Stóra myndin: Íhald og Framsókn í frí !

Sem félagi í fyrsta og eina íslenska stjórnmálaflokknum, sem skilgreinir sig hvorki til hægri né vinstri, set ég þau mál ofarlega sem skipta munu miklu máli fyrir milljónir Íslendinga, sem eiga eftir að byggja þetta land.

Þá liggur beint við að skoða, hverjar eru aðalástæður þeirra verka, sem hafa verið unnin og stefnt er að að vinna og ganga á rétt afkomenda okkar og stangast á við kröfur um sjálfbæra þróun og endurnýjanlega orku.

Eftir kosningarnar 2007 kom í ljós að í stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn reyndist Samfylkingunni um megn að standa við kosningaloforð sín um hlé á stóriðjuframkvæmdum þar til búið væri að rannsaka íslensk náttúruverðmæti og forgangsraða þeim. Þórunn Sveinbjarnardóttir, sem hafði greitt atkvæði gegn Kárahnjúkavirkjun, fékk ekki rönd við reist.

Í því samstarfi sem núverandi ríkisstjórnarflokkar eiga við Framsóknarflokkinn fær VG-ráðherrann Kolbrún Halldórsdóttir heldur ekki reist við því rönd að stóriðjuhraðlestin verði látin bruna áfram. Skilyrði Framsóknarflokksins fyrir því að verja stjórnina falli er að haldið verði stanslaust áfram að herja á íslensk náttúruverðmæti án tillits til afleiðinganna.

Hvað má nú lesa út úr þessu? Jú, einfaldlega það að meðan annar hvor hinna innmúruðu stóriðjuflokka hefur úrslitaáhrif á stjórnarmyndun verður ekki snúið við á þessari óheillabraut.

Eina vonin til þess að hægt verði að spyrna við fótum er að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn fari í endurhæfingu og frí.

Þetta eru þeir tveir flokkar sem með tólf ára slímsetu sinni í ríkisstjórn spillingar, sjálftöku- og oftökustjórnmála bera mesta ábyrgð á efnahagshruninu og skammtímagræðginni, sem því olli og hernaðinum gegn landinu.

Nú er höfuðnauðsyn að þeir fari á varamannabekkinn í minnst fjögur ár, báðir tveir. Ef .það kostar vinstri stjórn verður svo að vera og ég styð það þótt ég telji mig ekki vinstri mann, heldur frjálslyndan miðjumann.

Stundum verður stóra myndin að hafa forgang og það að horfa til framtíðar. Það á við nú.


mbl.is Skýr vinstrisveifla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki mesta áhyggjuefnið.

Andstaða Bandaríkjamanna við hvalveiðarnar eru ekki mesta áhyggjuefnið þótt hún sé svo sem nógu bölvuð og komi úr hörðustu átt. Aðal áhyggjuefnið er það hvort íslensk fyrirtæki tapi jafnvel margfalt meira fé en hvalveiðisinnar telja sig geta haft upp úr þessum veiðum.

Tekin er mikil áhætta á að fórna meiri hagsmunum fyrir minni og það finnst mér óskynsamlegt.

Útrýmingartal Bandaríkjamanna byggist svo sem ekki á sterkum rökum, en það gera rök þeirra Íslendinga heldur ekki sem telja að hvalurinn sé að éta fiskstofna út á gaddinn.

Ef svo væri væri þessum fiskstofnun löngu útrýmt vegna þess að hvalirnir höfðu 11 þúsund ár til að gera þetta þann tíma sem maðurinn veiddi þá ekki.

Þegar ég spurði einn af þekktustu hvalasérfræðingum okkar fyrir 15 árum hvort fjölgun hvala myndi á endanum hafa þær afleiðingar að hann útrýmdi keppinautum síðum um fæðuna svaraði hann: Nei, það gerist líklega ekki, því að lífríkið myndi leita nýs jafnvægis.

Þegar hvalastofninn yrði kominn í ákveðna stærð myndi stækkun hans stöðvast vegna þess að minni fæða yrði fyrir hvern hval.

Þetta eru álíka rök og þau að refurinn sé að útrýma fuglalífi á Hornströndum. Væri svo myndi hann auðvitað hafa gert það þau þúsundir ára sem hann var í friði fyrir mönnum áður en landnám hófst.

Á nýlegri ráðstefnu kom í ljós að mjög veik rök, ef nokkur, eru fyrir því að hrefnan sé með samkeppni um fæðuframboðið að éta þorskinn út á gaddinn.

Þau rök að hægt sé að hafa einhver afgerandi áhrif með hvalveiðum standast heldur ekki vegna þess að ekki er hægt að hafa nein afgerandi áhrif á stofnana nema með því að veiða þúsundir hvala.

Eina dýrið á jörðinni sem hefur ítrekað tekist að útrýma öðrum dýrategundum er maðurinn í krafti máttar síns, getu til útrýmingar og skammtímagræðgi.


mbl.is Bandaríkin fordæma hvalveiðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aftur 1771 ?

Síðast þegar Norðmaður var settur í forsvar fyrir mikilsverðum íslenskum málum var 1771 þegar Kristján 7 skipaði Norðmann formann í svonefndri Landsnefnd sem fékk víðtækt umboð til að koma á nauðsynlegum umbótum á Íslandi. Þá fækkaði fólki í landinu á sama tíma og fjölgaði stórum á öllum hinum Norðurlöndunum.

Góður vilji Danakonungs og Norðmannsins kom fyrir lítið. Hin innlenda valdastétt þeirra tíma var í meirihluta í Landsnefndinni og í samstarfi við sína líka í Kaupmannahöfn kom hinn íslenski aðall í veg fyrir umbætur sem hefðu getað hraðað jákvæðri atvinnuþróun hér á landi og uppbyggingu þéttbýlis í stað þess að á því varð töf í hátt í eina öld.

Vonandi mun hinn nýi seðlabankastjóri duga okkur vel þann tíma sem hann tekur hér til hendi. Vonandi endurtekur sagan frá 1771 sig ekki.


mbl.is Nýr seðlabankastjóri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

En hvað um hin lögin ?

Á borgarafundi í Iðnó í kvöld kom margt athyglisvert fram sem vekur spurningar um framgang annarra lagasetninga sem stjórnarflokkarnir hafa lofað heldur en hið alltumvefjandi Seðlabankafrumvarp.

Birgir Ármannsson, sem sat þarna fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins, var harður í andstöðu sinni við breytingar á kosningalögunum og það var reyndar Bjarni Harðarson líka fyrir hönd hins nýja L-lista.

Þorkell Helgason upplýsti að lögfræðinga greindi á um hvort 2/3 þingmanna þyrfti til að samþykkja breytingar á kosningalögunum, en ef slíkan aukinn meirihluta þarf, fella Sjálfstæðismenn frumvarpið auðveldlega ef þeir vilja.

Eina lögfræðilega haldreipið með þessari kröfu um 2/3 virðist vera sú að enda þótt lögin sjálf bendi til þess að ekki þurfi aukinn meirihluta, finnst hið gagnstæða í fylgiskjali á fyrri stigum málsins.

Mér finnst fljótt á litið eðlilegra að þetta skrýtna fylgiskjal verði ekki látið ráða.

Steingrímur J. Sigfússson taldi að ef persónukjör yrði tekið upp myndi hann mæla með því að VG notaði sér það, enda þótt einstök kjördæmafélög réðu því raunar og myndu hugsanlega vilja annað.

Helgi Hjörvar taldi að Samfylkingin myndi hafa óraðaða lista og nota persónukjör þrátt fyrir prófkjör á undan.

Í ljós kom að þessi framboð haga undirbúningi sínum þannig að þau séu viðbúin bæði óbreyttum reglum eða breyttum, allt eftir því hver verða afdrif málsins á Alþingi.


mbl.is Búinn að staðfesta lögin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leikmenn víkja oftast af velli tímabundið.

Allir þekkja það fyrirbæri, að þegar leikmanni gengur illa í leik víki hann af velli. Stundum er hann tekinn út af og sumir leikmenn eiga erfitt með að fara út af og taka sér nauðsynlegt hlé.

Hitt kemur líka sem betur fer fyrir að leikmaður finnur sig ekki og biður um að fá að fara út af og sitja á varamannabekk það sem eftir er leiks. Hann veit sem er að þetta þarf ekki að þýða útilokun frá keppni fyrir lífstíð.

Eftir að hann hefur fengið tækifæri til að fara í gegnum það hvað var að og efla sig á hann möguleika á að koma aftur inn á völlinn í síðari leikjum.

Þetta hefur Árni Mathiesen skynjað og er það vel. Það fyrirbæri að einhver leikmaður sé þess eðlis að hann eigi heimtingu á að leika alla leiki endalaust er því miður of algengt í íslenskum stjórnmálum.

Það gerist stundum að leikmaður haltrar inni á vellinum eða finnur sig ekki nokkra stund áður en hann sér sitt óvænna.Það er ósköp eðlilegt að menn voni að ástand þeirra batni hið snarasta, en fari svo strax útaf þegar ljóst er að þetta er ekki þeirra dagurinn inni á vellinum.

Þótt Árni hefði mátt gera þetta fyrr er hann að mínum dómi maður að meiri eftir þessa ákvörðun og sjálfsagt að óska honum alls hins besta í framtíðinni.


mbl.is Árni Mathiesen ekki í framboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeir minnstu troðast fyrst undir.

Í haust líkti ég íslenska þjóðarbúskapnum við brennandi smáhýsi sem stæði við hliðina á nokkrum háhýsum, þar sem eldur geysaði á neðstu hæðum. Í öllum húsunum færi fram áhættustarfsemi þar sem notað væri mikið af eldfimum efnum og því algert skilyrði að haga brunavörnum í samræmi við það.

Þeir sem stundað hefðu þessa starfsemi í smáhýsinu hefðu verið svo óforsjálir að hafa brunavarnir aðeins í samræmi við eðliega stærð eldfimrar starfsemi miðað við stærð hússins, en ekki í samæmi við eldsmatinn, sem væri langt umfram það sem tíðkaðist í svo smáum húsum. 

Þeir hefðu ekki, smæðar sinnar vegna og vanmáttar, látið setja upp brunavarnir sem gætu komið í veg fyrir að smáhýsið yrði alelda.  Fífldjarfir ofurhugar hefðu efnt til flugeldasýningar þar sem neistaflóðið braut glugga.

Stærð taps Skotlandsbanka sýnir hrikaleik eldvoðans sem leikur um fjármálakerfi heimsins. Tap bankans síðastliðið ár nemur þrefaldri þjóðarframleiðslu Íslendinga. 

Ég tók líka þá samlíkingu að þegar fólk flýði brennandi hús træðust oft margir undir. Og þá eru það oftast þeir minnstu sem troðast fyrst undir. 


mbl.is Mesta tap bresks fyrirtækis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sko Höskuld !

Höskuldur Þórhallsson tók áhættu með því að leggjast á sveif með Sjálfstæðismönnum við að tefja Seðlabankafrumvarpið.

Ekki var víst að neitt það væri í skýrslunni frá ESB sem skipti máli fyrir frumvarpið og jafnvel þótt telja mætti eðlilegt að hafa sem flest í hendi, úr því að það tafði málið ekki lengur en tvo daga, hefði verið snautlegt fyrir hann ef hann hefði ekki fundið neitt bitastætt í skýrslunni.

Ef rétt reynist að breytingin á lögunum sé í anda þess sem mætir og fróðir menn erlendir vilja bæta og breyta hjá Seðlabönkum Evrópu, hafði Höskuldur sitt fram og eru væntanlega ekki aðeins Sjálfstæðismenn óánægðir, heldur líka Jóhanna og Össur, sem fullyrtu að ekkert það væri í skýrslunni sem gæti komið Seðlabankanum við.

Mér finnst eftir sem áður dapurlegt tákn um inngróið flokksræði og ráðherraræði að stöðva störf þings í tímahraki vegna þessa máls. En ríkisstjórnir hafa verið því vanir að stjórna þinginu eins og afgreiðslustofnun eða bensínsjoppu þar sem hverju máli er afmarkaður tímarammi og ekkert má út af bregða.

Sjálfur Bandaríkjaforseti þarf oft að hlíta því að stórmál gangi ekki eins hratt fyrir sig og hann óskar og er skemmst að minnast hinna stórfelldu aðgerða til hjálpar fjármálalífinu bæði í haust og um daginn.

Ef efla á þingræðið þarf framkvæmdavaldið að fara að temja sér þann sveigjanleika að þingið verði ekki verkefnalaust þótt tímatöflur allra mála gangi ekki upp. Á hverjum vetri dagar fjöldi mála uppi á þingi og eru mörg þeirra hin ágætustu mál en á sama tíma má ekki ræða eitt eða neitt og fundir liggja niðri að því er virðist fyrir tóman klaufaskap og skort á sveigjanlegu verklagi.


mbl.is Seðlabankafrumvarp afgreitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guð láti á gott vita.

Efnahagshrunið hefur valdið umróti í stjórnmálaflokkunum. Nú virðist loks örla á viðleitni innan Sjálfstæðisflokksins að taka ýmislegt til skoðunar þar sem áður hefði ekki verið talin ástæða til að velta við steinum.

Sjálfstæðisflokkurinn þarf hins vegar lengri tíma á varamannabekknum en þrjá mánuði til þess að geta komið aftur inn á og spilað af styrk flokks og fjöldahreyfingar, sem hafði kjörorðið: "Gjör rétt, þol ei órétt!", - kjörorð sem hefur ekki heyrst þar á bæ í áratugi.

Ég á mér þann draum að sá tími komi innan nokkurra ára endurhæfingar og endurreisnar flokksins að ekki þurfi að skrifa blaðagreinar til að kvarta yfir spillingu, forsjárhyggju og afskiptasemi hjá flokki sem á að vera brjóstvörn, frelsis, mannréttinda og heilbrigðs framtaks.

Ef andi endurhæfingar er að vakna innan flokksins segi ég bara: Guð láti á gott vita.


mbl.is Gæti talist mútuþægni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svipað og um stýrivextina.

Ummæli Davíðs um bindiskylduna eru á svipuðum nótum og gagnrýnendur höfðu um stýrivaxtastefnu bankans þegar þeir bentu á að stefna bankans næði mjög takmörkuðum árangri vegna þess að svo mikið af lánaviðskiptum Íslendinga væru komin til útlanda.

Enn eitt dæmið um þann fjármálaófreskju-Frankenstein sem reis gegn skapara sínum og ég bloggaði um næst á undan þessum pistli.


mbl.is Aukin bindiskylda hefði engu máli skipt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skapari Frankensteins varaði við honum.

Skapari Frankensteins ætlaði að skapa hinn fullkomna mann. Davíð Oddsson ætlaði að skapa hið fullkomna þjóðfélag stjórnlítillar græðgi og gagnrýnislausrar markaðstrúar. Thatcher, Reagan og Hannes Hólmsteinn voru spámennirnir miklu. Þorgerður Katrín sagði nýlega í viðtali að ef hún mætti vera ein á eyðieyju myndi hún geta hugsað sér að eiga þar samræður við Thatcher. Vaá !

Davíð talaði í orði um að dreifða eignaraðild að einkavæddum bönkum en á borði var bönkunum skipt upp á milli skjólstæðinga stjórnarflokkanna. Allt sem Davíð hefur gert er löglegt, líka einræðislegir stjórnarhættir hans, siðlaus eftirlaunalög sniðin að sérþörfum hans og hótanir sem byggjast á því að "hafa eitthvað á menn."

Þrjú orð hans, "við borgum ekki" voru einhver afleitustu og dýrustu mistök Íslandssögunnar.

Davíð og Geir trúðu á Thatcher, Reagan og Bush og vildu taka þau sér til fyrirmyndar. Það er því til lítils að kenna gjaldþroti hinnar villtu græðgisstefnu þessa þríeykis erlendis um ófarirnar hér.

Ófarirnar urðu auðvitað verri hér en annars staðar af því að hér var farið hraðast með himinskautum og ríkisstjórn og Seðlabanki héldu uppi of háu gengi sem kallaði á ofneyslu og hrikalega skuldasöfnun, ekki hvað síst hjá sjávarútveginum sem blæddi fyrir hágengisstefnuna og hélt sér á floti með lánum.

Þegar skepnan reis síðan gegn skapara sínum og Davíð horfði á aðfarir Frankensteins hinna íslensku sjálftöku- og oftökustjórnmála, fór hann að vara við honum, rétt eins og gerðíst í sögunni um hinn skelfilega skapnað á sinni tíð.

Davíð varaði hins vegar helst við Frankenstein í trúnaðarsamtölum sem hann hefur nú dregið upp úr pússi sínu en lætur vera að greina frá þeim fjölmiðlasamkomum þar sem hann neyddist til að rugga ekki bátnum um of opinberlega, heldur tala um að bankakerfið væri traust og sterkt, þótt ýmsar blikur væri á lofti.

Síðan ásakar hann fjölmiðlamenn nú um að hafa trúað þessu marklausa hjali sínu.

Davíð vitnaði margsinnis í kvöld í orð ónafngreinds fólks sem hefði sagt honum að hann væri eini maðurinn sem hægt væri að treysta. Mannkynssagan greinir frá ýmsum mönnum sem litu þannig á sjálfan sig, nánast goðum líka, og kunni það oft ekki góðri lukku að stýra.


mbl.is Fjármagnsflutningar Kaupþings höfðu mikil áhrif á Bretana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband