25.3.2011 | 23:49
Kannski til 2070?
Á áratugnum 1920-30 ríkti tiltölulega mikið frelsi í viðskiptum, enda áratugurinn kallaður "the roaring twenties" í Bandaríkjunum. Þótt hrunið í kauphöllinni í New York yrði í nóvember 1929, entist dýrðin út árið 1930 og var það ár með Alþingishátíðinni, stofnun ríkisútvarpsins og vígslu ýmissa bygginga glæsilegasta ár, sem Íslendingar höfðu lifað.
Ekki spillti að fá Graf Zeppelin, stærsta loftfar heims, í heimsókn.
1931 skall kreppan á af fullum þunga og setja varð gjaldeyrishöft og verndartolla, sem urðu til þess að innanlands var farið að framleiða alls konar hluti, sem áður höfðu verið fluttir inn.
Allt var þetta gert til bráðabirgða, en kreppan entist lengur hér á landi en annars staðar og náði sinni mestu dýpt 1939. Stríðsgróði Íslendinga var innilokaður í Bretlandi til stríðsloka, en var síðan notaður til að láta smíða nýtískulegasta togaraflota heims og í meðal annars í metinnflutning á bílum.
Þessi dýrð stóð svo stutt að í árslok 1947 var gjaldeyririnn búinn og við tók skömmtunar- og haftatímabil sem sló flestu öðru við, sem menn höfðu áður þekkt.
Aldrei gafst neitt tóm til að rífa niður tollmúrana og 1950 tók við margfalt gengi krónunnar og höftin héldust lengur hér en í öðrum löndum, þótt Íslendingar hefðu grætt á stríðinu og fengið meiri hlutfallslega Marshallaðstoð en nokkur önnur þjóð.
Það var skammarlegt siðferðilega séð að að nýta sér hernaðarlegt mikilvægi landsins til að fá Bandaríkjamenn til að friðþægja okkur með þessum framlögum.
Með Viðreisninni 1959 og inngöngu í EFTA 1970 var byrjað að slaka á tollverndinni, sem hafði haldið uppi margs kyns iðnaði, sem ekki var samkeppnishæfur.
En þessi tollvernd og gjaldeyrishöft, sem áttu að vera til bráðabirgða við upphaf kreppunnar entust í meira en 60 ár, allt fram á síðasta áratug aldarinnnar þegar síðustu leifar hennar hurfu loksins.
Nú verður fróðlegt að sjá hvort gjaldeyrishöft, sem sett voru sem skammtíma úrræði til bráðabirgða í kjölfar Hrunsins og kreppunnar 2008 muni endast jafn lengi og hin fyrri, eða fram undir 2070.
Ef þau gera það er til lítils fyrir mig að pæla í því, því að þá yrði ég ekki einasta löngu dauður heldur börn mín líka.
Ekki sérlega uppörvandi pæling þetta! En um þetta gilda sannindin að maður verði að vera viðbúinn hinu versta og vona það besta.
![]() |
Höft til 2015 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.3.2011 | 18:33
Má gjarna vera "flaggaður inn".
Seinkun útfarar Elísabetar Taylor minnir mig á það að ég hef minnst á það í samtölum að ég hefði ekkert á móti því þegar mín stund kemur, að félagar úr Bifreiðaíþróttaklúbbi Reykjavíkur og Flugmálafélagi Íslands sjái um það að ég verði flaggaður" af stað á eftir niðurtalingu: 10-9-8-7-6-5-4-3-2-1, þegar líkbíllinn leggur af stað frá kirkjunni, og "flaggaður inn" þegar bíllinn kemur að staðnum þar sem hann staðnæmist við kirkjugarðinn.
Bílamenn og flugmenn mættu sjá um þetta saman, því að einn af bikurunum í safni mínu er svonefndur Shellbikar, sem ég fékk eftir flugkeppni 1970.
Ég hef þegar samið lag og texta undir heitinu "Síðasta bílferðin", sem flytja má við þetta tækifæri og hefur einu sinni verið flutt við jarðarför.
Ef líkbíllinn fer áleiðis í Fossvogskirkjugarð hefði ég ekkert á móti því að honum yrði ekið sérleiðina, sem er í Öskjuhlíð, en hins vegar krækt niður á Gufunesveg á sérleið, sem þar var, á leiðinni upp í Grafarvogskirkjugarð, verði legstaðurinn þar.
Leiðin liggur þar að auki undir aðflugsleiðinni að austur-vestur-brautinni á flugvellinum og kannski einhver sem myndi vilja taka að sér að taka á loft í austur yfir Hlíðarfótinn, ef skilyrði leyfa.
Lífið heldur áfram eftir að maður kveður og það má gjarnan lífga aðeins upp á það fyrir eftirlifendur þetta tækifæri.
![]() |
Vildi koma of seint í eigin jarðarför |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
25.3.2011 | 13:09
"Lengi tekur sjórinn við..."
Ofangreint orðtak hefur verið landlægur hugsunarháttur hér á landi og má líka bæta við: "Lengi tekur loftið við."
Við Íslendingar höfum unað glaðir við þá hugsun að sjór og loft séu í þvílíku magni hér úti á hala veraldar að sjálfgefið sé að hvergi í veröldinni sé hvort tveggja eins hreint.
Nú geta menn unað glaðir við það sem sérfræðingar segja, að jafnvel þótt haldið verði áfram að dæla lúti í sjóinn við Krossanes munu áhrifin verða lítil til lengs tíma litið.
Það er gerólíkt þeim umhverfisáhrifum sem ýmsar framkvæmdir hafa haft í anda Rauðhólastefnunnar, sem ég kalla svo, en hún kemur vel fram í eyðingu Rauðhólanna við Reykjavík, ýmissa gíga og gígaraða á Reykjanesskaga að ekki sé minnst á það að fylla hinn 25 kílómetra langa Hjalladal upp af leir og drullu.
Í bloggi mínu á undan þess hef ég nefnt nokkur dæmi um þann hugsunarhátt að lengi taki sjór og loft við því á Íslandi sem við dælum út í umhverfið.
Sumir telja að útblástur hér á landi geti varla verið alvarlegt mál vegna þess hvað við erum fá og landið stórt úti í gríðarstóru hafsvæði.
Þessi hugsun er alröng. Bíll sem blæs menguðu lofti út í andrúmsloftið á Íslandi hefur nákvæmlega sömu áhrif á lofthjúp jarðar og sams konar bíll í London hefur. Lofthjúpur jarðar er nefnilega sameiginlegur fyrir alla jarðarbúa og hafið umlykur jörðina líka.
![]() |
Ekki þrávirk efni í menguninni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
24.3.2011 | 23:06
Sá á þetta skilið !
Mikið óskaplega er ég glaður yfir því að Gísli Örn Garðarsson hefur fengið íslensku bjartsýnisverðlaunin og mikið óskaplega er á ánægður yfir því að hafa fengið að kynnast þessum afburða færa leikhúsmanni og vinna með honum.
Í Gísla Erni er fólgið óvenju samtvinnað andlegt og líkamlegt atgerfi, sem til dæmis naut sín á heimsmælikvarða í Hamskiptunum, þar sem frammistaða hans var ógleymanleg og einstæð og er vafasamt að magnað og óhugnanlegt innihald verksins hafi í annan tíma verið laðað betur fram.
Samvinnan í söngleiknum Ást var óskaplega gefandi og skemmtileg tilviljun að við Þorsteinn Gunnarsson, sem fórum mikinn saman í Herranótt í þrígang fyrir meira en hálfri öld, skyldum báðir vera "gripnir upp" á gamals aldri til að fara aftur á fjalirnar.
Þorsteinn stökk fram alskapaður sem leikari 15 ára gamall í leikritinu "Browningþýðingin" og Gísli Örn sá til þess að hann næði hápunkti ferilisins í London í einhverju glæsilegasta "come-back" íslenskrar leiklistarsögu.
Hlýja Gísla og stórt hjarta ásamt ástríðu og metnaði hefur nú veitt honum verðskuldaða umbun.
Til hamingju, góði vinur!
![]() |
Gísli Örn fékk bjartsýnisverðlaunin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.3.2011 | 22:49
Leikkonur lifa.
Leikarar og leikkonur lifa í verkum sínum þótt jarðneskri tilveru ljúki. Það gerir Elisabet Taylor og það gerir líka íslensk stallsystir hennar, því að á nú reikar hugurinn til tveggja leikkvenna, sem eiga þetta sameiginlegt og kveðja þetta tilverustig nokkurn veginn á sama tíma.
Nær mér stendur Margrét Ólafsdóttir, hin íslenska leikkona, sem var svo mikil, hlý og heil manneskja, að hennar er sárt saknað.
Ekki síður verður mér hugsað til manns hennar, Steindórs Hjörleifssonar, sem ég átti langt og gott samstarf við, bæði hjá Leikfélagi Reykjavíkur og ekki síður þegar hann var dagskrárstjóri hjá Sjónvarpinu.
Það kom í hans hlut að móta fyrstur manna það starf og honum fórst það vel úr hendi.
Lengi hefur það verið einhver ljúfasta minning sem ég hef átt um tvenn hjón og tilhlökkunarefni að hitta þau. Annars vegar Thor Vilhjálmsson og Margréti Indriðadóttur og hins vegar Steindór og Grétu.
Svo mikil hlýja, virðing og væntumþykja en líka stutt í húmorinn og lífsgleðina.
Nú eru þau Thor og Gréta farin og hugurinn er hjá Margréti Indriðadóttur og Steindóri Hjörleifssyni og niðjum og ástvinum þessara tveggja góðu hjóna, sem ég sendi mínar dýpstu samúðarkveðjur.
![]() |
Útför Taylor í kvöld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.3.2011 | 20:05
Best að segja sem minnst.
Fyrir nokkrum árum greindi ég frá því að samkvæmt heimildum mínum væri hreinsibúnaður Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga ónýtt drasl, enda gysi oft upp mikill reykur frá verksmiðjunni að næturlagi. Fyrir hreina tilviljun átti ég leið fram hjá henni að næturlagi þegar það var gert.
Borið var á móti þessu og sagt að með ólíkindum væri andúð mín á þessari starfsemi sem lýsti sér í því að ég lægi yfir verksmiðjunni á næturnar til að reyna að ófrægja hana með myndum.
Engin leið var að gefa upp nafn heimildarmanns míns, því að hann kvaðst myndu verða rekinn umsvifalaust ef upp kæmist að hann hefði "lekið".
Nú nýlega frétti ég af því að við uppskipun í höfninni hefði verið farið mjög ógætilega með heilsuspillandi efni en aftur gerist það að ekki er hægt að segja frá heimildarmönnum, vegna þess að strax og þetta vitnaðist hófst mikil leit að þeim, væntanlega til að reka þá.
Ég bloggaði um það fyrir jólin að þrautreyndur skipstjóri segði að hvergi í heiminum væri eins auðvelt að losa efni í sjóinn og hér við land. Menn kæmust upp með hluti hér sem þeir fengju fangelsisdóma fyrir annars staðar og misstu skipstjórnarréttindi fyrir í öðrum löndum.
Ekkert af þessu hefur haft hin minnstu áhrif eða vakið neina athygli og líklega fer eins um mál aflþynnuverksmiðjunnar við Akureyri, sem rakið var í Kastljósi í kvöld.
Þeir sem reka verksmiðjurnar hér sjá sjálfir um mælingar ef þeir þá nenna því yfirleitt.
Í ljósi þess sem hér er rakið og viðbragða við því held ég að best sé fyrir mig að segja sem allra minnst og reyna með því að draga úr því að vera talinn "á móti framförum og atvinnuuppbyggingu". Ég hef til dæmis verið að reyna að haga mér á jákvæðan hátt með því að minnast ekki á mengunina frá sorpbrennslustöðvunum.
Hvaða máli skiptir það þótt einhverjir fiskar drepist innst í Eyjafirði á meðan að togararnir geta veitt á úthafinu og bátar, sem á annað borð hafa kvóta, geta veitt utar í Eyjafirði?
Hvaða máli skiptir það þótt einhver einn bóndi hætti búskap? Er bændum ekki að fækka stöðugt hvort eð er?
Hvað er yfirleitt verið að blaðra með svo staðbundna og lítilfjörlega mengun og hræða með því einhverja sérvitra útlendinga frá því að trúa því hvað við Íslendingar séum hreinir og umhverfisvænir?
![]() |
Mengun frá verksmiðju Becromal |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.3.2011 | 14:34
Snúið mál og þarf að kryfja til mergjar.
Það þarf að gera eitthvað til þess að tryggja að mál á borð við ráðningu skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu komi ekki aftur upp.
Í hliðstæðum álitamálum áður varðandi ráðningar hafa ráðherrar gengið á svig við álit matsaðila og farið sínu fram, en svo var ekki í þessu máli. Hvernig gat matsnefndin í þessu máli komist að allt annarri niðurstöðu en kærunefnd jafnréttismála?
Ef komast á hjá svona uppákomum, ættu ráðherrar þá að fela kærunefndinni fyrirfram að úrskurða í málum af þessu tagi, ef einstaklingar af báðum kynjum sækja um?
Eitthvað þarf að gera. Þetta gengur ekki svona, hverjum sem um er að kenna.
![]() |
Gat ekki sniðgengið matið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.3.2011 | 12:57
Jákvæðir möguleikar.
Ef rétt verður á málum haldið geta Íslendingar átt góða möguleika á að nýta sér vaxandi verðmæti sem felast í umhverfisvænni starfsemi á alla lund. Möguleikar á samsetningu rafbíla og hvers kyns önnur starfsemi sem tengist grænni umhverfisstefnu eru eitt það jákvæðasta sem hægt er að finna fyrir okkur.
Nýtt dæmi um þetta er vaxandi ásókn erlendra ferðamanna í að skipta við fyrirtæki, sem hafa umhverfisvottun.
En þá verður líka að búa svo um hnúta að ítrustu kröfum um vöndun vinnubragða í hvívetna sé fylgt en ekki reynt að skauta fram hjá þeim eins og svo oft er reynt að gera hér á landi.
![]() |
Milljarðasamningur um rafbíla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
23.3.2011 | 00:02
Efasemdir Guðmundar jaka.
Ég vitna oft í Guðmund J. Guðmundsson þegar vöxtur skrifræðis er annars vegar. Hann sagði eitt sinn við mig þegar niðurstöður úr einni rannsókn vísindamanna leiddi í ljós að matarneysla fólks væri mest í hádeginu og um sjöleytið á kvöldin.
Hann tók í nefið, og nuddaði nefið á eftir um leið og hann sagði: "Ég efast stórlega um að eyða þurfi gríðarlegum fjármunum í það að mennta tugþúsundir fólks í langskólagöngu árum saman til þess að stunda rannsóknir, sem leiða til niðurstöðu sem allir vissu fyrirfram."
Þetta kemur í hugann þegar greint er frá því að í rannsókn í háskólanum í St. Andrews það sem liggur í augum uppi, að að sjálfsögðu eru aðlaðandi og fagrar konur ófúsari til útgjalda fyrir stefnumót en hinar.
Þessar konur, sem hafa svona mikinn séns eru auðvitað öruggari með sig og vita að þær komast upp með miklu meira en hinar. Allt í lagi að reyna á þanþol karlsins, því ef hann fælist, þá er nóga aðra steggi að hafa.
Að eyða hafi þurft orku, tíma og fjármunum háskólafólks til að finna þetta út með viðamikilli vísindalegri rannsókn staðfestir orð Jakans.
Auðvitað var þetta djarflega mælt hjá honum, því enginn efast um gildi góðrar menntunar og vandaðra og nauðsynlegra rannsókna á grundvelli hennar. En það var nú samt svolítið sannleiks(tóbaks)korn í þessu hjá honum.
![]() |
Fagrar konur hunsa frekar reikninginn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.3.2011 | 23:50
Ég er sloppinn, - í bili.
Mér varð það á um daginn að blogga um það að fréttamenn megi ekki segja að milljarðarnir hverfi, þótt Björgólfur Thor hafi sagt það sjálfur í myndinni "Guð blessi Ísland."
Mér varð það líka á að kalla Pálma Haraldsson Pálma í Fons, en Svavar Halldórsson var kærður fyrir að gefa í skyn að þetta væri samgróið fyrirbæri.
Nú hefur Svavar verið sýknaður, en Hæstiréttur á eftir að fjalla um málið og rétt eins og nú um daginn, varðandi Stjórnlagaþingkosningarnar, er ég viðbúinn úrskurði á báða vegu, þótt mér finnist sjálfum sektardómur ekki standast fremur en ógilding kosninganna í janúar.
Ég á það sameiginlegt með Svavari að fyrir 12 árum var þess krafist að ég yrði rekinn frá Sjónvarpinu og sömuleiðis fréttastjóri minn og útvarpsstjóri. Fór fram ítarleg rannsókn á kæruefninu.
Ákæruatriðið á hendur mér var öllu alvarlegra en á hendur Svavari, því að verði María Sigrún Hilmarsdóttir og útvarpsstjórinn dæmd núna, er þar aðeins um að ræða sektardóm en ekki missi atvinnunnar eins og krafist var á sínum tíma á hendur mér og yfirmönnum mínum.
Rannsóknin 1999 leiddi til sýknu og nú er að sjá hvort hið sama gerist aftur við endanleg lok þessa máls.
Það ætla ég bara rétt að vona.
![]() |
Pálmi tapaði meiðyrðamáli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)