Man einhver eftir Sighvati ?

Á samdráttarskeiðinu 1991-1995 var Sighvati Björgvinssyni þáverandi heilbrigðisráðherra gert að skera harkalega niður í heilbrigðisþjónustunni. Þetta var stefna þáverandi ríkisstjórnar í viðleitni hennar til niðurskurðar yfir alla línuna og þar var ekkert ráðuneyti undanskilið.

Fyrir þennan niðurskurð mátti Sighvatur þola miklar ákúrur, meðan annars frá þingmönnum sem nú eru ráðherrar og verða að skera niður í enn hraðari samdrætti. Núverandi fjármálaráðherra er þeirra á meðal og má kannski segja að með samanburði á hlutskiptum Ögmundar og Sighvats fá hinn síðarnefndi nokkra uppreisn æru.

Sighvatur var gagnrýndur fyrir að úthugsa ekki nógu vel aðgerðir sínar og ég var einn þeirra svonefndu gárunga sem fannst hann liggja vel við höggi af þessum sökum, einkum eftir að hann beinbrotnaði tvívegis og varð að fá heilbrigðisþjónustu vegna þess. Þá varð til þessi vísa:

Beinbrotin fjölmörg hefur hlotið.
Helvíti er mögnuð veilan.
En eitt hefur Sighvatur aldrei brotið:
Hefur aldrei brotið heilann.

Ingibjörg Pálmadóttir alþingismaður gagnrýndi Sighvat hvað harðast en varð síðan sjálf að beita niðurskurðarhnífnum þegar hún tók við af honum sem heilbrigðisráðherra. Þá snerist dæmið við og Sighvatur gagnrýndi Ingibjörgu.

Góður skagfirskur hagyrðingur, Kristján Stefánsson í Gilhaga, orti um þetta í orðastað Sighvats:

Ingibjörg sem engu réði
um arðrán hinna fyrri þinga
rýir nú með glöðu geði
gamalmenni og vesalinga.

Ég kom Ingibjörgu að sjálfsögðu til hjálpar í þessu andsvari í orðastað Ingibjargar:

Sighvats orð fá ekki staðist.
Aum er röksemdin hjá honum, -
hann, sem áður andskotaðist
allra mest á sjúklingonum.


mbl.is Ögmundur: Viðfangsefnið er tröllaukið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrörnun er persónubundin.

Hrörnun er persónubundin. Langt fram eftir síðustu öld var það viðurkennt að maðurinn næði hámarki líkamlegrar getu um 25 ára aldur en síðan lægi leiðin niður á við. Þetta var byggt á þeirri íþróttagrein þar sem skeiðklukkan er miskunnarlaus dómari og mælikvarði á snerpu, sprengikraft og viðbragðsflýti, en það eru 60-100 metra spretthlaup.

Smám saman molnaði úr þessari kenningu og fljótasti maður heims á sínum tíma, Linford Christie var á hátindi getu sinnar 35 ára og svo viðbragðsfljótur að hann var eitt sinn dæmdur úr leik fyrir að þjófstarta tvisvar í 100 metra hlaupi.

Myndataka sýndi að þetta var ekki rétt og má því segja að Christie hafi verið dæmdur úr leik fyrir að vera of viðbragðsfljótur !

Í hnefaleikum geta þúsundustu hlutar úr sekúndu ráðið úrslitum um það hvort höggi sé komið á andstæðinginn, og einkum er þetta áberandi hjá svonefndum gagnhöggameisturum, hnefaleikurum sem eru fljótastir allra að víkja sér undan höggi og koma á sama sekúndubroti inn höggi í staðinn.

Bernhard Hopkins virtist aldrei betri í þessu en um fertugt og fleiri meistarar hafa haldið sínu fram yfir fertugt, en þá vegna reynslu og útsjónarsemi.

Kastarar halda getu sinni lengur en hlauparar og höggþungir þungavigtarmenn sömuleiðis. George Foreman varð elstur allra heimsmeistara í hnefaleikum þegar hann rotaði Michael Moorer 46 ára gamall með einu höggi.

Muhammad Ali, fljótasti þungavigtarhnefaleikari allra tíma, fór að missa hraðann fyrir þrítugt en vann það upp með útsjónarsemi, kænsku og hugrekki.

Prinz Naseem Hamed var búinn fyrir þrítugt og Roy Jones jr. fljótlega upp úr þrítugu, en báðir þessir hnefaleikarar gátu brotið reglur um vörn með því að nýta sér ofurmannlegan hraða. Um leið og hann dalaði urðu þeir bara ósköp venjulegir og opnir fyrir árásum.

Það er sama hve mikla hraðagetu tölva hefur ef hana skortir efni, upplýsingar og forrit. Líklega er mannshugurinn svipaður og skýringar þar að leita um menn sem halda sínu langt fram á elliár á sama tíma og aðrir eru útbrunnir á unga aldri.

Dæmi er lýsing Guðmundar Ólafssonar á Jóni Baldvini Hannibalssyni þegar hann líkti honum við sjötugan ungling en öðrum ónefndum manni við þrítugan öldung. Samlíkingin var kannski svolítið ósvífin gagnvart hinum efnilega þrítuga manni en fullkomnlega viðeigandi um Jón Baldvin.


Hrörnun er persónubundin.

Vegna mistaka við að tengja þetta blogg við frétt um andlega hrörnun vísa ég til næsta bloggs á undan þessu.

Oftökukynslóð rányrkjunnar.

Eftir að sjálftöku- og oftökumenn hafa leikið lausum hala í efnahagslífinu sjá menn nú enga aðra lausn á vandanum sem þeir skilja eftir sig en að okkar kynslóð gerist oftökukynslóð varðandi orkulindir og náttúruauðlindir landsins.

Við erum á fullu við það að fara um eyðandi eldi um háhitasvæði landins og taka út úr þeim þrefalt meiri orku en þau geta afkastað til frambúðar. Fyrirhuguð álver og komandi not orku fyrir önnur fyrirtæki og samgöngutæki okkar á sjó og landi munu verða til þess að klára orkulindirnar og eyðileggja náttúrugersemar sem eru í hópi mestu undra heims. 

Á sama tíma munum við hæla okkur á heimsvísu fyrir forystuhlutverk í sjálfbærri þróun og nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa.Hugtakið sjálfbær þróun er skilgreint sem þróun (development) (nýting) (framkvæmdir) sem ekki kemur í veg fyrir að komandi kynslóðir geti haft val um sína þróun. (development) (nýtingu) (framkvæmdir).

Þetta heitir rányrkja á íslensku, og skiptir ekki máli hvort verðmætin verða uppurin á 10 árum, 50árum, 100 árum eða 500 árum.

Ef Ólafur Thors, Bjarni Ben, Emil Jónsson og Gylfi Þ. hefðu farið út í virkjanaframkvæmdir fyrir álverið í Straumsvík 1970 á þann hátt að orkan yrði uppurin árið 2020, eftir aðeins einn áratug frá okkar tíma, hefði okkur ekki þótt það standast kröfur um sjálfbæra þróun og endurnýjanlega orku.

Landnámsmenn hófu rányrkju á skógum landsins og þeim var að mestu eytt á 300 árum. Við viljum líkjast þeim að þessu leyti.  


mbl.is Íslands sjálftökumenn hafa leikið lausum hala
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var vitað allan tímann.

Stærð bankakerfisins fór ekki hátt í fjölmiðlum í "gróðærinu". Hannes Hólmsteinn Gissurarson minntist að vísu eitthvað á hana í grein sem fór hljótt og þá í mjög jákvæðum tón, - óskaði eftir því að bankakerfið margfaldaðist enn frekar.

Ég hygg að ég fari rétt með að í fyrsta skiptið sem fjölmiðill minntist á stærð bankakerfisins hafi verið þremur vikum fyrir hrunið og það var ekki fyrsta frétt í þeim fréttatíma.

Margfaldaðar skuldir heimila og fyrirtækja voru hins vegar á almanna vitorði allan tímann sem gróðærissápukúlan blés út. En fólki lét sér fátt um finnast, því allir þeir sem eitthvað máttu sín voru á fullu að græða á lánaframboðinu.

Mig minnir að þessu hafi til dæmis verið gerð frábær skil í Áramótaskaupi 2005 þar sem sýnt er í svart-hvítu hvernig fólk kom út frá bankastjórnum niðurlútt og niðurlægt hér fyrr á tíð og síðan var sýnt í lit hvernig bankastjórarnir næstum því báru fólk inn til sín til að þvinga það til að taka lán.

Þeir sem vöruðu við þessu voru nöldrarar. Ég var einn af þeim í lýsingu á efnahagsfylleíinu í bókinni Kárahnjúkar - með og á móti, - efnahagsfíkniefnapartíi sem enda myndi með því að allt yrði brotið og bramlað.

Ef allt hefði verið með felldu hefðu skuldir átt að minnka í góðæri en ekki að vaxa, - þegar fólk hafði að lokum efni á því að losa sig við dýr lán. Hið þveröfuga gerðist. Strax árið 2002 varð hér þensla án þess að nokkrar framkvæmdir hefðu hafist við Kárahnjúka.

Þenslan hófst 19. júlí þegar samningar náðust við Alcoa og stóð samfellt fram að hruni. Glöggskyggn hagfræðingur í Seðlabankanum fann það út að mestöll þenslan fólst í auknum yfirdrætti á greiðslukortum, dýrustu lánum í heimi.


mbl.is 15.685 milljarða skuldir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað um HB Granda ?

Í því forysturíki kapítalismans, Bandaríkjunum, virðist sem hugtakið "samfélagsleg ábyrgð" geti þó virkað ef marka má fréttir af viðbrögðum við bónusgreiðslum til stjórnenda AIG. Hér á landi hafa verið nefnd dæmi um hið gagnstæða eins og til dæmis greiðslurnar í HB Granda.

Ráðamenn þjóðarinnar segja að þá skorti úrræði til að beita sér í því máli beint og kann það vel að vera. Svipað sögðu raunar reiðir ráðamenn vestra í fyrstu en virðast ekki ætla að láta við það sitja. Því vaknar spurningin: Hvað um HB Granda og önnur svipuð tilfelli á Íslandi ?


mbl.is AIG látið skila risabónusum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að njóta neysluvöru ókeypis.

Margir þeir sem blása mikið út af ummælum Bubba kjósa að líta á þetta sem einkamál hans en gleyma því að þarna er Bubbi að tala fyrir munn margra kollega sinna og má hafa þökk fyrir hreinskilnina.

Allt frá því að Jón Leifs gerðir brautryðjandi fyrir höfundarrétt hefur sá hugsunarháttur verið landlægur hér á landi að listamenn séu afætur og óþurftarlýður sem nenni ekki að vinna almennilega vinnu eins og annað fólk.

Þótt íslensk tónlist og kvikmyndagerð hafi síðustu árin gefið mikið fé í þjóðarbúið og orðið jafnoki landbúnaðins hvað það varðar virðist þessi hugsunarháttur lifa góðu lífi enn.

Listamenn sjálfir virðast oft á tíðum hafa smitast af þessu. Ég hef undanfarin ár fengið að kynnast kjörum kvikmyndargerðarmanna og sýnist þeir flestir prísa sig sæla ef þeir eiga fyrir kostnaði við kvikmyndagerð sína án þess að reikna sér nein laun sjálfir.

Nú ráðast margir á ómálefnalegan hátt að Bubba fyrir það að þora að segja það sem honum býr í brjósti, og virðast með því telja það alveg sjálfsagt að almenningur geti notað tónlist að vild án þess að borga fyrir vinnuna sem að baki henni býr.

Margir virðast halda að tónlist, kvikmyndir og bókmenntir spretti næstum fyrirhafnarlaust og sjálfkrafa eins og gras.

Ef þetta væri þannig að notkun tónlistar sem framleiðsluvöru minnkaði niður í næstum ekki neitt væri ekkert við því að segja. Ef bílar seljast ekki til notkunar er það bara þannig.

En í þessu tilfelli er ekki um slíkt að ræða. Notkun tónlistarinnar fer ekki minnkandi heldur jafnvel vaxandi en samt vill fólk bara geta notað hana án þess að borga neitt fyrir. Af hverju á annað að gilda um tónlist sem neysluvöru en aðrar neysluvörur ?


mbl.is Bubbi hótar að hætta útgáfu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Arfur Bjargar Runólfsdóttur.

Ég var í sveit í fimm sumur hjá Björgu Runólfsdóttur, ömmusystur minni, að Hvammi í Langadal, og líkleg hefur engin manneskja utan foreldra minna gefið mér meira á uppvaxtarárum mínum.

Skömmu eftir að hún hóf þar búskap í miðri kreppunni miklu féll stór aurskriða á jörðina úr fjallinu fyrir ofan bæinn og eyðilagði nýja rafstöð og mikið af túninu. Í kjölfarið kom skilnaður hennar við mann hennar og það varð til þess að hún missti eignarhald á jörðinni.

En hún var ekki hrakin burt ásamt börnum sínum tveimur, heldur fékk hún tækifæri til að eignast jörðina aftur með gríðarlegri baráttu og fórnarlund og eyddi til þess því sem eftir var af starfsævi hennar. Síðasta sumarið sem ég var hjá henni rann upp sú langþráða gleðistund að hún, þá 62ja ára gömul, eignaðist jörðina á ný, hafði loksins keypt hana að fullu til baka.

Í þessari miklu kreppu var kreppulánasjóður notaður tl að gefa fólki kost á að koma á ný undir sig fótum. Það var frændfólki mínu ómetanlegt að þurfa ekki að hrekjast á vergang.

Björg kenndi mér þann boðskap að skila landinu betra til afkomenda sinna en tekið var við því. Það tókst henni svo sannarlega og gæti núlifandi kynslóð Íslendinga lært mikið af þessar fátæku en hugumstóri konu að ana ekki áfram í rányrkju á orkulindum landsins og eyðileggingu mestu verðmæta þess sem bitna mun á komandi kynslóðum.


mbl.is Húsráð Tryggva Þórs þykja vond
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimurinn þráir frið.

Aukinn kjarnorkuvígbúnaður eins og Rússar auglýsa nú er nokkurn veginn versta frétt dagsins. Lögmál Murphys þess efnis að ef eitthvað geti farið úrskeiðis muni það gerast fyrr eða síðar, lætur ekki að sér hæða, og þrátt fyrir þíðuna í samskiptum stórveldanna í kringum 1990 eiga þau enn kjarnorkuvopn sem geta útrýmt öllu lífi á jörðinni.

Þetta má ekki halda svona áfram.

Í dag verður haldinn blaðamannafundur um svonefnda Heimsgöngu fyrir friði. Ætlunin er að gangan fari hringinn í kringum hnöttinn eftir að hún hefst í október í haust. Ég setti saman lag og texta af því tilefni nú rétt áðan, göngumars svohljóðandi.

HEIMSGANGA.

Gegn stríði og böli blóðs
berumst við þú og ég
og ætlum að ganga til góðs
götuna fram eftir veg.

Við göngum um götur og torg; -
um gresjur og skóga og fjöll; -
um álfurnar, borg frá borg
og berum kyndilinn öll.

:,: Heimsganga !
Heimurinn þráir frið.
Heimurinn, það erum við.
Heiminum gefum grið ! :,:


mbl.is Rússar boða endurnýjun hergagna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhugaverð umræða í Kastljósi.

Afar áhugaverð umræða var um lánamál í Kastljósi í kvöld og það sem meira var: Báðir þátttakendurnir höfðu uppi mjög málefnalegan málflutning. Þau Tryggvi Herbertsson og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir eru bæði nýir talsmenn flokka sinna, ný nöfn sem skutust upp á stjórnmálahimininn í prófkjörunum og stóðu sig bæði mjög vel í erfiðri umræðu um flókið mál.

Af málflutningi þeirra mátti ráða, að þau gætu sæst á miðri leið milli sjónarmiða þeirra, annars vegar hans sjónarmiða um einfaldar byrjunaraðgerðir strax og hins vegar sjónarmiða hennar að vera ekki of fljótfær, að aðstoða ekki dýrum dómum þá sem ekki þyrftu á því að halda en halda heldur meira eftir handa þeim sem verst stæðu.

Ég get í fljótu bragði ímyndað mér að skásta leiðin væri leið sem sætti sjónarmið þeirra beggja. Aðgerðirnar gætu þá orðið í þrepum:

Fyrst einfaldar aðgerðir strax í áttina að því sem hann lagði fram, t.d. 10-15% eftirgjöf yfir heilu línuna eða með þaki sem fljótlegt og einfalt yrði að finna.

Síðar aðgerðir í framhaldinu þar sem meira yrði gert fyrir þá sem mest þurfa á því að halda.

Sem sagt: Einhvers konar blanda, enda virtust þau opin fyrir helstu röksemdum á báða bóga.

Mann datt meira að segja í hug að leggja málið einfaldlega í tveggja manna nefnd!


mbl.is Lítil heimt af lánum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband