Þjóðhagslega arðbært.

Lengi hefur verið litið á almenningssamgöngur og aðrar hagræðingarumbætur í samgöngum frá of þröngu sjónarhorni þar sem menn hafa séð eftir þeim frjámunum sem í svona umbætur fara.

Í ferðum mínum um fjórar danskar borgir, þrjár norskar og sjö sænskar auk lesturs athyglisverðrar skýrslu norrænna borgasamtaka um 16 norrænar borgir hefur tvennt aðallega vakið athygli mína: 

1. Þær norrænu borgir sem eru á stærð við Reykjavík eru álíka dreifbýlar ef nota má það orð og Reykjavík. Aðeins stóru og gömlu borgirnar eru með þéttari byggð. 

2. Almenningssamgöngum er yfirleitt betur fyrir komið í þessum borgum en á höfuðborgarsvæðinu hér heima enda er ekkert þessara borgarsamfélaga með annað eins sundurlaust kraðak af sjálfstæðum einingum og Reykjavíkursvæðið með tilheyrandi skipulagsleysi. 

Hátt eldsneytisverð er ekkert einstakt íslenskt fyrirbæri. Það er á svipuðu róli og í nágrannalöndunum og erfitt að benda á rökréttari, skilvirkari og réttlátari skattlagningu, einfaldlega borgað eftir notkun og ekki hægt að svíkja undan. 

Önnur skattlagning í staðinn myndi verða óréttlátari og nær að lækka aðra skatta og gjöld en það sem, lagt er á eldsneyti. 

En ekki er síður mikilvægt að efla þann valkost sem almenningssamgöngur eru og gera ráðstafanir til að laga bílaflotann að því umhverfi, sem hlýst af því að olíuöldin hefur náð hámarki sínu vegna þess að jarðefnaeldsneyti jarðarinnar er takmörkuð auðlind og þverrandi í framtíðinni. 


mbl.is Milljarður á ári í samgöngur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varla til baka í Samfylkinguna?

Guðmundur Steingrímsson haslaði sér völl í Samfylkingunni þegar hann ákvað að taka þátt í stjórnmálum þótt bæði faðir hans og afi hefðu verið formenn Framsóknarflokksins. Hann sá sig síðan um hönd, ef svo má segja, og fór í framboð fyrir sinn ættarflokk.

Varla fer hann nú að kvarna niður fylgi Framsóknar með því að stofna nýjan flokk?  Og varla að fara til baka inn í Samfylkinguna? 

Það er ekkert nýtt að Framsókn sé klofin í svona málum. Hún var klofin í afstöðunni til EES á sínum tíma og til voru Framsóknarmenn sem ekki gengu í takt við forystu flokksins í afstöðunni til NATO, EFTA og fleiri mála.

Hópur Framsóknarmanna átti þátt í stofnun og framboði Þjóðvarnarflokksikns 1953 og upp úr 1970 voru óánægðir ungir Framsóknarmenn helstu forsprakkar svonefndrar Möðuvallahreyfingar, þeirra á meðal Ólafur Ragnar Grímsson og Baldur Óskarsson.

Framsókn fékk það orð á sig fyrir hálfri öld að "vera opin í báða enda" og á auðvelt með að vera það áfram. 


mbl.is Eru Siv og Guðmundur á útleið úr Framsókn?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að þekkja sinn vitjunartíma.

Ef Hosni Mubarak hefði nú bara þekkt sinn vitjunartíma og afsalað sér völdum fyrir nokkrum árum eftir að hafa undirbúið vandlega það sem tæki við. Sennilega hefur hann aldrei heyrt talað um að grafreitir heimsins séu fullir af ómissandi fólki.

Ef Davíð Oddsson hefði nú bara þekkt sinn vitjunartíma eftir átta ára setu í valdamesta embætti landsins og alls 17 ára samfellda sigurgöngu í stjórnmálum og byrjað að skrifa þær frábæru bækur, sem hann hefði getað skrifað. 

Stjórnmálaferill hans 1982-1998 hefði orðið einstæðum ljóma vafinn. 

Ef Muhammad Ali hefði nú bara þekkt sinn vitjunartíma eftir þriðja bardagann við Ken Norton 1976 og sleppt því að láta höggharðasta hnefaleikara sögunnar, Earnie Shavers, berja sig jafn mikið og fast og tugir annarra hnefaleikara höfðu gert á undan honum.

Ef Joe Louis hefði bara staðið við yfirlýsingar sínar um að hætta 1947 eftir langlengstu meistaratíð sögunnar og flesta bardagana, þar sem hann hafði varið titil sinn. 

Ef De Gaulle hefði hætt tveimur árum fyrr o. s. frv. o. s. frv....

Sagan geymir óteljandi dæmi um rangt val manna, sem gátu valið um að setja punktinn við glæastan feril og hafið jafnvel annan í staðinn en mátu stöðuna ekki rétt.

En auðvitað er hægara um að tala en í að komast. 


mbl.is Mubarak fékk hjartaáfall
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Ritskoðun má aldrei í lög leiða"

Ofangreint ákvæði í íslenskum lögum er ekki út í bláinn. Dæmin sýna, bæði hér á landi og erlendis, að ráðrík stjórnvöld vilja gjarna hafa sem mest um það að segja hvað birtist í fjölmiðlum og er nýlegt dæmi frá Ungverjalandi lýsandi um það.

Ekki er síður brýnt að jafnræði á fjölmiðlamarkaði sé tryggt svo að allar skoðanir fái að njóta sín á jafnréttisgrundvelli. 

Þess vegna verður að halda vökunni gagnvart því að fjölmiðlalög verði ekki íþyngjandi fyrir nauðsynlega dreifingu á upplýsingum og skoðunum. Hrunið byggðist að hluta til á því að fjölmiðlar brugðust og eflning þeirra er óhjákvæmilegur hluti þess að endurreisa það og bæta sem þá fór úrskeiðis.

Gallar á fjölmiðlalögum geta verið þess eðlis að þeir jafngildi ritskoðun, bæði beint eins og hugmyndir um sérstaka stofnun og hlutverk hennar hafa sýnt, eða óbeint þar sem mismunun hefur svipuð áhrif.

Vonandi tekst að búa þannig um hnúta í nýjum fjölmiðlalögum að þau stuðli að öflugri og fjölbreyttari fjömiðlun hér á landi. 


mbl.is Undirskriftir gegn fjölmiðlalögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eðlilegir umhleypingar.

Undarlegt hefur verið að fylgjast með því frá því í fyrrahaust, hvernig menn hafa kennt óvenjuleg óhagstæðu veðri og vindum um það hve illa hefur gengið að halda Landeyjahöfn opinni. 

Ég hef þurft að hafa flugvélina TF-FRÚ úti í ellefu vetur og þurft að vera vakinn og sofinn jafnt á nóttu sem degi yfir því að hún snúi rétt og sé rétt bundin niður, og sé ekki að veturinn núna hafi verið neitt öðruvísi en hinir hvað umhleypinga snertir. 

Sumir hafa verið verri en þessi og þeir, sem halda að það sé eitthvað sérstakt við það að það séu umhleypingar dögum og vikum saman á Íslandi að vetrarlagi virðast vera haldnir einstaklega ofþroskaðri óskhyggju. 

Ég hef ekki séð nein gögn eða ítarlega úttekt frá Veðurstofu Íslands um það að veður og vindar í vetur hafi verið neitt frábrugðnir því sem alltaf má búast við á Íslandi. 

Hið fyndna er að þegar hann hefur blásið á vestan hefur því verið kennt um sandburðinn og líka þegar hann hefur blásið á austan. Jafnvel sagt að fyrir einskæra óheppni hafi sandur, sem austanáttin bar vesturfyrir höfnina borist til baka austur vegna þess að það snerist úr vestan- í austanátt. 

Hið eina sem var óvenjulegt var viðbótaraurburður Markarfljóts vegna gosefna úr Eyjafjallajökli. 

Mikill aurburður Markarfljóts er hins vegar þekkt fyrirbæri frá árunum fyrir gos. Þannig eyðilögðu vatnavextir og aurburður veginn inn í Þórsmörk á stórum kafla haustið 2008 á svipaðan hátt og aurburður skemmdi veginn í fyrravor, þótt aurburðurinn hafi ekki verið eins mikill neðar við fljótið eins og í fyrra. 

Landeyjahöfn á áreiðanlega eftir að koma sér vel þegar veðrið skánar nú í vor og hægt verður að opna hana og auðvitað kemur hún sér best á ferðamannatímanum, þegar umferð til og frá Eyjum er mest.

Það er hins vegar að mínu viti óraunsætt að ætlast til þess að hægt sé að treysta því að þessi höfn sé opin og vel athugandi að fá ferju, sem ristir ekki eins djúpt og Herjólfur, til að halda uppi siglingum um hana. 

 


mbl.is Efni mun bætast við í hafnarmynninu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðið fyrir "Hotwave".

Í fyrradag komst hiti upp í 20 stig í Vopnafirði þótt enn sé vetur og Ísland liggi norður við heimsskautsbaug. Ástæðan er gríðaröflugur og stór massi af hlýju lofti sem þrýstist langt sunnan úr höfum alla leið hingað norður.

Til þess að flytja slík býsn af heitu lofti þarf feiknarlega orku, sem birtist í bálhvössum vindi í háloftunum og rokinu, sem fór yfir landið í gær og í nótt.

Um svipað leyti og Icesave komst í hámark í þjóðfélagsstormunum var það fyrirbæri sem kalla má "Hotwave" sem réði ríkjum í veðrinu, 20 stiga heitur hnjúkaþeyrinn sem blés yfir Vopnfirðinga í fyrradag og lárétt steypiregnið sem buldi á landsmönnum í gær. 

Svona hvassviðri og læti í veðrinu er verðið sem við verðum að borga fyrir það að fá hlýtt loft alla leið hingað norður á þessum árstíma. Um það er ekki hægt að halda neina þjóðaratkvæðagreiðslu. 


mbl.is Þrumur og eldingar yfir Bláfjöllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loftflæði og flugvélar.

Flugvélar geta ekki flogið nema lágmarksmagn af loftflæði streymi hratt framan að þeim og aftur yfir vængina. Því meira flæði, því betra flug. Loftflæði og flugvélar.

En dæmið snýst við þegar flugvélar standa á jörðu niðri. Þá getur þetta endað eins og sást í sjónvarpsfréttum í kvöld að þær fara á hvolf. 

Ekki veit ég hve mörg hundruð sinnum ég hef ekki þurft að eyða tíma og fyrirhöfn í það að koma í veg fyrir að FRÚin fyki og færi að þessu leyti að halda fram hjá mér. p1010174.jpg

Eftir ánægjulega dvöl á samkomu Umhverfisvaktarinnar í Hvalfirði í dag var þeyst austur fyrir fjall og fram á kvöld fór tíminn í að koma í veg fyrir að FRÚin fyki þar sem hún stóð úti. 

Flugvinur minn, Kári Jónsson, reyndist mér vel þegar hann lét í té stóran vörubíl til að binda í og skýla vélinni. 

Fyrst þurfti bíllinn að standa aftan við vélina á hlið til að koma í veg fyrir að stélið skemmdist vegna vindsveipa á hlið, því að vindur var miklu austanstæðari en spáð hafði verið, og ég hafði miðað við sunnanátt þegar ég fór austur í gærkvöldi til að binda vélina. 

Síðan færði Kári bílinn framfyrir þegar vindur snerist loks til suðurs. Þetta er heilmikil fræðigrein og talsvert verk, ekki sama hvernig bundið er og með hvaða hnútum og einnig þarf stundum að grafa holur fyrir hjólin og lækka nefhjólið til að vængirnir taki ekki eins mikinn vind á sig. 

Fyrir um 20 árum varð til þessi vísa þegar ég var að basla við þetta: 

 

Margt vill brjótast böndum úr 

sem bundið er með valdi 

og erfitt er að fjötra frúr

svo fastar að það haldi. 


mbl.is Farþegarnir komnir í land
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meirihlutinn ræður og vill meira áhættuspil.

Fjármálabólan mikla byggðist hér á landi á því að meirihluti þjóðarinnar var fús til að taka þátt í áhættuævintýrinu, sem bólan og þenslan byggðust á, langmesta vexti peningakerfis, sem nokkur þjóð hefur upplifað auk mestu virkjanaframkvæmda sögunnar með tilheyrandi umhverfisspjöllum.

Raddir þess efnis að hið alltof háa og í raun tilbúna gengi krónunnar gæti ekki annað en fallið með tilheyrandi stórtjóni fyrir þá sem tóku gengistryggð lán voru taldar úrtöluraddir og svartagallsraus. 

Hugsanlega hefði bankabólan ekki sprungið svona snemma ef ekki hefði einnig verið á sveimi svipað fyrirbæri erlendis. En hættuspilið og spilaborgin hefði líkast til hrunið fyrr eða síðar. 

Flestir hafa viðurkennt að með neii sé tekin meiri áhætta en með jái, þótt um það hafi reyndar líka verið deilt af sumum. 

60 prósent þjóðarinnar hafa nú tekið af skarið og vilja fara þessa leið og nú er bara að sjá hvernig fer. 

40 prósent vildu hins vegar fara samningaleiðina og kannski er það hærri prósentutala en oft áður í svipuðum málum, því að þegar uppleggið er hvort eigi að borga eða ekki borga er það reynsla annarra þjóða, að jafnvelt þótt þeir sem vilja borga samkvæmt samningum leiði að því rök að nei-leiðin verði dýrari, er einfaldara fyrir kjósendur að segja bara nei á staðnum og stundinni. 

Í Kaliforníuríki fór illa þegar atkvæðagreiðslur voru um fjármál og þau eru venjulega ekki sett í þjóðaratkvæðagreiðslur í öðrum löndum. Það er helst í ríki eins og Sviss, þar sem alda hefð er fyrir þessari lýðræðisaðferð, að hún virkar á traustan hátt. 

Þjóðaratkvæðagreiðslur eru að stíga sín fyrstu alvöruspor hér á landi og það mun taka tíma að þroska þær og móta. Að því ber að stefna að mínum dómi og verður eitt mikilsverðasta viðfangsefni stjórnlagaráðs að beina því máli í sem bestan farveg og leiða þær til öndvegis eftir því sem fremstu tök eru á án þess að falla í þær gryfjur, sem þær geta fallið í. 

 


mbl.is Afgerandi nei við Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leiðir hugannn að upphafinu.

Það hlýtur að verða "hnípin þjóð í vanda" sem gengur að kjörborðinu í dag um Icesave, ef hún hugur hennar verður þrúgaður af hinum stórkostlega hræðsluáróðri, sem virðist vaxa á báða bóga. 

Nú er hótað hinu versta á báða bóga, hvort sem krossað er við já eða nei og engu líkara en um yfirboð sé að ræða, "áratugir fátæktar, gjaldþrota og fólksflótta" o. s. frv.

Og  athyglisvert er að sjá ummælin um "afnám regluverks í anda nýfrjálshyggju sem leiddi til fasteignabólu og skuldavafninga" eins og alveg nýja stefnu sem ESB beiti sér nú fyrir. 

Ég sé ekki betur en að þessi lýsing, sem hampað er nú á moggavef sé nákvæmlega það sem núverandi ritstjóri beitti sér fyrir á árunum eftir 2002 og leiddi til Hrunsins.

Og ekki bara það. Hann sjálfur, sem var innsti koppur í búri þeirra sem mest hefðu átt að vita þegar Hrunið dundi yfir, jós þá hundruðum milljarða af sjóðum í eigu almennings, sem geymdir voru í Seðlabankanum, til að "borga skuldir óreiðumanna" en kom síðar næstum samtímis í sjónvarp og andmælti því harðlega því sama, að "þjóðin borgaði skuldir óreiðumanna."

Ólíkindin sem við okkur blasa eru með því stærsta sem sést hefur. Helstu aðdáendur Davíðs, Yngi Hrafn og Hallur Hallsson, hafa á undanförnum árum valið Ólafi Ragnari Grímssyni hin verstu orð, svo um hreina illmælgi hefur oft á tíðum verið að ræða.

Nú bregður svo við að kúvent er hvað þetta varðar og Hallur lýsti því fjálglega í blaðagrein, að annar "hæstu turnanna" sem risu upp úr lágkúrulegri flatneskju íslenskra stjórnmála, væri einmitt þessi sami Ólafur Ragnar Grímsson ! 


mbl.is Varar Íslendinga við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrjóskast við með þokukenndum loforðum.

Framsóknarflokkurinn er furðuskepna. Í byrjun var hann frjálslyndur umbótaflokkur rétt vinstra megin við miðju í hægri-vinstri litrófi stjórnmálanna.

Eftir fimm ár verða liðin 100 ár frá stofnun hans og í þessi 100 ár hefur þessi flokkur alltaf haft eitthvað lík í lestinni, sem hefur komið í veg fyrir að hann næði þeirri stærð sem frjálslyndur miðjuflokkur á að geta náð.

Hann var ekki orðinn nema táningur þegar hann tók ástfóstri við eitthvert ólýðræðislegasta fyrirbrigði íslenskra stjórnmála, sem var afar ranglát kjördæmaskipan sem leiddi af sér alveg ótrúlegt misvægi atkvæða. 

Sem dæmi má nefna að fámennasta kjördæmið, Seyðisfjörður, með aðeins um 700 íbúa, hafði tvo þingmenn eftir kosningarnar 1949, vegna þess að auk hins kjördæmakosna þingmanns, komst annar frambjóðandi inn á þing sem uppbótarþingmaður vegna  fráleitra ákvæða þess efnis, að annað hvert uppbótarsæti féll í hlut þess frambjóðanda sem ekki hafði komist inn en hafði hæst hlutfall atkvæðanna í kjördæmi. 

Framsóknarflokkurinn hékk eins og hundur á roði á þessu óréttlæti lungann af síðustu öld og náðí sér í tvö önnur lík í lest sína, forréttindastöðu SÍS og síðan kvótakerfið.

SÍS féll fyrir tuttugu árum en síðan hefur Framsóknarflokkurinn haldið sig fast við að líma kvótakerfið við sig með öllum þess göllum.

Ein af höfuðröksemdunum fyrir því að viðhalda kvótakerfinu óbreyttu er sú, að núverandi kvótaeigendur megi alls ekki við því að missa neitt af kvóta sínum í hendur annarra.

Rekið var upp mikið ramakvein þegar strandveiðar bar á góma eða nokkur sú aðferð, sem gæti hleypt lífi í sjávarbyggðir, sem kvótakerfið hafði lagt yfir sína dauðu hönd.

Nú á að slá ryki í augu fólks með loðnum og þokukenndum yfirlýsingum um að auka nýliðun og rétta hlut deyddra sjávarbyggða án þess að nokkur tilraun sé gerð til að útskýra þessi innantómu orð nánar.

Framsóknarflokkurinn á sennilega eftir að ná hundrað ára aldri án þess að losa sig við það, sem gerir það að verkum að um þessar mundir styðja í skoðanakönnunum innan við 10% flokk, sem er hefur látið taka sig gildan sem aðili að Alþjóðasambandi frjálslyndra flokka.

Sem slíkur ætti hann að eiga möguleika á að ná miklu meira fylgi á miðju stjórnmálanna þar sem kjósendur eru flestir. En líklega verður hann enn við sama heygarðshornið þegar hann nær 100 ára aldrinum, höktandi áfram sem skugginn af því sem hann var á fyrsta áratug ævi sinnar. 

Ég hef kosið fleiri en einn flokk, fleiri en tvo og fleiri en þrjá síðan ég fékk fyrst kosningarétt í bæjarstjórnarkosningunum 1962. 

Aðeins einu sinni kaus ég Framsóknarflokkinn og sé eftir því. Það var í kosningunum 1974 þegar ég þóttist sjá að það stefndi í samstjórn Íhalds og Framsóknar og ég vildi að ekki yrði farið of geyst í að fylgja eftir undirskriftasöfnuninni "Varið land". Vildi leggja mitt af mörkum til þess að staða flokksins yrði ekki of veik í því máli í komandi stjórnarsamstarfi. 

Mér finnst leitt að hafa ekki getað kosið frjálslyndan umbótasinnaðan miðjuflokk eins og Framsóknarflokkinn ætti að vera, nema einu sinni.  En völdin, sem kjötkatlar valdanna á grunni ranglátrar kjördæmaskipunar færðu flokknum, spilltu honum svo mjög að hann hefur aldrei borið þess bætur.

 

 

 

 


mbl.is Blönduð leið í sjávarútvegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband