Rétt hjá Davíð?

Orð Davíðs Oddssonar um nauðsyn á þjóðstjórn á ríkisstjórnarfundi 30. september 2008 voru að mínum dómi ekki ámælisverð í ljósi þess ástands sem þá var upp komið í íslenskum þjóðmálum.

Skiptir í mínum huga ekki máli hvort það teldist tæknilega rétt að embættismaður segði slíkt úr því að málum var svona komið. 

Í raun voru runnir upp efnahagslegir stríðstímar á Íslandi og fjölmörg dæmi eru um það frá öðrum löndum að þjóðstjórnir séu myndaðar á hættutímum. 

Jafnvel hefði mátt ræða um utanþingssjórn þess vegna. 

Það voru aðrar ástæður en þessi ummæli sem hefðu átt að vera til þess að Davíð hefði aldrei átt að verða Seðlabankastjóri en það er önnur saga. 


mbl.is Uppnám vegna orða um þjóðstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kemur fram í dagsljósið að hluta til.

Það atriði að Hannes Smárason hafi tekið 10 milljarða króna út úr Icelandair á bak við framkvæmdastjóra og stjórn félagsins varð mér efni til bloggpistils í fyrra.

Nú kemur í ljós að þetta hefur líklegast verið svona en enginn þorði að gera neitt í málinu, stjórnarmenn gengu að vísu út, -  en forstjórinn heyktist á því að gera þetta mál opinbert og afhjúpa það.

Þegar síðan er gerður 130 milljón króna starfslokasamningur við forstjórann og hann hættir síðan við að upplýsa málið lyktar það auðvitað af því að um mútur hafi verið að ræða, mútur fyrir það að þegja. 

Þetta mál er auðvitað næsta smátt, "aðeins" 10 milljarðar króna sem hefði þótt risavaxin upphæð fyrir nokkrum árum en nú er þjóðin orðin svo dofin vegna 100 sinnum stærri upphæða. 

 


mbl.is Hótaði lögreglurannsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrýtið.

Einkennilegt er að ekki skuli vera hægt að rekja hverjir ferðuðust með einkaþotum á milli landa í "gróðærinu".

Í einkafluginu er lagt mikið upp úr því að smáfuglarnir fylli út eyðublðð með margvíslegum upplýsingum og útreikningum varðandi hvert flug. 

Siðan kemur nú í ljós að hér eru menn langt í frá jafnir, - sumir eru jafnari en aðrir, þeir sem meira mega sín. 

Þetta á ekki aðeins við um einkaþotur, heldur kom til dæmis í ljós hér um árið að ekki var vitað hverjir voru farþegar í sjálfri flugvél Flugmálastjórnar í ákveðnu flugi sem varð fréttnæmt. 


mbl.is Ófullkomnir farþegalistar einkaþotna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir segja:"Ekki ég".

 Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis kemur fram að svör þeirra, sem kallaðir voru fyrir nefndina hafi verið á einn veg, og lýsinguna á því virðist mega orða í einni stöku: 

 

Ábyrgðin er ýmisleg  /

mínir elsku vinir:   /

Allir segja: "Ekki ég,  /

heldur allir hinir."


mbl.is Skýrslan kom þjóðinni á óvart
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Skýra þarf framkvæmdasvið..."

Ofangreind orð eru notuð um einstakar stofnanir og embætti í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um það að hér eftir þurfi að skýra betur framkvæmdasvið einstakra stofnana og embætta.

Með þessu er það sagt að ófullkomin lög séu ástæða þess, að allir aðilar hrunsins geta bent hver á annan þegar leita á orsaka þess og allir getað fríað sig ábyrgð en bent á aðra.

Er hugsanlegt að niðurstaða skýrslunnar sé sú, að í næsta hruni verði reynt að hafa þetta á hreinu en að komið hafií ljós að í hruninu 2008 hafi enginn einn aðili borið neina ábyrgð vegna þess að hún var ekki skilgreind nógu vel?  


mbl.is Vissu um vandann en gerðu ekki neitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Fyrir og eftir skýrslu"?

Örfáir atburðir í sögu landsins verða að viðmiði gagnvart því hvenær aðrir viðburðir gerast.

Nokkur dæmi:

Fyrir og eftir landnám.  874.  Fyrir og eftir kristnitöku.  1000.    Fyrir og eftir siðaskipti.    1550. 

Fyrir og eftir eld (Skaftárelda)  1783.      Fyrir og eftir heimastjórn.  1904. 

Fyrir og eftir fyrra stríð.  1914 -  1918.      Fyrir og eftir stríð.  1940 - 1944. 

Fyrir og eftir gos. (Heimaeyjargos)  1973.   Fyrir og eftir hrun.   2008. 

Fyrir og eftir skýrslu?  2010? 

Ég er ekki viss um að morgundagurinn muni marka svipuð tímamót og þeir eldri atburðir sem tilgreindir. 

Í okkar litla þjóðfélagi þar sem allir tengjast öllum held ég því miður að lítil líkindi séu til þess að allt það komi fram sem mestu máli skiptir. 

Mér sýnist líka á viðbrögðum margra að hugsanlega verði niðurstaðan sú að þeir, sem mestu réðu um þá atburðarás áranna 2002 til 2008, muni sleppa billega og minni spámenn verða negldir í staðinn. 

En vonandi kemur sem mest af sannleikanum í ljós í þessari skýrslu og kannski til lítils að giska á hvað það verður. 

 


mbl.is Mikil eftirvænting eftir skýrslunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að standa í biðröð.

Í kvikmyndinni um "Öskubuskumanninn", hnefaleikarann sem þurfti á tímabili að standa í biðröð í kreppunni miklu til þess að snapa vinnu við höfnina og leita á náðir fátækrahjálpar, kemur vel fram það andrúmsloft skammar, sneypu og niðurlægingar sem slíku fylgir.

Niðurlægingin varð enn meiri við það að vera hafnað hvað eftir annað á meðan aðrir voru heppnari. 

James J. Braddock handarbrotnaði í atvinnugrein sinni og gaf sér ekki nægan tíma til að láta brotið gróa vegna fátæktar.  Fjölskyldan svalt nema hann færi sem fyrst inn í hringinn á ný og tæki áhættuna að brjóta ekki höndina á ný.  Þess vegna lenti hann í vítahring og braut höndina aftur og aftur.

Síðar snerist gæfan með honum á einstæðan hátt og hann varð dáður heimsmeistari í þungavigt.

Handarbrotið hafði að lokum orðið honum til góðs, því að hann neyddist til að nota hina hendina, sem hafði verið veikari í hringnum, og þjálfa hana upp í vinnunni á meðan hin var brotin, - vinna í raun einhentur hið sama og aðrir notuð báðar hendur til.

Þegar hann síðan kom í hringinn vegna tómrar heppni gegn þekktum boxara og enginn hafði trú á því að hann gæti neitt, kom hann hinum öfluga andstæðingi í opna skjöldu með hinu nýja leynivopni sínu. 

Sú var tíðin á kreppuárunum á íslandi að svona biðraðir voru við helstu vinnustaði verkamanna í Reykjavík, svo sem "á eyrinni", - við Reykjavíkurhöfn. 

Þetta var enn svona á árunum 1954 og 55 þegar ég vann við höfnina í fríum, aðeins 14-15 ára gamall.

Ég fór í biðröð og beið eftir því að Jón Rögnvaldsson yfirverkstjóri veldi þá úr sem fengju vinnu þann daginn.

Ég fór nokkrum sinnum erindisleysu en síðan kom að því að fyrsta tækifærið gafst þegar óvenju marga þurfti í vinnu dagsins. Það nýtti maður vel og hreinlega djöflaðist til þess að sanna að maður ætti erindi í þessa erfiðisvinnu og væri fullgildur verkamaður. 

Ég var það ungur að ég áttaði mig ekki á því hve rangt ég gerði mörgum þeirra til, sem stóðu í biðröðinni með mér og fengu ekki vinnu á sama tíma og ég var valinn. 

Kannski lögðu sumir þeirra ekki eins hart að sér og ég til að sanna sig fyrir verkstjórunum, en kannski gátu þeir það ekki. 

Þegar ég síðar rifjaði þetta upp í minningunni minntist ég og minnist enn svips sumra þessara manna, svips djúprar þjáningar þegar urðu hvað eftir annað að upplifa opinbera höfnun í því litla samfélagi sem Reykjavík var.

Það er vont að slíkir tímar séu komnir aftur. Er engin leið að komast hjá því að þetta sé svona? 


mbl.is Fjallað um íslenska fátækt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tapaði söngvakeppnin fyrir Borgarholtsskólanum?

Ef maður sigrar einhvern tapar sá sem bíður ósigurinn. Ég hélt að Borgarholtsskóli hefði borið sigur úr býtum í söngvakeppninni en hún ekki beðið ósigur fyrir skólanum.
mbl.is Borgarholtsskóli sigraði í söngkeppninni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúlegur harmleikur.

Orsök slyssins mikla við Smolensk er einhver algengasta orsök slysa í sögu flugsins, sem sé sú, að brjóta þá reglu flugsins að þótt flogið sé eftir fyrirfram ákveðinni áætlun, áætlun A, sé fyrir hendi að minnsta kosti ein önnur áætlun ef áætlun A gengur ekki upp, svo að hægt sé að skipta yfir í ætlun B eða C o. s. frv.

Ef aðeins áætlun A kemur til greina og engin önnur, er tekin óbærileg áhætta. 

Áætlun B í þessu tilfelli hefði verið að hætta við lendingu og lenda á öðrum flugvelli. 

Í blindflugi er skylt að hafa flugþol til 45 mínútna aukaflugs og flugs til lendingar á fyrirfram uppgefnum varaflugvelli.

Slys af þessu tagi eru fátíð hjá reyndum atvinnuflugmönnum og með hreinum ólíkindum að þetta slys skuli hafa átt sér stað. 

"Kóngur vill sigla en byr verður að ráða" hefur verið þekkt íslenskt máltæki og átt við á mörgum sviðum, oft á nöturlegan hátt. 

 

P. S. Svo virðist sem þeim flugmönnum, sem fengnir eru til að fljúga með hátt setta ráðamenn telji það stundum svo mikla upphefð við sig og hæfileika sína að þeir geti gengið lengra en aðrir. 

Dæmi frá okkar landi er umdeild lending á Ísafirði fyrir um áratug og lending með Noregskonung í Vestmannaeyjum á áttunda áratugnum. 

 


mbl.is Flugmenn hunsuðu fyrirmæli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Örkin" til sölu.

Í Fréttablaðinu í dag er báturinn "Örkin" auglýstur til sölu, með eða án tilheyrandi bátakerru og utanborðsmótors.p1010207.jpg

Hvort tveggja sést hér á efstu myndunum, en þar fyrir neðan eru myndir frá því að báturinn var dreginn austur á lánskerru í apríl 2006, þá splunkunýr. 

Ég set þetta hér á bloggsíðuna mína líka til þess að þeir, geta þeir, sem sjá auglýsinguna og kunna að hafa áhuga á þessu, geti fræðst nánar um þetta með því að skoða þessa færslu.  p1010976_979800.jpg

Ég verð að selja bátinn vegna skulda, sem ég komst í vegna þessarar kvikmyndagerðar, sem var afar dýr, erfið og tímafrek.

Vegna hennar fór ég 80 ferðir frá Reykjavík upp á hálendið eystra og eyddi í það yfir 200 vinnudögum, sem samsvarar tæpu vinnuári.

Er þá ótalin öll vinna við þetta hér syðra, sem er enn meiri.  

Ég hef að vísu í höndum skriflegan samning um fyrirhugaðan 7 milljón króna styrk til þessa, sem gerður var 2007 við, að því er þá virtist, stöndugt stórfyrirtæki.

prufa_001.jpgÍ trausti þess hélt ég áfram siglingum og kvikmyndatökum 2007, 2008 og 2009 meðan áfram var haldið við gerð lóna og mannvirkja fyrir austan.

Engin leið var að hætta tökunum á drekkingu landsins. Í þessum siglingum var tekið myndefni sem aldrei verður hægt að taka aftur og varð að taka þá, þótt það kostaði skuldsetningu.

2008 og í fyrrasumar, þegar útséð var um að hægt yrði að uppfylla samninginn sem víkja myndi fyrir forgangskröfum vegna áhrifa hrunsins á fyrirtækið, hafði ég ekki efni á að sigla Örkinni.

Ég tók það til bragðs að róa á eins manns sundlaugartuðru um Folavatn til myndatöku þar. p1010377_979806.jpg

Var heppinn að drukkna ekki í einn slíkri ferð þegar tuðran fór að leka. Á myndinnni er tuðran úti í einum af hólmum Folavatns hjá risastóru álftahreiðri, sem þar var, en öllu þessu hefur nú verið sökkt í miðlunarlónið Kelduárlón. 

Talsverðar myndatökur eru eftir af siglingu Arkarinnar á lónunum fullgerðum, en þær verða að bíða, eins og fullnaðargerð myndarinnar sem og önnur sjö kvikmyndaverkefni mín. 

Einnig er það inni í áætluninni um þessa kvikmynd að báturinn, sem myndin snýst um, verði til sýnis á sýningarstað þegar þar að kemur. p1010407_979807.jpg

Sala bátsins verður háð því skilyrði að fáist fjámagn til að klára þetta verkefni, verði hægt að kaupa bátinn til baka með því að afhenda eigandanum splunkunýjan sams konar bát. 

Væntanlegur eigandi Arkarinnar myndi þá græða 300 þúsund krónur miðað við að nú kostar nýr svona bátur frá Sólplasti í Sandgerði 1100 þúsund krónur. img_0015.jpg

600 þúsund króna söluverð bátsins miðast við það ástand sem hann er nú í, en á honum eru þrjár rifur eftir steina, sem leyndust í jarðvegi, sem draga varð hann yfir til þess að koma honum á flot í Hálslóni.

Hjá Sólplasti er áætlað að kosta muni um 150 þúsund krónur að gera við þær. 

Ég er tilbúinn til að selja bátinn fyrir 800 þúsund krónur og afhenda hann hér á Reykjavíkursvæðinu viðgerðan sem nýjan. 

Rifurnar komu á byrðinginn haustið 2006 en sumarið 2007 var honum siglt þótt vatn kæmist inn í eitt af vatnsþéttu hólfum hans og hann meira að segja notaður til að draga Ferozu-jeppann "Rósu" í kafi eftir endilöngu lóninu þegar honum var bjargað af botni þess. 

Bátakerran var keypt sérstaklega á sínum tíma og ný kerra af þessari gerð kostar nú 7-800 þúsund krónur. 

Utanborðsmótorinn er 9 hestafla fjórgengismótor af gerðinni Johnson og kostar ríflega 450 þúsund krónur nýr í dag. Hann er enn í umbúðunum, ónotaður. 

Ég neyddist til að kaupa þennan mótor vegna þess að mótornum, sem upphaflega var keyptur á Örkina, var stolið frá mér. Sá var 30 hestöfl en 9 hestöfl taldi ég nægja til að sigla það sem eftir væri með því að nota með 5 hestafla fjórgengismótor sem ég hafði sem varamótor þegar siglt var. 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband