29.3.2011 | 12:54
Göring vildi semja.
Hermann Göring reyndi að bjarga eigin skinni skömmu fyrir lok seinni heimsstyrjaldarinnar með því að leita samninga við Vesturveldin um vopnahlé. En Bandamenn héldu sínu striki, gáfu engum af meðreiðarsveinum Hitlers færi á að sleppa og því síður að rjúfa samstöðu sína.
Eftir stríðið voru haldin réttarhöld í Nurnberg þar sem helstu menn þriðja ríkisins voru flestir dæmdir, misjafnlega hart þó, en einstaka sýknaður.
Eftir íhlutun NATÓ í Júgóslavíu á sínum tíma voru leiðtogar Serba, þeir sem ábyrgð báru á fjöldamorðum á óbreyttum borgurum, ákærðir og hundeltir.
Nú er það svo að enda þótt rökstuddar líkur séu á því að Gaddafi hafi margt misjafnt á samviskunni, virðist það ekki eins pottþétt og glæpir Nasista og Serbnesku forystumannanna.
Menn standa frammi fyrir því að ef ekkert verði slakað á klónni gagnvart honum varðandi stríðsglæpi og aðra glæpi hans, muni hann eins og Hitler forðum, berjast til siðasta manns með tilheyrandi blóðbaði.
Þess vegna er talað um "útgönguleið" fyrir hann eða einstaka fylgismenn hans, nokkuð sem alls ekki kom til greina varðandi Saddam Hussein, serbnesku stríðsglæpamennina eða einstaka nasista.
![]() |
Fer Gaddafi í útlegð? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.3.2011 | 19:51
Ætli það sé kennt ?
Ég lærði það ekki hjá ökukennara hvað það getur verið varasamt að lenda í snjó, sem bíll lendir í öðru megin, ef engin fyrirstaða er hinum megin. Þetta lærði ég "the hard way" fyrir hálfri öld svo að maður sletti, af því að orðalagið "af biturri reynslu" er fulldjúpt í árinni tekið.
Raunar fór ég í aðeins tvo ökutíma, því að maður kom úr sveitinni með flest á hreinu eftir að hafa byrjað á stórri dráttarvél 11-12 ára. Þó ekki þetta með snjóinn af því að ég var þar á sumrin.
Ég efast um að þrátt fyrir tugi ökutíma sé þetta kennt í íslenskri ökukennslu.
Lærdómurinn er einfaldur: Á því meiri hraða sem maður er og því dýpri sem snjórinn er, sem fer fyrir annað framhjólið en ekki hitt, því meira snýst bíllinn og þá er voðinn vís.
Eftir 30 ára tuð mitt um almennilega æfingaaðstöðu hér á landi í líkingu við það sem ég sá fyrst á Spáni fyrir 35 árum, en þá var Spánn enn fátækt land, hefur ekkert enn gerst í þessum málum hér á landi.
Maður sér þetta birtast í ýmsum óhöppum og ekki síst í sjúklegri hræðslu margra ökumanna við minnstu beygjur eða lausamöl.
![]() |
Bíll valt í Langadal |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.3.2011 | 18:14
Lýðræðisumbót.
Það verður spennandi að sjá hvað nýtt frumvarp um persónukjör felur í sér. Ég hef verið fylgjandi því að það verði að veruleika hér á landi eins og í ýmsum öðrum löndum, þannig að prófkjörin færist inn í kjörklefana.
Það má útfæra persónukjörsreglur á mismunandi hátt og mér finnst alveg athugandi að framboðin fái sjálf að ráða því hvernig þau haga þessu.
Þá yrði um að ræða þrjá möguleika, sem framboðin gætu valið sér sjálf og myndi nafn aðferðarinnar vera tilgrein fyrir ofan hvern framboðslista:
1. Sama kerfi og núna. Röðin getur því aðeins breyst að nógu margir kjósendur striki út eða raði upp á nýtt.
2. Persónukjör með leiðbeinandi röð framboðsaðila, þ. e. nöfnum raðað eftir því sem framboðsaðili leggur til án þess að sú röðun hafi nokkurt vægi, því að kjósendur listan hafi einir algert vald til röðunarinnar.
3. Persónukjör svipað því sem var í stjórnlagaþingkosningunum.
Og nú spyr kannski einhver: Hvers vegna að gefa nokkurn afslátt á því að innleiða persónukjör í líkingu við það sem er í lið 3? Svarið er það að það sé hluti af lýðræðisfrelsi að framboð og flokkar fái að ráða því sjálf hvaða form þeir velja í þessu tilliti.
![]() |
Frumvarp um persónukjör væntanlegt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.3.2011 | 12:49
Minnir óþægilega á 2008.
Orðalagið "erfitt að útvega endurfjármögnun" heyrðist oft árið 2008. Orðalagið er nógu tæknilegt og loðið til þess að menn áttuðu sig ekki á því að í raun þýddi þetta að viðkomandi fyrirtæki stefndu beint í gjaldþrot.
Fjölmiðill greindi frá því að borgarstjórinn í Reykjavík hefði skrifað á facebook síðu sína að Orkuveitan væri "á hausnum" og að erlendar lánastofnanir, sem fylgdust vel með skuldunautum, hefðu þegar í stað fengið þessi ummæli þýdd á þann hátt að OR væri gjaldþrota.
Í hádegisfréttum RUV nú rétt í þessu var frá því skýrt að Norræni fjárfestingarbankinn teldi að "lánshæfi OR væri óviðunandi" sem er í raun það sama og Jón Gnarr sagði á facebook-síðu sinni, það er að OR væri "á hausnum."
Ummæli Davíðs Oddssonar: "Íslendingar borga ekki" flugu strax á næstu klukkstundum um sjónvarpsstöðvar, fjölmiðla, stórfyrirtæki og sendiráð um allan heim.
Stundum er eins og menn haldi að hér sé flest líkt og var fyrir daga internetsins og að ummæli á einkasíðum svokölluðum og í íslenskum fjölmiðlum séu aðeins til heimabrúks. En svo er alls ekki eins og dæmin sýna
Og líka hið gagnstæða, að hægt sé að halda leyndu fyrir Íslendingum sem útlendingar komast að.
Raunar er það oft svo að þeir sem mest eiga að vita, í þessu tilfelli íbúar Reykjavíkur, vita miklu minna en erlendar fyrirtæki og stofnanir. Að því leyti til var kominn á það tími að borgarstjórinn segði það sem hann sagði.
![]() |
Vilja ekki lána Orkuveitunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.3.2011 | 09:57
Ekki algert einkamál.
Skeggvöxtur og hárvöxtur eru skilgreind sem einkamál en það er ekki alveg svona einfalt.
Við sjáum í þessum marsmánuði að útlitið, sem mottan gefur, hefur áhrif út í frá.
Satt að segja man ég varla eftir átaki til þess að efla góðan málstað, sem hefur verið auglýst betur en með motturæktuninni í þessum mánuði.
Mottan hefur litað hversdaginn en líka vakið blendin viðbrögð. Hún hefur fallið vel í kramið hjá flestum og persónulega þykir mér vænt um það, að vegna þess að faðir minn heitinn var með mottu síðastu árin sem hann lifði, segja margir að hún minni þá á hann.
"Þú ert bara alveg eins og karlinn" er algengt viðkvæði.
Allir tengja hana að sjálfsögðu við átak Krabbameinsfélagsins en þegar kemur að því að meta áhrif hennar á útlit mitt, skiptist í tvö horn, því að til eru þeir sem finnst hún ljót og sumum beinlínis herfileg.
Það get ég vel skilið, því sjálfum finnst mér hún of mislit og tjásuleg.
Kolbrún Bergþórsdóttir hrópaði upp yfir sig þegar hún sá mig: "Guð minn almáttugur hvað þetta er ljótt!"
Og konan mín fer ekki ofan af því að hún sé ömurleg og að þessu leyti er hún bara alls ekki einkamál mitt. Með því að umbera mottuna í heilan mánuð leggur hún fram sinn skerf til þess að vekja athygli á þjóðþrifamáli Krabbameinsfélagsins.
Þeir sem kjörnir voru á stjórnlagaþing 1851 (Þjóðfundur) til að sýsla við stjórnarskrá landsins, voru margir með yfirskegg, sem var vinsælt á allt fram á 20. öld.
Það er kannski í stíl við það að halda mottunni en ég held nú samt að hún muni fjúka 1. apríl í samræmi við loforð mitt þar um við konuna mína.
![]() |
Hafa misjafna heimild til að safna skeggi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.3.2011 | 09:27
Fylgist með magni og vegalengd !
Í 52 ár hef ég fylgst með eyðslu bíla minna við hverja áfyllingu með því að bera saman ekna vegalengd og magn eldsneytis, sem ég hef tekið. Í nokkrum tilfellum hefur þetta gefið upplýsingar um að eitthvað væri að bílnum og því bæði sparað fé og fyrirbyggt vandræði.
Ef stolið er af bílnum í leyni kemur það strax í ljós. Þetta er gulls ígildi í orðsins fyllstu merkingu þegar eldsneytið er orðið jafn dýrt og raun ber vitni.
![]() |
Skrapp frá og tankurinn tæmdur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.3.2011 | 19:47
Á slóðum Rommels fyrir 70 árum.
Ég er að lesa atburðarás Seinni heimsstyrjaldarinnar dag frá degi fyrir réttum sjötíu árum og nöfnin eru kunnugleg, því að í mars 1941 var Rommel í sókn til austurs á svipuðum slóðum og uppreisnarmenn sækja til vesturs nú.
Á engum vígstöðvum Seinni heimsstyrjaldarinnar gengu sóknir og gagnsóknir jafn langt og hratt sitt á hvað og í Norður-Afríku.
Það er vegna landshátta, sem bjóða upp á stríð sem líkist um margt sjóhernaði.
Nú er að sjá, hvort eitthvað svipað verður uppi á teningnum nú.
Hernaðurinn fyrir 70 árum byggðist mjög upp á birgðaflutningum og svipaðar aðstæður eru nú að mörgu leyti.
Einnig leika skriðdrekar og brynvarin farartæki stórt hlutverk, og ef NATÓ getur komið í veg fyrir að hersveitir Gaddafís geti notað þau, er það mjög mikilvægt fyrir gengi uppreisnarmanna.
![]() |
Uppreisnarmenn í stórsókn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.3.2011 | 13:35
Ekki sama hvernig þetta er gert.
Það er ekki sama hvaðan er lagt af stað, hvenær og í hvaða átt er róið ef það á að róa í kringujm Ísland.
Ef árstíminn er frjáls, hefðu félagarnir Manser og Skinstad átt að velja sér maímánuð, því að þá eru minnstir stormar við Ísland.
Sömuleiðis þyrftu þeir að róa sólarsinnis, því að straumar liggja mest í þá átt við strendurnar, Austur-Íslandsstraumurinn suður með Austfjörðum og síðan Irmingergrein Golfstraumsins vestur með suðurströndinni og norður með vesturströndinni.
Gott er að þeir setja engin tímatakmörk á róðurinn. Samt hefði verið betra fyrir þá að byrja á Hornafirði og klára það að fara meðfram hafnlausri suðurströndinni við bestu fáanlegu skilyrði, því að sá kafli er varasamastur.
Ég hef tvívegis hugað að því að framkvæma hliðstætt á landi eða í lofti.
Annars vegar að fljúga í fisinu "Skaftinu" umhverfis jörðina á 80 dögum. Sú flugferð hefði ekki hafist á Íslandi heldur Labrador til þess að klára fyrst langerfiðustu áfangana yfir Norður-Atlantshaf og nýta sér ráðandi vestanáttir á miklum hluta hringleiðarinnar.
Hins vegar að setja hraðamet í að hjóla hringveginn. Þá hefði þurft að fara af stað á Hornafirði þegar lægð er að koma upp að landinu úr suðvestri með hvassri austan- og suðaustanátt.
Meðvindur alla leið til Reykjavíkur, en þá yrði lægðin og skilinn að fara fram hjá og komin suðvestanátt sem entist allt norður í land.
Við Mývatn yrði komin norðanátt í kjölfar lægðarinnar og því vindur á ská í bakið til Egilsstaða og síðan beint í bakið þaðan til Hornafjarðar.
Ef heppni væri með yrði hægt að hafa meðvind næstum alla leið!
![]() |
Lagðir af stað í kajakferð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.3.2011 | 23:17
Hin furðulega renglukrafa.
Þúsundir stúlkna víða um heim deyja úr anorexíu sem átti upptök sín í hinni furðulegu kröfu um að stúlkur séu svo grannar að næstum því nálgist að vera horrengla.
Mér finnst krafan furðuleg því að ef marka má þær sýningarstúlkur sem þykja hæfar til að sýna kvenfatnað virðist varla mega vera fituarða á þeim.
Hver fann upp þessa hörðu kröfu? Hvers vegna mega konur ekki vera hæfilegar "gellur"?
Krafan um að konur séu ígildi fitusneydds matar á ekkert skylt við eðlilegt og nauðsynlegt andóf gegn offitu, heldur finnst mér undarlegt að ganga svona langt í því að sneyða konur þeim kyntöfrum sem hæfilegt holdafær gæðir þær.
![]() |
Svipt titli fyrir að vera of feit |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
26.3.2011 | 22:25
Áfram framfarir.
Á níunda áratug síðustu aldar urðu stórstígar framfarir í vetrarferðum á Íslandi þegar til sögu komu 33ja, 35, 38 og 44 tommu jeppadekk, sem hægt var að hleypa þannig úr lofti að spor hjólbarðanna í snjónum verða stærri og þeir fljóta betur á snjónum en ella.
Hvert afrekið rak annað, þriggja jökla ferð Arngríms Hermannssonar, Valda rakara og kó og jeppa ekið upp á hæsta tind landins af eigin vélarafli 1991.
Ásamt hjólbörðunum stóru komu til skjala margs kyns tæknilegar nýjungar með læsingum og tvöföldum millikössum, nítró-innspýtingu í bensínvélar o. s. frv.
Jafnframt þessu urðu miklar framfarir einnig í breytingum á litlum og ódýrum jeppum eins og Suzuki.
Hér fyrir ofan sjáum við 150 þúsund króna blæjujeppa Geo Tracker (Ameríska gerðin af styttri gerð Vitara) á 35 tommu dekkjum sem ég notaði til að fara að hraunfossi eldgossins á Fimmvörðuhálsi og stóð sig mjög vel.
1999 var farin eina jeppaferð sögunnar austur og vestur yfir Grænlandsjökul og fyrir nokkrum árum var ekið á Suðurpólinn.
"Gróðærið" mikla færði Íslendingum að vísu Hrunið en líka stóra bandaríska pallbíla á allt að 54 tommu dekkjum.
Öflugustu bílarnir af þessu tagi eru yfirburðabílar við erfiðar aðstæður þótt líka séu til aðstæður þar sem þeir njóta ekki sinnar miklu stærðar.
Þeir eru í raun nýjasta stóra framfaraskrefið á þessu sviði og virðist enginn endir vera enn í sjónmáli varðandi tæknisókn Íslendinga á þessu sviði.
Fram til 1992 var ég fráhverfur því að prófa jöklaferðir á eigin bíl og sagði við Benna í Bílabúð Benna að ég væri fyrst og fremst flugmaður þegar kæmi að því að komast leiðar minnar utan þjóðvegakerfisins.
Honum tókst hins vegar að sannfæra mig um gildi þess að útvíkka ferðamöguleikana í fréttaöflun og dagskrár- og kvikmyndagerð með því að rísa gegn gömlu, grónu svari við því, hvort reyna ætti að komast leiðar sinnar, sem hafði verið: "Það er ófært."
Það opnaði alveg nýja vídd að sjá þessa skilgreiningu þoka fyrir fögnuðinum yfir djúpum snjó sem ruddi burt orðinu "ófært."
Auðvitað var þetta ekki alveg svona einfalt, og mikla aðgát og útsjónarsemi þarf við vetrarferðir um hálendi og jökla.
Ég hef áður bloggað um þann misskilning að það þurfi að vera dýrt og aðeins fyrir flugríkt fólk að komast á fjöll á fjallajeppa. Finna má pistla mína um þetta með því að setja leitarorðin "Þjóðsagan um dýru jöklajeppana" eða "Rannsóknarferð á Vatnajökul" inn í leitarrammann efst til vinstri hér á síðunni.
Skelli hér inn nokkrum myndum úr Rannsóknarferðinni á Vatnajökul 2009, sem ég fór á minnsta jöklajeppa landsins, Suzuki Fox ´86.
Vegna tæknilegra mistaka tvíbirtist sama myndin ofan af Bárðarbungu þar sem stór jöklajeppi er að draga annan úr festu, en minnsti jöklajeppi landsins stendur hjá og horfir sposkur á.
Neðst má síðan sjá mynd af hjólfarinu eftir Súkkuna til vinstri og hina jeppana til hægri.
![]() |
80 jeppar yfir Sprengisand |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)