"Hver á sér meðal þjóða þjóð...?"

"Hver á sér meðal þjóða þjóð  /

er þekkir hvorki sverð né blóð  / 

en unir sæl við ást og óð  / 

og auð, sem friðsæld gaf?..." 

 

Þannig orti Hulda á sínum tíma en nú er öldin önnur. Undir kjörorðinu "tafarlausar aðgerðir!" er ekki lagður neinn mælikvarði á það sem þurfi að gera til að þjóðin afli sér á auðs af hvaða tagi sem vera skal, helst jafn hratt og hún gerði á árunum 2002-2008. 

Þegar búið er að strika út öll viðmið í þeim efnum er hægt að setja upp eftirfarandi atvinnustefnu:

1. Á Íslandi skal reisa öll þau álver sem mögulegt er að reisa þótt það kosti alla orku landsins. Í álverunum öllum fá að vísu aðeins 2% vinnuaflsins vinnu en skítt með það því að eftirfarandi kostir, merktir 2-4,  koma til viðbótar. 

2. Ef tilboð kemur erlendis frá um að nýta okkar dreifbýla land til geymslu á kjarnorkuúrgangi ber að taka því tafarlaust, enda þörfin brýn á heimsvísu þar sem aðrar þjóðir vilja ekki sjá slíka starfsemi þótt sögð sé hættulaus og örugg.

3. Ef tilboð kemur erlendis frá að reisa hér olíuhreinsistöðvar vegna þess að engin önnur vestræn þjóð hefur viljað reisa slíkar í 20 ár, ber að drífa í því máli.  

4. Ef það getur skapað atvinnu að bjóða herjum heims Ísland til heræfinga eftir því sem mögulegt er verður að keyra á það umsvifalaust. 

5. Á grundvelli atriðis númer 4 skal stefna að því að bandaríska herliðið komi aftur. Ef það tekst ekki má reyna við Rússa, sem ekki hafa sýnt okkur þann mikla fjandskap sem nágrannaþjóðir okkar hafa sýnt okkur í hinu vestræna "umsátri um Ísland." 

6. Allir þeir sem sjá eitthvað athugavert við þetta eða samþykkja það ekki til fullnustu, lið fyrir lið, skulu skilgreinast sem fólk sem er "á móti atvinnuuppbyggingu" og ber að flokka með vinstri grænum á svipaðan hátt og allir þeir sem ekki gengu alveg í takt við hægri flokkana á öldinni sem leið voru flokkaðir sem kommúnistar. 

Auðvelt er að sjá útfærslu þessa á sumum af þeim bloggpistlum sem hafa verið skrifaðir um mál af þessu tagi. 

Fyrst "auður sem friðsæld gaf" reyndist takmarkaður, er augljóst hvert stefna ber í þessum efnum.

Rétt er að halda því til haga að sá sem skrifar þennan pistil var og er fylgjandi aðild að NATO og var fylgjandi veru varnarliðs hér á landi á meðan á Kalda stríðinu stóð. 

Eftir að Kalda stríðinu lauk hætti hann stuðningi við varnarliðið og skal því flokkast sem kommúnisti þaðan í frá samkvæmt þeim skilningi að á hann og annað náttúruverndarfólk megi klína mesta skammaryrði okkar tíma: vg, hvort sem viðkomandi er í þeim flokki eða ekki. 


mbl.is Vilja ekki sjá herþotuæfingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í engu öðru póstnúmeri á landinu eru skapaðar meiri gjaldeyristekjur en 101.

Í 101 Reykjavík eru um 630 fyrirtæki og póstnúmeri 105 (Hlíðum og Túnum) um 640. Í þessum tveimur póstnúmerum eru því um 1.300 fyrirtæki.

Í 101 Reykjavík eru um 7.400 heimili, í póstnúmeri 107 um fjögur þúsund og póstnúmeri 105 um 6.600. Samtals eru því í göngufjarlægð frá Kvosinni um átján þúsund heimili og þar búa um 40 þúsund manns, þriðjungur allra Reykvíkinga, sem eru um 118 þúsund.

Í póstnúmeri 101 búa 15 þúsund manns, í 107 um 9.300 og í 105 um 15.800. Og Seltirningar eru 4.400 en þeir vinna flestir og stunda nám í miðbæ Reykjavíkur.

Á svæðinu frá Gömlu höfninni að Nauthólsvík eru nú til að mynda Háskólinn í Reykjavík, Háskóli Íslands, Landspítalinn, Hótel Loftleiðir, Umferðarmiðstöðin, Norræna húsið, Þjóðminjasafnið, Ráðhúsið, Alþingi, Menntaskólinn í Reykjavík, Kvennaskólinn í Reykjavík, Stjórnarráðið, Seðlabankinn, Borgarbókasafnið, Kolaportið, Listasafn Reykjavíkur, Listasafn Íslands og nýja tónlistar- og ráðstefnuhúsið Harpa.

Þar að auki er í Kvosinni fjöldinn allur af veitingastöðum, skemmtistöðum, krám, verslunum og bönkum.

Til landsins kemur nú árlega rúmlega hálf milljón erlendra ferðamanna, um 1.500 manns á dag að meðaltali, og þeir fara langflestir í Kvosina vegna þess að hún er miðbærinn í Reykjavík en ekki til að mynda Kringlan.

Í Kvosinni, á Laugaveginum, sem er mesta verslunargata landsins, og Skólavörðustíg dvelja erlendir ferðamenn á hótelum, fara á veitingahús, krár, skemmtistaði, í bókabúðir, plötubúðir, tískuverslanir, Rammagerðina í Hafnarstræti og fleiri slíkar verslanir til að kaupa ullarvörur og minjagripi, skartgripi og alls kyns handverk.

Margar af þessum vörum eru hannaðar og framleiddar hérlendis, til að mynda fatnaður, bækur, diskar með tónlist og listmunir. Og í veitingahúsunum er selt íslenskt sjávarfang og landbúnaðarafurðir, sem eru þá í reynd orðnar útflutningsvara.

Allar þessar vörur og þjónusta er seld fyrir marga milljarða króna á hverju ári, sem skilar bæði borgarsjóði og ríkissjóði miklum skatttekjum.

Þar að auki fara erlendir ferðamenn í hvalaskoðunarferðir frá gömlu höfninni í Reykjavík. Þar er langmestum botnfiskafla landað hérlendis og jafnvel öllum heiminum, um 87 þúsund tonnum árið 2008, um tvisvar sinnum meira en í Grindavík og Vestmannaeyjum, fimm sinnum meira en á Akureyri og fjórum sinnum meira en í Hafnarfirði.

Við gömlu höfnina og á Grandagarði eru til dæmis fiskvinnslu- og útgerðarfyrirtækin Grandi og Fiskkaup, Lýsi og CCP sem selur útlendingum áskrift að Netleiknum EVE Online fyrir um 600 milljónir króna á mánuði sem myndi duga til að greiða öllum verkamönnum í öllum álverunum hérlendis laun og launatengd gjöld.

Hvergi í heiminum eru því að öllum líkindum skapaðar jafn miklar tekjur á hvern vinnandi mann og í 101 Reykjavík.

Þorsteinn Briem, 18.3.2010 kl. 13:09

2 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Hér býr siðlaus þjóð.....

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 18.3.2010 kl. 14:09

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Steini... í þessum póstnúmerum búa arðræningjar landsbyggðarinnar.

Nýlenduherrar Íslands sem soga til sín fjármuni þaðan sem þeir eru í raun skapaðir.

Gunnar Th. Gunnarsson, 18.3.2010 kl. 14:16

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Arðræningjar landsbyggðarinnar og þjóðarinnar allrar búa flestir á landsbyggðinni og eru kallaðir kvótaeigendur.

Einn þeirra á heima á Akureyri og var síðasti stjórnarformaður Glitnis, sem varð gjaldþrota.

Skattakóngur Íslands

Annar á heima í Vestmannaeyjum og er eigandi Moggans, sem er í raun gjaldþrota.

Flestir þingmenn og ráðherrar landsins hafa komið af landsbyggðinni, þar á meðal þeir sem settu kvótalögin og komu því til leiðar að útgerð lagðist af á Reyðarfirði.

Heppnasta kona hrunsins

Þorsteinn Briem, 18.3.2010 kl. 15:21

5 Smámynd:

Mikið hroðalega er þetta satt og mikið gasalega er ég fegin að vera "kommúnisti" ef það er mælikvarði á andúð á ofantöldu.

, 18.3.2010 kl. 19:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband