Leyfilegu fíkniefnin verst og skaðlegust.

Það er viðurkennt í röðum þeirra, sem fást við að hjálpa fíkniefnaneytendum til þess að vinna bug á fíkn sinni, að nikótín sé erfiðasta fíkniefnið við að fást.

Svo erfitt er það viðfangs, að þegar fólk, sem reykir, reynri að hætta neyslu annarra fíkniefna, er því ráðlagt að geyma það að reyna að hætta reykingunum, því að bæði sé það svo erfitt og einnig geti það gert það of erfitt að hætta neyslu annarra efna.

Reykingar Obama Bandaríkjaforseta eru dæmi um það að fíkniefni fara ekki í manngreinarálit, gáfur, staðfesta og aðrir frábærir eiginleikar segja ekkert fyrirfram um það hvernig viðkomandi einstaklingi muni ganga að umgangast fíkniefni. 

Meira að segja getur viðkomandi gengið misvel að fást við þau. Þannig þekkti ég á árum áður náið mann, sem gat aldrei hætt að drekka áfengi, þótt hann færi í meðferð, en gat reykt eða reykt ekki hvenær sem honum sýndist og átti aldrei í minnstu erfiðleikum með að ráða við það. 

Tölurnar tala sínu máli: 8% þeirra sem neyta hass, missa stjórn á því, 12-13% áfengisneytenda, 18% kókaínneytenda, 23% heróínneytenda og 33% nikótínneytenda. 

Nýleg rannsókn sem ber saman það tjón, sem fíkniefni valda, hefur leitt í ljós að vegna útbreiðslu sinnar og annarra áhrifa sé áfengið mesti skaðvaldurinn. 

Fróðleg niðurstaða: Leyfilegu fíkniefnin, áfengi og nikótín, eru verst viðfangs og skaðlegust. 


mbl.is Obama hættur að reykja, segir forsetafrúin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Réttur 82 þúsund kjósenda.

Rúmlega 82 þúsund Íslendingar, sem neyttu helgasta réttar lýðræðisins í haust í kosningum með úrslitum, sem ekki hafa verið bornar brigður á, eru í raun helstu þolendur í þeirri stöðu, sem upp er komin eftir úrskurð Hæstaréttar.

Í lögunum um stjórnlagaþingið segir að þar sem ekki sé sérstaklega tiltekið um kosningatilhögun gildi lög um alþingiskosningar "eftir því sem við á."

Hæstiréttur sleppir þessum fimm orðum í úrskurði sínum og skoðar þar af leiðandi ekki þann mismun sem er á þessum tvennum kosningum og framkvæmd þeirra, annars vegar listakjör og hins vegar persónukjör. 

Í alþingiskosningum er hægt að sjá á nokkurra metra færi hvar kjósandi hefur sett kross við einn af 5-6 listum en til þess að sjá hrúgu af að meðaltali 60 tölustöfum á kjörseðli í stjórnlagaþingkosningunum, þarf að standa yfir kjósandanum og skrifa niður eða ljósmynda seðilinn eða hafa límheila við að leggja hann á minnið.

Kosningaaðferðin, sem notuð var í stjórnlagaþingkosningunum er meira en aldar gömul og í mörgum nágrannalöndum okkar eru notaðir samskonar kjörklefar eða afdrep og sams konar kjörkassar og kjörseðlar og voru notaðir í kosningunum hér. 

Hvergi hefur verið gerð athugasemd við þetta erlendis og þaðan af síður kosningar ógiltar. 

Hæstiréttur telur "verulegan annmarka" að seðlar höfðu númer og segir "alkunnugt er" um það að menn standi í kjördeildum og skrifi niður þótt engir kannist við að slíkt hafi verið gert í þessum kosningum. 

Rétturinn rannsakaði þetta greinilega ekki og fjallar ekkert um það hvað síðan hefði þurft að gera til þess að "rekja seðlana."  En til þess að það hefði verið hægt hefði maður á vegum frambjóðanda ekki aðeins þurft að skrifa númer seðla niður á kjörstað, heldur hefði frambjóðandi líka þurft að hafa mann á sínum snærum við talninguna til þess að finna viðkomandi kjörseðla þar.

En Hæstiréttur telur það einmitt vera "verulegan ágalla" að engir fulltrúar frambjóðenda hefðu verið við talninguna (!) -  telur það sem sé vera "verulegan ágalla" að frambjóðendur skyldu ekki geta haft fulltrúa til að "rekja atkvæðin"!

Leiðarahöfundur einn taldi á dögunum þá vera "tapsára" sem vildu neyta lagalegs réttar síns í þessu máli og fer háðulegum orðum um þá.

Sami leiðarahöfundur notar hins vegar engin slík orð um þá sem ekki náðu kjöri en kærðu framkvæmd kosninganna og höfðu til þess fullan rétt.  

Fróðlegt er fyrir þá rúmlega 82 þúsund Íslendinga, sem voru sviptir helgasta rétti lýðræðisins að heyra um það hvað þeir séu "tapsárir." 

Úrskurðir Hæstaréttar geta haft fordæmisgildi. Í úrskurðinum er mikið talað um leynd, sem er frumskilyrði. Leyndin virkar í báðar áttir, - annars vegar þá að kjósandinn geti treyst því að leynd sé yfir því hvernig hann kaus, en leyndin er líka nauðsynleg varðandi það að kjósandi geti ekki sannað hvernig hann kaus og þar með ekki sannað það fyrir stjórnmálamanni eða stjórnmálaafli, sem vill styðja hann og fá atkvæði í staðinn, að atkvæðið hafi verið greitt á umsaminn veg. 

Kjósandi eða hópur kjósenda getur í núgildandi kerfi rofið þessa leynd með því að auðkenna atkvæði sitt á löglegan hátt, til dæmis með því að endurraða nokkrum nöfnum neðarlega á framboðslista á þann hátt að það auðkenni seðil hans í raun. 

Fulltrúi framboðslista á talningarstað gæti siðan væntanlega "rakið" atkvæðið eða atkvæðin.

Auðvitað er þetta fjarlægur möguleiki en þó margfalt auðveldari en allt það flókna samsæri sem hefði þurft til að "rekja atkvæði" í stjórnlagaþingkosningunum. 

 Fordæmi gæti hins vegar verið komið fyrir því að kæra næstu alþingiskosningar og fá þær úrskurðaðar ógildar ef tekið er mið af úrskurði Hæstaréttar nú. 

Í almennri lögfræði er kennt að við úrskurði og dóma verði að líta á nokkur önnur atriði en beinan lagatexta, svo sem "eðli máls", "lögjöfnun","vilja löggjafans" og "greinargerðir og umræður."

Það, að Hæstiréttur sleppir orðunum "...eftir því sem það á við" sýnir hve þröngt sjónarhornið er í þessum úrskurði.

Talað er um "aðför að Hæstarétti" þegar dirfst er að rýna í og rökræða úrskurðinn. Samkvæmt þeirri hugsun er það "aðför að Hæstarétti" þegar Mannréttindadómstóll Evrópu kemst að annarri niðurstöðu en Hæstiréttur. 

Og síðan situr eftir spurningin: Fyrst enginn fulltrúi frambjóðenda var á talningarstað, hvers vegna var þá ekki hægt að taka seðlana til endurtalningar, má af þeim upphaflegu númerin og setja inn önnur og telja að nýju? 

Er nokkuð sem mælir gegn því að sannreyna úrslit kosninganna? 


mbl.is Vilja að Hæstiréttur endurskoði ákvörðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig má þetta verða?

Enn eitt árið fækkar íbúum á Austurlandi þótt á fjórða ár séu síðan álverið í Reyðarfirði tók til starfa og þrjú ár síðan virkjanaframkvæmdum þar var að mestu lokið. Hvernig má þetta verða?

Áður en farið var í framkvæmdirnar eystra var fullyrt að fólki myndi fjölga þar um 1500 manns til frambúðar.

Ekki var gert ráð fyrir að einn einasti maður myndi nota tækifærið þau misseri sem húsnæðisverð rauk upp og flytja burtu. 

 Á eftirminnilegum fundi Íslandshreyfingarinnar á Húsavík fyrir kosningarnar 2007 gekk hópur manna að okkur með kreppta hnefa á lofti og hrópaði: "Þið ætlið að koma í veg fyrir að við getum flutt í burtu!" 

Þegar samdráttur varð á Akureyri vegna hruns markaðsins í Sovétríkjunum kom upp krafa þar um að reisa álver "til þess að bjarga Eyjafirði."

Það var ekki gert og núna fjölgar fólki ár eftir ár á Norðurlandi eystra þar sem ekkert álver hefur risið. 

Hvernig má þetta verða? 

Þessu hefur í raun verið svarað í ótal rannsóknum og á ótal ráðstefnum um vandamál jaðarbyggða þar sem niðurstaðan hefur í  grófum dráttum verið sú, að þau byggðarlög dafni þar sem er fjölbreytt atvinnustarfsemi og menning en hinum hraki þar sem er einhæft atvinnulíf, oft byggt á verksmiðjum, sem framleiða eingöngu hráefni. 

 


mbl.is Landsmönnum fjölgaði 2010
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Væri stjórnarskrárbrot víða erlendis.

Nú velta menn vöngum yfir því hvort bóndinn á Efri-Engidal í Skutulsfirði eigi rétt á skaðabótum og þá á hendur hverjum. Einnig velta menn vöngum yfir því hvort eða hver ákvæði laga fjalli um svona tilfelli.

Í stjórnarskrám margra annarra landa er rétturinn til heilnæms og óspjallaðs umhverfis stjórnarskrárvarinn og væri því ekki  um neitt vafamála að ræða ef slíkt ákvæði væri hér á landi og í tengslum við slíkt ákvæði væru ákvæði sérlaga sem tryggðu að þessi krafa stjórnarskrárinnar væri virt á öllum sviðum.


mbl.is Díoxínmengað kjöt fór á markað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það var mikið!

Ég hef verið að blogga aftur og aftur um nauðsyn þess að Íslendingar taki upp hætti siðaðra þjóða í umferðinni og hafa mér einkum verið hugleikin nokkur atriði eins og ónóg notkun stefnuljósa og algert hirðuleysi og tillitsleysi varðandi hegðun ökumanna við þrengingar á vegum og skiptingum umferðar á milli akreina.

Hringtorgin eru ekki verstu staðirnir heldur T-gatnamót og gatnamót með fleirum en einni akrein. 

Alræmd gatnamót eru gatnamót Grensásvegar og Fellsmúla, þar sem ökumenn, sem koma niður Fellsmúla halda oft umferðarteppu í gíslingu, - bílum, sem koma upp úr Skeifunni og ætla að beygja til suðurs inn á Grensásveg. 

Bílstjórarnir, sem koma niður Fellsmúlann og ætla til hægri, gefa yfirleitt ekki stefnuljós og þegar þeir gefa þau, þora bílstjórar, sem koma úr Skeifunni, samt ekki að beygja, vegna þess að stundum þjösnast bílstjórarnir sem koma niður Fellsmúlann inn á innri akreinina á Grensásveginum, og vegna þess hvað þetta er algengt hika menn við að treysta því að ekið sé á siðmenntaðan  og hagkvæman hátt. 

Ef það á nú loks að gera gangskör í þessum málum er það vel.  Raunar er hegðun ökumanna við þrengingar á götum eða þar sem tvær akreinar verða að einni, sérkapítuli, - og má til dæmis ég þakka fyrir að hafa ekki verið drepinn eða stórslasaður í slysi af völdum hinnar landlægu villimennsku á stað, þar sem akreinar runnu saman.


mbl.is Meirihluti gaf ekki stefnuljós
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

...en jörðin var lengi flöt.

Eitt það athyglisverðasta við feril mannkynsins er það hvað einfaldar staðreyndir hafa lengi verið hulin mönnum þótt ótal atriði sýndu þær ljóslega.

Árþúsundum saman stóðu menn í þeirri trú að jörðin væri flöt þótt margt benti til hins gagnstæða.

Varðandi sólina hefur hins vegar verið gagnstætt uppi á teningnum að því leyti að menn virðast ekki hafa þorað að fullyrða um það að hún væri hnöttótt fyrr en fyrir því lægju alveg pottþéttar óhrekjanlegar sannanir eins og nú hafa verið fundnar.

En hvað benti til þess að jörðin væri ekki flöt?  Jú, þetta geta Reykvíkingar séð með því að fara niður að sjó og horfa í góðu veðri yfir Faxaflóa í átt til Snæfellsjökuls. 

Þá sést efri hluti Snæfellsjökuls en bunga hafsins hylur neðri hlutann. 

Ef síðan er gengið upp á Öskjuhlíð og farið upp í Perluna, sést meira af jöklinum og minna er hulið af bungu hafsins. 

 Enn betur sést þetta ef farið er frá fjöru upp á fjall á borð við Esjuna. Þá kemur allur jökullinn í ljós.

Sama gerist þegar farið er upp á Snæfellsjökul. Niðri við sjó sést aðeins efsti hluti Esjunnar yfir flóann en fjallið allt þegar komið er upp á tindinn.

Fornmenn gátu siglt fram og til baka yfir flóann og séð þetta sama gerast , hvernig fjöllin risu smám saman úr sæ þegar komið var nær þeim.

Samt var það svo gróið viðhorf í öllum trúarbrögðum og almennri heimssýn þessara alda og árþúsunda að hið augljósa var mönnum hulið. 

Því miður á þetta ekki bara við um það hvort jörðin sé flöt. Í mörgum málum myndast svo gróin trú á ákveðna hluti að ekkert virðist geta haggað henni. 


mbl.is Sólin er hnöttótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Did Torres "walk alone"?

Þetta er í fyrsta og kannski eina skiptið sem ég hef enska fyrirsögn á blogginu mínu, en ástæðan er auðvitað hið frábæra hvatningarlag Liverpool.

Torres gekk nefnilega einn yfir í raðir Chelsea og burtséð frá því hvort ég er stuðningsmaður Liverpool eða ekki er það kærkomið fyrir íþróttirnar og gildi þeirra ef liðsheildin vegur þyngra en einstakir leikmenn. 

Með öðrum orðum: Það er gott ef það eru ekki bara peningarnir sem ráða för í íþróttum heldur góður andi og samvinna alhliða góðra íþróttamanna, jafn á andlega sviðinu sem hinu líkamlega. 

Almennt séð var það bara ágætt að Manchester United og Chelse töpuðu því að með því jókst spennan á toppi ensku knattspyrnunnar auk þess sem afkomendur mínir í Klapparhlíð 30 geta nú glaðst yfir bættri stöðu síns liðs.

"Heilbrigð sál í hraustum líkama!" 


mbl.is Liverpool lagði Chelsea í London
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað geta svæði opnað?

Mikill er nú krafturinn í landinu okkar og einstökum svæðum þess. Fjöll og svæði geta nú opnað hitt og þetta án þess að þess sé getið í fréttinni, hvað sé opnað, samanber fyrirsögnina: "Skíðasvæðið í Bláfjöllum opnaði kl. 10 í dag."

Hvað opnaði skíðasvæðið?  Flösku? Dyr? Kassa? 

Auðvitað opnaði skíðasvæðið ekki nokkurn skapaðan hlut heldur var skíðasvæðið opnað af mönnum. 

Næsta stig þessarar rökleysu verður líklega þegar sagt verður eftir að verslunareigandi opnar verslun sína: "Hurðin opnaði klukkan níu" eða  "lykillinn opnaði hurðina klukkan níu" eða "dyrnar opnuðu hurðina klukkan níu" sem er þrátt fyrir allt rökréttasta vitleysan, sem hægt er að upphugsa miðað við það rugl, sem í gangi er um opnanir, hurðir og dyr. 


mbl.is Opið í Bláfjöllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Ó, athvarf umrenningsins..."

Ofangreind orð koma fyrir í ljóðinu "Íslenska konan" þar sem ég leitast við að lýsa hlutskipti hennar og fórnarlund frá landnámi:

"Með landnemum silgdi´hún um svarrandi haf. 

Hún sefaði harma, hún vakti´er hún svaf. 

Hún þerraði tárin, hún þerraði blóð. 

Hún er íslenska konan, sem allt á að þakka vor þjóð. 

 

Ó, hún var ambáttin hljóð! 

Hún var ástkonan rjóð! 

Hún var amma, svo fróð!

 

Ó, athvarf umrenningsins! 

Inntak hjálpræðisins! 

Líkn frá kyni til kyns!..."

 

Í síðustu þremur línunum hafði ég einkum í huga ömmusystur mína, Björgu Runólfsdóttur, bónda að Hvammi í Langadal,  sem var einstæð móðir sem barðist ásamt börnum sínum tveimur í sveita síns andlitis fyrir því að eignast aftur jörðina sem hún hafði misst í hendur ríkissjóðs við skilnað við mann sinn fyrr á tíð. 

Hún aumkaði sig yfir fjóra konur, utangarðsfólk og niðursetninga, sem hún hafði á bænum. 

Þrjár þeirra, móðir með tveimur dætrum, fengu að vera í gamla torfbænum í Hvammi, en hin fjórða var í herbergi inni á heimilinu. 

Björg mátti ekkert aumt sjá og um þetta og lífið í dalnum skrifaði ég bókina "Manga með svartan vanga" sem kom út 1993. 

Mér kemur þetta í hug þegar Íslendingar hafa sýnt samúð og stórhug, sem kom meðal annars fram þegar við skutum skjólshúsi yfir Bobby Fisher og komum honum undan þeim sem ofsóttu hann. 

Aftur bjóðumst við til að gera þetta varðandi Marie Amelie. 

Við gerum þetta þótt við séum gagnrýnd fyrir það að fara í manngreinarálit og mismuna fólki, af því að aðrir í svipaðri stöðu fái ekki boð um slíka aðstoð. 

En mér finnst hitt vega þyngra, að við lítum til sérstæðra aðstæðna þeirra, sem við viljum rétta hjálparhönd frekar en þröngs lagabókstafs. 

Mér finnst það til sóma fyrir örþjóð eins og okkur að hefja okkur einstaka sinnum upp úr þrætubókarlist og sýna að við viljum sjálf ráða því hverjum við bjóðum athvarf í okkar ranni hér á klakanum. 

 

 


mbl.is Amelie hugsar hlýlega til Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að sjálfsögðu.

Ég var að enda við að blogga um rúmlega 2ja ára gamlan ágreining í Sjálfstæðisflokknum um Icesave og rétt að því afloknu staðfestir Geir H. Haarde þetta. Vísa í bloggpistil á undan þessum.
mbl.is Geir styður Bjarna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband