29.2.2008 | 00:02
LANDSVIRKJUN EKKI Í VAFA.
Ekki mun af veita að SUNN álykti um jökulsárnar í Skagafirði. Það sjáum við nú þegar segt er frá því í fréttum rétt si svona að Landsvirkjun muni láta netþjónabúi á Keflavíkurflugvelli í té orku frá Neðri-Þjórsá. Þetta er og hefur verið eins og hjá ræningjunum í Kardimommubænum: "Þá er það ákveðið!"
Ekki örlar á neinum vafa í þessu hjá Landsvirkjun, - hún er vön að valta yfir allt og alla þegar henni sýnist svo með velþóknun eigenda hennar, ríkisvaldsins. Og jafnvel þótt svæði séu friðuð stöðvar það ekki Landsvirkjun, samanber afléttingu friðunar hluta Kringilsárrana og ásókn hennar í að fara inn á friðuð svæði suður af virkjunarsvæðinu við Tungnaá.
Annars ætti ég ekki alltaf að tala um Landsvirkjun í þessum efnum. Fyrirtækið er í eigu ríkisins og undir stjórn ríkisstjórnarinnar hverju sinni og því er LV bara að þjóna vilja stjórnvalda.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
28.2.2008 | 00:14
ÍSLENSKAN Á OFTAST RÍM.
Spurt er í frétt hvað rími á móti Kirgistan. Það minnir á þessa vísu:
Heyrt hef ég um dánumann einn dýrþyrstan /
sem dreypti oft á víninu í Kirgistan. /
Eiginkonan glaða þar oft hýr hrisst´ann /
og heitt og innilega' á bak við dyr kysst´ann. -
Tungan fer á feikna stím /
ef flinkir henni beita. /
og íslenskan á oftast rím /
ef menn bara leita.
![]() |
Hvað rímar við Kírgistan? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
26.2.2008 | 18:48
TÍMAMÓT Í BLOGGHEIMUM.
Fyrsti dómurinn vegna meiðyrða á blogginu mótar tímamót í bloggheimum í fleiri en einum skilningi. Í fyrsta lagi er með honum staðfest að bloggið er lagt að jöfnu við dagbllöð, tímarit og ljósvakamiðla og ég sé ekki annað en að það sé viðurkenning og upphefð fyrir bloggið. Í öðru lagi er það hollt fyrir okkur bloggara að vanda okkur og fara ekki niður á það plan, sem óheft, ljótt og meiðandi orðbragð hefur því miður dregið okkur oft niður á. Það hefur gefið almenningi þá hugmynd um bloggið sem er því ekki til framdráttar.
Okkur á ekki að vera nein vorkunn að umgangast hvort annað af tillitssemi og gera skrif okkar hvöss og áhrifarík án þess að fara niður í leðjuslag.
![]() |
Sekur um meiðyrði á bloggi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
26.2.2008 | 00:23
"ENGRI SKYNSAMRI ÞJÓÐ..."
"Engri skynsamri þjóð dettur í hug að slá hendinni á móti nýtingu orkulinda sinna..." segir Björn Bjarnason í bloggi sínu í dag. Enn einu sinni nota stóriðjufíklarnir orðin skynsemi og skynsamlegur til þess að aðgreina sig frá þeim sem ekki vilja fórna allri orku landsins á altari stóriðju sem í lokin gefur þó aðeins um 2% af vinnuaflsþörf landsmanna.
Samkvæmt skilningi Björns eru Bandaríkjamenn ekki skynsöm þjóð heldur heimsk. Þeir " slá hendinni á móti því" að virkja svo mikið sem einn einasta af tíu þúsund hverunum sem eru í Yellowstone. Kemst Yellowstone þó ekki á blað í nýjasta vali kunnáttumanna á 100 undrum heims, en þar er hins vegar hið eldvirka svæði Íslands á blaði sem eitt af undrum heims.
Norðmenn eru ekki skynsamir samkvæmt þessu mati Björns heldur væntanlega mjög heimskir. Þeir "slá hendinni á móti því" að virkja hreina og endurnýjanlega vatnsorku sem er að magni til meira en tilsvarandi orka á Íslandi.
Já, mikið er nú gott að vera skynsamur og slá ekki hendinni á móti því að taka svo mikla orku út úr Hengils-Helliisheiðarsvæðinu að hún verður uppurin eftir 40 ár.
Mikið verður nú gott að nýta orku Gjástykkis og Leirhnjúks á "skynsamlegan hátt" þótt það kosti að eyðileggja einstakt svæði sem er á pari við Þingvelli og Öskju.
Mikið er nú gott að vera svo skynsamur að geta afgreitt alla sem eru manni ósammála sem heimskingja. Mikið óskaplega eiga Björn og hans skoðanasystkin gott að gleðjast yfir því hvað allt er skynsamlegt sem þau halda fram og óskynsamlegt og heimskulegt hjá þeim, sem hafa aðrar skoðanir og beita öðrum rökum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
24.2.2008 | 22:09
AUSTFIRSKA AÐFERÐIN FYRIR VESTAN.
Austfirska aðferðin til að koma á stóriðju, sem notuð er í olíuhreinstöðvamálinu á Vestfjörðum, er kunnugleg. Kynnt eru áform um stórkarlalega töfralausn á byggðavandanum og tryggður stuðningur sveitarstjórna við þær. Á sínum tíma voru allar sveitarstjórnir á Austurlandi hlynntar álveri þótt augljóst væri að hringiðan á miðju svæðinu myndi soga til sín fólk frá jaðarsvæðunum. Það hefur nú komið á dagin og jaðarsvæðin verr sett en áður og áfram fækkar fólki í Austurlandsfjórðungi.
Þegar búið að er kynda undir væntingar og tryggja stuðning lykilaðila er afleiðingin sú að hver sá sem efast fær á sig þann stimpil að vera óvinur landshlutarins og lætur því lítið á sér bera.
Eystra var upphaflega rætt um "hóflega" stórt álver en þegar málið var komið nógu langt á veg var mönnum stillt upp við vegg: Þetta álver er of lítið til að geta verið hagkvæmt og annað hvort verður álverið þrefalt stærra með margfalt meiri umhverfisspjöllum vegna risavirkjunar eða að hætta verður við allt saman.
Á Vestfjörðum er því lofað að co2 útblástur hreinsistöðvar verði aðeins 560 þúsund tonn á ári, en það þýðir að miðað við áætlaða framleiðslu verður að vinna þar að mestu dísilolíu, því að vinnsla á bensíni kostar meira en tvöföldun útblásturs.
Þegar talsmenn stöðvarinnar eru síðan spurðir um hvort ekki verði unnin þar dísilolía svara þeir því til að það liggi ekki fyrir. Með þessu geta þeir haldið því opnu að þegar málið verður komið svo langt á veg að ekki verður aftur snúið, geti þeir sagt: Vegna þess að afurðirnar eru fluttar til Bandaríkjanna þar sem bensín er aðaleldsneytið verðum við að framleiða bensín.
Slík breyting myndi auka útblásturinn upp undir 1,5 milljónir tonna á ári.
Þegar bent er á að Ísland eigi ekki kvóta fyrir útblæstrinum er sagt að kvótinn verði bara keyptur. Enginn veit hvernig kaupin eiga eftir að gerast á þeirri eyri.
Sagt er að Íslendingar muni geta fengið olíuvörur á lægra verði og talað um fjölbreytta afleidda iðnaðarframleiðslu.
Á sínum tíma var svipað sagt þegar reist var fyrsta álverið í Straumsvík. Sagt var að Íslendingar myndu geta fengið álið á stórum lægra verði en aðrir og upp mundi spretta stórfelldur afleiddur úrvinnsluiðnaður.
Auðvitað gerðist þetta ekki því að hagkæmni stærðarinnar veldur því að með því að flytja álið óunnið til útlanda og síðan aftur til landsins í formi vöru, sem unnin er úr áli í stórum stíl, verður sú vara samt ódýrari en ef reynt væri að framleiða hana hér í okkar smáa samfélagi.
Sem dæmi má nefna þakklæðningar úr áli. Vinur minn sem þurfti að kaupa slíkt spurði þann sem seldi, hvers vegna slíkt væri ekki framleitt hér á landi. Svarið var einfalt: Hin útlenda verksmiðja er svo stór, að hún framleiðir tvisvar á dag sem svarar öllum álklæðningum á Íslandi og íslensk framleiðsla gæti aldrei keppt við slíkt.
Viðurkennt er að núverandi hámark, sem olíuframleiðslan hefur náð í heiminum, muni ekki geta haldist nema í mesta lagi í tuttugu ár í viðbót. Þá verður orðið svo erfitt að ná til þverrandi olíulinda, að verðið mun hækka, framleiðslan minnka. jafnt og þétt og leitað á mið annarra orkugjafa.
Það þýðir að samdráttur mun verða í hreinsistöðvunum og æ fleiri þeirra leggja upp laupana. Hvernig mun þá fara fyrir íslensku stöðvunum? Hér á Íslandi verður mun auðveldara að neyða íbúana til að taka á sig vanda stöðvanna vegna þess hve þær eru stór hluti í byggðamynstrinu.
Erfiðara er að gera slíkt erlendis í hinum fjölmennu samfélögum þar sem stöðvarnar eru lítill hluti af atvinnulífinu.
Í lokin munu kannski Vestfirðir sitja uppi með svipaðar stöðvar og fyrir öld þegar hvalveiðarnar lentu í samdrætti með þverrandi hvalastofnum.
Þess vegna ætti kannski að reisa hreinsistöð á Suðureyri við Tálknafjörð á rústum hvalveiðistöðvar sem þar var, svona til að viðhalda hefðinni um rústir útdauðs stóriðnaðar sem byggður var á ósjálfbærri nýtingu takmarkaðs hráefnis.
Margt fleira kemur í hugann eftir málþing um þetta mál á Bíldudal og Ísafirði í dag og í gær. Nánar um það síðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
23.2.2008 | 22:48
GOTT HJÁ ÞÉR, GAMLI FÉLAGI !
Ég hef dáðst að endalausum dugnaði, áhuga og þrautseigju míns gamla starfsfélaga, Kristjáns Más Unnarssonar, í meira en tuttugu ára "harki" hans í fréttamennsku. Margir væru búnir að missa glóðina og ákafann enda mjög lýjandi til lengdar að standa í því að sinna mörgum fréttum sama daginn. Þar að auki á ég sérlega góðar minningar um samstarf og kynni af honum. Ég samgleðst honum því innilega yfir verðskuldaðri viðurkenningu.
Ég fór frá Stöð tvö til baka yfir á Sjónvarpið 1995 og held tryggð minni áfram við minn gamla miðil og vil veg hans og samstarfsfólksins þar sem mestan. En ég er í fjölskyldutengslum við þættina þrjá á Stöðinni, fréttirnar, Ísland í dag og Kompás og fylgist því með þeim úr hæfilegri fjarlægð og gleðst yfir viðurkenningunni sem blaðamannaverðlaunin veita. Til hamingju!
![]() |
Kristján Már hlaut Blaðamannaverðlaun ársins 2007 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.2.2008 | 23:24
HÚSGRUNNUR, ÆVINTÝARALAND ÆSKUNNAR.
Þegar ég var á aldrinum 6-8 ára og verið var að grafa fyrstu grunnana fyrir húsunum við Stangarholt voru þeir undralönd með öllu landslagi sínu, hæðum, hólum, tjörnum, bröttum bökkum og "fellum" sem barnið sá rísa á milli vatnanna. Þessa minntist ég í kvöld þegar ég var með Bergi Sigurðssyni á skrifstofu Landverndar að undirbúa ferð á málþing á Vestfjörðum um olíuhreinsistöðvar og sá hvernig risastór húsgrunnur milli Skúlagötu og Borgartúns var rammgirtur svo að engin börn kæmust þar inn.
Nú er það svo að djúpar tjarnir í húsgrunnum geta verið hættulegar fyrir börn en samt þakka ég fyrir það að engir húsgrunnar voru girtir af þegar ég var ungur og hugsa að hægt sé að fara milliveg í þessu efni.
Hann fælist í því að verktakar og eigendur húsgrunnanna gengju þannig frá þeim að um helgar að aðeins væru þar grunnar tjarnir og hættulausar og börnum leyft að fara þar inn.
Fyrir aldarfjórðungi var grafinn skurður í gegnum svæðið við Álftamýraskólann og undravert var að horfa á hvernig börnin voru að leik í uppgreftrinum eins og mý á mykjuskán, þyrptust þangað úr öllum nálægum hverfum.
Mín börn áttu dásamlegt svæði til að leika sér á meðan ekki var búið að ryðja niður og slétta allt við Fjölbrautarskólann við Ármúla og þar voru enn "hamrar" og landslag malargryfja sem þar voru áður.
Sem betur fór er þar enn brekka sem verður krökk af börnum og fullorðnum þegar snjóar en ég held að allt of mikið sé gert af því að koma öllu í reglustikuhorf í umhverfi okkar í stað þess að láta eitthvað af upprunalegu umhverfi halda sér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
22.2.2008 | 10:38
VONIN DVÍNAR.
"Er þetta nokkurt vit?" spurði maður mig í gær um leitina að flugvélinni sem fór í sjóinn suðaustur af landinu. Svarið er: Vonin dvínar en flugvél af sömu gerð og þessi, sem fór í sjóinn suðvestur af Reykjanesi fyrir rúmlega aldarfjórðungi, flaut svo lengi, að henni var náð upp í bát og farið með hana í land.
Sú flugvél varð eldsneytislaus og það hjálpaði til því að tómir geymarnir virkuðu eins og flotholt. Þessar vélar eru lágþekjur og skrokkurinn stendur því lengi upp úr sjónum, gagnstætt því sem er hjá háþekjum. Hins vegar hefur vélin sem nú fór í sjóinn verið með mikið eldsneyti og því flotið verr en Piper-vélin hér um árið.
Ég hef flogið á eins hreyfils vél yfir til Grænlands og gerð er krafa um að HF-sendir sé um borð og uppblásanlegur gúmbátur. Við lendingu á sjó reynir flugmaðurinn að lenda þvert eftir öldunni til að stingast síður inn í hana. Ef flugmaðurinn er auk þess vel klæddur og í léttum flotbúningi á hann nokkra möguleika.
Þótt flugvélin sé sokkin er því enn von um að finna gúmbátinn á reki þótt flugmaðurinn sé ekki á lífi. Svona leit er ekki hætt fyrr en öll von er úti um að finna það sem leitað er að, svo einfalt er það.
![]() |
Leit haldið áfram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.2.2008 | 12:51
NÖLDRAÐ YFIR GÓÐUM HLUT.
Ég var einn af fjölmörgum hljómleikagestum í troðfullu húsi á tónleikunum "Bræður og systur" í gærkvöldi og afar ánægður með þetta framtak Bubba og annarra sem að þeim stóðu. Mér fannst ég fara út skárri maður en ég kom inn. Ég tek ekki undir nöldrið í garð Bubba og Geirs H. Haarde, sem maður heyrir hjá sumum, heldur fannst mér það gríðarlega mikils virði að forsætisráðherrann skyldi á jafn skemmtilegan og uppörvandi hátt leggja sitt þunga lóð á vogarskálina sem Bubbi stillti upp af alkunnum dugnaði og ósérhlífni.
Nöldrararnir telja að vel stæðir menn megi ekki leggja sitt lið gegn misrétti. Ef tekið væri mark á þessu nöldri hefðu hvorki Roosevelt né Kennedy ekki mátt bjóða sig fram til forseta og Héðinn Valdimarsson alls ekki mátt vera einn helsti baráttumaður fyrir fátæka verkamenn, allt vegna þess að þeir voru efnaðir menn.
Ef kafað er nánar ofan í málflutning nöldraranna ættu nánast engir Íslendingar að mega leggja lið sitt hjálp við fátækasta fólki heims, vegna þess að meðal Íslendingurinn er óendanlega miklu ríkari en t. d. meðaljóninn í Eþíópíu.
Nöldrararnir krefjast þess að þeir sem vilji leggja umhverfismálum lið á ráðstefnu hinum megin á hnettinum megi alls ekki ferðast þangað í þotum heldur skilst manni að þeir eigi að ganga þangað, hjóla eða synda til þess að vera málstað sínum samkvæmir.
Ef farið væri eftir nöldrinu væri hinum, sem eru "samkvæmir sjálfum sér" eins og það er orðað, veitt frítt spil til að nota auðæfi sín til að berjast gegn öllu því sem haggar við stöðu þeirra.
Allir sem komu fram í gærkvöld og ekki síst Bubbi og Geir, eiga þakkir skildar fyrir sterka, ánægjulega og uppörvandi tímamótasamkomu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
21.2.2008 | 00:21
SKÝJABORGIR HRAFNS.
Hrafn Gunnlaugsson dreymir um byggð í Vatnsmýrinni sem líkasta skýjakljúfahverfi í Dubai. Eins og fleiri stendur hann í þeirri trú að Reykjavík sé miklu dreifbýlli en sambærilegar borgir. Því fer viðs fjarri eins og ég hef áður rakið með tilvitnun í vandaða skýrslu um 16 norrænar borgir þar sem sést að Reykjavík er nákvæmlega jafn dreifbýl og borgir af svipaðri stærð á Norðurlöndum.
Flestar þessar borgir og fleiri álíka borgir skoðaði ég í hitteðfyrra af forvitni um þetta mál.
Í Dubai skín sólin nær lóðrétt niður en í Reykjavík er hún svo lágt á lofti að mestallt árið yrðu göturnar í skýjakljúfabyggð Hrafns í köldum skugga.
Nú þegar hefur risið háhýsabyggð á rústum timburhúsanna fyrir neðan Lindargötu en ekki verður séð að barnafólkið, sem heldur þessu þjóðfélagi gangandi öðrum fremur, hafi flust þangað, enda íbúðaverðið hátt og barnafólkið vill frekar búa í nágrannabæjunum og úthverfunum en í steinsteypuveröld Hrafns og skoðanasystkina hans.
Ef Hrafn tryði því fyrir sjálfan sig sem hann heldur fram að sé best fyrir alla ætti hann heima í einhverjum af háu blokkunum sem risu við Skúlagötu. Í staðinn valdi Hrafn sér stað fyrir lágreist hús í Laugarnesi þar sem eins langt er til næstu húsa og mögulegt er í Reykjavík.
Allt framansagt breytir ekki því að hagkvæmara er að byggð sé þétt en dreifð og að keppa beri að því eftir föngum. Sjálfur átti ég heima á tólftu hæð í smáíbúðablokk fyrstu búskaparárin og bý nú í blokk. En rétt eins og að fólkið í Austur-Þýskalandi "kaus með fótunum" eins og það var kallað með því að flýja landið, þar sem menn töldu sér trú um að endanleg kerfislausn væri fundin á öllum þjóðfélagsmálum, eru takmörk fyrir því hvað hægt er að ráðskast með fólk og raða því eins og tindátum inn í háhýsablokkir.
Frjálshyggjumaðurinn góði og vinur minn, Hrafn Gunnlaugsson, ætti að skilja það og það má hann eiga að hafa oft hrist rækilega upp í samfélaginu með ferskri og óbundinni hugsun og gert með því gott gagn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)