"Hver á sér meðal þjóða þjóð...?"

"Hver á sér meðal þjóða þjóð  /

er þekkir hvorki sverð né blóð  / 

en unir sæl við ást og óð  / 

og auð, sem friðsæld gaf?..." 

 

Þannig orti Hulda á sínum tíma en nú er öldin önnur. Undir kjörorðinu "tafarlausar aðgerðir!" er ekki lagður neinn mælikvarði á það sem þurfi að gera til að þjóðin afli sér á auðs af hvaða tagi sem vera skal, helst jafn hratt og hún gerði á árunum 2002-2008. 

Þegar búið er að strika út öll viðmið í þeim efnum er hægt að setja upp eftirfarandi atvinnustefnu:

1. Á Íslandi skal reisa öll þau álver sem mögulegt er að reisa þótt það kosti alla orku landsins. Í álverunum öllum fá að vísu aðeins 2% vinnuaflsins vinnu en skítt með það því að eftirfarandi kostir, merktir 2-4,  koma til viðbótar. 

2. Ef tilboð kemur erlendis frá um að nýta okkar dreifbýla land til geymslu á kjarnorkuúrgangi ber að taka því tafarlaust, enda þörfin brýn á heimsvísu þar sem aðrar þjóðir vilja ekki sjá slíka starfsemi þótt sögð sé hættulaus og örugg.

3. Ef tilboð kemur erlendis frá að reisa hér olíuhreinsistöðvar vegna þess að engin önnur vestræn þjóð hefur viljað reisa slíkar í 20 ár, ber að drífa í því máli.  

4. Ef það getur skapað atvinnu að bjóða herjum heims Ísland til heræfinga eftir því sem mögulegt er verður að keyra á það umsvifalaust. 

5. Á grundvelli atriðis númer 4 skal stefna að því að bandaríska herliðið komi aftur. Ef það tekst ekki má reyna við Rússa, sem ekki hafa sýnt okkur þann mikla fjandskap sem nágrannaþjóðir okkar hafa sýnt okkur í hinu vestræna "umsátri um Ísland." 

6. Allir þeir sem sjá eitthvað athugavert við þetta eða samþykkja það ekki til fullnustu, lið fyrir lið, skulu skilgreinast sem fólk sem er "á móti atvinnuuppbyggingu" og ber að flokka með vinstri grænum á svipaðan hátt og allir þeir sem ekki gengu alveg í takt við hægri flokkana á öldinni sem leið voru flokkaðir sem kommúnistar. 

Auðvelt er að sjá útfærslu þessa á sumum af þeim bloggpistlum sem hafa verið skrifaðir um mál af þessu tagi. 

Fyrst "auður sem friðsæld gaf" reyndist takmarkaður, er augljóst hvert stefna ber í þessum efnum.

Rétt er að halda því til haga að sá sem skrifar þennan pistil var og er fylgjandi aðild að NATO og var fylgjandi veru varnarliðs hér á landi á meðan á Kalda stríðinu stóð. 

Eftir að Kalda stríðinu lauk hætti hann stuðningi við varnarliðið og skal því flokkast sem kommúnisti þaðan í frá samkvæmt þeim skilningi að á hann og annað náttúruverndarfólk megi klína mesta skammaryrði okkar tíma: vg, hvort sem viðkomandi er í þeim flokki eða ekki. 


mbl.is Vilja ekki sjá herþotuæfingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Mig langaði í laumi að prófa mottuna."

Ég er að uppgötva það að þessi marsmánuður bjóði mér upp á óvænta ánægju sem endist til 1. apríl en það er mottumars Krabbameinsfélags Íslands.

Frétti af því í gær að þessi keppni hafi vakið miklu meiri athygli og þátttöku en forsvarsmenn hennar óraði fyrir, það svo mjög að mér skilst að vefurinn hafi "hrunið" vegna umferðar um tíma. 

Eins og Einar Stefánsson segist hafa viljað prófa gönguskíði,  og það hafi snúist upp í þessa miklu göngu hans og baráttu, ætlaði ég bara að prófa mottuna þótt ég hefði fyrir löngu verið búinn að ákveða að láta mér aldrei vaxa skegg, enda kona mín lítt hrifin af slíku. 

En þegar Guðrún Agnarsdóttir, sú mæta kona, bað mig um að gera þetta fyrir gott málefni var það sjálfsagt mál. 

Ég beið samt með það til 10. mars því að ég vildi ekki byrja fyrr en eitthvað væri komið. Og þegar mánuðurinn var hálfnaður í gær, fór fyrsta myndin inn á vefinn, þessi sem ég læt fylgja þessum pistli. 

Ég er að upplagi rauðhærður en hár orðið ljóst og grátt og jafnvel mislitt með aldrinum, líkt og á Bjarna Fel. Þess vegna er mottan mín frekar rytjuleg en á kannski eftir að skána þessar tvær vikur sem eftir eru. 

Ef til vill ætti að halda keppni um það hver er með rytjulegustu mottuna.  p1011279.jpg

Faðir minn heitinn var kominn á hækjur síðustu árin sem hann lifði, og var með myndarlegt yfirvaraskegg síðustu áratugina. 

Segja má því að marsmánuður hafi verið vel valinn fyrir mig að prófa hvort tveggja, ef ætlunin væri að fólk sem þekkti pabba segði, þegar ég kem höktandi á hækjunum vegna fótbrots: Nei, er ekki karlinn kominn þarna ljóslifandi aftur!" 

Þetta hefur sem sagt lífgað hressilega upp á fótbrotsmánuðinn hjá mér og er bara skemmtilegt. 

Og síðan hef ég heyrt þá kenningu að í undirmeðvitund karlmanna blundi löngun til að fara í spor skeggvaxinna fornmanna. Kannski er ég að uppgötva það líka. 

Ég tel að þessi keppni hefði slegið enn rækilegar í gegn ef hún hefði verið fram í apríl þegar fólk hittist í fermingarveislunum. 

Spurningin er því: Eigum við að leggja það til við mottumenn að þeir sammælist um það að vera með þær, blessaðar, út apríl, svona bara til að lífga upp á tilveruna, fjölskyldulífið og fermingarnar? 

Að lokum vil ég hvetja fólk til að heita á mottumenn og styðja gott málefni með því að fara inn á vefinn Karlmenn og krabbamein hjá Krabbameinsfélagi Íslands, http:// www.karlmennogkrabbamein.is


Röng viðbrögð eða yfirskin?

 Um sögu Norðmannsins, sem fékk ekki við neitt ráðið þegar Priusbíll hans tók af honum öll ráð og óð stjórnlaust upp í 176 kílómetra hraða segi ég: "hægan nú!" 

Á öllum bifreiðum á að vera búnaður til að drepa á vélinni.

Á Prius ætti að vera hægt að setja skiptinguna í hlutlausa stillingu.

Á Priusi eru hemlar eins og á öðrum bílum.

Í Prius er svonefnd handbremsa eða neyðarhemill öðru nafni eins og í öllum öðrum bílum. 

Vélin í Prius er ekki kraftmeiri en það að hemlarnir eiga alveg að geta unnið á móti og vel það.  

Á norskum hraðbrautum er 100 km hámarkshraði sá hæsti sem ég þekki þar í landi.  

Prius er tiltölulega kraftlítill bíll og nær ekki 176 kílómetra hámarkshraða sínum fyrr en eftir að minnsta kosti heila mínútu ef bílnum er ekið á 100 kílómetra hraða og bensíngjöfin er sett í botn.

Mér finnst mjög ósennilegt að ökumaðurinn hafi ekki á meira en heillar mínútu viðbragðstíma getað gert neitt til að hægja á bílnum, ekki drepið á bílnum, ekki sett í hlutlausan, ekki hemlað, ekki tekið í handbremsuna.  

Það breytir því ekki að bensíngjafir eiga ekki að geta fest í botni á bílum. 

Ef það gerist snögglega í erfiðri umferð getur "panik" gripið ökumanninn svo að honum fatast og það leitt til rangra viðbragða, sem ekki er sanngjarnt að kenna honum um. 

Öðru máli gegnir á beinni braut þar sem umhugsunartíminn er minnst 60 sekúndur.  

Ég á erfitt með að trúa því að umræddur Prius hafi breyst í eitthvert norskt afbrigði af Kristínu Stephens Kings á þann hátt sem lýst er í norsku frétttinni. 

Finnst líklegra að Norðmaðurinn hafi lesið fréttir um að bensíngjafir í Prius eigi það til að festast í botni og notað það sem átyllu í að útskýra ofsaakstur sinn sem endaði með því að hann missti bílinn út í vegrið.  

 

 


mbl.is Rannsaka stjórnlausan Prius
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þyrfti að mæla víðar.

Mælingarnar á ýmsum götum á Reykjavíkursvæðinu þar sem er 30 km hámarkshraði eru mjög þarfar.

Engin afsökun er fyrir því að fara hraðar vegna þess að vegalengdirnar innan þessara hverfa eru yfirleitt mjög stuttar. 

Maður sem ekur á 54 kílómetra hraða við þessar aðstæður eyðileggur allt gagn af því að hafa hraðann 30 km. 

Gagnið af  30 km hraðanum er ekki aðeins að árekstrar og slys verði færri og vægari á þessum hraða en á 50 km hraða heldur ekki síður vegna þess að ef allir halda sig við 30 km hraðann geta vegfarendur hagað ferðum sínum með tilliti til þess. 

Þegar ekið er af tiltölulega blindu horni inn á götu á sá, sem það gerir, kröfu á að umferðin, sem hann á að sjá og varast og kemur honum á hlið sé ekki á tvöföldum hraða. 

Svo mikill hraði getur auk þess leitt til þess að bíll, sem annars hefði verið sýnilegur í tæka tíð, er ósýnilegur þar til það er um seinan. 

Um þetta eru ýmis dæmi. 

En það virðist gleymast að aðstæður sem krefjast 30 km hámarkshraða eru víðar en á Reykjavíkursvæðinu, t. d. á Akureyri, Reykjnesbæ, Akranesi, Ísafirði og víðar. 

Lögreglan á þessum stöðum ætti að taka sig til og gera hraðamælingar á þessum stöðum að reglulegum viðburðum því að slysahættan þar og brot á umferðarhraðareglum eru fyrir hendi, þótt úti á landi virðist streitan og hraðinn í umferðinni ekki vera eins mikill og hér á suðvesturhorni landsins. 

 

 


mbl.is Fjórir af þrjátíu óku of hratt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í fótspor snjallra fullhuga.

Ég er búinn að taka það mörg viðtöl við göngumenn á hálendi Íslands og þekki suma þar að auki mjög vel að það þarf ekkert að draga af því að ganga Einars Stefánssonar er mikið afrek. 

Fyrst var gengið yfir endilangt landið yfir jöklana þrjá árið 1976. Það gerði Arngrímur Hermannsson við sjötta mann. Þeir hófu gönguna á Grenisöldu á miðri Fljótsdalsheiði og luku henni 22 dögum síðar við Húsafell.

Þeir höfðu 45 kíló af mat með sér, kláruðu hann allan og léttust að meðaltali um 10-15 kíló hver.

Fyrir nokkrum árum gekk Guðmundur Eyjólfsson lengstu gönguna, frá Hornvík suður um hálendi Vestfjarða yfir Holtavörðuheiði um miðhálendið og endaði niður í Vopnafirði. Það var mikið afrek.

Arngrímur Hermannsson fór við sjötta mann á þremur jeppum yfir jöklana þrjá 1986 og var þetta að mörgu leyti tímamótaferð á þeim tímum þegar 35 tommu dekk voru stærstu dekkin. Sjálfur var Arngrímur á 33ja tommu dekkjum!

1991 var farinn leiðangur að frumkvæði Benedikts Eyjólfssonar (Bílabúð Benna) þar sem jeppi ók fyrir eigin vélarafli upp á Hvannadalshnjúk.  

1999 var Arngrímur Hermannsson leiðangursstjóri í einu jeppaferðinni sem farin hefur verið fram og til baka yfir Grænlandsjökul. Ég var með í ferðunum 1991 og 1999 og kynntist því hvað liggur að baki. 

Næsta stóra skrefið í notkun jeppa var för Freys Jónssonar og fleiri á Suðurskautslandið. 

Síðast en ekki síst voru frábær gönguafrek feðganna Haraldar Arnar Ólafssonar og föður hans bæði á Suðurskautslandinu og norðurpólnum, sem lýsa eins og ljósvitar í auðnum heimskautasvæða.

Og nú sýnist mér á fréttum að Haraldur Örn sé á enn einni göngu sinni.   

Svona ferðir voru farnar af þeirri blöndu af forsjálni, þekkingu, varfærni og dirfsku sem einkennir flest brautryðjendaverk. Til hamingju, Einar Stefánsson! 

Andstæða við þær er ganga fransks ofurhuga suður yfir Vatnajökul hér um árið en hann fannst illa til reika við suðausturhorn jökulsins og mátti þakka fyrir að lifa af. 

Síðar fór hann í enn fráleitari göngu áleiðis til Norðupólsins og hefur ekki sést síðan.  


mbl.is „Mig langaði bara til að prófa gönguskíði“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað um blandaða lausn?

Ég hef lengi verið veikur fyrir blandaðri lausn í kjördæmamálinu eilífa auk þess sem ég er fylgjandi persónukjöri í Alþingiskosningum.

Hún felst í því að landið verði eitt kjördæmi og að tryggt sé jafnt vægi atkvæða flokkanna, þar með talin atkvæði sem þeir fá í gegnum frambjóðendur sína í sex einmenningskjördæmum.

Einmenningskjördæmin verði: 

1. Höfuðborgarsvæðið, frá Mosfellsbæ til Hafnarfjarðar.

2. Vesturland og Vestfirðir að undanskilinni Strandasýslu. 

3. Norðurland (Strandasýsla meðtalin). 

4. Austurland. 

5. Suðurland. 

6. Suðurnes. 

Einmenningskjördæmin yrðu ekki jafn fjölmenn en vegna þess að aðeins 10% þingmanna kemur úr þeim ætti það ekki að koma að sök. 

Einmennningskjördæmin gefa möguleika fyrir frambærilega einstaklinga til að bjóða sig fram án þess að vera á vegum flokkanna. 

Þröskuldur í atkvæðavægi yrði afnuminn enda sýnir reynslan af síðustu kosningum til dæmis, að hann kemur ekki í veg fyrir að þingflokkar klofni allt niður í einn mann. 

Og því síður hefur það komið í veg fyrir að flokkar hafi klofnað í raun í einstökum málum eins og í Iceseve málinu. 


mbl.is Vilja að landið verði eitt kjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óraunsæ stjórnvöld.

Ekki skal ég verða til að verja hernað Rússa á hendur Georgíumönnum á sínum tíma. Þar beittu Rússar hörku í stíl hinna gömlu sovétleiðtoga og keisaranna á undan þeim. 

En ráðamenn í Georgíu sýndu ábyrgðarleysi og dómgreindarskort í aðdraganda þessarar innrásar þegar þeir ofmátu stöðu sína og héldu að þeir gætu jafnvel reitt sig á beinan hernaðarstuðning Bandaríkjamanna vegna deilnanna við Rússa og hugsanlegs stríðs við þá. 

Nú sýna þeir enn og aftur ábyrgðarleysi og dómgreindarskort með því að standa á bak við og jafnvel mæla bót gabbfrétt um innrás Rússa.  


mbl.is Vestrænir sendimenn gagnrýna gabbfrétt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hægt að gera þetta með þyrlum?

Sífellt koma upp raddir um það að Reykjavíkurflugvallar sé ekki þörf því að hægt sé að nota þyrlur til sjúkraflutninga utan af landi. 

Þegar menn tala um að þyrlur geti annast þetta er horft fram hjá nokkrum grundvallaratriðum.

1. Rekstur þyrlu er 4-5 sinnum dýrari en flugvélar af sömu stærð.

2. Viðhaldstími þyrlna er er miklu lengri og þær því úr leik miklu lengur sem því nemur.

3. Flugvélar eru mun hraðfleygari en þyrlur og geta flogið í ísingu eða ofan skýja af því að þær hafa jafnþrýstibúnað. Í sumum tilfellum er ekki hægt að koma þyrlum við vegna þessa. 

Þegar þetta þrennt er lagt saman kemur í ljós að miklu fleiri þyrlur þarf til að inna sama verkefni af hendi en flugvélar. 

Í sumum tilfellum eru þyrlur hentugri vegna lendingargetu þeirra og þess vegna er sjálfsagt að nota þær þegar sú geta ræður úrslitum. 

Það er einfaldlega hvorki hægt að vera án þyrlna né flugvéla við sjúkraflutninga eins og dæmið um 13 sjúkraflug á flugvélum á aðeins einni viku sýnir.  

Hægt er að nefna fjölmörg dæmi um mismunandi atvik og aðstæður en ég læt eitt nægja.  

Þegar rúta fór út af brúnni á Hólsselskíl á Fjöllum fyrir áratug, var ekki hægt að koma við þyrlu sem flygi frá Reykjavík. Mér tókst hins vegar á grundvelli reynslu og gamals refskapar gagnvart veðurskilyrðum að fljúga norður á eins hreyfils vél. 

Twin Otter vél fór frá Akureyri og lenti á stuttri braut við Grímsstaði á Fjöllum og flutti slasað fólk til Akureyrar.  

Síðan eru önnur tilvik þar sem þyrlurnar ráða úrslitum og ég hef áður bloggað um það að við séum á leið afturábak í þeim málum um 30 ár með því að fækka þyrlunum um of.  


mbl.is 13 sjúkraflug á einni viku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru "hálaunin" til skammar?

Hversu lengi hefur hann ekki verið sunginn, söngurinn um öll hin vel borguðu störf sem byðust í álverum landsins?

Hve lengi hefur ekki verið sungið um dýrð þess að selja orkuna til "orkufreks iðnaðar" og fólki talið trú um að orðið "orkufrekur iðnaður" sé það jákvæðasta sem finnst.

Það er til marks um mátt áróðursins að hægt hafi verið að gera þetta heiti jákvætt því að orðanna hljóðan segir allt annað, sem sé það að þetta er mesta orkubruðl sem mögulegt er.

Þar á ofan eru störfin, sem sköpuð eru, hin dýrustu í heimi. 

Nú kemur í ljós að dýrustu störf í heimi eru "til skammar" í álverinu á Grundartanga og þegar litið er á stórfelldan gróða álversins liggur tvennt á borðinu: Þessi gríðarlegi gróði, sem fer allur úr landi, er fenginn með því að hafa launin skammarlega lág og orkuverðið sömuleiðis.

Svo lágt er orkuverðið að Landsvirkjun er sífellt rekin með tapi og skuldar 350 milljarða króna. Ekki er afkoma OR beysin heldur.   

Og til þess að álfurstarnir hafi allt sitt á hreinu er verkfallsrétturinn tekinn af starfsmönnunum sem vita að álver verða að vera gangandi dag og nótt.

Samningsstaða starfsmanna álversins á Grundartanga er í raun engin.

Eigendur álversins eru búnir að búa þannig um hnúta að þeir skófli á öruggan hátt milljarðatuga gróða úr landi á meðan starfsmennirnir eru samkvæmt eigin lýsingu í hlutverki hundsins, sem tekur við því, sem að honum er rétt, og bítur ekki í höndina sem fæðir hann, þótt fóðrið sé svo lélegt að það sé "til skammar."  


mbl.is Vilja af skammarlega lágum launum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvískinnungur í dýravernd.

Ýmis konar tvískinnungur hefur verið á kreiki varðandi dýravernd hér á landi. Fyrir um þrjátíu árum kom það upp að Íslendingum byðist að selja úsundir fjár til Arabalands, þar sem féð yrði aflífað með þess lands aðferð, sem er hin forna íslenska aðferð, stunga inn um hnakkagrófina. 

Mikið ramakvein var rekið upp hér á landi vegna þess hve ómannúðleg þessi aðferð væri og varð ekkert úr þessari sölu af þeim sökum. 

Ég leitaði þá sem fréttamaður að svörum hjá dýralæknum en enginn vildi láta hafa neitt eftir sér þótt mér skildist helst að þessi aðferð væri ekkert verri en að skjóta dýrin.

Jón Eiríksson, sem þá var dýralæknir á Egilsstöðum svaraði mjög skemmtilega: "Ég er ekki í neinni aðstöðu tl að dæma um þetta því að ég hef hvorki verið kind sem hefur verið slátrað í Arabíu eða á Íslandi." 

Hins vegar liggur fyrir að geldiing geti verið sársaukafull aðgerð og því hefði mátt ætla að hér risi meiri andspyrna gegn misjafnlega vel heppnuðum geldingum en reis gegn hinni arabísku og forníslensku aflífun fjár á sínum tíma.  


mbl.is Ekki má gelda með hrúta- eða kálfatöngum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband