6.2.2009 | 10:13
Ljós í myrkrinu.
Reikna megi með því að kreppan hafi neikvæð áhrif á ferðaþjónustu í heiminum eins og flest annað. Einkum hlýtur slíkt að eiga við í löndum eins og Íslandi sem liggja langt frá öðrum löndum og dýrt er að ferðast til. Á móti kemur að stórfelld veiking krónunnar gerir landið miklu ódýrara ferðamannaland en áður var.
Margoft áður í þessum bloggpistlum hefur verið bent á það hvernig tekist hefur á fjarlægum norrænum slóðum að auka ferðamannastraum allt árið, ekki síst á veturna og Lappland nefnt sem dæmi. Árangurinn hefur náðst af því að menn hafa nýtt sér sérstöðu aðstæðna og náttúru og allir hafa lagst á eitt, stjórnvöld jafnt sem heimamenn, að leggja hönd á plóg.
Hér á landi hafa ruðningsáhrif landspjalla- og stóriðjustefnu í bland við ruðningsáhrif skammgróðabólunnar og hágengisins leitt athyglina frá möguleikum ferðaþjónustunnar.
Þrátt fyrir kreppuna hafa land og þjóð alla burði til að auka hér ferðamannastraum þótt hann minnki annars staðar. Það gæti orðið ljós í myrkri hruns fjármálakerfisins.
![]() |
Gistinóttum í desember fjölgaði um 10% |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.2.2009 | 20:14
"Þegar jörðin þiðnar..." - Ný nöfn.
Í Kastljósinu var að enda stórgott viðtal við Björgu Thorarensen um stjórnlagaþing og stjórnarskrá. Fyrir fáum dögum var þetta nafn óþekkt meðað almennings. Þannig er um fjölda fólks sem nú sprettur upp á ýmsum sviðum og lætur að sér kveða. Mér fannst unun að hlusta á Björg.
Að sumu leyti ríkir svipað ástand hér og í austanverðri Evrópu þegar kommúnisminn riðaði til falls.
Hrafn Gunnlaugsson sagði mér eitt sinn frá því að þegar hann hefði verið á ferð í Sovétríkjunum um það leyti sem Glasnost og Perastroika voru að þíða hið helfrosna alræðisþjóðfélag hefði hann spurt heimamenn hvaða skoðun þeir hefðu á því sem væri að gerast.
Hann varð þess áskynja að margra áratuga kúgun hafði leitt til þess að fólk þorði ekki að tjá sig beint, og ef það fikraði sig í átt að því, sagðist það ekki segja neitt frá eigin brjósti um málið en bætti síðan við: "Á hinn bóginn er til rússneskt máltæki sem segir...."
Og í rússneskum máltækjum er úr nógu að moða.
Hrafn lagði sérstaklega á minnið eitt svarið við spurninguna um álit á ástandinu. Svarið var svona: "Ég vil ekkert segja um þetta mál frá eigin brjósti, en hins vegar er til alþekkt rússneskt máltæki sem er svona: Þegar jörðin þiðnar koma ormarnir upp."
Ég vil bæta við þetta og hafa orðtakið svona yfirfært á íslenskar aðstæður:
Þegar jörðin þiðnar koma ormarnir upp og grasrótin blómstar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
5.2.2009 | 14:01
Kerfið bjó til hvatann.
Áfengisbannið í Bandaríkjunum bjó til hvata til lögbrota sem skapaði hrikalegt glæpaástand víða í landinu. Al Capone og John Dillinger voru gott dæmi um það. Þess vegna varð að afnema lögin. Þau gerðu ekki ráð fyrir mannlegu eðli.
Ég hef fyrir því heimildir sem segja mér að talsmaður eins bankans laug blákalt í sjónvarpi þegar hann sagði að þjónustufulltrúi, sem fór að hnýsast í gögn viðskiptavinar og kom honum síðan til að fjárfesta í áhættusjóði, hefði gerst brotlegur í starfi. Talsmaður bankans sagði að blátt bann lægi við því að þjónustufulltrúar mættu gera svona.
Þessu var þveröfugt farið. Boðin um að lokka fólk til að breyta sparnaði sínum komu að ofan og þjónustufulltrúum var umbunað fyrir.
Mér sagði nýlega maður einn að þjónustufulltrúi einn hefði ætlað að lokka sig til að færa sparnað sinn með því að segja sér ranglega að hann yrði að gera það.
Hann hefði þrjóskast við og komist að því að þetta væri ekki rétt.
Með ofansögðu er ég alls ekki að alhæfa um þjónustufulltrúa bankanna né það góða og gegna fólk sem vinnur þar "á gólfinu" og hefur nú margt mátt þola atvinnumissi í bankahruninu.
Persónulega kann ég engar aðrar sögur en góðar af þjónustufulltrúm bankanna og hygg ég að svo sé um flesta. En rétt eins og í kvótakerfinu og áfengisbanninu forðum stóðust sumir ekki freistingarnar sem kerfið bauð upp á.
![]() |
Grunur um brot bankastarfsmanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
5.2.2009 | 11:23
"...að færa frjókorn frá frjóhnappi frævils að fræni á frævunni."
Ég ætla að leggja fyrir ykkur próf. Prófið þið að lesa ofangreinda setningu á eðlilegum hraða. Ég gat það ekki fyrstu atrennu. Féll á prófinu.
Á hverjum degi göngumst við undir það próf sem lífið sjálft er. Öll veröldin morar í prófum og kröfum um hæfni. Hjá þeim verður ekki komist, hvorki í skólakerfinu né annars staðar.
En prófin og námsefnið þurfa að vera þannig að jafnræðis sé gætt milli nemenda og skólanna innbyrðis.
Aðalatriðið í skólastarfi er að vekja áhuga nemenda og mikilvægi góðra kennara verður seint ofmetið. Það getur skipt öllu máli hvernig námsefni er sett fram og matreitt.
Öll börnin mín hafa einhvern tíma verið kennarar í skólum og bróðir minn og móðir mín gengu samtímis í Kennaraskólann á sinni tíð. Maður er umkringdur kennurum, því að allar fjórar dætur mínar hafa kennaramenntun og þrjár hafa það að aðalstarfi.
Jónína, dóttir mín, sýndi mér nýlega eftirfarandi setningu úr námsefninu. Það varðar æxlun dulfrævinga.
Fyrri áfangi hennar felst í því "að færa frjókorn frá frjóhnappi frævils að fræni á frævunni."
Ég endurtek: "...færa frjókorn frá frjóhnappi frævils að fræni á frævunni."
Prófið þið sjálf að segja þetta á eðlilegum hraða: "...að færa frjókorn frá frjóhnappi frævils að fræni á frævunni."
Dásamleg setning en dæmigerð fyrir margt af því sem börnin okkar þurfa að læra. Síðar meir þegar komið er út í lífið veður nær óskiljanlegur, tyrfinn og oft órökréttur kansellístíll uppi mörgu hámenntuðu og gáfuðu fólki þegar það er komið út úr verksmiðjum skólakerfisins.
Minn magnaði fréttastjóri, Emil heitinn Björnsson, henti einu sinni í mig frétt sem ég hafði skrifað með þessum orðum:
"Nú hef ég eytt tuttugu mínútum af dýrmætum tíma mínum til þess að reyna að leiðrétta og koma einhverri hugsun í þessa óskiljanlegu þvælu, sem þú leggur fyrir mig! Sérðu hvernig fréttin lítur út núna! Ég er búinn að pára hverja leiðréttinguna af annarri út um allt og strika út, bæta við og strika aftur út!
Og þú hefur væntaleg eytt býsna löngum tíma til þessa að vinna þetta verk til einskis. Við hér á fréttastofunni höfum annað og þarfara að gera í tímahraki okkar og mannfæð en að stunda svona vinnubrögð.
Bæði fréttin þín og vinnan mín eru handónýt! Farðu fram og komdu aftur með þessa frétt skrifaða á máli sem fólkið skilur! Og komdu aldrei aftur til mín með annað eins rugl og bull !
Þetta hreif og ég verðð ævinlega Emil þakklátur fyrir þann íslenskuskóla sem hann leiddi okkur fréttamennina í.
Ég geymi enn í huga mér nokkrar gull-bull setningar, sem blaðamenn hafa skrifað og gauka þeim kannski að ykkur síðar. Eins og upphaf þessarar fréttar höfðu þær þó einn kost: Það gat verið skemmtileg ögrun að læra þær utanbókar.
![]() |
Inntökupróf slegin af |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.2.2009 | 23:42
"Helst þannig..." Dæmigerður fyrirvari.
Ég var að tala við ágætan mann í kvöld sem sagði alltof algengt að stjórnmálamenn gerðu fyrirvara um sem flesta hluti þannig að á endanum væri oft ekkert að marka loforð þeirra. Hann líkti svona loforðum við stöðvunarskyldumerki þar sem í lögum væru settir ýmsir fyrirvarar um það að bílstjórum væri skylt að stöðva bílinn.
Það birti yfir mér þegar að því var lofað í stjórnarsáttmálanum að leyfa þeim framboðum sem þess óska að taka upp persónukjör á framboðslistum sínum. Á blaðamannafundi í morgun ítrekaði Steingrímur J. Sigfússon þetta.
Ég hef í vetur rökstutt það hve auðvelt þetta væri. Aðeins þyrfti að bæta einni setningu í 82.grein kosningalaga um að þetta væri heimilt og það gæti tekið gildi strax í kosningunum í vor.
En í ræðu sinni í útvarpsumræðum í kvöld slær forsætisráðherra skyndilega varnagla sem setur þetta mál í óþægilega óvissu. Hún segir: "...opnað verður á möguleika þess að taka upp persónukjör í kosningum til Alþingis HELST ÞANNIG AÐ ÞÆR KOMIST TIL FRAMKVÆMDA Í KOSNINGUM Í VOR."
Alveg dæmigerður fyrirvari stjórnmálamanns, sem gefur undir fótinn með það að þótt þetta eigi "HELST" að koma til framkvæmda í vor þá geti hugsanlega ekki orðið af því.
Jóhanna opnar á þann möguleika með orðinu "helst" að þessi ríkisstjórn geti ekki komið í verk að setja eina setningu inn í ein lög.
Einu sinni stóð í umferðarlögum: "Stefnuljós bæri að gefa, einkum þegar..." og síðan kom upptalninga á aðstæðunum þegar gefa ætti stefnuljós. Í praxis varð þessi lagagrein gagnslaus, vegna þess að orðið "einkum" gaf til kynna að þetta væri ekki fortakslaus skylda.
![]() |
Opnað fyrir persónukjör |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
4.2.2009 | 12:32
Smá leiðréttingar á "Sögu Jóhönnu."
Já, gárungar heimsins jafnt sem innfæddir finna margt til að gantast með varðandi Ísland þessa dagana.
Og rétt skal vera rétt. Tvær smá leiðréttingar vegna Moggafréttar:
Ég var á leið á skemmtun undir Eyjafjöllum en ekki á leið til Akureyrar þegar lagið og textinn "Sagan af Jóhönnu" urðu til í meginatriðum.
Eins og sjá má af hendingunni "Svo ætla ég að segja að sumir ættu að þegja..." hefur þarna slæðst inn villa hjá mér.
Setningin, sem tekin er beint upp úr ljóði Ása í bæ, er auðvitað svona á diskinum og tónlistarspilaranum hér við hliðina á blogginu: "Svo verð ég bara að segja að sumir ættu að þegja...."
![]() |
Gerir óspart grín að Íslandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
4.2.2009 | 12:24
Framhald loftbelgssögunnar.
Ég reyni yfirleitt að láta bloggpistla mína ekki vera of langa og þess vegna vantaði framhaldið á söguna af loftbelgsferðinni.
Það er svona: Átta árum eftir loftbelgsferðina þegar ég hélt að ég væri að verða laus við þessa slæmu en samt ljúfsáru minningu var ég minntur óþyrmilega á hana á óvæntan hátt.
Tímaritið Samúel var þá í aðalgrein sinni með risavaxna forsíðumynd og fyrirsögn um það sem tímaritið kallaði "Stærsta hasssmygl Íslandssögunnar."
Aðeins einn maður sást á þessari forsíðumynd. Það var ég.
Tímaritið hafði komist yfir eina af ljósmyndunum, sem teknar voru áður en flugtaksbrun loftbelgsins byrjaði og á henni var þessi loftbelgur í flugtaksstöðu og ég hélt þar í hann dauðahaldi !
Loftbelgurinnn hafði nefnilega síðar eftiri viðgerð verið notaður sem felustaður fyrir hassið sem smyglað var af loftbelgsmótum erlendis inn í landið !
Önnur viðbót: Eftir að ég hrataði af belgnum kynti flugstórinn gashitavélina sem ákafast en tókst samt ekki betur til en svo að hann lenti á sjónum í Bessastaðatjörn og þar eyðilögðust myndavélarnar sem ég hafði ætlað að nota til að taka myndir í fluginu. Ef ég hefði verið um borð og belgurinn þyngri sem nam minni þyngd hefði hann líklega sokkið með okkur báða þar.
Flugstjóranum tókst að láta belginn lyftast upp úr sjónum en stefndi þá hraðbyri beint á stóra gluggann á Bessastöðum !
Í stað þess að koma svífandi inn um gluggann á 25 hnúta hraða til fundar við forsetann tókst honum þó með naumindum að láta belginn lyftast yfir Bessastaði.
Ég fór til Reykjavíkur og elti loftbelginn á FRÚnni. Á tímabili virtist sem belgurinn myndi lenda á Akrafjallinu en uppstreymið við fjallið kom til bjargar og lyfti honum yfir fjallið. En litlu munaði.
En nú stefndi belgurinn á Skarðsheiði, sem er miklu hærra fjall. Þetta skynjaði flugstjórinn og stýrði í tæka tíð til lendingar í Melasveit.
Ég lenti á Narfastaðamelum þar rétt hjá og sá hvernig belgurinn hvarf handan við hæð. Síðan gaus upp stór eldrauður blossi og mér varð illt við því að nú hugði ég að flugstjórinn mikli væri ekki lengur meðal lifenda.
En þegar við komum að túninu var hann þar sviðinn, meiddur og draghaltur, en belgurinn lá afvelta undir háspennulínu allur brunnin að neðan.
Að öllu þessu eru ótal vitni en sumar sannar sögur eru einfaldlega þannig að ekkert skáld kæmist upp með það að búa slíkt til nema vera vændur um allt of villt hugmyndaflug sem enginn gæti trúað.
Af einhverjum ástæðum er allt líf mitt fullt af svona sögum.
![]() |
Ómar Ragnarsson: Skelfileg lífsreynsla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
4.2.2009 | 10:44
Við Steingrímur og Volvoinn eldumst.
Mér er minnisstætt símaviðtal sem ég átti fyrir nokkrum árum við Sigrúnu Magnúsdóttur, kaupfélagsstjóra Kaupfélags Bitrufjarðar, sem tíu árum áður hafði verið eina kaupfélag landsins, sem skilaði hagnaði á þeim tíma sem Sambandið og kaupfélögin hrundu. Þá heimsóttti ég hana, gerði um þetta frétt og hafði heyrt að kaupfélagið væri enn rekið með ágóða, tíu árum síðar.
"Hvernig gengur í þessari fámennu sveit ?" spurði ég."Hefur fólkinu haldið áfram að fækka ?" "Nei svaraði hún", við erum ennþá jafn mörg og enginn hefur flutt burtu á þessum tíu árum."
"Þetta eru góðar fréttir", sagði ég.
"Nei, þetta eru slæmar fréttir," svaraði hún.
"Af hverju ?" spurði ég.
"Af þvi að við erum öll orðin tíu árum eldri," svaraði hún.
Þetta verður eitt aðal vandamál Íslendinga næstu árin. Ungt og miðaldra fólk flytur af landi brott og það eldra verður eftir og heldur áfram að eldast og verða meiri byrði á heilbrigðis- og tryggingarkerfinu sem færra ungt fólk verður að standa undir.
Sífellt eru framleiddir sparneytnari og hagkvæmari bílar og af þeim sökum er ekki gott að flotinn verði eldri. En við búum samt óvenju vel til að halda í horfinu og það er hægt að spara og nota sparneytnari og ódýrari bílana meira í daglegt snatt, jafnvel langferðir.
Ég nota til slíks ódýrasta og minnsta bíl landins, og hef meira að segja farið oft á honum um allt land og líka upp á norðausturhálendið.
Vegna þess að börnin mín vissu að svona akstursmáti hafði verið mér kær í hálfa öld gáfu þau mér einkanúmerið "Edrú" þegar ég varð sextugur.
Hermdu upp á mig þau ummæli mín að ég myndi ekki vilja hafa einkanúmer nema það hefði góðan boðskap að færa. Boðskapurinn "Edrú" er algildur, - gilti til dæmis um efnahagsfyllerí okkar Íslendinga.
Víkjum loks að heiti þessa pistils. Mér finnst umræðan um gamla Volvoinnn hans Steingríms J. Sigfússonar hafa verið á villigötum. Talað um það þetta sé eyðslufrekur og mengandi bíll og að Steingrímur sendi vond skilaboð og sé að hræsna með því að koma á honum til Bessastaða. Venjulega aki hann meira að segja um á dýrum Landcruiser-jeppa.
Þótt ég reyni yfirleitt að vera á pínu-Fíatinum mínum við hátíðleg tækifæri og senda með því víðtæk edrú-skilaboð vil ég skjóta skildi fyrir Steingrím. Volvoinn er ekki brúksbíll heldur nokkurs konar mubla, sem gaman er að gera sér dagamun á. Við hann eru tengdar gamlar og góðar minningar. Við Steingrímur eldumst og okkur þykir vænt um það besta úr fortíðinni.
Bílar af Volvo-gerð voru rómaðir fyrir að vera traustir, vandaðir og öruggir. Notkun slíks bíls við örfá tækifæri skiptir litlu í efnahagsreikningi þjóðarinnar. Hin hversdagslegu not mynda liklega vel yfir 95% kostnaðar, eyðslu og mengunar og eitt og eitt viðhafnartækfæri skipta þar nánast engu. Ég held að margir gagnrýnendur Volvo-uppátækisins hafi kastað úr glerhúsum.
Athöfnin og dagurinn voru mikilvæg í lífi Steingríms, líkt og smókingur eða brúðarkjóll við brúðkaup. Volvoinn litaði gráan hversdagsleikann. Boðorðið "halda skaltu hvildardaginn heilagan" þýðir í raun að við notum vel þau tilefni sem gefast til að gera okkur dagamun en verum að öðru leyti iðin, nýtin og sparsöm í önnum hversdagsins.
![]() |
235 nýir bílar skráðir í janúar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
3.2.2009 | 23:46
Minnir mig á skelfileg augnablik.
Atvikið þegar nemandinn í fallhlífarstökkinu lenti með deyjandi leiðbeinanda vekur vondar minningar í huga mér.
Ég varð fyrsti farþeginn í loftbelgsflugi á Íslandi 1976 á skelfilegan hátt. Vindurinn var allt of mikill og flugstjórinn sem stóð í körfunni sagði mér að halda henni fastri ásamt aðstoðarmönnum á meðan hann kynti loftbelginn með heitu lofti svo að loftbelgurinn reis smám saman skáhallt upp í loftið vegna vindsins.
Þá hrópaði flugstjórinn: "Þegar ég segi: Sleppa!, - eiga allir að sleppa nema Ómar. Þú heldur takinu, Ómar, og klifrar um borð."
Um leið og allir slepptu nema ég fóru loftbelgurinn og karfan neðan í honum á fleygiferð eftir túninu á Álftanesi, sem við vorum á. Ég komst ekki um borð en hékk á körfunni.
Karfan endasentist eftir túninu með mig hangandi utan á henni og fór í gegnum girðingu og grjórt við Álftanesveginn. Bæði stígvélin mín urðu eftir í girðingunni.
Karfan fór síðan á fleygiferð yfir Álftanesveginn og í gegnum urð og aðra girðingu þar. Enn hékk ég utan á henni.
Það var búið að tilkynna fjölmiðlunum það að þetta yrði fyrsta loftbelgsflug með farþega á Íslandi.
Þá loksins lyftust belgurinn og karfan frá jörðu með mig enn hangandi utan á körfunni. Skyndilega áttaði ég mig á því að ég myndi ekki komast upp í körfuna heldur hanga bjargarlaus utan á henni, nema að flugstjórinn kæmi mér til bjargar.
Ég hafði búist við að flugstjórinn hjálpaði mér en hann var greinilega búinn að gleyma mér eða afskrifa mig og kynti gashitatækið eins og óður væri. Hávaðinn í gastækinu var svo mikill að hann heyrði ekki hróp mín.
Þá kom eitt skelfilegasta augnablikið í lífi mínu þegar ég sá jörðina fjarlægjast þegar belgurinn þeyttist upp á við og áttaði mig á því að ég gæti ekki haldið takinu miklu lengur.
Til allrar hamingju kom niðurstreymi og belgurinn lækkaði flugið á ný en þá tók við önnur skelfing: Karfan byrjaði að snúast og á tímabili virtist svo sem ég yrði öfugu megin á henni, miðað við stefnu belgsins undan vindinum, og að hún myndi skella þannig á jörðinni að hún kremdi mig undir sér.
Enn var heppnin yfir mér. Karfan skalll í jörðina eftir að hafa snúist í heilan hring og ég missti takið, losnaði frá henni og kútveltist í móanum.
Nokkrir blaðamenn urðu vitni að þessum ósköpum og voru fegnir að sjá mig koma haltrandi til baka á sokkaleistunum með blóðuga fætur eftir grjót og gaddavír. Ég er enn með ör á hægri fæti eftir þessar hrakfarir.
Ekki var til setunnar boðið, heldur þeyst af stað og farið á eftir belngum í flugvél. Endalok ferðar belgsins urðu þær að hann flaug á háspennulínu í Melasveit, hálfbrann og skall niður á tún um leið og hann kortslúttaði sveitinni !
Flugstjórinn marðist en slapp óbrotinn.
Eftir á fékk ég þær upplýsingar að svona loftbelg, sem lyft er af heitu lofti, megi ekki taka á loft nema mest 3-4 hnúta vindi. Vindurinn í flugtakinu á Álftanesi var hins vegar 25-30 hnútar !
![]() |
Í fyrsta fallhlífarstökkinu með látnum leiðsögumanni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
3.2.2009 | 23:23
Framsókn tekur tvö ráðuneyti á einum degi.
Ég sagði í Silfri Egils í fyrrdag að Framsókn myndi standa í ríkisstjórnarflugvélinni fyrir aftan flugstjórana Jóhönnu og Steingrím, anda ofan í hálsmálið á þeim og rífa í stýrin.
Framsókn reif tvisvar í stýrin í dag. Fyrst var það kunngjört að hún stjórnaði virkjana- og umhverfismálum og að Kolbrún Halldórsdóttir væri bara ráðherra til málamynda.
Síðan reif hún stýrið af Steingrími í hvalamálinu og gerði honum grein fyrir því að í sjávarútvegsmálum væri hann bara ráðherra til málamynda og að Framsókn réði þar ferð.
Hvorki Steingrímur né Kolbrún höfðu áttað sig á því að Framsókn ræður ríkjum í ráðuneytum þeirra og það verður fyrst að spyrja Birki Jón og Siv, áður en farið er af stað með ákvarðanir eða stefnumótun.
Og nú er spurningin: Hvaða ráðuneyti tekur Framsókn á morgun ?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)