltanun niður í gólfið og upp í markhornin, svo lítið bar á! 

Bergur Guðnason kunni þetta bæði í knattspyrnu og handbolta og löngu síðar komst Halldór Ingólfsson á lista minn yfir leikmenn, sem virðast jafnvel vera ólíklegir til að vera handboltamenn, hvað þá meðal þeirra bestu. 

Nú veit ég ekkert hve góður Halldór er sem þjálfari, en margföld reynsla er fyrir því að þegar liði gengur undir væntingum er þjálfarinn venjulega látinn fjúka, jafnvel þótt ástæðan fyrir slöku gengi sé önnur. 

Sem sagt: Ekki orð um stöðu Halldórs sem þjálfara, en hrós og þakkir fyrir þá ánægju sem hann veitti mér þegar hann var upp á sitt besta sem handknattleiksmaður í fremstu röð, án þess að séð væri að hann væri frekar afburða handboltamaður heldur en venjulegur silalegur og sívalur skrifstofumaður hjá Tryggingarstofnun ríkisins.


mbl.is Halldóri sagt upp hjá Haukum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með besta stuðningsmannalagið.

Hvað gerir maður eins og ég, sem veit af reynslunni að gengi enskra knattspyrnuliða á toppnum er mjög valt? 

Í stað þess að finna það sem er bæði stopult og umdeilanlegt finnur hann eitthvað annað varðandi lið, sem varla verður um deilt. 

Mér finnst stuðnigsmannalag Liverpool besta stuðningsmannalagið. Ég á erfitt með að sjá að það geti breyst jafn mikið og gengi liðsins á vellinum. Þar að auki er þetta og verður um eilífð Bítlaborgin, - "Strawberry fields forever" og "Love! Love! Love!" 

Einhver vafi?  Nei.  Málið dautt.
mbl.is Liverpool vinsælla en Man Utd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn harðsvíraðri en Hitler.

Ég nýbúinn að er skrifa bloggpistil um það, sem er líkt með Gaddafi og Hitler varðandi það, að báðir hafa talið sig vera ofurmenni, snillinga, þjóðhetjur í hæsta gæðaflokki og jafnvel rétthærri þjóð sinni.

Hitler olli dauða milljóna manna síðustu mánuði stríðs sem var löngu tapað og allir viðurkenndu í hjarta sínu nema hann. Rétt fyrir endalokin taldi hann alla hafa brugðist nema hann, og þjóðin ætti ekkert annað skilið en að farast í vítislogum. 

Gaddafi lýsir þeim löndum sínum, sem ekki vilja lengur þola glæpastjórn hans, sem eiturlyfjaneytendum og rottum sem þurfi að eyða miskunnarlaust. Hitler vildi líka gereyða Gyðingum og villimönnum Bolsévismans. 

Hitler var þó ekki eins harðsvíraður og Gaddafi að einu leyti. Hitler kvaddi unglinga úr Hitlersæskunni til herþjónustu síðustu mánuði styrjaldarinnar og uppskar fyrir það fyrirlitningu víða um lönd. 

Gaddafi veit að það sem réði úrslitum þegar hermenn í Moskvu óhlýðnuðust fyrirskipunum 1991, það sem réði úrslitum þegar hermenn, sem áttu að handtaka Napóleon óhlýðnuðust fyrirskipunum og það sem réði úrslitum í Túnis og Egyptalandi, var það að hermenn hikuðu við að hlýðnast valdboði, sem var í hrópandi mótsögn við sannfæringu þeirra sjálfra. 

En einkum réði úrslitum að hermennirnir hikuðu við að skjóta á og drepa samborgara sína að skipun yfirmanna, sem þeir fyrirlitu. 

Gaddafi er harðsvíraðri en Hitler að því leyti að hann setur undir þennan leka með því að ráða kaldrifjaða málaliiða frá fjarlægum löndum til þess að fremja voðaverkin gegn góðri umbun.

Ég spáði því í pistli mínum að Gaddafi myndi kjósa "píslarvættisdauða" og fremja þess vegna sjálfsmorð eins og Hitler. Nú segir maður, sem vel þekkir til í ranni harðstjórans,  að þetta verði líklegast.


mbl.is Gaddafi mun deyja eins og Hitler
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingar búa örugglega best.

Fyrir rúmum áratug barst athyglisverð skýrla inn á borð Reykjavíkurborgar þar sem bornar voru saman 16 borgir á Norðurlöndum á margvíslegan hátt. Ekkert var fjallað um þessa skýrslu enda stemmdi sumt af því sem í henni stóð ekki við ýmislegt, sem haft hefur verið uppi í borgarmálum Reykjavíkur.

Til dæmis leiddi skýrslan í ljós að þær þessara borga, sem eru á stærð við Reykjavík eru álíka dreifbýlar og sumar jafnvel dreifbýlli.  Það stangast á við þá fullyrðingu að Reykjavík sé margfalt dreifbýlli en gengur og gerist. 

Sú lífseiga fullyrðing byggist á því að bera Reykjavík saman við milljónaborgir í Evrópu, helst stærstu höfuðborgirnar. 

Ef taka á mið af þessari skýrslu sést að það er ekki séríslenskt vandamál að borgir séu dreifbýlar og erfitt að þétta byggð heldur er það alþjóðlegt viðfangsefni að hamla gegn því að byggð þenjist út. 

Annað kom berlega í ljós í þessari skýrslu. Það var hve rýmra var að meðaltali um hvern borgarbúa í Reykjavík en í nokkurri hinna norrænu borganna. Rysjótt veðurfar á Íslandi, einkum svalt veðurfar á sumrin, á áreiðanlega sinn þátt í því hve íslenska heimilið er mikilvægt fyrir okkur, en þó eru sumar norrænu borgirnar jafn norðarlega og Reykjavík með jafndimmt skammdegi og kaldari vetrarmánuði. 

Ég hef skoðað sérstaklega meirihluta þessara borga og þá hefur komið í ljós að almenningssamgöngum er yfirleitt heldur betur sinnt í þeim en gerist hér á höfuðborgarsvæðinu, líka í þeim borgum, sem eru dreifbýlli en Reykjavík. 

Norrænu borgirnar sem ég skoðaði voru Álaborg, Óðinsvé, Kaupmannahöfn, Osló, Bergen, Þrándheimur, Tromsö, Málmey, Gautaborg, Stokkhólmur, Sundsvall, Umeaa, Skellefteaa, Luleo, Aabo og Helsinki. 


mbl.is Einn af hverjum sex í Evrópu býr þröngt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumarhöfn um sinn.

Það á ekki að koma neinum á óvart þótt Landeyjahöfn verði aðeins notuð að sumri til á næstu árum.

Aðeins 15 kílómetra frá höfninni er mesti vindastaður landsins og einn sá mesti á jörðinni að vetrarlagi. 

Vikum og mánuðum saman sjáum við "eðlilegt ástand" á Norður-Atlantshafi þegar lægðir og lægðakerfi koma hvert á fætur öðru norður eftir vestanverðu Atlantshafi og bera rok og rigningu norður fyrir Ísland. 

Meðalástand í janúar er það, að fyrir suðvestan Ísland er lægsti meðalloftþrýstingur á jörðinni og fyrir norðan landið yfir Grænlandi er önnur mesta hæð heims. Saman búa þessi kerfi til mesta vindbelging á jörðinni. 

Þessu ástandi linnir ekki fyrr en í apríl-maí. Þá hefjast vorleysingar og Markarfljót og árnar austar á ströndinni skila líka aurburði til sjávar. 

Augljóslega er enginn friður fyrir aurburði í Landeyjahöfn fyrr en komið fram á sumar. Þá er mesti ferðamannastraumurinn milli lands og Eyja og mest ástæða til að nota höfnina.

Nær væri að auka mokstur þá en draga úr vonlausum mokstri á veturna. 

Að lokum: Landeyjahöfn opnar hvorki eitt né neitt.  Hins vegar opnast Landeyjahöfn ef sanddæluskip geta opnað hana. Fyrirsögn þessarar fréttar er rökleysa. Rökrétt fyrirsögn er: "Óvíst er hvenær Landeyjahöfn opnast."  Hvenær ætlar fjölmiðlafólk að læra jafn einfaldan hlut?


mbl.is Óvíst hvenær Landeyjahöfn opnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jafn bilaður og Hitler.

Adolf Hitler trúði á það að hann væri snillingur á öllum sviðum og þegar bandamenn sóttu inn í Þýskaland bæði úr austri og vestri var það efst í huga hans að berjast til síðasta blóðdropa þótt allir sæu að það myndi leiða milljónir manna í dauðann og valda yfirgengilegri eyðileggingu.

Á síðustu vikunum æpti han að þýska þjóðin hefði brugðist sér og ætti skilið að farast í vítislogum styrjaldarinnar, aðeins tvennt kæmi til greina: Sigur á síðustu stundu eða að Þýskaland og þýska þjóðin myndi farast og verða kramin undir hælum bolséviskra villimanna af óæðri kynþætti.

Hitler, eins og Gaddafí, sagði að ekkert annað kæmi til greina en að hann yrði í hópi þeirra sem berðist til síðasta blóðdropa og hlyti píslarvætti fyrir.

Síðustu vikurnar í stríðinu stýrði Hitler ímynduðum hersveitum gegn óvinunum og lifði í firrtum sýndarveruleika. Þegar Roosevelt Bandaríkjaforseti dó þremur vikum fyrir stríðslok hrópaði Göbbels upp í neðanjarðarbyrgi Foringjans: "Þetta eru straumhvörfin í stríðinu!" 

Gaddafí afgreiðir sendiráðsfólk Lýbíu um allan heim og þúsundir mótmælenda og hersveita, sem hafa snúist gegn honum, sem eiturlyfjafíkla og vesalinga sem eigi ekkert betra skilið en að vera drepnir. 

Hann hrópar: "Lýbía hefur notið einstakrar virðingar á alþjóðavettvangi!  Ég er mikilmenni!

Annað er eftir því og heimurinn horfir og hlustar á bullið í vitfirringnum í ótta og viðbjóði. 

Æði Hitlers kostaði milljónir manna lífið bara síðustu mánuði stríðs, sem var löngu tapað. 

Menn eins og Hitler og Gaddafí safna að sér þýlyndum jámönnum sem þrífast á því að mæra foringjann og segja honum allt sem hann langar til að heyra, burtséð frá hvort það sé satt eða logið. Smám saman er það allt lygi sem hann fær að heyra og sjá.

Þetta samband Foringjans og hinna auðsveipu jámanna hans er ávísun á verstu ófarir og hörmungar, sem hægt er að leiða yfir þjóðir. Þvi miður er ekki annað að sjá en að slíkt ástand ríki í Líbíu. 

 

 

 

þ
Slóð: p 

Villuleit í boði Púka

 
Þessi færsla hefur aldrei verið vistuð

Frétt af mbl.is

Gaddafi fer hvergi
Erlent | mbl.is | 22.2.2011 | 16:11
Muammar Gaddafi les úr „Grænu bókinni“, handbók eftir... Muammar Gaddafi, leiðtogi Líbíu, segir að hann muni ekki yfirgefa Líbíu. Hann muni deyja á á líbýskri grundu. Þetta sagði hann í sjónvarpsávarpi til líbísku þjóðarinnar.
Lesa meira

Færsluflokkur

Aðalflokkur:
Bloggar Bækur Dægurmál Enski boltinn Evrópumál Ferðalög Fjármál Fjölmiðlar Heilbrigðismál Heimspeki Íþróttir Kjaramál Kvikmyndir Lífstíll Ljóð Löggæsla Mannréttindi Matur og drykkur Menning og listir Menntun og skóli Pepsi-deildin Samgöngur Sjónvarp Spaugilegt Spil og leikir Stjórnmál og samfélag Sveitarstjórnarkosningar Tónlist Trúmál Trúmál og siðferði Tölvur og tækni Umhverfismál Utanríkismál/alþjóðamál Vefurinn Viðskipti og fjármál Vinir og fjölskylda Vísindi og fræði

Skrár tengdar bloggfærslu

Engar skrár hafa verið tengdar við þessa færslu.
Bæta við skrá

Athugasemdir

 Leyfa athugasemdir við færslu
í daga frá birtingu
Frekari stillingar

 


mbl.is Gaddafi fer hvergi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dæmi sem þarf að reikna.

Í kosningabaráttunni 2007 kom upp í umræðum okkar í Íslandshreyfingunni að endurmeta þyrfti þðrf á strandsiglingum vegna þess að kostnaðardæmið væri ekki rétt reiknað, - slitið á þjóðvegunu væri vanmetið.

Kunnáttumenn lýstu því fyrir okkur hvernig þungu bílarnir eyðileggja undirlag veganna á stóru köflum, mylja það niður svo að vegirnir lækka og verða öldóttir. 

Þá lá ekki fyrir neitt mat á þessu en nú liggur fyrir að vöruflutningarnir kosta aukalega 2,5 milljarða á ári. 

Næsta skref hlýtur að vera að finna út hve mikill samsvarandi kostnaður er við strandflutningana. 

Erfiðleikarnir við málið eru þeir, að vöruverð á landsbyggðinni er mjög háð kostnaði við flutninga og því getur verið útkoman hugsanlega orðið sú að þungaskattur sem lagður væri á svo að þeir borguðu sem notuðu bitnaði á landsbyggðarfólki. 

Hins vegar þarf að skoða vel hvort ekki megi vega það upp með auknum strandsiglingum ef þær eru hagkvæmari. Í mörgum tilfellum skiptir hraði sendinga ekki öllu máli, en taka þarf með í reikninginn þann viðbótarkostnað við strandsiglingarnar sem fylgir því að flytja vörurnar frá hafnarsvæðu í geymslur þar sem þess gerist þörf. 


mbl.is Helmingur viðhaldskostnaðar vegna vöruflutningabifreiða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf samræmd lög um þjóðaratkvæði.

Ástæða þess að 26. grein stjórnarskrárinnar hefur fengið líf er sú, að allt frá 1944 til 2010 var aldrei haldin hér þjóðaratkvæðagreiðsla um neitt af þeim málum, þar sem greina mátti áhuga stórs hluta landsmanna, jafnvel meirihluta landsmanna, um mikilsverð mál.

Ef hér hefði verið samræmd löggjöf um þjóðaratkvæðagreiðslur, skilyrði fyrir þeim og því hvaða mál væru tæk, hefði forsetinn hugsanlega ekki talið sig hafa ástæðu til að beita þessari grein. 

Til þess að tryggja sem best valdajafnvægi milli forseta, þings og ríkisstjórnar, mætti hugsa sér að í samræmdum lögum um þjóðaratkvæðagreiðslur væru ákvæði um það hvernig þessi aðilar gætu, ef þeir teldu það nauðsynlegt, vísað málum hvers annars til þjóðarinnar. 

Í margítrekuðum tilraunum til þess að koma þessu lagaumhverfi á fót í þau 67 ár, sem liðin eru síðan Alþingi lýsti yfir þeim vilja sínum að stjórnarskráin yrði endurskoðuð, hefur aldrei tekist að fá fram samstöðu um að gera nauðsynlegar endurbætur í þessum efnum.

Hér er augljóslega verk að vinna fyrir stjórnlagaþing. Það gengur ekki að mínum dómi að eini möguleikinn til þess að mikilsverðum málum sé ráðið til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu sé sá í praxis, að  aðeins einn maður og enginn annar hafi það í hendi sér hvort valdið sé fært til þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu og hafi þar að auki algerlega óbundnar hendur um það.

En meðan ekki hafa verið samræmd og brúkleg lög um þjóðaratkvæði hef ég verið fylgjandi því að 26. greinin hafi haldið þessum möguleika opnum, en jafnframt hef ég í áratugi verið þeirrar skoðunar að setja ætti samræmd lög um þjóðaratkvæðagreiðslu.


mbl.is Vill breyta 26. greininni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ódauðlegur hundur.

Leitun mun að minna og ræfilslegra kvikindi sem orðið hefur jafn frægt og haft eins mikil áhrif og hundurinn Lúkas. Áhrif hans á umgengni fólks við sannleikann og það, sem fólk lætur frá sér fara opinberlega í nýjum samskiptamiðlum urðu vissulega mikil, þótt hann vissi það auðvitað aldrei, blessaður, hvað útivist hans ofan við Akureyri ætti eftir að draga mikinn dilk á eftir sér.

Nokkur dýr önnur hafa orðið fræg í gegnum tíðina, og má þar til dæmis nefna tíkina Lucy, sem var í eigu Alberts Guðmundssonar og varð landsfræg þegar eigandinn hélt því til streitu að hafa hana hjá sér þrátt fyrir kæru um brot á reglum um hundahald í borginni. 

Kýrin Sæunn í Valþjófsdal í Önundarfirði hlaut frægð á níunda áratugnum fyrir að slíta sig lausa frá þeim, sem voru að leiða hana til slátrunar, og komast undan með því að synda yfir Önundarfjörð. 

Þegar verið var í herferð gegn mæðiveiki snemma á sjötta áratugnum og fargað var öllu fé á stórum hluta landsins, slapp ærin Surtla frá Herdísarvík undan mönnum mánuðum saman, þótt hún væri hundelt í bókstaflegri merkingu af byssumönnum. 

Fréttirnar af henni voru ofarlega á baugi í margar vikur þangað til að loks tókst að fella hana. 

Er Herdísarvíkur-Surtla líkast til frægasta sauðkind Íslandssögunnar.

Öll fyrrnefnd dýr hafa hlotið ódauðlega frægð í þjóðarsögunni og því skiptir litlu, þótt Lúkas sé allur, nafn hans mun uppi meðan land byggist! 


mbl.is Lúkas dauður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Getur ekki stefnt í aðra átt.

Órói í Arabalöndum er talin aðalástæða hækkaðs olíuverðs en raunveruleg ástæða þess að dýrðardagarnir frá tímum Gróðabólunnar koma aldrei aftur liggur dýpra, - aðallega af tveimur ástæðum.

1. Aukin eftirspurn eftir olíu, einkum í rísandi efnahagsveldi Kína. Ekki sér fyrir endann á þeim ótrúlega hagvexti sem þar er og á meðan að krafan um endalausan hagvöxt er trúaratriði í efnahagslífi heimsins stefnir eftirspurnin áfram upp á við. 

2. Hámarki olíualdar hefur verið náð og leiðin liggur óhjákvæmilega niður á við, þótt hægt sé að skekkja þetta tímabundið með því að auka vinnsluna. Fyrir hvert olíutonn sem finnst í nýjum lindum, þverra birgðirnar, sem felast í núverandi lindum um sex tonn. Æ dýrara verður að finna og vinna nýjar olíulindir. 

Tímabundin aukning vinnslu til að slá á afleiðingar hækkaðs olíuverðs verður aðeins til þess að flýta fyrir óhjákvæmilegum samdrætti.  Og eftir því sem tíminn líður verður þar að auki erfiðara og dýrara að auka vinnsluna og er líklega þegar komið að því ástandi, að það sé ekki hægt, enda herma nýjar fréttir, að helstu birgðirnar, sem eru í Sádi-Arabíu, séu minni en af hefur verið látið.

Okkur finnst eldsneytisverðið hræðilega hátt hér á landi, en samt er það hærra í mörgum löndum í kringum okkur. 

Norðmenn eru líklega eina þjóðin sem sýnir viðleitni til raunsæis í þessum málum með því að skattleggja eldsneytið mjög hátt til þess að eiga meiri möguleika á að fást við samdráttinn sem mun óhjákvæmilega koma þegar olíulindirnar þverra. 

 


mbl.is Verð á bensíni hækkar enn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband