Lítið, sætt og feimið.

Gosið í Eyjafjallajökli er hið tuttugasta í rððinni á 47 árum sem ég er að stjákla í kringum, - að þessu sinni á jörðu niðri. Það fyrsta var Surtseyjargosið 1963 en ég átti ekki fyrir því að fara og skoða Öskjugosið 1961. 

Þetta litla og sæta gos á Fimmvörðuhálsi lítur út eins og risastór afmæliseldterta á myndum og var svo vinsamlegt að taka smá eldsúludans áður en það varð feimið og faldi sig í kófi skýja og skafrennings, sem er á ofanverðum Fimmvörðuhálsi.

Áður en þessum bjarta súludansstað náttúrunnar var lokað náðu ljósmyndarar og kvikmyndatökumenn mjög góðum myndum á meðan sveimað var yfir því.

Þegar svona atburðir gerist þurrkast út skil dags og nætur, svefns og vöku hjá þeim sem við það vinna að flytja af því fréttir og upplýsingar. Fólk verður einfaldlega ekki syfjað fyrr en eftir á, þótt vakan sé orðin 30 klukkustunda löng.

Í Kröflueldunum í gamla daga gat vakan orðið 2-3 dagar með nær engum svefni. En þeir voru líka svo einstakir á alla lund. Slíkt sjónarspil landreks og sköpunar upplifa fáir í návígi.

Þess vegna er lítið, sætt og feimið gos svo heillandi, þrátt fyrir allt því það bankar í gamlar og ógleymanlegar minningar sem fangaðar voru á filmu og tónbönd.  

 


mbl.is Gosórói að minnka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hallar sífellt á ógæfuhlið.

Mér er enn í minni magnaður fyrirlestur sem Björn Sigurbjörnsson hélt á Húsavík hér um árið þar sem hann fór yfir það hvernig mannkynið hefur leikið gróður jarðar í þúsundir ára. 

Hann hafði þá unnið fyrir landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna og þekkti málið vel.  

Hann sýndi fram á að stórveldi hefðu riðað til falls vegna rányrkju, bæði Mesópótamía og Fönikía, og rakti hvernig röng landbúnaðarstefna Rússa átti einna drýgstan þátt í falli Krústjoffs 1964 vegna þess að Krústsjoff hafði verið mjög ráðandi um þessa misheppnuðu landbúnaðarstefnu, sem meðal annars átti stóran þátt þátt í mikilli gróðureyðingu og minnkun Aralvatns og í því að Sovétríkin gátu ekki brauðfætt sig. 

Þessi nöturlega staðreynd og hin miklu umskipti æptu framan í heiminn, því þegar Hitler fór í herför sína inn í Sovétríkin, var ein helsta ástæðan að komast yfir hið mikla kornforðabúr þeirra.  

Á Íslandi hefur verið stunduð mesta rányrkja gróðurlendis sem vitað er um í einu landi í Evrópu og enn eru beittir nokkrir afréttir sem eru ekki beitarhæfir.

Röng landbúnaðarstefna olli "The Dust Bowl" í miðvesturríkjum Bandaríkjanna á árunum eftir 1930, moldroki, sem barst alla leið til Washington og varð kveikjan að einu meistaraverki heimsbókmenntanna.

Heildarmyndin hefur lítið breyst frá því að tímaritið Time birti í langri myndskreyttri grein ljóta mynd af því sem fram fer í flestum heimsálfum og birti lista yfir "bestu vini eyðimarkanna."

Þar vakti athygli mína að í efstu sætunum voru: 1. Geitin.  2. Sauðkindin.

Eyðing skóganna, allt frá Amazon til margra ríkja Afríku og Asíu, hefur ekki verið stöðvuð á sama tíma og mannkyninu fjölgar að mestu stjórnlaust og hugur eykst.

Ef ekki hefðu komið til stórkostlegar framfarir í kynbótum korntegunda væri ástandið enn verra.

Einræðisstjórnin í Kína ræður, þrátt fyrir vald sitt, ekkert betur við þetta en aðrar ríkisstjórnir og hefur fest sig í svipaðri hagvaxtargildru og er einn helsti hvatinn til að ganga á auðlindir jarðar með þeim afleiðingum sem finnast í moldroki, allt frá uppsveitum Suðurlands til höfuðborgar Kína.   


mbl.is Moldrok í Kína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var heppinn að lenda ekki í svipuðu.

Reiðhjól sýnast ekki sömu manndrápstæki og bílar en geta samt verið það, samanber frétt af hjólreiðamanni sem hjólaði á danska konu.

Sjálfur mátti ég þakka fyrir að valda ekki stórslysi 1. apríl 1960 þegar ég dró fram gamla reiðhjólið mitt og kom í Menntaskólinn á því vegna þess að ég óttaðist að litli Prinz-bíllinn minn yrði tekinn af hrekkjalómum á þessum degi og gert eitthvað við hann, til dæmis skólanum lokað með honum, af því að hann passaði nákvæmlega inn í skotið, sem bakdyrnar voru í. 

Ég hafði verið að segja skólasystkinum mínum frá því að ég hefði æft mig í því að stökkva af hjólinu á ferð ef keðjan slitnaði eða það yrði hemlalaust. 

Umræðan spannst æ lengra og loks var ákveðið að ég sýndi þetta á bröttu túninu fyrir framan skólann í löngu frímínútunum þegar gert yrði hlé í tilefni dagsins.

Trixið fólst í því að hoppa af hjólinu eins og kúreki af hesti og koma hlaupandi niður, en síðasta snerting mín væri með hendinni, sem ég notaði til að kippa í stýrið svo að það snerist og hjólið færi þar með snöggt á hvolf. 

Þetta gekk allt vel í fyrstu. Ég brunaði niður túnið og stökk af hjólinu á fullri ferð og kom hlaupandi niður niður. 

En síðan klikkaði þetta með síðustu snertinguna og hjólið brunaði mannlaust áfram. 

Það sló þögn á nemendaskarann uppi á brekkunni þegar hann horfði í ofvæni á það að hjólið stefndi fram af brekkubrúninni og stefndi á höfuð og bakhluta konu, sem sat þar á bekk og beið eftir strætó! 

Ofan frá að sjá var engu líkara en að hjólið lenti beint á höfði konunnar! En síðan féll það niður fyrir aftan bekkinn með kengbogna hjólgjörð og gaffal, og var ekki hjólað á því meir. 

Konan stóð hins vegar upp og hristi sig, leit til baka og undraðist á sjá hjólið liggja ónýtt á jörðinni. 

Í sama bili renndi strætisvagn þar að og þá sást, hvað hafði gerst og orðið mér og konunni til bjargar. 

Hún hafði beygt sig áfram til að taka upp tösku sína einmitt á því augnabliki sem hjólið small á baki bekksins, sem hún sat á! 

Ég átti aðvífandi strætisvagni á hárréttu augnabliki það að þakka að hafa ekki valdið stórslysi. Þetta er eitt af mörgu úr lífshlaupi mínu sem ég get þakkað forsjóninni fyrir. 


mbl.is Hjólaði á danska konu sem lést
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smæð okkar gerir dæmið sérstakast.

Það virðist taka tíma fyrir jafnvel þá sem best ættu að vita að kryfja hrunið mikla til mergjar og læra af því. 

Strauss-Kahn er að reyna þetta með því að taka Ísland sem dæmi og sumt er þar ágætlega sagt og getur verið gagnlegt í umræðunni. Hann gerir þó ekki nóg í því að draga fram ábyrgð gistiríkja útibúa bankanna. 

Eitt vantar þó sárlegast: Smæð íslenska ríkisins, sem er aðalatriði allra eftirmála hrunsins. Þetta lykilatriði veldur því að þótt heimfæra megi íslenska hrunið upp á önnur lönd gerir smæð Íslands sérstöðu okkar máls svo mikla að fram hjá henni má ekki víkja.  

 


mbl.is Hið sorglega dæmi frá Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það var lagið, Hera!

Ég hef verið í hópi þeirra sem hef haft áhyggjur af því hin frábæra söngkona Hera Björk Þórhallsdóttir hefði ekki erindi sem erfiði í komandi Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva.

Synd væri ef svo færi, því þetta er afbragðs söngkona. 

En í kvöld sýndi hún í þættinum hjá Loga Bergmanni hvað hægt er að gera úr efniviði, sem vekur efasemdir í upphaflegum búningi. 

Með því að færa lagið yfir í það sem hún nefndi "arineldsútgáfu" hefur hún kveikt hjá mér nýja von. 

Þetta var næstum því eins og að heyra alveg nýtt lag. 

Í þessari útfærslu njóta lagið og ótvíræðir sönghæfileikar Heru sín miklu betur en fyrr og ég vona bara að hún fari ekki að breyta útfærslunni mikið úr þessu heldur haldi sig við það sem stundum hefur kallað "less is more" eða "KISS, - keep it simple, stupid!" 


Friðsamleg valdbeiting.

Ísraelsmenn hafa hersetið stór svæði í Palestínu í 43 ár með valdi þvert ofan í alþjóðalög og samþykktir Sameinuðu þjóðanna. Þeir byggja upp gyðingabyggðir á þessu landi með valdi og sýna hver það er, sem ræður, með því að tilkynna nýjustu valdbeitinguna beint upp í opið geðið á varforseta Bandaríkjanna þegar hann er þar í heimsókn. 

Gagnrýni á þetta svarar íslraelski utanríkisráðherrann með því að í gagnrýninni sé verið að beita valdi og valdbeiting sé af hinu illa ! 

Við höfum átt dæmi í sögunni um menn sem hafa allan þann tíma sem þeir hafa beitt valdi sínu, fordæmt valdbeitingu og sagst vera að berjast fyrir friði.

Hér í gamla daga var sagt að þetta héti að snúa Faðirvorinu upp á andskotann.

Helförin fyrir 65 árum er fyrir löng hætt að réttlæta allt það sem Ísraelsmenn gera og segja. Það er afar dapurlegt fyrir svo mikilhæfa þjóð með merka sögu.  

 


mbl.is Ísraelsmenn gagnrýna kvartettinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðdáandi Páls og kríunnar fer í bíó í dag.

Ég fer ekki oft í bíó en ætla að gera það í dag til að sjá heimildarmynd Páls Steingrímssonar um kríuna sem verður frumsýnd í Háskólabíói klukkan 17:00.

Ástæðan er tvöföld: Ég er frá barnæsku mikill aðdáandi kríunnar og hina síðari áratug, allt frá því í árdaga Sjónvarpsins, aðdáandi Páls Steingrímssonar og konu hans, Rúríjar, sem eru í fremstu röð baráttufólks fyrir því að við Íslendingar kynnumst mestu verðmætunum, sem við eigum, hinni einstæðu náttúru landsins. 

Um kríuna þarf ekki að fjölyrða, þennan langfleygasta fugl veraldar, sem hefur valið sér sitthvorn enda hnattarins til búsetu. 

Flugfimi hennar er viðbrugðið og ég set hana í flokk með súlunni og erninum, sem getur veitt lax úr vatni án þess að blotna neitt nema á klónum. 

Varla er hægt að hugsa sér fugl sem búinn er bestu eiginleikum sanns Íslendings, annars vegar tryggð við heimkynni sín á hjara veraldar, og hins vegar þeirri heimshyggju sem felst í því að vera víðförlasta lifandi vera á jörðinni. 

Páll er líka langfleygur að því leyti að viðfangsefni hans hafa spannað allar heimsálfur, allt frá nyrsta hjara til Suður-Íshafsins og ekkert lát er að finna á krafti og hugarafli þessa magnaða manns sem verður áttræður í sumar og hefur aldrei verið sprækari.

Hugsjónaeldiinn kyndir hann ákaft og hefur aldrei spurt um það hvort þjóðþrifaverk hans boðið upp á ávísun á fjárhagslegan ágóða.

Þannig er mér til dæmis vel kunnugt um það að myndin sem hann gerði í samvinnu við Magnús Magnússon, "Öræfakyrrð", var gerð með tapi.

Þessi mynd og ástaróður hennar til Íslands, varð svanasöngur Magnúsar og mun, þótt síðar verði, halda nafni hans á lofti ekki síður en hans miklu afrek í bresku sjónvarpi. 


Gullfiskaminnið og Ragnar Reykás bregðast ekki!

Gullfiskaminni landsmanna bregst ekki. Aðeins einu ári og fimm mánuðum eftir að flokkarnir sem lögðu dag við nótt í tólf ár við að leggja grunninn að hruninu, hrökkluðust frá völdum, eru þeir komnir með meira fylgi en þeir höfðu í lok hins "farsæla" samstarfs síns.

Krafa þjóðarinnar sýnist vera ljós: Við viljum gömlu, góðu stóriðju- og einkavinavæðingarflokkana aftur!

Ekki þá, sem spruttu upp úr Búsáhaldabyltingunni og tókst að sundra sér á margfalt styttri tíma en nokkru öðru nýju stjórnmálaafli.  

Ekki vinstri flokka sem eru á móti atvinnuuppbyggingu!  

Nei, nýtt "gróðæri"! Nýjan Davíð! Nýjan Halldór! Nýtt fóstbræðralag manna sem kunna að stýra þjóðfélagi okkar á ný upp í hæstu hæðir!

Menn, sem hafa þor og kjark til að losa okkur við AGS og geta bægt frá okkur norrænum óvinaþjóðum!  

Menn sem hafa dug til að sækja þessar hundruð milljarða sem vantar beint í ríkissjóð, sem þar að auki verði notaður til að greiða þeim, sem fóru fremstir í flokki með að stofna til milljarða skulda, minnst 20% af þeim skuldum. 

Ríkissjóði verði gert kleift að standa undir slíku með því að draga saman ríkisútgjöld eins og þarf!  Upp með gamla slagorðið" Báknið burt! 

Gleymt verður að "báknið", ríkisútgjöldin, uxu aldrei hraðar í sögu þjóðarinnar en þegar þessi flokkar voru á hátindi valda sinna.  

Hér um árið var vinsæll söngur nokkur sem var með þessari hendingu: Þú ert sjálfur Guðjón inn við beinið.

Ég skil svo sem vel margan Íslending, sem er greinilega óánægður með það hvað það er leiðinlegt og gengur illa að standa í slökkvistarfi eftir stærsta fjármunastórbruna Íslandssögunnar.

Vil tileinka honum þetta vísukorn: 

 

 Minni gullfiskanna seint um síðir  / 

sýnist ráða öllu, það er meinið.  / 

Viðurkenndu nú að þetta þýðir  

að þú ert Ragnar Reykás inn við beinið.  /   


mbl.is Sjálfstæðisflokkurinn með 40,3% fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rétt forgangsröðun, því miður.

Það er áreiðanlega hart fyrir Obama að hætta við Asíuferð sína, ekki hvað síst til Indónesíu, þar sem í gamla barnaskólanum hans hefur verið mikið um að vera við að undirbúa heimsókn gamals nemanda þangað.

En það er bara ekkert smámál að koma einhverjum böndum á hið slæma heilbrigðiskerfi Bandaríkjanna sem engum Bandaríkjaforseta á undan honum hefur tekist að breyta hið minnsta.

Þetta er aðalmál forsetans innanlands og ef honum mistekst núna mun honum ekki takast það síðar þegar Demókratar hafa misst fylgi í kosningum, eins og nokkuð fyrirsjáanlegt er.

Þar með yrði hann kominn í svipaðan flokk og Carter, sem var velviljaður hugsjónamaður sem vildi gera vel en kom litlu í verk, enda var hart að honum sótt á erfiðum tímum og er visst samsæri republikana og Írana í gíslamálinu gott dæmi um það.  

Miðað við stöðuna núna og minnkandi fylgi Obama er forgangsröðun hans á verkefnum vafalaust rétt, hvernig sem fer.  


mbl.is Obama hættir við ferð til Asíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bæði höfuðborg og landsbyggð blæðir.

Þær staðreyndir sem kvikmyndagerðarmenn kynntu í dag eru sláandi og bæta má mörgum fleirum við.

Sú ímynd hefur skotið rótum í hugum margra að kvikmyndagerð þjóni aðeins kaffihúsafólki úr 101 Reykjavík. En raunveruleikinn er sá að bæði landsbyggð og höfuðborg blæðir við það að lemstra íslenska kvikmyndagerð. 

101 Reykjavík er notað sem skammaryrði þar sem búin er til sú ímynd að þar ráfi helst óreglufólk, letingjar og auðnuleysingjar, sem liggi uppi á ríkinu og lepji vín og bjór á kaffihúsum. 

Þetta er alröng mynd eins og glöggt mátti sjá í kynningu á fólki sem hefur unnið við þetta úti á landi og kom fram á milli atriða á Edduverðlaunahátíðinni nýlega.

Íslensk kvikmyndgerð hefur líka laðað að sér erlent kvikmyndagerðarfólk, sem hefur fengið íslenskt kunnáttufólk í vinnu hjá sér. Eða halda menn að atriðið í Bond-myndinni við Jökulsárlón hafi aðeins skapað vinnu í 101 Reykjavík? 

Ég hef eytt öllu mínu fé og ómældri vinnu í kvikmyndagerð undanfarin níu ár. Nánast allan þennan tíma hefur vettvangur minn verið úti á landi en ekki í reykjarkófi reykvískra kaffihúsa. 

En samkvæmt skilgreiningunni sem margir tönnlast á voru Fjölnismenn og Jón Sigurðsson mestu ónytjungar Íslands á sínum tíma þegar þeir sátu á kaffihúsum í Kaupmannahöfn á meðan landar þeirra hírðust í moldarkofum, þræluðu í sveita síns andlitis og löptu dauðann úr skel. 

 


mbl.is Fimm milljarðar tapast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband