Verður er verkamaðurinn launa sinna.

Ofangreind orð úr Biblíunni þekkja flestir en stundum er það þannig, að þau séu samt ekki viðurkennd. 

Ég er það gamall að ég man þá tíð þegar Jón Leifs gerðist brautryðjandi í réttindamálum tónskálda og eigenda flutningsréttar, en þau voru þá fyrir borð borin.

Ég man hið gamla samfélag þar sem vinnuafköst voru mæld í kílóum, tonnum, lítrum og öðrum áþreifanlegum verðmætum sem vinnufúsar hendur skópu eða handfjötluðu.

Tónlistarmönnum var að vísu borgað fyrir að handleika hljóðfæri og framleiða með því tónlist og í einstaka tilfellum borgað fyrir að semja hana en lengra náði það ekki.

Jón Leifs og aðrir brautyðjendur í höfundarréttarmálum þurftu að brjótast í gegnum þykkan múr fordóma og skilningsleysis sem enn eimir af eins og nýleg mál sýna. 

Allir skilja að ef maður lætur einhverjum bíl sinn eða eign til afnota sé rétt að greiða fyrir þau afnot.

En þegar kemur að tónlist, skáldverkum eða annarri list tekur undarleg viðleitni við hjá mörgum þess efnis að reyna allt sem hægt er til að komast hjá því að borga nokkuð fyrir afnotin.

Með tölvu- og nettækninni steðja ný viðfangsefni að í þessum efnum eins og sést á nýjustu dæmunum um málaferli og varnarviðbrögð þeirra sem sannanlega skópu verðmætin, sem um er að ræða, en reynt er að ræna afkomugrundvelli sínum með því að hafa af þeim þau laun, sem vinna þeirra og hugvit hafa skapað. 


mbl.is Ánægður með dóm Hæstaréttar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var nálægt því að taka mynd af eigin dauðdaga.

Myndin af hörmulegu þyrluslysi í Brasilínu minnir mig óþyrmilega á það að fyrir tólf árum munaði aðeins fáum mínútum að ég tæki mynd af eigin dauðdaga í banaslysi.

Ég var einn á ferð við mynni íshellisins undir Kverkjökli í Kverkfjöllum þar sem hin volga á Volga kemur undan jöklinum. 

Þá höfðu stórir ísklumpar verið að falla úr bogadreginni hvelfingunni yfir munna hellisins og ég vildi gera frétt til aðvörunar fyrir ferðamenn, enda hefur orðið eitt banaslys við svona aðstæður í mynni íshellis við Hrafntinnusker.

Fyrst stóð ég nálagt munnanum og talaði þar nokkur orð fyrir framan myndavélina en flutti hana síðan í nokkurra tuga metra fjarlægð til að taka fjærmynd af mér á sama stað til að sýna stærðarhlutföllin.

Þegar ég kom til baka úr þessum leiðagnri byrjaði ég að taka mynd af bresti sem var í ísstálinu yfir munnanum og fyrir ótrúlega tilviljun byrjaði bresturinn að gliðna á þeirri sekúndu sem ég "súmmaði" inn á brestinn !

Ég víkkaði myndina út og um leið féll um 1000 tonna ísstál niður og þeytti skæðadrífu af stórum ísklumpum í gríðarlegri gusu þar yfir sem ég hafði staðið nokkrum mínútum fyrr !

Líkurnar á að ná þessari mynd voru einn á móti 30 milljónum, því að svona stórt stykki hafði ekki fallið niður í heilt ár.

Hins vegar munaði aðeins örfáum mínútum að myndavélin hefði tekið af því mynd að ísstálið félli niður meðan ég stóð undir því og hefði það orðið magnað skot, - því verður ekki neitað, hreint einstakt í sjónvarpssögu heimsins.

Kannski hafði Steindór Andersen þetta einstæða atvik í huga þegar hann gerði okkur báðum til gamans vísu um mig, sem ég held afar mikið upp á, því að þessi frábæra níðvísa byrjar þannig, að halda mætti að hún væri hólvísa. 

Og ég tek fram að vísur af þessari gerð eru íslensk íþrótt sem á ekkert skylt við illvilja eða illkvittni, heldur mest til gamans.

Svona er þessi frábæra vísa:  

 

Hann birtu og gleði eykur andans, -  /

og illu burtu hrindir.  /

Og þegar hann loksins fer til fjandans  / 

fáum við sendar myndir !  

 


mbl.is Tók mynd af þyrluslysi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðhátíð í Klapparhlíð.

Ég segi stundum í gamni um tengdason minn í Klapparhlíð 30 að nú sé þjóðarsorg í Klapparhlíðinni þegar Arsenal tapar leik.

Hann er óhagganlegur aðdáiandi og fylgismaður liðsins en ég segist vera Púlari af því að það lið sé með flottasta baráttusönginn. 

DSCF0502

Ég á 37 ára gamlan og lúinn Range Rover jöklajeppa með jafn gamalli Nissan Laurel dísivél.

Hann er viðbragsðbíll á fjöll ef til þess kæmi að fara ferð með mannskap og tæki í myndatökuferð.

Þegar ég keypti hann á slikk fyrir sjö árum var Arsenal-merki í gluggum bílsins og ég hef ekki fjarlægt þau.

Þau glöddu tengdason minn mikið þegar hann sá bílinn fyrst eins og meðfylgjandi mynd ber með sér. 

Ég var hrifinn af andanum í viðtalinu við þjálfara Arsenal í kvöld þess efnis að peningaaustur með himinskautum eigi ekki að ráða úrslitum í knattspyrnunni, en hann átti víst aðallega við Chelsea.

DSCF0503

Og það hlýtur að hafa glatt hann að Chelsea tapaði í kvöld fyrir Everton.  

Nú er líklegast þjóðhátíð í Klapparhlíðinni eftir úrslit kvöldins og sjálfsagt líka á Birkimelnum hjá Bjarna Fel.

Hér á Háaleitisbrautinni er þó engin þjóðarsorg heldur samgleðst ég Friðriki Sigurðssyni og mínum gamla vini og fóstbróður Bjarna Fel. 

Ég hef ekki innt syni Friðriks og Iðunnar dóttur minnar, þá Sigurð Kristján og Birki Ómar, eftir því með hvaða liði þeir halda og fer því varlega í þau mál.

Þess vegna ætti ég kannski að fara varlega í það nú og framvegis í því að lýsa yfir þjóðarsorg eða þjóðhátíð í Klapparhlíðinni.  

 


mbl.is Arsenal lagði Liverpool - United náði stigi - Chelsea tapaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góðar fréttir.

Ég tafðist aðeins við að skrifa þennan bloggpistil. Ástæðan er sú að stóriðjufíklar eru strax byrjaðir að hamra á síbyljunni um að ég og skoðanasystkin mín leggist gegn öllum virkjunum og séum á móti allri atvinnuuppbyggingu, þar á meðal Búðarhálsvirkjun. 

Maður neyðist til að bera hönd fyrir höfuð sér í athugasemdum við þessi blogg og ég þurfti raunar í gær líka að bera þær sakir af mér, umhverfisráðherra og fleirum, að við séum líklega á móti fjölgun starfa hjá Actavis.  

Skiptir þá engu máli að við höfum einmitt viljað berjast fyrir því að skapa slík störf en stóriðjufíklar kallað það óraunhæfar lausnir.  

Ein bloggfærslan vegna fréttarinnar um Búðarhálsvirkjun hér á mbl.is lætur að því liggja að Svandís Svavarsdóttir hafi ekki þegar brugðist hart við gegn henni, vegna þess að hún viti ekki enn um hana !

Þessir þyljendur síbyljunnar um að ég og skoðanasystkin mín viljum fara aftur inn í torfkofana og séum á móti rafmagni hafa ekkert fyrir því að athuga hver afstaða okkar er til Búðarhálsvirkjujar eða fjölgunar starfa hjá Actavis.

Nei, brugðist er hart við og áróðurinn um fjallagrasatínsluna og moldarkofana er keyrður upp samstundis.

Fyrirsögn þessa bloggpistils, "Góðar fréttir" segir það sem segja þarf um það, að mér vitanlega hefur ekki ein einasta manneskja sagt eitt einasta styggðaryrði í garð þessarar framkvæmdar heldur hafa þeir talsmenn náttúruverndar, sem um hana hafa verið spurðir, verið fylgjandi henni. 

Ég er fylgjandi henni líkt og ég hef verið fylgjandi virkjunum, sem ég gæti talið upp í löngum lista og hef raunar gert, en það hefur ekki minnstu áhrif á stóriðjufíklana, sem ætla sér að komast upp með að úthrópa okkur náttúruverndarfólkið sem öfgafólk.

Því að fólk, sem er að móti atvinnuuppbyggingu og rafmagni hlýtur nefnilega að vera þjóðníðingar og öfgafólk. 

Hinir, sem vilja fórna allri orku Íslands og þeim náttúruverðmætum sem það kostar og leysa atvinnuvandann með því að skapa störf í álverum sem nemur 2% vinnuafls hér á landi, eru taldir hófsemdarmenn og þjóðvinir.

Nú síðast kemur í ljós að þrátt fyrir að mat á umhverfisáhrifum SV-línu sé ekki lengur "hindrun í vegi hennar", eru það önnur atriði sem tefja hana. En samt er Svandísi kennt um töfina.

Það er vandlifað um þessar mundir og verður fróðlegt fyrir seinni tíma kynslóðir að lesa þessi skoðanaskipti sem nú fara fram hér á blogginu.  

 


mbl.is Útboð vegna Búðarhálsvirkjunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Las Brown bloggið mitt?

Fyrir um það bil ári bloggaði ég um það að í viðleitni minni til að stöðva þyngingu mína hefði ég farið í saumana á mataræðinu og komist að því að ein af ástæðunum fyrir vaxandi líkamsþyngd væri sá gamli siður, sem ég tók upp fyrir meira en hálfri öld að neyta þjóðarréttar Íslendingar sem þá var nýbúinn að ryðja sér til rúms og hét og heitir enn "Kók og Prins."

Ég fann út að þriðjungur Prins Pólósins væri hrein fita og restin sykur og að þetta ætti stóran þátt í því að eftir að ég hafð lést í veikindum í hitteðfyrra um 16 klíó, niður í 74 kíló, hafði ég í gleði minni yfir batanum og því að geta í fyrsta sinni í 40 ár étið eins og mig lysti, náð öllum 16 kílóunum til baka, 10 kílóum meira en góðu hófi gegndi. 

Með því að minnka Prins Póló neysluna niður í eitt stykki á viku "nammidaginn", sunnudag, gæti ég sparað 7-8 þúsund krónur á mánuði og tekið í burtu eitt til tvö kíló af þyngingu í leiðinni. 

Gordon Brown hefur neytt óhollara súkkulaðis, því að Kit-Kat er með ljóst súkkulaði sem telst óhollara en dökkt súkkulaði eins og er í Prins Póló. 

Nýlega var ég þó að lesa að í dökku súkkulaði sé koffein sem gerir það að þreföldu fíkniefni, koffein, fita og hvítasykur. 

Það versta við þetta uppátæki Browns er það að þessi skúrkur sem hann er í augum allra sannra Íslendinga, fær ákveðna samúð þjáningarbróður síns, eða eigum við að segja nautnabróður, því að auðvitað værum við ekki að borða þetta nema vegna þess hvað okkur finnst það rosalega gott og mikill gleðiauki í lífinu. 

Brown skipti yfir í banana. Ég yfir í epli. Tæknivætt "Apple"-lýðveldi er skárra en bananaríki.  


mbl.is Gordon Brown skiptir KitKat út fyrir banana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamla stemningin að koma aftur ?

Aðeins fjórtán ára gamall átti ég þess kost að dvelja í sex vikur á venjulegu heimili í Kaupmannahöfn og fara á alþjóðlega æskulýðsráðstefnu þar. 

Síðan þá hefur mér ævinlega fundist ég vera kominn heim ef ég hef komið við í Kaupmannahöfn á leið til Íslands frá fjarlægum slóðum. 

Ráðhústorgið var þá miklu skemmtilegra en nú, því að göturnar iðuðu af hjólreiðafólki og gangstéttir af fólki en bílarnir voru miklu færri en nú er.

Mér fannst það óskiljanlegt þegar hin forljóta umferðarmiðstöð var reist á torginu gersamlega á skjön við allt umhverfi sitt og fagna því mjög að eiga þess kost að koma aftur á torgið og fá smá smjörþef af gamalli stemningu sem ekki er raskað með jafn ljótu mannvirki og umferðarmiðstöðin hefur verið síðustu fimmtán ár.  


mbl.is „Ljótasta hús“ Danmerkur rifið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Valdið spillir.

Peningar eru eitt afbrigði af völdum og lögmálið er að vald spillir og því meira og langvinnar sem valdið er, því meiri er spillingarmáttur þess. 

Það sannast á sorphirðumanninum sem vann tvo milljarða í lottói og sóað öllu fénu og svipað lögmál var orsök efnahagshrunsins hér á landi.  

George Best var einhver mesti knattspyrnumaður sem enska knattspyrnan hefur haft innan sinna raða og hafði tekjur í samræmi við það.

Hann lést langt um aldur fram vegna þess að hann réði ekki við frægð, fé og frama og drap sig á drykkju og dópi.

Ég þekki mörg dæmi um að það hefur verið lífsmunstur slíkra manna að geta ekki lifað lífinu öðru vísi en að "detta í það" með reglulegu millibili og fara út á lífið. 

Þegar Best leit yfir farinn veg mælti hann þessi fleygu orð: "Ég eyddi mestu af peningunum mínum í vín og konur og afganginum í einhverja bölvaða vitleysu." 


mbl.is Vann tvo milljarða í lottói en er kominn aftur á bætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nei, þið segið ekki !

Nú er illt í efni fyrir þá sem hafa hamast á Svandísi Svavarsdóttur fyrir að bregða fæti fyrir SV-línu. Í ljós kemur að engu skiptir þótt græna ljósið sé komið á þeim vettvangi.

Það liggur nú fyrir að það tefst af öðrum ástæðum að hefja undirbúning að lagningu línunnar. 

Nú les maður á bloggsíðum stóriðjufíkla að VG og umhverfisverndarfólki hljóti að líka illa að fjölga eigi um 50 störf hjá Actavis í Hafnarfirði vegna þess að umhverfisverndarfólk sé á móti allri atvinnuuppbyggingu!

Þetta er skrýtin röksemdarfærsla. Umhverfisverndarfólk hefur haldið því fram alla tíð að atvinnuuppbygging af öðru tagi en því að rústa náttúruperlum landsins skapi fleiri og betri störf en álverin án slíkra fórna.

Reynt hefur verið að hæða okkur og spotta fyrir þetta með því að segja að hugmyndir okkar séu ónýtar, þetta "eitthvað annað" sem við tölum um sé ekki raunhæft og að við höfum ekkert fram að færa nema fjallagrasatínslu.

Þegar síðan kemur í ljós að hugmyndir okkar eru raunhæfar, þá er ráðist á okkur fyrir það að við séum á móti því að þær séu framkvæmdar af því að við séum á móti allri atvinnuuppbyggingu !  

 


mbl.is SV-lína áfram á ís
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Að standa við gefnar skuldbindingar..."

Hversu oft skyldi ofangreind orð ekki hafa verið sögð allt frá símtali Árna Mathiesen við Alistair Darling til þessa dags?

Á öllum stigum málsins hafa allir þeir Íslendingar sem gefið hafa yfirlýsingar um Icesave-málið, forsetinn, ráðherrarnir og talsmenn flokkanna hamrað á þessu af augljósri ástæðu: Umheimurinn verður að geta treyst því að Íslendingar haldi orð sín, annars missa þeir alla tiltrú.

Ísland er eylanda og fá lönd eru eins háð því að eiga traust og mikil viðskipti við aðrar þjóðir.

Útilokað er að stunda nein viðskipti nema að orð standi og hægt sé að treysta á samninga.

Málið fór strax í þann farveg og hefur verið í honum síðan að leysa þyrfti þessa deilu með samningum.

Héðan af verður ekki hægt að ganga til samninga öðruvísi en að hægt sé að treysta því af beggja hálfu að samningarnir, hverjir sem þeir verða, standi, og að báðir aðilar hafi haft fullt umboð til að gera þá.

Hitt er hins vegar höfuðatriði að samningarnir séu sanngjarnir og taki mið af eðlilegri dreifingu þeirra byrða sem sameiginleg ábyrgð þriggja þjóða hefur í för með sér.

Samningar geta aldrei orðið sanngjarnir ef annar aðilinn neytir aflsmunar og sýnir af sér bæði ósanngirni og óskynsamlega nauðung í garð hins aðilans.

Tíminn hefur unnið með okkur til þessa í þá veru að afla skilnings erlendis á eðli þessa máls og nauðsyn þess að gera "fair deal" sem meðal annars felist í eðlilegum fyrirvörum. 

Takmörk eru hins vegar fyrir því hve langan tíma við höfum og spurning hvenær tíminn fer að vinna á móti okkur.

Vandinn felst í því að meta þetta rétt og um það mat og samningana sjálfa þarf að fást sú samstaða að lausn málsins verði föst í hendi fyrir alla aðila.  


mbl.is Kröfðust pólitískra sátta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minnir á 1953.

Fréttirnar um að biðlað sé til Framsóknarmanna um að koma og styrkja ríkisstjórnina minnir á ástandið eftir kosningarnar 1953.

Þá höfðu Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn verið í stjórn í þrjú ár og framundan voru erfið viðfangsefni. Vegna löndunarbanns á íslenskan fisk í Bretlandi var erfitt efnahagsástand hér sem kom betur fram árið eftir en þá var ein af dýpri lægðum í efnahagnum hér á landi, allt reyrt í fjötra hafta og banna og ekki glæsilegt að þurfa að fást við það.

Þótt Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hefðu mjög ríflegan meirihluta á þingi vegna ranglátrar kjördæmaskipunar var undiralda í Framsóknarflokknum.

Ólafur Thors hafði stjórnarmyndunarumboðið og menn vildu forðast sama vandaræðaganginn og 1950 þegar leita varð til Steingríms Steinþórssonar, búnaðarmálastjóra og alþingismanns, um að verða forsætisráðherra, því að trúnaðarbrestur var milli Ólafs Thors og Hermanns Jónassonar sem eitraði öll stjórnmál á Íslandi í tvo áratugi.

Hermann vildi ekki setjast í stjórn undir forsæti Ólafs og öfugt. Þá komu upp raddir um að styrkja stjórnina með því að fá Alþýðuflokkinn inn í hana. Af því varð ekki og varla var liðið meira en ár af stjórnarsamstarfinu þegar menn þóttust verða þess varið að Hermann Jónasson leitaði að nýju stjórnarmynstri og væri á bak við tjöldin i stjórnarandstöðu á köflum ásamt óánægðum vinstri armi í Framsóknarflokknum.

Sumir Framsóknarmenn töldu krata vænlegan kost til að auka vægi vinstri manna í stjórninni.

Ástandið 1953 hefði áreiðanlega ekkert lagast við að fá krata inn. Þetta stjórnarmynstur, Stefanía, sem svo var kallað eftir daga þriggja flokka 1947-49 hefur reynst illa.

Með því að kalla Framsókn inn í stjórnina nú sýnist mér verið að koma sökinni af hruninu enn frekar yfir á Sjálfstæðisflokkinn en þó hefur verið réttilega gert. Hann færi þá einn í skammarkrókinn en Framsókn yrði tekin í sátt.

Ég sé ekki að þetta hafi mikið upp á sig. Stóriðju- og virkjanafíklarnir myndu fá aukið vægi í svona stjórn og finnst mér ekki á slíkt bætandi.

Stundum er svona sögum komið á kreik, þótt ólíklegar séu, til þess að hræra í stjórnmálapottinum. Kannski er slíkt á ferðinni nú, hver sem það nú er, sem sér sé hag í því að koma svona kvitt á framfæri.


mbl.is Biðla til Framsóknarmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband