17.4.2011 | 11:05
Schumacher hvað?
Flestar íþróttagreinar eiga sér blómaskeið og hnignunarskeið, sem oft byggjast á yfirburðamönnum.
Meðan Michael Jordan var upp á sitt besta dró hann að sér hundruð milljóna áhorfenda til að horfa á körfubolta.
Allir gátu elskað eða hatað Muhammad Ali, George Foreman, Joe Frazier, Ken Norton og co á hinu einstæða blómaskeiði þungavigtarhnefaleikanna á áttunda áratugnum og á níunda áratugnum sáu Lennox Lewis, Mike Tyson, Riddick Bowe og Evander Holyfield um þungavigtina en Roy Jones, Oscar Dela Hoyja og Prins Naseem Hamed um léttari þyngdarflokkana.
Michael Schumaher sá um að lyfta Formúlu 1 upp á sínum tíma, - það var maður sem allir gátu sameinast um að elska eða hata.
Eftir að hans skeiði lauk hefur formúlan ekki náð sér alemnnilega á strik fyrr en kannski núna þegar nýir snillingar og einstæð og dramatísk keppni lyftir henni upp á hærra plan.
Það er gott. Það vantar blómaskeið í einhverja af helstu íþróttagreinunum, sem fólk getur notið í sjónvarpi um allan heim og kannski er slíkt blómaskeið að hefjast í Formúlu 1 svo að fólk geti sagt: Schumacer hvað?
![]() |
Tær snilld í Sjanghæ |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.4.2011 | 21:10
"Tíma stórra vatnsaflsvirkjana er lokið."
Ofangreind orð mælti Kjell Magne Bondevik, þáverandi forsætisráðherra Norðmanna, fyrir um fimm árum og í framhaldinu sögðu frændur okkar á Norðurlöndum: "Tími stórra vatnsaflsvirkjana á Norðurlöndum er lokð."
Í Noregi er álíka mikil orka óbeisluð í vatnsföllum að magni til og er óbeisluð á Íslandi. Árnar eru hreinar og tærar og ekkert set myndast í miðlunarlónunum, þannig að þessar virkjanir yrðu afturkræfar, ólíkt því sem yrði víða á Íslandi þar sem aurset jökulfljóta fyllir lónstæðin upp og eyðileggur miðlunarhæfni þeirra.
Hinir norrænu ráðamenn gleymdu stóru atriði, þegar þeir töluðu um nýja tíma, og hefðu átt að orða setninguna svona: "Tíma stórra vatnsaflsvirkjana á Norðurlöndum er lokið, - nema á Íslandi, en þar ætla menn að virkja allt, meira að segja Dettifoss, aflmesta foss Evrópu."
Í Noregi er oft á tíðum orkuskortur. Samt eru ætla þeir að láta vatnsafl af sömu magnstærð og óvirkjað vatnsafl á Íslandi óvirkjað. Og það jafnvel þótt umhverfisáhrifin í Noregi yrðu brot af því sem þau yrðu á Íslandi.
Norðmenn skortir orku til heimanota en Íslendingar hafa þegar virkjað fimm sinnum meiri orku en þeir þurfa til sinna heimanota. Upp undir 80% prósent orkunnar hér eru eyrnamerkt álverum í eigu útlendinga.
Við erum áratugum á eftir öðrum þjóðum í hugsunarhætti og viljum ekkert af þeim læra frekar en svo oft áður, svo sem eins og í bankabólunni stóru sem sprakk.
Nú viljum við virkjanabólu sem verði enn stærri á þeim forsendum að hún springur ekki framan í húverandi kynslóðir, heldur kynslóðir framtíðarinnar.
Og allur ávinningur mælist í því að skaffa 2% vinnuafls þjóðarinnar atvinnu í álverum og viðhalda virkjanaframkvæmdum, sem að vísu skapa störf á meðan á þeim stendur, en gera jafn marga atvinnulausa þegar ekkert verður lengur eftir til að virkja.
Hvílík lausn á atvinnuvandanum til frambúðar! Hvílíkt tillitsleysi gagnvart afkomendum okkar!
![]() |
Hætta stuðningi verði farið í virkjanir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.4.2011 | 05:40
Eltingarleikur við aukaatriði.
Of oft draga menn fram aukaatriði þegar varpa á efa um færni einstakra manna. Eltingarleikur í fjölmiðlum um feril Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar ber keim af þessu.
Eitt besta dæmið um þetta er sú árátta manna að draga menn í dilka á borð við "101 Reykjavík" eða "Lattelepjandi kaffihúsalið í 101 Reykjavík" og gera fyrrnefnd lýsingarorð af skammarheitum.
Jón Sigurðsson og Fjölnismenn hefðu samkvæmt þessu verið taldir ónytjungar af því að þeir voru "vínsullslepjandi bjórkráalið í "101" Kaupmannahöfn" á sama tíma og landsmenn þeirra bjuggu í torfkofum i vegalausu landi.
Búseta, umhverfi og menntun hafa að sjálfsögðu áhrif á fólk en þegar eingöngu er lagt mat á ágæti þess samkvæmt þessum mælikvarða en ekki eigin verðleikum er um ómálefnalega umfjöllun að ræða.
Mig langar til að nefna tvö dæmi um það hve fáfengilegt það geti verið, þegar búseta, umhverfi og menntun eru gerð að aðalatriðum en ekki verðleikar mannanna, sem í hlut eiga.
Mér er það minnisstætt að þegar ég og bekkjarfélagar urðum stúdentar hafði M.R. verið í rúma öld eini skóli landsins, sem útskrifaði nemendur eftir stúdentspróf.
Við' vorum aðeins tæplega hundrað, og gömul hefð var fyrir því að stúdentar væru boðnir til æðstu valdamanna landsins á hinu veraldlega og andlega sviði.
Þess vegna kom það í hlut Ólafs Thors forsætisráðherra og Sigurgeirs Sigurðssonar biskups að heilsa hinum nýju stúdentum.
Aldrei var um það rætt á þessum árum að báðir þessir menn "skriðu" sem kallað var á stúdentsprófi, rétt náðu lágmarkseinkunn.
Báðir höfðu sannað verðleika sína á annan hátt en með skólalærdómi.
Jón Sigurðsson var ekki aðeins óumdeildur forystumaður í íslensku sjálfstæðisbaráttunni heldur veittu rannsóknir hans á sögu og menningu Íslendinga og Dana honum einstakan sess, svo dýrmætan fyrir Dani, að hann þáði hjá þeim laun fyrir störf sín á þessum vettangi.
Er áreiðanlega einsdæmi að "herraþjóð" hafi haldið uppi helsta andófsmanni í sjálfstæðisbaráttu "undirþjóðar".
Jón naut verðleika sinna en ekki háskólaprófa, því að hann lauk aldrei námi til fulls. Aldrei minnist ég samt þess að þá né síðar hafi menn verið að eltast við menntunarferil hans.
Það voru aukaatriði rétt eins og prófgráður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar eru aukaatriði nú.
![]() |
Sigmundur Davíð gerir grein fyrir námsferli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 05:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
15.4.2011 | 20:00
Minnir á Vesalingana.
Neðanjarðarborg ólöglegra innflytjenda í loftvarnabyrgi í Moskvu er eitthvert stórkostlegasta dæmið um raunverulega "undirheima" í stórborg í orðsins fyllstu merkingu.
En undirheimalýður svonefndur hefur löngum haft lag á að finna slíka rangala til að leynast í eða fara um og þegar ég ungur las Vesalingana eftir Victor Hugo orkaði sá hluti sögunnar, sem gerðist í skolpræsakerfi Parísar mjög á sterkt ímyndunarafl barnshugans.
Í Reykjavík hafa lengi verið til skúmaskot þar sem umrenningar og útigöngufólk hefur fundið sér samastað eins og þekkt var þegar verustaður drykkumanns uppgötvaðist í hitaveitustokki.
Á æskuárum frétti maður af verustaður róna væri í togaranum Síríusi sem var þá í Slippnum en aldrei sá ég hann þó sjálfur.
Á erfiðum stundum á unglingsárum mínum kom það fyrir að ég ráfaði upp í hið stóra kartöflugarðaland sem þá var í Kringlumýri með ótal litlum kofum í görðunum.
Yfirleitt var hægt að finna einhvern kofa sem hægt var að komast inn í og dveljast í í einhvern tíma meðan verið var að íhuga þess vanda sem það var að vera unglingur, oft dálítið ringlaður yfir tilverunni.
![]() |
Neðanjarðarborg í Moskvu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.4.2011 | 12:55
Fordæmalaust?
Brottvísun Ríkarðs Arnar Pálssonar úr Hörpu á sama tíma og öðrum var leyft að vera þar hlýtur að vera dæmalaus uppákoma.
Að minnsta kosti hefur verið fært á spjöld sögunnar hverjir voru fyrstu gestir í húsum eins og Þjóðleikhúsinu og Borgarleikhúsinu en ekki fylgir sögunni hvort eða hverjir hafi fyrstir verið reknir þaðan út.
Flest mál eiga sér aðdraganda og upptök en með fréttinni um brottvísun Ríkarðs fylgir ekki neitt slíkt.
Á meðan ekkert slíkt liggur fyrir svífur spurningarmerki hvað það varðar yfir vötnum þessarar óvenjulegu fréttar.
![]() |
Vísað úr Hörpu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.4.2011 | 12:50
Dásamlegt uppátæki.
Mikið hefði ég haft gaman af því fyrir rúmri hálfri öld að fá að taka þátt í því að fjalla um stjórnarskrána á fundi eins og þeim sem ungmennaráð ætla að halda á morgun.
Og mikið hefði ég haft gaman af því að koma á fund ungmennaráðanna á morgun.
En ég neyðist til að boða forföll því að fyrir löngu, meðan að tilvist og störf núverandi stjórnlagaráðs voru svífandi í lausu lofti, lofaði ég því að vera erlendis næstu daga.
Þess vegna get ég aðeins sent ungmennunum hvatningarorð og hamingjuóskir með það góða framtak sem felst í fundi þeirra í Iðnó og afrakstri hans.
![]() |
Ungmenni ræða um stjórnarskrá |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.4.2011 | 20:59
Fjölmörg fordæmi. VGVG?
Fjölmörg fordæmi eru fyrir því úr íslenskri þingsögu að þingmenn segi skilið við þingflokka sína, stofni eigin þingflokk og jafnvel nýja stjórnmálaflokka.
Tryggvi Þórhallsson fór úr Framsóknarflokknum og stofnaði Bændaflokkinn, Vilmundur Gylfason stofnaði Bandalag jafnaðarmanna meðan hann var þingmaður fyrir Alþýðuflokkinn, Albert Guðmundsson stofnaði Borgaraflokkinn meðan hann var þingmaður Sjálfstæðisflokksins og Jóhanna Sigurðardóttir Þjóðvaka fyrir kosningarnar 1995.
Einstaka þingmenn Borgaraflokksins yfirgáfu hann og fóru yfir í Sjálfstæðisflokkinn.
Eggert Haukdal, Jón G. Sólnes og Stefán Valgeirsson eru dæmi um þingmenn sem fóru í sérframboð.
Allt voru þetta þingmenn, sem höfðu verið kosnir af fólki, sem var ekki alltaf á eitt sátt með það að þeir skyldu ekki fylgja flokkslínunni heldur færu sínu fram.
Á síðari árum höfum við Kristin H. Gunnarsson og Þráin Bertelsson sem dæmi um þingmenn sem hafa farið á milli flokka og jafnvel úr stjórnarandstöðu yfir í stjórn.
Þingmenn sverja eið að því að fylgja sannfæringu sinni og samvisku og þess vegna geta þeir kjósendur þeirra lítið gert, sem finnst að þeir hafi brugðist þeim sem veittu þeim umboðið.
Sumir þeirra sem fóru í klofningsframboð vildu fá listabókstafi eins og DD eða BB og hefðu atkvæðin, sem þessi framboð fengu, bæst við atkvæði móðurflokkanna. Í öll skiptin hafnað viðkomandi fjórflokkur þessari beiðni.
Og hvaða skammstöfun ætti nýja aflið að hafa? VGVG? Vinstra Græna Villta Gengið? Eða VGVK? Vinstri Grænu VilliKettirnir?
![]() |
Íhuga að stofna þingflokk |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
14.4.2011 | 20:21
"...hafa talað megavöttin upp úr jörðinni..."
Setningin sem höfð eru eftir Svandísi Svavarsdóttur í tengdri frétt, eru mergurinn málsins í þeim hluta virkjanamálanna, sem snýr að jarðvarmavirkjunum. "Menn hafa talað megavöttin upp úr jörðinni eins og þeir viti hvað undir liggur", sagði hún.
Það er viðurkennd staðreynd úr þessum fræðum, að um ágiskun er að ræða, þegar gefnar eru upp áætlaðar orkutölur af jarðvarmasvæðum, því að það kemur ekki í ljós fyrr en í áranna rás, hve lengi svæðið afkastar þeirri orku sem giskað var á.
Hvað snertir jarðvarmasvæðin á Suðvesturlandi giska menn á að orkan endist í 50 ár. Það er að sjálfsögðu allt of skammur tími til þess að það standist kröfur um sjálfbæra þróun. Að tæma auðlind á þennan hátt heitir rányrkja á íslensku.
Doktor Bragi Árnason rannsakaði Nesjavalla- Hellisheiðarsvæðið á sínum tíma og dró af þeim rannsóknum þá ályktun, að miðað við þau afköst, sem menn ætla sér að ná á þessu svæði, dvíni orkan eftir 50 ár og að þá þurfi að bíða án orkuöflungar í 100 ár eftir því að svæðið fari aftur að afkasta orkunni.
Af þessu er hægt að draga tvær ályktanir:
Annað hvort, að aðeins verði virkjaður þriðjungur þeirrar orku sem giskað var á eða að barnabörn okkar standi frammi fyrir því eftir 50 ár að svipast um eftir 600 megavatta orku annars staðar og síðar 50 árum þar á eftir að svipast um eftir 600 megavöttum á þriðja svæðinu.
Framferði af þessu tagi er græðgi og yfirgangur gagnvart komandi kynslóðum auk þess sem logið er að okkur sjálfum og öllum heiminum að um "endurnýjanlega orku og sjálfbæra þróun" sé að ræða.
Við Íslendingar eigum alveg eftir að skipuleggja þessi mál af yfirvegun til framtíðar í anda jafnréttis kynslóðanna og haga okkur á ábyrgan hátt í stað þess rányrkjuhugsunarháttar sem ræður ferðinni í vikjana- og stóriðjumálum.
Hvenær ætlum við að fara að haga okkur eins og siðað fólk í þessum efnum?
![]() |
Deilt um megavött á Alþingi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.4.2011 | 10:11
Grímsvötn líklegust en önnur eldfjöll hættulegri.
Líklegast hefur verið leitað til íslenskra jarðfræðinga um upplýsingar um það, hvar líklegast væri að gysi næst, þegar settur var Grímsvatnastimpill á næsta eldgos á Íslandi og viðbrögð við því.
Hins vegar hefur verið tiltölulega hættulítið öskufall úr síðustu Grímsvatnagosum, - askan mun minni og léttari en í gosinu í Eyjafjallajökli.
Öðru máli gegnir um Heklu, Kötlu, Bárðarbungu og Öskjusvæðið ef stór gos verða í þessum eldfjöllum.
Hekla er komin á tíma og Katla hefur stundum gosið í kjölfarið á Eyjafjallajökli. Auk þess hafa verið skjálftar allt að þremur stigum á Richter á svæðinu frá Öskju og norðaustur í nyrsta hluta Krepputungu allt frá 2007.
Og meira að segja kom einn yfir 2 stig í Kverkfjöllum nýlega.
Vonandi hafa menn endurbætt matsaðferðir sínar á dreifingu og magni öskunnar frá því sem gert var í gosinu í Eyjafjallajökli. Miðað við það að flugvellirnir á Suðvesturlandi voru opnir þegar öskufall þar var mest liggur beint við að álykta að aldrei hefði þurft að loka neinum alþjóðaflugvelli á Íslandi á meðan á gosinu stóð ef upplýsingar og útreikningar hefðu verið betri en raun bar vitni.
Og svipað held ég að hafi gilt um megnið af því sem bannað var í Evrópu.
![]() |
Líktu eftir Grímsvatnagosi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
13.4.2011 | 22:57
Virði hvers þingmanns eykst.
Úrslit atkvæðagreiðslunnar um vantraust á Ríkisstjórnina hafa það í för með sér að hver sá þingmaður, sem studdi stjórnina, getur "selt" sig dýrt eins og það er kallað, ef slíkt er uppi á teningnum hjá honum.
Bjarni Benediktsson ýjaði að þessu á Alþingi í kvöld þegar hann hjó eftir ummælum Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur varðandi virkjanir bæði efst og neðst í Þjórsá.
Út af þessu má spinna kenningar um það að nú muni færast í aukana "verslun" stjórnarflokkanna með tvo málaflokka, annars vegar hugðarefni Sf hvað varðar aðildarumsókn að ESB og hins vegar hugðarefni grænna þingnanna VG varðandi virkjanaáform.
Grænu þingmennirnir á jaðri órólegu deildarinnar í VG muni nýta tæpa stöðu stjórnarinnar til þess að skilyrða stuðning við stjórnina og áframhaldandi viðræður við ESB með því að stóriðju- og virkjanaáformum verði haldið í skefjum.
Sagt er að sá tími hafi verið ótrúlega mikill, sem Steingrímur Hermannsson eyddi í það á fyrstu stjórnarárum ríkisstjórnarinnar, sem hann myndaði haustið 1988 að stunda samninga við einstaka stjórnarþingmenn til þess að halda stjórninni Stefá á floti.
Einkum hafi hann þurft að eyða miklum tíma og fyrirhöfn í að hafa Stefaán Valgeirsson góðan og orðið mjög feginn þegar hann gat kippt þingmönnum Borgaraflokksins inn í stjórnina og látið þeim hið nýja Umhverfisráðuneyti í té.
Ekki stóð það síður tæpt í febrúar 1980 þegar Gunnar Thoroddsen myndaði ríkisstjórn sína á vægast sagt afar tæpun grunni.
Staða þeirrar ríkisstjórnar var svo tæp að málefni eins Frakka, Patrick Gervasoni, hafði næstum sprengt ríkisstjórnina vegna þess að Guðrún Helgadóttir gerði það mál að úrslitaatriði hvað varðaði stuðning hennar við ríkisstjórnina.
![]() |
Vantrauststillaga felld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)