Rúmlega tveggja ára ágreiningur.

Allt frá Hruninu 2008 hefur ríkt ágreiningur innan Sjálfstæðisflokksins um afstöðuna til Icesave og AGS, þó einkum hið fyrrnefnda.

Ágreiningurinn var upphafi milli Geirs Haarde og Davíðs Oddssonar, en Davíð var algerlega á móti því að semja um Icesave og í upphafi á móti því að leita til AGS. 

Eftir brotthvarf Geirs Haarde hefur Bjarni Benediktsson tekið við af honum en Davíð og hans menn haldið sínu striki. 

Út af fyrir sig er sú ákvörðun Bjarna og meirihluta þingflokksins rökrétt að því leyti, að ef menn ganga til samninga hlýtur niðurstaðan oftast að vera sú að hvorugur aðilinn fái allt sitt fram.

Ef menn ganga út frá þessu verður niðurstaða samninga oftast sú hvort hún sé sanngjörn, "fair deal" eða ekki.

Niðurstaða upphaflegu samninganna var mjög ósanngjörn að því leyti að ætlast var til að hver íslenskur skattgreiðandi greiddi 25 sinnum meira vegna þeirra en hver skattgreiðandi í Bretlandi og Hollandi. 

Á það ber hins vegar að líta að fyrri samningar voru gerðir við þær aðstæður, sem þá ríktu, og voru okkur afar óhagstæðar. Við stóðum af afar höllum fæti eftir hið mikla Hrun. 

Tíminn vann hins vegar með okkur og  nú liggur fyrir margfalt skaplegri samningur.

Þeir, sem vildu fara samningaleiðina á annað borð, verða að velja um það hvort þeir telji líklegt að hægt sé að ná enn lengra eða hvort að nú hafi náðst það góður árangur að viðunandi sé. 


mbl.is Ekki gegn ályktun landsfundar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steini Jóns lenti "Bumbu" í 50 hnúta þvervindi.

Ég var þeirrar ánægju aðnjótandi að fara í nokkrar hópferðir með Þorsteini Jónssyni flugstjóra á erlendar flugsýningar. Þá var hann hættur að fljúga eftir að hafa flogið flestu sem hægt var að fljúga um ævina, allt frá Piper Cub upp í Boeing 747 hjá Cargolux. 

Steini var hreint einstakur maður eins og metsölubækur hans um hið magnaða líf hans bera með sér, en annað eins lífshlaup hefur enginn Íslendingur átt.

Þegar hann fór síðustu hópferðirnar var hann um áttrætt og búið að taka mestallan magann úr honum vegna magasárs og gott ef það var ekki krabbi líka. En það skipti svo sem engu máli þegar Steini átti í hlut, lífsnautnin var svo alger á hverju sem gekk.

Hann var uppi á morgnana eldhress og byrjaði daginn með því að sturta í sig hressandi viskísopa á fastandi maga, (ef maga skyldi kalla) rétt eins og hann væri tvítugur nagli.

Ekki haggaðist Steini og var vel með á nótunum og hrókur alls fagnaðar fram á kvöld. 

Ég á og geymi kvikmyndir og viðtöl við hann óstytt, en búta úr þeim notaði ég í fréttapistla og einn þátt um flug, en á vonandi eftir að gera fleiri ef Guð lofar. 

Um svipað leyti og fyrri ævisögubók Steina kom út, "Dansað í háloftunum", kom út ævisaga Jónasar Jónassonar, sem hét "Lífsháskinn".

En saga Steina var svo mögnuð að segja mátti í gamni að á einni blaðsíðu í sinni bók kæmist hann oftar og meira í lífshættu en Jónas í allri bók sinni!

Hafa fáir ef nokkrir Íslendingar og áreiðanlega enginn köttur átt eins mörg líf og Steini.

Ein saga Steina var af því þegar hann átti um enga kosti að velja aðra en að lenda "Bumbu", (Boeing 747 "Jumbo) í Glasgow í 50 hnúta hliðarvindi.

Þetta tókst Steina og sagði hann það bera því magnað vitni hvílík afbragðs flugvél Bumban væri.

Lýsing Steina á þessari lendingu var svo mögnuð að ef hár hefðu verið á höfði mínu, hefðu þau risið. 

Þeir sem nú eru að lenda Daumadísinni og vilja meiri vind verða að biðja um meira en 50 hnúta vind ef þeir eiga að toppa Steina! 


mbl.is Ekki nógu hvasst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"20007" bíllinn.

Þegar Toyota Land Cruiser 200, nýjasta gerðin, var kynnt, var heimsfrumsýningin á Íslandi og flest eintök af bílnum seldust þá í tveimur löndum, í Rússlandi og á Íslandi.

Þetta sagði sína sögu um þjóðfélagsástandið í þessum tveimur löndum á sínum tíma, en athyglisvert var, að næstum eins margir seldust hér á landi og í landi, sem 500 sinnum fleiri búa í. 

Orðið "2007" hefur fengið sérstaka merkingu í málinu, - þetta og hitt sem ber keim af bruðli og flottheitum eða flottræfilshætti er "svo mikið 2007". dscf5163.jpg

Land Cruiser 200, Range Rover (Game Over), Porche Cayenne Turbo og Hummer (Bömmer) voru góð dæmi um þetta. 

Marga af þessum bílum mátti sjá með "low-profile" hjólbörðum sem gerð nánast ókleift að aka þeim á malarvegum og með auka stigbretti, sem voru svo lág, að illmögulegt var að aka þeim um óslétt land. 

Með öðrum orðum: Bílum, sem voru búnir rándýrum og tæknivæddum drifbúnaði sem átti að gera kleift að komast á þeim yfir verstu torfærur,  var breytt þannig að þeir gengju í augun á fólki en væru vita gagnslausir í torfærum. 

Myndin hér á síðunni er af Bömmer og takið eftir því að gluggarnir eru lóðréttir og afar litlir, svo að útsýniðg er mjög lélegt. 

Þetta var haft svona á upprunalegu gerðinni (Hummer 1) til þess að grjóti rigndi síður inn í bílinn í sprengingunum á vígvellinum. Kemur sér mjög vel þegar snattast er á svona bíl í miðbænum eða við Kringluna! Og takið eftir viðbótar stigbrettunum sem rekast alls staðar niður ef ekið er út á víðavang og lágu  hjólbörðunum, sem springa ef það er ekið út fyrir malbikið!

 
Slóð: p 

Villuleit í boði Púka

 
Þessi færsla er birt

Frétt af mbl.is

Enginn nýr Land Cruiser 200 seldur í ár
Innlent | Morgunblaðið | 4.2.2011 | 5:30
Toyota Land Cruiser. Lúxusjeppinn Land Cruiser 200 verður ófáanlegur nýr í ár, eflaust einhverjum til armæðu. Um er að kenna reglum Evrópusambandsins um mengunarvarnir en hert var á þeim um áramót.
Lesa meira

Færsluflokkur

Aðalflokkur:
Bloggar Bækur Dægurmál Enski boltinn Evrópumál Ferðalög Fjármál Fjölmiðlar Heilbrigðismál Heimspeki Íþróttir Kjaramál Kvikmyndir Lífstíll Ljóð Löggæsla Mannréttindi Matur og drykkur Menning og listir Menntun og skóli Pepsi-deildin Samgöngur Sjónvarp Spaugilegt Spil og leikir Stjórnmál og samfélag Sveitarstjórnarkosningar Tónlist Trúmál Trúmál og siðferði Tölvur og tækni Umhverfismál Utanríkismál/alþjóðamál Vefurinn Viðskipti og fjármál Vinir og fjölskylda Vísindi og fræði

Skrár tengdar bloggfærslu

Engar skrár hafa verið tengdar við þessa færslu.
Bæta við skrá

Athugasemdir

 Leyfa athugasemdir við færslu
í daga frá birtingu
Frekari stillingar

 

Með því að smella tvisvar á myndina sjáið þið hvað viðbótar stigbrettið skagar alveg niður í götu og að hjólbarðarnir eru svo lágir, að varasamt er að aka bílnum út fyrir malbikið! 


mbl.is Enginn nýr Land Cruiser 200 seldur í ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það fyrsta sem er drepið í stríði...

Uggvænleg þróun hefur smám saman orðið í kjörum stríðsfréttaritara. Starfið hefur að vísu ævinlega verið hættulegt en síðustu árin hafa kjör þeirra mjög þróasta á verri veg, því að mannfall meðal þeirra hefur vaxið.

"Það fyrsta sem deyr í stríði er sannleikurinn" og að "sendiboðar válegra tíðinda" séu látnir gjalda fyrir þau eru gömul og ný sannindi. 

Í Víetnamstríðinu kom í ljós að fréttaflutningur og einkum áhrifamiklar ljósmyndir og kvikmyndir, sem rötuðu í fjölmiðla, hafði jafnvel meiri áhrif á stríðsreksturinn en hin skæðustu og öflugustu vopn.

Sjónvarpsfréttamyndir, sem öll bandaríska þjóðin og heimsbyggðin fengu að sjá skópu almenningsálit sem á endanum varð til þess að þetta hræðilega stríð tapaðist heima fyrir frekar en á vígvellinum. 

Af þessu hafa hernaðaryfirvöld og aðilar að átökum víða um heim dregið viðsjárverða lærdóma, sem bitna æ harðar á stríðsfréttariturum og þeim sem fjalla um mikil átök og deiluefni.

Nú sjást þess æ fleiri merki að það er orðin taktik hjá stríðandi aðilum að ráðast á fjölmiðlamenn, jafnvel fyrir það eitt að vera á vettvangi. 

Við Íslendingar eigum einn slíkan fjölmiðlamann, sem er hinn öflugi og snjalli sjónvarpsmaður Jón Björgvinsson. 

Ég þekki dálítið til hans, bæði vegna samstarfs við hann og einnig vegna þess að Edvard bróðir minn kenndi honum í barnaskóla og sá þá strax að mikið var í hann spunnið. 

Á löngum starfsferli hef ég sjálfur upplifað þann þrýsting sem hægt er að beita fjölmiðlafólk, þótt ekki sé það í sambandi við stríðsátök. 

Fjölmiðlar eru oft aðal vettvangur átaka og deilna og mál geta bæði unnist og tapast þar. 

Jón hefur valið sér vettvang, sem er afar hættulegur og hann er mér ofarlega í huga þessa dagana. Einnig starfsmenn sjónvarpsstöðvarinnar Al-Jazeera, en vinnubrögðum hennar og metnaði kynntist ég vel í samvinnu minni við einvala lið hennar, sem sent var til Íslands þegar Eyjafjallajökull gaus.

Stöðin hefur sýnt þetta vel í fréttum sínum frá Túnis og Egyptalandi og orðið að gjalda fyrir það grimma lögmál, að það fyrsta sem er drepið í stríði, er sannleikurinn. 


mbl.is Skipulagðar árásir á fréttamenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er hægt að fresta byltingu?

Mubarak Egyptalandsforseti veifar því sem líklegum möguleika að hann geti setið á forsetastóli áfram í meira en hálft ár, áður en hann lætur af embættinu.

Hann virðist ímynda sér að allir mun fallast á þetta svo að honum "gefist ráðrúm" til þess að hefja þær "tafarlausu umbætur," sem Obama Bandaríkjaforseti hefur ráðlagt honum að hefja og að egypska þjóðin muni fallast á þetta sem skynsamlegan kost, því að ella verði valdaskiptin hættulega tvísýn og óundirbúin.

Hugurinn leitar aftur til þess tíma þegar ráðamenn í Íran 1979, og Austur-Þýskalandi, Rúmeníu og fleiri kommúnistalöndum áratug síðar stóðu frammi fyrir svipuðum uppreisnum  og mótmælum í sínum löndum.

Engum þeirra var gefinn slíkur frestur til umbóta, enda eru nöfn Mubaraks og þeirra það sem uppreisnarmenn og mótmælendur setja efst á breytingalista sinn.

Mubarak hefði á þrjátíu ára alræðisvaldatíma sínum getað gert þær umbætur og breytingar, sem hann biður nú um að fá frest til að gera.

Hætt er við að það sé orðið of seint úr því að hann þekkti ekki sinn vitjunartíma.


mbl.is Aukin harka í Kaíró
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öxullinn Grímsvötn-Bárðarbunga.

Annar af tveimur stærstu "möttulstrókum" heims er undir Íslandi. Hinn er undir Hawai. Möttulstrókur er heiti, sem táknar svæði þar sem heit, bráðin kvika streymir frá möttli jarðar upp í átt að yfirborðinu.

Stundum er talað um öxulinn Grímsvötn-Bárðarbungu sem miðju hins íslenska möttulstróks. dscf5424_1057826.jpg

Það er ekki tilviljun að Bárðarbunga er annað hæsta fjall Íslands því að þetta er stórt og virkt eldfjall undir þykkum ísi Vatnajökuls. 

1996 gaus í Gljálp, milli Grímsvatna og Bárðarbungu, eftir mikla skjáftahrinu í Bárðarbungu. Bráðinn ís streymdi í Grímsvötn og safnaðist þar saman uns það braust undir jökulinn niður á Skeiðarársand í feykistóru hamfarahlaupi sem sópaði burtu brúm á sandinum. 

Eftir þetta mikla hlaup veiklaðist jökulinn við útfallið úr Grímsvötnum, þannig að hlaup þaðan eru nú minni en áður var. dscf5469_1057827.jpg

Gjálpargosið var fyrsta gosið eftir Öskjugosið 1961 sem komið hefur norðar en Grímsvötn og kannski er að koma tími á stórt gos í norðanverðum Vatnajökli eða jafnvel enn norðar.

Hamfarahlaup eftir gos í Bárðarbungu getur farið niður í Hágöngulón og reynt á stífluna þar og virkjanamannvirki vestan við Vatnajökul. 

Gos í austanverðri Bárðarbungu eða í Kverkfjöllum getur valdið hamfarahlaupi í Jökulsá á Fjöllum. dscf5468_1053538_1057848.jpg

Öxulliinn Grímsvötn-Bárðarbunga er virkasta eldvirka svæðið á Íslandi og við öllu að búast af því eftir að það hefur verið tiltölulega rólegt á síðari hluta aldarinnar sem leið.

Ætla að setja hér með myndir úr leiðangri Jöklarannsóknarfélags Íslands 2009 ofan af Grímsfjalli, af gígnum og eldstöðinni í Grímsvötnum og ofan af Bárðarbungu, þar sem útsýnið til norðausturs af þessu mikla eldfjalli var stórkostlegt yfir til Vonarskarðs, Tungafellsjökuls, Hofsjökuls og stórs hluta hálendisins.


mbl.is Jarðskjálftar við Kistufell
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki spurning um hvort, heldur hvenær.

Forsendan fyrir ofangreindri fyrirsögn er sú að mannkyninu takist að halda áfram á þeirri vísindalegu framfarabraut sem það hefur verið á.  Ef áfram verður með bættri tækni hægt að rýna betur í umheiminn og kanna óravíddir geimsins þarf ekki að spyrja um hvort, heldur hvenær fundin verður pláneta með lífi á.

Þær eru þarna, óendanlega margar en líka svo óskaplega fjarri því að við getum uppgötvað nema kannski eina eða tvær einhvern tíma á næstu öldum. 


mbl.is Merkur plánetufundur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölbreyttari bílafloti?

Það hefur verið landlægt hér á landi að vanmeta þann kostnað sem fylgir rekstri bíla. Fólk hefur hyllst til að líta á kaup á bíl sem sérstakan gerning, óháðan rekstri hans.

Þegar fólk ekur til dæmis milli Akureyrar og Reykjavíkur er aðeins litið á eldsneytiskostnaðinn og ekki tekið með í reikninginn að verið er að slíta hjólbörðum, vélbúnaði, drifbúnaði og hjólbörðum. 

Þar að auki er það þumalfingursregla að hver ekinn kílómetri lækkar endursöluverð bíls að meðaltali um ulega kostnaði. Þegar föstum kostnaði er jafnað niður á aksturinn verður kostnaðurinn að lokum allt að fjórfaldur eldsneytiskostnaður. 

Sá taxti, sem notaður er þegar ríkið borgar fyrir akstur mun nú vera um 100 krónur á kílómetra, en það þýðir, að ríkið myndi borga fyrir bíl ríkisstarfsmanns milli Akureyrar og Reykjavíkur rúmlega 77.000 krónur. 

Þetta sýnir að það má ekki vanmeta þann kostnað sem raunverulega felst í því að eiga og reka bíl. 

Á undanförnum árum hafa leigubílstjórar aukið sérhæfingu í framboði á bílum til að mæta mismunandi kröfum viðskiptavina. Æ fleiri leigubílar eru nú 7-9 manna bílar með miklu rými. 

Á hinn bóginn hefur úrvalið nær ekkert aukist niður á við, þ. e. að bjóða upp á smærri bíla sem eru mun ódýrari í rekstri. 

Flestir bílar, allt niður í Yaris / Póló flokk eru ágætlega rúmgóðir og nefna má, að Honda Jazz, sem er í þessum stærðarflokki, er bæði mjög rúmgóður og með 400 lítra farangursrými, sem myndi þykir nægilegt í  mörgum miklu stærri bílum. 

Ég myndi vilja sjá meiri breidd í úrvali leigubíla og jafnvel það að taka upp fleiri en einn verðflokk í töxtum. 

Á tíma samdráttar, sparnaðar og eldsneytisverðs, sem mun aðeins hækka jafnt og þétt á síðustu áratugum "olíualdarinnar", sem blasa við okkur, finnst mér athugandi að horfa á þetta frá nýjum sjónarhóli. 


mbl.is Leigubílstjórar berjast í bökkum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enginn veit hvort kíkt hefur verið á spilin.

Einn af ágöllum Stjórnlagaþingkosninganna átti að vera sá að ekki mátti brjóta atkvæðaseðla saman.

Hermt er að Jón Steinar Gunnlaugsson sé góður briddsspilari og enginn veit, hvort úrslit briddsmóta hafa verið rétt eða röng vegna þess að einhver sá á spil annars, úr því að menn mega ekki brjóta þau saman. 

Engin veit heldur hvort maður eða menn í kjörstjórn hafi látið setja upp faldar myndavélar fyrir ofan kjörklefa í alþingiskosningum til þess að nema það hvar einfaldur kross var settur á kjörseðla og sjá hvað hver kaus. 

Það væri mun auðveldara en allt það samsæri og öll sú fyrirhöfn sem fylgt hefði því að "rekja" atkvæði í stjórnlagaþingkosningum.

Fráleitt er að mínu mati að það hefði verið hægt að "kíkja" á kjörseðla í stjórnlagakosningunum, sem voru útkrotaðir með allt að hundrað tölustöfum og brjóta þannig á rétti hvers kjósanda um leynd á því hvernig hann kaus. 

Þar sem ég sat í mínu skoti í kosningunum með kjörseðlinn á borði þétt upp að mér hefði sá, sem vildi vita, hvað ég kaus, þurft að koma inn í skotið og horfa yfir öxlina á mér. 

Ég gat bæði þá og síðar þegar ég gekk með seðilinn og setti ofan í kassan haldið honum jafnþétt upp að mér og Jón Steinar heldur spilum sínum upp að sér þegar hann spilar við Davíð. 

Þegar ég var í lagadeild lærði maður um það að "eðli máls" og "lögjöfnun" væru notuð í dómum þegar það ætti við. Ekki er að sjá að í hæstaréttarúrskurðinum hafi slíkt verið viðhaft. 

En, svo vikið sé að öðru í spjalli Þórhalls við Jón Steinar í kvöld, þá finnst mér einkennilegt að enginn fjölmiðill skuli taka upp það stórmál, sem hann ræddi um og skrifaði grein um á dögunum, en það er um allt of mikið álag á Hæstarétti og hættulega þróun í þeim efnum. 

Ég tel brýna þörf á að ræða hugmyndir hans um millidómstig, sem geti gert kleift að fækka dómurum í Hæstarétti og láta þá alltaf dæma alla, þannig að óyggjandi fordæmi myndist. 

Það er ekki viðunandi að dómarar þurfi að dæma í tveimur málum að meðatali á dag. 

Það þýðir að hver dómari hefur aðeins hálfan vinnudag til þess að setja sig inn í hvert mál og það er ekki viðunandi gagnvart þeim sem þurfa að leita til réttarins. 


mbl.is Enginn veit um áhrif ágalla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vantar þrjú orð: "...og klára verkið."

"...vill að Alþingi hefjist nú þegar handa við endurskoðun stjórnarskrárinnar." Þetta orðalag og orðalag svipað því hefur verið notað í 67 ár við ótal tilraunir af hálfu Alþingis til þess að framkvæma heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar. 

Ævinlega hefur vantað framhaldið, sem felst í þremur orðum: "...og klára verkið" enda hefur heildarendurskoðunin, sem hefja átti fyrst fyrir 67 árum aldrei klárast, heldur alltaf rekið upp á sker, því að vegna eigin hagsmuna hafa þingmenn heykst á því.  

Nú halda menn, að aðeins örfáum árum eftir að síðasta tilraunin til þess að endurskoða stjórnarskrána mistókst halda menn að það gangi eitthvað betur núna. 

Það var fróðlegt að heyra útvarpsviðtal nýlega við Jón Kristjánsson, fyrrum ráðherra og alþingismann, sem var formaður síðustu stjórnarskrárnefndar þar sem hann lýsti því vel hvernig nefndarmenn komust í svipað öngstræti og ævinlega fyrr.

1851 þótti heppilegast að sérstaklega yrði kosið til stjórnlagaþings, sem hlaut nafnið Þjóðfundur, til þess að fjalla um nýja stjórnarskrá, frekar en að fela Alþingi þetta hlutverk. 

Þegar Trampe greifi, fulltrúi konungs, sá hvernig Þjóðfundurinn ætlaði að ljúka málinu, sleit hann fundinum, sem frægt er orðið. 

Ekki þyrfti að gera neitt svipað varðandi frumvarp nútíma stjórnlagaþings því að það er lögum samkvæmt ráðgefandi þing en ekki valdastofnun.  


mbl.is Alþingi hefji endurskoðun stjórnarskrár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband