13.3.2008 | 09:42
SAMA OG Í RALLINU.
Á tímabili fjölgaði banaslysum mjög í heimsmeistarakeppninni í ralli. Þetta var í kringum 1990 þegar ofurbílar voru komnir til sögunnar með yfir 500 hestala vélar og annað eftir því. Samt voru þarna við stýrið færustu ökumenn heims. Við þessu fannst aðeins eitt ráð, - að draga úr aflinu og hraðanum og þá fækkaði slysunum. Fleira var að vísu gert en minnkun aflsins og þar með getu bílsins til að komast upp á óviðráðanlegan hraða reyndist lang áhrifamest.
![]() |
Skíðaslysum fjölgar í Evrópu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
13.3.2008 | 09:37
VÖLLURINN OG FLUGIÐ EIGA ÞAÐ INNI.
Flug hefur verið stundað samfellt í á sjöunda áratug á Reykjavíkurflugvelli. Síðustu árin hefur enginn samgöngumáti mátt þola það sem flugfarþegar og flugið almennt hefur mátt þola á hér í Reykjavík. Þegar menn horfa í kostnaðinn við að leysa þetta mál ættu þeir að horfa yfir þetta 62ja ára tímabil í heild og líta þannig á það sem gert verður, að völlurinn og flugið eigi það inni eftir 62ja ára aðgerðarleysi.
Ef það fer svo að flugið flyst á endanum og það kostar að breyta eða rífa eitthvað, þá það. Það ástand að aðeins eitt innanlandsflugfélag hafi aðstöðu á vellinum, ef aðstöðu skyldi kalla, er hliðstætt því að aðeins eitt landflutningafyrirtæki geti flutt vörur til og frá borginni.
Eða að aðeins eitt sjóflutningafyrirtæki hafi aðstöðu í Reykjavíkurhöfn.
![]() |
Vandræðaástand í Vatnsmýri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
12.3.2008 | 21:00
ALVEG ÖFUGT HJÁ MÉR OG ALBERTI.
Hræðsla Madonnu við að deyja á sviði er mér lítt skiljanleg. Ef ég mætti velja mér andlátsstað minn yrði sviðið ofarlega á blaði. Þegar Albert Guðmundsson spilaði með Stjörnuliðinu mínu í knattspyrnu þrýsti kona hans hart á mig að leyfa honum það ekki vegna þess að hann væri hjartveikur og það gæti kostað hann lífið.
Albert leit þveröfugt á málið. "Þetta er nokkuð sem ég vil fá að ráða sjálfur, " sagði hann, "ég heimta að fá að spila hvenær sem það er hægt. Hlustaðu ekki á hana. Ég get ekki hugsað mér yndislegri dauðdaga en að detta dauður niður með boltann á tánum fyrir troðfullu húsi."
Svo fór að Albert fékk kallið á biðstofu spítala og hvorki hann né kona hans fengu neinu ráðið um það.
![]() |
Óttast að deyja á sviðinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.3.2008 | 20:45
LÖNGU TÍMABÆRT.
Það var löngu tímabært að reyna að rjúfa kyrrstöðuna í endursýningu leikins efnis í Sjónvarpi. Allt frá upphafi Sjónvarpsins 1966 hafa verið tekin þar upp mjög vel gerð leikverk og þótt þau væru svart-hvít fyrsta áratuginn gat þar að líta í mörgum tilfellum mjög mikla fagmennsku á öllum sviðum. Sem dæmi um það hve slæmt það var að þessi verk rykféllu áratugum saman má nefna að þegar Gísli Marteinn Baldursson var að gera hina skemmtilegu bók sína um topp tíu þetta og topp tíu hitt á Íslandi, bar hann undir lista sína undir ýmsa álitsgjafa.
Hann sýndi mér lista yfir tíu bestu karlleikarana og tíu kvenleikara og ég tók eftir því að enginn hinna eldri jöfra voru þar á blaði. Ég sagði við Gísla Martein að lágmark væri að Brynjólfur Jóhannesson væri á þessum lista. "Hver var hann?" spurði Gísli Marteinn, eðlilega, - hans kynslóð hafði aldrei séð neitt til þessa frábæra leikara og margra annarra sem léku í fyrstu sjónvarpsleikverkunum.
Ég svaraði að Brynjólfur hefði verið einhver fjölhæfasti leikari allra tíma á Íslandi, jafnvígur á dramatísk hlutverk og grínhlutverk. Þótt hann væri höfðuleikarinn hjá Iðnó eftir stofnun Þjóðleikhússins var talið óhjákvæmilegt að láta hann leika Jón Hreggviðsson í sýningu Þjóðleikhússins á Íslandsklukkunni og Jón bónda í Gullna hliðinu.
Enginn hefði síðan getað gert þetta eins vel og hann.
Það eitt að verið sé að reyna að koma hreyfingu á þessa hluti nú er gott. Nógu stórt menningarslys hefur þegar orðið.
![]() |
RÚV semur við félög leikara og tónlistarmanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.3.2008 | 14:15
Í MEÐFERÐ EFTIR NÆSTA FYLLERÍ.
Fjármálaráðgjafi lýsti því vel í Kastljósi í gærkvöldi hvernig hann sér þjóð sína sem áfengissjúkling eða fíkil á fjármálasviðinu. Hann sagðist skilja vel ummæli forsætisráðherrans um áframhaldandi samfelldar stóriðju- og virkjanaframkvæmdir til að komast hjá því að taka á hinu raunverulega vandamáli og lýsti því þannig að með því væri farið í eitt fyllerí enn áður en farið væri í meðferð. Hve margir áfengissjúklingar hafa ekki gengið allan æviveginn til enda með þessu hugarfari án þess auðvitað að fara nokkurn tíma í löngu tímabæra meðferð?
Stuðmenn lýstu þessu mjög vel í textanum: "Nú er ég blindfullur, - ég ætla að hætta að drekka á morgun." Ekki í dag, - seinna. Einn af þáverandi ráðherrum í ríkisstjórn fyrir rúmum tíu árum sagði við mig að það yrði að halda stanslaust áfram í stóriðju- og virkjanaframkvæmdum, annars kæmi kreppa og atvinnuleysi.
Þegar ég spurði hann hvað ætti að gera þegar ekki væri hægt að virkja meir, svaraði hann: "Það verður þá verkefni þeirrar kynslóðar sem þá er uppi."
Já, já, án þess að depla auga lýsti hann því yfir að við ættum hikstalaust að velta okkar vandamálum sem allra mest yfir á afkomendur okkar sem myndu fara í þá meðferð, sem við komumst hjá því að fara í af einskæru hugleysi og ábyrgðarleysi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (35)
10.3.2008 | 18:40
AFREK VEGNA MISTAKA.
Sá fyrir tilviljun hólgrein sem vinkona mín, Ólína Þorvarðardóttir bloggaði um afrek flugstjórans í Þýskalandi sem bjargaði hundruðum farþega frá stórslysi í hliðarvindslendingu. Hins vegar blöstu mistök flugstjórans við á myndinni af þessu atviki og aðeins hægt að skýra þau á tvennan veg: Henni (þetta var kona) hefur aldrei verið kennt að lenda í hliðarvindi eða þá svo illa að hún "panikerar" í lendingunni.
Á myndinn er horft á eftir vélinni og sést vel að hliðarvindurinn kemur frá hægri. Flugstýran gerir rétt í því að hún "crabbar" vélinni upp í hliðarvindinn eða beinir nefi hennar til hægri til þess að vélin fjúki ekki af brautarstefnunni.
Þegar hún lendir síðan vélinni verður hún að "slippa" vélinni eða halla henni hressilega upp í vindinn með því að halla henni með hægri vænginn niður en hinn vinstri upp. Um leið og hún snertir brautina verður hún að rétta skrokk vélarinnar af með hliðarstýrunum og nota snertingu hjólanna við brautina til að beina henni beint áfram en halda samt áfram að halla henni upp í vindinn.
En hér annað hvort veit hún þetta ekki eða "panikerar" og hallar vinstri vængnum niður í stað þess hægri og það er ástæða þess að vængendinn rekst niður þegar vélin hrekst út á brautarjaðarinn.
Það er loksins hér sem gefa verður flugstýrunni prik fyrir það að bregðast skjótt við og rífa vélina upp aftur. Nema að það hafi verið aðstoðarflugmaðurinn sem það gerði.
Ég fór að ræða þetta við Stefán Gíslason, fyrrum flugstjóra hjá Loftleiðum og Flugleiðum, sem er hinn hressasti á níræðisaldri og hefur í mörgu lent á flugstjóraferlinum, sem byrjaði 1946.
Hann er mér algerlega sammála um ofangreint. Þetta blogg er aðeins skrifað til fróðleiks en ekki til að kasta rýrð á neinn. Sjálfur lærði ég ekki hliðarvindslendingar til hlítar fyrr en allt of seint að mér fannst, eða þegar ég fór sjálfur að kenna flug og fann út vegna brýnnar nauðsynjar hvernig ætti að æfa nemendurna svo vel í hliðarvindslendingum að öll viðbrögðin yrðu ósjálfráð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
10.3.2008 | 02:08
SVIPAÐ OG HEIMA?
Á þriggja daga ferð um "Íslendingabyggðir" í Florida þessa dagana sést svipuð tilhneiging hjá löndum vorum hér og er hjá innflytjendum frá öðrum þjóðum heima. Hér búa margir landarnir nokkrir jafnvel allmargir saman í sömu götunni eða sama hverfinu. Þegar við undrum okkur yfir því að fólk af erlendum uppruna hópist á svipaðan hátt saman heima ætti það ekki að vera svo óskiljanlegt. Þetta virðumst við gera sjálf þegar við flytjum til útlanda.
Hér í Ameríku virðist hins vegar ekki vera hætta á því að Íslendingarnir hópist svo rækilega saman að úr verði íslenskar nýlendur. Bandaríkjamenn hafa langa reynslu af innflytjendum og allt þjóðfélagið byggðist þannig upp og byggist enn þannig upp.
Mjög fróðlegt var að heyra viðtal við Jón Óttar Ragnarsson nýlega þar sem hann ræddi þessi mál og um það hvernig við eigum að læra af þjóðum eins og Bandaríkjamönnum um það hvernig best verði siglt fram hjá kynþáttavandamálum.
Við hjónin erum nú í heimsókn hjá vinafólki í "Íslendinganýlendu" við Virginíustræti í Duneden á vesturströnd Florida og sjáum ekki annað en að landarnir falli vel inn í hverfið og hafi daglegt samneyti við annað fólk hér í götunni á eðlilegan og vinsamlegan hátt. Kannski hjálpar til að þetta fólk er álíka stætt og nágrannarnir en ekki ódýrt erlend vinnuafl sem skapar hættu á gjá milli stétta.
Þorrablótið í gærkvöldi á Melbourne beach var eitt hið besta sem ég hef lengi verið á og byggi ég þann dóm minn á 45 ára gammalli reynslu. Það vera og þeim, sem að því stóðu, til mikils sóma.
Athyglisvert er að sjá hvernig golfunnendur flykkjast hingað en það mun stafa af því að mun ódýrara er að stunda golf hér en í Evrópu.
Ég hef margsagt að fyrir andlega og líkamlega heilsu væri það gott ef við Íslendingar hefðum efni á því að "loka sjoppunni" Íslandi frá þrettándanum fram á góu og byrja þorrablótin heima þá.
Fyrir aðeins nokkrum árum þýddi ekkert fyrir skemmtikrafta að fjalla um pólitíkina og nýjustu atburðina heima á þorrablótum erlendis, - langflest fólkið fylgdist ekkert með því.
Með tilkomu netsins er þetta gjörbreytt. Þegar ég gerði smá könnun á þorrablótinu í gærkvöldi með því að spyrja hvort þorrablótsgestir þekktu nokkur umtöluðustu nöfnin úr nýjustu fréttunum heima réttu nær allir upp höndina. Já, heimurinn verður sífellt minni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.3.2008 | 17:46
R'ETTAR TOLUR, TAKK!
Tolur um flugvollinn hafa verid 'a reiki, allt fra 300 hekturum nidur i 108. 300 hektararnir virdast midadir vid ad taka med alla Oskjuhlidina og kirkjugardinn. Er ad minum domi rangt. Kirkjugardurinn hefdi komid hvort sem flugvollurinn var eda ekki. Eftir ad NA-SA-brautin er logd nidur eins og gera 'a, er mikid svaedi, allt fra Vatnsmyri ad Perlunni laust til ad reisa byggingar og somuleidis austan vid Perluna.
St'ort autt svaedi i kraganum fyrir vestan og sunnan Perluna kemur flugvellinum ekkert vid heldur er thad 'utivistarf'olkk sem vill halda 'i 'obyggd thar og hafa thar eitt af graenum svaedum borgarinnar.
Sumir vilja telja byggingar sem notadar eru i tengslum vid flugvollinn med flugvallarsvaedinu og stilla theim upp sem andstaedu vid atvinnu- og ibudarsvaedi, sem annars vaeri tharna, r'ett eins og hundrud manna sem vinna storf tengd flugvellinum seu ekki vinnandi folk eda vinni einhver ''oheppileg storf.
Einnig er talad um ad flugvollurinn standi 'i vegi fyrir thv'i ad upp r'isi starfsemi fyrir hataekni r'ett eins og flug se ekki hataekni.
Flugvollurinn innan girdingar er 108 hektarar, einn ferkilometri af 16 ferkilometrum sem Reykjavik og Seltjarnarnes eru vestan Ellida'aa. Sem sagt um 6 pr'osent af thessu svaedi. Miklabrautin ein tekur 50 hektara og Sundahofn 'al'ika og flugvollurinn. Af thessu s'est hve fr'aleitt thad er ad kenna flugvellinum um ad n'agrannabyggdir og uthverfi Reykjavikur hafi risid.
Unnt er ad minnka flugvollinn nidur i 80 hektara med thv'i ad lengja A-V-brautina, leggja nuverandi N-S braut nidur og gera adra styttir vestar sem snyr betur vid hvossum sunnan- og nordan'attum. Vid thad myndi flug yfir midborg Reykjavikur og Karsnes hverfa ad mestu.
Skiptar skodanir eru um flugvollinn i ollum flokkum. Eg er nu staddur 'a Florida til ad skemmta 'Islendingum thar og thess vegna er stafsetningin eins og h'un er. Bidst 'eg velvirdingar 'a thvi en thott 'eg hefdi med m'er tolvuna m'ina hingad var ekki unnt ad setja hana her i samband.
'A leidinni var millilent i Bangor 'i Mainr'iki. Athyglisvert er 'a ferd erlendis ad fylgjast med adflugi og fraflugi 'a flugvollum og sja ad midad vid thad ad A-V-brautin verdi adalbrautin 'i Reykjavik yrdu flestar erlendar borgir med adflug og fraflug yfir meiri byggd en 'i Reykjav'ik.
Ef menn vilja gera flugvoll ''a Longuskerjum tharf samthykki fimm sveitarf'elaga og ad haetta vid ad gera Skerjafjord ad n'atturuverndarsvaedi.
Ef flugvollur verdur gerdur thar eru 3 atridi framkvaemd: 1. Gerdur flugvollur 'a skerjunum. 2. Rifinn Reykjavikurflugvollur. 3. Reist n'y byggd 'i stadinn.
Er ekki einfaldara ad gera eitt i stadinn fyrir thrennt: Reisa 'ibudabyggd 'a Longuskerjum?
'Eg 'a eftir ad sj'a ad flugvollur 'a Homsheidi i 140 metra haed yfir sjo og 'a miklu verra vedursvaedi verdi raunhaefur kostur. Tolurnar vantar um skyggni, vinda og adrar adstaedur. 'A medan svo er er tomt mal ad m'inum d'omi ad tala um ad leggja Reykjav'kurflugvoll nidur 'a nuverandi stad.
![]() |
Flugvöllurinn minnkar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
6.3.2008 | 19:29
58 PRÓSENT FRAM ÚR OG HVAÐ MEÐ ÞAÐ?
Þegar ég spáði því í bókinni "Kárahnjúkar - með og á móti" fyrir nær fjórum árum að kostnaður við Kárahnjúkavirkjun myndi fara langt fram úr áætlun fékk ég hörð viðbrögð á móti því og greindi reyndar frá þeim í sömu bók til að viðhalda því jafnvægi milli skoðana sem hún og staða mín sem óhlutdrægs fréttamans krafðist. Í áttblöðungnum "Íslands þúsund ár" lagði ég fram mat sjálfs lögfræðings Landsvirkjunar sem sýndi að þetta verkefni var allt of flókið og áhættusamt í upphafi til þess að það hefði verið verjandi að ráðst í það.
Talan 133 milljarðar sem nú hefur verið lögð fram af iðnaðarráðuneytinu er ekki endanleg tala því að enn er eftir vinna við talsverðan hluta virkjunarinnar og ýmisleg önnur kurl ekki komin til grafar.
En íslenskir ráðamenn kæra sig kollótta þótt í fréttatímum dagsins í dag séu tvö svona mál uppi á borðinu. Hitt málið, framkvæmdir við Laugardalsvöll er í svipuðum stíl og Grímseyjarferjan ef ekki verri. En það er fyrir löngu búið að margstaðfesta það að enginn axlar ábyrgð á svona málum hér á landi. 50 milljarða kostnaðarauki við Kárahnjúka, - hvað með það?
Því er við að bæta að í tíufréttum sjónvarpsins taldi Þorsteinn Hilmarsson að með framreikningi yrði Kárahnjúkavirkjun níu milljörðum króna dýrari en kostnaðaráætlunnin gerði ráð fyrir. Og hvað eru níu milljarðar á milli vina?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
6.3.2008 | 12:17
VONLAUST VERK.
Skolun Miklagljúfurs á þann hátt sem reynt hefur verið með nokkurra ára millibili er vonlaust verk. Þetta þori ég að fullyrða eftir að hafa skoðað gljúfrið og siglt eftir Coloradoánni neðan við Clen Canyon stífluna, auk þess að kynna mér bækur og rannsóknir á ánni og gljúfrunum.
Áður en þessi virkjun, sem líkist Kárahnjúkavirkjun meira en flestar aðrar, var gerð, sáu aurug vorflóð árinnar um að hreinsa farveginn, viðhalda Miklagljúfri með því að sverfa það með aurnum og síðast, en ekki síst, að koma í veg fyrir að aurug vorflóð þveránna breyttu smám saman farveginum á þann hátt að fylla upp í hann með aurkeilum.
Aurinn skapaði líka og lyfti undir lífríki í ánni og ekki síður í hafinu við ósa árinnar, líkt og gerst hefur í Kína og einnig hér á landi áður en byrjað var að safna aurnum í miðlunarlón. Áin hreinsaði óshólmana og bar í þá aur, sem virkaði eins og áburður og kom í veg fyrir að hið sama gerðist og nú hefur gerst í San Joachim dalnum í Kaliforníu og víðar þar sem salt og kalsíum hefur drepið jarðveginn vegna þess að aurburðinn vantar.
Glögglega sést af myndum af þessari skolun í Glen Canyon að vatnið er ekki aurugt vegna þess að það tekið í gegnum svonefnda botnrás sem er nokkrum tugum metra fyrir ofan botninn eins og í Kárahnjúkastíflu. Ekki er hægt að hafa botnrásina í þessum stíflum við botninn vegna þess að hann fyllist hratt af aurseti sem hækkar botninn ár frá ári.
Þess vegna er eina gagnið af þessari skolun sú að hleypa vatni á land sem er að blása upp vegna vatnsskorts og skorts á hreinsun eins og í San Joachim-dalnum. En þetta vatn getur ekki sorfið neitt eða nært óshólma eins og aurvatnið úr vorflóðum fyrri tíma í Coloradó-fljótinu.
Ef menn vilja kynna sér betur þetta mál mæli ég með skemmtilegri og fræðandi bók sem heitir Cadillac desert eftir Mark Steiner og fjallar um ótrúlega líkt mál og Kárahnjúkavirkjun.
Í báðum tilfellum snerist deilan í upphafi um tvö svæði þar sem nafn annars svæðisins byrjaði á stafnum E. Náttúruverndarfólk í Bandaríkjunum átti í upphafi um það að velja að einbeita afli sínu gegn virkjun í Echo Park eða í Clen Canyon og valdi Echo Park, af því að það þekkti það svæði betur.
Því tókst að bjarga Echo Park en þegar David Brower forystumaður náttúruverndarbaráttunnar sá hvílík arfamistök þetta voru, vegna þess að Clen Canyon og áhrifin á lífríki og umhverfi allt til sjávar voru margfalt meiri, varð þetta svo mikið áfall fyrir hann að vinir hans urðu að bjarga honum frá því að fremja sjálfsmorð.
Hér heima byrjaði samsvarandi nafn líka á E, Eyjabakkar. Fleiri þekktu Eyjabakka en Hjalladal og Dimmugljúfur og Eyjabökkum varð bjargað, en þó ekki betur en svo, að stórfelld umhverfisspjöll teygja sig allt inn að þeim á tvo vegu.
Þegar upp var staðið fengu virkjanasinnarnir enn meira hér en í Bandarikjunum, því að báðar jökulsárnar plús þverár voru virkjaðar og miðlunarrými varð meira en orðið hefði í samræmi við upphaflegu áætlunina um gerð bæði Eyjabakkalóns og Hálslóns.
Allt frá árinu 2000 þegar málinu var stillt þannig upp að þyrma Eyjabökkum með því að stækka Hálslón hefur það verið mat mitt að skárra hefði verið að klára Fljótsdalsvirkjun og sökkva Eyjabökkum en þyrma Hjalladal, heldur en að fara út í þá lausn sem varð niðurstaðan.
Þetta mat byggist á eftirfarandi og er þá einkum haft í huga hvað er einstakt og hvað á sér hliðstæðu.
Fljótsdalsvirkjun:
Minni þensla.
Hæfilegri innspýting í þjóðlífið á Austurlandi.
Eyjabakkar næst stærsta fyrirbærið af þessu tagi á Íslandi. Þjórsárver eru stærri og enn merkilegri.
Sjónmengun aðeins af Snæfelli.
Mun minni minnkun á aurburði til sjávar en hjá Jökulsá á Dal.
Kárahnjúkavirkjun:
Of mikil þensla.
Kollsteypur í þjóðlífinu eystra og neikvæðari áhrif á jaðarbyggðir.
Margfalt stærra áhrifasvæði og það er nær miðju víðernisins fyrir norðan Vatnajökul.
Sjónmengun af öllum helstu fjöllum og útsýnisstöðum frá Herðubreið og Kverkfjöllum til Snæfells.
Nær algerlega tekið fyrir aurburð til Héraðsflóa.
Annarri jökulsánni veitt yfir í hina og hún máð algerlega af yfirborði jarðar.
Uppfoksvandamál af þurrum fjörum Hálslóns snemmsumars.
Miklu víðtækari eyðilegging gróðurlendis, sú mesta í einu vetfangi í sögu þjóðarinnar.
Hrikaleg eyðilegging á einstæðum sköpunarverkum Brúarjökuls, sem áttu engan sinn líka í heiminum:
Bjó með mesta skriðhraða heims til einstaka landslagsheild:
Krákustígshryggi.
Hrauka.
Hjallalandslagið í Hjalladal.
Töfrafoss og Stuðlagátt.
Rauðuflúð, Stapa, Rauðagólf og komandi Rauðagljúfur á botni dalsins.
Hafrahvammagljúfur. Það á smám saman eftir að fyllast af grjóti og skriðum sem áin hreinsar ekki lengur með tíu milljón tonnum árlega af sverfandi sandi. Hið eina af ofangreindum fyrirbærum, sem sleppur við eyðileggingu, eru Krákustígshryggirnir.
Í Bandaríkjunum var forystumaður náttúrverndarfólks á barmi sjálfsmorðs þegar hin hrikalegu mistök urðu honum ljós. Á Íslandi virðast samsvaranndi og verri mistök ekki valda mönnum slíku hugarangri.
![]() |
Miklagljúfur skolað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)