27.4.2011 | 15:44
Engin afsökun fyrir vanrækslu á viðhaldi.
Það hefur aldrei verið til og er ekki til nein afsökun fyrir vanrækslu á viðhaldi vega á borð við það sem viðgengist hefur á sunnanverðum Vestfjörðum og norðanverðan Breiðafjörð um áratuga skeið, alveg burtséð frá deilum um vegagerð um Teigsskóg eða það hvort eða hvenær verða gerð göng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar, nýr og betri tenging milli Arnarfjarðar og Barðastrandar eða göng undir Hjallaháls.
Sýnt hefur verið fram á að gerð ganga undir Hjallaháls og nýs vegar yfir Ódrjúgsháls er ekki dýrari en hin umdeilda vegagerð sem ristir stærsta skóg á Vestfjörðum eftir endilöngu á afar slæman hátt, því að skógurinn er langur og tiltölulega mjór.
Brekkan og beygjan bratta austan í Ódrjúgshálsi hefur oft verið nefnd sem dæmi um það hvernig vegurinn þurfi að vera ef ekki er farið í gegnum Teigskóg en Vegagerðin hefur boðið upp stórfína vegagerð yrir hálsinn, sem liggur aðeins upp í 160 metra hæð yfir sjó, sem er álíka og Vatnsendahæð við Breiðholt í Reykjavík. (144 m)
Vegabætur við norðanverðan Breiðafjörð og milli sunnanverðra og norðanverðra Vestfjarða hafa liðið fyrir það að tekin var sú ranga ákvörðun fyrir rúmum 30 árum að gera fyrst veg yfir Steingrímsfjarðarheiði og aðalleiðin milli Djúps og Reykjavíkur yrði um Strandir langt austur fyrir stystu línu milli Reykjavíkur og Vestfjarða.
Það sýnir best hve slæm lausn þetta var að nú er ekið úr Djúpinu austur yfir heiðahrygginn, sem skilur að Djúpið og Húnaflóa og síðan aftur í vesturátt yfir hann yfir til Reykhólasveitar og samt er þetta miklu styttir leið en upphaflega leiðin um Strandir var.
Vegurinn um Steingrímsfjarðarheiði átti að skapa blómlega og þétta byggð við Ísafjarðardjúp samkvæmt svonefndri Inn-Djúpsáætlun, sem virkar í dag eins og alger fáránleikabrandari.
Stysta flugleið frá Reykjavík til Ísafjarðar liggur um Skálmarnes á miðri norðurstönd Breiðafjarðar og því nær þeirri línu, sem meginleiðin liggur á landi, því betra.
Það þarf ekki annað en að líta á kort til að sjá að hve miklu hefði breytt ef menn hefðu haft þetta í huga á sínum tíma.
![]() |
Varasamur vegur fyrir vestan |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.4.2011 | 20:46
Ljós í myrkrinu.
Hrun efnahagskerfisins, eldgos í Eyjafjallajökli, - þetta voru áföllin, sem yfirskyggðu flest í lífi Íslendinga í fyrra og ekki bjart um að litast, einkum þá myrku daga þegar öskufall dundi á bændum við jökulinn.
Ég taldi strax að gosið myndi verða okkur til góðs í heildina litið þegar upp yrði staðið og það er að koma æ betur í ljós.
Í fyrra vann fréttastofa Sjónvarpsins til eftirsóttra verðlauna Sambands evrópskra sjónvarpsstöðva og nú hafa íslenskir flugumferðarstjórar unnið ekki minna afrek.
Þetta eru ljós í myrkrinu og vonandi ekki hin síðustu sem munu kvikna.
![]() |
Íslenskir flugumferðarstjórar fá viðurkenningu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.4.2011 | 16:22
Misrétti.
Stór hópur fatlaðra býr við þau kjör að það er ekki hægt að segja við þetta fólk: Ef eldsneytið er of dýrt, labbið þið bara, hjólið eða takið strætó!
Framundan eru ár og áratugir þar sem þarf að huga sérstaklega að högum þessa fólks til að koma í veg fyrir að það lendi í ástandi sem er ekki hægt að líkja við neitt nema stofufangelsi.
![]() |
Hvorki efni á mat né bensíni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
26.4.2011 | 10:22
Verður hann eins og Kastró?
Ef nokkur stjórnmálaleiðtogi hefur verið fleinn í holdi Bandaríkjamanna er það Fidel Castro, en síðan 1959 hafa á annan tug manna setið í forsetastóli í Bandaríkjunum.
Tilraunir CIA til að koma honum fyrir kattarnef eru fleiri en tölu verður á komið, enda alveg sérstaklega neyðarlegt fyrir Bandríkin að hafa fjandsamlegt kommúnistaríki alveg sem næsta nágranna.
Þegar Rússar gáfu eftir í Kúbudeilunni virtist um sinn sem það hefði verið alger ósigur fyrir þá.
Svo var þó ekki, því að í staðinn fengu þeir því framgengt að Bandaríkin réðust ekki inn í Kúbu og það hefur haldið í 60 ár, allt frá hinni misheppnuðu Svínaflóaárás 1961.
Bandaríkjamenn hata Osama bin Laden enn meira en Kastró, en miðað við það hvað bin Laden hefur sloppið ævintýralega fram að þessu er alveg eins líklegt að hann verði enn á ferli árið 2062, meira en 60 árum eftir að hann slapp fyrst og að hann hafi þá þraukað af sér á annan tug Bandaríkjaforseta.
![]() |
Ferðir bin Laden kortlagðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
25.4.2011 | 23:19
Minnir á Fuglana hjá Hitchcock.
Árás skógarhæsnis á íslenska fjölskyldu á Notodden á vesturströnd Noregs minnir á atriði úr hryllingsmyndinni Fuglunum hjá Hitchcock. Hryllingurinn er í öfugu hlutfalli við umhverfið þarna í Harðangri á vesturströnd Noregs sem afar fallegt.
Kannski hefði myndin um hina illskeyttu fugla orðið enn magnaðri ef hún hefði verið látin gerast við svona dramatískt mótsagnarkenndar aðstæður.
![]() |
Fugl ofsótti íslenska fjölskyldu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.4.2011 | 23:09
Misvísandi vísbendingar.
Gosið í Eyjafjallajökli sýndi hve áfátt þekkingu manna var á eðli dreifingar gosöskunnar og áhrifum.
Askan var oft á tíðum svo fín að með ólíkindum var, svo að hún smaug stundum inn í tæki sem áttu að vera vatnsþétt. Það þýðir að öskukornin voru mun minni en minnstu vatnsdropar.
Á hinn bóginn var prófað að fljúga á einshreyfils flugvél með bulluhreyfli með mælitæki inn í öskumökkinn í um 10-15 mínútur og reyndist askan ekki fara yfir þau mörk sem talin voru varasöm.
Sjálfur prófaði ég að fljúga í um 20 sekúndur inn í svarta öskurigningu og varð framrúðan alsvört á þeim tíma en þegar komið var út úr hinum öskublandaða rigningarloftmassa þvoði hin hreina rigning öskuna af.
Vegna þess að askan var vatnsblönduð gerði hún engan óskunda.
Eftir að flugvélin hafði staðið á jörðu niðri í þurru öskumettuðu lofti og barið var létt með lófanum ofan á mælaborðið upp við framrúðuna, gaus upp líkt og svartur reykur með rúðunni !
Svo fín var askan að hún líktist fremur reyk en ösku.
Þannig var þessi aska mikið ólíkindatól.
Útreikningum í tölvum á dreifinu efnanna var stórlega ábótavant og gott dæmi um það var að öskumettuðu lofti og maður barði létt ofan á mælaborðið á mörkum þess og framrúðunnar gaus uppflugvellirnir íslensku voru opnir þá daga sem mesta askana var í loftinu við þá !
Dag einn í byrjun maí brast á hvöss norðvestan átt og var í hádegisfréttum útvarps greint frá því að askan fyki yfir Írland og myndi loka flugvöllum þar.
Á sama tíma var bannsvæði fyrir loftför með skrúfuþotuhreyfla sett í áttina upp í þennan mikla vind, sem var mikill í öllum hæðum, rétt eins og askan gæti borist á móti honum!
Það er eins gott að einhverjar framfarir verði í því að fást við svona viðfangsefni næst þegar svipað ástand kemur upp.
![]() |
Ekki ástæðulaus ótti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.4.2011 | 18:43
"Að bera sannleikanum vitni."
Lærdómurinn af Tsjernobyl og Fukushima að segja sannleikann er jafngömui "hinum viti borna" en breyska manni.
Gott er að rifja Tsjernobyl upp nú um páskana sem helgaðir eru manninum sem aðspurður um hlutverk sitt hér á jörðinni sagði: "Ég er kominn til að bera sannleikanum vitni". "Hvað er sannleikur?" spurði Pílatus þá og ýjaði að því að hinn endanlegi sannleikur verði aldrei uppgötvaður til fulls.
Í meðferð áfengissjúklinga er grunnuppgötvun þeirra sú, að lygin var aðalatriðið í sjúkleika þeirra, afneitunin og réttlætingin sem áfengissjúklingurinn breiðir út meðal meðvirkra vina og ástvina.
Áfengisfíknin er af sama toga spunnin og gróðafíknin, sem heltók íslenskt samfélag í aðdraganda Hrunsins, því að hún byggðist fyrst og fremst á lyginni, sjálfslyginni, lygi að öðrum, afneitun og meðvirkni meirihluta landsmanna.
Þrátt fyrir skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og margt fleira, sem komið hefur í ljós, virðist í gangi svipuð fíkn í gróðann af skefjalausri orkuöflun skammtíma hugsunar, þar sem í gangi er stórfelld afneitun á afleiðingum slíkrar orkubólu fyrir komandi kynslóðir sem þurfa að borga reikninginn dýru verði.
![]() |
Sannsögli helsta lexía Tsjernóbyl |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.4.2011 | 13:06
Þolinmæðin þrautir vinnur...
Það er ástæða til að samgleðjast Eiði Smára Guðjonhsen vegna góðs gengis hans í fyrsta leiknum í 385 daga þar sem hann er í byrjunarliði.
Þetta er búinn að vera erfiður tími og hefur kostað mikla þolinmæði og þrautseigju fyrir hann að ná þessum áfanga og standa sig svo vel sem raun ber vitni.
Eiður hefur að vísu unnið til allra þeirra verðlauna sem með nokkurri sanngirni er hægt að krefjast af nokkrum knattspyrnumanni í þessari vinsælustu íþrótt heimsins.
Hann byrjaði mjög ungur, missti að vísu dýrmætan tíma úr, en gafst ekki upp.
Eiður Smári er mannlegur eins og við öll og bæði vegna þess og einnig vegna þess að nú líður að seinni hluta ferils hans, þegar ekki er lengur hægt að búast við hinu sama og á hátindi ferilsins, tek ég hatt minn ofan fyrir honum fyrir það að gefast ekki upp þótt á móti hafi blásið.
Að því líður að hann verði að sætta sig við það að aldurinn taki sinn óhjákvæmlega toll og þá er mikilvægt fyrir hann að enda hinn mikla glæsiferil á sem bestan hátt.
Það vona ég að honum muni takast.
![]() |
Johnson hrósaði Eiði Smára |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.4.2011 | 11:43
Fer ekki eftir efnahag.
Stelsýki er eins og hver annar sjúkdómur sem fer ekki allt af eftir efnahag. Hjá sumum hefur þetta brotist út sem áhættusýki og þá hefur frægt og ríkt fólk verið nappað fyrir smástuldi rétt eins og bláfátækt fólk.
Þegar ég var í sveit fréttist af einum mesta efnabónda í landsfjórðungnum, sem stal snærishönk.
Maður á lúxusjeppa, sem stelur blómum á föstudaginn langa, er haldinn sömu veilu og drykkfeldur umrenningur sem stelur smáaurum til að eiga fyrir sjúss.
Hjá slíkum manni er það að vísu drykkjusýkin, sem ræður öllu, samanber hin fleygu orð fornvinar míns, sem Bakkus kúgaði, en hann sagði þegar skellt var á hressilegri hækkun á áfengisverði: (hann var svoítið gormæltur) "Ómag, nú eg bgennivínið ogðið svo dýgt að maðug hefug ekki efni á að kaupa ség skó."
![]() |
Á lúxusjeppa með stolin blóm |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.4.2011 | 11:25
Flestir eru jafnari en sumir.
"Sumir eru jafnari en aðrir" segir í bók Orwells þar sem vitnað er í þau lög, að allir skuli jafnir.
En allt fram á okkar daga hefur víða ríkt ástand þar sem þessi orð eiga við í ýmsum blæbrigðum, allt yfir í það ástand í málum minnihlutahópa eins og samkynhneigðra, að "flestir eru jafnari en sumir."
"Frelsi-jafnrétti-bræðralag" voru einkunnarorð frönsku stjórnarbyltingarinnar og í stjórnarskrá Bandaríkjanna stóð að allir menn væru jafnir, þar skyldi ríkja jafnrétti í hvívetna.
Annað kom þó í ljós varðandi þrælahaldið í Ameríku og þurfti borgarastyrjöld til að afnema það næstum 90 árum síðar og mikla baráttu öld eftir það til að afnema misréttið sem viðgekkst enn varðandi réttindi minnihlutahópa í Bandaríkjunum á sjöunda áratug síðustu aldar.
Varðandi nýja stjórnarskrá Íslands þarf að huga að þessu. Þótt í henni myndi standa að á Íslandi skuli ríkja jafnrétti í hvívetna sýnir reynsla annarra landa að það er ekki nóg, heldur þarf að hafa til hliðsjónar mannréttindaákvæði í sáttmálum Sameinuðu þjóðanna, þar sem orðið hefur að hnykkja á þessu ákvæði varðandi hina ýmsu þjóðfélagshópa, svo sem fatlaða og samkynhneigða.
Þótt Ítalía sé í ESB þar sem mannréttindi eiga að vera í hávegum höfð, ríkir enn misrétti hjá Ítölum, sem kemur glögglega í ljós varðandi deilur um auglýsingu IKEA í landi þeirra.
Þegar andmælt er því að hafa upptalningu á helstu þjóðfélagshópunum í ákvæði um jafnrétti og mannréttindi er sagt, að slík upptalning auðveldi að stunda misrétti utan þeirra hópa sem taldir eru upp.
En í sáttmála SÞ er sett undir þennan leka með orðunum "...svo sem..." á undan upptalningunni þegar rætt er um þjóðfélagshópana, sem nefndir eru. Sem sagt: Tryggt skal jafnrétti milli þjóðfélagshópa, "svo sem" vegna kyns, aldurs, stöðu, uppruna, fötlunar, kynhneigðar...o. s. frv.
Ítalir standa enn á svipuðu stigi gagnvart samkynhneigð og Bandaríkjamenn gagnvart þrælahaldi allt fram yfir miðja nítjándu öld þrátt fyrir allt mannréttindahjalið.
![]() |
Ikea-auglýsing fer fyrir brjóstið á Ítölum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)